Hæstiréttur íslands

Mál nr. 64/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001.

Nr. 64/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X kærði þann úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur að hann sætti gæsluvarðhaldi. Fallist var á með sóknaraðila að fullnægt væri skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir X. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. febrúar 2001 kl. 16:00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2001.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að fimmtudaginn 15. febrúar sl. hafi starfsmaður fyrirtækisins VISA Ísland haft samband við lögregluna í Reykjavík vegna misnotkunar á kreditkorti viðskiptavinar fyrirtækisins.  [...].

Að mati lögreglu hafi kærði gefið mjög ótrúverðugar skýringar á aðild sinni að málinu.

Rannsókn málsins sé á frumstigi og vegna rannsóknarhagsmuna þyki nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að tryggja návist hans og koma í veg fyrir að hann spilli sakargögnum, hafi samband við aðra þá sem tengst geta málinu eða komist undan.  Að mati lögreglunnar séu því miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfu hennar svo framangreind mál verði upplýst.

Kærði sé ásamt öðrum grunaður um mörg brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.

[...]

Framburður kærða um þátt hans í málinu þykir afar ótrúverðugur.  Með vísan til þess og [...] þykir kærði vera undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga, en það getur varðað hann fangelsisrefsingu.

Rannsókn málsins er á frumstigi, en kærði var handtekinn í gærkvöldi.  [...] Í ljósi þessa þykir hætta á að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og samseka fari hann frjáls ferða sinna.

Með vísan til framanritaðs og a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. febrúar 2001 kl. 16:00.