Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2017

SAB ehf. (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
Stefaníu Valgeirsdóttur (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)

Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Starfslok
  • Tómlæti

Reifun

S ehf. krafðist þess að S yrði gert að greiða sér eftirstöðvar láns sem félagið hafði veitt S til kaupa á bifreið, en S hafði verið starfsmaður félagsins þegar lánið var veitt. S hafnaði greiðsluskyldu og byggði á því að við starfslok sín hefðu aðilar gert með sér samkomulag um að fallið yrði frá því að innheimta eftirstöðvar lánsins. Í dómi sínum rakti héraðsdómur framburð þeirra vitna sem höfðu verið viðstödd fund þar sem starfslok S voru til umræðu, en þau báru að gert hefði verið munnlegt samkomulag milli aðila um eftirgjöf á eftirstöðvum lánsins. Þá vísaði dómurinn til þess að við launauppgjör eftir fundinn hefði engu verið haldið eftir af launum S til greiðslu lánsins þrátt fyrir ótvíræða heimild til þess, auk þess sem þrjú ár hefðu liðið frá því að S hefði hafnað greiðsluskyldu og þar til S ehf. höfðaði málið. Með vísan til þessa taldi héraðsdómur að leggja bæri til grundvallar að S ehf. hefði gefið eftir kröfu sína um greiðslu eftirstöðva lánsins við starfslok S og sýknaði hana af kröfum félagsins. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. janúar 2017. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 19. ágúst 2010 til 1. júlí 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.080.000 krónum, sem greiddar hafi verið með 18 jöfnum innborgunum fyrsta hvers mánaðar á tímabilinu frá 1. október 2010 til 1. mars 2012. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, SAB ehf. greiði stefndu, Stefaníu Valgeirsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2016.

Mál þetta, sem var dómtekið 8. f.m., var höfðað 7. mars 2016 af SAB ehf., Lundi 1 í Kópavogi, á hendur Stefaníu Valgeirsdóttur, Suðurgarði 3 í Reykjanesbæ.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 3.000.000 króna ásamt 7,75% vöxtum frá 19. ágúst 2010 til 1. október sama ár, með 6,5% vöxtum frá þeim degi til 21. desember sama ár, með 5,75% vöxtum frá þeim degi til 11. febrúar 2011, með 5,5% vöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, með 5,75% vöxtum frá þeim degi til 11. sama mánaðar, með 6% vöxtum frá þeim degi til 1. apríl 2012, með 6,25% vöxtum frá þeim degi til 1. júní sama ár, með 6,75% vöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 1.080.000 krónur sem inntar voru af hendi með greiðslu að fjárhæð 60.000 krónur 1. október, 1. nóvember og 1. desember 2010, 1. janúar, 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september, 1. október, 1. nóvember og 1. desember 2011 og 1. janúar, 1. febrúar og 1. mars 2012. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað, auk álags.

I

Stefnda starfaði á skrifstofu stefnanda, sem áður hét Ný-Fiskur ehf., frá 3. febrúar 2009 fram til ársins 2012. Þann 19. ágúst 2010 veitti stefnandi stefndu lán að fjárhæð 3.000.000 króna til kaupa á bifreið af gerðinni Volkswagen Touareg. Af því tilefni undirritaði stefnda skjal sem ber yfirskriftina „skuldaviðurkenning og samkomulag um endurgreiðslu láns“. Samkvæmt því skuldbatt stefnda sig til að endurgreiða lánið með því að 60.000 krónur yrðu mánaðarlega dregnar af launum hennar.  Kæmi til starfsloka væri stefnanda heimilt að halda eftir óuppgerðum launum, orlofi eða öðrum launum sem stefnda kynni þá að eiga inni og mögulegar eftirstöðvar að meðtöldum vöxtum falla í gjalddaga á sama tíma. Heldur stefnandi því fram að til samræmis við þetta hafi stefnda innt af hendi 18 innborganir á lánið á tímabilinu 1. október 2011 til 1. mars 2012 samtals að fjárhæð 1.080.000 krónur og svo sem kröfugerð hans ber með sér. Stefnda staðhæfir á hinn bóginn að samtala innborgana hennar nemi 1.350.000 krónum þar sem 270.000 krónum hafi að hennar ósk verið haldið eftir aukalega af launum hennar fyrir febrúar 2012 við launauppgjör 29. sama mánaðar. 

