Print

Mál nr. 615/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Sératkvæði

                                                                                              

Miðvikudaginn 23. nóvember 2011.

Nr. 615/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2011, þar sem varnaraðila var áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. desember 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í dómi Hæstaréttar 25. október 2011 í máli nr. 574/2011 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2011 um að varnaraðili skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi til 18. nóvember 2011. Var sú niðurstaða reist á því að sterkur grunur lægi fyrir um að varnaraðili hefði gerst sekur um brot, sem að lögum getur varðað allt að tíu ára fangelsi. Rannsókn málsins hefur frá þeim tíma haldið áfram og hefur verið upplýst af hálfu sóknaraðila að henni sé lokið og málið verði sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um hvort höfða skuli sakamál á hendur varnaraðila. Hefur rannsókn málsins til þessa ekki farið í bága við fyrirmæli um hraða málsmeðferð, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Með dómi Hæstaréttar 25. október 2011 í máli nr. 574/2011 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2011 um að varnaraðili skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 18. nóvember 2011 vegna þess ætlaða brots sem er tilefni frelsissviptingar hans. Var dómurinn byggður á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í forsendum úrskurðarins 21. október 2011 kemur meðal annars fram að málið verði sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn „á næstu dögum.“ Fyrir liggur að það var ekki gert. Þrátt fyrir það var gæsluvarðhald varnaraðila með hinum kærða úrskurði framlengt með sömu lagaheimild allt til 16. desember 2011. Tók sóknaraðili fram í greinargerð fyrir kröfu sinni til héraðsdóms, rétt eins og hann gerði hið fyrra sinn, að til standi að senda málið til ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn. Af gögnum málsins er ljóst að þetta hefði mátt gera þegar að gengnum úrskurðinum 21. október 2011, enda hefur engra gagna sem máli skipta í þessu samhengi verið aflað síðan. Hæstiréttur hefur ítrekað tekið fram í forsendum dóma að sérstaklega sé rík skylda til að hraða meðferð máls þegar sakborningur sætir gæsluvarðhaldi. Hefur jafnframt komið fram að það sé beinlínis skilyrði fyrir framlengingu gæsluvarðhalds samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að mál sé rekið með fullnægjandi hraða, sbr. til dæmis dóm 4. júlí 2011 í máli nr. 409/2011. Þessu skilyrði er ekki fullnægt í þessu máli og tel ég því að ekki megi fallast á kröfu sóknaraðila um framlengingu á gæsluvarðhaldi varnaraðila nú. Á hinn bóginn tel ég rétt með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 að banna varnaraðila brottför af landinu þann tíma sem kveðið er á um í úrskurði héraðsdóms.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærði, [X], skuli áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. desember nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði sé undir sterkum grun um kynferðisbrot með því að hafa að morgni sunnudagsins 16. október 2011, ásamt [Z], tekið [Y] upp í bifreið við Laugaveg í Reykjavík, ekið með hana að Reykjavíkurflugvelli, og þeir þar í félagi, í aftursæti bifreiðarinnar, þröngvað henni með ofbeldi til holdlegs samræðis. Er [Z] sagður hafa haft við hana endaþarmsmök og stungið fingrum inn í leggöng hennar en [X], á sama tíma, neytt hana til að hafa við sig munnmök. Brot kærða sé talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Nánari málsatvik og framburður brotaþola, vitna og kærðu, sem og önnur sönnunargögn, eru rakin í greinargerðinni.

Kærðu hafi játað að hafa tekið brotaþola upp í bifreiðina og ekið með hana að Reykjavíkurflugvelli þar sem kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað. Framburður þeirra um hvað gerðist nákvæmlega er þó ekki samhljóða og hefur kærði [Z] neitað að hafa haft kynferðismök við brotaþola. Hann hafi einungis horft á brotaþola hafa munnmök við meðkærða. Hvorugur kærðu kannist við að brotaþoli hafi verið þvinguð til kynferðismaka.

