Hæstiréttur íslands
Mál nr. 564/2002
Lykilorð
- Fasteignaskattur
- Endurgreiðsla
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2003. |
|
Nr. 564/2002. |
Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. (Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Sandgerðisbæ (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) og gagnsök |
Fasteignaskattur. Endurgreiðsla.
Í málinu deildu FLE hf. og bæjarfélagið S um skyldu þess síðarnefnda til endurgreiðslu oftekins fasteignaskatts á árunum 1998, 1999 og 2000. Óumdeilt var að vegna mistaka hafði álagningarstofn vegna fasteignaskatts FLE verið ákvarðaður 36.8% of hár á tímabilinu 1989-2000. Byggði FLE hf. endurgreiðslukröfu sína á ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Í ljósi fyrningarákvæðis 4. gr. laganna laut krafa hans aðeins að fyrrgreindum þremur árum. Talið var að krafa um endurgreiðslu oftekinna skatta stofnist þegar ofgreiðsla á sér stað. Krafa þessi hafi því verið til þegar FLE hf. tók við öllum eignum, réttindum og skyldum FLE 1. október 2000 samkvæmt lögum nr. 76/2000, sbr. 13. gr. laganna. Töldust umrædd kröfuréttindi því hafa flust til FLE hf. og félagið því réttur aðili málsins. Var kröfu FLE hf. réttilega beint að S í samræmi við 1. gr. laga nr. 29/1995. Þar sem fasteignaskattur hafði verið ákvarðaður samkvæmt röngum álagningarstofni á árunum 1998, 1999 og 2000 bar S að endurgreiða FLE hf. hinn oftekna skatt með vöxtum í samræmi við ákvæði laga nr. 29/1995.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. desember 2002. Hann krefst þess, að stefnda verði gert að greiða sér 39.182.498 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum af tilteknum fjárhæðum frá 2. febrúar 1998 til 9. september 1999 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar 20. febrúar 2003. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda en til vara staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í báðum tilvikum í héraði og fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefst hann þess, að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar verulega en málskostnaður felldur niður.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Eins og um getur í héraðsdómi fjallar mál þetta um fasteignaskatt til gagnáfrýjanda af flugstöðvarbyggingu aðaláfrýjanda árin 1998, 1999 og 2000. Viðurkennt er, að aðaláfrýjanda hafi verið gert að greiða fasteignaskatt af flugstöðinni samkvæmt gjaldstofni, sem vegna mistaka Fasteignamats ríkisins var 36,8% of hár, en mistök þessi, sem upphaflega voru gerð við útreikning á álagningarstofni flugstöðvarinnar frá árinu 1989, komu í ljós um mitt ár 1999. Aðaláfrýjandi fór 2. september 1999 fram á leiðréttingu á þessum mistökum við Fasteignamat ríkisins, sem tók matið til endurskoðunar. Með úrskurði sínum 22. júní 2001 endurmat Fasteignamat ríkisins endurstofnverð flugstöðvarinnar afturvirkt vegna áranna 1994 til 2000 (gjaldárin 1995 til 2001). Báðir málsaðilar kærðu úrskurðinn til Yfirfasteignamatsnefndar, sem kvað upp úrskurð 30. október 2002, eftir aðalmeðferð málsins í héraði, sem fram fór 18. sama mánaðar. Úrskurður þessi hefur verið lagður fyrir Hæstarétt. Niðurstaða hans var sú, að kröfu aðaláfrýjanda um leiðréttingu á álagningarstofnunum árin 1989 til 1998 var vísað frá þar sem um væri að ræða ágreining, sem félli utan valdsviðs Fasteignamats ríkisins og Yfirfasteignamatsnefndar. Þá var ákvörðun Fasteignamats ríkisins um álagningarstofna húss og lóðar árin 1994 til 1998 felld úr gildi, þar sem lagaheimild skorti fyrir fasteignamatið til að ákvarða að eigin frumkvæði endurmat flugstöðvarinnar með afturvirkum hætti. Yfirfasteignamatsnefndin ákvað hins vegar álagningarstofn húss og lóðar flugstöðvarbyggingarinnar þann 1. desember 1999 samtals 3.650.000.000 krónur og skyldu álagningarstofnar húss og lóðar 1. desember 2000 reiknaðir samkvæmt reglum Fasteignamats ríkisins um framreikning frá 1. desember 1999.
II.
Gagnáfrýjandi krefst aðallega sýknu vegna aðildarskorts. Aðaláfrýjandi sé ekki eigandi umdeildrar kröfu. Krafan hafi ekki verið til 1. október 2000, þegar aðaláfrýjandi yfirtók Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sbr. 1. gr. laga nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hennar sé hvergi getið í lögunum eða athugasemdum með frumvarpi að lögunum, og ekki heldur í skýrslu matsnefndar, sem skipuð var samkvæmt 4. gr. laganna. Þá liggi engin gögn fyrir um hana í bókhaldi félagsins. Hafi krafan einhvern tímann verið til hefði hún aðeins átt að beinast að Fasteignamati ríkisins þar sem meint tjón aðaláfrýjanda hafi stafað af mistökum þess.
Krafa um endurgreiðslu á ofgreiddum skatti verður til þegar greitt er, og er óumdeilt að Flugstöð Leifs Eiríkssonar innti af hendi allar þær fasteignaskattsgreiðslur, sem hér um ræðir. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 76/2000 yfirtók aðaláfrýjandi Flugstöð Leifs Eiríkssonar 1. október 2000 með öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum, sem henni fylgdu. Er fallist á það með héraðsdómi, að þau kröfuréttindi, sem hér um ræðir, falli undir þessa tilgreiningu og að ósannað sé, að gert hafi verið ráð fyrir því, að þau væru undanskilin við yfirtökuna. Einnig er fallist á það með héraðsdómi, að kröfunni sé réttilega beint að gagnáfrýjanda, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Kröfu gagnáfrýjanda um sýknu vegna aðildarskorts er því hafnað.
