Hæstiréttur íslands
Mál nr. 205/2002
Lykilorð
- Eftirlaun
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 5. desember 2002. |
|
Nr. 205/2002. |
Kolbeinn Ingi Kristinsson(Hanna Lára Helgadóttir hrl.) gegn Höfn hf. (Einar S. Hálfdánarson hrl.) |
Eftirlaun. Samningur.
Samkvæmt starfslokasamningi K við HÞ skyldi hann fá launagreiðslur eftir að hann lét af störfum hjá HÞ, frá 1. júlí 1996 fram til 20. maí 2003. Fékk K greiddar rúmlega 106.000 krónur á mánuði frá 1. júlí 1996 til loka júní 2001, fyrst frá HÞ en síðan frá öðrum félögum, sem tóku við skyldum HÞ samkvæmt samningnum, síðast frá félaginu KU. H lýsti kröfu við nauðasamningsumleitanir KU vegna ábyrgðar H á umræddum greiðslum til K. Var krafan tekin til greina. Í málinu krafðist K aðallega sömu fjárhæðar og greidd hafði verið mánaðarlega samkvæmt samningnum, fram til loka samningstímabilsins. Eftir orðanna hljóðan varð ákvæði samningsins um launagreiðslur ekki skilið öðru vísi en svo að H hafi skuldbundið sig til að tryggja að K hefði fram til 20. maí 2003 mánaðarlegar tekjur, sem ekki yrðu lægri en 216.000 krónur, með því að greiða honum það sem kynni að vanta á þá fjárhæð hverju sinni þegar tillit hefði verið tekið til lífeyrisgreiðslna. Ekki hafi verið ráðgert að fjárhæðin, sem brúa ætti bilið milli lífeyrisgreiðslna og fyrrnefndra mánaðarlegra lágmarkstekna, tæki neinum breytingum á tímabilinu. Með því að greiða K allt frá upphafi nánast sömu fjárhæð mánaðarlega í rétt fimm ár, án nokkurs tillits til lífeyrisgreiðslna, varð að líta svo á að félögin, sem á ýmsum tímum stóðu að greiðslum til K samkvæmt samningnum, hafi í verki breytt efni hans K í hag og skuldbundið sig þannig að greiða honum mánaðarlega ekki lægri fjárhæð en 106.422 krónur án tillits til lífeyrisgreiðslna úr hendi annarra. Var fallist á aðalkröfu K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2002. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 741.954 krónur, til vara 700.000 krónur, en að því frágengnu 319.429 krónur, allt með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. ágúst 2001 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði áfrýjandi samning 15. júní 1995 við Höfn-Þríhyrning hf. í tengslum við starfslok hans sem framkvæmdastjóri félagsins 31. desember sama árs. Nýr samningur var síðan gerður milli þeirra um sama efni 25. mars 1996. Í báðum þessum samningum voru ákvæði um launagreiðslur til áfrýjanda eftir að hann léti af störfum. Í þeim síðari var ákvæðið svohljóðandi: „Frá og með 1. júlí 1996 er áætlað að Kolbeinn og kona hans hafi í tekjur frá félagslegum lífeyrissjóðum og í ellilífeyri frá ríkinu um kr. 116.000 ... á mánuði. Frá og með 1. júlí 1996 greiðir Höfn-Þríhyrningur h.f. eða hvert það félag, sem kynni að taka við starfsemi Hafnar-Þríhyrnings h.f. Kolbeini kr. 100.000 ... á mánuði eða aðra þá upphæð, sem tryggir honum mánaðarlegar tekjur að upphæð alls kr. 216.000 ...“. Áfrýjandi átti að njóta þessara greiðslna fram til 20. maí 2003. Um önnur atriði en tímabilið, sem hann átti að fá greitt fyrir, voru ákvæði samninganna efnislega samhljóða að þessu leyti.
