Hæstiréttur íslands

Mál nr. 518/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 2. september 2010.

Nr. 518/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. september 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. september 2010 kl. 16.00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist sé af hálfu lögreglu.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að þriðjudaginn 24. ágúst s.l. hafi þau Y, kt. [...], og Z, kt. [...], verið stöðvuð af tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komuna til landsins en þau hafi verið að koma með flugi Iceland Express nr. AEU-184 frá Alicante á Spáni. Við leit tollgæslu hafi Z framvísað fíkniefnum, sem hún hafi falið innvortis í líkama sínum. Samkvæmt niðurstöðu tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið um ríflega 304 grömm af kókaíni að ræða. Þá hafi Y einnig falin fíkniefni innvortis en hann hafi verið samferðarmaður Z. Hafi hann nú skilað af sér fíkniefnum og þegar hafi verið mæld af tæknideild 160 g af kókaíni.

Fram hafi komið í framburðum Y og Z að þau hafi verið fengin til fararinnar af öðrum aðilum. Hafi nafn Þ, kt. [...], verið nefnt sem milliliður milli Z og Y annars vegar og aðila sem fjármagnað hafi og skipulagt innflutninginn hins vegar. Þá hafi nafn X, kt. [...], jafnframt verið nefnt og hafi hann nú verið handtekinn ásamt Þ.

Eftir töluverða leit hafi lögregla hinn 30. ágúst 2010 náð að handtaka kærða ásamt Þ á dvalarstað þeirra að [...], [...]. Hafi jafnframt verið aflað húsleitarúrskurðar hjá dómnum á dvalarstað kærða og unnustu hans að [...] og fjöldi muna verið haldlagður, þar á meðal töluvert magn af tölvum og símum.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi og að Z og Y hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 31. ágúst nk. en farið verði fram á að gæsluvarðhald þeirra verði framlengt. Rannsókn málsins sé nokkuð umfangsmikil. Lögregla beini rannsókn sinni einkum að fjármögnunaraðilum og eigendum þeirra efna er Z og Y hafi flutt til landsins. Hafi Þ viðurkennt að hafa ekið þeim á flugvöllinn greint sinn og að hafa haft grunsemdir um að ferð þeirra tengdist innflutningi fíkniefna. Verulegs ósamræmis gæti í framburði aðila. Lögreglan telji að fleiri aðilar tengist málinu og liggi fyrir að kanna haldlagða muni, þ.e. síma og tölvur, í því skyni að varpa frekara ljósi á ætlaða samverkamenn. Telji lögreglan að þau fíkniefni, sem flutt hafi verið til landsins í greint sinn, bendi til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi kærða kunni því að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæði laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji ennfremur að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. september 2010 kl. 16.00.

Með vísan til framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni, sem varðað getur fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og með vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfur lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði þessum.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. september nk. kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.