Hæstiréttur íslands
Mál nr. 672/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnaöflun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2017 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fá að afla sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „forsvarsmönnum varnaraðila, Röggvar ehf., verði gert að bera vitni í samræmi við beiðni þar um til héraðsdóms“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili heldur því fram að hann sé eigandi hugbúnaðarins TradeArt en varnaraðili hafi annast þjónustu við notendur búnaðarins. Hafi sú þjónusta meðal annars falist í viðhaldi og þróun ásamt innheimtu leyfisgjalda. Varnaraðili hafi grunnkóða hugbúnaðarins og sé honum einum kleift að veita aðgang að búnaðinum og upplýsa hverjir hafi verið notendur hans. Með beiðni sóknaraðila um gagnaöflun freistar hann þess að fá upplýst fyrir dómi atvik sem varði kröfuréttindi hans vegna notkunar á búnaðinum. Að öðru leyti er málsatvikum skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði.
Af beiðni sóknaraðila verður ekki glögglega ráðið hvern hann telur geta orðið gagnaðila sinn að væntanlegu dómsmáli sem yrði höfðað á grundvelli þeirra gagna sem beiðni hans tekur til. Þannig segir í beiðni hans að þær upplýsingar sem muni fást með gagnaöfluninni munu ráða úrslitum um hvort mál verði höfðað og þá gegn hverjum. Um þátt varnaraðila er tekið fram að tilgreindir notendur hugbúnaðarins erlendis hafi komist hjá því að greiða leyfisgjöld í skjóli þess að varnaraðili og Baldvin Hansson, fyrirsvarsmaður hans, hafi neitað að upplýsa um greiðslur og greiðslustöðu vegna notkunar hugbúnaðarins í Evrópu og þá viðskiptavini sem notað hafi búnaðinn. Að þessu gættu er fyrirsjáanlegt að varnaraðili eða Baldvin kynnu að verða gagnaðilar sóknaraðila að máli sem yrði höfðað um sakarefnið.
Samkvæmt 1. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 eru heimildir XII. kafla laganna til öflunar sönnunargagna án málshöfðunar bundnar við öflun matsgerðar dómkvadds manns, framburðar vitna, skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna. Leiðir af þessu að skýrsla fyrir dómi verður ekki tekin eftir þessari heimild af þeim sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli eða fyrirsvarsmanni hans, sbr. 4. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991 og dóm Hæstaréttar 16. janúar 2003 í máli nr. 571/2002. Samkvæmt þessu verður hvorki nefndur Baldvin né aðrir fyrirsvarsmenn varnaraðila leiddir fyrir dóm til að gefa skýrslu í samræmi við beiðni sóknaraðila, en krafa hans hér fyrir réttinum lýtur aðeins að fyrirsvarsmönnum varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðili kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Örn Karlsson, greiði varnaraðila, Rögg ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2017.
Mál þetta barst dóminum með beiðni sem móttekin var 5. desember 2014 og þingfest 19. janúar 2015. Sóknaraðili er Örn Karlsson, með lögheimili að Klettagljúfri 4, Ölfusi, en varnaraðili er Rögg ehf., Barðastöðum 1-5, Reykjavík.
Samkvæmt beiðni sinni krefst sóknaraðili þess að „höfðað verði vitnamál til að fá aflað neðangreindra upplýsinga, þar sem Rögg ehf., kt. [...] hefur neitað að afhenda honum þær:
1. Fá upplýst hvaða lögaðilar hafa greitt Rögg ehf. í tengslum við hugbúnaðinn TradeArt, sem er eign Arnar Karlssonar. Að upplýst verði um greiðsluupphæðir og tímasetningar þeirra, svo og á hvaða grundvelli greiðslurnar áttu sér stað, frá og með árinu 2007.
2. Fá upplýst hvað hafi verið og hvenær unnið í tengslum við hugbúnaðinn TradeArt fyrir RES-vöruskiptakerfið síðustu fjögur ár og þá fyrir hvaða lögaðila.“
Þá er þess krafist að leidd verði sem vitni eftirtaldir einstaklingar „til að upplýsa um innheimtur Röggvar ehf. og Baldvins Hanssonar vegna samnings Viðskiptanetsins hf. við Walther Smets um TradeArt dags. 15. ágúst 2001 og samninga við sama aðila um umbreytingu á TradeArt, dags. 20. ágúst 2004:
a. Baldin Hansson, kt. [...], fyrir hönd Röggvar ehf. og sína eigin.
b. Davíð Hansson, kt. [...], fyrrverandi starfsmann Viðskiptanetsins hf. og núverandi starfsmann Röggvar ehf.
c. Benedikt Karlsson, kt. [...], fyrrverandi starfsmann Viðskiptanetsins hf.
d. Jónas Guðmundsson, kt. [...], fyrrverandi starfsmann Viðskiptanetsins hf.“
Þá krefst sóknaraðili þess að dómari leggi kvaðningu, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fyrir vitnið Baldvin Hansson um „að það hafi með sér gögn til sýningar fyrir dómi, með vísan til 5. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, afrit reikninga og bankagögn er staðfesti hvaða lögaðilar hafa greitt vegna notkunar á TradeArt og sérstaklega hvaða lögaðilar hafa greitt vegna samnings Viðskiptanetsins hf. (Nordic Barter Corporation) við Walther Smets frá 15. ágúst 2001, hvenær þeir hafi greitt og hversu háar fjárhæðir. Krafist er allra bankagagna um þessar greiðslur frá 1.1.2007 til dagsins í dag. Jafnframt að þeir hafi með sér samskonar gögn er varða samninga sem undirritaðir voru í Kaupmannahöfn 20. ágúst 2004 vegna endurgerða á TradeArt, annars vegar vegna samkomulags milli Arnar Karlssonar, Baldvins Hanssonar, og Walther Smets og hins vegar vegna samkomulags milli Walther Smets og Arnar Karlssonar, sama dag.“
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um sönnunarfærslu fyrir dóminum verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Er mál þetta var tekið fyrir 11. febrúar 2015 lagði lögmaður varnaraðila m.a. fram afrit af kæru varnaraðila á hendur sóknaraðila til lögreglu, dags. 10. febrúar 2015, og óskaði eftir því að málinu yrði frestað ótiltekið með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili óskaði þá eftir stuttum fresti til að taka afstöðu til frestskröfunnar. Málinu var þá frestað í því skyni til 16. febrúar 2015. Við fyrirtöku málsins þann dag lagði sóknaraðili fram bókun og mótmælti kröfu varnaraðila um ótiltekna frestun málsins. Lögmaður varnaraðila ítrekaði kröfu sína um ótiltekna frestun málsins og lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum. Málinu var þá frestað ótiltekið til munnlegs málflutnings um kröfu varnaraðila um ótiltekna frestun málsins og fór hann fram í þeim þætti málsins 25. febrúar 2015. Úrskurður um frestun málsins þar til lögreglurannsókn lyki var kveðinn upp 25. mars 2015. Dómari óskaði eftir upplýsingum frá aðilum um stöðu málsins með tölvuskeytum 20. júní 2016 og 22. júní 2017. Í svari lögmanns varnaraðila 3. júlí 2017 kom fram að lögreglustjóri teldi ekki tilefni til frekari rannsóknar og hafi sú ákvörðun verið kærð til héraðssaksóknara sem hafi staðfest ákvörðun lögreglustjóraembættisins. Málið sætti því ekki lengur kærumeðferð hjá lögreglu. Boðaði dómari þá til fyrirtöku málsins strax eftir réttarhlé og fór munnlegur málflutningur fram um kröfu sóknaraðila 22. september sl.
I
Málsatvik
Málsatvikum er ítarlega lýst í beiðni sóknaraðila og greinargerð varnaraðila og greinir aðila þar nokkuð á um forsögu málsins og málavöxtu.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að 15. ágúst 2001 hafi Viðskiptanetið hf. kt. [...], en nafni þess mun hafa verið breytt árið 2010 í Nordic Barter hf., og belgískur aðili, Walther Smets, gert samning um not þess síðarnefnda á vöruskipta- og bókhaldshugbúnaði Viðskiptanetsins hf. í Belgíu, sem mun ganga undir nafninu TradeArt. Í gögnum málsins er jafnframt að finna samning sem einnig er gerður 15. ágúst 2001 milli Nordic Barter Corporation og RES Management nv/sa um not þess síðarnefnda á áðurnefndum hugbúnaði. Er á hann ritað „skipt út fyrir samning við Walther persónulega“. Sóknaraðili kveður hugbúnaðinn TradeArt hafa verið hannaðan og forritaðan af starfsmönnum Viðskiptanetsins hf., Erni Karlssyni, Baldvini Hanssyni, Benedikt Karlssyni og Davíð Hanssyni. Á þeim tíma hafi Baldvin Hansson verið starfandi framkvæmdastjóri Viðskiptanetsins hf. og sóknaraðili stjórnarformaður. Ári síðar, eða 1. ágúst 2002, hafi orðið að samkomulagi að Baldvin Hansson og Davíð Hansson hættu sem starfsmenn Viðskiptanetsins en hefðu það verkefni í gegnum félag sitt Rögg ehf., varnaraðila máls þessa, að þjónusta, viðhalda og selja TradeArt. Um þetta fyrirkomulag hafi verið gerður leigusamningur 1. ágúst 2002.
