Hæstiréttur íslands

Mál nr. 787/2016

A (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun

Reifun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 17. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016.

I

Með kröfu móttekinni 18. nóvember sl., hefur sóknaraðili, A, [...], [...], farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 17. nóvember sl., þar sem fallist var á að hann yrði vistaður á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lög­ræðislaga nr. 71/1997 í allt að 21 sólarhring. Til vara er þess krafist að nauðungar­vistun verði markaður skemmri tími en 21 dagur. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að máls­kostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lög­ræðislaga. Málið var þingfest 22. nóvember og tekið samdægurs til úrskurðar.

Varnaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun sýslumanns um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.

Í beiðni varnaraðila 16. nóvember 2011 um nauðungarvistun sóknaraðila kemur fram um ástæður hennar að um sé að ræða mann sem komið hafi inn á bráðageðdeild í fylgd lögreglu, en hafi sjálfviljugur lagst inn á geðdeild 33A.  Við innlögn hafi komið fram klárar aðsóknarhugmyndir, tilvísunarhugmyndir og mikil­mennsku­hug­myndir.  Ástand hans hinn 14. nóvember sk., er hann hafi krafist þess að útskrifast, hafi verið metið þannig að jafna mætti við alvarlegan geðsjúkdóm, þar sem hann hafi verið í geðrofsástandi sem staðið hafi yfir í nokkrar vikur í það minnsta.  Innsæi hans og dómgreind sé mjög skert.  Hafi því verið talin þörf á áframhaldandi nauð­ung­ar­vistun.

Með beiðninni fylgir ítarlegt læknisvottorð B geðlæknis, dagsett 16. nóvember s.l.   Þar kemur fram um sjúkdómsferil og félagslegar aðstæður sókn­ar­aðila að um sé að ræða 45 ára fráskilinn mann sem búi í íbúð foreldra sinna. Hann eigi son á unglingsaldri og sé með sameiginlega umsjón hans. Hann sé háskóla­menntaður en virðist lítið sem ekkert hafa unnið síðustu ár. Þá eigi sóknaraðili sögu um áfengis- og fíknivanda og geðrof tengd neyslu. Sóknaraðili hafi komið á bráða­þjón­ustu geðsviðs 9. nóvember s.l. í lögreglufylgd og handjárnum. Hann hafi verið í neyslu örvandi efna undanfarið en samkvæmt upplýsingum frá ættingjum hafi geð­heilsu hans hrakað ört síðustu vikurnar. Hann hafi verið ör, á iði og með aðsóknar­kennd og aðsóknarhugmyndir. Hann hafi m.a. tekið niður ljós heima við og rifið í sundur til að leita að útbúnaði sem hann hafi haldið að þar væri til að fylgjast með honum. Sóknaraðili hafi einnig haft mikilmennskuhugmyndir og sagt ættingjum að hann hafi heyrt raddir. Þá hafi hann verið með hótanir í garð föður síns og sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun á heimili, m.a. ýtt föður upp að vegg og hótað honum lífláti. Sóknaraðili hafi lítið hirt um sig undanfarið, nærst illa og látið mikið.

                Í vottorðinu segir að á deildinni hafi varnaraðili verið mjög tortrygginn og neitað alfarið að taka lyf. Í viðtölum við starfsfólk deildar hafi komið fram nokkuð klárar aðsóknarranghugmyndir og tilvísunarhugmyndir, auk mikilmennskuhugmynda. Þá kemur fram í vottorðinu að hann hafi haldið því fram að starfsfólk deildarinnar hefði stolið viðskiptahugmyndum hans sem og úr vösum hans. Þann 14. nóvember hafi sóknaraðili krafist útskriftar og í kjölfarið hafi hann verið nauðungarvistaður í 72 klukkustundir.

Sóknaraðili hefur áður verið lagður inn á geðdeild 33 A, á Landsspítalanum, eða árið 2014, og hafi hann þá verið í geðrofsástandi sem talið hafi verið neyslutengt. Einkennin hafi gengið til baka með geðrofslyfjameðferð. Sóknaraðili hafi átt að vera í lyfjameðferð í 6-12 mánuði eftir útskrift en hann hafi ekki sinnt eftirfylgd fyrir utan eitt viðtal við lækni. Samhliða hafi sóknaraðila verið vísað í framhaldsmeðferð á Teig vegna fíkniefnavanda en hann hafi fljótlega hætt að mæta þar. Þá eigi sóknaraðili margra ára sögu um áfengis- og fíknivanda. Hann hafi verið innlagður á Vog árið 2007 og 2009 og fíknigeðdeild árið 2014.

