Hæstiréttur íslands
Mál nr. 355/2001
Lykilorð
- Lögregla
- Tollgæsla
- Valdmörk
- Haldlagning
- Upptaka
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 21. febrúar 2002. |
|
Nr. 355/2001. |
Tollstjórinn í Reykjavík(Skarphéðinn Þórisson hrl. Jón Auðunn Jónsson hdl.) gegn Heilsu ehf. (Stefán Geir Þórisson hrl. Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl.) |
Lögregla. Tollgæsla. Valdmörk. Haldlagning. Upptaka. Sératkvæði.
Í nóvember 1999 lagði T hald á samtals 483 flöskur af vörunni Mirin Sweetened Sake á lager H, þar sem ástæða þótti til að kanna hvort innflutningur vörunnar samræmdist ákvæðum áfengislaga. Alkóhólinnihald vörunnar var 8%. Hafði H flutt vöruna til landsins í fjölda ára í því skyni að selja hana til matargerðar og hafði hún verið tollflokkuð sem sósur og framleiðsla í þær. Aðgerðir T höfðu ekki byggst á því að H hefði brotið gegn ákvæðum tollalaga, heldur sýndust þær vera reistar á því að varan teldist áfengi í skilningi áfengislaga. Var talið að rannsóknarvald tollgæslunnar væri takmarkað við tollalagabrot samkvæmt skýrum ákvæðum tollalaga. Á hinn bóginn skyldi rannsókn ætlaðs brots á áfengislögum vera í höndum lögreglu á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Afskiptum T af innflutningi H hefði verið lokið með tollafgreiðslu vörunnar og hefði rannsókn á ætluðu broti H á áfengislögum þá hlotið að vera í höndum lögreglu. Var T talinn hafa farið út fyrir valdmörk sín með haldlagningu og upptöku hinnar umdeildu vöru, enda urðu aðgerðir hans ekki reistar á 3. mgr. 46. gr. tollalaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 2001 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en með héraðsdómi var ógilt haldlagning og upptaka áfrýjanda á 483 flöskum af vörunni Mirin Sweetened Sake og viðurkennd skylda hans til að afhenda stefnda vöruna.
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi og er ekki um þá ágreiningur. Um upphaf málsins má sjá af nýjum skjölum, að 7. desember 1999 ritaði lögreglustjórinn í Reykjavík bréf til áfrýjanda, þar sem fram kemur, að blaðamaður hafi vakið athygli hans á því, að í tilgreindum verslunum í Reykjavík væri til sölu japanskt hrísgrjónavín og ávextir í vínlegi. Vegna þessa hafi lögreglumenn verið sendir í verslun stefnda við Skólavörðustíg hinn 19. nóvember 1999 og séð þar slíkar vörur á boðstólum. Lögreglan hafi tekið sýnishorn af þessum varningi, sem hafi reynst innihalda 8-27% vínanda að rúmmáli. Ljóst þætti, að þessi vara hafi verið flutt hingað til lands með vitund tollyfirvalda og væntanlega tollafgreidd á þeim grundvelli, að ekki hafi verið um að ræða áfengi samkvæmt áfengislögum nr. 75/1998. Meðal annars vegna þessa þætti ekki að svo stöddu fært að hefja lögregluaðgerðir, sem miði að því að koma fram viðurlögum fyrir ólögmætan innflutning og sölu þessa varnings. Var þess óskað, að embættinu yrðu látnar í té upplýsingar um það, á hvaða forsendum innflutningur þessa varnings hafi verið heimilaður og hvernig það fengi samrýmst áfengislögum.