Aðila greinir á um hvenær starfslok stefndu hjá stefnanda áttu sér stað. Hefur stefnandi miðað við 1. júlí 2012 í því sambandi, það er að loknum þriggja mánaða uppsagnarfresti, og hafi lánið þá fallið í gjalddaga. Stefnda byggir á hinn bóginn á því að eiginleg starfslok hafi orðið 12. mars 2012. Stefnda lýsir aðdraganda starfslokanna á þann veg að hún og samstarfskona hennar, Dóróthea Jónsdóttir, hafi þann 12. mars 2012 verið boðaðar til fundar við Birgi Kristjánsson, framkvæmdastjóra stefnanda, en þær hefðu stuttu áður lýst yfir áhyggjum sínum vegna óeðlilegra fjármagnshreyfinga út úr fyrirtækinu og að þær kynnu að flækjast inn í mögulega brotastarfsemi fyrirsvarsmanna félagsins. Kveður stefnda það hafa verið sameiginlegan skilning fundarmanna að komið væri að starfslokum hennar og Dórótheu hjá stefnanda og að þær hefðu við lok fundarins afhent lykla að húsnæði fyrirtækisins og yfirgefið starfsstöð þess í síðasta sinn. Daginn eftir hafi verið búið að loka á allan aðgang stefndu að bönkum, fiskmarkaði og vinnutengdu netfangi.

Uppsagnarbréf, dagsett 20. mars 2012, barst stefndu 23. sama mánaðar. Dórótheu Jónsdóttur var einnig sagt upp störfum. Þann 26. mars boðaði Albert Sveinsson, stjórnarformaður stefnanda, þær til fundar til að ræða „lok mála“, og var hann haldinn sama dag. Á hann mættu stefnda ásamt eiginmanni sínum, Kristmundi Á. Jónssyni, Dóróthea Jónsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Pétri Rúnari Haukssyni, og Albert Sveinsson fyrir hönd stefnanda. Á fundinum mun hafa legið fyrir tillaga frá stefndu um skuldauppgjör við starfslok, en í tillögunni fólst að henni yrðu greidd laun í 24 mánuði og að með því móti væri gerð upp skuld hennar vegna bifreiðakaupanna. Í greinargerð kveður stefnda að fyrirsvarsmanni stefnanda hafi ekki hugnast þessi tillaga en hafi þess í stað lagt til að stefnda fengi greidd laun út marsmánuð auk þriggja mánaða launa í uppsagnarfresti og ógreidds orlofs og að stefnandi gæfi að fullu eftir kröfu um endurgreiðslu höfuðstóls og vaxta samkvæmt skuldaviðurkenningunni. Hafi stefnda fallist á þá tillögu. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins vísaði Albert Sveinsson þessu alfarið á bug. Á fundinum hafi krafa stefndu verið rædd fram og til baka en niðurstaðan orðið sú að hafna henni með öllu. Af hálfu stefnanda hafi verið ákveðið að borga stefndu út laun á uppsagnarfresti og halda innheimtu lánsins áfram. Samkvæmt gögnum málsins voru stefndu í einu lagi 31. mars 2012 greidd laun fyrir marsmánuð auk þriggja mánaða launa og ógreitt orlof. Engu var haldið eftir til greiðslu á skuld stefndu við stefnanda samkvæmt skuldaviðurkenningunni.

