Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


 

Þriðjudaginn 7. febrúar 2012.

Nr. 81/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. febrúar 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að tilhögun þess verði á þann veg að hann þurfi ekki að sæta takmörkunum samkvæmt b. til e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, þó þannig að „gæsluvarðhaldstíma verði markaður tími í samræmi við kröfugerð lögreglu fyrir héraðsdómi til föstudagsins 24. febrúar 2012.“

Það athugist að varnaraðili sætir ekki einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 þar sem ekki er kveðið á um það í hinum kærða úrskurði, svo sem nauðsynlegt hafi verið samkvæmt 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Varnaraðili hefur ekki neytt heimildar til að bera ákvörðun um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar samkvæmt c. d. e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 undir héraðsdómara samkvæmt 5. mgr. 99. gr., sbr. 102. gr., laganna, og verður þeirri ákvörðun því ekki skotið til Hæstaréttar.

Þrátt fyrir að gögn málsins séu ruglingsleg og ómarkviss þykir af þeim verða ráðið að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot er heimfærð verði til ákvæða XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðað geti fangelsisrefsingu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. febrúar nk. kl. 16:00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhalsins verði samkvæmt b- til e- liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði X hafi verið handtekinn síðdegis í gær grunaður um fjölda  kynferðisbrota.  Upphaf máls séu kærur foreldra tveggja 14 og 15 ára telpna síðastliðið haust á hendur kærða.  Foreldrar telpnanna hafi þá orðið vör við að telpurnar væru komnar, á netinu, í samband við fullorðin einstakling sem grunur hafi verið um að hefði sem markmið að tæla þær kynferðislega. Þegar kærði hafi verið handtekinn og framkvæmd leit á heimili hans 3. nóvember s.l., hafi verið lagt hald á tölvur, tölvudiska og gögn sem talið hefði verið að hefði að geyma upplýsingar um samskipti kærða við stúlkurnar.  Í yfirheyrslu yfir kærða í byrjun nóvember sem hafi farið fram í kjölfar handtöku og húsleitar hafi kærði viðurkennt að hafa sem áhugaljósmyndari sett sig í samband við þær, verið í kynferðislegu sambandi á netinu og að hafa fengið þær til myndatöku.  Þó ekki nektarmyndatöku.  Kærði hafi viðurkennt að hafa sagt þeim rangt til um aldur sinn og að heita [...].

Í samræmi við grunsemdir á hendur kærða hafi verið gerð rannsókn á því efni sem fannst hjá honum og verið haldlagt.  Rannsókn hafi leitt í ljós að kærði átti mikinn fjölda mynda af ungum stúlkum, klæðalitlum og nöktum, sem beri með sér að séu teknar í kynferðislegum tilgangi.  Myndirnar séu í fyrsta lagi teknar í vefmyndavélum sem sýni stúlkurnar í kynferðislegum stellingum klæðalitlar og eða klæðalausar þar sem þær hafi berað brjóst sín og kynfæri í sumum tilvikum.  Á samskiptasíðum sem liggi í sumum tilvikum fyrir með myndunum komi fram ýtni af hálfu kærða um að þær fækki fötum og í sumum tilvikum sýni sig með kynferðislegum tilburðum.  Þá séu myndir sem beri með sér að hafi verið teknar í ljósmyndastúdíói, þar sem stúlkur sumar barnungar sitji fyrir naktar og tilvik þar sem mynduð séu ber brjóst þeirra og kynfæri. Þá séu einnig til myndir og myndskeið þar sem kærði sé einnig á myndum með stúlkum ber eða klæðalaus. Þrátt fyrir að kærði hafi sett sig í samband við stúlkurnar undir ólíkum kenniheitum, sem staðfesti það sem fram komi í kærum að kærði hafi reynt að villa á sér heimildir, megi sjá upplýsingar sem geri það auðvelt að hafa upp á stúlkunum sem hann virðist hafa verið í sambandi við og myndirnar séu af.  Ljóst sé að fjöldi stúlknanna sem hafa þarf samband við skipti a.m.k. tugum.  Torveldara kunni að vera að hafa upp á þeim stúlkum sem myndir séu af frá ljósmyndastúdíói, en þó megi ætla að í þeim tilvikum megi styðjast við vefsamskipti sem finnist í gögnum kærða, enda virðist kærði með þeim hætti hafa fengið og tælt stúlkurnar til samskipta.

Í gögnum séu myndskeið og afrit samskipta þar sem kærði virðist fá 13 ára stúlku, fyrir greiðslu á bankareikning hennar, til þess að bera sig fyrir framan vefmyndavél og viðhafa kynferðislega tilburði.  Þá séu einnig vefsamskipti sem ástæða sé til að ætla að sýni vefsamskipti kærða við karlmann sem virðist tilbúinn til þess að kaupa kynlíf af kærða.

Í einu máli hafi móðir 15 ára stúlku lagt fram kæru á hendur kærða fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga en þar sé kærði sakaður um að hafa þvingað stúlkuna til kynmaka auk þess að tæla hana til þess að þola myndatökur nakta.

Lögregla hafi þegar hafið vinnu við að hafa upp á þeim stúlkum sem gögn beri með sér að kærði hafi verið í sambandi við og grunur sé um að brotið hafi verið gegn.  Í samráði við foreldra stúlknanna sem séu á aldrinum 13 til 16 ára hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að taka skýrslur af þeim fyrir dómi eða við aðrar aðstæður undir stjórn dómara.

Kærði hafi við yfirheyrslu lýst því að hann sé áhugaljósmyndari og setji sig í samband við stúlkur til þess að æfa sig í ljósmyndun.  Í þeim tilgangi hafi hann m.a. leigt sér aðstöðu í ljósmyndastúdíói.  Hann hafi gengist við því að hafa tekið myndir af stúlkum nöktum en beri því við að það sé með þeirra samþykki og í einhverjum tilvikum að þeirra ósk.  Kærði hafi einnig borið því við að hann hafi ekki verið viss um aldur þeirra stúlkna sem um ræði.  Kærði hafi gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna sem kært hafi nauðgun en segir að samfarirnar hafi farið fram með hennar vilja.

Rannsókn máls sé á frumstigi, en rökstuddur grunur sé um að umfang brota kærða sé mikið og að hann hafi síðastliðin misseri, með kerfisbundnum hætti sett sig í samband við stúlkur á aldrinum 13 til 17 ára í kynferðislegum tilgangi og að hafa ljósmyndað þau samskipti sín við þær.  Sakarefni málsins sé talið varða við ákvæði XXII. kafla, einkum 194., 202. gr. og 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Eins og fram kemur hér að framan og rakið var úr greinargerð lögreglustjóra er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn framangreindum ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga og geta brotin varðað fangelsisrefsingu, verði hann fundinn sekur.  Samkvæmt gögnum málsins hefur rannsókn málsins staðið yfir í allnokkurn tíma og hefur verið lagt hald á fjölda gagna hjá kærða.  Ljóst má vera að ætluð brot hans beinast gegn mjög mörgum stúlkum.  Fallast má á það með lögreglustjóra að hætta sé á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni hafi hann fullt ferðafrelsi.  Samkvæmt þessu og með vísun til a. liðar 1. mgr. 95 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður því orðið við kröfunni, þó þannig að kærða verður gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 17. febrúar nk.

Arngrímur Ísberg kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a o r ð

Kærði X, kt. [,..] skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. febrúar nk. kl. 16:00.