Fyrir liggur í málinu að Höfn-Þríhyrningur hf. stóð straum af framangreindum greiðslum til áfrýjanda frá 1. júlí 1996 til loka desember 1997. Á þessu tímabili var fjárhæð þeirra 106.482 krónur á mánuði. Í málinu hafa ekki komið fram skýringar á því hvernig sú fjárhæð var fundin, en af málflutningi aðilanna verður að ætla að munurinn á henni og þeim 100.000 krónum, sem um ræddi í samningnum frá 25. mars 1996, tengist með öllu eða að einhverju marki breytingum á verðlagi frá því að upphaflegi samningurinn var gerður 15. júní 1995, en þar var síðastnefnda fjárhæðin ákveðin. Höfn-Þríhyrningi hf. mun í janúar 1998 hafa verið skipt í tvö félög, annars vegar stefnda Höfn hf. og hins vegar Sláturhúsið Þríhyrning hf. Um sömu mundir mun stefndi hafa stofnað nýtt félag, Kjötvinnsluna Höfn hf. Óumdeilt er að við skiptingu Hafnar-Þríhyrnings hf. tók stefndi við þeim skyldum við áfrýjanda, sem kveðið var á um í framangreindum samningum, og færði þær síðan áfram á Kjötvinnsluna Höfn hf. Síðastnefnt félag innti af hendi greiðslurnar til áfrýjanda mánaðarlega á tímabilinu frá janúar 1998 til desember 2000. Var fjárhæð þeirra 106.422 krónur og hefur stefndi ekki andmælt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að mistök hafi valdið því að þær reyndust 60 krónum lægri á mánuði en áður var. Loks kveður áfrýjandi hlutafélagið Kjötvinnsluna Höfn hafa verið „selt“ Kjötumboðinu hf. í lok árs 2000 og það félag tekið við greiðsluskyldu við hann. Í janúar og febrúar 2001 hafi Kjötumboðið hf. greitt honum 106.422 krónur hvorn mánuð, en síðan lækkað greiðslur án samráðs við hann í 100.000 krónur, sem staðið hafi verið skil á mánaðarlega vegna mars til júní 2001. Áður en frekari greiðslur voru inntar af hendi hafi Kjötumboðið hf. fengið heimild til greiðslustöðvunar og í framhaldi af því heimild til að leita nauðasamnings. Áfrýjandi lýsti kröfu við nauðasamningsumleitanir Kjötumboðsumboðsins hf. vegna greiðslna, sem voru annars vegar komnar þá í gjalddaga og hins vegar ógjaldfallnar á tímabilinu fram í maí 2003. Stefndi lýsti þar einnig kröfu sama efnis vegna ábyrgðar sinnar á greiðslum til áfrýjanda. Mun krafa stefnda hafa verið tekin til greina við nauðasamningsumleitanirnar, en kröfu áfrýjanda hafnað. Áfrýjandi hefur ekki fengið frekari greiðslur á grundvelli umrædds samningsákvæðis en nú hefur verið getið.
Í málinu krefst áfrýjandi þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 741.954 krónur eða sem svarar 106.422 krónum á mánuði vegna tímabilsins frá og með júlí 2001 til og með janúar 2002, en þó að því gættu að ljóst er að heildarfjárhæðin er vanreiknuð um 3.000 krónur. Til vara krefst áfrýjandi greiðslu á 700.000 krónum eða sem nemur 100.000 krónum á mánuði á umræddu tímabili. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess fyrir Hæstarétti að sér verði dæmdar 319.429 krónur úr hendi stefnda. Þá fjárhæð finnur áfrýjandi með því að draga frá sjöföldum þeim 216.000 krónum, sem kveðið var á um í samningnum frá 25. mars 1996, samanlagða fjárhæð ellilífeyris síns og eiginkonu sinnar frá Tryggingastofnun ríkisins í hverjum mánuði frá júlí 2001 til janúar 2002, auk greiðslna til sín úr lífeyrissjóði, en mismunurinn, sem samkvæmt útreikningi áfrýjanda er breytilegur milli mánaða á þessum tíma, nemi alls áðurnefndum 319.429 krónum.