Stefnandi fól lögmannsstofu að innheimta eftirstöðvar skuldar stefndu við félagið. Var greiðsluáskorun og viðvörun um innheimtuaðgerðir beint til stefndu með bréfi lögmannsstofunnar 29. nóvember 2012. Með bréfi lögmanns stefndu 12. desember 2012 var greiðsluskyldu hafnað á þeim grundvelli að endanlegt skuldauppgjör hefði þegar farið fram. Eru málsatvik þar ítarlega rakin út frá sjónarhóli stefndu. Er þar meðal annars vísað til þess að þegar stefndu hafði borist uppsagnarbréf hefðu átt sér stað samningaviðræður um starfslok hennar. Í ljósi aðstæðna sem voru uppi við starfslokin, sem óþarft væri að rekja frekar, hafi stefnda farið fram á það að henni yrði veittur 24 mánaða uppsagnarfrestur. Á framangreindum fundi 26. mars 2012 hafi niðurstaðan á hinn bóginn orðið sú sem áður er getið. Í bréfinu var einnig tekið fram að yrði andmælum ekki hreyft innan fjórtán daga yrði litið svo á að málið hefði verið látið niður falla. Engar frekari innheimtuaðgerðir áttu sér stað fyrr en stefnandi höfðaði mál þetta 7. mars 2016.

II

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi fengið lán frá stefnanda sem hún hafi lofað að endurgreiða með tilteknum hætti og til samræmis við skuldaviðurkenningu sem hún hafi undirritað. Krafan hafi ekki verið efnd nema að hluta. Mótmælir stefnandi sem röngum og ósönnuðum þeim málatilbúnaði stefndu að krafan hafi verið felld niður. 

Stefnandi byggir á því að umsamdir vextir hafi verið kjörvextir óverðtryggðra útlána samkvæmt gjaldskrá Íslandsbanka á hverjum tíma og því sé gerð krafa um slíka vexti fram að því að krafan féll í gjalddaga.

Stefnandi kveður kröfuna hafa gjaldfallið við starfslok stefndu líkt og fram komi í niðurlagi skuldaviðurkenningar. Stefnandi byggir á því að starfslok hafi orðið 1. júlí 2012 og því beri krafan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags.

Stefnandi kveður stefndu hafa greitt samtals 1.080.000 krónur inn á lánið  sem dragist frá höfuðstól kröfunnar til samræmis við einstakar innborganir og nánar með þeim hætti sem greinir í dómkröfu stefnanda.

Til stuðnings kröfunni vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir in natura.

III

Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd, hafi hún á annað borð á einhverjum tíma verið dómtæk. Í greinargerð er um þessa málsástæðu vísað til þess að stefnda hafi lokið störfum í þágu stefnanda 12. mars 2012 og engin krafa verið gerð um frekara vinnuframlag af hennar hálfu. Þá verði ákvæði lánssamningsins ekki skilin á annan veg en þann að starfslok taki til þess tíma er skylda stefndu til að inna ef hendi vinnuframlag í þágu stefnanda falli niður. Krafa stefnanda um endurgreiðslu lánsins, auk vaxta, hafi því fallið í gjalddaga 12. mars 2012. Byggir stefnda á því að þar sem kröfugerð stefnanda eigi rætur að rekja til uppgjörs á láni sem stefndu var veitt af vinnuveitanda sínum sé ekki um hefðbundin lánaviðskipti að ræða heldur uppgjör starfstengdra hlunninda. Um slíkar kröfur gildi almennur fyrningarfrestur 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Engin rök hnígi í þá átt að horfa til undantekninga frá þeim fyrningarfresti, eins og mál þetta sé vaxið. Af framangreindu verður ráðið að af hálfu stefndu væri við það miðað að upphafsdagur fyrningarfrests væri 12. mars 2012. Við aðalmeðferð málsins var því á hinn bóginn haldið fram að fjögurra ára fyrningarfrestur hafi byrjað að líða 1. desember 2011 og í þeim efnum byggt á tilgreiningu á gjalddaga kröfunnar í innheimtubréfi frá stefnanda 29. nóvember 2012. Af hálfu stefnanda var þessum skilningi hafnað og að í öllu falli væri hér um nýja málsástæðu að ræða sem ekki kæmist að í málinu.

