Hæstiréttur íslands
Mál nr. 415/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 24. júní 2014. |
|
Nr. 415/2014.
|
K (Oddgeir Einarsson hrl.) gegn Fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, sveitarfélagsins Garðs og sveitarfélagsins Voga (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu F um að barn K yrði vistað utan heimilis í fjóra mánuði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2014 sem barst héraðsdómi degi síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2014 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dóttir sóknaraðila, A, skyldi vistuð utan heimilis sóknaraðila í fjóra mánuði frá 7. maí 2014 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vistun barnsins utan heimilis sóknaraðila verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2014.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. maí sl., barst dómnum með kröfu varnaraðila, dagsettri 4. apríl 2014 og móttekinni sama dag.
Sóknaraðili er Fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, sveitarfélagsins Garðs og sveitarfélagsins Voga.
Varnaraðili er K, kt. [...], [...].
I
Upphafleg dómkrafa varnaraðila var sú að úrskurður sóknaraðila frá 7. mars 2014, um vistun dóttur hennar, A, utan heimilis í allt að tvo mánuði frá 7. mars 2014 að telja, yrði felldur úr gildi. Í greinargerð varnaraðila, dagsettri 15. maí sl., var fallið frá þeirri kröfu með vísan til þess að vistunartími samkvæmt úrskurðinum væri liðinn. Áður hafði komið fram sú krafa af hálfu sóknaraðila að dómurinn úrskurðaði að stúlkan yrði vistuð utan heimilis á heimili á vegum sóknaraðila í sex mánuði, skv. 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002, frá 7. maí 2014 að telja. Í ljósi þessa og að virtum þeim kröfum málsaðila sem eftir stóðu ákvað dómari að aðild máls þessa yrði eftirleiðis með þeim hætti að fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðis, sveitarfélagsins Garðs og sveitarfélagsins Voga yrði sóknaraðili málsins og A varnaraðili þess.
Dómkröfur sóknaraðila í málinu eru þær að dómurinn úrskurði að stúlkan A, kt. [...], verði vistuð utan heimilis á heimili á vegum sóknaraðila í sex mánuði, skv. 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002, frá 7. maí 2014 að telja.
Kröfur varnaraðila eru þær að kröfu sóknaraðila um vistun A utan heimilis í allt að sex mánuði verði hafnað. Til vara krefst varnaraðili þess að vistun stúlkunnar utan heimilis verði markaður mun skemmri tími en sex mánuðir. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
II
A
Samkvæmt gögnum málsins barst fyrst tilkynning til barnaverndaryfirvalda vegna varnaraðila í október 2008. Munu málefni hennar síðan hafa verið til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum vegna „... ítrekaðra stroka, útigangs, áfengis- og vímuefnanotkunar, skemmdarverka, skapofsakasta, ofbeldis, sjálfskaðandi hegðunar og óábyrgrar kynlífshegðunar“, sbr. framlagða greinargerð frá 9. júlí 2013. Mun varnaraðili ítrekað hafa verið vistuð á neyðarvistun Stuðla til þess að draga úr áhættuhegðun hennar. Þá hefur hún farið í gegnum ýmis úrræði fyrir ungmenni og meðal annars farið í vistun á Vogi, Vík, Stuðlum, Laugalandi og Háholti. Hún mun enn fremur hafa tekið þátt í stafi Fjölsmiðjunnar, verið með persónulegan ráðgjafa og þegið fjölskylduráðgjöf hjá sálfræðingi.
Hinn 2. október 2012 barst sóknaraðila tilkynning vegna varnaraðila þar sem fram kom að varnaraðili væri þunguð og í neyslu. Varnaraðili var þá enn ekki orðin fullra átján ára. Voru uppi áhyggjur af ástandi varnaraðila, sem og vilja hennar til þess að vera edrú og takast á við þungunina.
