Hæstiréttur íslands
Mál nr. 615/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 23. september 2014. |
|
Nr. 615/2014.
|
A (Gunnhildur Pétursdóttir hdl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Tómas Hrafn Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tólf mánuði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2014, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2014.
Ár 2014, mánudaginn 8. september, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, í lögræðismálinu nr. 66/2014: Krafa Reykjavíkurborgar um það að A, kt. [...], sem nú vistast á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, verði sviptur sjálfræði í eitt ár.
Málavextir
Með beiðni, dagsettri 3. september sl. hefur Benedikt Hallgrímsson hdl., fyrir hönd, Reykjavíkurborgar, krafist þess að A, kt. [...], sem nú vistast nauðugur á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, verði sviptur sjálfræði í eitt ár vegna geðsjúkdóms og ofneyslu fíkniefna, sbr. a- og b- liði 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Var málið þingfest og tekið til úrskurðar í dag. Um aðild sóknaraðila vísast til 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. Beiðninni er mótmælt.
Meðal gagna málsins er vottorð B geðlæknis, dagsett 28. f.m. þar sem segir að varnaraðili sé haldinn geðrofssjúkdómi. Hafi hann verið í geðrofi að undanförnu. Uppfylli hann skilyrði geðklofasjúkdóms en hins vegar sé á það að líta að hann hafi neytt fíkniefna um langt árabil og einnig þess að hann hafi fengið heilaskaða af blóðtappa í heila fyrir tveimur árum og orðið jafnframt fyrir höfuðhöggum í endurteknum átökum. Sé þannig enginn vafi á því að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða a.m.k. einkennum sem jafnast á við hann. Sé nauðsynlegt að halda áfram læknismeðferð við þessu meini en varnaraðili sé innsæislaus um sjúkdóminn og vilji ekki gangast undir meðferð við honum. Verði ekki að gert stefni hann heilsu sinni og batahorfum í voða. Þá sé hann hættulegur, fái hann ekki meðferð á geðdeild.
Af því sem rakið hefur verið álítur dómurinn að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og vímufíkn. Geti hann af þeim sökum ekki ráðið persónulegum högum sínum. Ber að fallast á beiðni sóknaraðila og ákveða með heimild í a- lið 4. gr. lögræðislaga að A, kt. [...], sem nú vistast á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, skuli vera sviptur sjálfræði í eitt ár.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði kostnað af málinu, þ.m.t. þóknun til skipaðs talsmanns varnaraðila, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 100.000 krónur, sem ákveðin er með virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í 12 mánuði.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.