Hæstiréttur íslands

Mál nr. 603/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


                                     

Þriðjudaginn 11. nóvember 2008.

Nr. 603/2008.

A

(Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

gegn

B

(Arnbjörg Sigurðardóttir hdl.)

 

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dóms- og kirkjumálaráðherra 2. nóvember 2008.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. nóvember 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 2. nóvember 2008. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fyrrgreind ákvörðun um nauðungarvistun verði felld úr gildi en til vara að nauðungarvistuninni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að þóknun til handa skipuðum talsmanni sínum verði greidd úr ríkissjóði. 

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að þóknun til handa skipuðum talsmanni hennar verði greidd úr ríkissjóði. 

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, héraðsdómslögmannanna Ólafs Rúnars Ólafssonar og Arnbjargar Sigurðardóttur, 120.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. nóvember 2008.

Mál þetta barst dómnum í gær og var tekið til úrskurðar á dómþingi í dag.

Sóknaraðili, A, kt. [...], [heimilisfang], krefst þess að fellt verði úr gildi samþykki dóms- og kirkju­mála­ráðuneytisins 2. nóvember sl. til nauðungarvistunar hans á sjúkrahúsi.

Varnaraðili, B, kt. [...], [heimilisfang], krefst þess að samþykki til nauðungarvistunar sóknaraðila verði staðfest.    

I.

Samkvæmt vottorði Kristins Eyjólfssonar læknis, dagsettu 1. nóvember 2008, sem beiðni varnaraðila um nauðungarvistun var studd við, hafði lögregla samband við lækninn 31. október sl. og bað hann um að skoða sóknaraðila að ábendingu starfs­manna geðdeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hafði lögregla sótt sóknaraðila að verkstæði hér í bænum þar sem hann hafði komið sér fyrir undir vörubíl.  Höfðu þeir sem þar unnu látið vita af ferðum hans.

Í vottorðinu kemur fram að vitað sé úr fyrri sögu að sóknaraðili hafi fengið greininguna „bipolar affective disorder og psykosis“.  Í lok árs 2006 hafi hann verið vistaður nauðugur á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, þar sem hann hafi þá verið meðferðar þurfi.  Síðan segir í vottorðinu að er læknir hafi komið á lögreglustöð hafi sóknaraðili verið áttaður á stað og stund. Hann hafi sagst hafa sofið illa undanfarinn einn mánuð, en ekki haldinn sjálfvígshugsunum. Erfitt hafi verið að ræða við hann og fá greinargóða sögu, þar sem hann hafi vaðið úr einu í annað.  Hann hafi neitað því að fara sjálfviljugur á geðdeild til skoðunar og mats, en talað um að hann vildi helst láta sig hverfa eitthvert suður, en ekki viljað gefa nánar upp hvert.  Eftir viðtalið hafi verið mat læknisins að sóknaraðili hefði mjög takmarkað sjúkdómsinnsæi, vafi léki á andlegu heilsufari hans og að baki lægi alvarlegur geðsjúkdómur. Væri nauðsynlegt að vista hann á sjúkrahúsi gegn vilja hans svo réttri meðferð yrði við komið. Þann 1. nóvember 2008 hafi geðdeild FSA síðan haft samband við lækninn til að meta andlegt heilsufar sóknaraðila þar sem mat vakthafandi læknis á geðdeild hafi verið að hjá sóknaraðila gætti vaxandi örlyndis með geðrofseinkennum, auk þess sem hann væri innsæislaus.  Hafi læknirinn rætt við sóknaraðila þann 1. nóvember klukkan 15:00 og þá komið fram að sjúkdómsinnsæi hans hafi ekki batnað frá því daginn áður.  Hann hafi ekki viljað vera inni á geðdeildinni og ekki viljað þiggja meðferð, en krafist þess að verða brautskráður tafarlaust.  Mat læknirinn það áfram svo að sóknaraðili hefði mjög takmarkað sjúkdómsinnsæi, vafi væri um andlegt heilsufar hans og að baki lægi alvarlegur geðsjúkdómur, sem krefðist vistunar á sjúkrahúsi gegn vilja hans, svo að réttri meðferð yrði við komið.      

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkti þann 2. nóvember sl. að sóknaraðili yrði vistaður á sjúkrahúsi og vakti jafnframt sérstaka athygli á m. a. ákvæðum 1. og 2. mgr. 29. gr. lögræðislaga.

II.