[Y] hafi skýrt frá því hjá lögreglu að hún hafi verið að ganga frá Snorrabraut og hafi hún ætlað sér að fara í [...] til þess að kaupa sér drykk. Þegar hún hafi verið rétt ókominn, nánar tiltekið rétt við Landsbankann á Laugarvegi, hafi umræddri bifreið, [...], verið ekið framhjá henni.  Hafi hún sagt mennina hafa kallað eitthvað í áttina að henni en hún hafi hunsað það. Þá hafi hún sagt mennina hafa komið aftur akandi í bifreiðinni og sagt við hana ,,you look cold“.  Að sögn [Y]hafi þeir boðist til þess að aka henni í verslunina og hafi hún þegið það. [Y]hafi sagt að ökumaðurinn hafi ekki ekið að [...] heldur ekið út á Reykjavíkurflugvöll. Þar hafi bifreiðinni verið lagt og hafi [Y] sagt  staðsetninguna hafa verið í um 20-30 metra frá því þar sem leigubifreiðarnar stöðvi fyrir framan flugvöllinn. [Y] hafi svo lýst því hvernig mennirnir hafi beitt hana ofbeldi og náð fram kynferðislegum vilja sínum. Hafi [Y] sagt að hún hafi reynt að telja þeim trú um að hún væri smituð af HIV í þeim tilgangi að fá þá til að hætta.  Þá hafi hún einnig sagst hafa öskrað en þegar hún hafi gert það hafi ökumaðurinn tekið hana hálstaki og lamið hana í andlitið.  [Y] hafi sagt farþegann hafa verið mildari hvað það varði að hann hafi ekki viljað meiða hana.  [Y] kvaðst einnig hafa krosslagt lappir sínar til þess að reyna að koma í veg fyrir nauðgun. [Y] hafi sagt að ökumaðurinn hafi náð að stinga getnaðarlim sínum í endaþarm hennar en farþeginn hafi stungið getnaðarlim sínum í munn hennar og látið hana framkvæma munnmök. Þá hafi [Y] einnig sagt að ökumaðurinn hafi sett fingur sína í klof hennar. [Y] hafi svo sagt að þegar þessu hafi verið lokið hafi þeir ekið henni tilbaka og þegar hún hafi verið rétt hjá Skipholtinu hafi hún áttað sig á því hvar hún hafi verið.  Hafi hún þá sagt við þá hún ætti heima þar og farið út úr bifreiðinni. [Y] hafi þá sagst hafa hlaupið í gegnum bakgarða og í átt að [...] því hún þekki mann sem þar búi.  Sá hafi ekki reynst  vera heima að sögn [Y] þannig að hún hafi bankaði á aðrar dyr sem hafi reynst vera hjá [...], tilkynnanda.

Lögreglustjóri vísar til þess að fyrir liggi greinargóður og skýr framburður brotaþola. Þau sönnunargögn og þær athuganir sem lögregla hafi aflað í máli þessu styðji frásögn brotaþola. Framburður kærða sé á hinn bóginn ótrúverðugur og um margt á skjön við það sem fram hafi komið við rannsókn málsins. Þá gæti ósamræmis í framburði hans og framburði meðkærða.

Lagaskilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt, enda sé kærði nú undir sterkum grun um að hafa framið brot er varðað geti allt að 16 ára fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðilegt að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Þá liggi dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 575/2011, um að lagaskilyrðum almannagæslu sé fullnægt í máli þessu. Ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem breytt geti því mati.

Rannsókn málsins sé lokið og verði málið nú sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Fallist er á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa, í félagi við annan mann, framið kynferðisbrot er varðað getur allt að 16 ára fangelsi. Þegar litið er til eðlis hins ætlaða brots verður fallist á að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfu lögreglustjórans, eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.

Kolbrún Sævarsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, [X] skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. desember nk. kl. 16.