Hæstiréttur íslands
Mál nr. 170/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 26. mars 2007. |
|
Nr. 170/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X(Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. apríl 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðahalds. Að því frágengnu er þess krafist að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðila var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2007 gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Byggðist úrskurðurinn á því að fram væri kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hefði átt aðild að þjófnaði á þremur armandsúrum í verslun í Reykjavík. Með dómi Hæstaréttar 15. mars 2007 var úrskurðurinn felldur úr gildi, þar sem ekki þótti nægjanlega fram komið að skilyrðum b. eða c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt, en varnaraðila hins vegar gert að sæta farbanni allt til 30. mars 2007 kl. 16.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var tveimur fartölvum stolið annars vegar úr verslun í Hafnarfirði 18. mars 2007 og hins vegar úr verslun í Reykjavík 21. sama mánaðar. Varnaraðili hefur játað við yfirheyrslu hjá lögreglunni að hafa stolið tölvunum. Samkvæmt upplýsingum frá Interpol hefur varnaraðili hlotið fjóra refsidóma í heimalandi sínu fyrir rán, þjófnaði og eignaspjöll, síðast árið 2001. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á að skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Ekki er ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en gert er í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X, litháskur ríkisborgari, fd. 6. janúar 1979, til heimilis í Litháen, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. apríl 2007, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 12. þ.m. hafi lögreglu boris tilkynning frá verslun Kornelíusar, Bankastræti 6, Reykjavík, vegna tveggja útlendinga sem væru að reyna að selja úr sem talið var að væri þýfi. Þegar lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi þeim verið vísað á kærða og annan mann sem hafi verið með honum. Tilkynnandi hafi greint frá því að kærði og samferðamaður hans, A, hefðu komið skömmu áður inn í verslun hans að Bankastræti 12 og boðið honum armbandsúr til sölu. Hafi honum þótt mennirnir grunsamlegir og hafi úrin verið sömu tegundar og hann hafði áður fengið upplýsingar um að hefði verið stolið úr versluninni MEBU í Kringlunni. Hafi tilkynnandi ákveðið að fylgja mönnunum eftir þar sem þeir fóru inn í verslun Kornelíusar þar skammt frá en þar hafi hann tekið úrin af mönnunum. Eigandi verslunar Kornelíusar hafi greint lögreglumönnum frá því að mennirnir hefðu komið inn í verslunina og boðið honum armbandsúr til kaups. Lagt hafi verið hald á armbandsúrin en þau hafi verið þrjú talsins. Kærði og A hafi verið handteknir og færðir á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Vegna tungumálaörðugleika hafi gengið illa að tala við kærða og hafi hann verið ósamvinnuþýður og hafi komið til átaka við kærða á lögreglustöðinni. Við leit á kærða hafi fundist gasvopn og hnífur. Kærði hafi neitað að gefa upp persónuupplýsingar en þær upplýsingar hafi síðar fengist sama dag við nánari athugun á dvalarstað kærða, sbr. upplýsingaskýrslu Hákons B. Sigurjónssonar lögreglufulltrúa, dags. 13. þ.m. Að sögn fyrirsvarsmanns MEBU, B, hafi úrunum verið stolið í versluninni þann 12. þ.m. og sé verðmæti þeirra kr. 262.780, sbr. nánar framburðarskýrslu B frá 13. þ.m. Kærði hafi verið yfirheyrður 13. þ.m. vegna málsins en kærði hafi neitað sök en kvaðst hafa tekið við armbandsúrunum 12. þ.m. frá rússneskumælandi manni sem hafi beðið hann og A um að selja úrin fyrir sig og ekkert hefði verið talað um að úrin væru þýfi. Er nánar vísað til framburðarskýrslu kærða 13. þ.m. Einnig er vísað nánar til framburðarskýrslu A 13. þ.m.
Þann 22. þ.m. var tilkynnt um þjófnað í verslun BT í Firði í Hafnarfirði sem hafði átt sér stað þann 18. þ.m. Stolið hafði verið Toshiba fartölvu úr versluninni að verðmæti kr. 179.999. Fyrir liggi upptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi af verknaðinum sem sýnir 5 karlmenn sem komu inn í verslunina á umræddum degi, tveir mannanna hafi athafnað sig við hillu þar sem fartölvur voru til sýnist og annar mannana tók eina tölvu úr hillunni, lokaði henni og stakk henni inn á sig og síðan fór hópurinn út úr versluninni. Lögregla hafi borið kennsl á kærða sem þann mann sem tók fartölvuna og stakk henni inn á sig. Einnig liggi fyrir að bróðir kærða, C, [kt.], hafi staðið með kærða við hilluna og liggi fyrir að hinir þrír mennirnir voru D, litháskur ríkisborgari [kt.], A, litháskur ríkisborgar, fd. 28. febrúar 1988 og litháskur ríkisborgari sem mun heita E. Kærði var yfirheyrður í gærkvöldi þar sem hann játaði að hafa stolið fartölvunni í umrætt skipti og kvaðst hafa verið einn að verki.