Samningur þessi er meðal gagna málsins og þar segir að með honum leigi Viðskiptanetið hf. varnaraðila viðskiptakerfið TradeArt. Með samningnum fái varnaraðili rétt til að þróa og selja afnotarétt af kerfinu. Þá segir að varnaraðili fái alla grunnkóða og einingar TradeArt til umráða á meðan samningurinn sé í gildi og að allar viðbætur við TradeArt á samningstímanum séu eign Viðskiptanetsins hf. Leigusamningurinn skyldi gilda til 10 ára og vera uppsegjanlegur af beggja hálfu með sex mánaða fyrirvara. Þá er í samningnum ákvæði um að á samningstímanum innheimti varnaraðili allar tekjur af sölu eða leigu á notkunarrétti fyrir TradeArt. Jafnframt segir að varnaraðili „greiðir VN 50% af öllum innheimtum sölu- eða þjónustugjöldum fyrir TradeArt að undanskilum greiðslum fyrir notkun frá Viðskiptanetinu sjálfu. VN hefði notkunarrétt á heildarkerfinu á samningstímanum og greiðir fyrir þann rétt kr. 300.000 á mánuði (auk 24,5% vsk.) sem greiðist mánaðarlega fyrir hvern byrjaðan mánuð. Réttur þessi nær til rekstrar á TradeArt fyrir VN á Íslandi og í Lettalandi undir merkjum SIA Nordic Card.“
Sóknaraðili greinir svo frá að samhliða ofangreindum leigusamningi hafi Viðskiptanetið hf. og Baldvin Hansson gert sérstakan samstarfssamning um að Baldvin sæti í stjórn alþjóðasamtaka vöruskiptafyrirtækja fyrir hönd Viðskiptanetsins. Átti samstarfssamningur þessi að auka möguleika varnaraðila og Baldvins á sölu hugbúnaðarins til aðildarfélaga í hinum alþjóðlegum samtökum. Snemma hafi orðið ljóst að „harðdrægt“ yrði að varnaraðili myndi selja afnotarétt að hugbúnaðinum TradeArt og hafi komið á daginn að engin slík sala hafi átt sér stað. Samstarf aðila hafi verið aðlagað þessum veruleika á árinu 2006 með þeim hætti að varnaraðili hóf innheimtur allra tekna samningsins við Walther Smets og átti helmingur þeirra að ganga upp í skuld Viðskiptanetsins hf. við varnaraðila sem myndast hafði vegna ákvæða leigusamningsins frá 2002. Hinn helmingurinn hafi verið varnaraðila eftir ákvæðum leigusamningsins. Skuldin hafi verið uppgreidd með þeim hætti að varnaraðili hafi fengið allar greiðslur vegna samningsins vegna hluta ársins 2005 og 2006. Öll sérstök vinna varnaraðila fyrir Viðskiptanetið hf. í tengslum við rekstur vöruskiptamiðlunar Viðskiptanetsins átti eftir þetta að vera takmörkuð og greidd eftir reikningi. Að beiðni Walther Smets hafi varnaraðili sent reikninga sína til fyrirtækisins Walth bvba árið 2006. Árið 2003 hafi Viðskiptanetið hf. fengið á sig gjaldþrotakröfu vegna atvika er gerðust í framkvæmdastjórnartíð Baldvins Hanssonar. Gjaldþroti hafi verið forðað með samkomulagi um að sóknaraðili, aðaleigandi Viðskiptanetsins hf., keypti TradeArt af félaginu. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi Viðskiptanetið hf. hafa áfram óbreytt afnot af hugbúnaðinum.
Afrit samnings þessa liggur fyrir í málinu. Þar kemur m.a. fram að seljandi afsali viðskiptakerfinu TradeArt til kaupanda. Með í kaupunum séu allir þættir og forrit sem tengist TradeArt. Þá segir að kaupverðið sé 10.000.000 króna og þurfi kaupandi að haga greiðslum þannig að gjaldþrotakröfu frá Lögmönnum Thorsplani verði varist samanber samning þar um frá 10. júní 2003. Greiðsla kaupverðsins fari fram eigi síðar en 1. september 2003. Þá segir að kaupandi yfirtaki alla viðskiptasamninga sem seljandi hafi gert um afnot af kerfinu og viðhald þess. Um sé að ræða viðskiptasamning við varnaraðila frá 1. ágúst 2002 og við RES/Walther Smets í Belgíu. Þá segir að Viðskiptanetið hafi óbreytt afnot af TradeArt ásamt afnotum af ofangreindum viðskiptasamningum ótímabundið. Jafnframt segir að Viðskiptanetið annist samskipti og innheimtur gagnvart Rögg og RES/Walther Smets þar til annað sé ákveðið. Enn fremur segir að Viðskiptanetið hafi heimild til að gera samninga um kerfið sem stuðli að viðgangi og þróun þess í samráði við kaupanda.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að snemma árs 2004 verði ljóst að Walther Smets hafi haft mikinn áhuga á að eignast TradeArt eða að stofnað yrði félag um það sem hann og Baldvin Hansson ættu meirihlutann í. Nokkru eftir að ljóst var að ekki næðust samningar um þetta hafi frést að samningar stæðu yfir milli Baldvins Hanssonar eða varnaraðila og Walther Smets um að hinir fyrrnefndu framleiddu vöruskiptabúnað fyrir þann síðarnefnda. Brugðist hafi verið við þeim fréttum með því að benda á að slíkt samkomulag myndi vekja upp mikla hagsmunaárekstra auk þess sem það gæti vegið að hugverkarétti tengdum TradeArt þar sem sömu aðilar, þ.e. Baldvin og varnaraðili, myndu þá vera í þeim hlutverkum að hafa skrifað TradeArt fyrir Viðskiptanetið hf., samningsbundið þjónustað, viðhaldið og selt leiguafnot af TradeArt og farið síðan að skrifa sambærilegan hugbúnað fyrir viðskiptavin Viðskiptanetsins sem notaði TradeArt.
Í kjölfar þessa hafi Walther Smets og sóknaraðili undirritað samning í Kaupmannahöfn 20. ágúst 2004 um að sá fyrrnefndi fengi full eignar- og afnotaréttindi yfir TradeArt í Belgíu, Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, á Ítalíu og Spáni, í Grikklandi, Lúxemborg, Sviss og Portúgal gegn því að fjármagna að stærstum hluta umbreytingu á TradeArt svo það réði betur við aukinn fjölda notenda. Einnig skyldi koma greiðsla frá Walther Smets í gegnum hans belgíska vöruskiptakerfi, RES, sem dygði fyrir skuldbindingum vörubanka Viðskiptanetsins hf. hjá RES. Sóknaraðili skyldi jafnframt greiða framkvæmdaaðila tiltekna upphæð. Samið hafi verið við varnaraðila og Baldvin Hansson um að framkvæma þessar breytingar á forritinu. Áðurgreindur samningur frá 2004 liggur fyrir í málinu. Hann er ritaður á ensku og undirritaður að því er virðist af Walther Smets „for Res Barter System“ og sóknaraðila „for Nordic Barter“. Þar segir m.a. að samningsaðilar yrðu „co owners fo TradeArt, all included and source code. Both companies can develop the concept further, together or in separation.“ Þá sagði að RES hefði rétt á að nota TradeArt í áðurnefndum löndum en að Nordic Barter hefði rétt í öllum öðrum löndum.
Þá liggur einnig fyrir á ensku samningur sóknaraðila, varnaraðila og Walther Smets gerður sama dag um, að því er virðist, framþróun kerfisins án þess að kveðið væri á um endanlegan kostnað í því sambandi en tilteknar fjárhæðir nefndar miðað við stöðuna þann dag. Segir í samningnum að samkomulag hafi orðið með fyrrnefndum aðilum um „reimplement of TradeArt Barter information system“.
