Hæstiréttur íslands

Mál nr. 124/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Lánssamningur
  • Handveð
  • Innstæða
  • Aðilaskipti
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 9. október 2014.

Nr. 124/2014.

Basisbank PFS A/S

Bayersiche Landesbank AG

Brookdale International Partners L.P.

Commerzbank AG

Finansiel Stabilitet A/S

HSH Nordbank AG

Natixis

Phoenix Fund

Raiffeisen Bank International AG

Société Générale

Totalbanken A/S

UBI Banca International

UniCredit Bank

(Sigríður Rut Júlíusdóttir)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Slit. Lánssamningur. Handveð. Innstæða. Aðilaskipti. Skaðabætur.

B o.fl., sem voru meðal þeirra sem veitt höfðu S ehf. lán, höfðuðu mál á hendur L hf. til heimtu skaðabóta vegna ætlaðra vanefnda á skuldbindingum samkvæmt yfirlýsingum sem LÍ hf. gaf, um að ekki kæmi til útborgunar veðsala S ehf. af nánar tilgreindum bankareikningum, sem voru veðsettir B o.fl., nema að fengnum skriflegum fyrirmælum C, en sá síðastgreindi var í fyrirsvari fyrir lánveitendur. Báru B o.fl. því við að L hf. hefði yfirtekið þessar skuldbindingar vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um að honum bæri að yfirtaka skuldbindingar í útibúum LÍ hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum og öðrum viðskiptavinum. Héldu B o.fl. því fram að L hf. hefði brotið gegn þeim skuldbindingum sem hann þannig hefði undirgengist með þeim afleiðingum að tryggingarréttindi B o.fl. hefðu ónýst. B o.fl. töldu að þeir hefðu ella getað fullnustað fjárkröfur sínar á hendur S ehf. á grundvelli 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þannig fengið innstæðurnar greiddar upp í kröfur sínar. Fyrir lá að við gjaldþrotaskipti S ehf. hafði verið lýst kröfum, meðal annars af hálfu B o.fl., vegna þeirra skuldbindinga, sem fyrrgreindra yfirlýsingar stóðu í tengslum við, en við það tilefni var ekki gerð krafa um viðurkenningu handveðréttar sem stofnað hafði verið til í innstæðum á áðurgreindum bankareikningum. Síðar var útkljáð með dómum Hæstaréttar að veðréttur í innstæðum á reikningunum væri fallinn niður vegna vanlýsingar svo og að ekki hefði stofnast skaðabótakrafa á hendur þrotabúi S ehf. vegna ráðstafana skiptastjóra þessu tengdu. Í dómi Hæstaréttar var rakið að meðferð og skráning hinna tilgreindu bankareikninga hjá LÍ hf. hafi ekki borið það með sér að þeir væru veðsettir og þeir hafi ekki verið læstir fyrir úttektum veðsala 9. október 2008. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að að því leyti sem meðferð starfsmanna LÍ hf. á áðurgreindum bankareikningum hefði farið í bága við yfirlýstar skuldbindingar LÍ hf., meðal annars gagnvart B o.fl., kynni hún að hafa bakað LÍ hf. skaðabótaskyldu vegna tjóns, sem af því hefði leitt fyrir B o.fl. Þar sem skaðabótaskylda hefði ekki verið meðal þeirra skuldbindinga sem fluttust yfir til L hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í október 2008 var á hinn bóginn talið að L hf. yrði ekki krafinn um skaðabætur vegna ætlaðrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna LÍ hf. Var L hf. því sýknaður af kröfu B o.fl.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2014. Þeir krefjast þess hver fyrir sitt leyti að stefnda verði gert að greiða hverjum þeirra nánar tilgreinda fjárhæð, aðallega í evrum en til vara í íslenskum krónum, eftir svofelldri kröfu hvers þeirra um sig, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags: Basisbank PFS A/S krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 82.500,17 evrur en til vara 13.239.585 krónur, Bayerische Landesbank AG gerir aðallega kröfu um 188.297,99 evrur en til vara 30.145.671 krónu, Brookdale International Partners L.P. gerir aðallega kröfu um 11.648,82 evrur en til vara 1.833.250 krónur, Commerzbank AG gerir aðallega kröfu um 564.893,97 evrur en til vara 90.437.012 krónur, Finansiel Stabilitet A/S gerir aðallega kröfu um 188.297,99 evrur en til vara 30.145.671 krónu, HSH Nordbank AG gerir aðallega kröfu um 23.297,65 evrur en til vara 3.666.500 krónur, Natixis gerir aðallega kröfu um 46.595,30 evrur en til vara 7.333.000 krónur, Phoenix Fund gerir aðallega kröfu um 11.648,82 evrur en til vara 1.833.250 krónur, Raiffeisen Bank International AG gerir aðallega kröfu um 376.595,98 evrur en til vara 60.291.342 krónur, Société Générale gerir aðallega kröfu um 46.595,30 evrur en til vara 7.333.000 krónur, Totalbanken A/S gerir aðallega kröfu um 94.148,99 evrur en til vara 15.072.835 krónur, UBI Banca International gerir aðallega kröfu um 23.297,65 evrur en til vara 3.666.500 krónur og UniCredit Bank gerir aðallega kröfu um 69.892,95 evrur en til vara 10.999.500 krónur. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur hver fyrir sig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara lækkunar á kröfum áfrýjenda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.

I

Áfrýjendur krefjast skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðra vanefnda hans á skyldum samkvæmt tveimur yfirlýsingum, hinni fyrri frá 17. nóvember 2005 en síðari frá 3. apríl 2007. Báðar yfirlýsingarnar voru gefnar vegna handveðsetningar Samsonar eignarhaldsfélags ehf. á innstæðum á tilgreindum bankareikningum hjá Landsbanka Íslands hf. til tryggingar greiðslu lána, sem veðsali tók hjá hópi banka, sem áfrýjendur tilheyrðu, að fjárhæð 50.000.000 evrur og 100.000.000 evrur.  Samkvæmt fyrri yfirlýsingunni skuldbatt Landsbanki Íslands hf. sig til þess að varðveita hina veðsettu reikninga veðsala hjá bankanum, númer 0111-26-490902 og 0111-38-714909, og ábyrgjast að veðsali myndi ekki geta greitt ,,vörslufjárhæðina á tryggingartímabilinu“ nema samkvæmt skriflegum fyrirmælum þar um frá Commerzbank International S.A. Samkvæmt hinni síðari staðfesti Landsbanki Íslands hf. að hafa móttekið eintak af veðsamningi veðsala og Commerzbank International S.A. 28. mars 2007. Í yfirlýsingunni sagði meðal annars svo í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: ,,Ég staðfesti hér með að veðið verður ekki ógilt undir neinum kringumstæðum nema Landsbanka berist undirrituð beiðni frá Commerzbank International með tveimur heimiluðum undirskriftum.“ Samkvæmt tilvitnuðum veðsamningi var meðal annars veðsett innstæða á reikningi veðsala hjá Landsbanka Íslands hf. númer 0101-38-711046.

Upplýst er í málinu að þrátt fyrir framangreindar yfirlýsingar Landsbanka Íslands hf. voru bankareikningar þeir, sem um ræðir, ekki læstir fyrir úttektum veðsala. Reikningur númer 0111-38-714909 sem var stofnaður 24. október 2005 var læstur 1. desember það ár. Læsingin mun hafa verið tekin af 23. maí 2007 og ekki sett á aftur fyrr en að undangenginni beiðni skiptastjóra í þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 14. nóvember 2008. Yfirlit um færslur á reikningnum ber með sér að átta úttektir voru framkvæmdar frá stofnun þessa reiknings og þar til honum var lokað. Reikningur númer 0101-38-711046 var stofnaður 27. mars 2007. Engin innstæða virðist myndast á þeim reikningi fyrr en með innborgun 28. október 2008, en hann var ekki læstur fyrir úttektum fyrr en 14. nóvember sama ár og þá að beiðni skiptastjóra. Báðum reikningunum var lokað 5. desember 2008 eftir að innstæður á þeim höfðu verið millifærðar á reikning sem var á forræði skiptastjóra. Eftir gögnum málsins virðist aldrei hafa verið innstæða á fyrrnefndum reikningi númer 0111-26-490902. Ómótmælt er að skráning reikninganna í Landsbanka Íslands hf. hafi ekki borið með sér að innstæður á þeim hafi verið veðsettar eða útborganir af þeim háðar öðrum takmörkunum en að framan greinir.   

Fjármálaeftirlitið ákvað 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja félagsstjórn frá störfum og skipa skilanefnd til að taka við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í kjölfarið tók Fjármálaeftirlitið 9. sama mánaðar ákvörðun um ráðstöfun tilgreindra eigna og skuldbindinga Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú ber heiti stefnda.

