Hæstiréttur íslands
Mál nr. 182/2012
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Afhending
|
|
Fimmtudaginn 25. október 2012. |
|
Nr. 182/2012.
|
Remøy Sea Viking AS (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Ísfelli ehf. (Hlynur Halldórsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Afhending.
R, norskt útgerðarfyrirtæki, keypti veiðarfæri af Í ehf. Flutningur veiðarfæranna til R misfórst með þeim afleiðingum að trollið sökk í hafi. Ágreiningur var með aðilum um hvernig samist hafi með þeim um afhendingu veiðarfæranna. Í málinu krafði Í ehf. R um andvirði vörunnar, en R neitaði greiðsluskyldu þar sem varan hafi aldrei verið afhent sér. Talið var að R hefði ekki tekist sönnun þess að Í ehf. hefði tekist á hendur þá skuldbindingu að sjá um flutning veiðarfæranna til Noregs og yrði hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Áhættan af hinu selda hafi flust yfir til R við afhendingu veiðarfæranna í Hafnarfjarðarhöfn og bar R því að standa Í ehf. skil á kaupverði þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. mars 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á tveimur málsástæðum. Í fyrsta lagi að stefndi hafi tekið að sér að sjá um flutning hinna seldu veiðarfæra til áfrýjanda og þar með borið áhættuna af því að þau fórust í hafi. Í öðru lagi að stefndi hafi „valdið honum tjóni með því að senda stroffur með veiðarfærunum, sem ekki voru nægjanlega sterkar og í þeim hafi verið galli sem leitt hafi til þess að þær dugðu ekki til að koma veiðarfærunum á milli skipanna“, Arctic Viking og Remøye Viking.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var ekki samið um það með skýrum hætti milli aðila hvar veiðarfærin, sem áfrýjandi keypti af stefnda, skyldu afhent. Staðhæfir áfrýjandi að svo hafi upphaflega verið um samið að veiðarfærin skyldu afhent honum í Tromsø í Noregi þannig að stefndi sæi um flutning þeirra þangað á sína ábyrgð. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að veiðarfærin hafi verið seld með þeim skilmálum að hann hafi átt að afhenda þau við verksmiðjudyr hér á landi.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem giltu um viðskipti aðila, skal seljandi hafa söluhlut til reiðu til viðtöku fyrir kaupanda á þeim stað þar sem seljandi hafði atvinnustöð sína þegar kaup voru gerð. Í ljósi þessarar meginreglu, sbr. 1. mgr. 1. gr. sömu laga, hefur áfrýjandi, sem kaupandi veiðarfæranna, sönnunarbyrðina fyrir því að samið hafi verið á þann veg milli aðila að þau skyldu afhent annars staðar en á atvinnustöð stefnda sem var í Hafnarfirði þegar kaupin áttu sér stað. Hefur áfrýjanda ekki tekist að færa sönnur á þá staðhæfingu sína að stefndi hafi tekist á hendur þá skuldbindingu að sjá um flutning veiðarfæranna til Noregs og verður hann samkvæmt framansögðu að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Fallist er á með héraðsdómi að sannað sé með framburði skipstjóranna tveggja á Arctic Viking að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi sett sig í samband við þá með það fyrir augum að Arctic Viking flytti veiðarfærin til móts við Remøy Viking. Samkvæmt vitnisburði annars þeirra, Bjarna Petersen, var ekki greitt endurgjald fyrir flutninginn, heldur var þar um að ræða greiða við áfrýjanda.
Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, fluttist áhættan af hinu selda yfir til áfrýjanda við afhendingu á veiðarfærunum í Hafnarfjarðarhöfn, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50/2000, og ber honum því samkvæmt 12. gr. laganna að standa stefnda skil á kaupverði þeirra. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Remøy Sea Viking AS, greiði stefnda, Ísfelli ehf., 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2011.
Mál þetta, sem var tekið til dóms 24. nóvember sl., var höfðað 13. apríl sl.
Stefnandi er Ísfell ehf., Óseyrarbraut 28, Hafnarfirði.
Stefndi er Remøy Sea Viking AS, 6142 Eidså, 1511 Vanylven, Noregi.
Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 192.749,63 norskar krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 179.999,63 norskum krónum frá 15. október 2010 til 15. nóvember 2010, en af 192.749,63 norskum krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda, en til vara er krafist að stefnandi greiði stefnda skaðabætur að jafnhárri fjárhæð og stefnukrafan er og hún verði notuð til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Stefnandi rekur veiðafæraþjónustu og heildsölu með útgerðar-, björgunar- og rekstarvörur fyrir útgerð, en stefndi er norsk útgerð. Í ágúst 2010 óskaði stefndi eftir verðtilboði í rækjutroll frá stefnanda og samdist aðilum um kaup á trolli, ásamt trollkúlum í byrjun september sama ár. Leitaði stefnandi eftir flutningi á veiðarfærunum til Tromsø í Noregi, en aðilum ber ekki saman um hvort stefnandi hafi leitað tilboða í flutninginn í eigin nafni eða fyrir hönd stefnda. Fóru samskipti stefnanda, stefnda og annarra vegna tilboða um flutninginn að mestu fram með tölvupóstum. Þau samskipti verða ekki rakin hér sérstaklega, en að þeim verður vikið að því leyti sem varðar niðurstöðu málsins í niðurstöðukafla dómsins. Eftir nokkra eftirgrennslan um flutning var samið um flutning á veiðarfærunum til Tromsø með rækjuskipi á vegum Eimskipa, en ekki varð úr þeim flutningi þar sem rækjuskipið hætti við för sína til Noregs og hélt þess í stað til Kanada. Stefnda var hins vegar farið að liggja á veiðarfærunum vegna fyrirhugaðra veiða. Því varð úr að samið var við færeyska útgerðarfélagið Líðin P/F um flutning með skipi sínu, Arctic Viking, en það skip og skip stefnda, Remøy Viking, voru bæði á leið til veiða fyrir norðan Svalbarða. Tók áhöfn Artic Viking á móti veiðarfærunum í Hafnarfjarðarhöfn 30. september 2010, en stefnandi hafði bundið stroffur utan um varninginn. Því næst voru veiðarfærin flutt með Artic Viking til móts við Remøy Viking. Þegar skipin mættust fyrir norðan Svalbarða misfórst hins vegar flutningur á veiðarfærunum milli skipanna, með þeim afleiðingum að trollið sökk í hafið.
Aðila greinir á um atburðarásina þegar veiðarfærin voru flutt milli skipanna. Stefnandi greinir svo frá að eftir því sem hann komist næst hafi skipstjóri Remøy Viking stjórnað aðgerðum og að trollið hafi tapast þegar reynt hafi verið að hífa það um borð í Remøy Viking. Skipstjórinn hafi gefið fyrirmæli um að setja festingar í stroffurnar sem bundnar hafi verið utan um trollið og trollkúlurnar, en síðan skyldi þeim slakað niður um rennuna á Arctic Viking, þaðan sem veiðarfærin hafi verið dregið í átt að skutrennu Remøy Viking. Þegar áhöfn Remøy Viking hafi reynt að hífa trollið ásamt kúlunum um borð, hafi stroffurnar utan um trollið slitnað. Við það hafi trollið sokkið í hafið. Áhöfn Remøy Viking hafi reynt að slæða trollið af hafsbotni án árangurs. Stefndi greinir hins vegar svo frá að stefnandi hafi skipulagt flutninginn milli skipanna. Í þeim tilgangi hafi hann útbúið stroffur utan um varninginn og hugmyndin hafi verið að flytja veiðarfærin milli skipanna með því að festa krók frá Remøy Viking í stroffurnar. Stroffurnar hafi svo gefið sig þegar byrjað hafi verið að draga veiðarfærin á milli skipanna. Áhöfn Remøy Viking hafi einungis fengið trollkúlur um borð í skipið, ásamt fjórum slitunum stroffum og átta bandendum. Stefndi hafi svo leitað trollsins í hálfan dag, en án árangurs. Stefndi kveðst svo síðar hafa látið gera þolpróf á stroffunum, sem leitt hafi í ljós að bandið í stroffunum hafi gefið sig.