Þá segir í beiðni sóknaraðila að er áðurnefndur samningur, um að varnaraðili fengi allar greiðslur Walther Smets, hafi runnið út við lok árs 2006 hafi verið ákveðið að beiðni Walther Smets og varnaraðila að þetta fyrirkomulag myndi viðhaldast. Það hafi verið gert með þeim rökum að mikil vinna væri í gangi við þróun TradeArt sbr. það samningsbundna umbreytingaferli sem stóð yfir og áður hafi verið lýst.
Sóknaraðili kveður að samkvæmt upplýsingum frá Walther Smets hafi vinna við umbreytinguna á TradeArt verið í fullum gangi á árunum 2005-2007 og að hann hefði þegar greitt 50.000 evrur inn á verkið. Þetta hafi verið staðfest af Baldvini Hanssyni. Þá hafi komið fram hjá honum einhvern tímann á árunum 2007 til 2008 að umbreytingunni væri að mestu lokið. Framvinda verksins er sneri að notendaviðmóti væri þó hæg vegna tregra greiðslna inn á verkið frá Walther Smets en menn hefðu trú á að þetta kæmi í rólegheitum. Svipuð svör hafi fengist frá honum um umbreytingarverkefnið á fundi árið 2010. Við hrun fjármálakerfisins 2008 hafi grundvöllur vöruskiptakerfis Viðskiptanetsins hf. raskast svo mjög að starfsemin lagðist nánast niður án þess þó að félagið yrði gjaldþrota. Samskiptin við Walther Smets og vöruskiptamiðlun hans RES hafi áfram verið í þeim farvegi sem markaður hafði verið fyrir hrun þannig að varnaraðili hafi alfarið séð um þjónustu og innheimtu gagnvart þessum aðilum svo og samskipti við Walther Smets er tengdust áformum um umbreytingu á TradeArt. Ekki hafi þótt ástæða til að hrófla við innheimtufyrirkomulaginu sem hafi falið í sér að allar tekjur rynnu til varnaraðila á meðan vinna við umbreytinguna væri í gangi enda hafi átt að kom framlag „okkar megin frá“ inn í verkefni samkvæmt samningi.
Áfram segir í beiðninni að á árunum 2007-2011 hafi þess orðið vart að RES hafi hafið starfsemi í nokkrum Evrópulöndum og væri augljóslega notandi TradeArt, miðlægt, til allrar grunnvinnslu bókhalds og vöruskipta. Með vísan til þess að vinna hafi verið í gangi í samræmi við samkomulagið frá árinu 2004 sem gæfi Walther Smets eignar- og umráðarétt yfir TradeArt í þessum löndum hefði ekki verið talin ástæða til að gera athugasemdir þótt umbreytingunni á TradeArt væri ekki lokið. Einnig hafi komið í ljós að Walther Smets hafi selt austurrísku fyrirtæki leiguafnot af TradeArt á tímabilinu 2006-2007, væntanlega á þeim grundvelli að hann hefði haft samning í höndunum um að innan tíðar öðlaðist hann eignarrétt á hugbúnaðinum í Austurríki.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að með áðurnefndum samningi frá 1. ágúst 2002 hafi Viðskiptanetið hf. leigt varnaraðila hugbúnaðinn TradeArt. Samningurinn hafi verið til 10 ára og uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara. Hugbúnaðurinn hafi verið ætlaður fyrirtækjum sem reka vöruskiptanet og haldi hann m.a. utan um aðila vöruskiptanetsins, færslur og stöðu reikninga þeirra í netinu. Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldi varnaraðili vinna að viðhaldi og breytingum á hugbúnaðinum fyrir Viðskiptanetið hf. í allt að 24 klukkustundir á mánuði. Viðskiptanetið skyldi leggja fram sama vinnuframlag fyrir varnaraðila við ráðgjöf, hugmyndavinnu og leiðbeiningar varðandi viðskiptahætti í rekstrarumhverfi Viðskiptanetsins hf. Samkvæmt samningnum skyldi varnaraðili innheimta leyfisgjöld fyrir hugbúnaðinn. Meðan samningurinn hafi verið í gildi hafi verið tveir notendur að hugbúnaðinum, Viðskiptanetið hf. og Walther Smets í Belgíu. Fyrrnefndur leigusamningur milli þess fyrrnefnda og varnaraðila hafi aldrei verið framkvæmdur eftir efni sínu. Strax hafi verið hafður sá háttur á að Viðskiptanetið innheimti afnotagjöld af notendum fyrir notkun hugbúnaðarins. Varnaraðili hafi á hinn bóginn séð um rekstur og þróun hugbúnaðarins. Leigusamningnum hafi lokið samkvæmt ákvæði hans 1. ágúst 2012. Varnaraðili hafnar því að hann sé að innleiða nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir vörubanka RES.
Sóknaraðili greinir svo frá að í ljós hafi komið að varnaraðili sé ásamt öðru íslensku fyrirtæki að innleiða nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir vörubanka belgíska félagsins RES Systems. Þá sé varnaraðili að hlífa belgískum lögaðilum fyrir réttmætum kröfum hugverkarétthafa. Þessu er mótmælt af hálfu varnaraðila. Varnaraðili hafi einfaldlega neitað að opna bókhald sitt fyrir aðila sem engan rétt hafi til aðgangs að því
Með tölvupósti 13. janúar 2014 óskaði sóknaraðili eftir upplýsingum frá varnaraðila er tengdust viðskiptum varnaraðila við belgíska félagið RES Systems. Hafnaði varnaraðili beiðninni með bréfi 17. sama mánaðar þar sem sóknaraðili hefði ekki skýrt eða lagt fram gögn sem sýndu með hvaða hætti hann ætti rétt til upplýsinga úr bókhaldi varnaraðila og hvernig hann hefði orðið eigandi að hugbúnaðinum sem varnaraðili hafði leigt af Viðskiptanetinu hf. til 1. ágúst 2012.
Nordic Barter hf. mun hafa verið afskráð úr hlutafélagaskrá með heimild í 83. gr. laga nr. 138/1994, sbr. bréf Ríkisskattstjóra til Arnar Karlssonar 3. júní 2010 þar sem upplýsingar væru um að félagið væri hætt störfum og það hafi ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni til ársreikningaskrár. Mun félaginu hafa verið slitið og það afskráð 8. nóvember 2010.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Hann hafi með kaupsamningi 20. júní 2003 keypt hugbúnaðinn TradeArt af eiganda þess Viðskiptanetinu hf. Hann sé því löglegur eigandi hugbúnaðarins og eigi þar með þá lögvörðu hagsmuni er veiti honum heimild til að leita sönnunar fyrir dómi með vitnaleiðslu, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991.
Krafa hafi komið fram um gjaldþrotaskipti á búi Viðskiptanetsins hf. árið 2003. Dagana 9. og 10. júní 2003 hafi tekist að semja við kröfuhafa félagsins með því að eignir yrðu lagðar fram. Samdægurs hefði verið gerður samningur þar sem Viðskiptanetið hf. seldi Benedikt Karlssyni og Gljúfurbyggð ehf., félagi í eigu sóknaraðila, TradeArt-hugbúnaðinn gegn því að kröfu um gjaldþrotaskipti yrði hrundið. Þetta hafi verið gert í nokkrum flýti. Við skoðun málsins í kjölfarið hafi komið í ljós að þessi samningur hefði ekki verið framkvæmanlegur, því hvorki Benedikt né Gljúfurbyggð ehf. hefðu haft eignir tiltækar til að koma í veg fyrir gjaldþrotaskiptin. Hinn 20. júní 2003 hefði komist á munnlegur samningur milli sóknaraðila og Benedikts um kaup sóknaraðila á hugbúnaðinum. Samkomulagið hafi verið fært í letur árið 2007 þegar gengið hafði verið frá skattauppgjöri félagsins. Sóknaraðili kveður munnlega samninga hafa verið algenga milli sín og Benedikts. Hið munnlega samkomulag hafi falið í sér að þessi gerningur væri í reynd tryggingagerningur sem myndi ganga til baka þegar betur stæði á hjá Viðskiptanetinu hf. Þessir samningar séu eingöngu á milli sóknaraðila og Benedikts og engir aðrir einstaklingar hafi komið að þeim. Enginn ágreiningur sé milli þeirra um þetta. Með aðkomu sóknaraðila að málinu hafi gjaldþrotaskiptum á búi Viðskiptanetsins hf. verið afstýrt. Þetta sé staðfest af Benedikt Karlssyni.