Eftir að krafa sóknaraðila barst dómnum leitaði dómari eftir vottorði frá Sigmundi Sigfússyni forstöðulækni um heilsufar sóknaraðila.  Í vottorðinu, sem er ritað í gær, segir að sóknaraðili hafi fyrst veikst af tvískautalyndisröskun í október 2006, verið lagður inn á geðdeild Landspítala - Háskólasjúkrahúss í geðhæð með geðrofseinkenni þann 21. nóvember 2006 og hafi þá verið heimiluð nauðungarvistun.  Sóknaraðili hafi útskrifast 8. desember 2006, en síðan fengið geðlægð og lagst sjálfviljugur inn á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri 28. febrúar 2007.  Hafi hann greinst haldinn alvarlegri geðlægð án geðrofseinkenna.  Þrátt fyrir samfellda meðferð með lyfjum og viðtölum hafi honum ekki batnað og þá hafi orðið samkomulag um að hann færi í rafkrampameðferð sem hafi skilað góðum árangri.  Hann hafi verið brautskráður 25. apríl 2007 en þá enn verið miður sín eftir meira en hálfs árs sjúkdómsbaráttu með fjárhag í rúst og lítil tengsl við sína nánustu.  Lögmaður hans hafi unnið að því að takmarka tjón hans út af óraunhæfum fjárfestingum, m.a. með því að óska eftir að kaup gengju til baka og koma í veg fyrir að skaðabótamál yrðu höfðuð á hendur sóknaraðila. Eftirfylgdarsamband við lækninn hafi verið stopult og sóknaraðili hafi ekki tekið lyf til að jafna lundina.  Fyrir tveimur til þremur vikum hafi verið farið að bera á ein­kennum geðhæðar öðru sinni og nætursvefn hafi verið stopull.  Hinn 31. október 2008 hafi vakthafandi heilsugæslulæknir, Kristinn Eyjólfsson, beðið um innlögn á geðdeild að undangenginni skoðun og hafi sóknaraðili verið lagður inn nauðugur.  Við komu á geðdeild hafi hann verið þreytulegur, æstur og ósáttur við sjúkrahúsvist. Hann hafi talað hiklaust og ákveðið þegar hann hafi tjáð sig um ástand sitt og athafnir, ekki talið sig hjálparþurfi en talið sig vera að missa af miklum fjárfestingamöguleikum og hótað að lögsækja lækna sem hindruðu hann frá þeim.  Hann hafi verið tortrygginn og fullur órökstuddra grunsemda um hverjir stæðu að baki innlögninni.  Hann hafi haft óeðlilega háar hugmyndir um sjálfan sig og tengsl sín við ráðandi menn í þjóðfélaginu sem myndu koma og bjarga honum.  Ofskynjanir hafi ekki komið fram og hann hafi virst áttaður á stað, stund og sjálfum sér, en dómgreind verið skert og sjúkdómsinnsæi ekkert.  Hann hafi afneitað því að vera haldinn geðhvarfasjúkdómi þrátt fyrir fyrri þungbæra reynslu sína af þeim sjúkdómi. Þó hafi hann samþykkt að hann ætti við svefnörðugleika að stríða og verið tilbúinn að taka svefntöflur.  Ákveðið hafi verið að hann vistaðist áfram gegn vilja sínum á geðdeild og hafi honum tekist að ná svefni með hjálp lyfja næstu þrjár nætur. Við skoðun læknis í gær, 3. nóvember, hafi sóknaraðili enn verið ósáttur við vistun sína á geðdeild og krafist útskriftar. Hann hafi talið að ýmsir erfiðleikar á vinnustað hafi mjög orðið til þess að hann hafi verið færður á sjúkrahúsið.  Lundarstig hafi enn verið verulega hækkað, talþrýstingur verið töluverður, hugarflug óeðlilega mikið og dómgreind verulega skert.  Hann hafi hótað geðlækni háum skaðabótakröfum ef hann yrði ekki látinn laus.  Frásögn hans hafi verið fremur ruglingsleg og óskipulögð.  Hafi hann hvorki haft sjúkdómstilfinningu né sjúkdómsinnsæi og ekki viðurkennt að eiga við lyndisröskun að stríða.

Niðurstaða forstöðulæknisins er að sóknaraðili sé haldinn tvískautalyndisröskun og yfirstandandi sé lota geðhæðar með geðrofseinkennum.  Sé það mat læknisins, sem hafi þekkt sóknaraðila í tvö ár, að hann þurfi nauðsynlega vegna ástandsins að fá læknismeðferð á sjúkrahúsi. Að öðrum kosti sé hætta á því að heilsa hans spillist enn frekar og hann vegna skertrar dómgreindar af völdum sjúkdómsins framkvæmi athafnir sem skaði hann t.d. fjárhagslega.

III.

Sóknaraðili kom hér fyrir dóm fyrr í dag og tjáði sig við dómara um kröfuna og atvik að baki henni og helstu fyrirætlanir sínar í bráð, ef á hana yrði fallist. Hann kannaðist við að hafa sofið lítið undanfarinn einn mánuð, enda hefði hann átt mjög annríkt við verkefni sem hann lýsti nánar. Hann kvaðst bæði þurfa að ganga frá kaupum og sölu á atvinnutækjum og ganga frá virðisaukaskattskýrslum þess vegna. Einnig kvaðst hann hafa í huga að taka það rólega í eina til tvær vikur og heimsækja vini sína. Kom fram að hann var ósammála forstöðulækni um að hann þyrfti að vistast á sjúkra­húsi.

Eftir að hafa rætt við sóknaraðila er það mat dómara, innan þeirra marka sem almenn þekking og reynsla hans setur, að í meginatriðum hafi sú viðræða staðfest lýsingu í framangreindum læknisvottorðum á helstu einkennum á framkomu og frásögn sóknaraðila. Líta verður til vottorðs heilsugæslulæknis og sérstaklega vottorðs forstöðulæknis, hvað það varðar að sóknaraðili hafi sem stendur afar lítið innsæi í sjúkdómsástand sitt. Álit forstöðulæknis hljóðar um að hætta sé á að heilsa sóknaraðila spillist enn frekar, fái hann ekki læknismeðferð á sjúkrahúsi, auk þess sem hann kynni að valda sjálfum sér fjárhagslegu tjóni vegna skertrar dómgreindar. Telur dómurinn að þessu athuguðu ekki verða dregið í efa með réttu að uppfyllt séu skilyrði 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 fyrir því að vista sóknaraðila nauðugan á sjúkrahúsi.  Verður kröfu hans því hafnað.

Með vísan til 17. gr. sömu laga verður þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og skipaðs verjanda varnaraðila greidd úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Virðisaukaskattur er þar innifalinn.

Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð :

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um niður­fellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem samþykkt var af dóms- og kirkju­mála­ráðuneytinu 2. nóvember 2008.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl. og skipaðs talsmanns varnaraðila, Arnbjargar Sigurðardóttur hdl., 74.700 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.