III.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var Flugstöð Leifs Eiríkssonar metin frummati 1987 af Fasteignamati ríkisins samkvæmt þágildandi lögum nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna. Við útreikning á álagningarstofninum var ákveðið að notast við markaðsstuðul fyrir atvinnuhúsnæði í Reykjavík, sem var 1,000, í stað markaðsstuðuls fyrir atvinnuhúsnæði í Miðneshreppi, sem var 0,731. Með lögum nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga var reglum um álagningarstofn fasteigna breytt á þann veg, að stofn til álagningar fasteignaskatts á hús og mannvirki skyldi vera eins reiknaður um allt land og skyldi nota markaðsstuðul fyrir Reykjavík fyrir allar slíkar eignir á landinu. Þau mistök voru þá gerð, að markaðsstuðull flugstöðvarinnar var hækkaður aftur um sama hlutfall og annarra húsa í Miðneshreppi, sem þegar hafði verið gert árið 1987. Álagningarstofn flugstöðvarinnar var því rangt reiknaður, 36,8% of hár, og er það viðurkennt af gagnáfrýjanda og Fasteignamati ríkisins.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1995 skulu stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt, ásamt vöxtum. Aðaláfrýjandi greiddi fasteignaskatt samkvæmt röngum álagningarstofni fyrir árin 1990 til og með 2000, er ákveðið var með lögum nr. 144/2000 að stofn til álagningar fasteignaskatts skyldi aftur vera fasteignamat viðkomandi eignar. Vegna ákvæða 4. gr. laga nr. 29/1995 um fyrningu gerir aðaláfrýjandi aðeins kröfu til endurgreiðslu ofgreidds fasteignaskatts vegna áranna 1998, 1999 og 2000.
Eins og lýst er að framan felldi Yfirfasteignamatsnefnd úr gildi ákvörðun Fasteignamats ríkisins um afturvirkt endurmat álagningarstofna flugstöðvarinnar vegna gjaldáranna 1995 til 1999 og ber að endurgreiða aðaláfrýjanda 11.176.705 krónur, sem eru ofgreiddir fasteignaskattar vegna ársins 1998, og 12.663.602 krónur vegna ársins 1999. Yfirfasteignamatsnefnd ákvað álagningarstofn ársins 2000 vegna húss og lóðar 3.650.000.000 krónur. Leiðréttur álagningarstofn samkvæmt kröfu aðaláfrýjanda vegna þess árs er 3.496.219.000 krónur og krafa hans um endurgreiðslu er 15.342.191 króna. Samkvæmt endurmati Yfirfasteignamatsnefndar er ofgreiddur fasteignaskattur vegna ársins 2000 13.525.578 krónur. Endurmat þetta var gert í tilefni fyrrgreindrar kröfu aðaláfrýjanda um leiðréttingu 2. september 1999, og verður endurgreiðsla til hans miðuð við þann gjaldstofn.
Samkvæmt framansögðu ber gagnáfrýjanda að endurgreiða aðaláfrýjanda 37.365.885 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Sandgerðisbær, greiði aðaláfrýjanda, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., 37.365.885 krónur með 4,85% ársvöxtum af 1.596.673 krónum frá 2. febrúar 1998 til 3. mars sama ár en af 3.193.345 krónum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, með 4,75% ársvöxtum frá þeim degi til 2. apríl sama ár, af 4.790.017 krónum frá þeim degi til 8. maí sama ár, af 6.386.689 krónum frá þeim degi til 2. júní sama ár, af 7.983.361 krónu frá þeim degi til 30. sama mánaðar, af 9.580.033 krónum frá þeim degi til 6. ágúst sama ár, af 11.176.705 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, með 4,25% ársvöxtum frá þeim degi til 21. desember sama ár, með 4% ársvöxtum frá þeim degi til 5. febrúar 1999, af 13.254.506 krónum frá þeim degi til 9. mars sama ár, af 14.680.237 krónum frá þeim degi til 10. sama mánaðar, af 14.801.779 krónum frá þeim degi til 9. apríl sama ár, af 15.877.802 krónum frá þeim degi til 12. sama mánaðar, af 16.609.485 krónum frá þeim degi til 4. maí sama ár, af 18.417.191 krónu frá þeim degi til 2. júní sama ár, af 20.224.896 krónum frá þeim degi til 2. júlí sama ár, af 22.032.602 krónum frá þeim degi til 3. ágúst sama ár og af 23.840.307 krónum frá þeim degi til 9. september sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 4. febrúar 2000, af 25.772.532 krónum frá þeim degi til 8. mars sama ár, af 27.704.757 krónum frá þeim degi til 4. apríl sama ár, af 29.636.982 krónum frá þeim degi til 3. maí sama ár, af 31.569.207 krónum frá þeim degi til 7. júní sama ár, af 33.501.432 krónum frá þeim degi til 5. júlí sama ár, af 35.433.657 krónum frá þeim degi til 4. ágúst sama ár, af 37.365.885 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 1.200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. f.m., er höfðað 31. janúar 2002.
Í málinu krefst stefnandi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., þess að stefnda, Sandgerðisbæ, verði gert að greiða stefnanda 39.182.498 krónur með 4,85% ársvöxtum af 1.596.673 krónum frá 2. febrúar 1998 til 3. mars sama árs, af 3.193.345 krónum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, með 4,75% ársvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 2. apríl sama árs, en af 4.790.017 krónum frá þeim degi til 8. maí sama árs, en af 6.386.689 krónum frá þeim degi til 2. júní sama árs, en af 7.983.361 krónu frá þeim degi til 30. júní sama árs, af 9.580.033 krónum frá þeim degi til 6. ágúst sama árs, af 11.176.705 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, en með 4,25% ársvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 21. desember sama árs, en með 4,00% ársvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 5. febrúar 1999, en af 13.254.506 krónum frá þeim degi til 9. mars sama árs, af 14.680.237 krónum frá þeim degi til 10. mars sama mánaðar, en af 14.801.779 krónum frá þeim degi til 9. apríl sama árs, en af 15.877.802 krónum frá þeim degi til 12. sama mánaðar, en af 16.609.485 krónum frá þeim degi til 4. maí sama árs, en af 18.417.191 krónu frá þeim degi til 2. júní sama árs, en af 20.224.896 krónum frá þ.d. til 2. júlí sama árs, af 22.032.602 krónum frá þeim degi til 3. ágúst sama árs, af 23.840.307 krónum frá þeim degi til 9. september sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 4. febrúar 2000, en af kr. 26.032.050 krónum frá þeim degi til 8. mars sama árs, en af 28.223.791 krónu frá þeim degi til 4. apríl sama árs, en af kr. 30.415.532 krónum frá þeim degi til 3. maí sama árs, en af 32.607.274 krónum frá þeim degi til 7. júní sama árs, en af 34.799.015 krónum frá þeim degi til 5. júlí sama árs, en af 36.990.757 krónum frá þeim degi til 4. ágúst sama árs, en af 39.182.498 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar.