Eins og greinir í héraðsdómi var bú Samsonar eignarhaldsfélags ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 4. nóvember 2008. Skiptastjórinn í þrotabúinu ritaði stefnda bréf 14. sama mánaðar og óskaði upplýsinga um innstæður og eignir þrotabúsins hjá bankanum. Í svari nokkrum dögum síðar kom fram að þrotabúið ætti alls níu reikninga hjá bankanum, sem allir voru tilgreindir í bréfinu, en þar á meðal voru þeir þrír reikningar sem áður er getið. Engin innstæða var á einum en samanlögð innstæða miðað við 19. nóvember 2008 á hinum tveimur var 2.115.956,92 evrur.

Skiptastjóri ritaði þekktum kröfuhöfum bréf 27. nóvember 2008 og tilkynnti að hann hefði fengið tilboð um tilgreinda vexti á innstæður á reikningi þrotabúsins hjá stefnda og teldi það skyldu sína að yfirfæra innstæður á erlendum reikningum þrotabúsins í íslenskar krónur þar sem það væri hagfelldara. Óskaði hann athugasemda frá kröfuhöfum ef einhverjar væru. Andmæli komu frá þeim bönkum sem veitt höfðu framangreind tvö lán þar sem þeirri skoðun var lýst að hagsmunum kröfuhafa væri betur borgið með því að halda í erlendan gjaldeyri í ljósi þeirrar miklu óvissu sem þá ríkti um stöðu íslensku krónunnar. Skiptastjóri lét þrátt fyrir andmælin breyta erlendu innstæðunum í íslenskar krónur og millifæra á reikning í eigu þrotabúsins 5. desember 2008.

Lánveitendurnir lýstu kröfum vegna lánanna tveggja í þrotabúið 21. janúar 2009, sama dag og kröfulýsingarfresti lauk, en gerðu þá ekki kröfu um viðurkenningu á handveðrétti þeim sem stofnað hafði verið til í innstæðum á bankareikningunum sem áður greinir. Með bréfum 23. júní og 17. júlí 2009 kröfðust lánveitendurnir á hinn bóginn þess að fá greiddar þær fjárhæðir sem veðsettar höfðu verið og að þær yrðu millifærðar á tiltekinn reikning í eigu áfrýjandans Commerzbank AG í Frankfurt. Rökstuddu þeir kröfu sína meðal annars svo að þar sem til lögmæts veðréttar hefði verið stofnað sem nyti réttarverndar samkvæmt lögum og þar sem hinar veðsettu innstæður hefðu verið millifærðar til skiptastjóra þrotabúsins vegna mistaka leiddu meginreglur íslensks réttar um gjaldþrotaskipti og réttindi lánardrottna, sem ættu veð í eign skuldara, til þess að greiða ætti þeim hinar veðsettu fjárhæðir ásamt vöxtum. Skiptastjóri varð ekki við þessum kröfum.

Lánveitendurnir lýstu svo með tveimur bréfum 23. september 2009  kröfum í þrotabúið sem þeir reistu á 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Svaraði samanlagður  höfuðstóll krafnanna til þeirra innstæðna sem voru á reikningunum tveimur 19. nóvember 2008. Rökstuddu þeir kröfurnar meðal annars svo að hinar veðsettu innstæður á reikningunum hefðu að kröfu skiptastjóra þrotabúsins verið millifærðar af þeim 5. desember 2008 og inn á reikning í eigu þrotabúsins og þeim lokað ,,þrátt fyrir skýlausa samningsskuldbindingu samkvæmt veðsamningnum til að viðhalda veðinu“. Þar með hafi skiptastjóri brotið gegn ákvæðum laga nr. 21/1991 um meðferð og ráðstöfun krafna er nytu veðréttinda og ónýtt veðið áður en kröfulýsingarfrestur rann út. Væri þessi háttsemi skiptastjóra saknæm og ólögmæt og hefði valdið kröfuhöfum tjóni sem væri bótaskylt. Skiptastjóri hafnaði einnig þessum kröfum og þegar ekki tókst að útkljá ágreining um þær var  honum skotið til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur. Með úrskurðum héraðsdóms sem staðfestir voru í Hæstarétti 24. ágúst 2010 í málum nr. 459/2010 og 460/2010 var staðfest ákvörðun skiptastjóra þrotabúsins um að veðréttur lánveitenda í innstæðum á áðurnefndum reikningum væri niður fallinn vegna vanlýsingar. Í dómunum kom einnig fram að ráðstafanir skiptastjóra hefðu ekki verið með þeim hætti að lánveitendur hefðu öðlast skaðabótakröfu á hendur þrotabúinu.

II

Svo sem fram er komið krefjast áfrýjendur skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðra vanefnda á skuldbindingum samkvæmt yfirlýsingum þeim sem Landsbanki Íslands hf. gaf um að ekki kæmi til útborgunar veðsala, Samsonar eignarhaldsfélags ehf., af hinum veðsettu bankareikningum nema að fengnum skriflegum fyrirmælum Commerzbank International S.A. Telja áfrýjendur að stefndi hafi yfirtekið þessar skuldbindingar vegna þeirrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 að honum bæri að yfirtaka skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum og öðrum viðskiptavinum. Þar undir falli skyldur Landsbanka Íslands hf. sem vörslumanns þeirra bankareikninga sem handveðsettir voru. Hafi stefndi brotið gegn þeim skuldbindingum sem hann þannig hafi undirgengist með þeim afleiðingum að tryggingarréttindi áfrýjenda hafi ónýst. Halda áfrýjendur því fram að ef ekki hefði verið fyrir þessa ráðstöfun stefnda hefðu þeir getað fullnustað fjárkröfur sínar á hendur þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf. á grundvelli 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 og þannig fengið innstæðurnar greiddar upp í kröfur sínar. Sé þessu slegið föstu í dómum Hæstaréttar í áðurnefndum málum.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var mælt fyrir um hvaða eignum og skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. skyldi ráðstafað til stefnda. Í 7. tölulið ákvörðunarinnar sagði að stefndi yfirtæki ,,skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum ... og öðrum viðskiptavinum“. Samkvæmt 8. tölulið ákvörðunarinnar skyldu innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til stefnda miðað við stöðu þeirra klukkan 9 að morgni 9. október 2008.

Samkvæmt þessu fluttust til stefnda innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. og skuldbindingar vegna þeirra. Eins og áður greinir báru skráðar upplýsingar í Landsbanka Íslands hf., tengdar reikningum númer 0111-38-714909 og 0101-38-711046, ekki með sér að innstæður á þeim væru veðsettar og einungis annar þeirra var lokaður fyrir úttektum tímabundið, sem opnað hafði verið fyrir 23. maí 2007. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að reikningarnir hafi báðir verið opnir fyrir úttektum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og ekki borið merki um að innstæður á þeim væru veðsettar 9. október 2008. Að því leyti sem meðferð starfsmanna Landsbanka Íslands hf. á reikningunum tveimur fór í bága við yfirlýstar skuldbindingar bankans kann hún að hafa bakað þeim banka skaðabótaskyldu vegna tjóns, sem af því hefur leitt fyrir áfrýjendur. Sú skaðabótaskylda var ekki meðal þeirra skuldbindinga sem fluttust yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sbr. og dóm Hæstaréttar 27. mars 2014 í máli nr. 546/2013. Stefndi verður því ekki krafinn um skaðabætur vegna ætlaðrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt framansögðu og þar sem ekki er sannað að starfsmenn stefnda hafi bakað áfrýjendum tjón með skaðabótaskyldri háttsemi verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfum áfrýjenda.

Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Basisbank PFS A/S, Bayersiche Landesbank AG, Brookdale International Partners L.P., Commerzbank AG, Finansiel Stabilitet A/S, HSH Nordbank AG, Natixis,  Phoenix Fund, Raiffeisen Bank International AG, Société Générale, Totalbanken A/S, UBI Banca International og UniCredit Bank, greiði óskipt stefnda, Landsbankanum hf., samtals 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. október sl., er höfðað með stefnu 4. desember 2012 af Basisbank PFS A/S, Bayerische Landesbank, Brookdale International Partners L.P., Commerzbank, AG, Filiale Luxemborg, Finansiel Stabilitet, HSH Nordbank AG, Luxembourgh Branch, Natixis, London Branch, Phoenix Fund, Raiffeisen Bank International AG, Société Générale, París, Totalbanken A/S, UBI Banca International, UniCredit Bank og United Overseas Bank Limited, London Branch gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Stefnendur gera eftirfarandi dómkröfur:

Stefnandi, Basisbank PFS A/S, krefst þess aðallega að stefndi, verði dæmdur til að greiða stefnanda 82.500,17 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.239.585 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Bayerische Landesbank, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 188.297,99 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 30.145.671 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Brookdale International Partners L.P., krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 11.648,82 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.833.250 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Commerzbank AG, Filiale Luxembourg, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 564.893,97 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 90.437.012 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Finansiel Stabilitet A/S, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 188.297,99 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 30.145.671 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, HSH Nordbank AG, Luxembourg Branch, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 23.297,65 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.666.500 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Natixis, London Branch, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 46.595,30 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.333.000 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Phoenix Fund, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 11.648,82 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.833.250 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Raiffeisen Bank International AG, krefst þess aðallega að stefndi  verði dæmdur til að greiða stefnanda 376.595,98 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 60.291.342 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Société Générale, Paris, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 46.595,30 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.333.000 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, Totalbanken A/S, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 94.148,99 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 15.072.835 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, UBI Banca International, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 23.297,65 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.666.500 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, UniCredit Bank, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 69.892,95 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.999.500 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi, United Overseas Bank Limited, London Branch, krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 46.595,30 evrur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Landsbankinn hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.333.000 ísl. kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnendur krefjast þess allir hver fyrir sig málskostnaðar úr hendi stefnda að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda en til vara að kröfur stefnenda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.