Einnig hefur verið lagt fyrir Hæstarétt bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fjármálaráðuneytisins 3. janúar 2000. Þar kemur fram, að hið síðarnefnda hafi með bréfi 27. júlí 1998 óskað umsagnar dómsmálaráðuneytisins um erindi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins 28. apríl 1998 varðandi sölu í matvöruverslunum á ávöxtum í vínblöndu, sem sé 15% að styrkleika, og þess farið á leit, að ráðuneytið léti í ljós álit sitt á því, hvort þessi vara teldist áfengi í skilningi áfengislaga. Með vísan til 1. mgr. 2. gr. áfengislaga komst dómsmálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu „að umrædd vara sé áfengi í skilningi áfengislaga, enda sé um neysluhæfan vökva að ræða með styrkleika yfir 2,25% af hreinum vínanda.“
Í framhaldi af þessari niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins um ávexti í vínlegi óskaði áfrýjandi 13. janúar 2000 eftir umsögn sama ráðuneytis um það, hvort sú vara, sem mál þetta fjallar um, væri háð leyfi til innflutnings í atvinnuskyni samkvæmt áfengislögum. Í svarbréfi ráðuneytisins 18. janúar 2000 kemur fram sú skoðun, að umrædd vara sé ekki matvara heldur áfengi í skilningi áfengislaga og væri háð leyfum. Var þetta rakið í bréfi áfrýjanda til lögreglustjórans í Reykjavík 20. janúar 2000, þar sem svarað var bréfinu frá 7. desember 1999, sem nefnt var hér í upphafi. Áfrýjandi greindi jafnframt frá því, að með vísan til þessarar niðurstöðu myndi allur innflutningur umræddrar vöru verða bannaður nema gegn framvísun áfengisleyfis.
II.
Það er óumdeilt, að stefndi hefur flutt vöruna Mirin Sweetened Sake til landsins á annan áratug í því skyni að selja hana til matargerðar. Hún hefur verið tollflokkuð sem sósur og framleiðsla í þær samkvæmt samkvæmt tollflokki 2103.9090, án athugasemda tollyfirvalda. Í áðurnefndu bréfi áfrýjanda til lögreglustjórans í Reykjavík 20. janúar 2000 kemur fram, að helstu sérfræðingar í tollflokkun hjá embættinu séu fremur á þeirri skoðun, að tollflokkun stefnda hafi verið rétt, sérstaklega í ljósi skýringa Alþjóða tollasamvinnuráðsins, og því hafi varan ekki verið ranglega tollflokkuð. Tollafgreiðslu þeirrar vöru, sem þetta mál er sprottið af, var lokið á þeim forsendum, sem áfrýjandi taldi réttar. Samkvæmt þessu var ekki á því byggt af hálfu áfrýjanda, að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum tollalaga nr. 55/1987. Hins vegar sýnast aðgerðir áfrýjanda gagnvart stefnda vera reistar á því, að um hafi verið að ræða áfengi í skilningi áfengislaga, en álits dómsmálaráðuneytisins á því var þó ekki aflað fyrr en eftir haldlagningu vörunnar 19. nóvember 1999, sama dag og lögreglan tók sýnishorn hennar í sínar vörslur.
Rannsóknarvald tollgæslunnar er takmarkað við tollalagabrot samkvæmt skýrum ákvæðum tollalaga, sbr. 3. mgr. 46. gr., 1. mgr. 50. gr., 136. gr. og 139. gr. Á hinn bóginn skal rannsókn ætlaðs brots á áfengislögum vera í höndum lögreglu á grundvelli laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. IX. kafla laganna. Ákvæði 4. mgr. 4. gr. áfengislaga um tiltekið eftirlitshlutverk tollgæslu haggar þessu ekki. Afskiptum áfrýjanda af innflutningi stefnda var lokið með tollafgreiðslu vörunnar og hlaut rannsókn á ætluðu broti stefnda á áfengislögum þá að vera í höndum lögreglu. Áfrýjandi fór þannig út fyrir valdmörk sín með haldlagningu og upptöku hinnar umdeildu vöru, enda urðu aðgerðir hans ekki reistar á 3. mgr. 46. gr. tollalaga.
Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, tollstjórinn í Reykjavík, greiði stefnda, Heilsu ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar og
Hrafns Bragasonar
Deila málsaðila lýtur fyrst og fremst að því hvort hin innflutta vara, Mirin Sweetened Sake, sé áfengi í skilningi áfengislaga. Ágreiningslaust er að þetta er sósa með 8% af hreinum vínanda ætluð til matargerðar á japanska vísu, og að hún hafi verið réttilega flokkuð í tollflokk 2103.9090 og flutt þannig inn af stefnda í mörg ár og seld til neytenda í smásölu til matargerðar. Hún verður almennt ekki notuð til drykkjar. Lagaákvæði það sem hér skiptir máli og þarfnast skýringar er 1. mgr. 2. gr. áfengislaga, svohljóðandi:
„Samkvæmt lögum þessum telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda. Efni þau sem sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika skal fara með sem áfengan drykk.“
Ljóst má vera, að sósa ætluð til matargerðar hljóti að vera neysluhæf í því formi sem til er ætlast. Eftir orðum lagaákvæðisins verður þó að telja að því sé ætlað að skilgreina sem áfengi vökva sem er neysluhæfur í þeim skilningi að vera hæfur til drykkjar. Sósa þessi getur ekki talist hæf til drykkjar og er því ekki áfengi samkvæmt fyrri málslið ákvæðisins. Áfrýjandi hefur ekki leitast við að sýna fram á að með sósuna skuli fara sem áfengan drykk samkvæmt síðari málslið ákvæðisins. Sósa þessi telst því ekki áfengi að lögum. Þegar af þessari ástæðu var enginn grundvöllur fyrir þeim aðgerðum sem beitt var gegn stefnda og ber af þeim sökum að fallast á kröfu hans. Þarf þá ekki að taka afstöðu til annarra málsástæðna stefnda.