Mat læknisins hafi verið að ástand sóknaraðila mætti jafna við alvarlegan geðsjúkdóm þar sem hann væri í geðrofsástandi sem staðið hafi í nokkrar vikur í það minnsta. Hann sé innsæislaus í ástand sitt og ófáanlegur til að þiggja meðferð. Sjúk­dóms­greining nú sé geðrof af völdum örvandi efna, F 15.5, þótt annar geðsjúkdómur gæti verið undirliggjandi þar sem einkenni séu mikil og hafi staðið um tíma. Sam­kvæmt vottorðinu er það mat læknis að  nauðungarvistun sé óhjákvæmileg.

Dómari ásamt talsmanni sóknaraðila fóru á geðdeild við upphaf aðalmeðferðar og höfðu tal af sóknaraðila. Hann var rólegur og taldi sig ekki vera veikan. Hann mót­mælti því að vera haldinn ranghugmyndum og taldi vottorð geðlæknis vera byggt á því sem ættingjar hefðu sagt lækninum.  Hann taldi sig ekki þurfa að taka lyf þar sem ekkert amaði að honum.

C geðlæknir, núverandi meðferðarlæknir sóknaraðila, gaf einnig símaskýrslu fyrir dóminum.  Taldi hann nauðsynlegt að sóknaraðili verði nauðungar­vistaður til þess að tryggja viðeigandi meðferð hans.  Sóknaraðili sé enn með geð­rofs­einkenni, sé með ranghugmyndir og ofsóknarhugmyndir og geti verði öðrum hættu­legur.  Hann hafi enga innsýn í sjúkdóm sinn og neiti allri samvinnu um lyfjagjöf. 

D geðlæknir, sem einnig hefur annast sóknaraðila, gaf og símaskýrslu fyrir dóminum. Taldi hún nauðsynlegt að sóknaraðili væri nauðungar­vistaður til þess að tryggja viðeigandi meðferð hans. Hún kvað sóknaraðila hafa verið ofbeldishneigðan og m.a. hafi hann tekið starfsmann hálstaki.  Hann hafi verið með ranghugmyndir og í greinilegu geðrofsástandi og gæti því verið hættulegur öðrum. 

III

Talsmaður sóknaraðila vísaði til þess að skilyrði 19. gr. lögræðislaga um nauð­ung­ar­vistun sóknaraðila væru ekki fyrir hendi og því bæri að fella ákvörðun sýslu­manns frá 17. nóvember sl. úr gildi.  Vísaði hann til þess sem fram hefði komið hjá sóknar­aðila og að nauðungarvistun væri ekki nauðsynleg til verndar lífi og heilsu sóknaraðila. 

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um nauðungarvistun sóknaraðila verði staðfest.  Byggir hann á því að skilyrði nauðungar­vistunar hafi verið og séu enn fyrir hendi í tilviki sóknaraðila og vísar um það til fram­lagðs vottorðs og símaskýrslu geðlækna fyrir dóminum.  Sóknaraðili sé að mati lækna haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og mikilvægt sé að hann fái viðeigandi meðferð.  Sóknaraðili hafi enn ekki náð þeim bata sem nauðsynlegur sé til að nauðungar­vistuninni verði aflétt.

Fram er komið í málinu að sóknaraðili var við komu á bráðamóttöku geðdeildar með geðrofseinkenni.  Þá er einnig komi fram að ástand sóknaraðila er enn þannig að hann er með ranghugmyndir og ofsóknarhugmyndir.  Í ljós þess og  að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, sérstaklega vottorði geðlæknisins B og símaskýrslu geðlæknanna C og D fyrir dóminum, verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað varðar ástand sóknaraðila.  Verður að telja í ljós leitt að enn sé brýn nauðsyn á að hann dvelji áfram á sjúkrahúsi og fái þar við­eig­andi meðferð.  Verði nauðungarvistuninni aflétt verður að telja hættu á að heilsu hans verði stefnt í voða en á hinn bóginn geti hann með inngripi nú náð bata.  Verður því að telja nauðungarvistun sóknaraðila óhjákvæmilega og ekki sé tímabært að aflétta nauðungarvistun hans.  Með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og með hags­muni sóknaraðila sjálfs í huga verður því að staðfesta ákvörðun sýslumannsins á höfuð­borgarsvæðinu um að hann skuli nauðungarvistaður í allt að 21 sólarhring á sjúkrahúsi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 17. nóvember 2016 um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi.

Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.