I

                Helstu atvik málsins eru þau að stefnendur, ásamt tilgreindum öðrum lánastofnunum, samþykktu 27. október 2005 að veita Samson eignarhaldsfélagi ehf. lán að fjárhæð 50.000.000 evrur. Í lánssamningi var meðal annars kveðið á um endurgreiðslu lánsins, vexti og viðlíka atriði. Samson eignarhaldsfélag ehf. setti 16. nóvember 2005 innstæður á tveim reikningum í eigu Samsonar eignarhaldsfélags ehf., nr. 0111-26-490902 og nr. 0111-38-714909, og hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. af vörslureikningi félagsins nr. 972818, að veði til tryggingar óafturkræfri og gildri greiðslu á lánssamningnum frá 27. október 2005. Landsbanki Íslands hf. gaf út yfirlýsingu 17. nóvember sama ár um að bankinn samþykkti og staðfesti skyldu sína til að skrá veð í hlutabréfum á vörlureikningi nr. 972818 og hafa eftirlit með ofangreindum handveðsettum reikningum veðsala. Jafnframt lýsti bankinn yfir að hann ábyrgðist að veðsali gæti ekki ráðstafað fé af áðurnefndum reikningum nema samkvæmt skriflegum fyrirmælum frá stefnanda, Commerzbank, til Landsbanka Íslands hf. Samson eignarhaldsfélag ehf. sendi 18. nóvember 2005 beiðni til stefnanda, Commerzbank, um greiðslu á lánsfjárhæðinni inn á tilgreindan reikning. Fór greiðslan fram 25. nóvember 2005.

                Hluti stefnenda, ásamt tilteknum öðrum lánastofnunum, samþykktu 28. mars 2007 að veita Samson eignarhaldsfélagi ehf. lán að fjárhæð 100.000.000 evrur. Í samningi var kveðið á um endurgreiðslu lánsins, vexti og viðlíka atriði. Sama dag setti Samson eignarhaldsfélag ehf. að veði vegna samningsins hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á vörslureikningi nr. 344384 og innstæður á reikningi eignarhaldsfélagsins nr. 0101-38-711046. Landsbanki Íslands hf. gaf út yfirlýsingu 3. apríl 2007 um að bankanum hefði borist eintak af veðsamningi um hlutabréf í bankanum og reiðufé, auk þess sem bankinn staðfesti að veði yrði ekki aflétt nema bankanum bærist beiðni frá stefnanda, Commerzbank. Samson eignarhaldsfélag ehf. sendi beiðni til stefnanda, Commerzbank, 5. apríl 2007 um greiðslu á lánsfjárhæðinni inn á tilgreindan reikning félagsins í Landsbanka Íslands hf. Fór greiðslan fram 12. apríl 2007.

                Fjármálaeftirlitið skipaði 7. október 2008 skilanefnd til að taka við rekstri Landsbanka Íslands hf. Fjármáleftirlitið tók ákvörðun 9. október sama ár um ráðstöfun eigna og skuldbindinga Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka hf. Samson eignarhaldsfélag ehf. var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2008 úrskurðað gjaldþrota. Nýji Landsbanki hf. sendi 20. nóvember 2008 skiptastjóra þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. yfirlýsingu um innstæður á hinum veðsettu reikningum. Skiptastjóri þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. sendi þekktum kröfuhöfum, þ.á m. stefnanda Commerzbank, tilkynningu um hugsanlega ráðstöfun innstæðna á gjaldeyrisreikningum. Í bréfinu kom meðal annars fram að skiptastjóri teldi það starsskyldu sína að innleysa þær innstæður í erlendum gjaldmiðli sem kostur væri og færa yfir í íslenskar krónur. Stefnandi, Commerzbank, sendi skiptastjóra 1. desember 2008 bréf vegna áforma skiptastjóra um að skipta hinum erlenda gjaldeyri í íslenskar krónur. Skiptastjóri þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. skipti 5. desember 2008 erlendum gjaldeyri þrotabúsins hjá Nýja Landsbanka hf. í íslenskar krónur. Stefnandi, Commerzbank, lýsti 21. janúar 2009, sem umboðsaðili lánveitenda, kröfum í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. fyrir hönd stefnenda. Í kröfulýsingunni var ekki gerð sérstök krafa um veðréttindi vegna hinna veðsettu innstæðna. Stefnendur sendu skiptastjóra bréf 17. júní 2009 þar sem krafa var gerð um afhendingu innstæðna á hinum veðsettu reikningum. Var því hafnað með bréfi skiptastjóra 5. ágúst 2009. Hafnaði skiptastjóri að viðurkenna forgang samsvarandi hluta kröfu stefnanda, Commerzbank með vísan til 111. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 118. gr. laganna. Lögmaður stefnanda, Commerzbank, sendi 19. október 2009 tvö bréf til stefnda vegna ráðstöfunar á hinum veðsettu reikningum og áskildi sér rétt vegna þessara ráðstafana. Hæstiréttur Íslands staðfesti 24. ágúst 2010 með dómum í málum nr. 459/2010 og 460/2010 ákvörðun skiptastjóra um að hafna forgangi krafna stefnenda. Stefnendur sendu stefnda bréf 31. maí 2011 með kröfu um greiðslu á 2.115.956,92 evrum. Var þeirri kröfu hafnað með bréfi stefnda 30. júní 2011.

II

Stefnendur máls þessa lýsa því allir að þeir byggi skaðabótakröfur sínar á ólögmætri millifærslu stefnda á fjármunum af veðsettum reikningum í eigu Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Millifærslan feli í sér skýrt brot á skyldum stefnda eins og þeim sé lýst í veðsamningum og stefndi hafi staðfest. Stefnendur hafi enga ástæðu haft til að ætla að stefndi myndi ekki uppfylla skuldbindingar sínar auk þess sem þeir hafi enga möguleika haft á að koma í veg fyrir að stefndi framkvæmdi þann verknað sem leitt hafi til þess tjóns, sem stefnendur krefjist nú bóta fyrir. Stefnendur telji stefnda ábyrgan vegna þess tjóns sem saknæm háttsemi stefnda hafi valdið þeim, og fari stefnendur af þeim sökum fram á bætur. Með vísan til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þess að kröfur stefnenda eigi rætur að rekja til sömu saknæmu háttsemi stefnda, höfði stefnendur mál þetta á grundvelli samlagsaðildar. Stefnendur eigi hver um sig sjálfstæða fjárkröfu á hendur stefnda og hafi því lagt fram sundurgreindar bótakröfur.

Stefnendur byggi á því að með tveim lánssamningum hafi stefnendur lánað til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. fjárhæð samtals að höfuðstól 150.000.000 evrur. Hafi lánssamningar þessir verið dagsettir 27. október 2005 og 28. mars 2007. Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi veitt stefnendum tryggingu með tveimur veðsamningum, þar sem Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi veðsett umtalsvert af hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og innstæður á tilteknum bankareikningum til tryggingar á fullri og óafturkræfri greiðslu lánanna til stefnenda. Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi lent í vanskilum og verið úrskurðað gjaldþrota 4. nóvember 2008. Endurheimtur stefnenda af kröfum samkvæmt lánssamningunum tveimur hafi verið minniháttar sökum þess að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. hafi reynst verðlaus eftir hrun bankans auk þess sem stefndi hafi með ólögmætum hætti ráðstafað hinum veðsettu innstæðum að fjárhæð 2.115.956,38 evrur 5. desember 2008 og þar með eyðilagt veðréttindi stefnanda og gert þau að engu. Með vísan til samantektar um eignir og skuldir Samsonar eignarhaldsfélags ehf., frá 31. desember 2011, hafi heildareignir Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 31. desember 2011, numið 5.327.000.000 krónur. Skiptastjóri Samsonar eignarhaldsfélags ehf. telji að áætlaðar endurheimtur úr þrotabúinu til almennra kröfuhafa muni verða á bilinu 7-8%. Muni slíkar endurheimtur leiða til gríðarlegs taps fyrir stefnendur að lágmarki að fjárhæð 125.000.000 evra, vegna hinna fyrrgreindu lánssamninga.