Með þessum forsendum erum við sammála meirihlutanum um að staðfesta beri niðurstöðu héraðsdóms, og um málskostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2001.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. júní s.l., er höfðað með stefnu birtri 20. september s.l.
Stefnandi er Heilsa ehf., kt. 680188-1229, Sundaborg 1, Reykjavík.
Stefndi er Tollstjóraembættið, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði haldlagning og upptaka stefnda á 483 flöskum af vörunni Mirin Sweetened Sake og að viðurkennd verði skylda stefnda til að afhenda stefnanda þær 483 flöskur af Mirin Sweetened Sake sem upptækar voru gerðar. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins.
Máli þessu var vísað frá dómi að kröfu stefnda með úrskurði upp kveðnum 29. desember s.l. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar Íslands sem felldi hann úr gildi með dómi upp kveðnum 7. febrúar s.l. og lagði fyrir dómara að taka málið til efnismeðferðar. Var stefnda gert að greiða stefnanda 60.000 krónur í kærumálskostnað.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að föstudaginn 19. nóvember 1999 komu starfsmenn stefnda á skrifstofu og lager stefnanda og lögðu hald á samtals 483 flöskur af Mirin Sweetened Sake. Segir í skýrslu um haldið að varan sé vökvi í 296 ml flöskum og innihaldi m.a. 8% áfengi. Þá var lagt hald á 8 flöskur af sömu vöru í versluninni Blómavali 22. nóvember sama ár, en sú aðgerð er ekki til úrslausnar hér eða síðari upptaka. Stefnandi segir lagaheimild fyrir haldlagningunni aldrei hafa verið kynnta sér en gerir ráð fyrir að byggt sé á 3. mgr. 46. gr. tollalaga. Með bréfi stefnda til stefnanda dagsettu 21. janúar 2000 var stefnanda tilkynnt að hin haldlagða vara væri gerð upptæk án sektar samkvæmt 5. mgr. 136. gr. tollalaga. Stefnanda barst síðan annað bréf dagsett 7. mars s.l. þar sem tilkynnt er að hugsanlegt sé að til upptöku varningsins komi og var honum gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun yrði tekin. Segir í bréfinu að það hafi þótt ástæða til að kanna hvort innflutningur vörunnar samrýmdist ákvæðum áfengislaga þar sem alkóhólinnihald vörunnar væri 8%. Þá var vísað til þeirrar niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að umrædd vara væri ekki matvara heldur áfengi í skilningi áfengislaga. Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 8. júní s.l. og krafðist þess að umræddum flöskum yrði skilað þegar í stað. Með bréfi dagsettu 16. maí s.l., sem samkvæmt gögnum málsins á að vera 16. júní, var stefnanda tilkynnt að tekin hefði verið ákvörðun um að gera upptækar, samkvæmt 136. gr. tollalaga, 491 flösku af umræddri vöru sem lagt var hald á 19. og 22. nóvember 1999. Er þetta sagt gert í samræmi við umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 18. janúar s.l. þar sem komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að umrædd vara væri ekki matvara heldur áfengi í skilningi áfengislaga, enda um neysluhæfan vökva að ræða með styrkleika yfir 2.25% af hreinum vínanda.