Þann 30. september 2010, sama dag og veiðarfærin fóru um borð í Arctic Viking í Hafnarfjarðarhöfn, gaf stefnandi út vörureikning að fjárhæð 179.999,63 norskar krónur. Að sögn stefnanda var það kaupverð trollsins án flutningskostnaðar. Reikningur fyrir 350 trollkúlum, 300 notuðum og 50 nýjum, að fjárhæð 12.750 norskar krónur, var svo gefinn út 11. október sama ár. Stefndi hafi hins vegar ekki greitt reikningana og kveðst stefnandi því hafa sent stefnda innheimtubréf 13. janúar 2011. Þar hafi hann gert stefnda grein fyrir því að innheimtumál yrði höfðað fyrir dómstólum ef stefndi myndi ekki greiða umrædda reikninga. Stefndi hafi sent svarbréf 18. sama mánaðar og rakið þar sjónarmið af sinni hálfu og þá staðhæfingu að trollið, ásamt 50 nýjum trollkúlum, hafi ekki verið afhent. Framkvæmdastjóri stefnda viðurkenni því að tekist hafi að bjarga trollkúlum fyrir verðmæti að fjárhæð 7.500 norskar krónur. Stefndi hafi hins vegar í engu hafa svarað áskorunum stefnanda um að greiða skuldina. Stefndi hafi ekki mótmælt greiðsluskyldu samkvæmt reikningi fyrir trollkúlurnar og virðist greiðsludráttur hans einungis til kominn þar sem stefnandi hafi gert kröfu um greiðslu fyrir trollið. Stefndi kveður báða reikningana bera það með sér, ofarlega til vinstri á reikningsblöðunum, að afhendingarstaður vörunnar sé í Noregi á heimilisfangi stefnda, en vörurnar hafi hins vegar ekki hafa verið afhentar.
Fyrir dóminn kom fyrirsvarsmaður stefnda, Jack Remøy og gaf aðilaskýrslu. Þá báru vitni Jónas Þór Friðriksson, sölu- og markaðsstjóri stefnanda og Kári Páll Jónasson, netagerðarmeistari. Bjarni Petersen, skipstjóri Arctic Viking, Niklái Petersen, einnig skipstjóri Arctic Viking og Albin Müller, trollstjórnandi stefnda gáfu sinn vitnisburð gegnum síma. Vikið verður að framburði aðila og vitna eftir því sem tilefni þykir til í niðurstöðukafla dómsins.
II.
Stefnandi byggir kröfur sína á hendur stefnda á almennum reglum kröfuréttar og samningaréttar. Stefnandi hafi að fullu efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi aðila með því að afhenda stefnda allar þær vörur sem tilgreindar séu á reikningum sem stefnda hafi verið sendir. Stefnandi eigi rétt á endurgjaldi fyrir vörurnar til samræmis við reikningana. Stefndi hafi hins vegar neitað að greiða reikningana, meðal annars með þeim rökum að hann hafi ekki fengið hinar keyptu vörur í hendur.
Stefnandi byggir á því að afhending vöru skipti grundvallarmáli í kauparétti varðandi það hvenær áhættan af söluhlut flyst frá seljanda til kaupanda. Hann byggi á því að hann hafi afhent vöruna í samræmi við fyrirmæli stefnda í Hafnarfjarðarhöfn, í hendur flutningsaðila sem stefndi hafi sjálfur útvegað og fengið til að flytja vöruna frá viðtökustað til stefnda. Stefnandi hafi þannig afhent stefnda vörurnar samkvæmt útgefnum reikningum og að fullu efnt kaupsamning aðila. Stefnandi vísi í þessu sambandi við ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2000. Stefnandi eigi þannig kröfu á hendur stefnda sem nemi fjárhæðum reikninganna frá gjalddögum reikninganna til greiðsludags, annars vegar frá 15. október 2010 og hins vegar frá 15. nóvember 2010.
Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. kaupalaga nr. 50/2000 flytjist áhættan yfir til kaupanda þegar söluhlutur hefur verið afhentur í samræmi við ákvæði samnings eða í samræmi við ákvæði 7. gr. sömu laga. Stefnandi vísar jafnframt til 12. gr. sömu laga, sem kveði á um að aðaláhrif þess að áhætta flyst yfir til kaupanda sé að greiðsluskylda kaupanda standi óhögguð þó að hið selda skemmist eða farist. Í 12. gr. segi að þegar áhættan af söluhlut hafi flust yfir til kaupanda falli skylda hans til þess að greiða kaupverðið ekki niður þótt hluturinn eftir það farist, skemmist eða rýrni ef um er að ræða atvik sem ekki verða rakin til seljanda. Byggir stefnandi á að atvik þau er leiddu til þess að hið selda fórst við flutning milli skipa í Barentshafi verði hvorki rakin til afhafna eða afhafnaleysis stefnanda, né hafi framkvæmd flutningsins verið á hans ábyrgð. Stefndi hafi fyrir löngu tekið við trollinu og eignarrétturinn flust yfir til hans og þar með áhættan af því ef það skemmdist eða færist. Beri stefnda því að greiða fyrir trollið og trollkúlurnar óháð því hvort honum hafi tekist að hagnýta sér þá vöru sem tilgreind sé á hinum útgefnu reikningum eða ekki. Stefndi virðist ekki mótmæla með nokkrum öðrum hætti greiðsluskyldu samkvæmt hinum útgefnu reikningum.
