Hæstiréttur íslands
Mál nr. 314/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Úrskurður
|
|
Miðvikudaginn 13. júní 2007. |
|
Nr. 314/2007. |
Ríkislögreglustjóri(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann. Úrskurður.
Ákvörðun héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur með þeirri athugasemd að héraðsdómara hefði verið rétt að úrskurða um farbannskröfuna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2007, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð brottför af Íslandi allt til föstudagsins 10. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fram kemur í gögnum málsins að forráðamenn Y hf. hafi 11. apríl 2007 tilkynnt sóknaraðila um ætlaða refsiverða háttsemi varnaraðila í störfum hans sem [...], en grunur þeirra laut að því að hann hefði falsað eða rangfært nánar tilgreind skjöl. Er fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með ábyrgðum og yfirlýsingum, sem hann gaf í nafni félagsins, framið refsiverðan verknað sem meðal annars getur varðað við 248. gr., sbr. 20. gr., og eftir atvikum 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en fangelsisrefsing er lögð við slíkum brotum. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að rannsókn málsins teygi anga sína víða og að fleiri einstaklingar séu grunaðir um aðild að málinu. Réttarbeiðnir hafi verið sendar til stjórnvalda í Bandaríkjunum, Guernsey og Jersey og meðal annars sé verið að afla upplýsinga frá yfirvöldum í Englandi og Kanada. Fram er komið að varnaraðili [...]. Fallist er á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila svo ljúka megi rannsókn málsins og taka ákvörðun um saksókn á hendur honum. Samkvæmt þessu eru fyrir hendi skilyrði 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna varnaraðila för úr landi.
Það athugast að dómara var rétt að taka afstöðu til kröfu um farbann með úrskurði en ekki ákvörðun, enda er í 110. gr. laga nr. 19/1991 vísað til þess að beita megi farbanni í stað gæsluvarðhalds, en samkvæmt 103. gr. laganna skal það ákveðið með úrskurði. Farbann er þvingunarráðstöfun sem á sama hátt og gæsluvarðhald felur í sér skerðingu á mikilsverðum réttindum þess sem henni sætir.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 10. ágúst 2007 kl. 16.
Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2007
Kærða, X, [kt.] er bönnuð brottför af Íslandi í tvo mánuði, eða allt til föstudagsins 10. ágúst nk. kl. 16.00.
Arngrímur Ísberg.