Hæstiréttur íslands

Mál nr. 669/2010


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Ógilding samnings
  • Fjárnám
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                     

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 669/2010.

Landsbankinn hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

gegn

Guðrúnu Helgadóttur

(Hreinn Loftsson hrl.)

Skuldabréf. Sjálfskuldarábyrgð. Ógilding samnings. Fjárnám. Frávísun máls

frá héraðsdómi að hluta.

G höfðaði mál gegn L hf. og krafðist þess að sjálfskuldarábyrgð hennar á skuldabréfi, útgefnu af S ehf., yrði að öllu leyti vikið til hliðar eða að hluta. Einnig var þess krafist að fjárnám L hf. í eignarhluta G í tiltekinni fasteign yrði ógilt eða að höfuðstólsfjárhæð þess yrði lækkuð. Kröfu G um ógildingu fjárnámsins var vísað frá dómi með vísan til þess að samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför yrði leyst úr ágreiningi um gildi aðfarargerðar samkvæmt sérreglum þeirra laga nema ágreiningur risi um hana við nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun eignar, sem fjárnám hefði verið gert í. Af þessum sökum og með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði ekki krafist ógildingar eða breytingar á aðfarargerð í einkamáli, sem rekið væri eftir almennum reglum. G hafði upphaflega ábyrgst yfirdráttarlán S ehf. hjá forvera L hf. að fjárhæð allt að 2.000.000 krónur.  Með undirritun skuldabréfsins gekkst G ásamt tveimur forsvarsmönnum S ehf. í sameiginlega sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld að höfuðstóli 7.300.000 króna en um leið lauk kröfu L hf. á grundvelli yfirdráttarlánsins og þar með ábyrgð G vegna hennar. G hélt því fram að henni hefði verið ókunnugt um að ábyrgð hennar breyttist að þessu leyti, starfsmenn L hf. hefðu ekki upplýst hana um hver áhrif undirritunar hennar yrðu og að þrýst hefði verið á hana að undirrita skuldabréfið. Hæstiréttur hafnaði því að litið yrði til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem samtök ýmissa fjármálafyrirtækja gerðu við Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra í nóvember 2001 við mat á háttsemi starfsmanna L hf., enda hafði G ekki ábyrgst skuld einstaklings. Talið var að starfsmönnum L hf. hefði verið óviðkomandi hvaða ástæður bjuggu að baki því að G hefði ákveðið að takast á herðar sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum S ehf. og að ekki hefði verið hægt að ætlast til þess að þeir tækju fram fyrir hendur G þótt hún hefði að eigin sögn verið óreynd í viðskiptum. G hefði verið ljóst á þessum tíma að hvorki S ehf. né aðrir ábyrgðarmenn hefðu staðið skil á yfirdráttarskuld félagsins og gat því ekki farið fram hjá henni að veruleg áhætta gæti fylgt því að gangast frekar undir ábyrgð fyrir félagið. Starfsmenn L hf. hefðu ekki getað gert ráð fyrir því að G tæki ákvörðun um þetta án þess að hafa nægilega vitneskju um fjárhag annarra, sem átt hefðu í hlut. Varð ekki séð hverju starfsmenn L hf. hefðu átt að bæta að þessu leyti við með upplýsingagjöf til stefndu. Ákvæði skuldabréfsins sem G undirritaði um eðli og umfang ábyrgðar hennar þóttu einföld og auðskilin. Frásögn G um að hún hefði ritað undir skuldabréfið án þess að hafa lesið ákvæðin um hvaða skuldbindingu hún var að gangast undir eða vitað það af öðrum ástæðum þótti með ólíkindablæ. Hefði hún í raun hagað gerðum sínum á þann veg varð hún að bera ábyrgð á því, enda hefði henni verið í lófa lagið að láta ógert að rita nafn sitt án þess að afla nægilegrar vitneskju um þessa ráðstöfun. Ekkert þótti liggja fyrir um að starfsmenn L hf. hefðu beitt G þrýstingi til að aðhafast eitthvað sem hún var ekki fús til. Af þessum sökum var ekki fallist á að víkja bæri skuldbindingu G samkvæmt skuldabréfinu til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. L hf. var því sýknaður af kröfum G um það.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu. Til vara krefst áfrýjandi þess að „sjálfskuldarábyrgð stefndu verði einungis vikið frá að hluta, þannig að sjálfskuldarábyrgð stefndu nemi aldrei lægri fjárhæð en kr. 2.000.000, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. apríl 2007 til greiðsludags. Fjárnám áfrýjanda á 2. veðrétti í eignarhluta stefndu í fasteigninni Flétturima 9, Reykjavík, fastanr. 204-0163, hinn 18.6.2007, verði í því tilviki lækkað í sömu fjárhæð.“ Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppsögu héraðsdóms hefur nafni áfrýjanda verið breytt í Landsbankinn hf.

I

Samkvæmt gögnum málsins var Seadata Sjógögn ehf. stofnað 9. apríl 2003 og var tilgangur félagsins „hugbúnaðarrekstur, rekstur fasteigna og lánastarfsemi“, svo sem sagði í tilkynningu til hlutafélagaskrár. Stjórnarmaður í félaginu var Þorsteinn Ágústsson, en framkvæmdastjóri Garðar Eyjólfsson. Félagið átti bankaviðskipti við Landsbanka Íslands hf., þar sem það fékk meðal annars heimild til yfirdráttar á tékkareikningi. Áfrýjandi kveður þá heimild hafa verið komna í 5.000.000 krónur í mars 2004, en vegna hennar hafi áðurnefndir forráðamenn félagsins 7. maí sama ár gengist í óskipta sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni. Heimildin hafi síðan verið hækkuð í 7.000.000 krónur í janúar 2005. Í tengslum við það ritaði stefnda 24. þess mánaðar undir yfirlýsingu um að hún gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld félagsins við bankann vegna yfirdráttar á tékkareikningnum að fjárhæð allt að 2.000.000 krónur auk vaxta og kostnaðar af innheimtu. Í málinu virðist vera óumdeilt að yfirdráttarheimildin hafi átt að renna sitt skeið á enda í nóvember 2005.

Fyrir liggur að frétt birtist í fjölmiðli 14. júní 2005 um að gerður hafi verið „samningur um kaup TrackWell á lausnum og rekstri SeaData.“ Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, beindi Landsbanki Íslands hf. innheimtubréfum 29. nóvember 2005 til Seadata Sjógagna ehf., Þorsteins Ágústssonar, Garðars Eyjólfssonar og stefndu vegna yfirdráttarskuldar á tékkareikningi félagsins, en í tilviki stefndu var gerð krafa um greiðslu á 2.000.000 krónum auk 156.870 króna vegna innheimtukostnaðar. Samkvæmt minnispunktum, sem starfsmaður bankans ritaði á blað með viðskiptayfirliti fyrir félagið, átti hann fund með Þorsteini og Garðari 20. febrúar 2006. Í þessum minnispunktum sagði meðal annars að „Trackwell keypti hugbúnaðinn af Seadata og skuldin í LÍ greiðist með höfundarétti af framhaldandi sölu.“ Útbúið yrði skuldabréf að fjárhæð 7.300.000 krónur til 42 mánaða, sem afborganir yrðu greiddar af á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. maí 2006, en Þorsteinn og Garðar ásamt stefndu yrðu ábyrgðarmenn fyrir þeirri skuld. Óumdeilt er að ætlast hafi verið til að yfirdráttarskuld félagsins yrði gerð upp með þessari ráðstöfun. Til samræmis við þetta gaf Seadata Sjógögn ehf. út skuldabréf 22. febrúar 2006 og ritaði stefnda ásamt áðurnefndum tveimur forráðamönnum félagsins undir það til staðfestingar á ákvæðum þess um sjálfskuldarábyrgð, sem var óskipt á herðum þeirra þriggja og tók til allrar fjárhæðar skuldarinnar. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda voru greiddar tvær fyrstu afborganirnar af skuldabréfinu, sem féllu í gjalddaga 15. maí og 15. ágúst 2006, en eftir það hafi orðið greiðslufall.