Þá byggir stefnandi einnig á almennum söluskilmálum stefnanda sem gildi um viðskipti stefnanda og stefnda og almennum reglum kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.
Stefnandi kveður málskostnaðarkröfu sína eiga sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þess sé krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé gerð með vísan til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá vísar stefnandi til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 6., 7., 12., 13., 48., 51. gr. laganna og til almennra reglna kröfu- og samningaréttar.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi aldrei fengið afhenta þá vöru sem hann pantaði hjá stefnanda. Skýrt komi fram í tölvupósti frá 2. september 2010 að hann óski eftir að verðið í viðskiptunum sé miðað við afhendingu vörunnar í Tromsö. Eftir að sú ósk hafi komið fram frá stefnda hafi stefnandi gert honum tilboð með tölvupósti og tiltaki þar að heildarverðið fyrir trollið, trollkúlur og flutning til Tromsö séu 200.000 norskar krónur. Þessu tilboði hafi stefndi tekið með tölvupósti þar sem hann segist staðfesta að þeir séu sammála. Þar með hafi samningur verið kominn á milli aðila.
Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi í framhaldi af ósk stefnda um afhendingu á vörunni í Tromsö alfarið gengið einn í það að gera samninga við flutningsaðila. Stefnandi hafi með tölvupósti fengið tilboð frá Eimskip um flutning á trolli til Tromsö, stílað á sig, áður en gengið hafi verið frá vöruviðskiptum milli stefnanda og stefnda. Þar hafi stefndi hvergi komið nærri. Stefnandi hafi einnig fengið annað tilboð um flutning frá umboðsaðila Eimskips í Tromsö. Það tilboð hafi einnig verið stílað á stefnanda, enda hafi hann alfarið séð um öflun tilboðsins. Samningur stefnanda og hafi komist á 2. september 2010, klukkan 13:44 að íslenskum tíma eða 11:44 að norskum tíma, þegar umboðamaður Eimskips í Noregi hafi samþykkt gagntilboð stefnanda að fjárhæð 12.500 norskar krónur. Stefndi vísi til þess að með tölvupósti klukkan 11:14 að norskum þennan sama dag hafi komið skýrt fram af hálfu stefnda að hann hafi ekki gert neinn samning um flutning heldur verði stefnandi sjálfur að sjá um slíkt sjálfur. Stefnandi hafi sagt: „Ég hélt að þú hefðir samþykkt verð fyrir flutninginn 10-15000 norskar krónur“. Stefndi hafi svarað: „Nej, Jeg har ikke gjört noen avtale, den må du gjöre, jeg fikk indikasjon“.
Stefndi kveðst leggja á það áherslu að það hafi orðið sér vonbrigði þegar skipið hafi siglt til Kanada en ekki til Tromsö. Það hafi skipt hann miklu að fá veiðarfærin á þeim tíma sem aðilar hafi samið um. Um það vísi stefndi til tölvupósts milli sölustjóra stefnanda og skipstjóra Artic Viking frá 28. september 2010, en þar komi sérstaklega fram að stefnandi sé kominn í vandræði með þá afhendingu sem hann hafi samið um. Sölustjóri stefnanda segi: „Now we are having trouble regarding the delivery of the trawl as they need it for next trip and they are due in Tromsö middle of next week and will only stop for one day so the trawl will probably not make it on time if we send it with Eimskip“. Við þessa breytingu hafi stefnandi verið orðinn of seinn að senda trollið til Frediksstad og þaðan áfram til Tromsö.