I.
Mál þetta tekur til greiðslu á fasteignaskatti til stefnda af flugstöðvarbyggingu stefnanda á Keflavíkurflugvelli árin 1998, 1999 og 2000. Er á því byggt af hálfu stefnanda að af ástæðum sem síðar verður gerð grein fyrir hafi stefndi gert Flugstöð Leifs Eiríkssonar að greiða umtalsvert hærri fasteignaskatt af flugstöðinni en stefndi hafi átt lögmætt tilkall til. Krefst stefnandi í máli þessu endurgreiðslu þess fjár sem ofgreitt hefur verið að mati félagsins frá 2. febrúar 1998 til 4. ágúst 2000. Nemur endurkrafan stefnufjárhæð málsins og er hún sett fram á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
Að því er málsaðild varðar vísar stefnandi til þess að samkvæmt ákvæðum laga nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi hlutafélagið Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið stofnað í ágúst 2000. Í samræmi við 13. gr. laganna hafi félagið yfirtekið stofnunina Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 1. október 2000 með öllum eignum, réttindum og skyldum svo sem nánar sé lýst í greininni. Hafi stofnunin jafnframt verið lögð niður frá og með sama degi. Endurgreiðslukrafa sú sem mál þetta varðar hafi orðið til fyrir 1. október 2000, en þann dag runnið til stefnanda ásamt öðrum eignum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
II.
Í stefnu er því haldið fram að rekja megi þá meintu ofgreiðslu á fasteignaskatti sem hér um ræðir til mistaka Fasteignamats ríkisins við útreikning á álagningarstofni samkvæmt 3. gr. þágildandi laga nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga. Þessi mistök megi skýra þannig að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi verið metin frummati af Fasteignamati ríkisins á árinu 1987 samkvæmt þágildandi lögum nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna. Við útreikning á fasteignamati flugstöðvarinnar hafi verið ákveðið að notast við markaðsstuðul fyrir atvinnuhúsnæði í Reykjavík, en ekki sambærilegan stuðul fyrir slíkt húsnæði í Sandgerði. Markaðsstuðull fyrir atvinnuhúsnæði í Sandgerði hafi verið 0,731 en 1 fyrir atvinnuhúsnæði í Reykjavík. Þar sem Fasteignamat ríkisins hafi ákveðið að markaðsstuðull atvinnuhúsnæðis í Reykjavík skyldi gilda fyrir flugstöðina hafi grunnmat hennar, eða endurstofnverð (EST), hækkað um sem nam mismun þessara markasstuðla eða úr 1.700.000.000 krónum í 2.325.581.395 krónur, sem þá hafi verið talið afskrifað endurstofnverð (AEST) eignarinnar og jafnframt fasteignamat hennar. Fasteignamat þannig fundið hafi síðan myndað álagningarstofn fasteignaskatts á þessum tíma, sbr. þágildandi lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 73/1980. Við útreikning á fasteignamati flugstöðvarinnar hafi þannig í öndverðu verið stuðst við markaðsstuðul fasteigna í Reykjavík. Með lögum nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga hafi reglum um álagningu fasteignaskatts verið breytt, þannig að í stað þess að fasteignaskattur væri reiknaður af fasteignamati viðkomandi fasteignar hafi Fasteignamat ríkisins átt að reikna út sérstakan stofn til álagningar skattsins. Sú breyting sem orðið hafi vegna þessa hafi falist í því að hætt hafi verið að taka tillit til markaðsverðs fasteigna í hverju sveitarfélagi fyrir sig en stofn til álagningar fasteignaskatts þess í stað ákvarðaður með sama hætti fyrir landið allt. Til að ná því markmiði hafi verið kveðið á um það í 2. mgr. 3. gr. laganna að við útreikning á álagningarstofni fasteignaskatts skyldi nota markaðsstuðul fasteigna í Reykjavík fyrir öll hús og mannvirki hér á landi. Vegna þessarar breytingar hafi þurft að reikna út nýjan álagningarstofn vegna húsa og mannvirkja utan Reykjavíkur. Samkvæmt 6. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1989 hafi það verið í verkahring Fasteignamats ríkisins að annast útreikning á þessum nýja álagningarstofni fasteignaskatts og láta sveitarfélögum í té álagningarstofnsskrá fyrir 1. desember ár hvert. Í samræmi við þetta hafi Fasteignamat ríkisins reiknað nýjan álagningarstofn fyrir atvinnuhúsnæði til álagningar fasteignaskatts fyrir árið 1990. Þegar álagningarstofn fyrir flugstöð stefnanda hafi verið ákvarðaður hafi hann vegna mistaka starfsmanna Fasteignamats ríkisins orðið umtalsvert hærri en lög stóðu til. Mistökin hafi nánar tiltekið verið fólgin í því að álagningarstofninn hafi verið fundinn með því að hækka markaðsstuðul flugstöðvarinnar um sama hlutfall og markaðsstuðul annarra húsa og mannvirkja í Sandgerðisbæ. Fasteignamatið hafi á þessum tíma réttilega hækkað markaðsstuðul húsa og mannvirkja í Sandgerðisbæ, annarra en flugstöðvar stefnanda, úr 0,731 í 1. Hlutfallslega hafa sama hækkun ranglega verið lögð til grundvallar þegar álagningarstofn flugstöðvarinnar var ákvarðaður. Hafi gleymst að hafa það í huga, að við útreikning á fasteignamati flugstöðvarinnar á sínum tíma hefði verið notast við markaðsstuðul fasteigna í Reykjavík en ekki markaðsstuðul fyrir slíkt húsnæði í Sandgerði. Af þessum sökum sé ljóst og reyndar óumdeilt að álagningarstofn fasteignaskatts fyrir flugstöðina hafi orðið 36,8% of hár. Hafi álagningarstofninn samkvæmt þessu verið rangur og ekki í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 91/1989, sbr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, allt þar til sú aðferð við útreikning á álagningarstofni sem lögin gerðu ráð fyrir hafi verið felld niður með lögum nr. 144/2000.