Seadata Sjógagna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 16. mars 2007. Landsbanki Íslands hf. ritaði 21. sama mánaðar greiðsluáskorun til stefndu, sem var birt henni sex dögum síðar. Þar kom fram að höfuðstóll skuldar samkvæmt skuldabréfinu frá 22. febrúar 2006 næmi 6.475.599 krónum, en fjárhæð hennar væri alls 7.706.494 krónur að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði, sem skorað var á stefndu að greiða innan 15 daga að því viðlögðu að neytt yrði heimildar samkvæmt bréfinu til að krefjast fjárnáms hjá henni fyrir kröfunni. Fjárnám var svo gert á þessum grundvelli 18. júní 2007 í eignarhluta stefndu í fasteigninni Flétturima 9 í Reykjavík. Af gögnum málsins verður ráðið að af hálfu stefndu hafi að minnsta kosti frá því í janúar 2008 verið leitað samninga við Landsbanka Íslands hf. vegna skuldarinnar. Þá liggur og fyrir að hún hafi ásamt Þorsteini Ágústssyni beint kvörtun 24. júní sama ár til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, þar sem leitað hafi verið úrlausnar nefndarinnar um hvort bankinn hafi fullnægt upplýsingaskyldu gagnvart þeim „samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem og samkvæmt góðum og sjálfsögðum viðskiptaháttum“, en nefndin vísaði þessu erindi frá sér með úrskurði 16. október 2008.

Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. október 2008, sem breytt var 12. og 19. sama mánaðar, um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú ber heiti áfrýjanda, en óumdeilt er að á þeim grunni fari hann nú með kröfuréttindi samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi, sem gefið var út 22. febrúar 2006.

Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, var gjaldþrotaskiptum á búi Seadata Sjógagna ehf. lokið 7. nóvember 2008 og fengust greidd við þau 5,8236% almennra krafna. Áfrýjandi fékk með þessum hætti 446.989 krónur greiddar upp í kröfu samkvæmt skuldabréfinu, sem að framan er getið.

Stefnda höfðaði mál þetta á hendur áfrýjanda 19. febrúar 2010 og krafðist þess að vikið yrði til hliðar sjálfskuldarábyrgð hennar á skuldabréfinu, sem Seadata Sjógögn ehf. gaf út til Landsbanka Íslands hf. 22. febrúar 2006, aðallega að öllu leyti en til vara að hluta. Þá krafðist hún þess jafnframt að fjárnámið, sem gert var hjá henni 18. júní 2007 fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfinu, yrði aðallega ógilt, en til vara að fjárhæðin, sem það tók til, yrði lækkuð. Með hinum áfrýjaða dómi voru báðar aðalkröfur stefndu teknar til greina.

II

Samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför getur aðili að aðfarargerð, svo og þriðji maður, sem hefur hagsmuni af henni, leitað úrlausnar héraðsdóms um ógildingu gerðarinnar. Um meðferð slíks máls, sem leggja verður fyrir dóm að meginreglu innan átta vikna frá því að aðfarargerð er lokið, fer eftir sérreglum þeirra laga, en þar er í 2. mgr. 92. gr. mælt svo fyrir að ekki verði leyst á annan hátt úr um gildi aðfarargerðar nema ágreiningur rísi um hana við nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun eignar, sem fjárnám hefur verið gert í. Af þessum sökum og með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður ekki krafist ógildingar eða breytingar á aðfarargerð í einkamáli, sem rekið er eftir almennum reglum. Ber því samkvæmt 2. mgr. 24. gr. sömu laga að vísa af sjálfsdáðum frá héraðsdómi kröfu stefndu um að ógilt verði fjárnám, sem Landsbanki Íslands hf. fékk gert hjá henni 18. júní 2007, svo og kröfu hennar um að dæmt verði að fjárnámið taki til lægri fjárhæðar en það var gert fyrir, en að því verður að gæta að yrði tekin til greina krafa um að skuldbindingu hennar samkvæmt skuldabréfinu frá 22. febrúar 2006 verði vikið til hliðar að öllu leyti eða nokkru nyti hún heimildar samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 67. gr. laga nr. 90/1989 til að krefjast þess að fjárnámsgerðin yrði endurupptekin á þeim grunni.

III

Í héraðsdómsstefnu lýsti stefnda því að sjálfskuldarábyrgðin, sem hún gekkst undir 24. janúar 2005 vegna skuldar Seadata Sjógagna ehf. við Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð allt að 2.000.000 krónur, hafi verið „veitt í greiðaskyni fyrir aðila sem tengist henni óbeint. Sá er skyldur eiginmanni stefnanda og hún samþykkti að taka á sig ábyrgð til bráðabirgða, þar sem ekki reyndist mögulegt að ná í þann aðila sem upphaflega átti að takast þessa ábyrgð á herðar. Fullyrt var við stefnanda að félagið væri í söluferli, það myndi seljast fljótlega og að hennar ábyrgðar fyrir skuldinni yrði því ekki lengur þörf.“ Í aðilaskýrslu, sem stefnda gaf fyrir héraðsdómi, kvað hún frænda sambúðarmanns síns hafi hringt í hann og sagst vanta ábyrgð vegna yfirdráttar í „einhverja daga eða vikur“ og hafi hún orðið við ósk um að veita ábyrgðina, en ekki fengið umbun af nokkrum toga fyrir. Samkvæmt málatilbúnaði stefndu stóð hún að öðru leyti í engum tengslum við þetta félag, hluthafa þar eða starfsmenn. Dómkröfur stefndu snúa ekki að þessari ábyrgð, enda er óumdeilt að henni lauk þegar skuldabréfið hafði verið gefið út til Landsbanka Íslands hf. 22. febrúar 2006 með þeim ábyrgðum, sem áður er gerð grein fyrir.

Aðdraganda ábyrgðar stefndu á þeirri skuldbindingu var í héraðsdómsstefnu lýst með því að Garðar Eyjólfsson hafi beðið hana um að samþykkja fyrir sitt leyti „að skuldbreyta yfirdráttarláninu í skuldabréf“, en í framhaldi af því hafi starfsmaður bankans boðað hana til sín til að „ganga frá skuldbreytingunni.“ Hún hafi staðið í þeirri trú að breyta hafi átt skuldinni, sem hún var í ábyrgð fyrir, þannig að ekki yrði lengur um yfirdráttarlán að ræða, heldur skuldabréf með lægri vöxtum og reglulegum afborgunum. Hún hafi jafnframt staðið í þeirri trú að með þessu yrði ekki aukin ábyrgð hennar á skuldum félagsins „sem hún hafði enga aðkomu haft að“. Hún hafi mætt í útibú bankans rétt fyrir lokun, ekki fengið að sjá annað en „það blað sem ætlast var til að hún ritaði undir“, henni hafi ekki verið veittar upplýsingar um hvers konar ábyrgð hún væri að taka á sig og hafi verið lagður á hana „þrýstingur um að skrifa nafn sitt skjótt undir skuldabréfið.“ Það hafi hún svo gert án þess að gera sér grein fyrir því að hún væri þannig að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld að höfuðstóli 7.300.000 krónur. Í málflutningi fyrir Hæstarétti var jafnframt vísað sérstaklega til þess að samkvæmt fram komnum gögnum hafi verið samið á fundi Garðars Eyjólfssonar og Þorsteins Ágústssonar með starfsmanni Landsbanka Íslands hf. 20. febrúar 2006 um hvernig greitt yrði úr skuld vegna yfirdráttar á tékkareikningi Seadata Sjógagna ehf., þar á meðal að stefnda gengist í sjálfskuldarábyrgð ásamt þeim tveimur fyrstnefndu fyrir heildarskuldinni, en til þess fundar hafi stefnda hvorki verið boðuð né henni greint frá því, sem þar hafi farið fram. Í meginatriðum lýsti stefnda þessum atvikum á sama veg í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi.

Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá því hvernig fyrrum starfsmaður Landsbanka Íslands hf., sem ritaði undir skuldabréfið 22. febrúar 2006 sem vottur, lýsti í vitnaskýrslu þeim almennu vinnubrögðum, sem hún kvaðst hafa beitt þegar viðskiptamenn bankans mættu á hennar fund til að gangast undir skuldbindingar. Starfsmaðurinn minntist ekki atvika þessa máls, en kvaðst viss um að í þessu tilviki hafi ekki verið vikið frá því, sem almennt hafi verið gert. Verulegur munur er á þessari lýsingu starfsmannsins og frásögn stefndu af því, sem gerst hafi við undirritun skuldabréfsins. Lýsing Þorsteins Ágústssonar í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi á atvikum við undirritunina var ekki með þeim hætti að á henni verði byggt við úrlausn málsins. Stefnda leiddi ekki Garðar Eyjólfsson fyrir dóm til að bera um þetta eða hvað farið hafi að öðru leyti þeim í milli áður en hún ritaði undir skuldabréfið. Eins og málið liggur fyrir eru því atvik að þessu leyti óljós.

Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem samtök ýmissa fjármálafyrirtækja gerðu 1. nóvember 2001 við Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra, tók ekki til þeirrar skuldbindingar, sem stefnda gekkst undir 22. febrúar 2006. Verður því að leggja mat á háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. í tengslum við þá ráðstöfun með tilliti til þess, sem almennt hafi mátt ætlast til. Þessum starfsmönnum var óviðkomandi af hvaða ástæðum stefnda ákvað að takast á herðar sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingu Seadata Sjógagna ehf., þar á meðal hvort hún hafi haft af því einhverja hagsmuni, og gat hún ekki ætlast til að þeir tækju fram fyrir hendur hennar í því sambandi þótt hún hafi að eigin sögn verið óreynd í viðskiptum. Stefndu var ljóst á þessum tíma að hvorki hafi félagið né aðrir ábyrgðarmenn staðið skil á yfirdráttarskuldinni, sem hún gekkst að hluta í ábyrgð fyrir 24. janúar 2005, og gat því ekki farið fram hjá henni að veruleg áhætta gæti fylgt því að gangast frekar undir ábyrgð fyrir félagið. Starfsmenn bankans gátu ekki gert ráð fyrir því að stefnda tæki ákvörðun um þetta án þess að hafa nægilega vitneskju um fjárhag annarra, sem hér áttu í hlut. Verður þannig ekki séð hverju þessir starfsmenn hefðu átt að bæta að þessu leyti við með upplýsingagjöf til stefndu. Ákvæði skuldabréfsins frá 22. febrúar 2006 um eðli ábyrgðar stefndu og umfang hennar voru einföld og auðskilin hverjum þeim, sem gæfi sér stutta stunda til að virða þau fyrir sér. Sú frásögn stefndu að hún hafi ritað undir skuldabréfið án þess að hafa lesið undir hvaða skuldbindingu hún væri að gangast eða vitað það af öðrum ástæðum er með ólíkindablæ, en hafi hún í raun hagað gerðum sínum á þann veg verður hún að bera ábyrgð á því, enda var henni í lófa lagið að láta ógert að rita nafn sitt án þess að afla nægilegrar vitneskju um þessa ráðstöfun. Ekkert liggur fyrir til stuðnings því að starfsmenn bankans hafi beitt stefndu á einhvern hátt þrýstingi til að aðhafast eitthvað, sem hún var ekki fús til. Að þessu öllu virtu eru ekki skilyrði hér til að víkja skuldbindingu stefndu samkvæmt skuldabréfinu til hliðar að einhverju leyti eða öllu með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum. Áfrýjandi verður því sýknaður af kröfum stefndu um það.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfum stefndu, Guðrúnar Helgadóttur, um að ógilt verði eða breytt fjárnámi, sem gert var hjá henni 18. júní 2007 fyrir kröfu Landsbanka Íslands hf.

Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er að öðru leyti sýkn af kröfum stefndu.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2010.

Mál þetta, sem höfðað var 19. febrúar 2010, var dómtekið 2. september sl.

Dómkröfur stefnanda, Guðrúnar Helgadóttur, eru:

  1. Að vikið verði að öllu leyti til hliðar með dómi sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfi 101-74-106182, útgefnu af Seadata Sjógögnum ehf. til stefnda, hinn 22. febrúar 2006, en til vara að hluta.
  2. Að ógilt verði með dómi fjárnám stefnda á 2. veðrétti í eignarhluta stefnanda í fasteigninni Flétturima 9, Reykjavík, fastanr. 204-0163, hinn 18.6.2007, eða til vara að höfuðstólsfjárhæð þess verði lækkuð.
  3. Að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk 25,5% virðisaukaskatts.

Stefndi, NBI hf., gerir þær dómkröfur að öllum dómkröfum stefnanda verði hafnað. Að auki er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Krafist er virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun til stefnda.

I

Í apríl 2003 var einkahlutafélagið Seadata Sjógögn stofnað af þeim Garðari Rafni Eyjólfssyni, sem var stjórnarformaður félagsins og framkvæmdastjóri, og Þorsteini Ágústssyni, auk annarra fjárfesta. Tilgangur félagsins var hugbúnaðarrekstur, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Félagið þróaði m.a. hugbúnað sem kallast Seadata eða Sjógögn og er notaður í samskiptum fiskiskipa við útgerðir til að ná fram hagræðingu í rekstri. Félagið var úrskurðað gjaldþrota hinn 16. mars 2007.

Stefnandi heldur því fram að þrátt fyrir að þróunarvinna félagsins hafi gengið vel hafi fljótlega farið að halla undan fæti í fjárhagsmálefnum þess og að fyrir löngu hafi verið komið í óefni er félagið var úrskurðað gjaldþrota.

Landsbanki Íslands hf. var frá upphafi viðskiptabanki félagsins. Stefnandi kveður stefnda, NBI hf., nú fara með öll réttindi og allar skyldur vegna þessa máls.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til stefnda. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. og 19. október 2008, kemur fram hvaða réttindi og skyldur flytjast frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda.

Stefndi kveður eingöngu þau réttindi sem talin eru upp í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 9. og 19. október 2008 hafa flust til stefnda og því sé það rangt sem stefnandi heldur fram að stefndi fari með öll réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. vegna þessa máls.

Yfirdráttarheimild á tékkareikningi Seadata Sjógagna ehf. hjá Landsbanka Íslands hf. var hækkuð þann 24. maí 2004 í 5.000.000 kr. og gengust þeir Garðar Rafn Eyjólfsson og Þorsteinn Ágústsson í sjálfskuldarábyrgð fyrir heimildinni. Þann 24. janúar 2005 var yfirdráttarheimildin síðan hækkuð í 7.000.000 kr.og fór Landsbanki Íslands hf. þá fram á það við félagið að það legði fram viðbótartryggingu. Kveður stefndi félagið þá hafa boðið fram sjálfskuldarábyrgð stefnanda.

Sama dag tók stefnandi að sér sjálfskuldarábyrgð á yfirdrætti á framangreindum reikningi Seadata Sjógagna ehf. með því að undirrita sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu að fjárhæð 2.000.000 kr.

Stefnandi kveður ábyrgð sína hafa verið veitta í greiðaskyni við aðila sem sé skyldur eiginmanni hennar og tengist henni þannig óbeint. Hún hafi samþykkt að taka á sig ábyrgð til bráðabirgða, þar sem ekki reyndist mögulegt að ná í þann aðila sem upphaflega átti að takast þessa ábyrgð á hendur.

Stefndi kveður það ekki hafa skipt Landsbanka Íslands hf. máli af hvaða ástæðu stefnandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgðina né hvort stefnandi hafi fengið einhverja umbun frá félaginu vegna hennar. Stefnandi hafi tekist ábyrgðina á hendur af fúsum og frjálsum vilja og skrifaði undir hana sjálfviljug. Stefnda hafi þó verið ljós tengsl eiginmanns hennar við félagið.

Stefnandi heldur því fram að fullyrt hafi verið við hana að félagið væri í söluferli, það myndi seljast fljótlega, og að þá yrði ekki lengur þörf fyrir hennar ábyrgð. Það eina sem staðist hafi af þessu sé að félagið var selt til hugbúnaðarfyrirtækisins Trackwell, sem eigi og reki í dag kerfi það sem Seadata Sjógögn ehf. vann að. Skuldastaða Seadata Sjógagna ehf. hafi hins vegar ekkert breyst, né heldur ábyrgð stefnanda á skuldinni.

Stefnandi kveður forsvarsmönnum Seadata Sjógagna ehf. fljótlega hafa orðið ljóst, eftir að heimildin var nýtt að hámarki, að félagið myndi ekki geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart stefnda vegna yfirdráttarlánsins á tékkareikningnum.

Stefndi kveður forsvarsmenn Seadata Sjógagna ehf., þá Garðar Rafn og Þorstein, hafa komið, þann 20. febrúar 2006, í Landsbanka Íslands hf. og viljað semja um uppgjör á yfirdráttarheimildinni. Að samkomulagi varð að gefið yrði út óverðtryggt skuldabréf að fjárhæð kr. 7.300.000,00 sem skyldi greiðast á þremur og hálfu ári, með sjálfskuldarábyrgð þeirra sem voru sjálfskuldarábyrgðaraðilar á yfirdrætti félagsins, þ.e. Garðars Rafns, Þorsteins og stefnanda.