Stefndi andmælir því ekki að hann beri ábyrgð gagnvart áfrýjanda á efndum samningsins frá 25. mars 1996. Stefndi telur á hinn bóginn að áfrýjandi hafi um lengri tíma fengið greidda of háa fjárhæð, þar sem greiðslur til hans úr lífeyrissjóði og til hans og eiginkonu hans úr almannatryggingum hafi numið talsvert meira mánaðarlega en þeim 116.000 krónum, sem miðað hafi verið við í samningnum. Eftir útreikningi stefnda fékk áfrýjandi þannig ofgreiddar samtals 1.149.366 krónur á árunum 1998, 1999 og 2000, sem stefndi krefst að komi til skuldajafnaðar að því leyti, sem krafa áfrýjanda kynni að verða tekin til greina. Að auki séu kröfur áfrýjanda of háar, því í aðalkröfu hans og varakröfu komi ekki til frádráttar allar greiðslur úr lífeyrissjóði og almannatryggingum, auk þess sem á skorti að tekið sé fullt tillit til þessara greiðslna í þrautavarakröfu.
II.
Eftir orðanna hljóðan verður framangreint ákvæði í samningi áfrýjanda við Höfn-Þríhyrning hf. frá 25. mars 1996 ekki skilið öðru vísi en svo að félagið hafi skuldbundið sig til að tryggja að áfrýjandi hefði fram til 20. maí 2003 mánaðarlegar tekjur, sem ekki yrðu lægri en 216.000 krónur, með því að greiða honum það, sem kynni að vanta á þá fjárhæð hverju sinni þegar tillit hefði verið tekið til þess, sem hann fengi greitt úr lífeyrissjóði og hann ásamt eiginkonu sinni í ellilífeyri úr almannatryggingum. Kom og fram í ákvæðinu að miðað við aðstæður þegar samningurinn var gerður væri áætlað að mánaðarlegar greiðslur félagsins til áfrýjanda yrðu 100.000 krónur.
Við aðalmeðferð málsins kom meðal annarra til skýrslugjafar fyrir héraðsdómi Gestur Hjaltason, en hann kvaðst hafa verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Hafnar-Þríhyrnings hf. frá ársbyrjun 1996. Hann greindi frá því að þáverandi formaður stjórnar félagsins hafi annast fyrir hennar hönd undirbúning að gerð samningsins frá 25. mars 1996. Hafi stjórnarformaðurinn skýrt samningsákvæðið, sem um ræðir í málinu, á þann hátt fyrir öðrum forráðamönnum félagsins að það tæki með þessu á sig skyldu til að tryggja áfrýjanda 216.000 krónur í lágmarkstekjur á mánuði með því að brúa bilið á milli þeirrar fjárhæðar og lífeyris, sem hann nyti frá öðrum. Aðspurður kvaðst Gestur ekki minnast þess hvort eintak af samningnum hafi verið afhent félaginu, sem tók við skyldum gagnvart áfrýjanda af Höfn-Þríhyrningi hf., en „það voru nú kannski hæg heimatökin því að fyrrverandi fjármálastjóri Hafnar-Þríhyrnings varð svo framkvæmdastjóri Hafnar. Honum var kunnugt um þennan samning.“
Eftir hljóðan samningsins frá 25. mars 1996 var ekki ráðgert að þær 216.000 krónur, sem tryggja átti áfrýjanda sem mánaðarlegar tekjur, tækju neinum breytingum á tímabilinu fram til 20. maí 2003. Á hinn bóginn mátti frá öndverðu vera ljóst að greiðslur til áfrýjanda úr lífeyrissjóði og fjárhæð ellilífeyris til hans og eiginkonu hans úr almannatryggingum gætu orðið breytilegar af margvíslegum ástæðum. Ef haga átti greiðslum til áfrýjanda eftir þeim skilningi á orðalagi samningsins, sem áður er getið og forráðamenn Hafnar-Þríhyrnings hf. virðast jafnframt samkvæmt fyrrgreindum framburði hafa lagt í hann, hefði af þessum sökum bersýnilega þurft að afla frá áfrýjanda reglubundinna upplýsinga um heildarfjárhæð lífeyris, sem hann og eftir atvikum maki hans nytu frá öðrum. Aldrei virðist hafa verið leitað slíkra upplýsinga, hvorki af hendi Hafnar-Þríhyrnings hf., Kjötvinnslunnar Hafnar hf. né Kjötumboðsins hf., sem eins og áður er rakið önnuðust greiðslurnar til áfrýjanda á mismunandi tímum, en að gættum áðurgreindum framburði fyrir dómi er að minnsta kosti ljóst að forráðamönnum Kjötvinnslunnar Hafnar hf. hafi auk stjórnenda fyrstnefnda félagsins verið kunnugt um efnisatriði samningsins, sem greiðslurnar voru reistar á. Þess í stað fékk áfrýjandi allt frá upphafi nánast sömu fjárhæð greidda mánaðarlega í rétt fimm ár án nokkurs tillits til þess, sem hann fékk úr lífeyrissjóði og hann ásamt maka sínum úr almannatryggingum. Er þess og að gæta að þegar greiðu reistar á. Þess í stað fékk áfrýjandi allt frá