Í framlögðum úrskurði sóknaraðila frá 7. mars 2014 kemur fram að fjórtán tilkynningar hafi borist barnaverndarnefnd vegna varnaraðila á meðgöngunni og fljótlega eftir fæðingu stúlkunnar A. Á tímabilinu frá fyrstu afskiptum og fram í september 2013 hafi verið gerðar sex áætlanir um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Varnaraðili hafi hins vegar eingöngu getað samþykkt fjórar þeirrar vegna neyslu. Varnaraðila hafi verið vísað í Fjölsmiðjuna á meðgöngu og þá hafi hún samþykkt vistun að Hamarskoti í framhaldinu vegna ítrekaðrar vímuefnaneyslu og vergangs. Til þess er enn fremur vísað í úrskurði sóknaraðila að í samstarfi við varnaraðila hafi hann gengist fyrir mæðraeftirliti, vímuefnaprófum og ráðgjöf til varnaraðila. Henni hafi jafnframt boðist svonefnt WWW-úrræði með það að markmiði að örva tengslamyndun móður og barns. Einnig hafi starfsmaður Fjölskyldu- og velferðarnefndar fylgt móður í mörg viðtöl til annarra fagaðila.
Varnaraðili mun hafa verið allsgáð í um þrjá mánuði fram að fæðingu dóttur sinnar, 30. apríl 2013. Eftir fæðingu stúlkunnar bjuggu mæðgurnar hjá fjölskyldu í [...]. Grundvallaðist sú dvöl þeirra á samningi sóknaraðila við fjölskylduna og samvinnu málsaðila. Eftir að varnaraðili hóf neyslu áfengis og vímuefna á ný ákvað sóknaraðili, hinn 11. júlí 2013, að samþykkja vistun stúlkunnar hjá móðurömmu hennar á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga. Var varnaraðili samþykk þeirri ráðstöfun.
Hinn 18. september 2013 mældist THC í varnaraðila. Á fundi sóknaraðila daginn eftir úrskurðaði nefndin að dóttir varnaraðila skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði og jafnframt fól nefndin lögmanni sínum að gera kröfu fyrir dómi um vistun stúlkunnar utan heimilis í allt að sex mánuði. Áður en málið fór fyrir dóm samþykkti varnaraðili hins vegar vistun til 17. apríl 2014 og var yfirlýsing þess efnis undirrituð 28. nóvember 2013. Þann dag gekkst varnaraðili undir fíkniefnapróf sem gaf jákvæða svörun við THC. Skömmu síðar lýsti varnaraðili því yfir að hún hefði ákveðið að draga til baka samþykki sitt fyrir vistun stúlkunnar utan heimilis. Ritaði varnaraðili undir formlega yfirlýsingu þess efnis 21. febrúar 2014. Ástæða þessara sinnaskipta varnaraðila mun hafa verið það sem hún taldi vera brot barnaverndaryfirvalda á samkomulagi um umgengni móður varnaraðila og stjúpföður hennar við stúlkuna.
Af hálfu varnaraðila hefur um atvik málsins verið sérstaklega til þess vísað að aðstæður hennar í dag séu góðar. Varnaraðili sé ekki í neyslu vímuefna af neinu tagi og hafi ekki verið um langa hríð. Hún hafi leitað sér margvíslegrar aðstoðar til að vera sem best í stakk búin til að takast á við uppeldi dóttur sinnar. Kveðst varnaraðili nú hafa ríkan stuðning frá móður sinni og stjúpföður í því sambandi.
B
Í málinu liggur frammi sálfræðilegt foreldrahæfnismat á varnaraðila. Í niðurstöðum matsins, sem dagsett er 20. apríl 2013, kemur meðal annars fram að matsmaður telji nokkuð ljóst að hæfni varnaraðila sem forsjáraðila sé verulega takmörkuð og óraunhæft sé að hún hafi getu til að sjá um barn sitt nema með talsverðum stuðningi. Saga varnaraðila einkennist af miklu rótleysi, neyslu og hegðunar/tilfinningaerfiðleikum þar sem félagsleg færni og þroski hafi staðnað, eins og gerist hjá ungu fólki í neyslu. Varnaraðili hafi því litlar forsendur til þess að sinna ungbarni. Nauðsynlegt sé að varnaraðili vinni með sjálfa sig og sínar tilfinningar og það geti hún ekki gert sjálf þótt hún telji sig geta það. Reynslan hafi sýnt að leið varnaraðila sé að notast við fíkniefni þegar hún sé undir álagi eða þegar hlutirnir gangi ekki eins og hún vilji. Slíkt sé ekki lengur möguleiki hjá henni sem uppalanda. Telur matsmaður helstu áhættuna hjá varnaraðila þá að falla aftur í neyslu og einnig tilfinningalegan óstöðugleika. Kosti varnaraðila telur matsmaður meðal annars þá að svo virðist sem hún tengist barninu, hafi áhuga á að sinna því og sé bjartsýn á framtíðina. Varnaraðili vilji reyna að standa sig og sinna hlutunum.
