Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-239
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Rán
- Tilraun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 31. júlí 2019 leitar Hafsteinn Oddsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. júní sama ár í málinu nr. 656/2018: Ákæruvaldið gegn Hafsteini Oddsyni og fleirum, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir að hafa brotið gegn 252. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hótað brotaþola líkamsmeiðingum og reynt að neyða hann til að taka út úr hraðbanka fjármuni sem leyfisbeiðandi hafi ætlað að hafa af honum. Þá var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Var refsing hans ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann til þess að Landsréttur hafi ranglega heimfært háttsemi hans undir 252. gr. almennra hegningarlaga en miðað við lýsingu brotaþola á málsatvikum félli hún fremur undir 248. gr. sömu laga. Þá telur leyfisbeiðandi að mat Landsréttar á sönnunargildi upptöku úr eftirlitsmyndavél hafi verið rangt enda sannist ekki af upptökunni að leyfisbeiðandi hafi beitt brotaþola ofbeldi eða hótað honum því.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, annars ákærða og brotaþola, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.