Þess utan kveðst sóknaraðili byggja á því að hann hafi forræði á eftirstæðum eignum Viðskiptanetsins hf. sem hluthafi þess. Þetta sé staðfest af Jónasi Guðmundssyni. Félagið hafi verið afskráð af ríkisskattstjóra 8. nóvember 2010 á grundvelli laga um einkahlutafélög þótt félagið hafi verið hlutafélag sem breyti þó ekki neinu í þessu samhengi. Slitauppgjör sé háð því að einhver hluthafi eða kröfuhafi geri kröfu um það innan árs. Afdrif eigna, ef einhverjar eru, renni til hluthafa einkahlutafélags. Byggir sóknaraðili á því að eignir félagsins hafi fallið í hendur hluthafa, í síðasta lagi í nóvember 2011, og hann hafi því fullt forræði yfir eftirstæðum eignum félagsins. Þegar þetta sé haft í huga og þegar höfð sé hliðsjón af kaupsamningi um TradeArt frá 20. júní 2003 þá sé sóknaraðili rétthafi TradeArt og rétthafi eftirstæðra eigna Nordic Barter hf. Hann hafi því lögvarða hagsmuni af máli þessu. Í síðasta ársreikningi Viðskiptanetsins hf., fyrir árið 2002, komi m.a. fram að sóknaraðili hafi átt um 80% hlutafjár. Sóknaraðili og Benedikt Karlsson hafi stofnað félagið saman árið 1992.
Sóknaraðili kveður að Viðskiptanetið hf. hafi kallað vöruskiptakerfi sitt „Nordic Barter“ í erlendum kynningum. Á Íslandi hafi verið notast við heitið „Vöruskiptanet VN“ Þessi nöfn hafi verið heiti á því samfélagi fyrirtækja og einstaklinga sem stunduðu samningsbundin vöruskipti sín á milli með milligöngu lögaðilans Viðskiptanetsins hf. sem síðar varð Nordic Barter hf.
Sóknaraðili greinir svo frá að í febrúar 2012 hafi Walther Smets tilkynnt í bréfi af hálfu RES cvba að fyrirtækið hefði tekið ákvörðun um að snúa sér að öðrum hugbúnaðarlausnum en TradeArt. Þróun nýs hugbúnaðar væri í gangi og tilkynnt yrði um frekari framvindu síðar. TradeArt yrði áfram notað þangað til. Vísað var til þess að í öllu yrði farið í samræmi við samning aðila frá 20. ágúst 2004. Í desember 2012 hafi svo borist bréf frá Walther Smets af hálfu RES SYSTEMS bvba þar sem leigusamningnum um TradeArt frá því í ágúst 2001 var sagt upp frá og með 15. ágúst 2013 með tilvísun í 8. gr. samningsins.
Þá hafi verið ákveðið að kanna stöðu innheimtumála og stöðu umbreytingarinnar á TradeArt. Baldvin Hansson hafi viljað að litið yrði svo á að leigugreiðslur frá Walther Smets og RES-fyrirtækjunum vegna TradeArt væru uppgerðar til áramóta 2012/2013 eins og fram komi í tölvupósti hans Hann hafi þó orðið tvísaga um þetta atriði því síðar hafi hann fullyrt að varnaraðili hefði ekki innheimt leigugreiðslur eftir 31. desember 2008. Baldvin hafi jafnframt talið að það væri fyrir bí að Walther Smets stæði við að fjármagna umbreytingar á TradeArt. Í þessu ljósi hafi Baldvin Hansson, varnaraðili og Walther Smets verið krafðir gagna er sönnuðu uppgjör Walther Smets á leigugjöldum. Ekki hafi verið orðið við þeirri ósk hvorki frá hendi varnaraðila eða Baldvins né Walthers eða RES. Hafi þá verið tekin ákvörðun um að segja upp heimild varnaraðila til að innheimta leigugjöldin og reikningar vegna leigu síðustu fjögurra ára sendir Walther Smets og RES SYSTEMS bvba með þeim fyrirvara að ef sýnt yrði að varnaraðili hefði þegar fengið hluta þessa tímabils greiddan myndu þær greiðslur gilda og reikningar sem því næmu féllu þá niður. Tilvísunin í haus reikninganna hafi verið „Nordic Barter“ ásamt kennitölu sóknaraðila.
Reikningarnir hafi ekki verið greiddir þrátt fyrir ítrekaða umleitan. Engar staðfestingar á greiðslum til varnaraðila hafi heldur verið lagðar fram. Borið sé við af hálfu lögmanns Walther Smets og RES-fyrirtækjanna að varnaraðili eigi TradeArt-hugbúnaðinn, að enginn samningur um umbreytingu á TradeArt sé til og að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni í máli þessu.
Við eftirgrennslan nýverið hafi komið í ljós að á heimasíðu RES í Belgíu sé frétt frá árinu 2010 þess efnis að varnaraðili, ásamt öðru íslensku fyrirtæki, sinni því verkefni að innleiða nýtt hugbúnaðarkerfi (ekki TradeArt) fyrir vörubanka RES. Að mati sóknaraðila verði að telja þetta fara í bága við fyrirliggjandi samninga á þeim tíma. Einnig sé vakin athygli á að varnaraðili hafi án heimildar merkt TradeArt „Copyright Rögg“ og þannig „lagt að lögvörðum hagsmunum lögmæts eiganda hugbúnaðarins“.
Þá sé rétt að taka fram að Walther Smets og vöruskiptamiðlanir hans, sem ganga undir regnhlífarnafninu RES, noti enn þann dag í dag TradeArt í sínum daglega rekstri er spanni Belgíu, Holland, Frakkland, Lúxemborg og Spán. Svo virðist sem Walther Smets og félög hans sem reki vöruskiptakerfið í Evrópu hafi með einhvers konar samkomulagi við varnaraðila og Baldvin Hansson komist hjá greiðslu leigugjalda vegna notkunar á TradeArt til einhverra ára. Þessir aðilar hafi komist upp með þetta hátterni áfram eftir áramótin 2012/2013 í skjóli þess að varnaraðili og Baldvin Hansson neiti að upplýsa um greiðslur og greiðslustöðu vegna notkunar TradeArt í Evrópu og þá viðskiptavini sem noti kerfið þar.
Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili og Baldvin Hansson hafi viðurkennt upplýsingaskyldu sína gagnvart sóknaraðila við upphaf þess fyrirkomulags að varnaraðili hóf innheimtu leyfisgjaldanna árið 2006, sbr. tölvuskeyti frá Baldvini 17. janúar 2007 og 17. október sama ár.
Lögmaður varnaraðila og Baldvins Hanssonar hafi hafnað því í bréfi 17. janúar 2014 að umbeðin gögn yrðu afhent Nordic Barter hf. þar sem það félag væri ekki lengur á hlutafélagaskrá. Svarið sé augljóslega útúrsnúningur þar sem það hafi verið sóknaraðili en ekki Nordic Barter hf. sem bað um upplýsingarnar.
Þar sem varnaraðili og Baldvin Hansson hafi ekki afhent sóknaraðila, sem sé eigandi TradeArt og forráðandi eftirstæðra eigna fyrrum félagsins Nordic Barter hf., upplýsingar um greiðslur vegna TradeArt, t.d. hvaða lögaðilar inntu leigugreiðslurnar af hendi, hvenær greiðslur fóru fram og hve mikið hefur verið greitt, sé óhjákvæmilegt að höfða vitnamál þetta. Óréttmæt þögn Baldvins og varnaraðila í þessu efni hafi þann eina tilgang að hlífa belgískum lögaðilum við réttmætum kröfum hugverkarétthafa, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 um leyfisgjöld og mögulegar skaðabætur vegna notkunar þeirra á hugbúnaðinum TradeArt í tengslum við starfsemi nokkuð víða í Evrópu. Sterkar vísbendingar séu um að fjögur félög tengd RES og Walther Smets séu í raun notendur og viðskiptavinir. Óhöndugt sé að höfða innheimtumál gegn Walther Smets og félögum tengdum honum og RES í Belgíu nema þessar upplýsingar liggi fyrir. Ætlunin sé að leiða tiltekin vitni eins og nánar greinir í kröfugerð til að fá upplýsingar um innheimtur varnaraðila og Baldvins Hanssonar vegna samnings Viðskiptanetsins hf. við Walther Smets um TradeArt 15. ágúst 2001 og samninga við sama aðila um umbreytingu á TradeArt sem gerð var 20. ágúst 2004. Þá sé óskað eftir því að vitnið Baldvin Hansson hafi með sér gögn til sýningar fyrir dómi með vísan í 5. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, afrit reikninga og bankagögn er staðfesti hvaða lögaðilar hafi greitt vegna samnings Viðskiptanetsins hf. (Nordic Barter Corporation) við Walther Smets 15. ágúst 2001, hvenær þeir hafi greitt og hve háar fjárhæðir. Krafist sé allra bankagagna um þessar greiðslur frá 1. janúar 2007 til dagsins í dag. Jafnframt að vitnið hafi með sér sams konar gögn er varða samninga sem undirritaðir voru í Kaupmannahöfn 20. ágúst 2004 vegna endurgerðar á TradeArt, annars vegar vegna samkomulags milli sóknaraðila, Baldvins Hanssonar og Walther Smets og hins vegar vegna samkomulags Walther Smets og sóknaraðila.