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að forsvarsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafi frá upphafi gert athugasemdir við skattlagningu stefnda og greitt fasteignaskatt til sveitarfélagsins með fyrirvara, sem bæði hafi lotið að greiðsluskyldu og fjárhæð. Fyrirvari um greiðsluskyldu hafi verið byggður á því sjónarmiði að fasteignaskatti sé ætlað að standa undir þjónustu sveitarfélags við eigendur fasteigna, en að því er flugstöðina varðar hafi stefndi aldrei innt þá þjónustu af hendi. Þá hafi verið gerður fyrirvari um fjárhæð skattsins af sömu ástæðum, en ekki síður vegna þess að forsvarsmenn flugstöðvarinnar hafi löngum undrast hinn háa álagningarstofn fasteignaskatts. Þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir upplýsingum varðandi þessi atriði hjá Fasteignamati ríkisins hafi ekki orðið upplýst um þau mistök stofnunarinnar sem að framan er lýst fyrr en við úttekt Stefáns Ingólfssonar verkfræðings, sem skilað hafi álitsgerð um málið 20. júlí 1999. Með bréfi 2. september 1999 hafi þáverandi forstjóri flugstöðvarinnar sent Fasteignamati ríkisins álitsgerðina með beiðni um leiðréttingu á þeim mistökum við útreikning á álagningarstofni flugstöðvarinnar sem gerð sé grein fyrir í álitsgerðinni. Viðbrögð stofnunarinnar hafi orðið þau að taka til endurskoðunar fasteignamat flugstöðvarinnar með vísan til 11. gr. laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna og spyrða saman beiðni stefnanda um leiðréttingu á reiknivillu og endurskoðun á fasteignamati. Hafi stefnandi talið þessi vinnubrögð óheppileg, enda varla við því að búast að hlutlaust endurmat fáist undir slíkum kringumstæðum. Er í því sambandi á það bent að því hafi verið haldið fram að Fasteignamat ríkisins kunni að bera skaðabótaábyrgð á því tjóni sem reiknivilla stofnunarinnar kunni að valda stefnda. Þrátt fyrir að starfsmenn Fasteignamatsins hafi fljótlega viðurkennt umrædd mistök munnlega hafi það ekki verið fyrr en með úrskurði stofnunarinnar 22. júní 2001 sem formleg viðurkenning hafi legið fyrir. Í úrskurðinum birtist að öðru leyti tilraun stofnunarinnar til að draga úr því tjóni sem mistök hennar hafi valdið. Hafi það verið gert með því að endurmeta endurstofnverð flugstöðvarinnar afturvirkt og taka inn í það sérstakt lóðarmat. Stefnandi hafi mótmælt þessum vinnubrögðum og kært úrskurðinn til yfirfasteignamatsnefndar 20. september 2001, sem enn hefur ekki leitt málið til lykta. Það mál geti hins vegar ekki haft þýðingu þegar taka skuli afstöðu til þeirra endurkröfu stefnanda sem höfð sé uppi í þessu dómsmáli, enda séu kröfur hans um leiðréttingu á greiddum fasteignaskatti alls óskyldar matsmáli því sem Fasteignamat ríkisins stofnaði til á grundvelli 11. gr. þágildandi laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna. Framkvæmd laga um mat fasteigna sé í höndum Fasteignamats ríkisins og viðkomandi sveitarfélags og hafi þessir aðilar fullt forræði á því hvernig þeir hagi fasteignamati og að hve miklu leyti upplýsingar séu skráðar við matið sjálft. Það hafi því verið á forræði þessara aðila að ákveða hvort frummatið frá 1987 skyldi teljast endanlegt eða ekki og hvort ástæða væri til að skipta matinu í fasteigna- og lóðarmat.
Í stefnu er því lýst að þegar á árinu 1993 hafi forsvarsmenn flugstöðvarinnar hafið viðræður við stefnda um niðurfellingu eða lækkun á fasteignaskatti þar sem sveitarfélagið sinnti engri þjónustu fyrir flugstöðina sem réttlætt gæti hina háu gjaldtöku. Engin sameiginleg niðurstaða hafi fengist í þær viðræður, en stefndi hafi komið til móts við sjónarmið gjaldandans með því að veita einhvern afslátt frá árinu 1994 til að mæta beinum útlögðum kostnaði sem hann hafi haft af þeim framkvæmdum sem falli undir verksvið stefnda að lögum og fasteignaskattinum sé ætlað að standa undir. Síðustu ár hafi stefndi einhliða miðað afsláttinn við tvöfaldan almennan afslátt af fasteignagjaldinu, auk þess sem samið hefur verið um greiðsludreifingu, þó þannig að miðað hafi verið við að fasteignagjaldið væri að fullu greitt á fyrri hluta hvers árs. Almennur afsláttur hafi verið 7,5% árið 1998, en lækkað í 6,5% árið 1999 og verið óbreyttur árið 2000. Afsláttur vegna flugstöðvarinnar hafi því verið 15% árið 1998, en 13% árin 1999 og 2000. Um rökin að baki afslætti stefnda vísar stefnandi til kæru lögmanns stefnda til yfirfasteignamatsnefndar 21. september 2001, en þar segir svo: „Ástæða þessa afsláttar var sú að Flugstöðin kaus heldur að nýta eigin aðstæður, tæki og tól, til ýmissa framkvæmda sem aftur sparaði bæjarfélaginu útgjöld og var Flugstöðin látin njóta þess þó skatturinn sé ekki þjónustugjald.”