Stefndi hafi lagt á það áherslu við stefnanda að lausn yrði fundin og bent stefnanda á þann möguleika að fiskiskip frá færeysku félagi væri hugsanlega statt á Íslandi og á leið til Noregs. Stefndi vísi til þess að stefnandi hafi alfarið séð um að gera samninginn við færeyska skipið. Það komi fram í tölvupóstsamskiptum sölustjóra stefnanda og skipstjóra færeyska skipsins Arctic Viking frá 28. og 29. september 2010. Þar hafi stefnandi náð samningi um að færeyska skipið taki að sér flutning á vörunni til stefnda.
Stefndi byggir á því að ofangreindir samningar hafi allir verið á ábyrgð stefnanda og þeir staðfesti útfærsluna á þeim samningi sem aðilar gerðu með sér. Eftir að stefndi hafi óskað eftir tilboði miðað við afhendingu í Tromsö og eftir að hann hafi ekki sagst gera samning um flutninginn, heldur skyldi stefnandi gera það, hafi stefnandi einn unnið að því að afla tilboða í flutninginn og gera um hann samninga. Stefndi vísar til þess að sú breyting sem stefnandi hafi gert á afhendingarstað til að valda stefnda ekki tjóni og verða þar með skaðabótaskyldur vegna seinkunar á afhendingu, hafi alfarið verið á ábyrgð stefnanda. Hann hafi verið kominn í þá stöðu að geta ekki afhent vöruna í Tromsö fyrr en eftir vikur og það hafi getað kostað sitt. Stefnandi hafi tekið þá ákvörðun að hann skyldi afhenda vöruna á hafi úti og því hafi hann tekið ábyrgð á vörunni þar til hún hafi komist í hendur stefnda, eins og hann hafi borið ábyrgð á henni við afhendingu í Tromsö.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ákveðið hvernig flutningurinn milli skipanna skyldi útfærður og að hann hafi í því skyni útbúið sérstakar stroffur sem trollinu og kúlunum hafi verið pakkað í. Stefndi vísar til þess að báðir aðilar séu sammála því að stroffurnar hafi gefið sig þegar verið var að koma veiðarfærunum á milli skipanna. Stroffurnar hafi slitnað og trollið sokkið í sjóinn en kúlurnar flotið upp. Stefndi byggir á því að eitthvað hafi brostið í stroffunum sem útbúnar hafi verið af stefnanda og stefnandi beri á því ábyrgð að þær hafi ekki dugað til flutningsins á milli skipanna.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki afhent stefnda veiðarfærin, hvorki í Tromsö né í Barentshafinu. Veiðarfærin hafi því verið á ábyrgð stefnanda þegar þau sukku í hafið. Stefndi byggir á því að stefnanda hafi borið skylda til að tryggja vörusendinguna, en hafi stefnandi hafi verið í þeirri trú að stefndi hefði móttekið vöruna fyrir flutninginn, þá hafi stefnanda borið skylda til, samkvæmt lögum um lausafjárkaup, að tilkynna stefnda að varan væri send honum ótryggð, þannig að stefnda gæfist kostur á að tryggja vöruna.
Stefndi vísar til þess að varakrafa hans sé gerð ef svo ólíklega vilji til að ábyrgðin á veiðarfærunum hafi færst yfir á stefnda áður en þau hurfu í hafið. Varakröfuna byggi stefndi á því að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda þar sem hann hafi valdið honum tjóni með því að senda stroffur með veiðarfærunum, sem ekki hafi verið nægjanlega sterkar og í þeim hafi verið galli sem leitt hafi til þessa að þær hafi ekki dugað til að koma veiðarfærunum á milli skipanna. Stefnandi beri ábyrgð á getu stroffanna til að þola dráttinn á milli skipanna. Stefnandi sé einnig sérfræðingur á þessu sviði sem ugglaust hafi margoft útbúið útbúnað til flutnings á veiðarfærum á milli skipa. Honum hafi því alfarið mátt treysta til að hafa þann búnað í lagi. Stefndi vísar til þolprófunar sem gerð hafi verið á stroffunum. Niðurstaða prófunarinnar sé sú að stroffurnar hafi ekki gefið sig á hnútum heldur hafi kaðallinn sjálfur gefið sig og verið gallaður. Þá vísar stefndi vísar einnig til þess varðandi varakröfu sína að það hafi verið stefnandi sem hafi ákveðið að fara þessa leið og á henni eigi hann að bera ábyrgð og bæta fyrir það tjón sem hún leiddi til. Þá geri stefndi einnig þá kröfu að skaðabæturnar verði notaðar til skuldajafnaðar, verði hann dæmdur til að greiða fyrir veiðarfærin. Stefndi telji kröfurnar bærar til skuldajafnaðar þar sem þær séu milli sömu aðila og af sömu rótum runnar.