Stefnendur telji það hafa verið skyldu stefnda að annast veðréttindi stefnenda. Landsbanki Íslands hf. hafi annast hinar veðsettu innstæður á reikningum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og ábyrgst að félagið gæti ekki ráðstafað þessum innstæðum nema með skriflegum fyrirmælum frá Commerzbank. Skýrar staðfestingar sýni að Landsbanka Íslands hf. hafi verið tilkynnt um veðsetninguna samkvæmt 2. mgr. 22. gr. og 3. mgr. 22. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Af þeim sökum sé ljóst að Landsbanka Íslands hf. hafi verið fullkunnugt um fyrirliggjandi veð og borið að standa vörð um veðréttindin í ljósi þess að bankinn hafi skuldbundið sig til að greiða ekki út innstæðurnar án skriflegrar beiðni eða skriflegs samþykkis stefnanda, Commerzbank. Commerzbank hafi aldrei gefið út slíka beiðni né samþykkt nokkurs konar greiðslu út af hinum veðsettu reikningum.

Stefnendur telji aðild stefnda að máli þessu byggi á því að 9. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið birt ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. með vísun til 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, eins og þeim hafi verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Í 7. tl. ákvörðunarinnar hafi skýrt verið kveðið á um að Nýi Landsbanki hf. myndi taka yfir skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Nýi Landsbanki hf. hafi því tekið að fullu við innstæðuskuldbindingum Landsbanka Íslands hf. ásamt skuldbindingum þeim sem vörðuðu hina handveðsettu reikninga Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Eftir yfirfærslu skuldbindinganna hafi stefndi þannig orðið skuldari hvað innstæðurnar varðaði og vörsluaðili hinna umþrættu veða. Forsendur neyðarlaganna svonefndu, áform Fjármálaeftirlitsins og yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands haustið 2008 renni frekari stoðum undir þetta. Til skýringar sé rétt að taka fram að „flutningur“ eigna og skuldbindinga til stefnda hafi verið meira í orði en á borði þar sem stefndi hafi yfirtekið í raun daglegan rekstur Landsbanka Íslands hf. með því að opna sama bankann 9. október 2008, undir nýju nafni og kennitölu. Stefndi hafi nýtt sömu aðstöðu, sömu tölvur, hafi geymt sömu skjöl og hjá honum hafi starfað meira og minna sama starfsfólkið. Stefndi sé af þeim sökum skuldbundinn til að vernda veðréttindi stefnenda í reikningum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og honum verið óheimilt að greiða út innstæður með þeim hætti sem gert hafi verið 5. desember 2008, þ.e. án samþykkis stefnanda, Commerzbank.

Skaðabótakröfur stefnenda byggi á vanrækslu stefnda á skyldu hans til að annast veðréttindi stefnenda á hinum veðsettu reikningum. Felist vanræksla stefnda í þeirri háttsemi hans að millifæra með ólögmætum hætti innstæður hinna veðsettu reikninga, án samþykkis stefnanda, Commerzbank. Vanræksla þessi feli í sér saknæma háttsemi stefnda, hún fari í bága við ábyrgðaryfirlýsingar stefnda og hafi valdið stefnendum tjóni, sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt almennu sakarreglunni, skaðabótaábyrgð innan samninga og reglum um vinnuveitendaábyrgð. Stefnendur hafi orðið fyrir beinu tjóni vegna vanrækslunnar, sem svari til sömu fjárhæðar og innstæður hinna veðsettu reikninga á þeim degi er veðréttindin hafi verið eyðilögð, að heildarfjárhæð 1.774.306,88 evrur eða til vara 283.330.116 krónur. Hefði stefndi látið hjá líða að millifæra innstæðurnar með framangreindum hætti hefðu stefnendur getað komið í veg fyrir tjónið og leyst til sín hinar veðsettu upphæðir til að vega á móti því tapi sem hlotist hafi af lánunum til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Af framangreindum sökum telji stefnendur stefnda skaðabótaskyldan vegna saknæmrar háttsemi stefnda við umsjón hinna veðsettu reikninga. Varði hin saknæma háttsemi m.a. það að stefndi hafi vitað eða mátt vita af veðréttindum stefnenda í hinum veðsettu reikningunum, sem Fjármálaeftirlitið hafi ráðstafað ásamt öðrum innstæðuskuldbindingum frá Landsbanka Íslands til stefnda, eins og skýrt komi fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Áður en innstæðurnar hafi verið millifærðar af reikningum Samson eignarhaldsfélags ehf., hafi stefndi ekki leitað eftir samþykki stefnanda, Commerzbank, til að aflétta veðinu í reikningunum, eins og honum hafi borið skylda til. Stefndi hafi ekki gefið út aðvörun af nokkrum toga til stefnenda og í raun hafi hann engin samskipti haft við stefnendur varðandi þessa ólögmætu millifærslu á hinum veðsettu innstæðum. Skiptastjóri þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. hafi 27. nóvember 2008 sent bréf til þekktra kröfuhafa þar sem tilgreint hafi verið að vegna þeirra háu vaxta sem byðust væri ætlun skiptastjóra að skipta eignum í erlendum gjaldmiðlum yfir í íslenskar krónur eins og kostur væri, enda teldi hann það skyldu sína samkvæmt 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í bréfi þessu hafi hvergi verið gefið til kynna að skiptastjóri hygðist millifæra fé af handveðsettum reikningum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Stefnendur hafi því enga ástæðu haft til að ætla að bréf skiptastjóra varðaði innstæður annarra reikninga en þeirra sem væru óveðsettir og lausir, enda hafi skiptastjóri ekki ráðstafað innstæðum hinna veðsettu reikninga til samræmis við 129. gr. laga nr. 21/1991. Að auki hafi stefnendur enga ástæðu haft til að ætla að stefndi myndi bregðast skyldu sinni samkvæmt lánssamningunum, samsvarandi veðsamningum og yfirlýsingum með því að millifæra hinar veðsettu fjárhæðir án tilskilins samþykkis frá Commerzbank. Stefnendur hafi talið slíka millifærslu óheimila, ólögmæta og óhugsandi án skýrs og skriflegs samþykkis stefnanda, Commerzbank. Stefnendur hafi mótmælt þessum áformum skiptastjóra, en skiptastjórinn ekki farið eftir sjónarmiðum stefnenda. Með mótmælum sínum hafi stefnendur ekki fjallað sérstaklega um hina ólögmætu millifærslu af veðsettu reikningunum enda stefnendur enga vitneskju haft um þann hluta hinnar fyrirhuguðu  ráðstöfunar. Stefnendum hafi með engu móti verið tilkynnt um eyðileggingu veðréttindanna. Hafi þeim raunar verið ókunnugt um þá ráðstöfun um margra mánaða skeið. Þegar stefnendur hafi loks fengið vitneskju um eyðileggingu veðréttinda þeirra með hinni ólögmætu millifærslu hafi kröfulýsingafrestur í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. verið runnin út. Að því sögðu sé máli þessu óviðkomandi hvernig stefnendur hafi lýst kröfum gegn þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 459/2010 og 460/2010, í ljósi þess að veðandlagið, þ.e. innstæður Samsonar eignarhaldsfélags ehf. reikninganna, hafi ekki lengur verið til 21. janúar 2009, þegar kröfulýsingafrestur í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. hafi runnið út. Þar að auki hafi stefnendum ekki verið kunnugt um eyðileggingu veðréttindanna er þeir hafi lýst kröfum sínum á hendur þrotabúinu. Stefnendur telji að ef ekki hefði komið til hinnar ólögmætu millifærslu stefnda og þar með eyðileggingar handveðanna í reikningunum hefði verið auðsótt fyrir stefnendur að endurheimta hinar veðsettu fjárhæðir sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991, eins og alvanalegt sé við fullnustu veðréttinda gagnvart þrotabúum. Það hafi reynst þeim ómögulegt sökum þess að stefndi hafi greitt hinar handveðsettu innstæður út af reikningunum og þar með eyðilagt handveðin. Af öllu framanrituðu sé ljóst að tjón það sem stefnendur hafi orðið fyrir hafi verið afleiðing eyðileggingar á veðréttindum stefnenda. Hafi eyðilegging þessi farið fram 5. desember 2008 er stefndi hafi millifært með ólögmætum hætti hinar veðsettu innstæður af reikningunum, án samþykkis stefnanda, Commerzbank. Stefnendur krefjist því skaðabóta fyrir það tjón sem hlotist hafi af vanrækslu stefnda við umsjón hinna veðsettu reikninga, að fjárhæð sem svari til innstæðna hinna veðsettu reikninga, þ.e. að heildarfjárhæð 1.774.306,88 evrur eða til vara 283.330.116 krónur. Stefnendur byggi kröfur sínar á hendur stefnda m.a. á almennum reglum skaðabótaréttar um ábyrgð þriðja manns í tilfellum þar sem þriðji maður hafi eyðilagt veð og þar með skaðað möguleika kröfuhafa á endurheimtum kröfu sinnar. Sé einnig vísað til skyldna umráðamanns handveðs samkvæmt reglum veðréttar. Stefnendur telji stefnda bera ábyrgð á framangreindu tjóni enda hafi hin ólögmæta millifærsla af hinum veðsettu Samson reikningum falið í sér saknæma háttsemi stefnda. Þessi ráðstöfun hafi brotið gegn skuldbindingum stefnda sem vörsluaðila reikninganna og feli í sér gáleysi stefnda. Í raun telji stefnendur að háttsemi stefnda feli í sér stórkostlegt gáleysi. Hafi vanrækslan farið í bága við ábyrgðaryfirlýsingar stefnda og valdið stefnendum tjóni sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt almennu sakarreglunni, skaðabótaábyrgð innan samninga og reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefnendur telji því að skilyrði bótaskyldu samkvæmt almennum meginreglum skaðabótaréttar séu uppfyllt og krefjist skaðabóta úr hendi stefnda. Kröfur stefnenda eigi rætur að rekja til lánssamninga, frá 17. október 2005 og 28. mars 2007, og veðréttinda stefnenda í innstæðum á reikningum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. nr. 0111-26-711046 og 0111-38-714909, sem Landsbanki hafi haft eftirlit með. Í máli þessu krefjist stefnendur aðallega greiðslu skaðabóta í evrum. Telji stefnendur eðlilegt að tjón þeirra verði bætt í erlendum gjaldeyri enda hafi lánssamningar og veðsamningar milli stefnenda og Samsonar eignarhaldsfélags ehf. sem stefndi staðfesti, verið gerðir í evrum og hafi innstæðurnar á veðsettu reikningunum sömuleiðis verið í evrum. Því sé eðlilegt að upphæð skaðabóta verði ákvörðuð í sama gjaldeyri. Til vara krefjist stefnendur skaðabóta í íslenskum krónum á því gengi sem notast hafi verið við þegar veðsettu upphæðirnar hafi verið millifærðar 5. desember 2008. 

