Hæstiréttur íslands
Mál nr. 136/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 12. mars 2008. |
|
Nr. 136/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt föstudagsins 18. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðahaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, [kt. og heimilisfang], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. apríl 2008 kl. 16.00 en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans.
Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að lögreglan hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á 4.639,5 g af amfetamíni og 594,70 g af kókaíni sem fundist hafi við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins UPS á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. Lögreglunni hafi jafnframt borist upplýsingar um að starfsmaður UPS á Keflavíkurflugvelli, kærði í máli þessu, hafi séð um að halda ákveðinni leið opinni fyrir innflutning fíkniefna og samkvæmt upplýsingum hafi þessi innflutningsleið verið notuð áður og staðið til að nota hana á ný. Í þágu rannsóknar málsins hafi lögreglan handtekið þann 23. og 24. janúar fimm manns, m.a. A og B, kærða og C. Þeir hafi allir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Lögreglan kveður rannsókn málsins í fullum gangi og miði henni áfram. Unnið sé að rannsókn málsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og sé beðið eftir upplýsingum erlendis frá varðandi samskiptamáta kærðu. Lögregluna gruni að miklu magni fíkniefna hafi verið komið til landsins með þessum hætti undanfarna mánuði og ár. Rannsóknin beinist að því hverjir hafi fjármagnað innflutninginn og móttekið þau. Rannsókn málsins hafi þegar leitt í ljós að þessi innflutningur hafi a.m.k. staðið frá vormánuðum 2005. Lögreglan sé að rannsaka tölvubúnað í þessu sambandi og úrvinnslu banka- og símagagna sem lögreglan hafi aflað. Þessi rannsókn standi enn yfir en ekki hafi öll gögn borist lögreglu erlendis frá. Rannsókn málsins sé því umfangsmikil og verði henni flýtt eftir föngum. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 24. janúar sl. en neitað aðild að málinu. Hann þyki hins vegar undir sterkum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Hann hafi að mati lögreglu verið ósamvinnuþýður og gefið við yfirheyrslur afar ótrúverðugan framburð. Meint aðild kærða þyki mikil og sé hann talinn tengjast skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefna og gegnt lykilhlutverki í þessu meinta broti. Þá sé einnig lagt til grundvallar kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald að um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Því telji lögreglan með tilliti til almannahagsmuna nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að sterkur grunur sé um að kærði hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er því fullnægt til að gæsluvarðhaldi verði beitt eins og krafist er.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærða, X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. apríl 2008 kl. 16.00 en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans.