Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miskabætur
  • Sakarskipting
  • Res Judicata


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. apríl 2005.

Nr. 453/2004.

Pétur Einarsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Pálma Guðmundssyni Ragnars

(Halldór H. Backman hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Miskabætur. Sakarskipting. Res Judicata.

PE krafði PGR um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er til ryskinga kom með aðilum á veitingahúsi. Hafði PGR verið sakfelldur vegna þessa í opinberu máli. Talið var að PGR bæri fébótaábyrgð á því tjóni sem hann olli PE með saknæmri háttsemi sinni umrætt sinn. Með vísan til þess að PE hefði átt upptök að því að líkamlegu ofbeldi var beitt í samskiptum aðila var talið rétt að hann bæri tjón sitt að 1/3 hluta sjálfur. Í málinu lágu fyrir tvær mismunandi matsgerðir um örorku PE, annars vegar frá einum lækni og hins vegar örorkunefnd. Munur á niðurstöðu matsgerðanna var rakinn til þess að í þeirri síðarnefndu væri tekið tillit til taugasálfræðilegra veikleika og sálfræðilegra vandamála PE sem talin væru stafa af höfuðáverka er hann hlaut af völdum PGR. Með vísan til þess að ekki væri í ljós leitt að þeir taugasálfræðilegu erfiðleikar sem PE virtist haldinn yrðu raktir til höfuðhöggs sem PGR veitti honum var matsgerð læknisins lögð til grundvallar. Var PGR gert að greiða PE 7.262.178 krónur að frádreginni þeirri greiðslu sem hann fékk greiddar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 14. september 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. október sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 16. nóvember 2004 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 18.933.394 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. ágúst 1993 til 12. ágúst 2003  en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum 3.100.000 krónum sem hann fékk greiddar 7. september 2001. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

 

I.

Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um bætur vegna stórfellds líkamstjóns sem hann varð fyrir af völdum stefnda á veitingahúsi aðfaranótt 14. ágúst 1993. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Vegna þessa var höfðað opinbert mál á hendur stefnda og var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 1998 sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þegar þetta gerðist var áfrýjandi tryggður slysatryggingu. Höfðaði hann mál á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og krafðist bóta úr slysatryggingunni. Með dómi Hæstaréttar 1. mars 2001, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1047, var félagið sýknað af kröfu áfrýjanda. Samkvæmt forsendum dómsins var talið í ljós leitt að stefndi hafi í umrætt sinn ögrað áfrýjanda með orðum og áfrýjandi hafi í framhaldi af því greitt stefnda hnefahögg í höfuðið, sem stefndi hafi síðan svarað með því að slá stefnda í andlitið með glas í hendi. Verður þessi úrlausn um málsatvik lögð til grundvallar niðurstöðu í því máli sem hér er til umfjöllunar, sbr. 4. mgr 116. gr. laga nr. 91/1991, enda hefur ekki annað verið sannað við meðferð þessa máls fyrir dómi. Ber stefndi fébótaábyrgð á því tjóni sem hann samkvæmt framansögðu olli áfrýjanda með saknæmri háttsemi sinni umrætt sinn. Áfrýjandi á þó einnig nokkra sök á tjóni sínu enda átti hann upptökin að því að líkamlegu ofbeldi var beitt í samskiptum aðila og er rétt að hann beri tjón sitt að 1/3 hluta sjálfur.

II.

Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu stefnda um þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem nemur 251.600 krónum. Verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 2/3 hluta þeirrar fjárhæðar eða 167.733 krónur.

Eins og rakið er í héraðsdómi liggja í málinu fyrir tvær matsgerðir um örorku áfrýjanda. Í mati Björns Önundarsonar læknis 2. maí 1995 var varanlegur miski áfrýjanda metinn 25 stig en varanleg örorka 40%. Í álitsgerð örorkunefndar 27. júní 2000 var varanlegur miski hans hins vegar metinn 35 stig en varanleg örorka 50%. Sýnist munur á niðurstöðu matsgerðanna fyrst og fremst verða rakinn til þess að í þeirri síðarnefndu, en ekki í þeirri fyrrnefndu, er tekið tillit til taugasálfræðilegra veikleika og sálfræðilegra vandamála áfrýjanda, sem talin eru stafa af höfuðáverka er hann hlaut af völdum stefnda. Í álitsgerð örorkunefndar er ekki að finna ítarlega umfjöllun um hugsanlegan heilaskaða áfrýjanda eða rökstuðning fyrir því að slíkur skaði verði rakinn til fyrrnefnds höfuðhöggs, en um þessi atriði er vísað til vottorðs Jónasar G. Halldórssonar sálfræðings 5. apríl 1998. Niðurstaða sálfræðingsins er sú að miklar líkur séu til þess að þeir taugasálfræðilegu veikleikar sem fram hafi komið við prófun áfrýjanda eigi rót sína að rekja að verulegu leyti til heilaáverka af völdum umrædds höfuðhöggs. Í framburði sínum fyrir héraðsdómi sagðist sálfræðingurinn hafa byggt niðurstöðu sína á frásögn áfrýjanda og taugasálfræðilegum prófum en engra upplýsinga hafa aflað um sjúkrasögu áfrýjanda eða stuðst við læknisfræðileg gögn. Hafa engin slík gögn verið lögð fram í málinu. Áfrýjandi hefur heldur ekki lagt fram upplýsingar um sjúkrasögu sína frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað þrátt fyrir áskorun stefnda í greinargerð fyrir héraðsdómi. Verður að fallast á það með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að ekki sé í ljós leitt að þeir taugasálfræðilegu veikleikar sem áfrýjandi virðist haldinn verði raktir til höfuðhöggs þess er stefndi veitti honum. Að þessu athuguðu verður matsgerð Björns Önundarsonar lögð til grundvallar um stig varanlegs miska áfrýjanda og stefndi dæmdur til að greiða honum 908.389 krónur í bætur vegna varanlegs miska.

Með vísan til þess sem að framan er ritað og forsendna héraðsdóms verður matsgerð Björns Önundarsonar einnig lögð til grundvallar við mat á varanlegri örorku áfrýjanda. Áfrýjandi miðar kröfu sína vegna varalegrar örorku að mestu við greiðslur sem flugmálastjórn innti af hendi til hlutafélagsins Bjarkar frá ágúst 1992 til júlí 1993. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að miða ákvörðun bóta til handa áfrýjanda vegna varanlegrar örorku við framtaldar tekjur hans fyrir árin 1992 og 1993, en áfrýjandi féll við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti frá kröfu um að árslaun hans skyldu metin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Verður stefndi á grundvelli framanritaðs dæmdur til að greiða áfrýjanda 6.186.056 krónur í bætur vegna varanlegrar örorku.

Engin efni eru til að verða við kröfu stefnda um lækkun bóta með vísan til ákvæðis 24. gr. skaðabótalaga.

Áfrýjandi mun 7. september 2001 hafa fengið greiddar 3.100.000 krónur í bætur samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, í samræmi við ákvörðun bótanefndar 17. ágúst 2001. Áfrýjandi krefst þess að þessi greiðsla verði dregin frá fjárhæð þeirra bóta, sem ákveðnar eru, áður en til sakarskiptingar kemur til samræmis við dómvenju varðandi greiðslur frá þriðja manni. Markmið með umræddum lögum var að styrkja fjárhagslega stöðu brotaþola að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 69/1995 gildir sú meginregla að samræmi sé á milli kröfu tjónþola á hendur brotamanni og kröfu hans gagnvart ríkissjóði. Því til samræmis er ákvæði í 19. gr. þeirra þess efnis að greiði ríkissjóður bætur samkvæmt lögunum eignist hann rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi sem nemur fjárhæð bótanna. Þessi sérstaða bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995 veldur því að þrátt fyrir framangreinda dómvenju ber að draga umrædda greiðslu frá bótum til áfrýjanda eftir að tillit hefur verið tekið til sakarskiptingar.

Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 7.262.178 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum, eins og í dómsorði greinir, en að frádregnum 3.100.000 krónum  er hann fékk greiddar úr ríkissjóði 7. september 2001.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Stefndi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Pálmi Guðmundsson Ragnars, greiði áfrýjanda, Pétri Einarssyni, 7.262.178 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. ágúst 1993 til 12. ágúst 2003 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags allt að frádreginni greiðslu á 3.100.000 krónum 7. september 2001.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru óröskuð.

Stefndi greiði 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti er renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2004.

Stefnandi málsins er Pétur Einarsson, kt. [...], með lögheimili í Grikklandi, en stefndi er Pálmi Guðmundsson Ragnars, kt. [...], til heimilis að Básabryggju 23, Reykjavík.

Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 8. ágúst 2003, sem birt var fyrir stefnda 12. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 4. september s.á.

Stefndi fékk gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 22. september 2003.

Málið var dómtekið 16. mars sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi. Lögmaður stefnanda fór þess á leit við dóminn, eftir að málflutningi var lokið, að honum yrði veitt heimild til að afla gagna til frekari stuðnings kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og málið yrði endurupptekið, þegar þau gögn lægju fyrir. Lögmaður stefnda féllst á beiðni lögmanns stefnanda og sá dómurinn ekki sérstaka ástæðu til að amast við þessari óvenjulegu málsmeðferð.

Málið var síðan endurupptekið 14. júní sl. og endurflutt. Þar lagði lögmaður stefnanda fram ýmis gögn og féll frá kröfu stefnanda til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón.

Dómkröfur:

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 18.933.394 krónur, auk 2% ársvaxta frá 14. ágúst 1993 til stefnubirtingardags. Þess er krafist, að vextirnir höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 14. ágúst 1994. Frá stefnubirtingardegi krefst stefnandi vanskilavaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og almennra vaxta til greiðsludags, allt að frádregnum 3.100.000 króna, sem greiddar voru inn á tjónið 7. september 2001 og var fyrst ráðstafað upp í vexti en síðan inn á þann höfuðstól, sem vextir reiknast af.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Í báðum tilvikum krefst stefndi þess, að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að viðbættum virðisaukaskatti.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málsatvik eru þau, að til ryskinga kom milli málsaðila á Mímisbar aðfaranótt 14. ágúst 1993 með þeim afleiðingum að stefnandi missti sjón á hægra auga. Í kjölfar atburðarins fór fram lögreglurannsókn, sem leiddi til þess, að ákæruvaldið höfðaði sakamál á hendur stefnda með ákæru, dags. 16. desember 1997. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. mars 1998, þar sem stefndi var fundinn sekur um refsivert athæfi gagnvart stefnanda, en ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í 2 ár frá uppsögu dómsins og skyldi refsing falla niður að þeim tíma liðnum, héldi stefndi almennt skilorð 57. gr. alm. hgl.  Skaðabótakröfu stefnanda var vísað frá dómi, m.a. á þeim grundvelli, að forsendur hennar væru svo óljósar að ekki væri unnt að leggja á hana efnisdóm.

Málavextir eru raktir í dómi héraðsdóms (mál nr. S-1055/1997).  Rétt þykir að styðjast við þá málavaxtalýsingu og þau rannsóknargögn, sem lögð voru fyrir dóminn í því máli.

Í frumskýrslu lögreglu, sem dagsett er 14. ágúst 1993 og unnin er af lögregluþjóni þeim, sem kallaður var á staðinn í kjölfar atburðarins, kemur m.a. fram, að málsaðilar hafi báðir verið fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Þar er því lýst, að sjúkraflutningamenn hafi neitað að flytja stefnanda á slysadeild vegna ölvunar hans og framkomu. Hafi hann því verið fluttur þangað í lögreglubifreið.  Einnig er þess getið í skýrslunni, að tvö vitni hafi gefið sig fram, Ólafur Páll Gunnarsson og Kristján Sæmundsson barþjónn. Haft er þar eftir Kristjáni, að hann hafi séð stefnda teygja sig fram fyrir stefnanda við barinn og Pétur hafi ýtt honum frá sér. Stefndi hafi þá sagt: „Hún er slæm þessi pressa.“ Stefnandi hafi orðið æstur við þessi ummæli og kýlt stefnda í andlitið og hafi stefndi slegið til baka. Hann hafi haldið á glasi í þeirri hendi, sem hann beitti og hafi það valdið umræddum meiðslum stefnanda.

Geta ber þess til skýringar, að Vikublaðið Pressan hafði stuttu áður birt frásögn, þar sem sneitt var að stefnanda og það virðist hafa valdið viðbrögðum hans.

Ólafur Páll Gunnarsson gaf skýrslu hjá lögreglu 19. ágúst s.á. Hann er mágur stefnda. Honum sagðist þar svo frá, að hann hafi komið á Mímisbarinn á Hótel Sögu, ásamt sjö öðrum úr fjölskyldu sinni, föstudagskvöldið 13. ágúst. Stefndi hafi verið þar á meðal, svo og Sigurður Kolbeinsson, hálfbróðir stefnda. Þeir hafi þrír setið við barinn og verið að spjalla saman. Allir þrír hafi verið með vín í glösum, sem hafi verið þau fyrstu, sem þeir fengu sér þar á staðnum.  Þeir hafi neytt léttvíns með mat fyrr um kvöldið.  Stefndi hafi brugðið sér frá og skilið glös sín eftir á barborðinu. Þá hafi stefnandi komið og farið þangað, sem stefndi hafði áður verið. Þegar stefndi kom til baka, hafi hann beðið stefnanda að hliðra til, svo að hann kæmist að glasi sínu. Stefnandi hafi brugðist illa við, slegið fast í barborðið og sagt: Nei, þú skalt ekki voga þér að vera með dónaskap við þér sterkari menn. Stefndi hafi engu að síður teygt sig í snafsglas, sem hann átti á barborðinu, og látið þau orð falla, svo að stefnandi heyrði: Hann hefur greinilega verið að lesa Pressuna þessi. Stefnandi hafi í sama mund slegið stefnda í höfuðið og lenti höggið á vinstra auga hans. Stefndi hafi þegar í stað svarað höggi stefnanda og slegið hann með hægri hendi í höfuðið. Höggið hafi lent í enni stefnanda með þeim afleiðingum, að snafsglasið, sem stefndi hélt á, hafi  brotnað við höggið. Stefndi hafi síðan slegið stefnanda tvö högg, sem lentu í öxl hans en ekki í höfði.  Stefnandi hafi gripið um höfuð sér og ekki svarað þeim höggum.

Kristján Sæmundsson barþjónn gaf einnig skýrslu hjá lögreglu sama dag. Hann lýsti atvikum svo, að stefndi og félagar hans hafi allir keypt sér bjór og vodkasjússa og verið með glös sín á barborðinu. Einn þessara þriggja hafi brugðið sér frá barnum. Stefnandi hafi komið á meðan og keypt sér glas af vodka. Síðan hafi sá, sem vikið hafði sér frá, komið aftur og sagt við stefnanda, að hann ætti glös á borðinu og reynt að teygja sig í glösin.  Stefnandi hafi ekki reynt að hindra manninn í að komast að borðinu, en þó verið fyrir, þannig að maðurinn náði ekki til glasa sinna. Þessi töf hafi eitthvað farið illa í manninn, sem hafi látið einhver orð falla um fólk, sem talað væri um í Pressunni. Greinilegt hafi verið, að þau orð hafi farið fyrir brjóstið á stefnanda og hafi hann rétt á eftir veitt manninum talsvert þungt högg, sem lenti á vinstra gagnauga hans, þó ekki þannig að maðurinn hafi vankast. Maðurinn hafi strax svarað högginu með því að slá til stefnanda með hægri hendi, sem lent hafi á enni hans. Maðurinn hafi verið með bjórglas í hendi, sem brotnaði í hendi hans við höggið og hafi báðir skorist við það. Einnig hafi einhver glös brotnað, sem voru á barborðinu. Báðir hafi verið undir einhverjum áfengisáhrifum.

Lögreglan tók einnig skýrslu af Frey Sævarssyni, sem gegndi dyravarðarstöðu á Hótel Sögu. Hann sagðist hafa séð stefnda slá stefnanda og hafi hann verið með bjór­glas í hendi.  Skýrsla var ekki tekin af málsaðilum við þetta tækifæri. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 13. febrúar 1996, en stefndi 24. september 1997, en hann var búsettur í Þýskalandi frá apríl 1994 til mars 1997. 

Stefnandi greindi svo frá atvikum, að stefndi hafi komið að honum með hávaða og fyrirgangi og ýtt við honum og spurt hvern andskotann hann væri að gera í hans stæði. Hann hafi reynt að róa manninn, sem færst hafi í aukana og viðhaft meiðandi og dónaleg ummæli um sig og síðan æpt: Sáuð þið hvernig ég tók hann í Pressunni í gær og sjáið þið hvernig ég tek hann núna. Stefnandi kannaðist ekki við að hafa slegið til stefnda og mótmælti frásögn Kristjáns Sæmundssonar og Ólafs Páls Gunnarssonar  þar að lútandi.  Hann hafi e.t.v. ýtt manninum frá sér í varnaðarskyni eftir að hann var sleginn.  Stefnandi kannaðist ekki við að hafa verið ölvaður þetta kvöld, en kvaðst lítillega hafa neytt áfengis. 

Í lögregluskýrslu er haft eftir stefnda, að hann hafi þurft að bregða sér frá barnum og skilið glös sín þar eftir. Þegar hann kom þangað aftur, hafi stefnandi verið komin á þann stað, sem hann hafði áður verið, þannig að hann hafi ekki átt greiðan aðgang að glösum sínum.  Hann hafi ávarpað stefnanda og beðið hann afsökunar og spurt eitthvað á þá leið, hvort hann mætti ná í glas sitt og um leið teygt sig í það. Stefnandi hafi þá ýtt honum frá og varnað honum með líkama sínum að ná til glasa sinna. Hann hafi þá sagt eitthvað á þá leið, að voðalega væri hann önugur þessi og beint orðum sínum að Ólafi Páli mági sínum. Aftur hafi hann reynt að ná glösum sínum og teygt sig í átt til þeirra samtímis því að biðja stefnanda enn afsökunar.  Hann hafi náð snafsglasinu og borið það að vörum sér. Eftir þetta muni hann lítið eftir atvikum, að öðru leyti en því, að stefnandi hafi slegið hann þungu hnefahöggi, sem lent hafi á vinstra auga, en þar sé hann veikur fyrir vegna fæðingargalla. Hann sjái illa með vinstra auga, sé viðkvæmur fyrir viðkomu þar og jafnvel birtu. Hann hafi því orðið hræddur og dragi ekki í efa að hann hafi slegið til stefnanda, þótt hann muni það ekki, enda hafi hann vankast við högg stefnanda og muni ekki eftir atvikum eftir það. Stefndi kvað það fráleitt, að hann hafi að yfirlögðu ráði ætlað að slá stefnanda með glas í hendi og brjóta það á honum. Hann sé arkitekt og starfi sem slíkur og því sé honum mikilvægt að hafa heilar hendur.

Framangreindir menn gáfu skýrslu fyrir dómi við meðferð fyrrgreinds sakamáls. Vætti þeirra þar var í meginatriðum á sömu lund og lýst hefur verið. Einnig gaf Sigurður Snorri Kolbeinsson, hálfbróðir stefnda, skýrslu fyrir dóminum, en hann var í fylgd með stefnda og Ólafi Páli Gunnarssyni á Mímisbar umrætt kvöld, eins og áður er lýst. Hann skýrði frá aðdraganda átakanna að mestu með sama hætti og stefndi og Ólafur Páll. Hann kvað stefnanda hafa brugðist illa við tilmælum stefnda og viðhaft þau orð, að stefndi ætti ekki að vera með skæting við þá, sem væru honum meiri. Stefndi hafi þá snúið sér að Ólafi Páli og sagt einhver orð, sem Ólafi hafi þótt fyndin. Vitnið hafi snúið baki í stefnanda, þegar hann sló stefnda, sem þá hafi bandað frá sér höndum, sem hafi valdið áverkum stefnanda.

Eftir að héraðsdómur gekk, gaf Hilmar Sverrisson sig fram við Sýslumanninn á Sauðárkróki og gaf þar skýrslu, sem dagsett er 5. nóvember 1998. Hann kvaðst hafa verið staddur á Mímisbar við hljóðfæraleik. Stefnandi hafi setið við barhornið. Þá hafi komið inn hópur 5-6 ungra manna og hafi einn þeirra sest við hlið stefnanda og tekið hann tali og hækkað róminn mjög. Sá hafi talað um einhverja blaðagrein og einhverja konu og síðan sagt heyrðuð þið hvað ég jarðaði hann og hafi hann átt við stefnanda. Hinir í hópnum hafi staðið um einn til tvo metra aftan við stefnanda og þennan mann. Einn þessara manna hafi ítrekað beðið manninn um að hætta þessu kjaftæði. Síðan hafi einhver stund liðið, ein til tvær mínútur, og hafi stefnandi þá ýtt í öxl mannsins með flötum lófanum og beðið hann að hætta þessu.  Þá hafi maðurinn, sem var að drekka bjór úr þunnu háu glasi, slegið stefnanda í andlitið með þeirri hendi, sem glasið var í, og hafi báðir hnigið niður í miklu blóðbaði. Kvaðst hann hafa verið í 7-8 metra fjarlægð og ekki verið að leika á hljóðfærið, þegar atburðurinn gerðist. Ekki hafi verið haft samband við hann í kjölfar atburðarins og hann ekki gefið sig fram af sjálfsdáðum. 

Hilmar gaf skýrslu fyrir dómi í máli, sem stefnandi höfðaði á hendur Sjóvá-Almennum hf. til greiðslu skaðabóta vegna slysatryggingar, sem hann hafði keypt. Framburður hans þar var samhljóða skýrslu hans hjá lögreglu. Kristján Sæmundsson gaf þar einnig skýrslu, samhljóða fyrri skýrslum hans.

Máli þessu var áfrýjað til Hæstaréttar. Mál nr. 397/2000. Hæstiréttur fjallaði um þær skýrslur, sem raktar hafa verið. Í aðfaraorðum að niðurstöðu segir svo í dómi Hæstaréttar. Með hliðsjón af öllu framansögðu, einkum framburði Kristjáns, verður að telja í ljós leitt að Pálmi hafi í umrætt sinn ögrað stefnda  (stefnanda í þessu máli) og stefndi hafi í framhaldi af því greitt Pálma hnefahögg í höfuðið, sem Pálmi hafi síðan svarað með því að slá stefnanda í andlitið með glas í hendi.

Nú verður í stórum dráttum gerð grein fyrir þeim afleiðingum, sem hnefahögg stefnda hafði í för með sér. Stefnandi missti nær alveg sjón á hægra auga, eins og áður er lýst. Hann telst blindur á því auga að mati Ólafs Grétars Guðmundssonar augnlæknis. Hann varð að gangast undir þrjár augnaðgerðir, sem báru takmarkaðan árangur. Björn Önundarson læknir mat varanlegan miska stefnanda 25%, en varanlega örorku hans 40%. Örorkumat Björns er dagsett 2. maí 1995. Lögmaður stefnanda sótti um bætur til bótanefndar, sem sett var á stofn með lögum nr. 69/1995. Að ábendingu nefndarinnar leitaði stefnandi til örorkunefndar, sem lagði mat á varanlegan miska og varanlega örorku hans með álitsgerð dags. 27. júní 2000. Niðurstaða örorkunefndar var á þá leið, að stefnandi hefði beðið 35% varanlegan miska af völdum líkamsárásarinnar en 50% varanlega örorku. Bótanefnd ákvað stefnanda bætur úr ríkissjóði að fjárhæð 3,1 milljón króna með ákvörðun, dags. 17. ágúst 2001.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að fullsannað sé, að stefndi hafi valdið honum líkamstjóni með því að veita honum hnefahögg í andlit.  Héraðsdómur hafi sakfellt stefnda fyrir umræddan atburð. Svo virðist þó, sem dómari telji, að stefnandi hafi fyrst slegið til stefnda og fái ekki „annað séð“ en stefnandi hafi slegið að „tilefnislausu eða fyrir misskilning“, þar sem hann hafi haldið, að stefndi hafi viðhaft um sig niðrandi ummæli.

Ekki sé fallist á það af hálfu stefnanda, að lækka eigi skaðabætur hans vegna eigin sakar. Í því tilliti sé byggt á neðangreindum fjórum ástæðum:

1         Dómarinn kveði ekki fast að orði og byggi á því, að umfang tjónsins sé ekki fullsannað. 

2         Sönnunarbyrði fyrir málsbótum í sakamálum sé mjög lítil við ákvörðun refsingar ákærðum í hag.  Í einkamáli hvíli sönnunarbyrðin á skaðvaldi um þátt tjónþola í því tjóni, sem hann varð fyrir (svo fremi að bótaskylda sé sönnuð, sem sé í þessu máli). Sönnunarmat á þeim grundvelli hafi aldrei farið fram og hafi því dómurinn ekki sjálfstæð réttaráhrif að þessu leyti.  Því verði að vega og meta sjálfstætt öll sönnunargögn málsins, óháð ummælum dómara í hinu fyrra máli.

3         Nýjar upplýsingar liggi fyrir um atvik, sbr. lögregluskýrslu yfir því vitni, sem best gat vitnað um atvik, þ.e. skýrsla Hilmars Sverrissonar frá 5. nóv. 1998, sem lögð sé fram í máli þessu. 

4         Vopnuð árás stefnda hafi verið á svo háu sakarstigi, að ekki séu efni til að meta mögulega sök stefnanda slíka, að hún geti fellt niður bætur að nokkru leyti sbr. Hrd. 1998:1115. 

Stefnandi hafi að áliti örorkunefndar hlotið 35% miska og 50% varanlega örorku.  Samkvæmt örorkumati Björns Önundarsonar læknis frá 2. maí 1995 hafi stefnandi beðið tímabundið atvinnutjón í sex mánuði, en hafi unnið að hluta eða 50% næstu þrjá mánuði á eftir. Miðist þjáningabætur og við það. 

Töluleg sundurliðun kröfugerðar:

Stefnandi kveðst miða allar tölur við verðlag í ágúst 2003, sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, (lánskjaravísitala hafi þá verið 4472 stig), eins og nánar sé sýnt í framlögðum útreikningi, dags. 8. ágúst 2003. 

1         Viðmiðunartekjur sundurliðist þannig:

Laun greidd stefnanda í ágúst 1992, kr. 111.326,00
auk kr. 8.000,00 í orlof, samtals                                                                                                            119.326 kr.

2     Laun greidd stefnanda í gegnum hlutafélag hans

Björk h/f vegna persónulegrar vinnu stefnanda fyrir

Flugmálastjórn frá ágúst til des. 1992                                                                                             1.776.410 kr.

Laun greidd stefnanda í gegnum hlutafélag hans

Björk h/f vegna persónulegrar vinnu stefnanda fyrir

Flugmálastjórn frá janúar til júlí 1993                                                                                                           2.345.049 kr.

Samtals                                                                                                                                                             4.240.785 kr.

Útreikningur þessi sé byggður á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en til vara sé á því byggt að 2. mgr. eigi við.  Miðað sé við það, að sá sem valdi tjóni af ásetningi eða gáleysi beri í ríkum mæli hallann af sönnun um orsakasamband.  Reglan sé m.a. reist á þeirri hugsun, að það eigi ekki að koma tjónvaldi til góða, ef bótaskyldur atburður valdi sönnunarerfiðleikum. Reglan eigi m.a. við um ákvörðun viðmiðunarlauna.

3.                Þjáningabætur miðist við 9 mánaða tímabil, þannig að 45 daga hafi stefnandi verið rúmliggjandi en veikur í 181 dag, án þess að vera rúmliggjandi. Vísist til framlagðs örorkumats Björns Önundarsonar í þessu sambandi. 

4.                        Varanlegur miski reiknist sem 35% af 5.450.500 kr. 

5.                        Varanleg skerðing á aflahæfi reiknist þannig:  Viðmiðunarlaun verðbætt nemi 5.734.742 kr. x 7,5 x 50% = 21.505.281 kr.  Bætur lækki vegna aldurs um 22% eða um 4.731.162 kr. 

 

Stefnukrafan sundurliðast því þannig:

Þjáningarbætur, rúmliggjandi                                                                        79.650 kr.
Þjáningarbætur, ekki rúmliggjandi                                                              171.950 kr.
Þjáningabætur alls                                                                                         251.600 kr.
Varanlegur miski                                                                                         1.907.675 kr.
Varanleg skerðing á aflahæfi                                                21.505.281 kr.

Samtals                                                                                                      23.664.556 kr.
Lækkun bóta vegna aldurs                                                                      4.731.162 kr.
Tjón án vaxta                                                                                           18.933.394 kr.

 

Frá dragist 3.100.000 kr. af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og almennra vaxta, sem greiddust inn á tjónið 7. september 2001, en þeirri fjárhæð hafi fyrst verið ráðstafað upp í vexti en síðan inn á þann höfuðstól, sem vextir hafi reiknast af.

Fyrir liggi, að stefndi hafi veist að stefnanda vopnaður glasi og greitt honum höfuðhögg með refsiverðum hætti með þeim afleiðingum, að hann hafi hlotið 50% varanlega örorku, auk miska o.fl. Bótakrafan byggist því á almennu skaða­bóta­reglunni.  Að öðru leyti vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993.

Hann byggir málskostnaðarkröfu sína á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 (eml.), sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess, að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

Málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi fengið tjón sitt bætt að fullu með greiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð 3.100.000 kr.  og með greiðslu Sjóvár-Almennra trygginga hf. að fjárhæð 200.000,00 kr., þegar tillit sé tekið til eigin sakar hans.  Þá beri að lækka kröfur stefnanda, þar sem ekki sé fullt orsakasamhengi á milli þeirra afleiðinga, sem stefnandi krefjist bóta fyrir, og hins bótaskylda atburðar. Þótt hugsanleg orsakatengsl geti verið fyrir hendi, sé tjónið aðeins að hluta sennileg afleiðing hins bótaskylda atburðar.  Enn fremur byggir stefndi á því, að útreikningar stefnanda á tjóni hans séu rangir og tímabundið atvinnutjón sé ósannað.  Beri að lækka kröfur stefnanda af þeim sökum.  Loks byggir stefndi á því að almenn lækkunarregla skaðabótalaga eigi við um stefnda í ljósi aðstæðna hans og sanngirnisraka og því beri að lækka bótakröfu stefnanda.

Fallist dómurinn ekki á, að stefnandi hafi fengið tjón sitt fullbætt með framangreindum fjárhæðum, byggir stefndi á því að lækka beri kröfu stefnanda verulega í samræmi við varakröfu hans, sem studd sé eftirfarandi rökum:

Í fyrsta lagi beri að líta til þess, að stefnandi hafi átt upptökin að átökum málsaðila  Hljóti það að teljast fullsannað með vætti vitna, að stefnandi hafi fyrst slegið stefnda. Þá sé því mótmælt, að einhver vafi hafi verið í huga dómara um atburðarásina í sakamálinu, sem höfðað var á hendur stefnda.  Þar komi skýrt fram, að stefndi hafi slegið ósjálfrátt til baka, þegar stefnandi sló hann og gleymt því, að hann væri með glas í hendinni.  Því sé ljóst, að stefnandi beri verulega eigin sök á tjóni sínu og beri að lækka bætur eða fella þær niður vegna eigin sakar. 

Í öðru lagi mótmælir stefndi því að hægt sé að byggja fjárhæð bótakröfu á álits­gerð örorkunefndar.  Í álitsgerðinni virðist vera gengið út frá því, að stefnandi hafi orðið fyrir framheilaskaða eða einhverjum öðrum óskilgreindum „sálfræðilegum vandamálum" af völdum hnefahöggs stefnda.  Hækkun nefndarinnar á örorkumati Björns Önundarsonar virðist að miklu leyti mega rekja til þessara sjónarmiða og sé þar vísað til vottorðs Jónasar G. Halldórssonar sálfræðings frá 25. mars 1998. Hvorki álit örorkunefndar né vottorð sálfræðingsins, sem nefndin styðjist við, sýni fram á orsaka­tengsl á milli meintra taugasálfræðilegra veikleika stefnanda eða sálfræðilegra vanda­mála og hnefahöggs stefnda þann 14. ágúst 1993. Líta verði til þess, að vottorð Jónasar G. Halldórssonar sé gefið út tæpum 5 árum eftir að atburðurinn gerðist, en engin gögn fram að þeim tíma bendi til framheilaskaða.  Í þessu sambandi þurfi að líta til þess, að engin líkamleg sönnunargögn, s.s. sneiðmyndir, liggi fyrir um meintan framheilaskaða stefnanda af völdum hnefahöggsins, sem stefndi veitti honum. Ráða megi af  vottorði Leifs Jónssonar læknis frá 16. október 1997, að höggið, sem stefndi veitti stefnanda, hafi ekki verið þungt.  Ekkert sé minnst á þessi einkenni í öðrum læknisvottorðum, sem gefin voru skömmu eftir atburðinn, né heldur í örorkumati Björns Önundarsonar.  Stefndi telur því útilokað, að nokkur fagmaður geti í ljósi þessa fullyrt eða talið sannað, að stefnandi hafi orðið fyrir framheilaskaða við högg það, sem honum var veitt.  Þetta sé ekki einu sinni fullyrt í vottorði sálfræðingsins, heldur sagt, að grunur sé um framheilaskaða.  Stefndi lítur einnig svo á, að útilokað sé, að nokkur fagmaður geti fullyrt, að hinir meintu taugasálfræðilegu veikleikar stefnanda séu afleiðing hnefahöggs stefnda tæpum 5 árum eftir atburðinn.  Ekki sé heldur hægt að halda því fram, að miklar líkur séu á orsakasamhengi á milli höggsins og hinna taugasálfræðilegu veikleika, eins og sálfræðingurinn virðist gera, einkum í ljósi þess, að orsakatengslin byggist á grun um heilaskaða, sem ekki hafi verið staðfestur með öðrum hætti.  Í þessu sambandi verði að hafa í huga, að ekki virðist hafa legið fyrir fullnægjandi upplýsingar um heilsufar og sjúkrasögu stefnanda eftir 14. ágúst 1993, en margvíslegar ástæður geti hafa valdið hinum taugasálfræðilega veikleika. Það liggi fyrir, að stefnandi hafi átt við áfengisvandamál að stríða frá 35 ára aldri.

Einnig beri að hafa í huga, að læknisskoðun sú, sem álitsgerð örorkunefndar sé byggð á, hafi verið gerð rúmum 6 árum eftir hið bótaskylda atvik.  Því gildi sömu sjónarmið um álit nefndarinnar og sönnun á orsakasamhengi á milli hins bótaskylda atviks og lýst er að ofan um vottorð Jónasar G. Halldórssonar.

Stefndi telur því ósannað, að orsakasamhengi sé á milli hins bótaskylda atviks og miska og meintrar skertrar vinnugetu stefnanda að öðru leyti en því, sem rekja megi til áverka á auga.  Stefnandi beri sönnunarbyrðina að þessu leyti og mótmælir stefndi fullyrðingum í stefnu um hið gagnstæða.  Af þessum ástæðum sé ekki hægt að leggja álitsgerð örorkunefndar til grundvallar dómsniðurstöðu, enda sé ljóst, að hún geri ráð fyrir víðtækari afleiðingum hins bótaskylda atviks.  Því beri að lækka bæði örorku- og miskabótaprósentu stefnanda verulega og þar með dómkröfur hans.

Þá byggir stefndi á því, að tjónið geti ekki að öllu leyti talist sennileg afleiðing af atvikinu, jafnvel þótt annað tjón stefnanda verði að einhverju leyti talið eiga þær rætur.  Stefndi vísar að þessu leyti til sömu sjónarmiða og eigi við um orsakasamhengi og að framan sé lýst.

Stefndi mótmælir einnig viðmiðunarlaunum stefnanda sem allt of háum og vísar til þess, að stefnandi virðist reikna verktakagreiðslur til einkahlutafélags síns sem laun.  Það fái ekki staðist, enda verði ekki krafist hærri viðmiðunarlauna, skv. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ráða megi af framlögðum skattframtölum stefnanda.  Þá eigi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ekki við í málinu, a.m.k. ekki til hækkunar.  Greiðslur þær, sem stefnandi fékk frá samgönguráðuneytinu, hafi tengst starfslokum hans sem flugmálastjóra og hann hafi ekki getað búist við að fá þær greiðslur til frambúðar.

Stefndi styður einnig kröfur sínar þeim rökum, að bágborinn efnahagur hans og sanngirnissjónarmið leiði til þess, að beita beri lækkunarreglu skaðabótalaga, sbr. 24. gr. þeirra, og lækka bótakröfu stefnanda.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til almennra reglna skaðabótaréttar sérstaklega til reglna skaðabótaréttar um eigin sök tjónþola og einnig á ákvæðum skaða­bótalaga nr. 50/1993.  Hvað viðmiðunarlaun varðar vísar stefndi til 7. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993. Þá vísar stefndi til hinnar almennu lækkunarheimildar í 24. gr. sömu laga.  Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 21. kafla einkamálalaga nr. 91/1991.2

Niðurstaða:

Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af Jónasi G. Halldórssyni sálfræðingi um síma og Hilmari  Sverrissyni tónlistarmanni.

Verður framburður þeirra nú rakinn í stórum dráttum. Í upphafi skal þess getið að meðal málsskjala er svonefnd „Taugasálfræði athugun“, sem Jónas G. Halldórsson gerði á stefnanda og undirrituð er 5 apríl 1998 (dskj. nr. 19). Örorkunefnd vísar til þessarar álitsgerðar sálfræðingsins og virðist að hluta til styðja niðurstöðu sína á áliti hans.

Jónas kvaðst aðspurður um þau gögn, sem álitsgerð hans byggðist á, hafa fyrst og fremst stuðst við frásögn stefnanda sjálfs og einnig byggt á sálfræðilegum prófum, sem lögð voru fyrir stefnanda og vísað er til í álitsgerðinni. Niðurstaða hans væri í fyrsta lagi byggð á lýsingu stefnanda á þeim breytingum, sem hann hafi orðið fyrir af völdum höfuðáverka, sem stefndi veitti honum, og í öðru lagi á taugasálfræðilegum veikleikum, sem fram komu í prófum, sem stefnandi undirgekkst.  Þessir veikleikar hafi að hans dómi bent til þess, að stefnandi hafi orðið fyrir höfuðáverka. Á hinn bóginn hafi hann ekki haft aðrar upplýsingar um höfuðhögg eða áverka stefnanda en frásögn hans sjálfs. Ekki hafi legið fyrir við rannsókn hans, svo hann muni, að stefnandi hafi hlotið heilahristing af völdum höggsins, eða sýnt einkenni um slíkt. Vitnið benti á, að ekki sé tekinn af allur vafi um orsakir þessa veikleika stefnanda í álitsgerð hans. Hann taldi líklegt að högg, sem ylli þessum afleiðingum, þyrfti að vera þungt. Hann hafi engar upplýsingar haft um þetta atriði, þegar greining hans átti sér stað, né heldur hvort stefnandi hafi orðið fyrir öðrum áverkum eða heilablæðingu eftir að atburðurinn átti sér stað. Vitnið taldi, að framheilaáverkar kynnu að valda aukinni áfengisdrykkju. Slíkir áverkar hafi oft áhrif á sjálfstjórn. Hann kvaðst ekki geta fullyrt, að aukin drykkja stefnanda hafi haft áhrif á árangur hans í umræddum prófunum, enda hafi hann ekki sérþekkingu á þessu sviði. Hann hafi ekki haft upplýsingar um drykkju stefnanda á þessum tíma, en almennt séð geti drykkja haft áhrif á heilastarfsemi.  Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa haft beina vitneskju um staðsetningu heilaskaða stefnanda, en eitt próf, sem lagt var fyrir stefnanda, hafi átt að meta framheilastarfsemi hjá stefnanda og hafi hann ekki komið vel út úr því prófi. Vitnið kvaðst hafa dregið ályktanir sínar af því.

Skýrsla vitnisins Hilmars Sverrissonar var í meginatriðum í samræmi við framburð hans hjá lögreglu og vætti hans í máli því, sem stefnandi höfðaði á hendur Sjóvá-Almennum hf., sem áður er lýst. Þykir því ástæðulaust að gera frekari grein fyrir vætti hans hér í dómi.

Álit dómsins:

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í fyrrnefndum dómi, að stefndi hafi ögrað stefnanda með orðum en stefnandi hafi svarað með því að slá stefnda í höfuðið, en stefndi hafi í framhaldi af því greitt stefnanda högg í andlitið með glas í hendi.

Ekkert hefur komið fram undir rekstri þessa máls, sem gefur tilefni til að breyta ályktun Hæstaréttar um aðdraganda og ástæður átakanna milli málsaðila. Dómurinn telur sig því bundinn við niðurstöðu Hæstaréttar að þessu leyti.

Dómurinn telur, að stefnandi hafi að nokkru kallað yfir sig viðbrögð stefnda, sem slysinu olli. Stefndi gat vart átt von á því, að stefnandi myndi bregðast við með þeim hætti að slá hann í höfuðið, enda þótt stefndi hafi látið einhvern niðrandi orð falla um stefnanda, sem virðist hafa hindrað hann í að komast að glösum sínum, hvort sem það var með vilja gert eða ekki.  Stefnandi mátti á hinn bóginn búast við því, að stefndi svaraði árás hans í sömu mynt.  Viðbrögð stefnda virðast hafa verið ósjálfráð, sé litið til þess, að hann hélt á glasi í hendi og því viðbúið, eins og raunin varð, að hann myndi sjálfur bíða skaða af, ef hann gyldi líku líkt.

Stefndi verður engu að síður talinn bera ábyrgð á gerðum sínum og því tjóni, sem hann olli stefnanda, en litið verður til þáttar stefnanda í atburðarásinni við ákvörðun um skiptingu sakar.

Einnig þykir rétt að líta til þess við ákvörðun um sakarskiptinu, að stefnandi virðist ekkert hafa aðhafst gagnvart stefnda frá því bótakröfu hans var hafnað í sakamáli því, sem ákæruvaldið höfðaði á hendur stefnda og lauk með refsidómi í marsmánuði 1998, þar til mál þetta var höfðað tæpum tíu árum eftir að atburðurinn átti sér stað.

Þegar öll málsatvik eru virt, m.a. hlutur hvors málsaðila um sig í atburðarásinni, aðgerðaleysi og tómlæti stefnanda, þykir rétt með vísan til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að stefnandi beri 50% eigin sök á tjóni sínu. Í þessu sambandi er höfð hliðsjón af fjárhag stefnda, sem framlögð gögn sýna að er bágur.

Stefnandi byggir kröfur sínar um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku á álitsgerð örorkunefndar. Stefndi mótmælir því, að niðurstaða örorkunefndar verði lögð til grundvallar við ákvörðun skaðabóta stefnanda, þar sem hækkun á miska og örorku stefnanda frá mati Björns Önundarsonar sé byggð á taugasálfræðilegum veikleika stefnanda, sem  ósannað sé að hafi orsakast af höggi því, sem stefndi veitti honum.

Í áliti örorkunefndar er m.a. vísað til vottorðs Jónasar G. Halldórssonar, en þar er því haldið fram, að miklar líkur séu á því, að þeir taugasálfræðilegu veikleikar, sem fram koma við prófun, eigi rót sína að rekja að verulegu leyti til heilaáverka af völdum þess höfuðáverka, sem í upphafi var lýst. (þ.e. höfuðhögg, sem stefndi veitti honum). Í framburði sínum fyrir dóminum kvaðst Jónas G. Halldórsson hafa byggt álit sitt á frásögn stefnanda sjálfs og prófum, sem hann lagði fyrir hann. Vitnið kvaðst engra upplýsinga hafa aflað um sjúkrasögu stefnanda eða stuðst við læknisfræðileg gögn um heilsufar hans fyrir atburðinn, né hvernig honum hefði reitt af síðan.

Dómurinn lítur svo á, að ólíklegt sé, að þeir taugasálfræðilegu veikleikar, sem stefnandi virðist vera haldinn og vísað er til í álitsgerð sálfræðingsins, verði raktir til þess áverka, sem stefndi veitti honum. Þungt högg þurfi til að valda slíkum skaða á framheila, sem sálfræðingurinn lýsir, en engin gögn bendi til þess, að högg stefnda hafi verið svo kraftmikið, að það hafi valdið þessum veikleika stefnanda, s.s. heilahristingi eða að hann hafi rotast eða vankast verulega af þess völdum. Í skýrslu lögreglumanns, sem kvaddur var á staðinn umrædda nótt, er ástandi stefnanda lýst. Sú lýsing gefur ekki tilefni til að ætla, að stefnandi hafi vankast við högg stefnda.  Einnig liggur fyrir lýsing Leifs Jónssonar læknis, á ástandi stefnanda, þegar komið var með hann á slysavarðstofu. Ekki er þar að sjá, að grunur hafi risið um mögulegan heilaskaða, eða heilahristing af völdum áverkans. Nauðsynlegt er, sé um slíkan skaða að ræða, að kanna hugsanlegar orsakir hans aðrar en umrætt höfuðhögg. Sú könnun felst m.a. í nákvæmri heilsufarssögu, skoðun taugakerfis og myndrænum og starfrænum rannsóknum á heila. Af gögnum málsins verður ekki séð, að nokkuð af þessu hafi verið gert að því er stefnanda varðar.

Örorkunefnd mat varanlegan miska stefnanda 35%. Missir auga er að jafnaði talinn valda 20% varanlegum miska, samkvæmt hefðbundnum viðmiðunum. Af gögnum málsins má ráða, að sjón stefnanda er mikið skert á vinstra auga. Hreyfingar augans eru auk þess skertar, þannig að sú litla sjón, sem eftir er getur valdið tvísýni eða óskerpu í sjón og verið þannig frekar til vandræða en gagns.  Lýsing stefnanda á þrálátum verkjum við vinstra auga/gagnauga er að mati dómsins trúverðug og getur vel skýrst af þeim áverkum, sem stefnandi hlaut af völdum stefnda.  Verkirnir aukast við beitingu augna, svo sem við vinnu. Miski vegna alls þessa telst að mati dómsins hæfilega metinn 25%.

Að áliti örorkunefndar er varanleg fjárhagsleg örorka stefnanda 50%.

Ljóst er, að atvinnu- og afkomumöguleikar stefnanda hafa stórlega skerst af völdum þess áverka, sem stefndi olli honum. Í matsgerð örorkunefndar kemur fram, að hann sé nánast blindur á hægra auga og það sé honum meira til trafala en til gagns.

Í matsgerð Björns Önundarsonar er starfsmenntun stefnanda lýst. Þar kemur fram, að stefnandi hefur sveinspróf sem trésmiður en geti ekki lengur unnið við það starf, a.m.k. ekki hvað varðar fínvinnu. Stefnandi hafi einnig alþjóðleg atvinnu­flugmannsréttindi, sem ekki nýtist honum lengur. Þá hafi stefnandi réttindi sem skipstjórnarmaður á 30 tonna báta, sem séu honum lítils virði, og einnig hafi stefnandi lokið lögfræðiprófi og hlotið réttindi héraðsdómslögmanns, sem hann geti ekki sinnt af fullum krafti vegna skertrar sjónar, verkjar í hægra auga og á hægra gagn­augasvæði. Einnig sé vinnugeta hans verulega skert vegna verkjar í hægra auga, á hægra gagnaugasvæði og vegna hátíðnisóns fyrir hægra eyra. Verkir ágerist mjög við pappírsvinnu eða aðra raun á augu. Þess er getið í mati Björns, að stefnandi sé haldinn geðlægð, en tekið fram, að matsmaður hafi ekki samanburð, hvað það snertir, þar sem hann þekkti ekki slasaða fyrir nefnt slys. Björn mat varanlega fjárhagslega örorku stefnanda 40%, eins og fyrr er getið.