upphafi nánast sömu fjárhæð greidda mánaðarlega í rétt fimm ár án nokkurs tillits til þess, sem hann fékk úr lífeyrissjóði og hann ásamt maka sínum úr almannatrslur samkvæmt samningnum féllu niður stóðu aðeins eftir tæp tvö ár af gildistíma hans. Að öllu þessu virtu verður að líta svo á að félögin, sem á ýmsum tímum stóðu að greiðslum til áfrýjanda samkvæmt samningnum frá 25. mars 1996, hafi í verki breytt efni hans áfrýjanda í hag og skuldbundið sig þannig til að greiða honum mánaðarlega ekki lægri fjárhæð en 106.422 krónur án tillits til lífeyrisgreiðslna úr hendi annarra. Við þessa breytingu verður stefndi nú að vera bundinn.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á aðalkröfu áfrýjanda og stefnda gert að greiða honum 741.954 krónur ásamt dráttarvöxtum, svo sem í dómsorði greinir. Stefndi verður jafnframt dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Höfn hf., greiði áfrýjanda, Kolbeini Inga Kristinssyni, 741.954 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 106.422 krónum frá 1. ágúst 2001 til 1. september sama árs, af 212.844 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 319.266 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 425.688 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 532.110 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 638.532 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs og af 741.954 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. febrúar 2002 er höfðað 9. nóvember 2001.
Stefnandi er Kolbeinn Ingi Kristinsson, Háengi 3, Selfossi.
Stefndi er Höfn hf., Ánanaustum 15, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 741.954 krónur með dráttarvöxtum og vanefndaálagi Seðlabanka Íslands samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af 106.422 krónum frá 1. ágúst 2001 til 31. ágúst 2001, af 212.844 krónum frá 1. september til 30. september 2001, af 319.266 krónum frá 1. október 2001 til 31. október 2001, af 425.688 krónum frá 1. nóvember 2001 til 30. nóvember 2001, af 532.110 krónum frá 1. desember 2001 til 31. desember 2001, af 638.532 krónum frá 1. janúar 2002 til 31. janúar 2002 og af 741.954 krónum frá 1. febrúar 2002 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 700.000 krónur með dráttarvöxtum og vanefndaálagi Seðlabanka Íslands samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af 100.000 krónum frá 1. ágúst til 31. ágúst 2001, af 200.000 krónum frá 1. september til 30. september 2001, af 300.000 krónum frá 1. október 2001 til 31. október 2001, af 400.000 krónum frá 1. nóvember til 30. nóvember 2001, af 500.000 krónum frá 1. desember 2001 til 31. desember 2001, af 600.000 krónum frá 1. janúar til 31. janúar 2002 og af 700.000 krónum frá 1. febrúar 2002 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar samvæmt mati dómsins.
Málsatvik.
Stefnandi starfaði sem framkvæmdastjóri hlutafélagsins Hafnar frá 1. janúar 1976. Eftir sameiningu Hafnar hf. og Þríhyrnings hf. í eitt félag starfaði hann sem forstjóri þess fram til 31. desember 1995. Gerður var starfslokasamningur milli stefnanda og Hafnar-Þríhyrnings hf., 15. júní 1995. Í 1. gr. samningsins kemur fram að stefnandi muni láta af störfum sem forstjóri félagsins 31. desember 1995, en muni starfa áfram í eitt ár sem félagslegur ráðgjafi stjórnarinnar og halda óbreyttum launakjörum sínum. Í 3. gr. samningsins er svofellt ákvæði: ,,Frá og með 1. janúar 1997 er áætlað að Kolbeinn og kona hans hafi í tekjur frá félagslegum lífeyrissjóðum og í ellilífeyri frá ríkinu um kr. 116.000.-(Eitthundrað og sextán þúsund krónur) í tekjur á mánuði hverjum. Eftir að Kolbeinn lætur af reglulegum störfum fyrir félagið 31. desember 1996 greiðir Höfn-Þríhyrningur H.F. eða hvert það félag, sem kynni að taka við starfsemi Hafnar-Þríhyrnings H.F. honum kr. 100.000.-(Eitthundraðþúsund krónur) á mánuði eða aðra þá upphæð, sem tryggir honum mánaðarlegar tekjur alls kr. 216.000.-(Tvöhundruð og sextánþúsund krónur.) á mánuði fram til 31. desember 2005, þegar launagreiðslur (sic) samkvæmt þessum samningi líkur (sic) að fullu.”