Stefndi vísar til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum til 1. gr., 8. gr., 11. gr., 13. gr., 17. gr., 40. gr. og 67. gr., svo og til reglna kröfuréttar og samningalaga svo og til skaðabótareglna innan og utan samninga. Málskostnaðarkrafa stefnda sé byggð á 129. gr. og 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
IV.
Eins og rakið hefur verið greinir aðila meðal annars á um hvort Jónas Þór Friðriksson, sölustjóri stefnanda, hafi leitað eftir flutningunum á veiðarfærunum fyrir hönd stefnanda eða stefnda. Fyrir liggur að fyrst í stað átti að flytja veiðarfærin til Noregs með rækjuskipi á vegnum Eimskips. Eimskip þurfti hins vegar að hverfa frá þeim samningi þar sem ferðir skipsins breyttust og kemur því ekki til álita hvor aðila þessa máls var bundinn við þann samning. Í framhaldinu þurfti að semja að nýju um flutning. Samkvæmt gögnum málsins setti Jónas Þór sig í samband við Bjarna Petersen, annan af skipstjórum færeyska skipsins Arctic Viking. Meðal þess sem fram kemur í tölvupósti sem Jónas Þór sendi Bjarna 28. september 2010 er eftirfarandi: „Now we are having trouble regarding the delivery of the trawl as they need it for next trip and they are due in Tromsö middle of next week and will only stop for 1 day so the trawl will probably not make it on time if we send it with Eimskip. I have spoken to Jack and he tells me that you will be going to the Barents-sea where they are going and we were thinking if it would be possible for you to take the trawl with you when you leave here next week?“ Í svari Bjarna daginn eftir segir: „Hey Yes I am sure we can take the RV trawl but it is better to ask Niklái the other shipper wich shall on next trip...“. Jónas Þór svaraði Bjarna samdægurs, en í svarinu kemur meðal annars fram: „...I have spoken to Jack Remøy, he has already spoken with Niklái and he said it was no problem taken the trawl...“ Að lokum sendi Bjarni aftur tölvupóst til baka sama dag, en í honum segir meðal annars: „...No You du not need to speak to Niklái this was ok. It was only because I do not like to say yes ´ uppá nakka av Niklái ´ you understand, of couse we bring what ever to the other fellowship. we are in the same situations somtime !!!!“ Fyrir dómi skýrði Jónas Þór þessi samskipti sín og Bjarna Petersen á þann veg að hann hafi verið að staðfesta samkomulag sem fyrirsvarsmaður stefnda hafi gert við skipstjórana á Arctic Viking. Stefnandi hafi ekki samið við færeysku útgerðina um flutning og ekki greitt þeim fyrir flutninginn. Fyrir dómi greindi Bjarni Petersen svo frá því að Jack Remøy hefði sett sig í samband við sig og leitað eftir því að Arctic Viking flytti troll fyrir sig til móts við Remøy Viking í Barentshafi. Síðar hafi Jónas Þór hafi komið um borð í Arctic Viking í Hafnarfjarðarhöfn þegar veiðarfærin voru flutt um borð í Arctic Viking til að leiðbeina áhöfninni um hvernig trollið skyldi liggja. Þá greindi Bjarni frá því að Remøy Viking hafi hins vegar ekki fengið greitt fyrir flutninginn, útgerðir væru vanar að gera hvorar öðrum slíka greiða. Þá hafi hann ekki talið að Arctic Viking bæri ábyrgð á farminum, ekki væri venja að ræða um ábyrgð þegar útgerðir gerðu hvorar öðrum slíka greiða. Fyrir dómi greindi Niklái Petersen hinn skipstjóra Arctic Viking svo frá, að Bjarni Petersen hafi tjáð sér að Jack Remøy hafi beðið hann um að flytja trollið frá Hafnarfirði til móts við Remøy Viking. Niklái segist hafa samþykkt þá tilhögun. Síðar hafi Jack Remøy hringt í hann og þeir rætt um flutningana og komist að samkomulagi um þá. Trollið hafi verið tekið um borð í Hafnarfirði og skipin svo mæst norður af Svalbarða.