Þann 22. þ.m. hafi verið tillkynnt um þjófnað í verslun BT í Skeifunni í Reykjavík sem hafði átt sér stað að kvöldi 21. þ.m. Stolið hefði verið Fujitsu fartölvu úr versluninni að verðmæti kr. 149.999. Fyrir liggi upptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi af verknaðinum sem sýnir 4 karlmenn inni í versluninni. Mennirnir hafi allir farið að sölubás með fartölvum og tveir mannanna haft sig meira í frammi og sést að annar þeirra tekur tölvuna og stingur henni inn á sig. Lögregla hafi borið kennsl á kærða sem þann mann sem tók fartölvuna og stungið henni inn á sig. Einnig liggi fyrir að F, litháskur ríkisborgari fd. 18. apríl 1985, sem býr á sama gistiheimili og kærði, var með honum við hilluna þegar tölvan var tekin. Sömu samferðamenn hafi verið með kærða og í máli nr. 007-2007-20178 að frátöldum nefndum E og A. Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins í gærkvöldi þar sem hann játaði að hafa stolið fartölvunni og kvaðst hann hafa verið einn að verki.
Þann 12. þ.m. hafi borist upplýsingar frá Interpol um að kærði hefði á árunum 1993 2001 hlotið fjóra refsidóma. Árið 1993 hafi verið kærði dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir rán. Árið 1996 hafi kærði verið dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir rán og eignaspjöll. Árið 2001 hafi kærði verið dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir rán og sama ár hafi kærði verið dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir þjófnað.
Skv. upplýsingum frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi kærði komið til landsins 7. þ.m. Kærði sé ekki með vinnu hér á landi og skv. upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi kærði ekki sótt um dvalarleyfi.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. þ.m. hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna máls nr. 007-2007-17614 til 30. þ.m. en kærði hafi skotið málinu til Hæstaréttar með kæru sama dag og hafi Hæstiréttur fellt gæsluvarðhaldið úr gildi þar sem ekki þótti nægjanlega fram komið að skilyrðum b- eða c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt. Skv. dómi Hæstaréttar hafi kærða hins vegar verið bönnuð brottför af landinu samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 allt til föstudagsins 30. mars 2007, kl. 16:00. Forsendur þykja hafa breyst vegna fyrirliggjandi þjófnaðarbrota kærða 18. og 21. þ.m. og því rétt að krefjast gæsluvarðhalds að nýju vegna kærða.
Að mati lögreglu þyki vera fyrir hendi rökstuddur grunur um meint auðgunarbrot kærða. Unnið sé að rannsókn málanna en við það er miðað að rannsókn verði flýtt svo unnt verði að taka ákvörðun um saksókn sem fyrst, sbr. 111. og 112. gr. laga nr. 19/1991. Kærði sé erlendur ríkisborgari og með takmörkuð tengsl við landið að öðru leyti en því að hann dvelst með E á sama gistihúsi og bróðir kærða, C, sem dvalist hefur hér á landi vegna atvinnu síðastliðinn mánuð. Eins og að framan greinir sé kærði nýkominn til landsins og hann sé án atvinnu. Við húsleit í almennu rými á gistiheimili kærða í gærkvöldi hafi fundist raftæki sem grunur leiki á að sé þýfi. Með hliðsjón af sakaferli kærða í Litháen, fyrirliggjandi meintum auðgunarbrotum kærða svo skömmu eftir komuna til landsins og þeim verknaðaraðferðum sem virðast hafa verið viðhafðar í verslunum BT þann 18. og 21. þ.m., þá er það mat lögreglu að áframhaldandi dvöl kærða tengist fyrirhuguðum afbrotum hans og samverkamanna hans hér á landi. Að mati lögreglu þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir frekari brot og til að tryggja nærveru hans hér á landi þar til máli hans sé lokið.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og b- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði er litháískur ríkisborgari og hefur takmörkuð tengsl við landið. Kom hann hingað til landsins í byrjun þessa mánaðar. Hann var fyrst handtekinn 13. þ.m. vegna gruns um þjófnað úr verslun í Reykjavík. Í framhaldi af því var kærði úrskurðaður í farbann til 30. mars nk. Samkvæmt gögnum málsins og játningu kærða hefur hann síðan verið uppvís af tveimur þjófnuðum í verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur lögregla upplýst að við húsleit á dvalarstað hans hafi fundist raftæki sem lögregla telur þýfi. Fangelsisrefsing er lögð við þeirri háttsemi sem kærði er borinn sökum um. Með vísan til þessa og rannsóknargagna er fallist á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt þessu má því ætla að kærði muni halda áfram brotum, ef hann fer frjáls ferða sinna meðan máli hans er ekki lokið. Verður að telja að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn stendur. Er því fullnægt skilyrðum b- og c- liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 til að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Samkvæmt því verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði en ekki er talin ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, litháskur ríkisborgari, fd. 6. janúar 1979, til heimilis í Litháen, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. apríl 2007, kl. 16:00.