Hæstiréttur íslands

Mál nr. 223/2008


Lykilorð

  • Slysatrygging
  • Matsmenn
  • Hæfi
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


                                     

Fimmtudaginn 5. febrúar 2009.

Nr. 223/2008.

Einar Axel Gústafsson

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

Auðbjörgu ehf. og

Verði tryggingum hf.

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

 

Slysatrygging. Matsmenn. Hæfi. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

Deilt var um afleiðingar slyss er E varð fyrir við vinnu um borð í Arnarbergi ÁR 150. Hinn 26. júní 2007 fór V fram á dómkvaðningu matsmanna. Mátu þeir varanlegan miska 3 stig en varanlega örorku enga. Í þinghaldi 30. nóvember 2007 féll E frá dómkvaðningu yfirmatsmanna, sem hann hafði óskað eftir, en lagði jafnframt fram bókun með áskorun og gögn vegna meints vanhæfis matsmannsins M, sem hann taldi eiga að leiða til ógildingar matsins. Ágreiningsefnið fyrir Hæstarétti var hvort matsgerð hinna dómkvöddu manna yrði metin fullgilt sönnunargagn vegna starfstengsla matsmannsins M við V. E kvaðst hafa komist að því eftir að matsgerð var lokið að M hefði unnið fyrir V. Taldi E að líta ætti fram hjá matsgerðinni og byggja á mati tveggja lækna er aðilar höfðu áður sameiginlega óskað eftir. Héraðsdómur hafnaði málflutningi E um þetta og byggði niðurstöðu sína á mati hinna dómkvöddu manna. Þegar virtar voru upplýsingar um tengsl M við V og það að V varð ekki við áskorun um að gera nánari grein fyrir þeim var ekki talið óyggjandi að M hefði uppfyllt skilyrði 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að verða dómkvaddur til mats um þau atriði sem um ræddi og því hefði átt að synja um dómkvaðningu hans ef þessar upplýsingar hefðu þá legið fyrir. Þessi annmarki á málsmeðferðinni í héraði var þess eðlis, að óhjákvæmilegt þótti að ómerkja héraðsdóm án kröfu og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2008. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd sameiginlega til að greiða sér 7.186.231 krónu með 4,5% ársvöxtum af 558.400 krónum frá 25. júlí 2005 til 6. september sama ár, af 7.186.231 krónu frá þeim degi til 23. desember 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms, þó þannig að upphafsdagur dráttarvaxta ákveðist 15 dögum frá dómi Hæstaréttar. Þá krefjast stefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi byggir kröfu sína á slysatryggingu sjómanna í samræmi við ákvæði kjarasamnings og vísar til vátryggingarskilmála stefnda Varðar tryggingar hf. Þar segir meðal annars að sé um líkamstjón að ræða skuli bætur ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga nr. 50/1993 leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Er málinu beint að báðum stefndu með vísan til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þegar af þeirri ástæðu að um slystryggingu er að ræða á nefnd 44. gr. ekki við. Stefndi Auðbjörg ehf. hefur hins vegar ekki byggt varnir sínar á því að kröfu áfrýjanda sé ranglega beint að sér. Samkvæmt þessu beinist krafa áfrýjanda að báðum stefndu.

II

Eins og málið er lagt fyrir Hæstarétt er nú ekki deilt um bótaskyldu, heldur aðeins um afleiðingar slyss þess sem áfrýjandi varð fyrir.

Slysið átti sér stað 25. júlí 2005 er áfrýjandi var við vinnu um borð í Arnarbergi ÁR 150. Hann leitaði þegar læknis og tilkynnti vinnuveitanda um slysið. Um mitt ár 2006 leitaði áfrýjandi sérfræðiálits Stefáns Dalberg bæklunarlæknis, sem taldi hann hafa hlotið svonefndan kramningsáverka á utanverða vinstri hendi, slæma tognun og brot á fimmta handarbeini rétt neðan við grunnlið litla fingurs. Hinn 23. október 2006 óskuðu aðilar sameiginlega eftir mati læknanna Atla Þórs Ólasonar og Guðjóns Baldurssonar. Var niðurstaða þeirra í matsgerð 10. nóvember 2006 að áfrýjandi hefði hlotið kramningsáverka og brot á miðhandarbeini vinstri handar og mátu þeir varanlega örorku 10% og varanlegan miska og hefðbundna læknisfræðilega örorku 8% hvort. Hinn 1. mars 2007 mat Reynir Arngrímsson læknir meiðsli áfrýjanda, vegna bóta frá Tryggingastofnun ríkisins, til 10% varanlegrar örorku og var sjúkdómsgreining „eftirstöðvar kramningsáverka“. Var þessi matsgerð yfirfarin og samþykkt af aðstoðartryggingayfirlækni. Hinn 26. júní 2007 fór stefndi Vörður tryggingar hf. fram á dómkvaðningu matsmanna. Dómkvaddir voru Magnús Páll Albertsson bæklunar- og handarskurðlæknir og Jónas Hallgrímsson meinafræðingur. Niðurstaða ítarlegrar matsgerðar þeirra 10. september 2007 er að áfrýjandi hafi hlotið brot „í fjærenda V. miðhandarleggs“ en ekki hafi verið um aðra áverka að ræða. Var varanlegur miski metinn 3 stig en varanleg örorka engin. Í þinghaldi 30. nóvember 2007 féll áfrýjandi frá dómkvaðningu yfirmatsmanna, sem hann hafði óskað eftir, en lagði jafnframt fram bókun með áskorun og gögn vegna meints vanhæfis matsmannsins Magnúsar Páls Albertssonar, sem hann taldi eiga að leiða til ógildingar matsins. Er málsatvikum nánar lýst í héraðsdómi.