                Stefnendur bendi á að í gögnum málsins megi finna yfirlit yfir nöfn stefnenda samkvæmt áðurnefndum lánssamningum, ásamt eignahlutdeild þeirra í lánunum og hlutum þeirra í hinum veðsettu upphæðunum, ýmist í evrum og íslenskum krónum. Þetta séu þær fjárhæðir sem settar hafi verið fram í dómkröfum sem aðal- og varakröfur stefnenda. Séu varakröfur stefnenda, þ.e. kröfur þeirra í íslenskum krónum, námundaðar að næstu heilu krónutölu. Þeir stefnendur sem hafi verið þátttakendur í 50.000.000 evru lánssamningnum frá 27. október 2005, geri kröfu um hlutfallslega greiðslu á 80% hinna veðsettu innstæðna samkvæmt samsvarandi veðsamningi, í ljósi þess að hin 20% séu í eigu lántaka sem ekki séu aðilar að máli þessu. Þeir stefnendur sem hafi verið þátttakendur í 100.000.000 evru lánssamningnum frá 28. mars 2007, geri kröfu um hlutfallslega greiðslu á 97,5% hinna veðsettu innstæðna samkvæmt samsvarandi veðsamningi, í ljósi þess að hin 2,5% séu í eigu lántaka sem ekki séu aðilar að máli þessu. Heildarupphæðir veðsins, sem settar séu fram í evrum og íslenskum krónum, séu þær upphæðir sem fram hafi komið í yfirlýsingu Nýja Landsbanka hf., sem send hafi verið til skiptastjóra þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 20. nóvember 2008, þar sem tekið hafi verið fram að innstæður á veðsettu reikningunum næmu 1.650.003,39 evrum og 465.952,99 evrum. Heildarfjárhæðirnar í íslenskum krónum séu fengnar úr dómum Hæstaréttar nr. 459/2010 og 460/2010.  Rétt sé að taka fram að sumir stefnenda hafi verið lánveitendur samkvæmt báðum lánssamningunum. Dómkröfur þessara stefnenda samanstandi því af samtölu krafna þeirra samkvæmt hvorum lánssamningnum fyrir sig og samsvarandi veðsamningi. Sumir stefnenda hafi ekki verið aðilar að upphaflegum láns- og veðsamningum heldur hafi eignast kröfur sínar vegna kröfuhafaskipta eða samruna. Aðild stefnenda sé staðfest af umsjónaraðila lánanna, Commerzbank. Stefnendur geri jafnframt kröfu um vexti af þessum upphæðum sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2008 til 30. júní 2011, þ.e. mánuði eftir að stefnendur hafi krafið stefnda um greiðslu skaðabóta, og dráttarvexti sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi og til greiðsludags. Stefnendur krefjist í öllum tilvikum hver fyrir sig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefnendur vísa til almennra meginreglna kröfuréttar, skaðabótaréttar, laga nr. 75/1997 um samningsveð, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfur stefnenda um málskostnað grundvallist á 130. gr. laga nr. 91/1991 og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem stefnendur stundi ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi á Íslandi.

III

                Stefndi telur að ekki sé fullkomlega ljóst hvort stefnendur byggi málatilbúnað sinn á reglum um skaðabætur innan eða utan samninga en málatilbúnaðurinn sé ómarkviss að þessu leyti og ætlaður bótagrundvöllur um leið óljós. Stefnendur byggi á því að stefndi beri fébótaábyrgð á ætluðu tjóni á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar en ekki sé útskýrt hver eigi að hafa valdið tjóninu, þ.e. einungis sé vísað til reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð. Ekki sé gerð sjálfstæð krafa um frávísun málsins en framsetning málsins að þessu leyti kunni að leiða til frávísunar án kröfu.

Stefndi telur að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnenda enda hafi stefndi ekki sýnt af sér nokkra bótaskylda háttsemi með þeirri ráðstöfun sem um sé deilt í máli þessu. Stefndi bendi á að í lögum nr. 21/1991 sé kveðið á um að skiptastjóri fari með forræði þotabúsins og sé einn bær um að ráðstafa hagsmunum þess. Sé sérstaklega kveðið á um ráðstöfun skiptastjóra á eignum þrotabús sem bundin séu veðréttindum eða öðrum tryggingaréttindum. Af ákvæðum laganna sé fullkomlega ljóst að skiptastjóri hafi rétt til að ráðstafa eignum búsins sem kunna að vera bundin tryggingaréttindum og engin annar. Á því sé byggt að stefnda hefði aldrei verið stætt á að neita skiptastjóra um að færa innstæðu af gjaldeyrisreikningi yfir í íslenskar krónur.  Rétt sé að geta þess að innstæða á nefndum reikningum hafi áfram verið í nafni Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Óumdeilt sé að skiptastjóri hafi gert kröfu um færslu innstæðna yfir í íslenskar krónur. Hafi skipastjóri ekki haft heimild til þess verði stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því enda hafi fjármálastofnun mátt treysta því að skiptastjóri hafi heimild til slíkrar ráðstöfunar enda hlutverk hans að koma eignum í hendur þeirra sem kunna að vera eigendur og/eða telji sig eiga tryggingaréttindi.  Jafnframt hafi stefndi mátt treysta því að kröfuhafar, sem teldu sig eiga hagsmuna að gæta, gættu hagsmuna sinna gagnvart þrotabúinu. Hér verði ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að allir stefnendur máls þessa séu lánastofnanir.