Stefnandi kveður Garðar Rafn hafa haft samband við sig í febrúar 2006 og beðið hana að veita samþykki sitt fyrir því að skuldbreyta yfirdráttarláninu í skuldabréf. Í kjölfarið hafi verið haft samband við hana frá bankanum og hún beðin að mæta í útibú hans í Austurstræti til að ganga frá skuldbreytingunni.

Stefnandi kveður það hafa verið skilyrði af hálfu bankans að sjálfskuldarábyrgðaraðilar á yfirdrætti félagsins tækju að sér sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfinu. Sérstaklega hafi verið tekið fram við forsvarsmenn félagsins að forsenda fyrir þessum gerningi væri sú að stefnandi yrði ábyrgðarmaður á skuldabréfinu. Stefndi hafnar þessu sem alröngu, ósönnu og órökstuddu. Kveður stefndi Landsbanka Íslands hf. hafa óskað eftir því að tryggingastaða sín yrði ekki verri eftir að búið væri að breyta yfirdráttarskuldinni í skuldabréf. Hefði félagið boðið fram einhvern annan einstakling til að gangast í sjálfskuldarábyrgð þá hefði bankinn skoðað hvort hann væri jafn góður skuldari og sá sem losnaði frá ábyrgð sinni. Félagið hafi hins vegar ekki óskað

 ekki eftir því að stefnandi losnaði undan ábyrgð sinni heldur boðið sömu sjálfskuldarábyrgðaraðila og áður.

Þann 22. febrúar 2006, eða tveimur dögum eftir fund forsvarsmanna félagsins og bankans, var skuldabréf að fjárhæð kr. 7.300.000 undirritað af útgefanda, Seadata Sjógögnum ehf. og sjálfskuldarábyrgðaraðilum.  

Stefnandi kveðst hafa staðið í þeirri trú að með skuldabréfinu væri einungis verið að skuldbreyta fjárhæðinni sem hún var í ábyrgð fyrir, þannig að ekki væri lengur um að ræða yfirdráttarlán á tékkareikningi með háum vöxtum, heldur skuldabréf með lægri vöxtum og reglulegum afborgunum. Jafnframt hafi hún staðið í þeirri trú að ábyrgð hennar á skuldum félagsins, sem hún hafði enga aðkomu haft að, væri ekki að aukast.

Stefnandi kveðst hafa mætt í útibú bankans rétt fyrir lokun. Hún hafi einungis fengið að sjá bakhlið skuldabréfsins þar sem hún hafi ritað nafn sitt. Á bakhlið skuldabréfsins er enginn texti heldur er þar gert ráð fyrir undirritunum útgefanda, sjálfskuldarábyrgðaraðila og votta, auk þess sem þar á að skrá útgáfustað og dagsetningu. Stefndi mótmælir því að stefnanda hafi einungis verið sýnd bakhlið skuldabréfsins.

Stefnandi heldur því fram að henni hafi ekki verið veittar neinar upplýsingar um hvers konar ábyrgð hún væri að takast á herðar, heldur hafi hún verið beitt þrýstingi að skrifa nafn sitt skjótt undir skuldabréfið. Það hafi hún gert án þess að gera sér grein fyrir því að hún væri með þeirri undirritun sinni að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum á skuldabréfi að höfuðstólsfjárhæð kr. 7.300.000,- og ábyrgjast þar með allar skuldbindingar Seadata Sjógagna ehf. við bankann.

Stefndi mótmælir því að skuldabréfið hafi verið gefið út til að ábyrgjast allar skuldir félagsins gagnvart bankanum og kveður það hafa verið gefið út til þess að gera upp yfirdráttarheimild á tékkareikningi félagsins. Þá mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um að hún hafi ekki vitað undir hvað hún var að skrifa. Telja verði ótrúverðugt að stefnandi hafi ekki kynnt sér til hlítar þá ábyrgð sem hún tókst á hendur.

Stefndi kveður starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafa sýnt stefnanda báðar hliðar skuldabréfsins, en á framhliðinni komi skýrt fram fjárhæð skuldabréfsins og sjálfskuldaábyrgðarinnar. Einnig hafi verið farið yfir greiðsluskilmála bréfsins og stefnanda gerð grein fyrir að hún væri að taka að sér mun hærri ábyrgð á skuldum félagsins en áður og að hægt væri að innheimta heildarskuldina hjá einum af ábyrgðarmönnunum. Stefnandi hafi undirritað skuldabréfið af fúsum og frjálsum vilja og án nokkurs þrýstings frá starfsmönnum Landsbanka Íslands hf.       

Stefnandi kveður bankanum, í asanum við að tryggja kröfur sínar, hafa láðst að gera ráð fyrir lúkningu á töluverðum hluta yfirdráttarins á tékkareikningnum. Svo virðist sem bankinn hafi þá brugðið á það ráð að skilja þennan hluta yfirdráttarskuldarinnar eftir á fullum vanskilavöxtum, án þess að gera aðilum strax grein fyrir þessu, og án þess að fella niður ábyrgð aðila á tékkareikningnum. Fjárhæðin hafi vaxið umtalsvert af þessum sökum áður en aðilar gerðu sér grein fyrir stöðunni, sem fyrst varð þegar bankinn hóf innheimtuaðgerðir vegna bæði skuldabréfsins og eftirstöðvanna á tékkareikningnum.

Stefnandi kveður Landsbanka Íslands hf. hafa hafið harkalegar innheimtuaðgerðir á hendur tveimur ábyrgðarmönnum skuldabréfsins þegar Segata sjógögn ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2007. Gert hafi verið fjárnám í fasteignum stefnanda og Þorsteins Ágústssonar vegna skuldarinnar og hafi nauðungarsala á eignum þeirra verið yfirvofandi síðan þá. Garðar Rafn Eyjólfsson hafi hins vegar ekki þurft að sæta neinum innheimtuaðgerðum. Nokkrar tilraunir til samninga hafi átt sér stað við bankann. Þorsteinn og stefnandi hafi tilkynnt bankanum að þau gætu mögulega staðið í skilum með sitt hvorn þriðjung skuldarinnar gegn því að bankinn leysti þau úr ábyrgðum vegna allra skuldbindinga Seadata Sjógagna ehf. Það sem eftir stæði yrði að innheimta á hendur Garðari Rafni. Bankinn hafi hins vegar hafnað því að leysa einstaka skuldara úr ábyrgðum og tilkynnt að einungis væri í boði að ljúka málinu gegn einni greiðslu að fjárhæð kr. 8.500.000,- í einu lagi eða að ekki félli niður ábyrgð hinna þótt greiddir yrðu 2/3 hlutar skuldarinnar. Málaleitan stefnanda hafi formlega verið hafnað með bréfi, dags. 16. apríl 2008.

Málið hafi í kjölfarið verið kært til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og sú krafa gerð að ábyrgð Þorsteins og stefnanda yrði felld niður, þar sem samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða hefði verið brotið. Nefndin hafi hins vegar vísað málinu frá sér, þar sem það var ekki talið varða fjárkröfu. Nokkur bið hafi orðið á rekstri málsins kringum hræringar í efnahagsmálum landsins og gjaldþrots bankanna, þar á meðal Landsbankans. Á árinu 2009 hafi þó orðið ljóst að stefndi ætlaði sér ekki að gefa neitt eftir í málinu gagnvart stefnanda. Samningaumleitanir hafi hafist á ný haustið 2009. Svar um lausn málsins frá bankanum hafi ekki borist fyrr en 12. febrúar 2010. Tillaga bankans hafi falist í því að stefnandi greiddi 2/7 af skuldinni. Samkvæmt yfirliti hafi skuldin staðið í 12,6 milljónum um áramótin 2009/2010, fyrir utan allan innheimtukostnað, sem þýði að bankinn hafi boðið stefnanda að greiða tæpar fjórar milljónir af skuldinni. Á þessum tíma hafði stefnandi afráðið að höfða mál gegn bankanum, auk þess sem tilboð bankans sé óásættanlegt að mati stefnanda.

II

Stefnandi byggir kröfu sína aðallega á því að það sé bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera fyrir sig sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfinu. Því beri að ógilda ábyrgð stefnanda.