                Verði ekki fallist á kröfu um sýknu á grundvelli fyrningar byggir stefnda á því að fullnaðaruppgjör á láninu hafi átt sér stað í kjölfar starfsloka 12. mars 2012. Eftir að skuldin var fallin í gjalddaga hafi samningsaðilar átt þann kost að semja um uppgjör á henni enda hafi stefnda sjálf átt frumkvæði að því að leggja fram drög að slíku uppgjöri. Af atvikum máls megi ráða að engum geti hafa dulist sameiginlegur skilningur aðila á því starfslokasamkomulagi sem aðilar urðu ásáttir um. Í kjölfar fundar 26. mars 2012 hafi stefndu að fullu verið greidd laun vegna marsmánaðar auk þriggja mánaða launa fyrir apríl, maí og júní og ógreidds orlofs. Hafi þetta verið í fyrsta og eina skiptið frá því að lánið var veitt sem stefnda fékk greidd laun án þess að haldið væri eftir afborgun af láninu. Telur stefnda þetta augljósa staðfestingu á þeim sameiginlega skilningi að í lokauppgjöri hefði falist fullnaðargreiðsla lánsins.

                Stefnda byggir á því að það sé fjarstæðukennt að stefnandi hafi greitt henni laun að fjárhæð 3.636.293 krónur án þess að halda eftir nokkurri greiðslu vegna lánsins, enda hafi stefnandi engar tryggingar haft fyrir endurgreiðslu þess er hann var ekki lengur í aðstöðu til að halda eftir greiðslum af launum stefndu. Hafi stefnandi vart ákveðið að ganga til uppgjörs í tengslum við starfslok stefndu án þess að taka tillit til eftirstöðva lánsins. Þyngst vegi þó í málinu að fyrir liggi undirritaðar yfirlýsingar þeirra sem sóttu fundinn sem haldinn var 26. mars 2012, utan fyrirsvarsmanns stefnanda, þar sem þeir lýsa þeim sameiginlega skilningi á niðurstöðu fundarins að fullnaðaruppgjör á láninu færi fram við starfslok stefndu. Stefnandi hafi fengið afrit umræddra yfirlýsinga sent með svari lögmanns stefndu í tilefni af innheimtuviðvörun stefnanda, sem áður er getið.

                Stefnda kveður lánið til komið vegna starfssambands sem var í gildi milli aðila. Óumdeilt sé að lánskjörin hafi staðið stefndu til boða með vísan til þess að hún var starfsmaður stefnanda og myndi almennt ekki standa öðrum en starfsmönnum stefnanda til boða. Þannig sé ekki um að ræða almennt viðskiptalán heldur fyrirgreiðslu sem stóð í beinu sambandi við starfskjör hennar. Á stefnanda hafi því hvílt sérstök skylda að því er varðar greiðslu og uppgjör á láninu og það hafi staðið stefnanda nær að gæta að öllum þáttum er snerta innheimtu þess.

                Verði ekki fallist á að komist hafi á skuldbindandi samkomulag um fullnaðaruppgjör byggir stefnda á því að krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis stefnanda sem verði að teljast stórfellt. Stefnandi hafi ekki gert reka að því að innheimta kröfu sína fyrr en í lok nóvember 2012. Þá hafi stefnandi ekkert aðhafst í þessum efnum í rúm þrjú ár eftir að framangreindum innheimtutilraunum var hafnað og skorað á stefnanda að taka afstöðu til andmæla stefndu innan 14 daga.  Hafi stefnda mátt treysta því að stefnandi sem vinnuveitandi hennar hagaði uppgjöri launa til samræmis við þær skyldur sem á honum hvíldu, meðal annars með því að draga af launum hennar afborganir á láninu. Að auki hafi stefnda mátt treysta því þegar um fjögur ár voru liðin frá starfslokum, án þess að hreyft væri við kröfu um greiðslu eftir að innheimtutilraunum var andmælt, að skuldin hefði verið að fullu uppgerð í samræmi við þann skilning sem hún byggði starfslok sín á. Byggir stefnda á því að með því að koma fram svo löngu seinna með kröfugerð, sem auk þess sé ekki í samræmi við upphaflegt innheimtuerindi, hafi stefnandi sýnt af sér svo stórfellt tómlæti að kröfur hans, hafi þær einhvern tímann verið dómtækar, séu niður fallnar.

