Hæstiréttur íslands
Mál nr. 481/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Mánudaginn 31. ágúst 2009. |
|
Nr. 481/2009. |
Lögreglustjórinn á Selfossi(Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi) gegn X (Sigurður Jónsson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni í þrjá mánuði var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. ágúst 2009, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni að því marki sem síðar greinir. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar en þar var varnaraðila gert að sæta nálgunarbanni í þrjá mánuði þannig að lagt var bann við því að hann kæmi á eða væri við Y, þar sem A býr ásamt börnum sínum og varnaraðila, þeim B, C og D. Svæðið afmarkast af lóð fyrrnefndrar fasteignar og eru bifreiðastæði meðtalin. Jafnframt var varnaraðila bannað að veita eftirför, heimsækja, ónáða á almannafæri eða setja sig með öðru móti í samband við A, B, C og D.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbannið verði takmarkað þannig að það verði einungis bundið við persónu A. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Í hinum kærða úrskurði er þess meðal annars getið að til rannsóknar hjá lögreglu séu tvö mál, sem lúta að meintri áreitni varnaraðila á hendur A og B 29. júní 2009 og meintu framferði hans á heimili A og barnanna sem kært hafi verið 9. mars sama ár. Auk þess kemur fram í gögnum málsins að A hafi leitað liðsinnis lögreglu 16. febrúar 2009 vegna meints ítrekaðs áreitis og hótana varnaraðila, auk þess sem móðir hans hafi haft samband við lögreglu 19. apríl 2009 eftir að varnaraðili hafi í samtali við hana viðhaft hótanir um að gera A mein.
Af hálfu varnaraðila hefur komið fram að hann hafi í nefndum tilvikum aðeins verið að leita eftir umgengni við börnin sem ekki hafi náðst samkomulag um. Til úrlausnar á ágreiningi um umgengni við börn sín nýtur varnaraðili úrræða samkvæmt barnalögum nr. 76/2003. Geta sjónarmið hans um þetta ekki réttlætt áreitni hans í garð fyrrverandi sambýliskonu sinnar og barna þeirra.
Með vísan til þessa og röksemda í úrskurðinum fyrir nálgunarbanni verður fallist á að skilyrði til að beita því séu uppfyllt.
Með vísan til 4. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 verður varnaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað í ríkissjóð þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Varnaraðili, X, greiði kærumálskostnað í ríkissjóð þar með talda þóknun verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Úrskurður héraðsdóms Suðurlands miðvikudaginn 19. ágúst 2009.
Með bréfi, dagsettu 2. júlí 2009 hefur lögreglustjórinn á Selfossi farið fram á að X, kt. [...],[...], verði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 1. gr. laga um nálgunarbann nr. 122/2008, í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að varnaraðili komi á eða sé við Y, þar sem A, kt. [...], býr ásamt börnum A og varnaraðila, þeim B, kt. [...], C, kt. [...], og D, kt. [...]. Þá er þess einnig krafist að lagt verði bann við því að varnaraðili komi á eða sé við Z þar sem E, kt. [...], F, kt. [...], og G, kt. [...] búa. Þess er krafist að svæðið afmarkist af lóð fyrrnefndrar fasteignar og séu bifreiðastæði meðtalin. Jafnframt verði varnaraðila bannað að veita eftirför, heimsækja, ónáða á almannafæri eða setja sig með öðru móti í samband við A, B, C, D, E, F og G.
Í bréfi sóknaraðila segir að krafa um nálgunarbann sé sett fram vegna þess að rökstudd ástæða sé talin til að ætla að varnaraðili muni raska friði A og barna þeirra. Varnaraðili hafi á liðnum mánuðum ítrekað raskað friði þeirra með símtölum, SMS-sendingum og ógnandi framkomu, meðal annars hótunum um líkamsmeiðingar.
Tvö mál sem varði ætlaða áreitni varnaraðila á hendur þeim sæti nú lögreglurannsókn. Þann 29. júní sl. hafi A lagt fram kæru á hendur varnaraðila fyrir hönd dóttur þeirra B. Varnaraðili hafi ruðst inn á heimili föður A, E, að Z, þar sem B hafi dvalist ásamt frænku sinni G. Þar hafi varnaraðili verið með ógnandi tilburði í garð þeirra beggja og hafi reynt að draga B í burtu með sér og hafi slegið til G. E hafi einnig lagt fram kæru á hendur varnaraðila fyrir húsbrot vegna sama atburðar. A hafi einnig lagt fram kæru á hendur varnaraðila þann 9. mars sl. Í kæruskýrslu komi fram að varnaraðili hafi ítrekað ruðst inn í íbúð A og rótað þar í dóti ásamt því að hóta A því að hann muni ,,ganga frá henni“.
Varnaraðili hefur krafist þess að synjað verði um framgang nálgunarbannsins.
Með vísan til framangreindra gagna og framburðar vitna um sum atvik er fallist á að fram sé kominn rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A og barna hennar og varnaraðila, B, C og D. Þau atvik sem lýst er í gögnum málsins beinast fyrst og fremst að A og börnum hennar og varnaraðila og er ekki rökstudd ástæða til að halda að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði E, F og G.
Samkvæmt gögnum málsins deila varnaraðili og A um fyrirkomulag umgengni varnaraðila við börn þeirra og er ágreiningur þeirra þar að lútandi til meðferðar hjá sýslumanninum á Selfossi. Ekki er ástæða til að ætla annað en að samskipti aðila komist í eðlilegt horf þegar leyst hefur verið úr þeim ágreiningi.
Verður því fallist á nálgunarbann, eins og nánar greinir í úrskurðarorði en að teknu tilliti til hagsmuna barnanna þykir ekki ástæða til að það standi lengur en í þrjá mánuði frá birtingu úrskurðar þessa að telja.
Í samræmi við 4. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann ber að úrskurða varnaraðila til greiðslu sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Jónssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 75.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, X, kt. [...],[...], skal sæta nálgunarbanni samkvæmt 1. gr. laga um nálgunarbann nr. 122/2008, í þrjá mánuði frá birtingu úrskurðar, þannig að lagt er bann við því að varnaraðili komi á eða sé við Y, þar sem A, kt. [...], býr ásamt börnum A og varnaraðila, þeim B, kt. [...], C, kt. [...], og D, kt. [...]. Svæðið afmarkast af lóð fyrrnefndrar fasteignar og eru bifreiðastæði meðtalin. Jafnframt er varnaraðila bannað að veita eftirför, heimsækja, ónáða á almannafæri eða setja sig með öðru móti í samband við A, B, C og D.
Varnaraðili greiði sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Jónssonar hrl., 75.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.