Hæstiréttur íslands

Mál nr. 385/2002


Lykilorð

  • Málskostnaðartrygging
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 28

 

Mánudaginn 28. apríl 2003.

Nr. 385/2002.

Lykilhótel hf.

(Jón Gunnar Zoëga hrl.)

gegn

Styrmi Þórðarsyni

(Atli Gíslason hrl.)

 

Málskostnaðartrygging. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Máli L hf. gegn S var vísað frá Hæstarétti þar sem málskostnaðartrygging var ekki afhent innan frests sem L hf. hafði til að afhenda trygginguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. ágúst 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi lagði fram í Hæstarétti greinargerð 30. október 2002, þar sem hann krafðist staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar hér fyrir dómi.

Með bréfi 12. nóvember 2002 krafðist stefndi þess með vísan til 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að áfrýjanda yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Var þessi krafa reist á því að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá áfrýjanda og gjaldþrotaskipta síðan krafist á búi hans eftir að stefndi lagði fram áðurnefnda greinargerð. Hæstiréttur féllst 27. mars 2003 á kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu og var fjárhæð hennar ákveðin 200.000 krónur. Skyldi tryggingin sett með peningum eða bankaábyrgð og var áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda hana eða skilríki fyrir henni. Síðasti dagur til þessa var samkvæmt því 10. apríl 2003.

Með bréfi lögmanns áfrýjanda, sem barst Hæstarétti 11. apríl 2003, fylgdi ávísun að fjárhæð 400.000 krónur og var tekið þar fram að um væri að ræða málskostnaðartryggingu vegna þessa máls og hæstaréttarmálsins nr. 386/2002. Frestur til að afhenda tryggingu var samkvæmt framansögðu liðinn þegar bréf þetta barst. Þegar af þeirri ástæðu verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti með vísan til 3. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 38/1994.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi, Lykilhótel hf., greiði stefnda, Styrmi Þórðarsyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.