Stefnandi hafi upphaflega tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á tékkareikningi Seadata Sjógagna ehf. af greiðasemi við aðila sem tengist henni óbeint. Ábyrgð hennar hafi takmarkast við 2.000.000,- kr. og gat sú ábyrgð hennar aldrei orðið hærri, hvorki að teknu tilliti til vaxta eða kostnaðar. Stefnandi hafi heldur aldrei ætlað sér að ábyrgjast hærri fjárhæð en þær tvær milljónir sem um ræddi upphaflega. Stefnandi hafi treyst á það að hún væri einn þriggja greiðslufærra ábyrgðarmanna á þeirri fjárhæð og skuldbinding sú sem hún tókst á hendur með sjálfskuldarábyrgð á umræddum tékkareikningi var afmörkuð og þess vegna viðráðanleg að hennar mati og einungis til bráðabirgða þar til félagið yrði selt.

Höfuðstóll skuldabréfsins sem gefið var út hafi hins vegar verið næstum ferfalt hærri en upphafleg ábyrgð og við fjárhæðina bætist nú mánaðarlega vextir og kostnaður. Eins og fyrr greini nemi skuldin nú tæpum þrettán milljónum fyrir utan kostnað, sem sé meira en sexföld sú fjárhæð sem stefnandi samþykkti upphaflega að ábyrgjast. Eins og rakið hafi verið reyndi stefnandi að fá stefnda til að samþykkja að skipta skuldinni úr því að vera in solidum yfir í pro rata og hún myndi reyna að standa skil á einum þriðja hluta skuldarinnar. Þessari málaleitan hafnaði stefndi ítrekað og krafðist þess að skuldin yrði greidd í einu lagi. Á þeim tímapunkti hafi legið fyrir að aðalskuldari hafði verið úrskurðaður gjaldþrota og að minnsta kosti einn ábyrgðarmannanna þriggja átti engar eignir sem gætu staðið til fullnustu á skuldinni. Stefnandi hafi enga möguleika á að greiða þessa fjárhæð.

Stefndi hafi kynnt stefnanda að mun hagstæðara væri að breyta yfirdrættinum, sem bæri yfir 20% vexti, í skuldabréf til lengri tíma á lægri vöxtum, með reglulegum afborgunum sem aðalskuldarinn myndi eiga auðvelt með að greiða. Þegar bréfið var tilbúið hafi stefnandi verið boðuð með mjög skömmum fyrirvara til undirritunar og henni kynnt málið símleiðis með framangreindum hætti. Stefnandi hafi í raun og veru aldrei séð framhlið skuldabréfsins, heldur mætt rétt fyrir lokun í útibú stefnda í Austurstræti og ritað þar nafn sitt á bakhlið bréfsins, enda enga ástæðu haft til að vantreysta orðum starfsmanns stefnda, sem var útibússtjóri bankans í Austurstræti. Það hafi ekki verið fyrr en skömmu síðar, þegar stefnanda fóru að berast greiðsluáskoranir vegna skuldabréfsins, að henni varð ljóst hvernig í pottinn var búið. Stefnandi telji þessa viðskiptahætti hvorki eðlilega né sanngjarna og telji óréttmætt af stefnda að bera ábyrgðina fyrir sig.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki gert henni grein fyrir því að hún væri að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á fjárhæð sem nam miklu hærri fjárhæð heldur en sú ábyrgð sem hún hafði þá þegar gengist í. Henni hafi heldur ekki verið gerð grein fyrir fjárhagsstöðu aðalskuldarans, sem á þessum tímapunkti var ógjaldfær og hafði fengið yfirdráttarheimild sína hækkaða í sjö milljónir. Stefnandi telji óumdeilt að stefndi hafi gjörþekkt þessa slæmu fjárhagsstöðu Seadata Sjógagna ehf. og skuldabréfagerningurinn hafi verið gerður í þeim eina tilgangi að tryggja alla yfirdráttarskuld Seadata Sjógagna ehf. við stefnda með ábyrgðarmönnum og hækka ábyrgðina þannig langt upp fyrir hið gildandi hámark. Stefnandi fullyrðir að hún hefði aldrei samþykkt að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir þeirri fjárhæð sem um ræðir í málinu, einkum og sér í lagi fyrir skuldara sem fyrir lá að rambaði á barmi gjaldþrots. Verulega ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera nú fyrir sig sjálfskuldarábyrgð hennar á skuldabréfinu.

Stefnandi vísi til markmiðs og ákvæða samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem stefndi er aðili að. Stefnandi telur að jafnvel þótt það samkomulag taki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til notkunar ábyrgða á skuldum einstaklinga, megi byggja á því samkomulagi þó að ábyrgð taki til skulda einkahlutafélags, annað hvort með beinum hætti eða með því að það samkomulag sé haft til hliðsjónar, í tilvikum þegar ábyrgðaraðili sé utanaðkomandi einstaklingur sem ekki er tengdur félaginu, þegar metið sé hvort víkja beri ábyrgð til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga. Markmið samkomulagsins, sbr. 1. gr. þess, sé í öllu falli það að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga almennt og að lánveitingar skuli miðaðar við greiðslugetu greiðenda. Þá séu með samkomulaginu settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð sé sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Ekki síst sé tilgangur samkomulagsins, sbr. upphafsorð þess og efni að öðru leyti, að það er sett til að tryggja vandaða viðskiptahætti. Þennan sama tilgang hafi nýleg lög um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, sbr. 1. gr. laganna. Gildissvið þeirra laga sé víðara en ofangreinds samkomulags að því leyti til að þau takmarkist ekki við ábyrgðir á skuldum einstaklinga, heldur ábyrgðir á skuldum almennt og lögin séu að hluta til afturvirk. Stefnandi telji að hafa megi ákvæði þessara laga til hliðsjónar þegar nú sé metið hvort ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera ábyrgð stefnanda fyrir sig við innheimtu skuldar hins gjaldþrota aðila, félags sem henni algerlega óviðkomandi.

Stefnandi byggir á því að henni hafi aldrei verið kynnt raunveruleg fjárhagsstaða Seadata Sjógagna ehf. Stefnandi byggir jafnframt á því að ekkert mat hafi farið fram á því hvort fyrirtækið gæti raunverulega greitt af skuldabréfinu. Í fyrrnefndu samkomulagi um notkun ábyrgða, sem og í lögum um ábyrgðarmenn, sem hafa megi til hliðsjónar í þessu máli, sé það forsenda þess að sjálfskuldarábyrgð haldi gildi, að slíkt greiðslumat sé gert fyrir skuldara og ábyrgðarmanni kynnt sú niðurstaða.

Stefnandi byggi sem fyrr segi á því að skuldabréfalán til Seadata Sjógagna ehf. og það hvernig staðið var að því, aðallega með tilliti til stefnanda, hafi brotið margháttað gegn fyrrnefndu samkomulagi um notkun ábyrgða einstaklinga á skuldum við lánastofnanir, sem og ákvæðum laga um ábyrgðarmenn. Þó komast megi að þeirri niðurstöðu að hvorugt hafi gilt um umrædda lánveitingu þegar hún var gerð, telji stefnandi að ef samkomulagið eða lögin hefðu gilt á sínum tíma um þessa lánveitingu sé ótvírætt að hún hefði brotið með alvarlegum hætti gegn hvoru tveggja. Stefnandi telji að túlka beri ákvæði 19. gr. laga nr. 161/2001, með hliðsjón af framangreindum lögum og samkomulagi, þannig að með samningnum hafi stefndi brotið gróflega gegn góðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði. Með vísan til þessara sjónarmiða megi þannig einnig hafa bæði ákvæði samkomulagsins og ákvæði laga um ábyrgðarmenn til hliðsjónar, þegar metið sé hvort víkja eigi til hliðar ábyrgð stefnanda á endurgreiðslu skuldabréfsins, á grundvelli 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, sem heimili slíkt ef telja megi ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig.