Sóknaraðili hafnar því að hafa ekki lögvarða hagsmuni af málinu. Hann sé eigandi hugbúnaðarins samkvæmt samningi frá 20. júní 2003. Þá hafi eignir Nordic Barter hf. runnið til hans sem hluthafa. Þá séu uppfyllt öll skilyrði 2 mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 fyrir sönnunarfærslu þeirri er hann fari fram á.
Nauðsynlegt sé að höfða þetta vitnamál þar sem frekari tafir á að afla upplýsinga geti leitt til þess að sönnunargögn fari forgörðum og sönnun verði örðugri síðar. Þá muni upplýsingar sem fengjust í málinu ráða úrslitum um hvort mál verði höfðuð og gegn hverjum þau beinist.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveður að hafna beri beiðni sóknaraðila þar sem hún uppfylli ekki skilyrði laga.
Í fyrsta lagi uppfylli hún ekki skilyrði 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Þar sé kveðið á um að í beiðni sé skýrt greint frá því atviki sem aðili vilji leita sönnunar um, hvernig hann vilji að það verði gert, hver réttindi séu í húfi og hverja aðra sönnunin varði að lögum. Í beiðni sóknaraðila séu ekki tilgreind tiltekin atvik heldur settar fram afar víðtækar kröfur um gögn á löngu tímabili ásamt víðtækum spurningum um vinnu varnaraðila í þágu þriðja aðila. Beiðni um sönnunarfærslu án þess að mál hafi verið höfðað sé ekki ætlað til að aðilum verði án nokkurs rökstuðnings gert að veita upplýsingar sem honum sé almennt ekki skylt að veita ótengdum aðila. Sóknaraðili geti ekki lagt fram slíka beiðni í því skyni að velja úr það sem henti honum til að beina hugsanlega einhverjum kröfum að einhverjum aðilum. Þá sé hvergi vikið að því með hvaða hætti sóknaraðili kunni að rökstyðja kröfur í dómsmáli með vísan til umbeðinna upplýsinga. Þá sé óljóst gegn hverjum slíkt dómsmál yrði höfðað. Þannig sé ekki vísað til tiltekinna laga- eða samningsákvæða eða tiltekið hvers konar kröfur kunni að verða reistar á grundvelli þeirra. Þá komi ekki fram hverja aðra sönnunin varði að lögum þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að margir lögaðilar og einstaklingar, bæði þeir sem tilgreindir séu í beiðninni og aðrir, svo sem Walther Smets, hafi tekið þátt í viðskiptum með TradeArt-hugbúnaðinn eða þróun á honum. Þetta leiði til þess að viðkomandi aðilar eigi ekki aðkomu að málinu þrátt fyrir að sóknaraðili hyggist beina að þeim kröfum á grundvelli þeirra sönnunargagna sem aflað verði með beitingu úrræðisins. Þetta hafi m.a. í för með sér að varnaraðila er ómögulegt að meta hvort sóknaraðili hyggst beina að honum kröfum á grundvelli sönnunarfærslunnar. Þá bendir varnaraðili, hvað þetta varðar, einnig á að beiðni sóknaraðila sé svo óskýr og samhengislaus um það hvers konar mál hann hyggst eða íhugar að höfða að óhjákvæmilegt sé að hafna henni. Þessir ágallar, hver og einn og samanlagt, leiði til þess að hafna beri beiðninni.
Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 hvað varðar lögvarða hagsmuni sóknaraðila. Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili sé eigandi TradeArt-hugbúnaðarins líkt og hann haldi fram. Gögn málsins sýni skýrt að hvers konar ráðstafanir á hugbúnaðinum, þ.m.t. leiga hans til varnaraðila samkvæmt leigusamningi frá 1. ágúst 2002 og innheimta leyfisgjalda gagnvart Res Barter System, hafi verið framkvæmdar af Nordic barter hf. sem áður var Viðskiptanetið hf. Hið sama birtist í öllum samskiptum um hugbúnaðinn á leigutímanum milli sóknaraðila fyrir hönd Nordic Barter hf. við varnaraðila, Walther Smets og þeirra lögaðila sem hann hafi komið fram fyrir.
Varnaraðili kveðst mótmæla því að kaupsamningur um TradeArt frá 20. júní 2003 hafi nokkra þýðingu. Hann telji skjalið falsað og útbúið löngu eftir 20. júní 2003, daginn sem það sé sagt vera frá samkvæmt efni þess og ítrekuðum staðhæfingum sóknaraðila þar um. Þá sé skjalið ritað í leturgerð sem ekki hafi verið mögulegt að nota á árinu 2003.
Þá hafi sóknaraðili sjálfur lagt fram samning frá 10. júní 2003 sem sé ótvíræð sönnun þess að hann sé ekki réttmætur eigandi þeirra hagsmuna sem hann byggi kröfu sína um sönnunarfærslu á. Á skjalinu komi fram að hugbúnaðurinn sé seldur Benedikt Karlssyni og Gljúfurbyggð ehf. Efni þessa skjals geri efni skjalsins frá 20. júní 2003 marklaust. Einu gildi þær skýringar sem gefnar hafi verið af hálfu sóknaraðila eða yfirlýsingar af hálfu þessara aðila um að hinn fyrri samningur hafi verið ófullkominn og erfiður í framkvæmd bókhaldslega. Þá sé rangt sem sóknaraðili haldi fram að síðari samningurinn felli hinn fyrri niður enda séu nýir eigendur TradeArt-hugbúnaðarins samkvæmt fyrri samningnum ekki aðilar að hinum síðari. Því hafi í raun verið fyrir hendi vanheimild af hálfu Viðskiptanetsins hf. þegar það sé sagt hafa gert tilraun til að selja TradeArt-hugbúnaðinn sem seljandi samkvæmt skjali sem dagsett er 20. júní 2003. Yfirlýsingar sem sóknaraðili hafi lagt fram séu að engu hafandi. Benedikt Karlsson sé bróðir sóknaraðila og Karl Benediktsson sé faðir sóknaraðila. Þá sé Jónas Guðmundsson framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Viðskiptanetinu á Íslandi hf., sem sé í eigu bróður sóknaraðila.
Af ofangreindu leiði að ósannað sé að sóknaraðili sé eigandi hugbúnaðarins og engin önnur gögn í málinu renni stoðum undir fullyrðingar hans um eignarrétt að hugbúnaðinum. Sóknaraðili hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að höfða vitnamál þetta og því beri að hafna beiðni hans.
