Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-51

Saga Construction ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
G&M Sp. z.o.o, útibúi á Íslandi (Eyvindur Sólnes lögmaður )

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Verksamningur
  • Reikningur
  • Riftun
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Gagnkrafa
  • Skuldajöfnuður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 5. apríl 2023 leitar Saga Construction ehf., áður Munck Íslandi ehf., leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. mars 2023 í máli nr. 752/2021: Munck Íslandi ehf. gegn G&M Sp. z.o.o, útibúi á Íslandi. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um greiðslu á ógreiddum reikningum í kjölfar riftunar leyfisbeiðanda á verksamningi þeirra. Aðilar höfðu gert með sér verksamninga á árunum 2015 og 2016 þar sem gagnaðili gerðist undirverktaki leyfisbeiðanda.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfur gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda. Aðilar rituðu undir samkomulag 2016 þar sem gagnaðili skuldbatt sig til að greiða starfsmönnum sínum laun í samræmi við íslensk lög en stæði gagnaðili ekki við skyldur sínar samkvæmt því væri leyfisbeiðanda heimilt að rifta öllum samningum aðila án frekari fyrirvara. Þá skuldbatt leyfisbeiðandi sig til að greiða 200.000 evrur til gagnaðila sem skyldi nýta féð til að greiða það sem vangoldið væri af launum starfsmanna gagnaðila. Leyfisbeiðandi rifti samningum aðila 2. nóvember 2016 og vísaði til þess að gagnaðili hefði ekki staðið við skyldu sína samkvæmt framangreindu samkomulagi. Gagnaðili mótmælti riftun og krafðist greiðslu á ógreiddum reikningum. Leyfisbeiðandi krafðist þess fyrir Landsrétti að dómur héraðsdóms yrði ómerktur þar sem niðurstaða hans um ólögmæti riftunar hefði verið byggð á íslenska staðlinum ÍST 30:2012 sem hefði hvorki verið hluti af samningum aðila né meðal málsgagna. Í dómi Landsréttar kom fram að staðallinn hefði að geyma almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir og að tilvísanir í dómi héraðsdóms til hans endurspegluðu almennar reglur sem giltu á sviði verksamninga. Yrði dómurinn því ekki ómerktur af þessari ástæðu. Með vísan til þess að leyfisbeiðandi hefði ekki staðið við skuldbindingu sína samkvæmt samkomulagi aðila um greiðslu og forsendna héraðsdóms að öðru leyti var hann staðfestur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi á sviði verktakaréttar. Dómur Landsréttar sé í ósamræmi við almennar reglur verktaka- og samningaréttar og dómaframkvæmd um heimild til þess að byggja á ákvæðum almennra skilmála sem ekki eru hluti verksamnings. Málið hafi einnig fordæmisgildi varðandi reglur um tómlæti verktaka við að innheimta og halda fram kröfum sínum. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur um forsendur riftunar verksamnings aðila. Það sé rangt, eða í hið minnsta ósannað í málinu, að leyfisbeiðandi hafi ekki staðið við greiðslu á 200.000 evrum til gagnaðila. Þá sé óumdeilt að gagnaðili hafi ekki greitt starfsmönnum sínum laun með réttum hætti. Leyfisbeiðandi hafi rift samningum aðila á grundvelli heimildar í samningi aðila og því hafi engin þörf verið á því að sýna sérstaklega fram á að gagnaðili hefði vanefnt verulega skyldur sínar.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.