Lýsing örorkunefndar á atvinnumöguleikum stefnanda eru á sama veg og lýsing Björns, en ekki jafn ítarleg.

Dómurinn telur rétt, eins og hér stendur á, að fallast einnig á matsgerð Björns Önundarsonar að því er varðar varanlega örorku stefnanda, enda virðist örorkunefnd miða niðurstöðu sína um varanlega örorku stefnanda, að einhverju leyti við þá tauga­sálfræðilegu veikleika, sem stefnandi er haldinn að mati Jónasar G. Halldórssonar sálfræðings.

Nú verður tekin afstaða til bótakröfu stefnanda á framangreindum forsendum.

Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga.

Þessi kröfuliður stefnanda hefur ekki sætt andmælum af hálfu stefnda.

Stefnandi var rúmfastur í 45 daga. Bætur á dag nema samkvæmt 3. gr. skbl. 1.300 kr. og skulu verðbættar skv. 15. gr. laganna, þar til bótafjárhæð er ákveðin.  Skilja verður ákvæðið svo, að verðbætur skuli miðast við þann dag, sem tjónþoli setur fram kröfu sína fyrir dómi. Verðbætt bótafjárhæð samkvæmt þessum lið nemur því 1.771 kr. á dag (1300x4472/3282), eða samtals 79.690 kr. Frá dregst eigin sök stefnanda 50%.

Bótafjárhæð                                                                                                                             39.845 kr.

Veikur en ekki rúmliggjandi í 181 dag, hver á 953 kr.

700x4472/3282. Krafa stefnanda 171.950, eigin sök 50%

Bótafjárhæð                                                                                                                             85.975 kr.

Bætur fyrir varanlegan miska.

Verðbætt viðmiðunarfjárhæð nemur 5.450.334 kr.

(4000000x4472/3282).

Bætur fyrir 25% varanlegan miska 25% nemur 1.362.584 kr.

Eigin sök stefnanda 50% og bótafjárhæð því                                                                   681.292 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku stefnanda.

Stefnandi miðar bótakröfu sína samkvæmt þessum kröfulið við tekjur, sem ekki koma fram á skattframtali hans fyrir árin 1993 og 1994. Hann vísar í þessu sambandi til greiðslna, sem flugmálastjórn greiddi hlutafélaginu Björk hf. á tímabilinu frá ágúst 1992 til og með júlí 1993, samtals 4.121.459 kr., sbr. framlagt skjal. Stefndi mótmælir því, að þessar tekjur verði lagðar til grundvallar, enda komi þær ekki fram á skattframtölum stefnanda fyrir viðmiðunarárin. Við aðalmeðferð málsins kvaðst lögmaður stefnda geta fallist á, að tekjur stefnanda fyrir árið 1992 yrðu hlutfallslega lagðar til grundvallar fyrir tímabilið frá ágúst til desemberloka það ár, en litið yrði svo á, að tekna ársins 1993 hefði verið aflað fram að slysdegi.

Skattframtal Bjarkar hf. fyrir áðurnefnd viðmiðunarár liggur ekki fyrir.

Dómurinn telur rétt að miða ákvörðun bóta samkvæmt þessum kröfulið við framtaldar tekjur stefnanda fyrir árin 1992 og 1993, enda er það sú viðmiðun, sem skattgreiðslur hans hafa miðast við. Greiðslur til hlutafélagsins Bjarkar hf. verða ekki lagðar til grundvallar, enda kemur ekki fram á skattframtölum stefnanda, að hann hafi notið þeirra greiðslna og flutningur fjár úr hlutafélagi sætir ákveðnum reglum hluta­félagalaga.

Tekjur stefnanda fyrir árið 1992 námu 2.568.335 kr. Mánaðartekjur voru því 214.028 kr., en námu alls 1.862.250 kr. á árinu 1993.  Sé gengið út frá því, að tekjur stefnanda á árinu 1993 hafi allar orðið til á tímabilinu frá 1. janúar 1993 fram að slysdegi, eins og lögmaður stefnda lagði til, nema mánaðartekjur hans 266.036 kr. Viðmiðunartekjur stefnanda verða því sem hér segir:

Tekjur ársins frá ágúst til 31. desember 1992 nema því 1.070.140 kr. (214.028x5), að viðbættum tekjum ársins 1993 1.862.250 kr. Viðmiðunarárstekjur nema því 2.932.390 kr. Með vísan til 15. gr. skbl. ber að verðbæta viðmiðunartekjur í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu frá slysdegi og þar til bótafjárhæð er ákveðin. Þannig verðbættar nema tekjur stefnanda 3.965.420 kr. (2.932.390x 4472/3307). Að teknu tilliti til margföldunarstuðuls 7,5 og varanlegrar örorku stefnanda (40%) verður niðurstaðan 11.896.260 kr. Þá fjárhæð ber að lækka um 22% vegna aldurs stefnanda á slysdegi, en hann var þá 45 ára gamall, sbr. 9. gr. skbl.  Tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku nemur því 9.279.084 kr.

Að teknu tilliti til eigin sakar stefnanda ber stefnda að greiða stefnanda bætur vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 4.639.542 kr.

Samkvæmt framansögðu dæmist stefndi því til að greiða stefnanda samtals 5.449.654 kr., (39.845+85.975+681.292+4.639.542) að frádregnum 3.100.000 krónum, sem stefnandi fékk greiddar 7. september 2001, að viðbættum vöxtum, eins og nánar er lýst í dómsorði.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6.  gr. laga nr. 38/2001, reiknist frá dómsuppsögudegi.

Stefndi skal, með vísan til 1. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991, greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð 500.000 krónur, sem renni í ríkissjóð. Tillit hefur verið tekið  til skyldu lögmanns stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af tildæmdri lögmannsþóknun.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 500.000 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, sem nemur sömu fjárhæð að meðtöldum virðisaukaskatti.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Grétari Guðmundssyni taugalækni og Júlíusi Valssyni gigtarlækni.

Dómsorð:

Stefndi, Pálmi Guðmundsson Ragnars, greiði stefnanda, Pétri Einarssyni, 5.449.654 kr., ásamt 2% ársvaxta frá 14. ágúst 1993 til dómsuppsögudags. Vextir höfuðstóls færist á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 14. ágúst 1994. Dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 skulu reiknast frá dómsuppsögudegi til greiðsludags. Til frádráttar samtölu höfuðstóls og uppfærðra vaxta til 7. september 2001 komi 3.100.000 kr.

Stefndi greiði 500.000 kr. í málskostnað, sem renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður 500.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.