Það var niðurstaða sálfræðingsins að hæfni varnaraðila til að fara með forsjá þá ófædds barns síns væri verulega takmörkuð og að talsverð áhætta fælist í því að hún sæi um ungbarn. Aftur á móti taldi matsmaðurinn jafnframt að varnaraðili væri að reyna að standa sig og að ef hún héldist frá neyslu gæti hún lært að stjórna betur tilfinningum sínum og öðlast þá hæfni sem nægjanleg væri til að sinna barninu. Aftur á móti væri ljóst að það færi eftir þeim stuðningi sem varnaraðila byðist og hann væri tilbúinn að þiggja hvort sá árangur næðist.
III
Sóknaraðili vísar til þess að í forsjárhæfnismati, dagsettu 20. apríl 2013, komi fram að varnaraðili hafi verið í fíkniefnaneyslu á meðgöngunni. Í niðurstöðu matsins komi einnig fram að hæfni varnaraðila sem forsjáraðila sé verulega takmörkuð og að talsverð áhætta fælist í því að hún hefði ungbarn í umsjá sinni. Helstu áhættuþættir varnaraðila fælust í því að hún færi aftur í neyslu og að hún væri tilfinningalega óstöðug.
Með hliðsjón af ofangreindum niðurstöðum hafi sóknaraðili veitt varnaraðila margvíslegan stuðning á meðgöngu með það að markmiði að tryggja velferð hennar og ófædds barns hennar. Fyrstu vikurnar eftir fæðingu barnsins hafi varnaraðili fengið sérstakan stuðning á vegum ung- og smábarnaverndar. Sóknaraðili hafi samið um búsetu móður og barns hjá stuðningsfjölskyldu í Reykjanesbæ, sem sinnt hafi tilsjón með það að markmiði að hafa eftirlit með varnaraðila þar sem hún tókst á við daglega umönnun barnsins.
Varnaraðili hafi átt í erfiðleikum með að sinna þörfum ungbarnsins og kennsla og ráðgjöf sem henni bauðst í því efni hafi ekki borið árangur. Í júlí 2013 hafi varnaraðili viðurkennt að vera komin í neyslu og hún samþykkt að barnið yrði vistað hjá móðurforeldrum. Í áætlun um meðferð máls, dagsettri 23. ágúst 2013, hafi varnaraðili samþykkt að barnið færi í tímabundið fóstur í sex mánuði ef hún sinnti ekki meðferð vegna vímuefnavanda síns.
Dóttur varnaraðila hafi verið ráðstafað í tímabundna vistun hjá fósturforeldrum í samræmi við einhliða áætlun starfsmanna sóknaraðila, dags. 19. september 2013. Á fundi sóknaraðila sama dag hafi komið fram það mat starfsmanna að þau úrræði sem varnaraðila hefðu staðið til boða hefðu ekki borið tilskilinn árangur þar sem neysluvandi hennar væri enn til staðar og hún því ekki í stakk búin til að skapa barninu viðunandi uppeldisskilyrði. Varnaraðili hafi í kjölfarið samþykkt tímabundna vistun stúlkunnar hjá fósturforeldrum í allt að sex mánuði frá 17. október 2013, með yfirlýsingu undirritaðri 28. nóvember 2013.
Varnaraðili hafi haft samband við sóknaraðila í byrjun janúar á þessu ári og sagst vera hætt neyslu áfengis- og fíkniefna. Á fundi með sóknaraðila 21. febrúar sl. hafi varnaraðili síðan með formlegum hætti dregið yfirlýsingu um samþykki fyrir vistun stúlkunnar utan heimilis til baka. Sama dag hafi verið gengið frá samkomulagi um umgengni varnaraðila við stúlkuna og hafi umgengni hafist 25. febrúar sl. Hafði þá engin umgengni verið við barnið af hálfu varnaraðila í fleiri mánuði.