                Stefnda telur tilvist málsins einkum skýrast á því að fyrirsvarsmenn stefnanda freistist til að koma á hana höggi þar sem vitnisburður hennar hjá skattrannsóknarstjóra hafi ekki verið þeim hagfelldur. Haldi stefnandi á lofti kröfum og staðhæfingum sem fyrirsvarsmenn félagsins viti að séu rangar og haldlausar og geri stefnda því kröfu um að málskostnaður verði dæmdur með álagi. 

IV

                Í aðilaskýrslu sinni við aðalmeðferð málsins skýrði Albert Sveinsson, stjórnarformaður stefnanda, svo frá aðdraganda starfsloka stefndu hjá félaginu að hann hafi átt fund með henni og Dórótheu Jónsdóttur 12. mars 2012 þar sem þær hefðu framvísað gögnum „um eitt og annað sem þær töldu að viðkæmi þessu máli“ og lagt fram kröfur um starfslok sem fólu það í sér að þeim yrðu greidd laun í tvö ár gegn því að þær myndu ekki fara með þessi gögn til „samstarfsaðila okkar eða meðeiganda“ í Belgíu. Kvaðst Albert ekkert umboð hafa haft til að taka afstöðu til þessara krafna og ekki gert það. Hann hafi rætt málið daginn eftir við framkvæmdastjóra stefnanda, Birgi Kristinsson, sem hafi alfarið hafnað þessum kröfum. Hefðu stefnda og Dóróthea hætt störfum hjá stefnanda þennan sama dag þótt uppsagnarbréf hafi ekki verið send fyrr en viku seinna. Aðspurður kannaðist Albert við að hafa boðað stefndu og Dórótheu til fundar 26. mars 2012. Hafi hann viljað fá að vita hvað þær hygðust gera og þá verið með í huga hótun þeirra um afhendingu gagna, enda hafi hún ekki samræmst hagsmunum félagsins. Öllum kröfum þeirra hafi að endingu verið hafnað og hann hafi aldrei veitt samþykki sitt fyrir þeim. Stefndu hafi þannig ekki verið veitt sérstök ívilnun við starfslok og Dórótheu ekki heldur, en hún hafi starfað sem verktaki hjá stefnanda og því ekki átt rétt á uppsagnarfresti. Við uppgjör til stefndu hafi þó verið ákveðið að halda ekki eftir greiðslu vegna lánsins heldur setja það í innheimtu þar sem hún yrði áfram krafin um mánaðarlega greiðslu upp á 60.000 krónur. Innheimta á eftirstöðvum lánsins hafi ekki verið sérstaklega rædd. Þá er þess að geta að í skýrslu Alberts kom fram að þau gögn sem hér hefur verið vísað til hafi komist í hendur samstarfsaðilanna í Belgíu og að stefnda hafi sent þeim þau eftir að gengið hafði verið frá starfslokum hennar hjá stefnanda.

                Í skýrslu Birgis Kristjánssonar framkvæmdastjóra stefnanda fyrir dómi kom fram að hann hafi aldrei samþykkt að gefa eftir þá kröfu á hendur stefndu sem málið tekur til. Við starfslok stefndu hafi uppgjöri verið hagað til samræmis við það að hún ætti rétt að þriggja mánaða uppsagnarfresti og ekkert umfram það. Spurður um hvort Dórótheu hafi einnig verið greidd laun í uppsagarfresti kvaðst hann ekki muna það. Þá gaf hann þá skýringu á því að ákveðið var að greiða stefndu laun fyrir mánuðina mars, apríl, maí og júní 2012 án þess að halda eftir greiðslu vegna lánsins að fyrirsvarsmenn stefnanda hefðu viljað klára starfslokin með þessum hætti og setja lánið síðan í innheimtu. 

                Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti stefnda aðdraganda starfsloka sinna hjá stefnanda. Var sú lýsing í öllum atriðum í samræmi við það sem fram kemur um málsatvik í greinargerð. Kom fram hjá henni að í störfum sínum hjá stefnanda, en hún hafi þar gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra, hafi hún orðið þess áskynja að ekki væri allt með felldu í rekstri félagsins. Hún hafi haft áhyggjur af eigin stöðu vegna þessa og óttast að hún væri flækt í stórfellt skattsvikamál. Hún hafi leitað á náðir stjórnarformanns stefnanda, Alberts Sveinssonar, af þessu tilefni þar sem hún hafi treyst honum. Þá hafi hún rætt málið við Dórótheu, samstarfskonu sína, sem hafi líka haft áhyggjur af stöðu mála vegna upplýsinga sem hún bjó yfir og vörðuðu rekstur félagsins. Niðurstaðan eftir samtöl við Albert og Birgi Kristinsson, framkvæmdastjóra stefnanda, hafi orðið sú að hún léti af störfum hjá stefnanda. Samið hafi verið við hana um starfslok og til samræmis við það sem málatilbúnaður hennar í málinu tekur mið af. Gaf hún þá skýringu á þeirri kröfu sinni að lánið yrði gefið eftir að hún hafi óttast opinbera málsókn vegna þeirrar stöðu sem uppi var í félaginu og að erfitt gæti verið fyrir hana að fá atvinnu að nýju. Áhyggjur hennar hefðu ekki verið ástæðulausar enda hafi hún í tvö ár, eða allt til 31. desember 2014 samkvæmt gögnum málsins, haft réttarstöðu sakbornings við rannsókn skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og skattskilum stefnanda, en sú rannsókn hafi meðal annars lotið að gögnum um millifærslur sem hún hafi á sínum tíma haft undir höndum og borið undir stjórnarformann stefnanda í aðdraganda þess að henni var sagt upp störfum. Aðspurð neitaði stefnda því alfarið að hafa hótað því áður en samið var um starfslok hennar 26. mars 2012 að fara með gögnin til samstarfsaðila eða eigenda félagsins í Belgíu. Hún og Dóróthea hefðu á hinn bóginn upplýst umrædda aðila í Belgíu um stöðu mála 23. apríl 2012 og hefðu þeir í kjölfarið dregið sig út úr félaginu. Loks er vert að geta þess að í skýrslu stefndu kom fram að gengið hafi verið frá starfslokum Dórótheu á þann veg að henni hafi verið greidd laun fyrir mánuðina mars til og með júní 2012 enda þótt hún hafi starfað sem verktaki hjá stefnanda.  

