Hæstiréttur íslands

Mál nr. 642/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð


                                     

Miðvikudaginn 8. október 2014.

Nr. 642/2014.

 

Flugskóli Helga Jónssonar ehf. og

dánarbú Helga Jónssonar

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Eyvindur Sólnes hrl.)

 

Kærumál. Útburðargerð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa Í um að því væri heimilt að fá F ehf. og dánarbú H borna út úr tilgreindum mannvirkjum í sinni eigu með beinni aðfarargerð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sér yrði heimilað að fá sóknaraðila borna með beinni aðfarargerð út úr nánar tilgreindum mannvirkjum á Reykjavíkurflugvelli. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, fékk Jytte Th. M. Jónsson leyfi 13. janúar 2009 til setu í óskiptu búi eftir lát eiginmanns síns, Helga Jónssonar, 6. september 2008. Varnaraðila hefði því að réttu lagi borið að beina að henni kröfu um aðfarargerð, en ekki dánarbúi Helga Jónssonar, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að í beiðni varnaraðila um aðfarargerð var tiltekið að fyrirsvarsmaður dánarbús Helga Jónssonar væri Jytte Th. M. Jónsson og tóku sóknaraðilar báðir til varna gegn kröfu varnaraðila. Þessi annmarki á málatilbúnaði varnaraðila getur af þessum sökum ekki fengið því breytt að með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2014.

I

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 4. september sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur með aðfararbeiðni, sem móttekin var 5. mars sl.

                Sóknaraðili er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.

                Varnaraðilar eru Flugskóli Helga Jónssonar ehf., Reykjavíkurflugvelli og dánarbú Helga Jónssonar, Bauganesi 44, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að varnaraðilar verði, ásamt öllu sem þeim tilheyrir og öllum sem finnast þar fyrir, bornir út úr flugskýli 7 á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9310 merking 25 0101 og skóla- og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9328, merking 26 0101, með beinni aðfarargerð. Þá er krafist málskostnaðar, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

                Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og varnaraðilum verði tildæmdur málskostnaður ásamt virðisaukaskatti. 

II

Málavextir

Með beiðni sem barst réttinum 6. mars sl. fór sóknaraðili fram á að varnaraðilar yrðu bornir út úr ofangreindum fasteignum á Reykjavíkurflugvelli. Fasteignirnar eru samtengdar, þ.e. skóla- og verksmiðjuhúsið er byggt við flugskýlið. Af framlögðum gögnum má ráða að málið eigi sér langa forsögu. Þannig hafa mál er varða eignarréttindi yfir fasteignunum ítrekað komið til kasta dómstóla. Með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 18. nóvember 2002 í máli nr. 482/2002, var kröfu Flugmálastjórnar Íslands um að SHI eignarhaldsfélag ehf. yrði borið úr viðbyggingunni, með beinni aðfarargerð, hafnað á þeirri forsendu að félagið og forverar hans, þ.m.t. Helgi Jónsson, hefðu unnið hefð á henni, með umráðum í 47 ár áður en Flugmálastjórn gerði athugsemdir við að húsið væri á lóð íslenska ríkisins. Hinn 2. maí 2003 afsalaði fyrrgreint einkahlutafélag viðbyggingunni til sóknaraðila og er hann nú skráður þinglýstur eigandi hennar skv. framlögðu veðbandayfirliti. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 12. september 2013, í máli nr. 162/2013, var eignarréttur sóknaraðila yfir flugskýlinu viðurkenndur. Var því hafnað að Helgi Jónsson og síðar dánarbú hans, sem hafði haft afnot þess um áratugaskeið væri eigandi þess eða hefði öðlast eignarréttindi yfir því fyrir hefð. Isavia ohf., sem hefur umsjón með rekstri Reykjavíkurflugvallar fyrir hönd sóknaraðila, sendi varnaraðila, Flugskóla Helga Jónssonar ehf., bréf þann 11. febrúar 2014 þar sem þeim tilmælum var beint til félagsins að fjarlægja alla lausafjármuni og rýma fasteignir þær sem um ræðir í máli þessu. Jafnframt var varnaraðila gerð grein fyrir því að lokað yrði fyrir rafmagn og vatn til umræddra bygginga 21. febrúar 2014. Ástæða þessa var sögð fyrirhugað niðurrif á viðbyggingunni sem hefði verið dæmd ónýt og heilsuspillandi af hálfu heilbrigðisfulltrúa Reykjavíkurborgar. Bréfi þessu var svarað af hálfu varnaraðila 18. febrúar 2014 þar sem fyrirhuguðum aðgerðum var mótmælt. Að ósk Isavia ohf. lokaði Orkuveita Reykjavíkur fyrir rafmagn og vatn til umræddra fasteigna. Var lokuninni mótmælt með bréfi lögmanns varnaraðila. Var meðal annars vísað til þess að fyrir lægi ágreiningur um afnotarétt varnaraðila af flugskýlinu þótt skorið hefði verið úr um eignarréttindi. Þá vísuðu varnaraðilar til þess að lokun fyrir rafmagn og hita á öðrum byggingum myndi hafa í för með sér lokun á sömu orku á núverandi skrifstofu og í skólahúsnæði Flugskóla Helga Jónssonar ehf.