Samkomulag hafi ekki tekist við varnaraðila um gerð áætlunar um meðferð máls í því skyni að aðstoða hana við að mynda tengsl á ný við stúlkuna, ásamt því að ná tökum á „edrúmennsku“, tilfinningalegum óstöðugleika og óvissu um búsetu. Sóknaraðili hafi því 7. mars sl. úrskurðað um vistun barnsins utan heimilis í tvo mánuði frá úrskurðardegi í samræmi við ákvæði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Sóknaraðili segir það mat sitt að of stuttur tími sé liðinn frá því umgengni varnaraðila hófst við stúlkuna á ný og því sé takmörkuð reynsla komin á myndun tengsla hennar við barnið. Jafnframt sé takmörkuð reynsla komin á „edrúmennsku“ móður og viðleitni hennar til að takast á við erfiðleika sína. Að mati sóknaraðila sé nauðsynlegt með hliðsjón af atvikum máls að fram fari á ný forsjárhæfnismat á varnaraðila áður en hægt sé að taka ákvörðun um ráðstöfun forsjár barnsins til framtíðar. Með hliðsjón af öllu framansögðu og í þágu hagsmuna barnsins sé því nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt úrskurði sóknaraðila frá 7. mars sl. standi lengur en þar var kveðið á um í skilningi 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Um lagarök vísar sóknaraðili að lokum til IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV
Varnaraðili segir líf sitt hafa tekið algerum stakkaskiptum eftir að dóttir hennar fæddist. Þá hafi hún ekki snert vímuefni af neinu tagi síðan um síðustu áramót.
Varnaraðili kveðst hafa sinnt umgengni við dóttur sína vel og myndað tengsl við stúlkuna. Mótmæli hún harðlega málavaxtalýsingu sóknaraðila eins og hún birtist í kröfu hans um vistun barnsins utan heimilis í allt að sex mánuði, sem og í fylgiskjölum með kröfunni. Telur varnaraðili að lýsingar sóknaraðila gefi ranga mynd af henni og séu stundum beinlínis ósannar. Í greinargerð sem lögð hafi verið fyrir fund sóknaraðila 2. maí sl. komi meðal annars fram að fósturforeldrar segi varnaraðila leita aðstoðar þeirra þegar barnið sé órólegt, hún sýni lítið frumkvæði að umönnun þess og hafi átt erfitt með að virða tímaramma umgengnissamnings. Þetta segir varnaraðili alrangt og hafi þessum atriðum verið sérstaklega mótmælt á fyrrnefndum fundi sóknaraðila.
Um ofangreint tekur varnaraðili sérstaklega fram að hún hafi einungis fengið að umgangast dóttur sína inni á heimili fósturforeldra. Fósturforeldrarnir hafi tjáð móður varnaraðila að þeir hafi tekið barnið að sér í upphafi þar sem þeir vildu barn í varanlegt fóstur, enda hafi þeim ekki orðið barna auðið. Hafi fósturforeldrarnir fengið þær upplýsingar hjá starfsmönnum barnaverndar í Sandgerði að allar líkur væru á varanlegu fóstri í tilviki dóttur varnaraðila. Þá hafi umgengni varnaraðila ekki verið undir neinu eftirliti barnaverndarstarfsmanna. Telur varnaraðili fráleitt að haga málum með þessum hætti og byggja svo á umsögn aðila sem ekki séu í þeirri stöðu að gæta hlutleysis í lýsingum á varnaraðila.
Varnaraðili segir framangreind atriði efnislega röng og séu þau til staðfestu á hlutdrægni fósturforeldra. Í fyrsta lagi leitist fósturforeldrarnir við að taka barnið af varnaraðila þegar það verði órólegt en varnaraðili vilji einmitt fá að reyna að róa barnið sjálf, enda telji hún að barnið þurfi að læra að láta móður þess róa sig, rétt eins og fósturforeldrana. Það sé hluti af því að mynda tengsl við barnið. Í öðru lagi sé einfaldlega rangt að varnaraðili sýni lítið frumkvæði að umönnun barnsins. Í þriðja lagi séu lýsingar á því að varnaraðili eigi erfitt með að virða tímaramma rangar og mjög ómaklegar.