Með bréfi dagsettu 28. ágúst 2000 til dómsmálaráðuneytis óskaði lögmaður stefnanda upplýsinga um það með hvaða heimild matvöruverslanir seldu áfenga kökudropa í smásölu. Í svarbréfi ráðuneytisins, dagsettu 5. desember sama ár, segir m.a. að með vísan til forsögu ákvæða áfengislaga og annarra laga, verði að telja bökunardropa ódrykkjarhæfan vökva og falli þeir því ekki undir skilgreiningu áfengislaga nr. 75/1998. Sé þar af leiðandi heimilt að selja þá í matvöruverslunum.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að ranglega hafi verið staðið að eignaupptökunni. Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta lögmælts andmælaréttar eins og kveðið sé á um í 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi stefnandi ekki verið upplýstur um lagagrundvöll haldlagningarinnar og langur tími hafi liðið frá haldlagningu þar til stefnandi fékk nokkrar upplýsingar um framvindu málsins. Með þessu háttalagi hafi stefndi brotið leiðbeiningarskyldu og meginreglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð og málshraða.
Þá byggir stefnandi á því að ekki hafi verið forsendur fyrir haldlagningu og síðar upptöku. Í 3. mgr. 46. gr. tollalaga sé tollgæslumönnum rétt að leggja hald á muni sem teljast til sakargagna eða ætla megi að hafi sönnunargildi í málum vegna tollalagabrota. Umrædd vara hafi verið flutt löglega inn í landið, en samkvæmt 136. gr. tollalaga sé heimilt að gera upptæka vöru sem flutt hefur verið ólöglega inn eða á annan hátt farið með andstætt ákvæðum tollalaga. Hafi stefnandi þurft áfengisleyfi eða önnur leyfi á grundvelli áfengislaga heyri slíkt mál undir önnur stjórnvöld en stefnda. Hafði stefndi ekkert með uppptöku á vörunni að gera, löngu eftir hefðbundna tollafgreiðslu. Þá hafi stefnandi flutt umrædda vöru til landsins í áraraðir og selt hana í smásölu.
Stefnandi mótmælir þeim skilningi dómsmálaráðuneytis að varan sé áfengi og bendir á að samkvæmt 2. gr. áfengislaga teljist áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem sé að rúmmáli meira en 2.25% af hreinum vínanda. Stefnandi kveður um sósu að ræða og sé hún ódrykkjarhæf eins og áfengir kökudropar sem seldir séu í verslunum. Stefnandi bendir einnig á fleiri vörur sem innihalda áfengi og séu seldar í matvöruverslunum. Stefnandi vísar í ummæli Nönnu Rögnvaldsdóttur í bókinni „Matarást”, en þar segir að um sé að ræða sætt, japanskt hrísgrjónavín, sem sé notað töluvert í japanskri matargerð á svipaðan hátt og sojasósa, en ekki haft til drykkjar. Það sé gullið á lit og ekki mjög áfengt, oftast 12-14% og stundum daufara, auk þess sem áfengið gufi upp við eldunina og skilji eftir sig sérstakt bragð, sem ekki fáist með öðru móti. Byggir stefnandi á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaganna, en samkvæmt þeirri reglu skuli vara hans ekki hljóta annars konar meðferð innan stjórnsýslunnar en sambærileg matvara.
Þá bendir stefnandi á að varan hafi verið tollflokkuð í tollflokk 2103.9090, en það sé flokkur fyrir sósur og framleiðslu í þær. Sé því ótvírætt að hún flokkist undir matvöru og falli því utan skilgreiningar 1. mgr. 2. gr. áfengislaga. Þá hafi komið fram að tollstjóri telji vöruna réttilega flokkaða. Verði vafi um túlkun ákvæðisins að túlkast stefnanda í hag með vísan til þeirra grundvallarsjónarmiða sem meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga sé reist á.
Stefnandi byggir á því að varan hafi ekki verið flutt ólöglega inn í landið og hafi því hvorki verið lagaheimild til haldlagningar né upptöku vörunnar. Beri því að fallast á ógildingarkröfu stefnanda og kröfu hans um að viðurkennd verði skylda stefnda til að skila hinum upptæku vörum.
Stefnandi vísar einnig til EES samningsins og meginreglna EES réttar auk þeirra meginreglna sem fram komi í 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem öðlast hafi lagagildi með lögum nr. 62/1994.