Álagning og greiðslur á fasteignaskatti árin 1998, 1999 og 2000, sem og krafa stefnanda vegna ofgreiðslu, sundurliðast nánar svo:
|
Gjalddagi |
Álagning |
Afsláttur |
Greitt |
Greiðsludagur |
Ofgreitt |
|
1998 |
|
|
|
|
|
|
15.jan |
6.982.890 |
1.047.433 |
5.935.457 |
2.feb |
1.596.673 |
|
15.feb |
6.982.888 |
1.047.433 |
5.935.455 |
3.mar |
1.596.672 |
|
15.mar |
6.982.888 |
1.047.433 |
5.935.455 |
2.apr |
1.596.672 |
|
15.apr |
6.982.888 |
1.047.433 |
5.935.455 |
8.maí |
1.596.672 |
|
15.maí |
6.982.888 |
1.047.433 |
5.935.455 |
2.jún |
1.596.672 |
|
15.jún |
6.982.888 |
1.047.433 |
5.935.455 |
30.jún |
1.596.672 |
|
15.júl |
6.982.888 |
1.047.434 |
5.935.454 |
6.ágú |
1.596.672 |
|
|
48.880.218 |
7.332.032 |
41.548.186 |
|
11.176.705 |
|
1999 |
|
|
|
|
|
|
15.jan |
7.724.080 |
80 |
7.724.000 |
5.feb |
2.077.801 |
|
15.feb |
7.724.080 |
1.972.265 |
5.300.000 |
9.mar |
1.425.731 |
|
|
|
|
451.818 |
10.mar |
121.542 |
|
15.mar |
7.724.080 |
1.004.130 |
4.000.000 |
9.apr |
1.076.023 |
|
|
|
|
2.719.950 |
12.apr |
731.682 |
|
15.apr |
7.724.080 |
1.004.130 |
6.719.950 |
4.maí |
1.807.706 |
|
15.maí |
7.724.080 |
1.004.130 |
6.719.950 |
2.jún |
1.807.706 |
|
15.jún |
7.724.080 |
1.004.130 |
6.719.950 |
2.júl |
1.807.706 |
|
15.júl |
7.724.080 |
1.004.130 |
6.719.945 |
3.ágú |
1.807.705 |
|
|
54.068.560 |
6.992.997 |
47.075.563 |
|
12.663.602 |
|
2000 |
|
|
|
|
|
|
15.jan |
9.365.018 |
1.217.452 |
8.147.566 |
4.feb |
2.191.743 |
|
15.feb |
9.365.012 |
1.217.452 |
8.147.560 |
8.mar |
2.191.741 |
|
15.mar |
9.365.012 |
1.217.452 |
8.147.560 |
4.apr |
2.191.741 |
|
15.apr |
9.365.012 |
1.217.451 |
8.147.561 |
3.maí |
2.191.742 |
|
15.maí |
9.365.012 |
1.217.451 |
8.147.561 |
7.jún |
2.191.742 |
|
15.jún |
9.365.012 |
1.217.452 |
8.147.560 |
5.júl |
2.191.741 |
|
15.júl |
9.365.012 |
1.217.452 |
8.147.560 |
4.ágú |
2.191.741 |
|
|
65.555.090 |
8.522.162 |
57.032.928 |
|
15.342.191 |
Þar sem viðræður stefnanda og stefnda um endurgreiðslu á hinum ofgreidda fasteignaskatti hafi ekki skilað árangri telur stefnandi að sér sé nauðugur sá kostur að höfða þetta mál til að koma í veg fyrir frekari fyrningu á ofgreiddum skatti, en ofgreiddur fasteignaskattur áranna 1990 til og með 1997 sé fyrndur.
Í greinargerð eru gerðar nokkrar athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda. Í fyrsta lagi er í því sambandi tiltekið að sá fyrirvari sem forsvarsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafi gert við álagningu fasteignaskatts og greiðslu hans hafi aldrei beinst að því álitaefni sem sé til umfjöllunar í þessu máli. Þá er í öðru lagi mótmælt staðhæfingum stefnanda sem lúta að því að kröfur hans um leiðréttingu á greiddum fasteignaskatti séu alls óskyldar því matsmáli sem Fasteignamat ríkisins hafi stofnað til varðandi flugstöðina. Þessar röksemdir stefnanda eigi ekki heima í málavaxtalýsingu heldur sé hér um málsástæðu að ræða sem mótmælt sé af hálfu stefnda. Í þriðja lagi séu röksemdir stefnanda um forræði Fasteignamats ríkisins og stefnda á því hvort mat teljist endanlegt eða ekki hluti málsástæðna stefnanda og þeim mótmælt sem réttri málavaxtalýsingu. Í fjórða lagi gerir stefndi athugasemd við þá lýsingu stefnanda sem lýtur að því að stefndi hafi ekki sinnt þjónustu við flugstöðina sem fasteignaskatti hafi verið ætlað að standa undir. Staðhæfingar stefnanda sem að þessu lúta hafi þó enga þýðingu við úrlausn málsins. Loks gerir stefndi athugasemd við þá sundurliðun á álagningu, afslætti, greiðslum og meintri ofgreiðslu sem stefnandi setur fram í stefnu. Sé þessi tafla byggð á forsendum stefnanda og málsástæðum hans. Geti „stefndi alls ekki fallist á þetta sem málavaxtalýsingu og [mótmæli] þessu einnig sem málsástæðu”.
III.
Kröfu sína um endurgreiðslu á ofgreiddum fasteignaskatti setur stefnandi svo sem áður greinir fram á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Í 1. mgr. 1. gr. laganna sé með skýrum hætti kveðið á um skyldu stjórnvalda sem innheimta skatta og gjöld að endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt. Ákvæðið tryggi skilyrðislausa endurgreiðslu ofgreiddra skatta án úrlausnar um sök eða ástæður ofgreiðslunnar, enda sé endurgreiðsluskyldan ótvíræð þó svo að hún væri alfarið þeim að kenna sem ofgreiddi. Þá tryggi ákvæðið rétt til endurgreiðslu frá þeim aðila sem innheimti ofgreidda skatta óháð því hvort hann eigi bótakröfu á hendur öðrum aðila eða stjórnvaldi vegna oftöku viðkomandi skatts. Þannig sé krafa stefnanda á hendur stefnda algerlega óháð mögulegum kröfum stefnda á hendur Fasteignamati ríkisins vegna mistaka þess síðarnefnda við útreikning á álagningarstofni fasteignaskatts, andstætt því sem stefndi hafi haldið fram, en stefndi hafi talið að stefnandi ætti að beina kröfum sínum beint að Fasteignamati ríkisins. Þá sé endurgreiðsluréttur stefnanda algerlega óháður þeirri ákvörðun Fasteignamats ríkisins að endurskoða fasteignamat flugstöðvarinnar og því kærumáli sem nú er rekið fyrir yfirfasteignamatsnefnd vegna þeirrar endurskoðunar.