Nýr starfslokasamningur var gerður við stefnanda 25. mars 1996 sem kom í stað fyrri samnings og felldi hann úr gildi. Í 2. gr. samningsins var sett samsvarandi ákvæði 3. gr. fyrri samnings og er svohljóðandi: ,,Frá og með 1. júlí 1996 er áætlað að Kolbeinn og kona hans hafi í tekjur frá félagslegum lífeyrissjóðum og í ellilífeyri frá ríkinu um kr 116.000. (Eitthundraðog sextánþúsund krónur) á mánuði. Frá og með 1. júlí 1996 greiðir Höfn-Þríhyrningur h.f. eða hvert það félag, sem kynni að taka við starfsemi Hafnar-Þríhyrnings h.f. Kolbeini kr. 100.000 (Eitthundraðþúsund krónur) á mánuði eða aðra þá upphæð, sem tryggir honum mánaðarlegar tekjur að upphæð alls kr. 216.000.-(Tvöhundruð og sextánþúsund krónur) á mánuði fram til 30. júní árið 2005.” Í 5. gr. samningsins er hins vegar ákvæði um að starfslokagreiðslur stefnanda falli niður 20. maí 2003 í stað 30. júní 2005.
Höfn-Þríhyrningur hf. greiddi stefnanda 106.482 krónur á mánuði fyrir mánuðina júlí 1996 til og með desember 1997. Höfn-Þríhyrningi hf. var skipt upp í félögin Höfn hf. og sláturhúsið Þríhyrning hf. 30. september 1997. Stefndi Höfn hf., stofnaði hlutafélagið Kjötvinnsluna Höfn hf. 5. janúar 1998. Það félag tók við greiðsluskyldu samkvæmt starfslokasamningnum og greiddi stefnanda 106.422 krónur á mánuði allt til loka ársins 2000. Goði hf. hafði þá keypt Kjötvinnsluna Höfn hf. og yfirtekið greiðsluskyldu vegna starfslokasamnings stefnanda og greiddi stefnanda 106.422 krónur fyrir mánuðina janúar og febrúar 2001 hvorn um sig. Goði hf. lækkaði greiðslu til stefnanda í 100.000 krónur á mánuði fyrir mánuðina mars-júní 2001. Goða hf. var veitt heimild til greiðslustöðvunar til 20. ágúst 2001 og var sú heimild framlengd til 20. nóvember 2001. Umboðsmaður Goða hf. hafnaði greiðslum til stefnanda á grundvelli greiðslustöðvunarinnar. Kjötumboðið hf. (áður Goði hf. ) fékk leyfi til nauðasamninga 22. nóvember 2001. Stefnandi lýsti kröfu sinni í bú félagsins með bréfi dags. 4. desember 2001. Stefndi lýsti einnig kröfu sinni í bú félagsins með bréfi dags. 18. desember 2001. Kröfu stefnanda í bú félagsins var hafnað þar sem sömu kröfu hafði verið lýst af stefnda.