III

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að hann sé eigandi fasteigna þeirra sem um ræðir í málinu. Hann mótmælir því að í gildi sé leigusamningur milli aðila. Reynt hafi verið að innheimta leigugjöld vegna afnota Helga Jónssonar á flugskýlinu og hafi verið sendir út greiðsluseðlar til hans um árabil. Samkvæmt forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 162/2013 hafi þótt sannað að Helgi greiddi leigugjöld vegna skýlisins á árunum 1996 og 1997. Annað liggi ekki fyrir um meintan leigusamning milli aðila. Til að fyrirbyggja allan vafa að þessu leyti hafi meintum afnotaréttindum varnaraðila hins vegar verið sagt upp með bréfi lögmanns Flugmálastjórnar frá 8. febrúar 2005. Ári síðar hafi varnaraðilum verið sent bréf þar sem krafa um rýmingu hafi verið áréttuð, sbr. bréf frá 28. mars 2006. Sé þannig ljóst að hafi verið um einhver leiguréttindi að ræða hafi þau fallið niður þann dag. Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðilar geti byggt einhvern rétt á framhaldandi hagnýtingu eignanna líkt og um ótímabundinn samning sé að ræða enda hafi verið skorað á þá að rýma eignirnar.

Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðilar hafi öðlast ótímabundinn afnotarétt af fasteignunum með samingi við þriðja mann.

Sóknaraðili byggir á því að þar sem varnaraðilar hafi nú umráð umræddra bygginga, án neinna eigna- eða afnotaréttinda, beri að fallast á kröfu um útburð enda sé sóknaraðila þannig aftrað að neyta réttinda sinna.