Eins og fram komi í gögnum málsins hafi félagið Nordic barter hf. verið afskráð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Ekkert hafi verið aðhafst til að koma í veg fyrir það. Með afskráningu hafi félagið misst rétthæfi sitt samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 2/1995 og geti því ekki verið aðili að dómsmáli, hvorki þessu máli né öðrum málum. Þaðan af síður geti sóknaraðili farið með nokkur réttindi fyrir hönd félagsins. Félaginu hafi á hinn bóginn ekki verið formlega slitið. Afskráð einkahlutafélag geti ekki átt nein réttindi. Eignir slíks félags renni ekki sjálfkrafa til ótilgreindra hluthafa eða stjórnarmanna sem hafi svo sjálfdæmi um hvað við þær verði gert. Því sé mótmælt sem röngu að eignir félagsins hafi runnið til hluthafa. Þær eignir sem félaginu áskotnuðust sem formlega skráðu hlutafélagi samkvæmt lögum nr. 2/1995 séu eignir þess nema félaginu hafi verið slitið með formlegum hætti á grundvelli ákvörðunar hlutahafafundar eða með opinberum skiptum, sbr. XIII. kafla laga nr. 2/1995. Ekkert hafi verið lagt fram af hálfu sóknaraðila sem sýni fram á að félaginu hafi verið slitið með þeim hætti sem hlutafélagalög kveði á um, sóknaraðili lýst kröfu við þá slitameðferð samkvæmt 112. gr. laganna eða fengið eignarréttindi í eigu félagsins keypt eða útlögð sér með úthlutunargerð skilanefndar félagsins sbr. 114. gr. sömu laga. Sóknaraðili og aðrir hluthafar hafi vanrækt að fara hina formlegu leið til að slíta félaginu og útilokað sé að einn hluthafi geti án nokkurrar lagaheimildar höfðað það vitnamál sem hér sé til umfjöllunar. Einu megi gilda þó að hann tefli fram tölvuskeytum einstaklinga þar sem þeir halda því fram að félaginu hafi verið slitið og sóknaraðili sé 100% eigandi hlutafjár. Þá geti einhliða útbúin skattskýrsla sóknaraðila um hlutfjáreign fyrir árið 2010 ekki talist hafa nokkurt sönnunargildi í þessu efni. Eigi hlutafjáreign sóknaraðila að hafa nokkra þýðingu til stuðnings kröfu hans verði einungis byggt á hluthafaskrá eða tilgreindri hlutafjáreign í síðasta ársreikningi sem skilað hafi verið lögum samkvæmt.
Ekki geti talist eðlilegt að fyrirsvarsmenn hlutafélags láti reka á reiðanum, sinni ekki rekstri þess og lögboðnum skyldum, skili ekki tilskildum gögnum um rekstur þess sem leiði til þess að ríkisskattstjóri afskrái félagið en mæti svo að fenginni afskráningu þess með kröfur sem sagðar séu tengjast eignum sem hafi verið í eigu félagsins. Sé þetta sérstaklega ámælisvert þar sem einn og sami maðurinn virði að vettugi erindi viðeigandi stjórnvalda en haldi því svo fram að aðgerðir stjórnvaldsins eigi að leiða til þess að honum renni í skaut tiltekin eign hins afskráða félags.
Þá mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili geti í nokkrum skilningi talist koma fram fyrir hönd Nordic barter hf. sem félags óháð því hvaða stöðu félagið hafi að lokinni afskráningu. Ekkert liggi fyrir um hvaða stöðu hann gegni fyrir hönd félagsins né nokkuð um það hverjir skipi stjórn þess og hvort einhver ákvörðun hafi verið tekin um að setja fram þá beiðni sem hér sé til umfjöllunar. Þá liggja engin gögn fyrir í málinu sem sýna í hvaða umboði hann geti talist koma fram fyrir hönd þess félags. Beiðninni beri því að hafna á grundvelli aðildarskorts sóknaraðila og/eða skorts á sönnun um lögvarða hagsmuni.
Þá byggir varnaraðili á því að jafnvel þótt fallist yrði á að sóknaraðili uppfyllti skilyrði um aðild og/eða lögvarða hagsmuni séu önnur skilyrði 2. mgr. 77. gr. ekki uppfyllt.
Þannig verði ekki séð að sú sönnunarfærsla sem krafist er geti ráðið niðurstöðu um hvort af málshöfðun verði í skilningi 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili hafi ekki verið ábyrgur fyrir innheimtu leyfisgjalda fyrir TradeArt og gögn frá honum geti ekki ráðið niðurstöðu um hvort af málshöfðun verði. Fram komi í gögnum málsins að Nordic barter hf. hafi átt að annast innheimtu leyfisgjalda gagnvart notendum kerfisins og hafi það aðeins í skýrt skilgreindum undantekningartilfellum heimilað varnaraðila að innheimta þau vegna skulda Nordic barter hf. við varnaraðila eins og honum hafi verið veitt 30. ágúst 2006 til að innheimta tímabundið afnotagjöld af Walther Smets fyrir notkun á hugbúnaðinum. Sú skipan hafi upphaflega átt að haldast frá og með maí 2006 til loka desember 2006. Þetta hafi sóknaraðila og Nordic barter hf. verið vel ljóst eins og fram komi í tölvupósti hans til Walther Smets 7. janúar 2013 þar sem segi að þetta fyrirkomulag hafi átt að haldast fram til ársins 2009 og verið til komið vegna skulda við varnaraðila. Ártalið í skeytinu hafi misritast því varnaraðili hafi aðeins haft heimildina til loka árs 2007 og innheimti ekki leyfisgjöld eftir það. Í apríl 2007 hafi nefnilega komið í ljós að Nordic barter hf. var enn í skuld við varnaraðila. Áðurnefnd heimild til innheimtu leyfisgjalda hafi því verið framlengd til loka ársins 2007. Leyfisgjöld hafi því verið innheimt og reikningar verið greiddir samkvæmt þessu fyrirkomulagi til ársloka 2007. Varnaraðili hafi því ekki gefið út reikninga fyrir leyfisgjöldum vegna TradeArt nema fyrir maí til desember 2006 og janúar til desember 2007 á grundvelli þessarar sérstöku heimildar. Varnaraðili leiðrétti það sem fram kom í tölvupósti Baldvins Hanssonar til sóknaraðila, að innheimt hafi verið fyrir desember 2008. Hið rétta sé að það hafi verið verið fyrir desember 2007.
Sóknaraðili eigi því engan rétt til gagna úr bókhaldi varnaraðila um viðskipti hans við aðra en sóknaraðila sjálfan. Hann hafi enga lögvarða hagsmuni af því að fá slík gögn og varnaraðila beri engin skylda til að veita honum slík gögn. Varnaraðila hafi ekki borið að innheimta leyfisgjöld nema fyrir ofangreind tímabil og því geta gögn frá honum aldrei ráðið niðurstöðu um hvort sóknaraðili höfði mál vegna vangoldinna leyfisgjalda. Varnaraðili taki enda enga afstöðu til slíks álitaefnis enda væri ágreiningur um slíkt milli eiganda hugbúnaðarins og notanda. Það hafi heldur ekki vafist fyrir sóknaraðila að krefja Walther Smets um leyfisgjöld fyrir tiltekin tímabil eins og hann hafi þegar gert, eins og fram komi í tölvupósti sóknaraðila til Walther Smets 4. janúar 2013 þar sem hann setur fram kröfu um að allar útistandandi kröfur er tengist TradeArt verði greiddar Nordic barter hf. og fjárhæðir lagðar inn á persónulegan reikning sóknaraðila. Þessu hafi sóknaraðili fylgt eftir með tölvupósti 7. janúar 2013 þar sem hann tiltaki um rétt til leyfisgjalda að skuldbindingar Res Barter Systems séu einvörðungu gagnvart Nordic Barter hf. Honum ætti því að vera í lófa lagið að höfða mál til innheimtu þegar fram settra krafna. Umbeðin sönnunarfærsla geti því ekki haft úrslitaáhrif á hvort mál verði höfðað. Auk þess verði ekki betur séð af tölvupósti sem borist hafi varnaraðila og hann framsendi til sóknaraðila að Res Barter System telji sig eiga kröfu á hendur Nordic Barter hf. en bjóðist til að ljúka málinu með því að greiða Nordic Barter hf. og sóknaraðila. Kröfum sínum ætti sóknaraðili því með réttu að beina að Res Systems Corporation til að fá úr þessu skorið og alls óþarft sé að blanda varnaraðila inn í þann ágreining.
Auk þess hljóti hugsanleg krafa eiganda TradeArt-hugbúnaðarins vegna hugsanlegrar notkunar hans í Belgíu alltaf að beinast að þeim aðila sem eigandinn hafi gert samning við en í málinu liggi fyrir slíkir samningar. Varnaraðila beri engin skylda til að greiða úr því ef sóknaraðili er í vafa um hvaða belgíska aðila hann skuli beina kröfum sínum að.