Stefndi, Höfn hf. gerir ekki ágreining um greiðsluskyldu sína samkvæmt starfslokasamningi stefnanda. Ágreiningur stendur eingöngu um hvernig túlka skuli ákvæði 3. gr. fyrri starfslokasamnings og 2. gr. síðari samnings um að stefnandi skuli fá greiddar 100.000 krónur á mánuði eða ,,aðra þá upphæð sem tryggi honum mánaðarlegar tekjur alls kr. 216.000.-“.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur stefnandi sjálfur og Gestur Hjaltason.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á starfslokasamningi sem stefndi beri ábyrgð á. Stofnast hafi ótvíræð ábyrgð stefnda á efndum samningsins með skiptingu Hafnar-Þríhyrnings, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995, þar sem skuldbinding Hafnar-Þríhyrnings hf. gagnvart stefnanda hafi komið í hlut stefnda. Samningur stefnda við Kjötvinnsluna Höfn hf. um yfirtöku þess félags á skuldbindingum stefnda gagnvart stefnanda hafi verið gerður án samráðs og samþykkis stefnanda. Sama gildi um yfirtöku Goða hf. á skuldbindingunni við kaup þess félags á Kjötvinnslunni Höfn hf., en það félag hafi orðið gjaldþrota 24. september 2001. Stefnandi kveður að stefndi hafi haldið því fram að ábyrgð stefnda verði ekki virk fyrr en sýnt sé að Goði hf. geti ekki staðið við hina yfirteknu skuldbindingu. Þessi mótbára sé ekki í samræmi við lög og ótvíræða skyldu stefnda til að standa við starfslokasamning stefnanda. Ákvæði 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995, sbr. 6. gr. laga nr. 117/1997, sem byggð sé á 6. gr. sjöttu tilskipunar Evrópuráðsins takmarki á engan hátt ábyrgð stefnda, hvorki vegna yfirtöku annarra aðila á skuldbindingunni né fjárhæð hennar, enda hafi eigið nettóverðmæti stefnda við skiptinguna verið langt umfram þá fjárhæð sem svari skuldbindingu hans gagnvart stefnanda. Ofangreindu ákvæði sé ætlað að tryggja hagsmuni lánardrottna og gera þá ekki verr setta en þeir voru við skiptingu félags. Þá liggi ekki fyrir að stefnandi geti átt beina kröfu á Goða hf., þar sem samningur hafi ekki verið gerður milli þeirra. Um þetta vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar frá árinu 1994, bls. 1719.
Stefnandi kveður að umsamin tilgreind mánaðargreiðsla, 100.000 krónur hafi verið lágmarksgreiðsla sem hafi átt að ákvarðast endanlega við upphaf starfslokagreiðslna og hafi þá ákvarðast með hliðsjón af ákvæði 2. gr. síðari starfslokasamnings, sem 106.482 krónur, en sú fjárhæð hafi síðar orðið 106.422 krónur, væntanlega fyrir mistök. Sé ekki annað að sjá af orðalagi samningsins og framkvæmd hans, en að báðir aðilar hafi litið svo á að greiðsla þessi yrði óbreytanleg framtíðargreiðsla út samningstímabilið. Það sé fyrst í mars 2001, sem Goði hf. lækki þessa greiðslu einhliða í 100.000 krónur á mánuði. Aðalkröfu sína miðar stefnandi því við að mánaðarleg greiðsla eigi að nema 106.422 krónum. Í munnlegum málflutningi benti stefnandi á að starfslokasamningur þessi tryggði stefnanda ekki há laun, fjárhæðir væru t.am. ekki verðtryggðar. Þá hafi ætíð verið skilningur stefnanda að umsamin fjárhæð, 100.000 krónur væri lágmarksgreiðsla.
Stefnandi vísar til 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. 6. gr. laga nr. 117/1997. Þá vísar stefnandi til almennra reglna samningaréttar um efndir samninga, sbr. lög nr. 7/1936 svo og almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveður að samkvæmt skýru orðalagi starfslokasamnings stefnanda hafi verið ætlun aðila að tryggja stefnanda mánaðarlegar tekjur að upphæð alls 216.000 krónur. Svo virðist sem Kjötvinnslan Höfn hf. og síðar Kjötumboðið hf. Goði, hafi ekki verið um þetta kunnugt og sjálfkrafa greitt þá upphæð sem færð hafi verið inn í launakerfið í upphafi. Stefndi sjálfur hafi aldrei innt þessa greiðslu af hendi, heldur hafi skuldbindingin verið hluti eigna og skulda sem lagður hafi verið fram sem þáttur í hlutafjáraukningu Kjötvinnslunnar Hafnar hf. í upphafi árs 1998.