Varnaraðili kveðst hafa áhyggjur af þróun málsins hvað varði vistun utan heimilis hjá núverandi fósturforeldrum. Ítrekað hafi varnaraðili þurft að kvarta yfir því að þau kalli sig mömmu og pabba barnsins og barnaverndarstarfsmenn rætt það við fósturforeldra. Málið sé nú orðið fósturforeldrunum mjög erfitt þar sem þau geti ekki hugsað sér að missa barn varnaraðila frá sér.
Aðstæður sínar í dag segir varnaraðili þær að hún sé alfarið hætt neyslu áfengis og vímuefna. Þá sinni hún umgengni við barnið vel eins og áður segi. Hún búi ein í snyrtilegri og góðri tveggja herbergja íbúð [...]. Varnaraðili hafi gott bakland í fjölskyldu sinni, ekki síst móður. Varnaraðili sé reiðubúin að þiggja og nýta hvers kyns úrræði sem í borði verði til að styrkja sig, verði talin þörf á því, hvort sem hún fái barnið til sín núna eða síðar. Skilyrðum 28. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002, fyrir vistun utan heimilis, sé því ekki fullnægt í málinu. Engin nauðsyn sé til þess að vista stúlkuna lengur utan heimilis.
Varnaraðili kveðst byggja á því að óheimilt sé að beita úrræði skv. 28. gr. barnaverndarlaga þar sem unnt sé að beita vægara úrræði, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig vísar varnaraðili til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem fram komi að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli ávallt beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á hvers vegna ekki sé hægt að beita vægari úrræðum sem barnaverndarlög bjóði, sbr. t.d. ákvæði 24. gr. laganna um tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu, eða 26. gr. laganna um eftirlit með heimili, fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun. Einnig megi í þessu sambandi nefna ákvæði 25. gr. laganna um vistun utan heimilis með samþykki foreldra til skemmri tíma.
Á fundi sóknaraðila með varnaraðila 2. maí sl. hafi varnaraðili lýst sig reiðubúna til að samþykkja að eftirlit yrði haft með heimilinu og einnig að hún væri tilbúin til að þiggja aðstoð félagsmálayfirvalda. Í raun væri varnaraðili reiðubúin til að samþykkja allt sem lagt yrði til í því skyni að ná sátt í málinu og halda þeim mæðgum saman.
Verði það niðurstaða dómsins að vista barn varnaraðila lengur utan heimilis telji varnaraðili allt að einu að krafa um sex mánuði gangi alltof langt. Svo virðist sem sóknaraðili vilji að nýtt forsjárhæfnismat fari nú fram. Varnaraðili sé meira en reiðubúin til samstarfs um slíkt og því ætti að vera hægt að ljúka slíku mati á mun skemmri tíma en hálfu ári. Telji dómurinn nauðsynlegt að barnið sé vistað utan heimilis á meðan forsjárhæfnismat sé unnið ættu tveir mánuðir að nægja. Á þeim tíma ætti að liggja fyrir hvort frekari vistun utan heimilis sé nauðsynleg eða ekki. Væri þá unnt að fara fram á framlengingu í kjölfarið, eða eftir atvikum forsjársviptingu, ef niðurstaða matsins yrði önnur en sú að sóknaraðili gæti strax tekið við umönnun stúlkunnar. Einnig væri unnt að fara fram á framlengingu vistunar yrði matsvinnu ekki lokið að þeim tíma liðnum. Varnaraðili eigi hins vegar að njóta vafans um hversu lengi nauðsynlegt sé að vistunin standi.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til meginreglna barnaréttar, sem og ákvæða barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kröfu um gjafsóknarkostnað reisir varnaraðili aðallega á 60. gr., sbr. 61. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá byggist málskostnaðarkrafa hennar á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Svo sem rakið er í kafla II hér að framan hafði verið gripið til ýmissa stuðningsúrræða til aðstoðar varnaraðila áður en hún samþykkti vistun dóttur sinnar utan heimilis haustið 2013. Eftir að varnaraðili afturkallaði samþykki sitt kvað sóknaraðili upp úrskurð 7. mars 2014 á grundvelli b-liðar 27. gr. laga nr. 80/2002, þess efnis að barnið skyldi vistað utan heimilis í allt að tvo mánuði. Grundvallaðist úrskurður nefndarinnar á því að ekki náðist samkomulag við varnaraðila um gerð áætlunar um meðferð máls í því skyni að aðstoða hana við að mynda tengsl við barnið á ný, ásamt því að ná tökum á „edrúmennsku“, tilfinningalegum óstöðugleika og óvissu um búsetu.