Um lagarrök vísar sóknaraðili til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Málsástæður varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er áréttað að mál þetta eigi sér langa sögu, eða allt frá árinu 1951 þegar flugskýli hafi verið tekið niður í Vestmannaeyjum og flutt til Reykjavíkurflugvallar og hluti þess reistur sem flugskýli nr 7. Strax eftir að skýlið hafi verið reist hafi flugskólinn Þytur hf. fengið skýlið til endurgjaldslausra afnota. Varnaraðilinn Helgi Jónsson hafi gert kaupsamning við Þyt hf. í apríl 1968 [samkvæmt framlögðu skjali er hann dagsettur 19. maí 1969] um kaup á fasteignum félagsins, flugvélum og varahlutum og ýmsum búnaði, þar á meðal á afnotarétti af nefndu flugskýli, sem varnaraðilar hafa notað samfellt frá þeim tíma að telja til dagsins í dag, og aldrei greitt leigu með peningagreiðslum. Í kaupsamningnum við Þyt hf. segi meðal annars um það sem selt var: „aðstöðu seljanda á Reykjavíkurflugvelli, það er að segja húsnæði flugskólans á Reykjavíkurflugvelli, ásamt afnotum af flugskýli, sem er í eigu Flugmálastjórnarinnar, svo og rétt til afnota af benzíntanki í eigu Olíufélagsins hf.“ Hliðstætt ákvæði hafi verið í afsali sem móttekið hafi verið til þinglýsingar 28. mars 1972, en þar hafi verið tilgreint að kaupunum fylgdi: „Aðstaða í flugskýli og afnotaréttur af benzíntanki, eða m.ö.o. húsnæði sem flugskólinn Þytur hf. hafði á Reykjavikurflugvelli og afnot af flugskýli í eigu Flugmálastjórnar og rétt til afnota af benzíntanki í eigu Olíufél. hf.‟ Með samningi 1. nóvember 1992 hafi skiptastjóri  f.h. þrotabús Helga Jónssonar tekið á leigu flugskýlið frá 1. nóvember 1992 þar til flugvélar, sem geymdar voru í skýlinu, hefðu verið seldar. Ekki liggi fyrir hvenær leigusamningnum hafi lokið en Helgi hafi fengið bú sitt afhent að nýju úr hendi skiptastjóra. Þá liggja fyrir gögn um að Helgi hafi greitt leigugjald af skýlinu til Flugmálastjórnar á árunum 1996 og 1997. Í héraðsdómsmálinu nr. A-93/2006 sem hafi verið útburðarmál og sé efnislega sambærilegt við kröfur þessa máls segi meðal annars þar sem reifuð séu sjónarmið og málsástæður sóknaraðila (Flugmálastjórnar) „Varnaraðilar hafi haft afnot af skýlinu samkvæmt samningi sem sagt hafi verið upp með eins árs fyrirvara samanber 3. tl. 56. gr. húsaleigulaga nr 36/1994. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. sömu laga teljist uppsagnarfrestur hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send og skuli leigjandi hafa lokið rýmingu og frágangi hins leigða eigi síðar en kl. 13:00 næsta dag eftir að uppsagnarfresti hafi lokið. Varnaraðilar eigi því að vera búnir að rýma eignina, en þar eð þeir hafi ekki gert það sé krafist útburðar á grundvelli 78. gr. laga um aðför nr 90/1989.“ Þá vísa varnaraðilar til hæstaréttardóms í málinu nr. 468/2003, kærumál Flugmálastjórnar Íslands gegn Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf. en í rökstuðningi Flugmálastjórnar í I. kafla dómsins komi fram: „Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi gert munnlegan leigusamning við varnaraðila um þessi afnot gegn tiltekinni mánaðarlegri leigugreiðslu sem varnaraðilar hafi ekki staðið skil á. Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 hafi honum verið heimilt að rifta samningnum og leita eftir heimild héraðsdóms til að fá varnaraðila borna út úr húsnæðinu með beinni aðfarargerð. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt reikninga fyrir árin 1996 og 1997 ásamt hreyfingarlistum úr bókhaldi sínu vegna sömu ára. Samkvæmt kæru sóknaraðila er þessum gögnum ætlað að sanna að með greiðslu á níu reikningum á árunum 1996-1997 hafi varnaraðilar viðurkennt að þeir leiði afnotarétt sinn af flugskýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli frá leigusamningi við sóknaraðila.“ Þá benda varnaraðilar á að í II. kafla sama hæstaréttardóms segi: „Eins og áður greinir reisir sóknaraðili kröfu sína á því að sökum vanefnda varnaraðila hafi honum verið heimilt að rifta samningi aðila, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 36/1994. Samkvæmt ákvæðinu er leigusala rétt að rifta leigusamningi ef leigjandi greiðir ekki leiguna og sinnir ekki áskorun leigusala þar um. Hin almenna regla 2. mgr. ákvæðisins um að réttur til riftunar falli niður sé hans ekki neytt innan tveggja mánaða á ekki við þegar ástæða riftunar er vanefnd á greiðslu leigu. Í skýringum með 2. mgr. 61. gr. í frumvarpi til laganna er tekið fram að leigusali geti samt sem áður glatað riftunarrétti sínum fyrir athafnaleysi í lengri tíma en sanngjarnt og eðlilegt má telja. Í málinu liggur fyrir að aðilar gerðu ekki með sér skriflegan samning um afnot varnaraðila af umræddu flugskýli. Þá hafa varnaraðilar andmælt þeim fullyrðingum sóknaraðila að þeir hafi gert með sér munnlegan leigusamning á árinu 1996. Af gögnum málsins má ráða að varnaraðilar hafa um nokkurra ára skeið verið með aðstöðu í skýlinu vegna starfsemi sinnar. Liggur ekki annað fyrir en að þeir hafi annast allt viðhald á skýlinu á eigin kostnað. Hefur sóknaraðili ekki skýrt með viðhlítandi hætti hvers vegna sá kostnaður eigi ekki að ganga upp í greiðslu leigu. Gegn andmælum varnaraðila verður ekki heldur séð að sóknaraðili hafi gert reka að því að krefjast greiðslu úr hendi varnaraðila fyrir þessi not þeirra á nefndu skýli. Nægir í þessu sambandi ekki að vísa til gamalla reikninga og hreyfingarlista úr bókhaldi sóknaraðila. Hvað sem líður eignarhaldi sóknaraðila að umræddu flugskýli liggur ekkert fyrir í málinu um réttindi hans að verkstæðisrými í umræddri viðbyggingu. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar. Samkvæmt öllu framanröktu verður úrskurður héraðsdóms staðfestur.“