Í afriti skattframtals stefnanda vegna ársins 2000 megi sjá að tekjur stefnanda og eiginkonu hans hafi numið 1.761.349 krónum eða 146.779 á mánuði. Því sé ljóst að stefnanda hafi verið ofgreitt og beri að draga það frá kröfu hans sem honum hafi verið ofgreitt. Stefndi sé réttur aðili til að gera slíka kröfu því að ljóst sé að skuldbindingin muni nú lenda á honum af fullum þunga þótt hann hafi falið öðrum að efna hana.
Niðurstaða.
Í 2. gr. starfslokasamnings stefnanda við Höfn-Þríhyrning hf. frá 25. mars 1996 er kveðið svo á um að Höfn-Þríhyringinur hf. eða hvert það félag sem kynni að taka við starfsemi Hafnar-Þríhyrnings hf. skuli greiða stefnanda 100.000 krónur á mánuði eða aðra þá fjárhæð sem tryggi honum mánaðarlegar tekjur alls 216.000 krónur. Af hálfu stefnda er því ekki mótmælt að hann sé réttur aðili til efnda á greiðsluskyldu samkvæmt starfslokasamningi þessum, enda kemur sá skilningur stefnda m.a. fram í greinargerð hans, sem og kröfulýsingu hans í bú Kjötumboðsins hf. Ágreiningur stendur hins vegar um fjárhæð mánaðarlegra greiðslna til stefnanda.
Í málinu er fram komið að þau félög er voru skuldbundin á undan stefnda til að greiða stefnanda samkvæmt starfslokasamningi greiddu stefnanda í upphafi 106.422 krónur mánaðarlega og síðar 100.000 krónur. Í samningi aðila var beinlínis kveðið á um að upphaflegur viðsemjandi, Höfn-Þríhyrningur hf., eða hvert það félag sem tæki við starfsemi upphaflegs viðsemjanda tæki við greiðsluskyldu samkvæmt samningi aðila. Frá upphafi samningsgerðar hlaut því stefnanda að vera ljóst að greiðsluskylda samkvæmt samningnum gat færst í aðrar hendur en upphaflegs viðsemjanda, án samþykkis stefnanda. Greiðsluskylda samkvæmt samningnum hvílir nú á stefnda, sem hefur hins vegar aldrei innt af hendi greiðslur samkvæmt honum. Verður þá ekki talið að stefndi hafi á einn eða annan hátt samþykkt þá fjárhæð sem fyrirrennarar hans greiddu stefnanda eða sé bundinn af henni.
Í ofangreindu ákvæði starfslokasamningsins er sérstaklega tekið fram hverjar áætlaðar tekjur stefnanda og eiginkonu hans eru frá félagslegum lífeyrissjóðum og áætluð fjárhæð ellilífeyris, samtals um 116.000 krónur. Í framhaldi þess er kveðið svo á um að stefnandi fái greiddar 100.000 krónur, eða aðra þá fjárhæð sem tryggi honum mánaðarlegar tekjur alls 216.000 krónur. Orðalag ákvæðisins bendir eindregið til þess að ætlun samningsaðila hafi verið að skuldbinda Höfn-Þríhyrning hf., eða það félag sem tæki við starfsemi Hafnar-Þríhyrnings hf. til þess að greiða stefnanda mismun fjárhæðar þeirrar sem stefnandi og eiginkona hans hafi í ellilífeyri og frá félagslegum lífeyrissjóðum og þeirrar fjárhæðar sem tilgreind er í samningnum, 216.000 krónur. Að öðrum kosti hefði vart verið tiltekið hverjar aðrar tekjur stefnandi og eiginkona hans fengu mánaðarlega. Í framburði Gest
s Hjaltasonar fyrrum framkvæmdastjóra Hafnar-Þríhyrnings hf., fyrir dómi kom og fram að sá skilningur hefði verið meðal stjórnarmanna Hafnar-Þríhyrnings hf., að þar sem lífeyrisréttindi stefnanda væru ekki mikil, greiddi félagið stefnanda þá fjárhæð sem nægði til að tryggja honum greiðslur samtals að fjárhæð 216.000 krónur á mánuði.
Af framlögðum gögnum er ljóst að frá þeim tíma er stefnandi miðar kröfugerð sína við,/o:p>
Í ljósi atvika málsins þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o rð:
Stefndi, Höfn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Kolbeins Inga Kristinssonar.
Málskostnaður fellur niður.