                Vitnin Dóróthea Jónsdóttir, Kristmundur Á. Jónsson og Pétur Rúnar Hauksson, eiginmaður stefndu, komu fyrir dóm og staðfestu yfirlýsingar sínar um niðurstöðu fundar 26. mars 2012 sem áður er getið. Í vitnisburði Dórótheu kom fram að hún hafi starfað sem verktaki hjá stefnanda á þeim tíma sem til skoðunar er í málinu. Aðspurð um fund með fyrirsvarsmönnum stefnanda 13. mars 2012 svaraði hún því til að á honum hefðu hún og stefnda kynnt þeim gögn sem að þeirra mati bentu til þess að eitthvað kolólöglegt væri í gangi í rekstri félagsins. Þeim hafi þá verið tjáð að þetta kæmi þeim ekki við. Fram að þessum fundi hefðu þær talið sig eiga stuðning stjórnarformannsins vísan en það hafi breyst þarna. Þær hefðu haft orð á því að þær væru reiðubúnar til að starfa áfram hjá félaginu ef þetta yrði lagað en það hafi greinilega enginn áhugi verið á því. Á fundi 26. mars 2012 hafi niðurstaðan orðið sú að hún fengi greidd þriggja mánaða laun enda þótt hún ætti sem verktaki ekki rétt á uppsagnarfresti. Upphafleg tillaga hennar hafi hljóðað upp á laun í 24 mánuði, en þetta orðið niðurstaða. Þá kom fram hjá vitninu að á fundinum hafi verið sammælst um að gefa þá skýringu á starfslokum hennar og stefndu að leiðir þeirra og félagsins hafi ekki lengur legið saman. Þær hefðu á hinn bóginn frétt það nokkrum mánuðum síðar að þeir væru að bera út þá sögu að þær hefðu verið látnar fara þar sem þær hefðu stolið svo miklum peningum. Þá hafi komið í ljós að þrátt fyrir orð þeirra um annað hefðu þeir ekki farið til fundar við aðila í Belgíu til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þær hefðu því látið Belgana vita.            

V

Samkvæmt skuldaviðurkenningu stefndu og samkomulagi málsaðila um endurgreiðslu láns að höfuðstól 3.000.000 króna féllu eftirstöðvar þess í gjalddaga við starfslok hennar hjá stefnanda. Hefur í málatilbúnaði hennar verið miðað við að þau hafi orðið 12. mars 2012. Í málinu eru engin efni til að miða gjalddagann við fyrra tímamark en af þessu leiðir, en við aðalmeðferð málsins var á því byggt af hálfu stefndu að stefnandi hafi sjálfur gjaldfellt kröfuna rúmum þremur mánuðum áður en til starfsloka kom og í þeim efnum vísað til innheimtubréfs frá lögmannsstofu sem stefnandi fól að innheimta hana. Kemur samkvæmt þessu ekki til álita að krafa stefnanda hafi verið fyrnd við höfðun málsins 7. mars 2016.