Stefndi telji að vanlýsing stefnenda leiði til þess að ætluð tryggingaréttindi stefnenda séu glötuð. Breyti hér engu hvort stefndi hafi ráðstafað innstæðum í ætluðu ósamræmi við nefnda lánasamninga. Fyrir liggi að stefnendur máls þessa hafi lýst kröfu í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. á lokadegi kröfulýsingarfrests með tveimur kröfulýsingum frá 21. janúar 2009, annars vegar vegna lánasamnings frá 27. október 2005 og hins vegar vegna lánasamnings frá 28. mars 2007. Fram komi í báðum kröfulýsingunum að kröfurnar byggi á fyrrnefndum lánasamningum og séu samkvæmt þeim tryggðar með veði í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. samkvæmt veðsamningi aðila.  Kröfur stefnenda hafi að meginstofni til verið samþykktar eins og þeim hafi verið lýst og færðar á kröfuskrá sem veðkröfur samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og kröfuskráin verið þannig lögð fram á skiptafundi í búinu 20. febrúar 2009, án athugasemda hvað þetta varði. Það muni hafa verið  með bréfum frá fyrrverandi lögmanni stefnenda til skiptastjóra 23. júní og 17. júlí 2009 sem því hafi fyrst verið hreyft að innstæður á nefndum reikningum yrðu greiddar stefnendum með vísan til þess að þær hafi verið veðsettar stefnendum til tryggingar láni þeirra til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Skiptastjóri muni hafa boðað stefnendur á fund og lýst þeirri afstöðu sinni að síðbúin krafa stefnenda væri niður fallin gagnvart þrotabúinu vegna vanlýsingar. Ljóst sé að stefnendum máls þessa hafi orðið á mistök við kröfulýsingu í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. þar sem þeir hafi ekki getað leitað þeirra réttinda sem þeir hafi talið sig eiga til umræddra bankainnstæðna. Í þessu sambandi sé vakin athygli á því að stefnendur geti sérstaklega í kröfulýsingum sínum að þeir njóti veðréttar í hlutabréfum í bankanum en geti ekkert um ætlaðan veðrétt í umræddum bankainnstæðum. Það geri stefnendur fyrst með nýjum kröfulýsingum 23. september 2009 eða níu mánuðum eftir lok kröfulýsingarfrests. Stefnendum hafi m.ö.o. verið ljóst að þeir yrðu að geta um ætluð tryggingaréttindi enda hafi verið getið um veðréttin í hlutabréfunum í upphaflegu kröfulýsingunum auk þess sem nýjar kröfulýsingar hafi verið sendar skiptastjóra, að liðnum kröfulýsingarfresti, þegar stefnendum hafi verið ljóst að gleymst hafði að tilgreina ætluð tryggingaréttindi í innstæðunum. Stefndi bendi á að tjón sem stefnendur telji sig hafa orðið fyrir stafi einvörðungu af  athöfnum og/eða athafnaleysi þeirra sjálfra.  Kjarni málsins sé sá að stefnendur hefðu ávalt þurft að lýsa veðkröfu í þrotabú Samsonar eignarhaldsfélags ehf. vegna bankainnstæðnanna. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi ætluð tryggingaréttindi þeirra til innstæðnanna fallið niður. Í  118. gr. laga nr. 21/1991 megi finna meginreglu íslensks gjaldþrotaréttar um að sé kröfu ekki lýst innan kröfulýsingafrests þá tapist krafan gagnvart þrotabúinu sökum vanlýsingar. Í 1.- 6. tl. 118. gr. laganna séu undantekningar frá framangreindri meginreglu, en engin þeirra eigi við um kröfu stefnenda. Í upphafsorðum 118. gr. laganna felist einnig undantekning sem varði veðsetningar. Í 4. mgr. 116. gr. sé ákvæði sem leyfi kröfuhafa að framfylgja rétti sínum óháð kröfulýsingu í þeim tilvikum er hann geti krafist nauðungarsölu á eign búsins á grundvelli 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.  Þá hafi 1.- 6. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991 að geyma heimildir kröfuhafa til að krefjast nauðungarsölu á eign til að fá peningakröfu fullnægt af andvirði hennar. Heimili 3. tl. 6. gr. laganna nauðungarsölu á eign sem samkvæmt samningi hafi verið sett kröfuhafa að handveði. Handveð sé eign sem sé í umsjá eða vörslum handveðshafa. Veðsettar bankainnstæður séu hins vegar í vörslum lánastofnana, og séu því ekki eiginleg handveð, heldur það sem nefnt hafi verið handveðsígildi. Bankainnstæða verði ekki seld á nauðungarsölu til fullnustu peningakröfu. Þannig geti 3. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991 ekki átt við um kröfu stefnenda. Með vísan til framangreinds hafi krafa stefnenda fallið niður þegar af þeirri ástæðu að veðkröfu hafi ekki verið lýst. Um leið og kröfulýsingarfresti hafi lokið, hafi skiptastjóri getað gengið að hinum umþrættu fjármunum enda ekki í lögum að finna heimild fyrir stefnendur að koma að vanlýstri kröfu sinni þótt fyrir liggi samningur um veð í bankainnstæðu, hvað þá að krefjast greiðslu frá stefnda vegna kröfu sem hafi fallið niður sökum þess að stefnendur hafi ekki gætt hagsmuna sinna. Í þessu sambandi sé vísað í niðurstöðu Hæstaréttar í málum stefnenda á hendur þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. nr. 459/2010 og 460/2010.

Stefndi árétti jafnframt að bankinn hafi ekki greitt út hina umþrættu fjármuni heldur hafi orðið við beiðni um að færa innstæðuna yfir í íslenskar krónur. Sú ráðstöfun ein sér hafi engin áhrif á ætluð tryggingaréttindi stefnenda enda hafi þau fallið niður sökum vanlýsingarinnar, sbr. m.a. fyrrnefnda dóma Hæstaréttar. Þar sem stefnendur hafi ekki lýst veðkröfu innan kröfulýsingarfrests vegna innistæðnanna hafi skiptastjóra verið heimilt að ganga að innstæðunni sem hafi verið inn á reikningi búsins allt til þess að forúthlutun hafi farið fram síðla árs 2011.

                Stefndi bendi á að stefnendum hafi borið að hafa uppi sérstök mótmæli gagnvart skiptastjóra þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í kjölfar bréfs hans til kröfuhafa 27. nóvember 2008, ef stefnendur hafi talið ráðstöfun innstæðna á gjaldeyrisreikningi fara í bága við hagsmuni sína.  Stefnendur hafi ekki borið fyrir sig ætlaðan tryggingarétt sinn heldur hafi þeir aðeins haft uppi þær athugasemdir að betra væri að ,,halda í erlendan gjaldeyri í ljósi þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir um stöðu íslensku krónunnar.“ Sé á því byggt að stefnendum hafi verið og/eða mátt hafa verið kunnugt um að verið væri að vísa til hinna umþrættu innstæðna í evrum enda skýrt um það kveðið í bréfinu að ,,Þrotabúið á um 5,6 milljónir evra  [... ] á gjaldeyrisreikningum í Landsbanka (NBI).“  Á því sé byggt að stefnendur geti ekki gagnvart stefnda borið fyrir ætlaða bótaskylda háttsemi þegar stefnendur hafi ekki gert efnislegar athugasemdir gagnvart skiptastjóra vegna innstæðnanna nema hvað varði hugsanlega óvissu um gengi íslensku krónunnar. Jafnframt sé á því byggt að stefnendur hafi samþykkt ráðstöfun innstæðnanna með athafnaleysi sínu gagnvart skiptastjóra. Í ljósi þess að stefnendur hafi vitað og/eða mátt vita af ráðstöfun innstæðnanna af gjaldeyrisreikningnum hafi stefndi mátt treysta því að stefnendur gættu hagsmuna sinna gagnvart þrotabúinu en fyrrgreind ráðstöfun hafi átt sér stað u.þ.b. tveimur mánuðum fyrir lok kröfulýsingarfrests.  Hér beri að leggja á það áherslu að stefnendur séu stórar lánastofnanir. Með fyrrgreindu samþykki og/eða athafnaleysi hafi stefnendur glatað ætluðum rétti sínum gagnvart stefnda.

Stefndi mótmæli því að stefndi og/eða ótilgreindur starfsmaður stefnda hafi sýnt af sér bótaskylda háttsemi. Þegar beiðni hafi borist frá skiptastjóra 5. desember 2008, um færslu innstæðna yfir í íslenskar krónur, hafi ekkert verið sem benti til þess að gjaldeyrisreikningar Samsonar eignarhaldsfélags ehf. hefðu verið veðsettir. Við nánari skoðun hafi komið í ljóst að reikningur nr. 0101-38-711046 hafi verið stofnaður 27. mars 2007 af Landsbanka Íslands hf., sem nú sé í slitameðferð. Reikningurinn hafi aldrei verið merktur veðsettur og aldrei verið læstur af starfsmönnum bankans, þ.e. ekki fyrr enn 14. nóvember 2008 þegar honum hafi verið læst að beiðni skiptastjóra. Reikningur nr. 0111-38-714909 hafi verið stofnaður 24. október 2005 af Landsbanka Íslands hf. Reikningnum hafi verið læst 1. desember 2005 en læsingin verið tekin af reikningnum af starfsmanni Landsbanka Íslands hf. 23. maí 2007. Reikningurinn hafi þá verið ólæstur allt fram til þess að honum hafi verið læst 14. nóvember 2008 að beiðni skiptastjóra. Umtalsverðar hreyfingar hafi verið á reikningnum allt frá stofnun og ekkert bent til þess að hann væri veðsettur. Af þessu sé ljóst að starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. hafi láðst að merkja reikningana sem veðsetta, ef um það hafi verið samið. Jafnframt sé ljóst að láðst hafi að læsa öðrum reikningnum í upphafi, ef um  það hafi verið samið. Hinum reikningnum hafi verið læst, án þess að tilgreina ástæðu þess, en verið opnaður að nýju 23. maí 2007, líkt og fyrr greini, af starfsmanni Landsbanka Íslands hf. Þannig hafi starfsmanni stefnda, sem annaðist tilfærslu fjármuna búsins úr evrum í íslenskar krónur, verið ómögulegt að átta sig á því að Landsbanki Íslands hf. kynni að hafa undirritað yfirlýsingu sem gæti tengst umræddum samningum. Líkt og fram hafi komið á framlögðu yfirliti yfir reikninginn frá 26. febrúar 2008 sé reikningur nr. 0111-38-7149909 merktur þannig ,,Status: open“, en yfirlit þetta komi úr bókhaldi Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og með undirritun framkvæmdarstjóra hins gjaldþrota félags. Með öðrum orðum hafi reikningurinn ekki borið með sér að vera lokaður eða veðsettur. Sé því röng sú fullyrðing stefnenda að stefndi hafi vitað eða mátt vita af ætluðum veðréttindum stefnenda. Til viðbótar framangreindu hafi staðfestingar Landsbanka Íslands hf. hvorki verið vistaðar með öðrum gögnum viðskiptamanns í svokallað ,,Fakta-kerfi“ né skráð í svokallað ,,TS-kerfi“. Uppflettingar í þeim kerfum hefðu því ekki vakið upp grun um ætlaða veðsetningu hinna erlendu reikninga auk þess sem engin ástæða hafi verið til að fletta upp í þessum kerfum þar sem reikningarnir hafi ekki borið með sér að þeir hefðu verið veðsettir. Starfsmönnum stefnda hafi þannig hreinlega verið ómögulegt að átta sig á ætlaðri veðsetningu.