Stefnandi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnda hafi borið samkvæmt gildandi áfengis- og tollalögum að leggja hald á og gera upptæka þá vöru stefnanda sem deilt er um. Þá skipti óheppilegir hnökrar á málsmeðferðinni ekki máli og hnekkja hvorki haldlagningu né endanlegri eignaupptöku. Heimild stefnda til haldlagningar byggist á 46. gr. tollalaga, 78. gr. laga um meðferð opinberra mála og 2., 9., 10. gr., 5. mgr. 19. gr., 1. og 3. mgr. 27. gr og 3. mgr. 28. gr. áfengislaga. Hafi stefnda borið að leggja hald á vörur stefnanda þar sem grunur lék á því að í þeim væri of mikið áfengismagn. Við rannsókn hafi komið í ljós að vökvinn innihélt 8% af hreinum vínanda miðað við rúmmál. Skipti ekki máli hvort vökvinn er neysluhæfur, því samkvæmt 2. gr. áfengislaga skuli fara með vökva sem áfengan drykk ef efni þau í vökva, sem sundur má leysa, reynast meiri er 2,25% af vínanda að rúmmáli. Verði því að telja að varan sé áfengi í skilningi áfengislaga og þar með neysluhæfur vökvi með styrkleika yfir 2,25% af hreinum vínanda. Stefndi viðurkennir þó að álitamál sé hvort vökvinn sé neysluhæfur, en telur ósannað að svo sé en jafnframt skipti neysluhæfni ekki máli við úrlausn málsins.
Stefndi byggir á því að endanleg eignaupptaka hafi verið byggð á skýrum lagaheimildum og vísar til 3. mgr. 28. gr. áfengislaga og 1. og 5. mgr. 136. gr. tollalaga, sbr. lög um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 28. gr. áfengislaga skuli gera upptækt áfengi sem ólöglega sé flutt til landsins og samkvæmt 136. gr., sbr. 46. gr. tollalaga sé það hlutverk tollyfirvalda að sjá um og fylgja eftir upptöku vöru sem hafi verið flutt inn á hvaða hátt sem er. Ef þessi lagaákvæði séu lesin í samhengi, fari ekki á milli mála að stefnda hafi borið að standa að málum með þeim hætti sem hann gerði.
Stefndi viðurkennir smávægilega galla á málsmeðferð en hugsanleg brot á stjórnsýslulögum geti ekki leitt til þess að stefnda verði gert að skila vörunni. Hafi stefnda með vísan til áðurgreindra ákvæða áfengis- og tollalaga borið að gera umrædda vöru upptæka, enda um áfengi að ræða sem flutt var inn án tilskilinna leyfa.
Örn Svavarsson, kt. 260952-2269, forsvarsmaður stefnanda, skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, að hann hefði flutt umrædda vöru inn frá árinu 1989 og hefði aldrei verið gerðar athugasemdir við innflutninginn. Hann kvað vöruna ekki hæfa til drykkjar og aldrei hafa vitað til þess að hún hefði verið keypt í þeim tilgangi að drekka hana.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu er deilt um haldlagningu og upptöku á 483 flöskum af vörunni Mirin Sweetened Sake og krefst stefnandi viðurkenningar á skyldu stefnda til að afhenda stefnanda muni þessa á ný. Ekki er ágreiningur um það í máli þessu að stefnandi hefur um árabil flutt inn umrædda vöru og hefur hún verið tollflokkuð sem sósur og framleiðsla í þær samkvæmt tollflokki 2103.9090. Hefur ekki verið gerð athugasemd við innflutning stefnanda fyrr en með fyrrgreindum aðgerðum tollyfirvalda 19. nóvember 1999 er lagt var hald á vöruna. Þá er ágreiningslaust að í vörunni eru 8,0% af hreinum vínanda, en ágreiningur er um það hvort um neysluhæfan vökva sé að ræða. Hefur stefnandi bent á mismunandi meðferð yfirvalda á bökunardropum og umræddri vöru hans, en í málinu hefur verið lagt fram það álit dóms- og kirkjumálaráðuneytis að telja verði bökunardropa ódrykkjarhæfan vökva og sé af þeim ástæðum heimilt að selja þá í matvöruverslunum. Þá hefur sama ráðuneyti komist að þeirri niðurstöðu að vara stefnanda sé áfengi í skilningi áfengislaga, enda um neysluhæfan vökva að ræða með styrkleika yfir 2,25% af hreinum vínanda. Ekki liggja gögn um það í málinu hvernig ráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að bökunardropar séu ódrykkjarhæfir en vara stefnanda neysluhæf. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að í bökunardropum sé yfirleitt 35-40% vínandi.