Byggja varnaraðilar á að samkvæmt ofangreindu sé staðfest að sóknaraðili hafir margsinnis og með margvíslegum hætti viðurkennt að varnaraðilar einn eða báðir hafi haft afnotarétt að flugskýlinu. Eina uppsögnin sem til er í málinu sé margra ára gömul eða frá 8. febrúar 2005 og 28. mars 2006. Samkvæmt 3. tl. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 skuli uppsagnarfrestur ótímabundins leigusamnings vera eitt ár eftir 10 ára leigutíma á atvinnuhúsnæði. Útburðarkrafa nú verði ekki byggð á uppsögn frá árinu 2005. Sóknaraðili hafi fylgt uppsagnarbréfunum eftir með aðfararbeiðni þann 11. maí 2006 samanber úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr A-93/2006 þann 6. júlí 2006 og dómi Hæstaréttar 17. ágúst 2006 í málinu nr 407/2006. Megináhersla sóknaraðila og grundvallarafstaða sé, og hafi ævinlega verið, að leiguréttur væri í gildi milli aðilanna. Við þær yfirlýsingar sé sóknaraðili bundinn. Þess vegna hafi sóknaraðila verið skylt að tilkynna varnaraðila um uppsögn með sama hætti og gert hafi verið árin 2006 og 2007. Jafnframt sé sóknaraðila skylt að meta framlag varnaraðila til endurbóta og viðhalds á flugskýlinu til uppgjörs á afnotum þess. Líta verði svo á að viðhalds- og endurbótakostnaður leigutaka teljist  leigugreiðsla. Benda varnaraðilar á að flugskýlið sé mjög frumstætt að gerð og búnaði. Hafi varnaraðilar gert margvíslegar endurbætur og viðhald á flugskýlinu. Kostnaður nemi háum fjárhæðum, a.m.k. fjórum milljónum króna.

                Í munnlegum málflutningi vísuðu varnaraðilar jafnframt til þess að þeir byggðu afnotarétt sinn af umræddum fasteignum á kaupsamningi þeirra við Flugskólan Þyt efh. frá 19. maí 1968 sem þinglýst hafi verið.