Ef litið verði svo á að ekki hafi verið heimilt að færa innistæður á gjaldeyrisreikningum yfir í íslenskar krónur, að beiðni skiptastjóra, verði ætlað tjón vegna þeirrar háttsemi ekki rakið til háttsemi starfsmanna stefnda heldur Landsbanka Íslands hf. enda leiði tjónið þá af þeirri háttsemi Landsbanka Íslands hf. að hafa ekki gengið réttilega frá reikningunum. Þeir hafi þannig hvorki verið skilgreindir sem veðsettir né læstir með skýringu um ástæðu þess. Hið ætlaða tjón leiði þannig af mistökum starfsmanna Landsbanka Íslands hf. við veðsetningu reikninganna og/eða opnun þeirra. Stefndi í máli þessu geti ekki borið ábyrgð á háttsemi Landsbanka Íslands hf. hafi hún leitt til tjóns fyrir stefnendur enda hafi skaðabótakröfur ekki færst á milli bankanna samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Beri af þeirri ástæðu að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. laga nr. 91/1991. Þá beri að hafa þetta í huga við mat á ætlaðri bótaskyldri háttsemi stefnda en til þess að stefndi geti borið bótaábyrgð á ætluðu tjóni stefnenda þurfi að sanna að stefndi og/eða starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og orsakasamband sé milli þeirrar háttsemi og ætlaðs tjóns. Sú sönnun hafi ekki tekist af hálfu stefnenda enda reikningarnir opnir og engin ástæða til að ætla að stefnendur eða aðrir nytu einhverra tryggingaréttinda. Þá sé ósannað að tilfærsla á fjármunum að beiðni skiptastjóra hafi leitt til tjóns fyrir stefnendur. Stefndi mótmæli sérstaklega þeim málatilbúnaði stefnenda að yfirtaka stefnda á innlánum frá Landsbanka Íslands hf. leiði til þess að stefndi hafi yfirtekið aðild í málinu eða unnt sé að hafa uppi bótakröfu á hendur stefnda. Jafnframt sé því sérstaklega mótmælt að flutningurinn hafi verið ,,meira í orði en á borði“ líkt og haldið sé fram í stefnu.

Þá sé á því byggt að ósannað sé að stefnendur eigi rétt til innstæðna á hinum umþrættu reikningum. Þann 25. febrúar 2008 hafi verið innleyst PEN EUR hlutdeildarskírteini í eigu Samsonar eignarhaldsfélags ehf. að fjárhæð 1.422.320 evrur að frádregnum fjármangtekjuskatti. Þessi hlutdeildarskírteini hafi verið án kvaða á sölulager í Verðbréfavog Samsonar eignarhaldsfélags ehf., þ.e. óveðsett. Þann 28. október 2008 hafi sjóðnum verið slitið og eftirstöðvarnar lagðar inn á reikning Samsonar eignarhaldsfélags ehf, þ.e. 465.952,99 evrur. Sé á því byggt að enda þótt umræddir reikningar kunni að hafa átt að vera veðsettir sé ósannað að innstæður á reikningunum tilheyri stefnendum. Sem dæmi hafi stefndi m.a. ástæðu til að ætla að söluandvirði hlutdeildarskírteinanna hafi fyrir mistök verið lagt inn á umrædda reikninga. Réttilega hafi átt að leggja inn á reikning nr. 0111-38-710283 í eigu Samsonar eignarhaldsfélags ehf. sem hafi ekki verið handveðsettur stefnendum. Ætla megi að mistökin leiði af því að miðlarar hafi ekki áttað sig á reikningarnir kynnu að vera veðsettir öðrum og því ekki ástæða til varfærni. Sé á því byggt að stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að söluandvirði hlutdeildarskírteinanna hafi átt að fara inn á reikninga veðsettan þeim en hér beri að hafa í huga að hlutdeildarskírteinin hafi ekki verið veðsett stefnendum og því engin raunveruleg ástæða til að ráðstafa hlutadeildarskírteinunum inn á reikning veðsettan stefnendum. Þá sé á því byggt að í kröfu stefnenda felist m.a. ólögmæt auðgun enda gerð krafa á hendur stefnda í formi skaðabótakröfu án þess að sannað sé að stefnendur hafi raunverulega átt rétt til þeirra hagsmuna sem sé grundvöllur kröfunnar. Jafnframt sé á því byggt að stefnendur geti aldrei átt rétt til söluandvirði hlutdeildarskírteinanna sem seld hafi verið 28. október 2008. Í því sambandi beri til þess að líta að þann 7. október 2008 hafi verið kveðinn upp úrskurður um heimild Samsonar eignarhaldsfélags ehf. til greiðslustöðvunar. Sá dagur marki því frestdag sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991. Af því leiði að greiðslan sem hafi farið fram 28. október 2008 inn á reikning nr. 0101-38-711046, að fjárhæð 465.952,99 evrur, eða 73.330.001 krónur, hafi farið fram eftir frestdag og því útilokað að stefnendur eigi rétt til þeirrar innstæðu, sem síðar hafi verið ráðstafað til kröfuhafa í formi forúthlutunar, þ.m.t. til stefnenda. Leiði þetta m.a. af XX. kafla laga nr. 21/1991, þ.m.t. 137. gr. sem fjalli um riftun tryggingaréttinda sem stofnist innan 6 mánaða frá frestdegi, 139. gr. laganna sem kveði á um að greiðsla skuldar eftir frestdag sé riftanleg og 141. gr. laganna sem kveði á um riftun ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra. Hafa beri í huga að stefnendur hafi verið grandsamir um greiðslustöðvun Samsonar eignarhaldsfélags ehf. enda verið mætt af hálfu þeirra í héraðsdóm 28. október 2008 í málinu X-19/2008, þ.e. sama dag og greitt hafi verið inn á reikning 01-38-711046, og þess krafist að heimild Samsonar eignarhaldsfélags ehf. til greiðslustöðvunar yrði ekki framlengd. Sé því augljóst að stefnendur hafi þá þegar vitað um ógjaldfærni Samsonar eignarhaldsfélags ehf. enda á því byggt af hálfu stefnenda í málinu X-19/2008, að ,,[v]eiting áframhaldandi greiðslustöðvunar þjóni því þeim tilgani einum að fresta óumflýjanlegu gjaldþroti Samsonar.“

Stefndi byggi á því að stefnendur hafi aldrei getað notið umræddra tryggingaréttinda gagnvart þrotabúinu hvað varði greiðsluna 28. október 2008 enda hafi tryggingaréttindin falið í sér riftanlega ráðstöfun en stefnendur geti ekki notið betri réttar gagnvart stefnda en gagnvart þb Samsonarar eignarhaldsfélags ehf. Ef krafan næði fram að ganga gagnvart stefnda í máli þessu felist í því ólögmæt auðgun enda krafa þeirra aldrei náð fram að ganga á hendur þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. en henni hefði eðli málsins samkvæmt verið rift. Þannig skorti alfarið orsakasamband milli ætlaðrar háttsemi stefnda og ætlaðs tjóns sem sé skilyrði bótaskyldu stefnda. Stefndi árétti að stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir kröfum sínum samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins. Stefnendur beri þannig m.a. sönnunarbyrði um að þeir hefðu fengið til sín innstæðurnar á reikningum félagsins á grundvelli ætlaðs handveðs hefði stefndi ekki fært innstæðurnar inn á reikning í íslenskum krónu að beiðni skiptastjóra 5. desember 2008. Jafnframt beri stefnendur sönnunarbyrði fyrir því að þeir hefðu fengið til sín andvirði reikninganna óháð þeirri staðreynd að stefnendur hafi ekki lýst kröfum í búið.