Stefnandi byggir á því að það sé sama hvernig litið sé á málið, aldrei verði komist að þeirri niðurstöðu að sjálfskuldarábyrgð stefnanda sé sanngjörn eða í samræmi við góða viðskiptahætti eða venjur. Stefnandi hafi tekið á sig umrædda sjálfskuldarábyrgð án þess að njóta fjárhagslegra greiða í staðinn eða njóta góðs af því á nokkurn annan hátt. Auk þess hafi hún ekki haft neinn aðgang að upplýsingum um fjárhag félagsins. Þegar þessar staðreyndir séu hafðar í huga, sem og áður rakin sjónarmið um hvernig gerningurinn braut gegn ákvæðum gildandi samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga, sem og ákvæðum núgildandi laga um ábyrgðarmenn, sem hvort tveggja má hafa til hliðsjónar í málinu, sbr. einnig ákvæði 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, telji stefnandi augljóst að það sé ósanngjarnt að hún verði látin bera ábyrgð á endurgreiðslu ríflega sjö milljóna króna láns fyrirtækis sem sé orðið gjaldþrota og tengist stefnanda ekki á nokkurn hátt. Slíkt geti, að mati stefnanda, hvorki talist sanngjarnt né eðlilegt. Því geri hún þá kröfu að ábyrgð hennar verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða í lögum um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009. 

Stefnandi rökstyður kröfu sína um ógildingu á fjárnámi því sem stefndi gerði á grundvelli umrædds skuldabréfs og ábyrgðar í eignarhluta hennar í fasteigninni að Flétturima 9 með þeim hætti, að þar sem víkja beri ábyrgð stefnanda á nefndu skuldabréfi til hliðar, beri jafnframt að dæma veðsetninguna ógilda, enda leiði það af eðli máls, að veðsetningin teljist óheimil ef ábyrgð stefnanda sem veðsetningin er grundvölluð á sé vikið til hliðar.

Málskostnaðar sé krafist með vísan til 129. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að viðbættum virðisaukaskatti.

III

Stefndi hafnar því að ógilda beri sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfi því sem útgefið var af Seadata Sjógögnum ehf. til Landsbanka Íslands hf. sökum þess að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera fyrir sig sjálfskuldarábyrgð stefnanda á bréfinu. 

Stefndi geti ekki borið ábyrgð á því hvernig Seadata Sjógögn ehf. og forsvarsmenn þess kynntu fyrir stefnanda hvað fælist í sjálfskuldarábyrgð hennar þegar hún samþykkti að gerast sjálfskuldarábyrgðaraðili á skuldabréfinu. Þar sem stefnandi hafi fallist á að taka ábyrgð á skuldabréfinu hafi hún farið yfir það með forsvarsmönnum félagsins hve háa fjárhæð hún væri að gangast í ábyrgð fyrir, hver greiðslukjörin væru og hvernig félagið væri í stakk búið að greiða af því. Stefnandi hafi vitað að félagið hafði verið í vanskilum við Landsbanka Íslands hf. út af yfirdrættinum á tékkareikningnum og því hafi verið gerð rík krafa á stefnanda að fá upplýsingar um þessi atriði hjá félaginu og forsvarsmönnum þess. Hafi stefnandi ekki óskað eftir að fá þessar upplýsingar verði hún sjálf að bera hallann af þessu stórfellda gáleysi sínu. Hafi félagið og forsvarsmenn þess gefið stefnanda rangar upplýsingar beri stefndi enga ábyrgð á því.  

Stefndi hafi kynnt stefnanda nákvæmlega hvað fólst í undirritun hennar sem sjálfskuldarábyrgðaraðila á skuldabréfið. Hafi það bæði verið gert í símtali þegar hún var boðuð til undirritunar skjalsins og svo þegar hún kom í bankann og undirritaði bréfið. Þeirri málsástæðu stefnanda, að hún hafi einungis séð bakhlið skuldabréfsins, þar sem einungis nöfn aðila bréfsins er að finna og útgáfustað og útgáfudag, sé hafnað af hálfu stefnda sem ótrúverðugri, ósannri, órökstuddri og fjarstæðukenndri. Ef málsástæðan væri aftur á móti sönn þá hefði það verið stórfellt gáleysi af hálfu stefnanda að kynna sér ekki til hlítar þann samning sem hún var samþykkja með undirskrift sinni og hvaða ábyrgð hún væri að gangast í fyrir félagið og beri stefnandi hallann af því.  Stefndi hafi upplýst stefnanda um fjárhæð bréfsins og að stefnandi væri að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum á allri fjárhæð bréfsins og því ykist fjárhæð ábyrgðarinnar verulega. Einnig hafi verið farið yfir greiðsluskilmála bréfsins og vaxtakjör.

Í framhaldi af kaupum Landsbanka Íslands hf. á skuldabréfinu hafi Seadata Sjógögnum ehf. og öllum sjálfskuldarábyrgðaraðilunum verið send tilkynning um kaup bankans á bréfinu þar sem áréttað var að aðilarnir hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum á fjárhæð bréfsins, kr. 7.300.000,00 kr.

Fram komi í 13. tl. skuldabréfsins að með undirritun sinni á skuldabréfið staðfesti sjálfskuldarábyrgðaraðilar að þeir hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Stefnandi geti því ekki borið fyrir sig að hún hafi ekki vitað hvaða skuldbindingar hún væri að taka að sér þegar hún skrifaði undir skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðaraðili, þar sem hún staðfesti með undirritun sinni að hafa kynnt sér efni viðkomandi upplýsingabæklings.

Stefnanda hafi verið fyllilega ljóst hvað fólst í sjálfskuldarábyrgð hennar á skuldabréfinu og telji stefndi rétt að benda á að stefnandi gerði engar athugasemdir við ábyrgðarskuldbindingu sína fyrr en ljóst var eftir gjaldþrot Seadata Sjógagna ehf. að félagið gæti ekki greitt lánið. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 16. mars 2007 og frá undirritun sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingarinnar þann 22. febrúar 2006 og fram til byrjun árs 2008 hafi stefnandi engar athugasemdir gert við ábyrgð sína. Stefnandi hafi þá ekki gert kröfu um ógildingu sjálfskuldarábyrgðarinnar heldur hafi stefnandi viljað semja um greiðslu hennar. Sé því um tómlæti af hálfu stefnanda að ræða í málinu.  

Því sé haldið fram í stefnu að þar sem Seadata Sjógögn ehf. hafi verið í viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. hafi bankinn haft vitneskju um slæman fjárhag félagsins og ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni með því að upplýsa stefnanda um það. Einnig sé fullyrt að félagið hafi verið ógjaldfært þegar stefnandi undirritaði sjálfskuldarábyrgð sína. Þessar fullyrðingar stefnanda séu ekki studdar neinum gögnum og hafni stefndi þeim alfarið og bendi á að þegar stefnandi undirritaði sjálfskuldarábyrgð sína hafi Seadata Sjógögn ehf. ekki verið á vanskilaskrá, en fyrsta færslan á vanskilaskrá fyrirtækisins sé dagsett 23. maí 2006. Þegar stefnandi hafi undirritað sjálfskuldarábyrgð hafi félagið verið vel gjaldfært og enginn möguleiki fyrir Landsbanka Íslands hf. að sjá það fyrir að óskað yrði eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2007.  

Stefnandi vísi í stefnu til Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og haldi því fram að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefnanda með því að greiðslumeta Seadata Sjógögn ehf. og kynna það mat fyrir stefnanda. Fram komi í 2. gr. samkomulagsins að það eigi einungis við þegar einstaklingur hefur gengist í sjálfskuldarábyrgð, þ.e. ábyrgð fyrir annan einstakling, greiðanda, og ábyrgðin sé til tryggingar á fjárhagslegri skuldbindingu. Samkomulagið eigi því ekki við í þeim lögskiptum sem fram fóru milli stefnanda, Landsbanka Íslands hf. og Seadata Sjógagna ehf., en þar hafi stefnandi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldum fyrirtækis, en ekki einstaklings. Því hafi engin lagaleg skylda verið á Landsbanka Íslands hf. að greiðslumeta skuldarann, þ.e. félagið, og bankinn hafi því ekki brotið neina upplýsingaskyldu gagnvart stefnanda. Upplýsingar um fjárhagslega stöðu Seadata Sjógagna ehf. hafi stefnandi orðið að sækja til félagsins. Eiginmaður stefnanda sé tengdur einum af stjórnendum félagsins og hafi hún því átt greiðan aðgang að upplýsingum frá félaginu um fjárhagslegan styrk þess og hafi stefnandi ekki sýnt þá fyrirhyggju að óska þessara upplýsinga frá félaginu áður en hún gekkst í ábyrgðina beri hún hallann af því. Þar fyrir utan hafi Landsbanka Íslands hf. verið óskylt og beinlínis óheimilt að upplýsa stefnanda um fjárhagslega stöðu Seadata Sjógagna ehf. samkvæmt 58. og 60. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Til staðfestingar þessum skilningi stefnda vísi hann til úrskurðar Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, mál nr. 21/2004. Einnig sé þessi skilningur staðfestur í nýlegum dómi Hæstaréttar nr. 403/2009. 