Svo sem fram er komið er á því byggt af hálfu stefnanda að óumdeilt sé að vegna reikniskekkju hafi álagður fasteignaskattur á Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið 36,8% of hár árin 1990 til og með 2000, eða um 11 ára skeið. Vegna ákvæða 4. gr. laga nr. 29/1995 um fyrningu á endurgreiðslurétti á ofgreiddum sköttum eigi stefnandi aðeins kröfu til endurgreiðslu frá árinu 1998, eða vegna þriggja ára af þeim 11 árum sem ofgreiðslan átti sér stað. Því sé ljóst að óbætt tap stefnanda af reikniskekkju Fasteignamats ríkisins sé verulegt.
Um sundurliðun á kröfu sinni vísar stefnandi til framangreindrar töflu. Við útreikning á ofgreiddum skatti miðar stefnandi við hlutfall af greiddum skatti, þannig að hver greiðsla hafi verið 36,8% of há vegna reiknivillu fasteignamatsins. Krafa stefnanda sé reiknuð af greiddum fasteignaskatti en ekki álögðum, en með þessum hætti sé afslátturinn einnig lækkaður um sama hlutfall og álagningin. Þetta geri stefnanda þrátt fyrir að hann telji sér það óskylt þar sem veittur afsláttur séu bætur til handa stefnanda til að mæta útlögðum kostnaði af því að annast sjálfur um þjónustu sem stefndi eigi samkvæmt lögum að veita stefnanda.
Stefnandi segir kröfu sína um vexti fram til 9. september 1999 vera í samræmi við 2. gr. laga nr. 29/1995. Frá þeim degi krefst hann dráttarvaxta til greiðsludags. Er um upphafstíma dráttarvaxta vísað til þess að með bréfi Fasteignamats ríkisins 9. september 1999 hafi stefndi fengið í hendur fyrrnefnda álitsgerð Stefáns Ingólfssonar verkfræðings og bréf þáverandi forstjóra flugstöðvarinnar til stofnunarinnar þar sem farið hafi verið fram á leiðréttingu á grundvelli hennar. Bendir stefnandi einnig á að eftir að stefndi var upplýstur um nefnd mistök við álagningu fasteignaskatts undanfarin ár hafi honum borið skylda til að hafa frumkvæði að endurgreiðslu oftekinna skatta, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995, og til þess að haga álagningu vegna ársins 2000 í samræmi við framkomnar upplýsingar. Það hafi stefndi hins vegar ekki gert, en krafið stefnanda um fasteignaskatt á árinu 2000 á grundvelli álagningarstofns sem vitað hafi verið að væri rangt reiknaður. Við þessar aðstæður beri að endurgreiða ofgreiddan skatt frá greiðsludegi með dráttarvöxtum, sbr. H.1999.4316.
IV.
Kröfu sína um sýknu byggir stefndi aðallega á því að stefnandi eigi ekki þá kröfu sem hann hefur uppi í málinu. Um aðildarskort stefnanda samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé því að ræða, en hann leiði til sýknu. Hin meinta krafa hafi orðið til á þeim tíma þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var ríkisstofnun. Stofnað hafi verið hlutafélag um Flugstöð Leifs Eiríkssonar með lögum nr. 76/2000. Samkvæmt 1. gr. þeirra skyldi ríkisstjórnin leggja flugstöðina sjálfa ásamt öllu því sem henni fylgdi, eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum, til hins nýja félags. Samkvæmt 13. gr. laganna hafi hlutafélagið átt að yfirtaka stofnunina Flugstöð Leifs Eiríkssonar með öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum sem henni fylgdu þann 1. október 2000. Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2000 sé tekið fram að helsta eign félagsins verði flugstöðvar-byggingin sjálf og önnur mannvirki og búnaður sem tilheyri henni ásamt lóðarréttindum. Meginþáttur reksturs flugstöðvarinnar sé útleiga á verslunar- og þjónusturýmum og yfirtaki félagið gildandi leigusamninga og réttindi og skyldur stofnunarinnar samkvæmt þeim. Einnig sé sérstaklega tekið fram að flugstöðin skuldi um 4,4 milljarða króna vegna byggingarkostnaðar flugstöðvarinnar og yfirtaki félagið þá skuld. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins sé sérstaklega tekið fram hvaða sérstöku skuldbindingar félagið taki á sig varðandi annars vegar alþjóðlegar skuldbindingar sem lúta að flugmálum og hins vegar skuldbindingar sem lúta að varnarliðinu. Stefndi telur að þegar lög nr. 76/2000 eru skoðuð ásamt athugasemdum megi glögglega sjá að hvergi sé gert ráð fyrir því að stofnunin hafi átt kröfu á hendur stefnda. Í sérstöku fylgiskjali með frumvarpi til laganna sé rekstrar- og fjárhagsáætlun flugstöðvarinnar fyrir árin 2001 til 2005. Meðal forsendna við áætlunargerðina hafi verið að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli yrðu sameinaðar og þeim breytt í hlutafélag í lok árs 2000. Í skýringum við liðinn fasteignaskattar í áætluðum rekstrarreikningi sé tekið fram að álagning fasteignaskatta sé miðuð við endurstofnverð, sem birt sé á álagningarseðli fasteignaskatta Sandgerðisbæjar. Hafi einhver vafi verið um það á þessum tíma að greiða bæri þá fasteignaskatta sem stefndi krafði Flugstöð Leifs Eiríkssonar um hefði að mati stefnda verið eðlilegast að gerð yrði grein fyrir því í þessari áætlun, ekki hvað síst í ljósi þeirrar háu kröfu sem stefnandi telur sig eiga á hendur stefnda. Þá sé ekki heldur minnst á tilvist þessarar kröfu í skýrslu sem sérstök matsnefnd hafi skilað 31. júlí 2000. Þó sé í skýrslunni sérstaklega fjallað um fasteignaskatt og meðal annars tekið fram að hann reiknist 1,5% af endurstofnverði.