Að lokum byggir varnaraðili á því að skilyrði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, um að kostur fari forgörðum á því að afla sönnunar um atvik sem varða lögvarða hagsmuni aðila eða að það verði verulega erfiðara síðar, sé ekki uppfyllt. Varnaraðili telur að ekki verði fram hjá því litið að málatilbúnaður sóknaraðila virðist einhvers konar tilraun til að blanda varnaraðila inn í ágreining um innheimtu krafna sem Nordic barter hf. bar að innheimta allt frá upphafi ársins 2008. Það félag eða eftir atvikum sóknaraðili verði einfaldlega að bera hallann af því tómlæti sem hann hafi sjálfur sýnt í þeim viðskiptum. Háttsemi hans að þessu leyti sé í samræmi við það hvernig haldið hafi verið utan um rekstur Nordic Barter hf. en samkvæmt vef ríkisskattstjóra hafi félagið síðast skilað ársreikningi fyrir rekstrarárið 2007. Telja verði líklegt að kröfur þessar séu fallnar niður fyrir tómlæti og í það minnsta teljist allar kröfur sem kunni að hafa stofnast meira en fjórum árum fyrir dagsetningu greinargerðar þessarar fyrndar á grundvelli 14. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Líta verði til þess að sóknaraðili virðist hafa verið í lykilhlutverki allan þennan tíma, hann kveðst sjálfur hafa verið 100% hluthafi í Nordic barter hf. Þá hafi hann verið stjórnarformaður og prókúruhafi í félaginu. Þannig hafi hann ekki gert líklegt að hann eigi réttmætar kröfur, heldur benda gögn málsins þvert á móti til þess að þær séu niður fallnar fyrir sakir tómlætis og fyrningar. Áhrif fyrningarregla leiði líka til þess að jafnvel þótt viðurkennt væri að reikningar varnaraðila hefðu einhverjar þýðingu fyrir sóknaraðila þá sé engin hætta á að bókhaldsgögn hans um viðskipti við Res Systems Corporation fari forgörðum eins og áskilið sé í áðurnefndu ákvæði laga nr. 91/1991. Varnaraðila beri samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald að varðveita bókhald sitt í sjö ár frá lokum hvers reikningsárs. Bókhaldsgögn varnaraðila fyrir árið 2011 vegna þeirra krafna sóknaraðila ef þær teljast lögmætar og sannaðar sem ekki teljast nú þegar fyrndar verða geymd til ársins 2019. Engin hætta sé á að þau fari forgörðum.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu hefur sóknaraðili sett fram beiðni um sönnunarfærslu fyrir dómi án þess að dómsmál hafi verið höfðað samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í beiðninni er tildrögum málsins, ýmsum samningum og samskiptum ýmissa aðila sem virðast hafa komið að lögskiptum vegna hugbúnaðarins TradeArt lýst með ítarlegum hætti auk þess sem beiðni hans fylgir mikill fjöldi gagna.
Þrátt fyrir þetta mætti beiðni sóknaraðila um margt vera skýrari og kröfugerð hans einnig en henni er ítarlega lýst hér framar. Í beiðni sinni hefur sóknaraðili tilgreint hvaða einstaklinga hann hyggst leiða fyrir dóminn og verður að skilja beiðni hans svo að það sé gert í því skyni að fá tilteknar upplýsingar um greiðslur sem inntar hafi verið af hendi frá og með árinu 2008 vegna hugbúnaðarins TradeArt sem sóknaraðili kveður vera eign sína. Þá hefur sóknaraðili krafist þess að upplýst verði hvaða verkefni hafi verið unnin af varnaraðila vegna hugbúnaðarins og fyrir hverja síðustu fjögur ár. Þá verður að skilja beiðni sóknaraðila svo að hann krefjist þess að dómari leggi kvaðningu fyrir vitnið Baldvin Hansson á grundvelli 2. mgr. 54. gr. laga nr. 91/1991 og að honum verði gert á grundvelli 5. mgr. 51. gr. laganna að koma með til skýrslutöku tiltekin gögn úr bókhaldi sínu.
Varnaraðili hefur mótmælt öllum kröfum sóknaraðila. Hefur varnaraðili á það bent að beiðnin uppfylli ekki ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 hvað varðar framsetningu og skýrleika. Þá sé hún sett fram án sjáanlegra tengsla við málshöfðun, gegn hverjum og um hvað. Þá bendi gögn málsins ekki til þess að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af málinu. Þá liggi ekki fyrir með nægilega skýrum hætti hvernig eignarhald á hugbúnaðinum TradeArt sé komið í hans hendur. Eru sjónarmið beggja aðila ítarlega rakin hér framar.
Í 77. gr. laga nr. 91/1991 koma fram skilyrði fyrir því að gagna verði aflað án tengsla við rekstur dómsmáls. Í 2. mgr. er í tveimur málsliðum að finna heimildir aðila til að leita eftir vitnaleiðslu fyrir dómi eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns til þess að sanna atvik þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna atviksins í dómsmáli. Þau skilyrði eru sett í ákvæðinu fyrir öflun slíkra gagna að aðili hafi annars vegar lögvarða hagsmuni af því að leita sönnunar og hins vegar að einhverju af eftirtöldu sé fullnægt. Í fyrsta lagi að kostur á að afla sönnunarinnar fari forgörðum ef það er ekki gert strax. Í öðru lagi að gagnaöflunin verði verulega erfiðari ef dráttur verður á henni. Í þriðja lagi að sönnunarfærslan geti ráðið niðurstöðu um hvort aðilinn láti verða af málshöfðun vegna viðkomandi atvika. Af beiðni sóknaraðila verður ráðið að hvað síðari skilyrðin varði sé einkum á því byggt að umbeðin sönnunarfærsla ráði úrslitum um hvort af málshöfðun verði af hans hálfu.
Í 2. mgr. 78. gr. sömu laga kemur fram að í beiðni skuli greina skýrt frá því atviki sem aðili vilji leita sönnunar um, hvernig hann vilji að það sé gert, hver réttindi séu í húfi og hverja aðra sönnunin varði að lögum.
Sóknaraðili hefur í málinu byggt á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að leita sönnunar samkvæmt 77. gr. laga nr. 91/1991. Vísar hann um það til þess að hann hafi keypt hugbúnaðinn TradeArt af félaginu Viðskiptanetinu hf. með samningi 20. júní 2003. Um tildrög þess segir hann að á árinu 2003 hafi komið fram krafa um gjaldþrotaskipti á búi Viðskiptanetsins. Hafi þá verið gerður samningur 10. júní 2003 um kaup Benedikts Karlssonar og félagsins Gljúfurbyggðar ehf. um kaup á hugbúnaðinum af Viðskiptanetinu hf. til að koma í veg fyrir gjaldþrot félagsins. Sá samningur hafi á hinn bóginn aldrei verið efndur samkvæmt efni sínu þar sem í ljós hafi komið að kaupendur höfðu ekki eignir tiltækar til að koma í veg fyrir gjaldþrot. Því hafi sóknaraðili og Benedikt gert með sér munnlegt samkomulag 20. júní 2003 um að sóknaraðili keypti hugbúnaðinn. Með því hafi samningurinn frá 10. júní 2003 verið felldur niður. Ekki fær þetta þó beina stoð í ákvæðum síðari samningsins. Með þessum ráðstöfunum hafi verið komið í veg fyrir gjaldþrotaskipti á félaginu og gert hafi verið upp við kröfuhafa þess. Sóknaraðili kveður hið munnlega samkomulag á hinn bóginn ekki hafa verið fært í letur fyrr en árið 2007 þegar gengið hafi verið frá skattauppgjöri félagsins. Sóknaraðili hefur lagt fram yfirlýsingu nefnds Benedikts um að atvik hafi verið með þeim hætti sem að ofan er lýst og er hún meðal gagna málsins.
Jafnframt því sem áður hefur verið sagt byggir sóknaraðili á því að samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga hafi allar eftirstæðar eignir runnið til hans er félagið var afskráð á árinu 2010 og þar með forræði og ráðstöfunarréttur á hugbúnaðinum TradeArt. Vísar hann til gagna úr skattframtali sínu auk staðfestingar Benedikts Karlssonar og Jónasar Guðmundssonar um að sóknaraðili hafi átt öll hlutabréf í Viðskiptanetinu hf. Ekki liggur þó fyrir í gögnum málsins staðfest hlutaskrá félagsins.
Dómurinn telur að þrátt fyrir að ofangreind lögskipti séu um margt óljós hafi sóknaraðili, eins og málið liggur nú fyrir dóminum, leitt að því ákveðnar líkur að hann hafi ráðstöfunarrétt yfir umræddum hugbúnaði og að hann hafi öðlast þann rétt áður en komið hafi til þess að félagið Nordic barter hf. var afskráð árið 2010. Dómurinn vekur athygli á því að með þessu er þó ekki tekin nein afstaða til höfundarréttar í skilningi laga þar um.