Í VII. kafla tollalaga nr. 55/1987 með síðari breytingum eru almenn ákvæði um tolleftirlit og meðferð ótollafgreiddrar vöru. Er tollgæslumönnum þar veitt víðtæk heimild til þess að fylgjast með innflutningi til landsins og er þeim t.d. heimilt að leita í öllum farartækjum sem þeir hafa grun um að flytji ólöglega innfluttar vörur, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna i.f. Þá er þeim veitt heimild til þess að skoða og rannsaka allar vörur er flytjast til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað, sbr. 1. mgr. 45. gr. laganna. Þá er tollgæslumönnum samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laganna heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna ef nauðsyn krefur. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er tollgæslumönnum heimilt að handtaka mann sem staðinn er að eða grunaður um tollalagabrot og yfirheyra hann eða fá hann lögreglunni í hendur. Um rannsókn og yfirheyrslu og aðra meðferð máls gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála eftir því sem við getur átt. Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laganna er tollgæslumönnum rétt að leggja hald á muni sem teljast til sakargagna eða ætla má að hafi sönnunargildi í málum vegna tollalagabrota.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að heimild tollyfirvalda til haldlagningar takmarkist við vörur sem eru fluttar til landsins ólöglega eða eru ótollafgreiddar í merkingu ákvæði tollalaga. Óumdeilt er að stefnandi hafði um árabil, eða frá árinu 1989, flutt umrædda vöru til landsins og hefur stefndi fallist á að stefnandi hafi tollflokkað vöruna rétt. Ekkert hefur verið upplýst um ástæður þess að tollyfirvöld gripu til aðgerða gagnvart stefnanda 19. nóvember 1999.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. áfengislaga nr.
75/1998 telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en
2,25% af hreinum vínanda. Efni þau sem
sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika skal fara með sem
áfengan drykk. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. sömu laga varðar innflutningur, heildsala,
smásala, veitingar og framleiðsla áfengis sem fram fer í atvinnuskyni án leyfis
samkvæmt lögum þessum refsingu skv. 27.
gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 4. gr.
laganna ![]()
að ólöglegur innflutningur
áfengis varði refsingu samkvæmt ákvæðum tollalaga. Samkvæmt 1. mgr. laganna skal sækja um leyfi til innflutnings
áfengis í atvinnuskyni til ríkislögreglustjóra og samkvæmt 9. gr. laganna skal
sækja um leyfi til að selja áfengi í heildsölu til ríkislögreglustjóra. Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. áfengislaga skal
gera upptækt til ríkissjóðs áfengi sem flutt er ólöglega til landsins. Þá eru upptökuákvæði í 136. gr. tollalaga,
en samkvæmt þeim ákvæðum er heimilt að gera upptæka vöru sem hefur verið flutt
eða reynt að flytja ólöglega inn eða á annan hátt farið með andstætt ákvæðum laganna.
Eins og að framan er rakið hafa tollyfirvöld heimild til að leggja hald á muni sem teljast til sakargagna eða ætla megi að hafi sönnunargildi í málum vegna tollalagabrota. Stefnandi hafði um árabil flutt umrædda vöru inn og hafa tollyfirvöld haft allar upplýsingar um eðli hennar. Þá hefur því ekki verið mótmælt að varan hafi verið tollafgreidd í samræmi við ákvæði tollalaga. Verður að telja að þá hafi lokið afskiptum tollyfirvalda af innflutningi vörunnar. Hafi grunur tollyfirvalda eftir það vaknað um að varan væri áfengi í skilningi áfengislaga bar þeim að vekja athygli lögregluyfirvalda á því svo rannsókn gæti farið fram í samræmi við lög um meðferð opinberra mála Eins og mál þetta lá fyrir tollyfirvöldum voru þau því ekki bær til þess að taka ákvörðun um haldlagningu vörunnar og upptöku hennar. Ber þegar af þeirri ástæðu að taka kröfur stefnanda til greina.
Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ógild er haldlagning og upptaka stefnda, tollstjórans í Reykjavík, á 483 flöskum af vörunni Mirin Sweetened Sake. Viðurkennd er skylda stefnda til að afhenda stefnanda, Heilsu ehf., þær 483 flöskur af Mirin Sweetened Sake sem upptækar voru gerðar.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.