Með vísan til framangreinds er að mati stefnda ljóst að fjárkrafa á hendur honum vegna ofgreiddra fasteignaskatta af Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi ekki orðið til á þeim tíma þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var opinber stofnun og því síður að hún hafi flust yfir til stefnanda við stofnun hlutafélags um flugstöðina 1. október 2000. Af þessari aðstöðu og 16. gr. laga um meðferð einkamála leiði að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Þá sé ennfremur fyrir hendi sýknuástæða vegna aðildarskorts þótt litið yrði svo á að krafa stefnanda hafi stofnast. Er þá á því byggt af hálfu stefnda að meint tjón megi rekja til mistaka Fasteignamats ríkisins. Kröfunni hafi þá átt að beina að þeirri stofnun. Þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi verið ríkisstofnun á þeim tíma þegar krafan á að hafa stofnast sé ljóst að kröfuhafi og skuldari hafi verið sá sama, það er ríkissjóður. Hefði krafan þá fallið niður á þessum tíma þegar af þessum sökum.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda um skort á tilvist kröfu stefnanda lítur stefndi svo á að það hljóti að vera skilyrði þess að unnt sé að beita 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á, að óumdeilanlega sé um að ræða ofgreidda skatta eða gjöld sem viðkomandi stjórnvald hafi oftekið. Stefndi telur svo ekki vera í þessu máli, enda séu til meðferðar nú hjá yfirfasteignamatsnefnd kærur stefnanda og stefnda vegna úrskurðar Fasteignamats ríkisins frá 22. júní 2001 vegna deilna um fasteignamat á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Stefnandi hafi óskað eftir því við Fasteignamat ríkisins að álagningarstofn flugstöðvarinnar yrði leiðréttur aftur til ársins 1989 vegna þess að hann hafi verið of hár. Í úrskurði stofnunarinnar komi fram að ekki sé hægt að leiða í ljós að greiddur hafi verið of hár fasteignaskattur á tímabilinu nema að réttur álagningarstofn verði fundinn. Þar sem ekki liggi ljóst fyrir að stefnandi hafi ofgreitt fasteignaskatta á þessu tímabili, vegna þess að annar eða nýr álagningarstofn liggur ekki enn fyrir, telur stefndi stefnanda ekki eiga kröfu um endurgreiðslu frá stefnda á grundvelli laga nr. 29/1995. Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Þá færir stefnandi þau rök fyrir sýknukröfu sinni að við álagningu fasteignaskatts af flugstöðinni hafi stefndi stuðst við ákvörðun sem tekin hafi verið af öðru stjórnvaldi lögum samkvæmt og hann sé bundinn af. Ákvörðun stefnda um álagningu fasteignaskatta byggist ávallt á fasteignamati frá Fasteignamati ríkisins á hverjum tíma og ákvörðun þess um álagningarstofn. Mistök kunni að hafa átt sér stað hjá stofnuninni við matið og ákvörðun um álagningarstofn, en stefndi hafi lögum samkvæmt átt að innheimta fasteignaskatta eftir þessari ákvörðun, sem tekin hafi verið 31. desember ár hvert. Fasteignamat ríkisins sé stjórnvald sem annist mat fasteigna samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna (áður lög nr. 94/1976). Samkvæmt 31. gr. þeirra laga geti aðili sem verulega hagsmuni getur átt í matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr. laganna krafist nýs úrskurðar stofnunarinnar um matið. Matsverð sé skráð í Landskrá fasteigna og gildi með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið, sbr. 32. gr. laganna, þar til því er hrundið með nýju mati eða yfirmati. Sömu reglur hafi gilt hvað þetta varðar í eldri lögum. Hafi stefnandi samkvæmt þessu átt að beina kröfu að Fasteignamati ríkisins um að flugstöðin yrði tekin til mats að nýju. Samkvæmt þessu sé stefndi ekki réttur aðili fyrir stefnanda að beina kröfum sínum að hvað varðar rangt fasteignamat eða rangan álagningarstofn vegna flugstöðvarinnar. Stefnda hafi borið að innheimta fasteignaskatta samkvæmt 3. gr. laga um tekjustofn sveitarfélaga nr. 4/1995, eftir þeirri ákvörðun sem Fasteignamat ríkisins tók um fasteignamat fasteigna í Sandgerðisbæ og álagningarstofn, þar með talið vegna flugstöðvarinnar, og hafi stefndi hvorki haft vald né forsendur til þess að gera breytingar á þessum ákvörðunum stofnunarinnar. Hafi stefnandi ekki viljað una þessari ákvörðun Fasteignamatsins um mat á fasteign hans hafi honum verið fær sú leið að kæra ákvörðunina innan þriggja mánaða til æðra stjórnvalds, í þessu tilviki fjármálaráðuneytis, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi hann ekki gert. Verði hann sjálfur að bera hallann af því. Stefndi eigi hins vegar að geta treyst upplýsingum þessum um álagningarstofn frá Fasteignamati ríkisins og hafi hann engin mistök gert sjálfur í þessum efnum sem leitt geti til greiðsluskyldu hans gagnvart stefnanda nú.