Stefndi telji að verði á það fallist að stefndi hafi sýnt af sér bótaskylda háttsemi sé á því byggt að stefnendur hafi sýnt af sér eigin sök sem leiði til missi bótaréttar og vísist þar til reglna skaðabótaréttarins um þýðingu þess að tjónþoli sýni af sér saknæma háttsemi. Hin bótaskylda háttsemi stefnenda felist í athafnaleysi þeirra sem lýst hafi verið hér að framan, þ.m.t. við kröfulýsingu og gagnvart ákvörðun skiptastjóra að færa innstæðurnar yfir í íslenskar krónur. Jafnframt sé á því byggt að stefnendur hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinna að afstýra tjóni og/eða takmarka tjón sitt.  Líkt og rakið hafi verið hafi stefnendum mátt vera ljóst, áður en kröfulýsingarfrestur rann út, að skiptastjóri hefði hug á að innleysa innstæður af umræddum gjaldeyrisreikningum. Fyrir liggi að stefnendur hafi ekki haft uppi athugasemdir er varði ætlaðu tryggingaréttindi sín. Þá liggi fyrir að stefnendur hafi ekki lýst kröfu í búið vegna ætlaðra tryggingaréttinda sinna en ljóst sé að það hafi verið gert fyrir mistök enda nýjar kröfulýsingar sendar skiptastjóra u.þ.b. níu mánuðum síðar þegar stefnendum varð ljós mistök sín. Sé á því byggt að stefnendum hafi verið í ,,lófa lagið að halda réttindum sínum fram gagnvart“ þrotabúinu, líkt og segi í dómum Hæstaréttar í málum nr. 459 og 460/2010.  Þar sem stefnendur hafi sýnt af sér eigin sök og sinntu ekki skyldu sinni að takmarka tjón sitt  beri að sýkna stefnda af kröfu stefnenda.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu sé á því byggt að lækka beri kröfur stefnanda verulega. Byggi krafa stefnda um lækkun krafna m.a. á sömu málsástæðum og fjallað hafi verið um hér að framan að breyttu breytanda. Sé m.a. á því byggt að stefnendur hafi ekki sinnt skyldu sinni að takmarkað tjón sitt sem leiði til þess, verði ekki fallist á sýknu af þeirri ástæðu, að lækka beri kröfur stefnenda. Jafnframt sé vísað í því sambandi til reglna skaðabótaréttarins um eigin sök, sbr. umfjöllunin hér að framan. Sé áréttað að stefnendum hafi borið að lýsa veðkröfu í búið til að viðhalda ætluðum tryggingaréttindum sínum. Ef niðurstaðan sé sú að tryggingaréttindin standi óháð kröfulýsingu sé ljóst að stefnendur hafi átt hvað sem öðru liði að lýsa veðkröfu í búið vegna innstæðnanna en vakin sé athygli á því að stefnendur hafi gert það hvað varði veðsett hlutabréf. Hér beri sérstaklega til þess að líta að stefnendur hafi vitað um ráðstöfun skiptastjóra áður en stefnendur lögðum fram kröfulýsingar sínar, þ.e. fyrir lok kröfulýsingarfrests. Hafi með öllu verið óeðlilegt að leggja bótaskylduna á stefnda að þessu leyti. Hvað sem öðru líði sé ekki unnt að leggja ábyrgðina að öllu leyti á stefnda þegar tjónið leiði að endingu af mistökum umræddra lánastofnana við kröfulýsingu. Ennfremur hafi stefnendur ekki sannað að þeir hefðu átt rétt til innstæðnanna en stefndi telji að innstæðurnar hafi ekki tilheyrt stefnendum þar sem innborganir inn á reikningana hafi átt sér stað fyrir mistök. Þá megi augljóst vera að stefnendur hafi aldrei getað átt rétt til greiðslu inn á reikning Samsonar eignarhaldsfélags ehf. vegna sölu óveðsettra hlutdeildarskírteina Samsonar eignarhaldsfélags ehf. eftir frestdag. Á þetta hafi aldrei reynt gagnvart þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. vegna vanlýsingar stefnenda gagnvart þrotabúinu en stefnendur geti ekki notið betri réttar gagnvart stefnda en gagnvart þrotabúinu.

Þá sé auk þess til þess að líta að hinir umþrættu fjármunir hafi runnið til þrotabúsins. Af því leiði að eignir búsins hafi aukist, sem aftur leiði til þess að stefnendur hafi fengið hærri fjárhæð úthlutað úr búinu í formi almennra krafna en ella. Stefnendur taki ekki tillit til þess í kröfugerð sinni. Ekki liggi fyrir hvað verði endanlega útgreiðsla úr búinu en á því sé byggt að taka verði tillit til þess að stefnendur hafi fengið hluta af innstæðunum úthlutað til sín í hlutfalli við samþykktar kröfur. Beri að lækka kröfur stefnenda í hlutfalli við þær fjárhæðir sem renni til hans af þessum sökum. Ef ekki liggi fyrir við aðalmeðferð málsins hver verði endanleg úthlutun úr búinu sé á því byggt af hálfu stefnda að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnenda en ella að sýkna stefnda að svo stöddu.

Verði fallist á kröfur stefnenda að einhverju leyti sé aðalkröfu stefnenda mótmælt um greiðslu í evrum. Til þess beri að líta að stefnendur hafi verið upplýstir um fyrirætlan skiptastjóra að færa innstæður yfir í íslenska mynt. Stefnendum beri að hafa uppi sérstök mótmæli við þeirri fyrirætlan og bera þann ágreining eftir atvikum undir dóm. Stefndi mótmæli jafnframt vaxtakröfu stefnenda þ.m.t. upphafstíma vaxta og dráttarvaxtakröfu stefnenda.

Stefndi vísar til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, einkum 116. gr., 118. gr.,122. gr., 124. gr., 137. gr., 139. gr., og 141. gr. laganna. Jafnframt vísar stefndi til 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Þá vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttar, þ.m.t. um tjónstakmörkunarskyldu og eigin sök. Kröfu um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Stefnendur höfða mál þetta sem skaðabótamál vegna ólögmætrar ráðstöfunar stefnda á fjármunum sem veðsettir höfðu verið stefnendum samkvæmt lánssamningum 27. október 2005 annars vegar og 28. mars 2007. Er á því byggt að stefnda hafi verið óheimilt að breyta innstæðum í evrum á hinum veðsettu reikningum yfir í íslenskar krónur og slíkt verið skýrt brot á skyldum stefnda samkvæmt veðsamningum sem stefndi hefði samþykkt. Með þessum færslum hafi stefnendur orðið fyrir tjóni og stefndi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnendum.

                Stefndi byggir varnir sínar í fyrsta lagi á því að hann sé ekki réttur aðili að málinu til varnar. Að því er þessa málsástæðu stefnda varðar er til þess að líta að Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skuldbindinga Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf. Samkvæmt 7. tl. ákvörðunarinnar yfirtók Nýji Landsbankinn hf. skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. Hinir veðsettu reikningar sem um er deilt í máli þessu voru í kjölfarið fluttir til Nýja Landsbankans hf., nú stefnda. Er stefndi því réttur aðili málsins til varnar. 

                Stefndi byggir varnir sínar að öðru leyti einkum á málsástæðum á grundvelli vanlýsingar af hálfu stefnenda sem leiði til þess að ætluð tryggingarréttindi stefnenda hafi verið honum glötuð. Skipti í þá ekki máli hvort stefndi hafi ráðstafað innstæðum í ósamræmi við umrædda lánssamninga, sem hann hafi reyndar ekki gert.

                Svo sem áður er rakið lýstu stefnendur kröfu í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. á lokadegi kröfulýsingarfrests með tveim kröfulýsingum dagsettum 21. janúar 2009. Var annars vegar um að ræða lánssamninginn frá 27. október 2005 og hins vegar lánssamninginn frá 28. mars 2007. Kemur fram í kröfulýsingum að kröfur byggi á nefndum lánssamningum, tryggðar með veði í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. Voru kröfur stefnenda samþykktar sem veðkröfur samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og þannig færðar á kröfuskrá, sem lögð var fram á skiptafundi 20. febrúar 2009. Stefnendur sendu inn nýja kröfulýsingu 23. september 2009 þar sem höfð var uppi krafa á grundvelli veðréttinda í innstæðum á bankareikningum. Með dómum Hæstaréttar í málum nr. 459/2010 og 460/2010 var slegið föstu að kröfur stefnenda nytu ekki forgangs sem kröfur í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. þar sem þeim var lýst eftir lok kröfulýsingarfrests.

                Krafa á hendur þrotabúi fellur niður sé henni ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Frá því eru gerðar lögmæltar undantekningar í ákvæðinu og tilvísun í því til ákvæða laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Á engin þeirra við um kröfu stefnenda. Stefnendum var því nauðsynlegt að lýsa kröfu í þb. Samsonar eignarhaldsfélags ehf. sem veðkröfu til að kröfur samkvæmt hinum veðsettu bankareikningum yrðu forgangskröfur. Óumdeilt er að það var ekki gert. Stefnendur geta ekki notið betri réttar gagnvart stefnda að þessu leyti á grundvelli reglna um orsakatengsl og kemur þá ekki til skoðunar hvort stefndi hafi brotið gegn samningi við stefnendur um varðveislu hinna veðsettu fjármuna. Verður stefndi því sýknaður af skaðabótakröfu stefnenda.

                Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

                Mál þetta flutti af hálfu stefnenda Sigurður Örn Hilmarsson héraðsdómslögmaður, en af hálfu stefnda Ólafur Örn Svansson hæstaréttarlögmaður.

                Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnenda, Basisbank PFS A/S, Beyerische Landesbank, Brookdale Int. Patrners L.P, Commerzbank AG, Finansiel Stabilitet A/S, HSH Nordbank AG, Natixis Phoenix Fund, Raiffeisen BAnk Int AG, Société Generale, Totalbanken A/S, UBI Banca Int., Unicredit Bank og United Overseas Bank Ltd.

                Málskostnaður fellur niður.