Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-136

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Stefán Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Skattalög
  • Einkahlutafélag
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Skilorð
  • Sekt
  • Vararefsing
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 23. nóvember 2023 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. október sama ár í máli nr. 777/2022: Ákæruvaldið gegn X. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fólst brot leyfisbeiðanda í því að hafa sem starfandi framkvæmdastjóri og meðstjórnandi A ehf. látið hjá líða að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins og staðgreiðslu opinberra gjalda. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að leyfisbeiðandi hefði fylgst með og verið kunnugt um fjárhagsstöðu og skattskil félagsins án þess að bregðast við með þeim hætti sem honum bar að gera sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félagsins. Með því hefði hann sýnt af sér hirðuleysi um fjármál félagsins og lögboðin skattskil.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar hafi verulegt almennt gildi um stöðu og hlutverk framkvæmdastjóra og hvort þeir beri ábyrgð á athöfnum annarra aðila sem hafa með höndum rekstur félags og þá einkum þegar um ræðir menn með reynslu og þekkingu á rekstri. Þá byggir hann á því að niðurstaðan sé bersýnilega röng og ekki hafi verið horft til fyrirliggjandi gagna í málinu sem sýndu fram á takmarkaða aðkomu leyfisbeiðanda að fjármálum félagsins. Annar meðákærða í héraði hafi gegnt stöðu fjármálastjóra félagsins og annast samskipti við skattyfirvöld.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.