Tilvísun stefnanda til ákvæða laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sem tóku gildi 4. apríl 2009, eigi ekki við í þessu máli þar sem lögin hafi ekki verið í gildi á þeim tíma þegar stefnandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð sína. Á þeim tíma sem lögskipti stefnanda og Landsbanka Íslands hf. hafi átt sér stað hafi gilt samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Varast verði að leggja að jöfnu réttarástandið eins og það sé í dag og það var á árinu 2006. 

Stefndi hafni þeirri málsástæðu stefnanda að túlka beri 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með hliðsjón af lögum 32/2009 um ábyrgðarmenn og samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, þannig að með samningnum hafi stefndi brotið gróflega gegn góðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði. Landsbanki Íslands hf. hafi í einu og öllu farið eftir gildandi lögum og venjum á fjármálamarkaði við kaup á skuldabréfi því sem Seadata Sjógögn ehf. gaf út til Landsbanka Íslands hf., þar sem stefnandi ásamt tveimur öðrum einstaklingum hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á fjárhæð bréfsins.

Stefndi hafni þeirri málsástæðu stefnanda að sjálfskuldarábyrgð stefnanda sé ósanngjörn og í ósamræmi við góða viðskiptahætti eða venjur sökum þess að stefnandi hafi tekið á sig umrædda sjálfskuldarábyrgð án þess að njóta fjárhagslegra greiða í staðinn. Það sé ekki lagaskilyrði að aðili sem tekst á hendur sjálfskuldarábyrgð fái einhverja umbun í staðinn og hafi stefnandi farið fram á slíkt við forsvarsmenn Seadata Sjógagna ehf. og ekki fengið, þá hafi það engin áhrif á gildi sjálfskuldarábyrgðarinnar gagnvart stefnda og Landsbanka Íslands hf.   

Stefnandi krefjist ógildingar á sjálfskuldarábyrgðinni með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi hafni því með öllu að Landsbanki Íslands hf. hafi gerst brotlegur við lagaákvæðið í lögskiptum sínum við stefnanda og vísar til framangreindra málsástæðna og lagaraka. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á með málatilbúnaði sínum að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri sjálfskuldarábyrgð stefnanda fyrir sig. Einnig vísi stefndi í áðurnefndan dóm Hæstaréttar nr. 403/2009. 

Kröfu stefnanda um að víkja til hliðar sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfi útgefnu af Seadata Sjógögnum ehf. til Landsbanka Íslands hf. snúist um atvik sem að öllu leyti hafi átt sér stað áður en stefndi var stofnaður. Með engu móti verði ráðið af málatilbúnaði stefnanda á hvaða grundvelli stefndi beri ábyrgð á athöfnum þeim eða athafnaleysi sem stefnandi telji að leitt geti til ógildingar á sjálfskuldarábyrgð hennar áður en stefndi var stofnaður þann 9. október 2008.

Kröfum um ógildingu sjálfskuldarábyrgðarinnar vegna atvika sem urðu fyrir 9. október 2008 sé því ranglega beint að stefnda og krefjist hann sýknu af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Stefndi mótmæli þeirri kröfu stefnanda að ógilt verði fjárnám stefnda á 2. veðrétti í eignarhluta stefnanda í fasteigninni Flétturima 9, Reykjavík, fastanr. 204-0163, dags. 18. júní 2007. 

Stefndi telji að aðfarargerðin fullnægi skilyrðum laga nr. 90/1989 um framkvæmd aðfarar. Þá fullnægi umrætt skuldabréf þeim skilyrðum sem gerð séu til skuldabréfa. Bréfið sé undirritað af útgefanda og sjálfskuldarábyrgðarmönnum ásamt tveimur vitundarvottum. Samkvæmt 6. tl. skuldabréfsins megi gera aðför hjá útgefanda eða sjálfskuldarábyrgðaraðilum til fullnustu skuldarinnar, án undangengins dóms eða réttarsáttar sbr. 7 tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Um lagarök vísi stefndi til meginreglu samningaréttar um að samningar skuli standa. Einnig sé vísað til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, laga nr. 90/1989 um aðför, Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, og ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. og 19. október 2008.

Krafa um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.

IV

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um að vikið verði að öllu leyti til hliðar með dómi sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfi, útgefnu af Seadata Sjógögnum ehf. til stefnda, hinn 22. febrúar 2006, en til vara að hluta. Þá krefst stefnandi þess að ógilt verði með dómi fjárnám stefnda á 2. veðrétti í eignarhluta stefnanda í fasteigninni Flétturima 9, Reykjavík, hinn 18. 6. 2007, eða til vara að höfuðstólsfjárhæð þess verði lækkuð.

Stefnandi byggir kröfur sínar á 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, en samkvæmt greininni má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef talið yrði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Tekið er fram að við mat á þessum atriðum skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

Stefndi hafnar því að Landsbanki Íslands hf. hafi gerst brotlegur við 36. gr. laga nr. 7/1936 og krefst sýknu. Þá krefst hann sýknu vegna aðildarskorts þar sem að með engu móti verði ráðið af málatilbúnaði stefnanda á hvaða grundvelli stefndi beri ábyrgð á athöfnum þeim eða athafnaleysi sem stefnandi telji að leitt geti til ógildingar á sjálfskuldarábyrgð hennar áður en stefndi var stofnaður þann 9. október 2008.

Fyrir liggur að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. var eignum þess síðarnefnda ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. sem síðar varð stefndi með nafnbreytingu.

Í stefnu kemur fram að Landsbanki Íslands hf. hafi frá upphafi verið viðskiptabanki Seadata Sjógagna hf. og að stefndi fari nú með öll réttindi og skyldur vegna þessa máls. Er því ekki fallist á það með stefnda að ekki verði ráðið af málatilbúnaði stefnanda á hvaða grundvelli stefndi beri ábyrgð á athöfnum þeim eða athafnaleysi sem stefnandi telji að leitt geti til ógildingar á sjálfskuldarábyrgð hennar.

Fyrir liggur að Seadata Sjógögn ehf. höfðu fengið 5.000.000 króna yfirdráttarheimild á tékkareikning sinn hjá Landsbanka Íslands hf. í maí 2004 og að forsvarsmenn félagsins, þeir Garðar Rafn Eyjólfsson og Þorsteinn Ágústsson, voru sjálfskuldarábyrgðarmenn. Yfirdráttarheimildin var síðan hækkuð í 7.000.000 króna í janúar 2005 og fór bankinn þá fram á það við félagið að það legði fram viðbótartryggingu. Félagið bauð þá fram sjálfskuldarábyrgð stefnanda og í kjölfarið gekkst stefnandi í 2.000.000 króna sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdrætti félagsins.

Um aðdraganda og ástæður þess að stefnandi gekkst í ábyrgðina er ekki við annað að styðjast en frásögn hennar sjálfrar sem studd er framburði eiginmanns hennar, en stefnandi kveðst hafa gengist í ábyrgðina af greiðasemi við frænda mannsins síns sem tengdist félaginu. Kveðst stefnandi hafa treyst því að hún væri einn þriggja greiðslufærra ábyrgðarmanna. Ábyrgðin hafi verið viðráðanleg og henni hafi verið tjáð að hún væri einungis til bráðabirgða þar til félagið yrði selt.

Fyrir liggur að forsvarsmenn Seadata Sjóvara ehf. voru á fundi í Landsbanka Íslands 20. febrúar 2006 þar sem samið var um uppgjör á yfirdráttarheimild félagsins. Meðal gagna málsins er viðskiptayfirlit félagsins hjá Landsbanka Íslands hf., dagsett sama dag, með áritaðri fundargerð umrædds fundar. Á yfirlitinu kemur fram að yfirdráttur félagsins sé í lögfræðiinnheimtu. Þá kemur þar fram að Trackwell hafi keypt hugbúnaðinn af félaginu og að skuldin við Landsbanka Íslands greiðist upp með höfundarrétti af framhaldandi sölu. Síðan kemur þar fram að útbúa skuli skuldabréf að fjárhæð 7.300.000 kr., eins og þar er nánar lýst, með sjálfskuldarábyrgð forsvarsmanna félagsins og stefnanda.

Stefnandi var ekki á umræddum fundi þar sem samið var um að ábyrgð hennar á skuldum Seadata Sjóvara hf. hækkaði úr 2.000.000 kr. í 7.300.000 kr.