IV

Niðurstaða

                Sóknaraðili krefst í máli þessu að varnaraðilar verði bornir út úr flugskýli 7 á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9310 merking 25 0101 og skóla- og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9328, merking 26 0101, með beinni aðfarargerð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er sóknaraðili réttmætur eigandi umræddra fasteigna. Þess skal getið að síðarnefndri fasteign, sem er viðbygging við flugskýlið, er ekki lýst með sama hætti í fasteignaskrá og þinglýsingabókum. Þannig er fasteignin sögð 188 m², notkun „sérbygging-iðnaður“ í fasteignaskrá en „skóla- og verksmiðjuhúsnæði“ skv. þinglýsingabókum. Í afsali SIH eignarhaldsfélags ehf. til sóknaraðila frá 2. maí 2003 kemur fram að félagið afsali til sóknaraðila „fasteigninni 188 fm. skrifstofuhúsnæði á Reykjavíkurflugvelli, með fastanúmerinu 202-9328, matshluti 26 0101“ en afsal þetta er sögð eignarheimild sóknaraðila í þinglýsingabók, sbr. framlagt veðbandayfirlit. Verður því ekki annað ráðið en að um sömu fasteign sé að ræða og að eignarréttur sóknaraðila yfir henni sé ótvíræður. Umrædd viðbygging hefur staðið auð í mörg ár. Hefur heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dæmt hana ónýta og heilsuspillandi og jafnframt mælt fyrir um að hún verði rifin, sbr. fyrirliggjandi bréf eftirlitsins frá 18. september 2010. Með bréfi Isava ohf., sem fer með rekstur Reykjavíkurflugvallar, dagsettu 11. febrúar 2014, var skorað á varnaraðilann, Flugskóla Helga Jónssonar ehf., að rýma ofangreindar eignir en ekki var orðið við því. Þar sem fyrir liggur skýr eignarheimild sóknaraðila yfir ofangreindum eignum kemur til skoðunar hvort óbein eignarréttindi varnaraðila yfir þeim hamli því að krafa sóknaraðila nái fram að ganga.

Samkvæmt gögnum málsins gerði sóknaraðili (Flugmálastjórn Íslands) fyrst árið 2003 kröfu um að varnaraðilar yrðu bornir út úr flugskýlinu. Byggðist krafan á því að hann hefði rift leigusamningi við varnaraðila sökum vanefnda þeirra á greiðslu fyrir leigu. Hæstiréttur hafnaði kröfu sóknaraðila með dómi í máli nr. 468/2003, sem kveðinn var upp 17. desember 2003. Í dómi réttarins kemur m.a. fram að ekki verði séð að sóknaraðili hafi gert reka að því að krefjast greiðslu úr hendi varnaraðila fyrir not þeirra af flugskýlinu. Var því ekki talið að hann hefði sýnt fram á réttmæti kröfu sinnar. Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila 8. febrúar 2005 sagði sóknaraðili þeim upp afnotum af flugskýli nr. 7 með árs uppsagnarfresti. Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila 28. mars 2006 var skorað á varnaraðila að rýma húsnæðið þegar í stað, að öðrum kosti yrði höfðað útburðarmál á hendur þeim. Þar sem varnaraðilar rýmdu ekki húsnæðið krafðist sóknaraðili þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að þeir yrðu bornir út úr því. Með úrskurði dómsins frá 6. júlí 2006 var kröfu sóknaraðila hafnað með þeim rökum að ekki hefði verið lagður fram samningur um að varnaraðilarnir hefðu tekið flugskýlið á leigu og þá lægju heldur ekki fyrir viðhlítandi gögn um eignarrétt að því eða að sóknaraðili hefði á annan hátt þau réttindi yfir því að hann gæti krafist útburðargerðar til að víkja varnaraðilunum af eigninni. Var sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna með dómi Hæstaréttar frá 17. ágúst 2006 í máli nr. 407/2006. Með opinberri stefnu sem birt var í Lögbirtingablaðinu 5. janúar 2010 höfðaði sóknaraðili mál á hendur hverjum þeim sem teldist til réttar yfir flugskýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli. Gerði sóknaraðili þá kröfu að viðurkenndur yrði eignarréttur hans að flugskýlinu. Dánarbú Helga Jónssonar tók til varna og krafðist þess að kröfum sóknaraðila yrði hafnað. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 18. desember 2012 var fallist á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu eignarréttarins og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar frá 12. september 2013 í máli nr. 162/2013.

Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi á fyrri stigum málsins viðurkennt leigurétt varnaraðila að flugskýlinu. Þar sem leigunni hafi ekki verið sagt upp í samræmi við ákvæði húsaleigulaga beri að hafna kröfu sóknaraðila. Eins og rakið er að framan sagði sóknaraðili varnaraðilum upp afnotum af flugskýlinu í febrúar 2005 með árs fyrirvara. Að loknum uppsagnarfresti fylgdi sóknaraðili kröfunni eftir með því að skora á varnaraðila að rýma húsnæðið en þeir urðu ekki við þeirri kröfu. Krafðist sóknaraðili í kjölfarið útburðar á varnaraðilum en þeirri kröfu var hafnað þar sem vafi léki á um eignarrétt. Er því ekki unnt að líta svo á að framangreind uppsögn hafi fallið úr gildi fyrir athafnaleysi sóknaraðila. Þá er óhjákvæmilegt að horfa til þess að af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðilar sjálfir telji sig vera með leigusamning við sóknaraðila um flugskýlið. Þannig hefur ekkert verið lagt fram af þeirra hálfu um að þeir hafi greitt leigu af því til sóknaraðila, hvort sem er beint til hans eða með öðrum hætti, t.d. með viðhaldi á skýlinu í hans þágu. Má enn fremur ráða af reifun á málsástæðum varnaraðilans, dánarbús Helga Jónssonar, sem raktar eru í framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. desember 2012 að dánarbúið hafi byggt á því að Helgi hefði aldrei gert leigusamning við sóknaraðila eða greitt til hans leigu. Að virtu öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að varnaraðilar séu ekki með gildandi leigusamning við sóknaraðila um leigu flugskýlisins sem hamli því að sóknaraðila verið gert að neyta eignarréttinda sinna yfir því.

Af málatilbúnaði varnaraðila verður ekki ráðið að þeir telji sig vera með leigurétt um viðbygginguna við flugskýlið, þ.e. fasteign með fastanúmer 202-9328, merking 26 0101, og kemur það atriði því ekki til skoðunar.

Í munnlegum málflutningi vísuðu varnaraðilar jafnframt til þess, sýknukröfu sinni til stuðnings, að þeir hefðu samningsbundinn rétt til ótímabundins og gjaldlausra afnota af hinum umþrættu fasteignum á grundvelli kaupsamnings sem Helgi heitinn Jónsson gerði við flugskólann Þyt hf., en samningnum hafi verið þinglýst sem kvöð á eignirnar. Samkvæmt framlögðum kaupsamingi frá 19. maí 1969 seldi flugskólinn Helga „aðstöðu seljanda á Reykjavíkurflugvelli, það er að segja húsnæði flugskólans á Reykjavíkurflugvelli, ásamt afnotum af flugskýli, sem er í eigu Flugmálastjórnarinnar, svo og rétt til afnota afbenzíntanki í eigu Olíufélagsins h.f.“ Í afsali flugskólans 2. maí 1973 til Helga vegna kaupanna, var tilgreint að kaupunum fylgdi „Aðstaða í flugskýli og afnotaréttur af benzíntanki, eða m.ö.o. húsnæði sem flugskólinn Þytur hf. hafði á Reykjavíkurflugvelli og afnot af flugskýli í eigu Flugmálastjórnar og rétt til afnota af benzíntanki í eigu Olíufél. hf.“. Að mati dómsins gefur framangreindur samningur, sem er milli Helga og þriðja manns, ekki annað til kynna en að Helga væri heimil notin af tilgreindum eignum þar til annað yrði ákveðið af hálfu sóknaraðila. Hvað varðar viðbygginguna þá er rétt að taka fram að með umræddum kaupsamningi var ekki samið um afnot af henni heldur var hún þá seld Helga en eins og fram hefur komið eignaðist sóknaraðili þá byggingu síðar með samningi við SIH eignarhaldsfélag ehf. Samkvæmt framangreindu er því ekki unnt að fallast á það að kaupsamningurinn hamli því að sóknaraðila verið gert að neyta eignarréttinda sinna yfir fasteignum þeim sem um ræðir í málinu, þ.e. flugskýli og viðbyggingu við hana. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett.

                Með vísan til þessara málsúrslita verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 kr.

Ekki eru efni til þess að mæla sérstaklega fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.

                Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sóknaraðila, íslenska ríkinu, er heimilt að láta bera varnaraðila, Flugskóla Helga Jónssonar ehf. og dánarbú Helga Jónssonar, ásamt öllu sem þeim tilheyrir og öllum sem finnast þar fyrir, út úr flugskýli 7 á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9310, merking 25 0101 og skóla- og verksmiðjuhúsi á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9328, merking 26 0101, með beinni aðfarargerð.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 kr. í málskostnað.