Verði stefndi dæmdur til greiðslu á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eða á öðrum grundvelli, krefst hann þess að krafa stefnanda verði lækkuð til muna. Í því sambandi verði í fyrsta lagi að hafa í huga að stefndi verði við álagningu gjalda á íbúa og lögaðila innan sveitarfélagsins að tryggja það að tekjur þess nægi til að mæta útgjöldum eins og þau eru ákveðin á hverjum tíma. Álagningunni sé settur ákveðinn rammi í lögum um tekjustofn sveitarfélaga nr. 4/1995. Stefndi hafi ávallt verið vel innan þess ramma við álagningu fasteignaskatts af Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa verði í huga hvað þetta varðar að flugstöðvarbyggingin sé stór hluti af „heildarfasteignamassa” sveitarfélagsins, eða um það bil 40%. Af þessu leiði að hafi of hár skattur verið greiddur, eins og haldið sé fram af hálfu stefnanda, hafi það ekki verið stefndi sem naut góðs af því heldur íbúar og sveitarfélagsins og þeir sem stunda atvinnurekstur þar. Hefði eigandi flugstöðvarinnar greitt minna en hann gerði í skatta og gjöld til sveitarfélagsins hefði mismuninum með álagningu verið dreift á alla íbúa og rekstraraðila í sveitarfélaginu, þar á meðal hann sjálfan. Stefndi hefði þá einnig getað lagt hærri fasteignaskatt á Flugstöð Leifs Eiríkssonar án þess að fara út fyrir þann ramma sem honum hafi á þessum tíma verið settur með lögum nr. 4/1995. Sé eðli máls samkvæmt ekki í ljós leitt hver álagning á flugstöðina hefði orðið miðað við þær forsendur og hvort eigandi hennar hefði, að teknu tilliti til þessa, greitt lægri skatta og gjöld en raun varð á. Sé því ljóst að stefnandi geti í öllu falli ekki átt þá endurkröfu á hendur stefnda sem hann hér hefur uppi.
Varakrafa stefnda er að auki studd þeim rökum að afsláttur sá, sem stefndi hefur veitt við innheimtu fasteignaskatta af flugstöðinni, eigi að koma til skuldajafnaðar á móti kröfu stefnanda, enda líti stefndi svo á að forsendur hans fyrir veitingu afsláttarins séu fallnar niður verði það niðurstaða dómsins að stefnandi eigi endurkröfu á hendur stefnda. Eigi stefndi þá kröfu á hendur stefnanda um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem afslættinum nam. Stefndi hafi veitt ríflegan afslátt og hafi sá afsláttur verið metinn með tilliti til fjárhæðar álagningarinnar og fjárþarfar sveitarfélagsins. Megi ljóst vera að hefði Flugstöð Leifs Eiríkssonar greitt mun lægri fjárhæð í fasteignaskatta en raun sé á hefðu forsendur fyrir afslætti verið allt aðrar.
V.
Hinn 1. október 2000 tóku gildi lög nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í samræmi við 13. gr. laganna og heimild í 1. gr. þeirra yfirtók Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. þann sama dag stofnunina Flugstöð Leifs Eiríkssonar, það er flugstöðina sjálfa ásamt öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingu sem henni fylgdu. Verði á annað borð litið svo á að sú endurkrafa, sem stefnandi hefur uppi í málinu, sé fyrir hendi og jafnframt út frá því gengið að hún hafi að fullu stofnast fyrir greint tímamark hefði hún talist til réttinda sem þá tilheyrðu Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þær eignir og þau réttindi sem stefnandi yfirtók frá og með 1. október 2000 á grundvelli laga nr. 76/2000 eru eðli máls samkvæmt tilgreind þar með almennum orðum. Lítur dómurinn svo á að þau kröfuréttindi sem hér um ræðir myndu fullkomlega falla undir þessa tilgreiningu. Þá fær dómurinn ekki séð að önnur lög stæðu þessari skýringu í vegi og ekkert hefur komið fram við meðferð málsins sem virt verður á þann veg að gert hafi verið ráð fyrir því í aðdraganda þeirrar lagasetningar sem hér um ræðir að réttindi af þessu tagi væru undanskilin við yfirtöku hins nýja félags. Kröfu sinni um endurgreiðslu beinir stefnandi að sveitarfélaginu sem innheimti þann skatt sem félagið telur ofgreiddan og er hún byggð á lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Að framangreindu virtu verður ekki á það fallist með stefnda að stefnandi geti ekki átt aðild að þeirri kröfu sem hann hefur uppi í málinu og að henni sé í öllu falli ranglega beint að stefnda. Krafa stefnda um sýknu sökum aðildarskorts nær því ekki fram að ganga.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 skulu stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt. Að því er fasteignaskatt varðar stofnast þessi skylda ljóslega ef greiðsla hefur verið innt af hendi í samræmi við álagningu sem er hærri en skatthlutfall sveitarfélags eða gildandi álagningarstofn fasteignar segja til um. Mál þetta snýr svo sem fram er komið að innheimtu fasteignaskatts af flugstöð stefnanda árin 1998, 1999 og 2000. Álagning hans studdist við ákvarðanir Fasteignamats ríkisins um álagningarstofn sem stofnunin lét stefnda í té í samræmi við 6. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í 2. mgr. sömu greinar var á þessum tíma mælt fyrir um það að stofn til álagningar skattsins á hús og mannvirki skyldi vera afskrifað endurstofnverð þeirra margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Þótt mistök hafi orðið þegar álagningarstofn fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar á þessum grunni var fyrst reiknaður verður ekki fram hjá því litið að álagning stefnda studdist jafnan við álagningarstofn sem ekki hefur verið hnekkt, eftir atvikum með dómi. Af hálfu stefnda hefur ekki verið á það fallist að annar og lægri álagningarstofn verði lagður til grundvallar við álagningu fasteignaskatts á flugstöð stefnanda hin umræddu ár. Þá hefur málið ekki verið lagt þannig fyrir dóminn að við úrlausn þess reyni á álitaefni sem tengjast því að álagningarstofni verði breytt til samræmis við það sem kröfugerð stefnanda gerir ráð fyrir. Að svo stöddu verður ekki sjálfkrafa ályktað á þann veg að stefndi hafi oftekið fasteignaskatt þannig að endurgreiðsluskylda samkvæmt lögum nr. 29/1995 hafi orðið virk og því síður að réttmæt endurkrafa nemi þeim fjárhæðum sem stefnandi gengur út frá í kröfugerð sinni. Leiðir þessi aðstaða til þess að ekki þykir verða hjá því komist að sýkna stefnda að svo stöddu af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Sandgerðisbær, skal að svo stöddu vera sýkn af kröfum stefnanda, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf.
Málskostnaður fellur niður.