Sýknukrafa stefndu er jafnframt byggð á því að við starfslok hennar hafi málsaðilar gert með sér samkomulag sem meðal annars hafi falið það í sér að fallið væri frá því að innheimta eftirstöðvar lánsins. Þessu hefur stefnandi alfarið hafnað. Þegar tekin er afstaða til þessarar málsástæðu stefndu er þess fyrst að gæta að hún ber sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu sinni að stefnandi hafi gefið eftir kröfu sína samkvæmt skuldaviðurkenningunni, en á þeim tíma sem það á að hafa verið gert hafði hún í mesta lagi greitt 1.330.000 krónur inn á höfuðstól lánsins og áfallna vexti. Svo sem áður greinir var stefndu og öðrum starfsmanni stefnanda, Dórótheu Jónsdóttur, sagt upp störfum á sama tíma. Er ekki annað fram komið en að ástæða starfsloka þeirra hafi verið sú sama, en ýmislegt er á huldu um hana. Í kjölfar þess að þeim bárust uppsagnarbréf, undirrituð af framkvæmdastjóra stefnanda, boðaði stjórnarformaður félagsins, Albert Sveinsson, þær til fundar þar sem ræða skyldi „lok mála“, eins og það var orðað í smáskilaboðum sem hann sendi þeim. Á fundinn, sem haldinn var 26. mars 2012, mættu auk þeirra þriggja Kristmundur Á. Jónsson, eiginmaður stefndu, og Pétur Rúnar Hauksson, eiginmaður Dórótheu. Er af þessu ljóst að þegar hér var komið sögu var það mat stefnanda að atriði sem tengdust starfslokum stefndu og Dórótheu væru enn ekki að fullu til lykta leidd. Í málinu liggja fyrir skriflegar yfirlýsingar þeirra Dórótheu, Kristmundar og Péturs Rúnars, sem þau hafa staðfest fyrir dómi, þar sem fram kemur að á fundinum hafi verið gert munnlegt samkomulag á milli málsaðila um lokauppgjör vegna starfsloka stefndu sem fæli það í sér að auk launa í uppsagnarfresti fengi hún fulla eftirgjöf á kröfu sem ætti rætur sínar að rekja til láns sem stefnandi veitti henni til kaupa á bifreið. Við mat á sönnunargildi þessa vitnisburðar þarf sérstaklega að huga að afstöðu vitnanna til málsaðila, en auk þess sem ráða má um hana af málsatvikum er fram komið að á milli stefndu og eiginmanns hennar og hjónanna Dórótheu og Péturs Rúnars er kunningsskapur. Að þessu sögðu er til þess að líta að við launauppgjör nokkrum dögum síðar, nánar tiltekið 31. mars 2012, sem tók til launa fyrir þann mánuð, launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti, orlofs, ökutækjastyrks, desemberuppbótar og orlofsuppbótar, samtals að fjárhæð 3.636.239 krónur, var engu haldið eftir til greiðslu lánsins þrátt fyrir ótvíræða heimild stefnanda til þess, en útborgun til stefndu þegar frá hafði verið dregin staðgreiðsla og iðgjöld í lífeyrissjóð og séreignarsjóð nam 2.017.771 krónu. Er þessi ráðstöfun stefnanda vandskýrð hafi hann á annað borð litið svo á að fjárkrafa hans á hendur stefndu stæði óhögguð og þannig ótvírætt til þess fallin að renna stoðum undir þá málsástæðu stefndu sem hér er til umfjöllunar. Þar við bætist að ekki liggur annað fyrir en að Dórótheu hafi við starfslok hennar verið greidd laun fyrir mánuðina apríl, maí og júní enda þótt óumdeilt sé að hún hafi ekki átt rétt til þeirra.  Þá er þess að gæta að þegar því var fyrst hreyft eftir starfslok stefndu að krafan væri enn til staðar, en það var gert með innheimtubréfi 29. nóvember 2012, var greiðsluskyldu þegar í stað hafnað af hennar hálfu og þar um vísað til samkomulags aðila við starfslokin. Er efnislegu inntaki samkomulagsins og tilurð þess lýst í bréfi sem lögmaður stefndu ritaði af þessu tilefni 12. desember 2012 og er sú lýsing í fullu samræmi við það sem málsvörn stefndu að þessu leyti er reist á. Þá kemur fram í bréfinu að framangreindar yfirlýsingar hafi fylgt því ásamt öðrum gögnum sem vörðuðu starfslokin. Gaf svarbréfið sérstakt tilefni til skjótra viðbragða af hálfu stefnanda teldi hann sig enn eiga tilkall til endurgreiðslu lánsins. Til þess kom ekki heldur liðu rúm þrjú ár þar til stefnandi hófst næst handa við frekari innheimtuaðgerðir með málshöfðun þessari.

Með vísan til þess sem að framan greinir og að því virtu sem fram kom við skýrslutökur fyrir dómi og rakið er í kafla IV hér að framan verður fallist á það með stefndu að leggja beri til grundvallar við úrlausn málsins að stefnandi hafi í tengslum við starfslok hennar hjá félaginu gefið eftir kröfu sína á hendur henni um greiðslu eftirstöðva umrædds láns, en gagnvart stefndu stoðar ekki fyrir stefnanda að bera fyrir sig umboðsskort til þeirra málalykta. Féll greiðsluskylda stefndu þar með niður og ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna hana af kröfum stefnanda.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Ekki eru efni til að beita álagi á málskostnað samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laganna. Þykir málskostnaður til handa stefndu hæfilega ákveðinn 850.000 krónur.

                Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

                Stefnda, Stefanía Valgeirsdóttir, er sýknuð af kröfum stefnanda, SAB ehf.

Stefnandi greiði stefndu 850.000 krónur í málskostnað.