Að þessu sögðu tekur dómurinn þó fram að þau úrræði sem ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 gera ráð fyrir eru háð ströngum skilyrðum hvað varðar lögvarða hagsmuni og skýrleika um það í hvaða skyni beiðni er sett fram. Ákvæðum kaflans er ekki ætlað að veita þeim er telur sig hafa lögvarða hagsmuni í einhverjum skilningi ríkari rétt til sönnunarfærslu og skýrslutöku af einstaklingum en viðkomandi hefði ella í venjulegu dómsmáli. Því þarf að liggja fyrir með skýrum hætti hvaða atvik er verið að leita sönnunar um og af hverju.
Beiðni sóknaraðila er því marki brennd að þrátt fyrir ítarlegar útlistanir á þeim samningum sem sóknaraðili byggir á að hafi verið gerðir um hugbúnaðinn TradeArt og samskiptum aðila máls þessa og ýmissa annarra, bæði félaga og einstaklinga, verður að telja með öllu óljóst hvaða atvik hann vill sanna og þá gegn hverjum hugsanleg málsókn kunni að beinast. Við munnlegan flutning málsins kvaðst sóknaraðili í það minnsta íhuga málsókn gegn Walther Smets sem mun vera belgískur. Beiðnina sjálfa mætti þó skilja á þann veg að málsókn kunni að beinast gegn varnaraðila sjálfum eða fyrirsvarsmanni hans sem sóknaraðili vill m.a. leiða til skýrslugjafar.
Verður jafnvel ráðið af beiðninni að sóknaraðili telji varnaraðila hafa stuðlað með einhverjum hætti að því að belgíski aðilinn Walther Smets, hann persónulega eða félög honum tengd, hafi ekki greitt fyrir afnot sín af margumræddum hugbúnaði. Dómurinn bendir í þessu sambandi á að þeim er kynni að verða aðili að hugsanlegu dómsmáli verður þannig ekki gert að mæta til skýrslutöku samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 án tillits til ákvæða 49. og 50. gr. laganna. Vegna ákvæða 52. gr. laga nr. 91/1991 verða heldur ekki lagðar ríkari skyldur á vitni varðandi skýrslutöku samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 en gert yrði undir rekstri venjulegs einkamáls.
Þegar hefur ítarlega verið getið um þá samninga sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt samningi Viðskiptanetsins hf., síðar Nordic barter hf., frá 1. ágúst 2002 skyldi varnaraðili innheimta leyfisgjöld með tilteknum hætti. Þá skyldi Viðskiptanetið hf. sjálft greiða varnaraðila leigugjald. Jafnframt átti varnaraðili að greiða 50% af öllum innheimtum sölu- og þjónustugjöldum fyrir TradeArt að undanskildum greiðslum fyrir notkun frá Viðskiptanetinu sjálfu. Þrátt fyrir þetta samningsákvæði varðandi innheimtu leyfisgjalda kemur fram í gögnum málsins að það hafi ekki verið framkvæmt samkvæmt efni sínu. Þetta fær m.a. stoð í tölvuskeytum aðila 30. ágúst 2006 þar sem fram koma af hálfu Baldvins Hanssonar drög að texta varðandi innheimtu greiðslna sem sóknaraðili samþykkir svo fyrir sitt leyti í svarpósti sínum. Í umræddum texta segir m.a. „Rögg ehf. og Viðskiptanetið hf. (VN) ákveða í sameiningu að innheimta greiðslna samkvæmt samningi Viðskiptanetsins hf. við Walther Smets (WS) vegna TradeArt hugbúnaðar fyrir RES Belgíu (RES) sem hingað til hefur verið innheimt af Viðskiptanetinu hf. og greiðslur svo gengið áfram til Röggvar vegna þjónustu Röggvar við RES skv. þessum sama samningi skuli á tímabilinu frá og með maí 2005 til loka desember 2006 vera innheimtar beint af Rögg með útgáfu reikninga til Walther Smets/RES.“ Þetta fyrirkomulag var svo kynnt hinum belgíska aðila með tölvupósti 11. október 2006. Jafnframt liggur fyrir tölvupóstur frá sóknaraðila 30. maí 2007 þar sem fram kemur að ofangreint fyrirkomulag framlengist til enda þess árs. Þá liggur fyrir tölvupóstur í málinu frá Baldvini Hanssyni 2. nóvember 2009 þar sem fram kemur að Viðskiptanetið hf. hafi ekki greitt fjóra tiltekna reikninga en eins og fram er komið mun ofangreindu fyrirkomulagi um innheimtu leigugjalda hafa verið komið á vegna skulda Viðskiptanetsins hf. gagnvart varnaraðila. Þá kemur fram í tölvuskeyti sóknaraðila til Walther Smets 4. janúar 2013 að frá þeim tíma skuli framvegis greiða allar útistandandi skuldir og reikninga inn á persónulegan reikning sóknaraðila. Þá kemur fram í tölvupósti sóknaraðila til Baldvins Hanssonar 6. janúar 2013 „við höfum ákveðið að taka yfir allar innheimtur vegna leigusamnings Nordic Barter og Res Barter Systems ...“. Þá segir í tölvupósti sóknaraðila til Baldvins 8. janúar 2013 „verum minnugir þess að við buðum ykkur að innheimta leigugjaldið tímabundið til ársins 2009 til að koma til móts við ykkur vegna kvartana ykkar um að við innheimtum leigugjaldið seint og illa af Res og að þjónustugjald ykkar sem var helmingur af leigugjaldinu kæmi þá seint og illa. Á þessum tíma stóðum við enn fremur í skuld við ykkur þannig að ég taldi innheimtum best komið fyrir hjá ykkur á meðan svo væri.“
Eins og málið liggur nú fyrir dóminum gefa gögn þess til kynna að sóknaraðili hafi sjálfur innheimt gjöldin nema í þeim tilvikum er hann fól varnaraðila sérstaklega að gera það á tímabilinu 2006 til 2007 og jafnvel lengur eða þar til síðla árs 2008 vegna skuldar Viðskiptanetsins hf. við varnaraðila. Gögn málsins og framsetning sóknaraðila að þessu leyti eru þó svo óljós að dómurinn getur ekki með góðu móti áttað sig á hversu lengi ofangreint fyrirkomulag skyldi viðhaft. Verður sóknaraðili að bera hallann af óljósum lögskiptum aðila hvað þetta varðar og óljósri framkvæmd samningsins hvað varðar innheimtu leigugjalds og aðrar greiðslur sem fara áttu á milli aðila samkvæmt samningum þeirra.
Eins og beiðni sóknaraðila er sett fram er ekki með góðu móti unnt að átta sig á því gegn hverjum hugsanlegur málarekstur væri eða hvaða atvik á að sanna með því að leiða fyrir dóminn þá nafngreindu einstaklinga sem tilgreindir eru í beiðni sóknaraðila. Því verður ekki talið unnt að álykta sem svo að umbeðin sönnunarfærsla ráði slíkum úrslitum um það hvort slíkt tilefni sé til málsóknar, og þá gegn hverjum, að á hana beri að fallast. Eru því skilyrði 2 mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 ekki uppfyllt að þessu leyti. Þá verður, eins og málatilbúnaði sóknaraðila er hér háttað, ekki séð að beiðni sóknaraðila sé með þeim hætti að hún fái rúmast innan 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Enn síður er unnt að átt sig á því á hvaða grundvelli sóknaraðili telur sig hafa heimild til að krefja varnaraðila um að koma fyrir dóminn með gögn úr bókhaldi sínu. Þá verður ekki séð að önnur skilyrði 2. mgr. 77. gr. laganna og áður er getið séu uppfyllt að þessu leyti eða að fyrningarreglur geti leitt til annarrar niðurstöðu.
Þrátt fyrir að dómurinn telji samkvæmt framansögðu að sóknaraðili hafi leitt að því ákveðnar líkur að hann eigi ráðstöfunarrétt yfir umræddum hugbúnaði og lögvarða hagsmuni í þeim skilningi telur dómurinn, þegar litið er heildstætt á málið, málatilbúnað sóknaraðila og lögskipti aðila að baki kröfum hans of óljós til þess að sóknaraðili geti vísað til þeirra því til stuðnings að hann hafi heimild til að leiða þá einstaklinga fyrir dóminn, sem hann tiltekur í beiðni sinni, í jafn óljósum tilgangi og raun ber vitni.
Með vísan til alls þess er að framan greinir er það því niðurstaða dómsins að skilyrðum 1. mgr. 77. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt til að unnt sé að verða við beiðni sóknaraðila og verður henni því hafnað í heild.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins vera hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Beiðni sóknaraðila, Arnar Karlssonar eins og nánar er lýst í kröfugerð hans á dskj. nr. 1, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Rögg ehf., 400.000 krónur í málskostnað.