Fyrir liggur að stefnandi ritaði þann 24. janúar 2005 sem sjálfskuldarábyrgðaraðili, ásamt þeim Garðari Rafni og Þorsteini, undir skuldabréf að fjárhæð 7.300.000 kr. útgefið af Seadata Sjóvörum ehf. til Landsbanka Íslands hf.

Stefnandi hefur lýst aðdraganda þess að hún ritaði sem sjálfskuldarábyrgðaraðili undir skuldabréfið þannig að Garðar Rafn hafi haft samband við hana og beðið hana um að veita samþykki sitt fyrir því að yfirdrætti félagsins yrði breytt í skuldabréf. Síðan hafi verið haft samband við hana úr bankanum og hún beðin að mæta með skömmum fyrirvara og ganga frá skuldbreytingunni. Hún hafi mætt í bankann, rétt fyrir lokun, þar sem þrýst hafi verið á hana að skrifa fljótt undir skuldabréfið. Hún hafi einungis fengið að sjá bakhlið þess og engar upplýsingar fengið um hvers konar ábyrgð hún væri að undirgangast. Stefnandi kveðst hafa staðið í þeirri trú að einungis væri verið að skuldbreyta yfirdrættinum sem hún var í ábyrgð fyrir í hagstæðara lán, sem félagið myndi eiga auðveldara með að greiða af. Stefnandi, sem engin bein tengsl hafði við Seadata Sjóvörur ehf., kveður að aldrei hefði komið til greina af hennar hálfu að gangast í frekari ábyrgð fyrir skuldum félagsins. Það hafi ekki verið fyrr en henni, skömmu síðar, fóru að berast greiðsluáskoranir sem henni hafi orðið ljóst hvernig í pottinn var búið, þ.e. að hún væri í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni að höfuðstólsfjárhæð 7.300.000 kr.

Þorsteinn Ágústsson lýsti því fyrir dóminum að mikil pressa hefði verið búin að vera á forsvarsmönnum félagsins að ganga frá málum við bankann. Þeim hafi í raun verið stillt upp við vegg. Hann kvaðst ekki minnast þess að við undirritun skuldabréfsins hafi verið útskýrt að ábyrgðir og fjárhagsleg áhætta ábyrgðarmanna væri að aukast verulega. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að efni upplýsingabæklings bankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila hafi verið kynnt.

Þórunn Karítas Þorsteinsdóttir, þjónustufulltrúi hjá bankanum, sem er vottur á skuldabréfinu, kvaðst fyrir dóminum ekki muna eftir undirritun umrædds skuldabréfs. Hún kvaðst hins vegar hafa það fyrir ófrávíkjanlega vinnureglu að gera viðskiptavinum ítarlega grein fyrir efni skuldabréfa áður en þeir undirrita þau. Einnig kvaðst hún gera sjálfskuldarábyrgðaraðilum grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir séu að gangast í. Kvaðst hún þess fullviss að hún hafi farið eins að í umrætt sinn.

Þá kvaðst hún fastlega gera ráð fyrir að ábyrgðarmönnunum hafi verið afhentur upplýsingabæklingur Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Þeir séu alltaf afhentir.

Það er mat dómsins, að þrátt fyrir framburð Þórunnar Karítas, verði með hliðsjón af framburði  Þorsteins að telja ósannað að stefnandi hafi við undirritun skuldabréfsins verið upplýst sérstaklega um ábyrgð þá sem hún var að undirgangast.

Fyrir liggur að Landsbanki Íslands hf. var aðili að samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Í 1. gr. samkomulagsins kemur fram að aðilar að því séu sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu séu settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð, eða veð í eigu annars einstaklings, sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.

Í 1. mgr. 3. gr. segir að sé sjálfskuldarábyrgð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert.  Þó er fjármálafyrirtækinu skylt að greiðslumeta greiðanda þegar óskað er sjálfskuldarábyrgðar til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu sem nemur meira en einni milljón króna, sbr. 2. mgr. 3. gr.

Þá er kveðið á um það í 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óski engu að síður eftir því að lán verði veitt skuli hann staðfesta það skriflega.

Í 2. gr. téðs samkomulags segir að með sjálfskuldarábyrgð sé átt við það þegar einstaklingur gengst í ábyrgð fyrir annan einstakling. Ljóst er því að skylda hvílir ekki á fjármálastofnun til að greiðslumeta skuldara þegar einstaklingur gengur í ábyrgð fyrir félag eins og var í tilviki stefnanda. Hins vegar þykir, þegar litið er til markmiðs samkomulagsins, þ.e. að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans, mega hafa þau sjónarmið sem það endurspeglar til hliðsjónar við mat á því hvort efni sé til að víkja ábyrgð stefnanda í máli þessu til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga.

Sömu markmið og fram koma í tilvitnuðu samkomulagi koma fram í lögum nr. 31/2009 um ábyrgðarmenn, sem gildi tóku 4. apríl 2009. Gildissvið þeirra er þó víðtækara því þau gilda um lánveitingar stofnana og fyrirtækja þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka, hvort sem hann er einstaklingur eða fyrirtæki, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.

Þegar stefnandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð þá sem mál þetta snýst um hafði rekstur Seadata Sjóvara hf., sem var eina eign félagsins, verið seldur. Ekki þykir sýnt að sú ráðagerð að tekjur félagsins af höfundarrétti stæðu undir afborgunum af skuldabréfinu hafi verið raunhæf. Þá þykir ekki sýnt að ráð hafi mátt gera fyrir því að forsvarsmenn félagsins væru borgunarmenn, en fyrir liggur að innheimtuaðgerðum hefur ekki verið beint að Garðari Rafni. Verður því að telja að verulegt álitamál hafi verið, þegar yfirdráttarskuld Seadata Sjóvara ehf. var breytt í skuldabréfalán, hvort skuldarinn og forsvarsmenn félagsins væru borgunarmenn fyrir skuldinni. Þykir verða við það að miða að Landsbanka Íslands hf. hafi verið það ljóst.

Fyrir liggur því að Landsbanki Íslands hf. hafði af því verulega hagsmuni að stefnandi, sem ekki þykir sýnt að hafi haft nokkra ástæðu til að gangast í frekari ábyrgð fyrir skuldum félagins, gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld samkvæmt skuldarbréfinu þar sem bankinn öðlaðist við það örugga tryggingu fyrir allri skuldinni.

Verður að telja að Landsbanka Íslands hf. borið, eins og atvikum var háttað, að gera stefnanda sérstaklega grein fyrir þeirri auknu ábyrgð sem hún var að undirgangast með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfinu og þeirri hættu sem væri á því að gengið yrði að allri skuldinni hjá henni. Er það mat dómsins að stefndi verði að bera hallann af því að ósannað verður að telja að það hafi verið gert.

Undirritun stefnanda undir skuldabréf, og staðlaðan texta þess, um að hún hafi kynnt sér fræðslurit bankans um ábyrgðir þykir ekki hafa verið fullnægjandi varúðarráðstöfun af hálfu Landsbanka Íslands hf. eins og hér stendur á.

Ekki er fallist á það með stefnda að stefnandi hafi, með því að hafa ekki gert athugasemdir við sjálfskuldarábyrgð sína fram til byrjunar árs 2008, og eftir það hafa viljað semja við stefnda um greiðslu, glatað rétti sínum til að gera kröfu um ógildingu sjálfskuldarábyrgðarinnar.              

Að öllu framanröktu virtu, þykir verða að telja, að uppfyllt séu skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, til að taka til greina kröfu stefnanda um að víkja til hliðar sjálfskuldarábyrgð stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður tekin til greina krafa stefnanda um að ógilt verði með dómi fjárnám stefnda, sem gert var hjá stefnanda til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfinu þann 1. júní 2007, í eignarhluta stefnanda í fasteigninni Flétturima 9, Reykjavík.

Samkvæmt úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 600.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Fallist er á dómkröfur stefnanda, Guðrúnar Helgadóttur, um að vikið verði að öllu leyti til hliðar sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfi 101-74-106182, útgefnu af Seadata Sjógögnum ehf. til Landsbanka Íslands hf., hinn 22. febrúar 2006.

Ógilt er fjárnám stefnda á 2. veðrétti í eignarhluta stefnanda í fasteigninni Flétturima 9, Reykjavík, fastanr. 204-0163, hinn 18.6.2007.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.