Með hliðsjón af framburði skipstjóranna tveggja á Arctic Viking, Bjarna Petersen og Niklái Petersen, er óumdeilt að fyrirsvarsmaður stefnda, Jack Remøy, setti sig í samband við skipstjóra Arctic Viking með það fyrir augum að Arctic Viking flytti umrædd veiðarfæri til móts við Remøy Viking. Því er ljóst að ekki var lengur óskað eftir að veiðarfærin yrðu flutt til Tromsö í Noregi. Skoða verður framangreind tölvupóstsamskipti Jónas Þórs starfsmanns stefnanda og Bjarna Petersen skipstjóra Arctic Viking í framangreindu ljósi sem og með hliðsjón af því að hvorki stefnandi né stefndi greiddu fyrir flutninginn með Arctic Viking frá Hafnarfirði. Svar Bjarna Petersen ber ennfremur með sér að hann líti svo á að útgerðin sín sé að gera stefnda greiða með því að flytja veiðarfærin til móts við Remøy Viking, sbr. orðalagið „...of couse we bring what ever to the other fellowship. we are in the same situations somtime !!!!“ Sá skilningur kom aftur fram í vitnisburði Bjarna fyrir dómi. Þannig verður við það að miða að Jack Remøy hafi samið við forsvarsmenn færeysku útgerðarinnar um flutninginn og að Jónas Þór hafi verið að staðfesta þá tilhögun með tölvupóstsamskiptum sínum við Bjarna Petersen skipstjóra Arctic Viking. Ekki er unnt að líta svo á að stefnandi hafi verið aðili að því samningssambandi. Þar sem áhöfn Arctic Viking hafði tekið að sér flutninginn fyrir stefnda er óhjákvæmilegt að líta svo á að skyldum stefnanda hafi verið lokið þegar hann afhenti veiðarfærin í Hafnarfjarðarhöfn, þar sem áhöfn Arctic Viking tók við þeim og flutti til móts við Remøy Viking.
Kemur þá til álita hvort stefnandi hafi engu að síður borið ábyrgð á því að veiðarfærin fóru í hafið, en stefndi byggir á því að stefnandi hafi ákveðið hvernig flutningurinn milli skipanna skyldi útfærður og að hann hafi í því skyni útbúið sérstakar stroffur sem veiðarfærunum hafi verið pakkað í. Fyrir dómi skýrði Jónas Þór, sölustjóri stefnanda, svo frá að starfsmenn stefnanda hafi ekki komið að flutningnum á milli skipanna. Honum hafi ekki verið tjáð flytja ætti veiðarfærin á milli skipa á hafi úti, en hann hafi grunað það. Hann kvað stefnanda hafa lagt stroffurnar til, en að þær væru ekki sérstaklega ætlaðar til flutnings á milli skipa á hafi úti. Hann kvað trollinu hafa verið pakkað í stroffurnar þegar reiknað hafi verið með því að veiðarfærin færu með rækjuskipi Eimskipa til Noregs, þ.e. áður en ljóst hafi orðið að Arctic Viking tæki við því. Þá greindi hann svo frá að ef hann ætti að flytja troll milli skipa á hafi úti, þá myndi hann festa dráttartaug trollið sjálft, en hann treysti sér ekki til að dæma um hvort rangt hafi verið staðið að verki í umrætt sinn. Kári Páll Jónasson, netagerðarmeistari greindi svo frá fyrir dómi að frágangurinn á trollinu hafi verið hefðbundinn, engin sérstök fyrirmæli hafi verið gefin um að pakka ætti trollinu með flutning milli skipa á sjó í huga. Þegar troll væru flutt milli skipa á hafi væri eðlilegra að festa í trollið sjálft. Þá kvað hann stroffurnar engu að síður hafa átt að þola flutninginn milli skipanna, en þó ekki ef trollið færi utan í skip þannig að aukið átak yrði eða ef að trollið festist í skipi. Fyrir dómi skýrði Niklái Petersen skipstjóri á Arctic Viking í ferðinni norður fyrir Svalbarða svo frá að um klukkustund áður en trollið hafi verið flutt milli skipanna fyrir norðan Svalbarða, hafi hann og skipstjóri Remøy Viking, rætt saman um flutninginn. Hann hafi spurt skipstjóra Remøy Viking hvernig þeir ættu að standa að flutningnum. Þeir hafi rætt um það að trollið skyldi fara á milli í stroffunum