Í málinu liggur frammi sálfræðilegt forsjárhæfnismat á varnaraðila frá 20. apríl 2013. Í niðurstöðum matsins segir meðal annars að hæfni varnaraðila sem forsjáraðila sé verulega takmörkuð og óraunhæft sé að hún hafi getu til að sjá um barn sitt nema með talsverðum stuðningi. Saga varnaraðila einkennist af miklu rótleysi, neyslu og hegðunar/tilfinningaerfiðleikum þar sem félagsleg færni og þroski hafi staðnað, eins og gerist hjá ungu fólki í neyslu. Varnaraðili hafi því litlar forsendur til þess að sinna ungbarni. Taldi matsmaður helstu áhættuna hjá varnaraðila þá að falla aftur í neyslu og einnig tilfinningalegan óstöðugleika. Var það því niðurstaða sálfræðingsins að hæfni varnaraðila til að fara með forsjá, þá ófædds, barns síns væri verulega takmörkuð og að talsverð áhætta fælist í því að hún sæi um ungbarn.
Fyrir liggur að dóttir varnaraðila, sem einungis er ríflega eins árs gömul, hefur stærstan hluta sinnar skömmu ævi verið í umsjá fósturforeldra. Umönnun og uppeldi svo ungs barns krefst eðli málsins samkvæmt mikillar vinnu, athygli og yfirvegunar. Að mati dómsins verður á grundvelli fyrirliggjandi gagna engu slegið föstu um bætta hæfni varnaraðila, frá því að áðurnefnt foreldrahæfnismat var unnið, til að sinna því krefjandi verkefni sem uppeldi svo ungs barns er. Telja verður nauðsynlegt með hliðsjón af öllu framansögðu að fram fari á ný forsjárhæfnismat á varnaraðila áður en til álita getur komið að hún taki við umsjá dóttur sinnar. Verður í þessu sambandi ekki framhjá neyslusögu varnaraðila litið og þeim tiltölulega stutta tíma sem hún hefur nú haldið sig frá neyslu fíkniefna og áfengis. Upplýst var við munnlegan flutning málsins að vinna við nýtt forsjárhæfnismat væri að hefjast og mun varnaraðili samkvæmt málatilbúnaði hennar hér fyrir dómi vera til fullrar samvinnu um vinnslu þess. Í því ljósi verður að telja að ljúka megi vinnslu nýs mats innan tveggja til þriggja mánaða. Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið þykja það því vera brýnir hagsmunir dóttur varnaraðila að stúlkan verði, gegn vilja móður, sbr. 28. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002, vistuð áfram utan heimilis í fjóra mánuði frá 7. maí sl. að telja, enda þykja hagsmunir barnsins ekki verða nægjanlega tryggðir með öðrum og vægari úrræðum.
Sóknaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila. Í ljósi úrslita málsins eru engin efni til þess að fallast á málskostnaðarkröfu varnaraðila.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, sbr. 1. mgr. 60. gr., sbr. 61. gr., laga nr. 80/2002, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hrl., sem hæfilega þykir ákveðin svo sem í úrskurðarorði greinir að meðtöldum virðisaukaskatti.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Barnið A, [...], skal vistað utan heimilis varnaraðila, K, á heimili á vegum sóknaraðila, Fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, sveitarfélagsins Garðs og sveitarfélagsins Voga, í fjóra mánuði frá 7. maí 2014 að telja.
Málskostnaðarkröfu varnaraðila er hafnað.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Oddgeirs Einarssonar hrl., 508.275 krónur.