sem það hefði komið í frá Hafnarfirði. Veðrið hefði verið fínt þegar flutningurinn fór fram og skipin hefðu snúið afturendum saman þegar Remøy Viking hefði komið taug til Arctic Viking sem fest hafi verið í stroffurnar utan um trollið. Því næst hafi trollið ásamt flotkúlum verið dregið af Remøy Viking niður rennu Arctic Viking til móts við Remøy Viking, en Arctic Viking hafi aukið fjarlægðina milli skipanna. Í drættinum milli skipanna hafi trollið svo rekið aðeins til hliðar. Eftir því sem hann hafi best séð, hafi dráttartaugin dregist utan í Remøy Viking stjórnborðsmegin. Nokkur vegalengd hafi verið milli skipanna, en frá Arctic Viking séð, hafi trollpokinn virst reka upp í skutinn á Remøy Viking stjórnboðsmegin. Sökum vegalengdarinnar hafi hann þó ekki séð nákvæmlega hvernig þetta gerðist, en þó það að trollið hafi komið upp undir skut Remøy Viking stjórnborðsmegin. Eftir því sem hann best vissi hafi ekki verið teknar neinar myndir af þessu. Albin Müller, trollstjórnandi á Remøy Viking lýsti einnig flutningnum á veiðarfærunum milli skipanna fyrir dómi. Hann greindi svo frá að hann hafi séð trollið fara niður rennuna á Arctic Viking en svo hafi það horfið sjónum hans. Hann geti ímyndað sér að stroffurnar sem veiðarfærin hafi verið pökkuð inn í hafi gefið sig undan þunga trollsins þegar í hafið hafi verið komið. Hann hafi starfað við netagerð og kveður að vaninn sé að nota þykkari stroffur en gert hafi verið í þessu tilfelli. Hann kveður skipstjóra beggja skipanna, Arctic Viking og Remøy Viking, hafa stjórnað flutningunum milli skipanna.
Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu stefnda að stefnandi hafi skipulagt flutninginn milli skipanna og í því skyni útbúið umræddar stroffur. Fram er komið að veiðarfærunum var pakkað áður en ákveðið var að veiðarfærin skyldu flutt með Arctic Viking. Þegar það lá fyrir hafi Jónas Þór starfsmaður stefnanda komið um borð í Arctic Viking til að leiðbeina um það hvernig veiðarfærunum skyldi komið fyrir, en ekkert liggur fyrir um frekari aðkomu hans eða annarra starfsmanna stefnanda að flutningnum eftir það. Frásögnum vitna ber ekki saman um hvað olli því að veiðarfærin misfórust, en fyrir liggur að taugin frá Remøy Viking sem var ætlað að draga veiðarfærin var fest í stroffurnar, en ekki í trollið. Albin Müller, trollstjórnandi á Remøy Viking kveður veiðarfærin hafa horfið í hafið strax eftir að þau fóru niður rennuna á Arctic Viking, en Niklái Petersen skipstjóri Arctic Viking kveður Remøy Viking hafa dregið þau að skipinu, þar þau hafi komið upp undir skuti skipsins stjórnborðsmegin. Allt að einu liggur ekki fyrir að stroffurnar hafi verið útbúnar í þeim tilgangi að draga veiðarfærin á milli skipanna þannig að stefnandi beri á því ábyrgð að þær hafi ekki dugað til þess flutningsins. Því verður aðalkrafa stefnda um sýknu ekki tekin til greina.
Af framangreindu leiðir að ekki eru heldur efni til að taka til greina varakröfu stefnda um greiðslu skaðabóta sem nemi fjárhæð hinna umkröfðu reikninga.
Samkvæmt framansögðu eru dómkröfur stefnanda teknar til greina og er stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 192.749,63 norskar krónur, með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.
Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Stefndi, Remøy Sea Viking AS, greiði stefnanda, Ísfelli ehf., 192.749,63 norskar krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 179.999,63 norskum krónum frá 15. október 2010 til 15. nóvember 2010, en af 192.749,63 norskum krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.