III

Ágreiningsefnið fyrir Hæstarétti er hvort matsgerð hinna dómkvöddu manna verði metin fullgilt sönnunargagn eða hvort óheimilt sé að leggja hana til grundvallar dómi vegna starfstengsla annars matsmannsins við stefnda Vörð tryggingar hf. Áfrýjandi kveðst hafa komist að því eftir að matsgerð var lokið að matsmaðurinn Magnús Páll hefði unnið fyrir stefnda Vörð tryggingar hf. Um þetta hafi verið fjallað við meðferð málsins í héraði, meðal annars munnlegum málflutningi. Héraðsdómur hafi hafnað málflutningi áfrýjanda um þetta og byggt niðurstöðu sína beinlínis á þessari matsgerð.

Matsgerðir dómkvaddra matsmanna sem aflað er samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafa ríkt sönnunargildi í dómsmálum. Forsenda þess er að fylgt hafi verið reglum laganna um form og efni við dómkvaðningu og framkvæmd matsstarfa. Samkvæmt 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 má þann einn dómkveðja til matsstarfa sem „er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta“. Samkvæmt 59. gr. laganna er afstaða vitnis til málsaðila meðal þeirra atriða sem dómari metur þegar hann tekur afstöðu til sönnunargildis vitnisburðar. Stefndi Vörður tryggingar hf. hefur ekki orðið við áskorun áfrýjanda um að upplýsa um umfang starfa matsmannsins Magnúsar Páls Albertssonar í hans þágu og um greiðslur fyrir þau. Matsmaðurinn hefur heldur ekki veitt upplýsingar við rekstur málsins um þessi atriði. Af málsgögnum og skýrslu matsmannsins fyrir dómi verður ráðið að hann hefur í einhverjum mæli undanfarin ár unnið við ráðgefandi álit fyrir hið stefnda tryggingafélag og þá sem verktaki. Sigurður Óli Kolbeinsson, forstöðumaður tjónasviðs stefnda Varðar trygginga hf., bar fyrir dómi að ekki væri fastur ráðgjafarlæknir hjá félaginu en að segja mætti að Magnús Páll gegndi því hlutverki og hafi störf hans fyrir félagið farið vaxandi. Engu að síður taldi hann að umfangið væri ekki mikið. Þá var forstöðumaðurinn spurður að því hvort Magnús Páll hefði komið að máli áfrýjanda. Kvað hann það „ekkert ólíklegt svo sem að við höfum eitthvað leitað ráða hjá honum um þetta, en án þess að ég muni það nákvæmlega.“ Annar læknir hafi aðallega verið ráðgefandi í málinu.

Þegar litið er á þessar upplýsingar um tengsl matsmannsins Magnúsar Páls Albertssonar við stefnda Vörð tryggingu hf. verður ekki talið óyggjandi að hann hafi uppfyllt framangreinda kröfu 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 til að verða dómkvaddur til mats um þau atriði sem um ræðir og því hefði átt að synja um dómkvaðningu hans ef þessar upplýsingar hefðu þá legið fyrir. Af forsendum hins áfrýjaða dóms er ljóst að umrædd matsgerð er lögð til grundvallar dómi. Verður fallist á með áfrýjanda að ekki hafi verið forsendur til þess af þeim ástæðum sem að framan greinir. Þessi annmarki á málsmeðferðinni í héraði er þess háttar, að óhjákvæmilegt er að ómerkja héraðsdóm án kröfu og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Krafa áfrýjanda um málskostnað í héraði kemur til afgreiðslu þar þegar dómur verður lagður á málið.

Miðað við þessi úrslit málsins þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 22. febrúar sl., er höfðað með stefnu, birtri 15. mars 2007.

Stefnandi er Einar Axel Gústafsson, Heiðarbrún 57, Hveragerði.

Stefndu eru Auðbjörg ehf., Hafnarskeiði 19, Þorlákshöfn og Vörður Íslandstrygging hf., Sætúni 8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til greiðslu 7.186.231 krónu, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 af 558.400 krónum frá 25. júlí 2005 til 6. september 2005, af stefnufjárhæðinni, 7.186.231 krónu, frá þeim degi til 23. desember 2006, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 23. desember 2006 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlagðri tímaskýrslu, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda, gegn greiðslu á 251.220 krónum, auk vaxta skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 25. júlí 2005 til greiðsludags. Þá gera þeir kröfu um að stefnandi greiði þeim málskostnað, að mati dómsins.

Málsatvik og ágreiningsefni

Samkvæmt stefnu og öðrum gögnum málsins eru atvik í meginatriðum eftirfarandi:

Stefnandi, sem starfaði sem yfirvélstjóri hjá stefnda, Auðbjörgu ehf., varð fyrir slysi 25. júlí 2005 er hann var við vinnu um borð í skipinu Arnarbergi ÁR 150. Lá skipið í höfn og var verið að búa það til línuveiða. Eftir því sem best er vitað var stefnandi einn um borð og var hann að færa línurekka af dekki niður á millidekk skipsins. Lét hann rekkana, sem munu vera úr stáli og áli, ca 45 kg þungir, síga niður um lúgu á dekki, þannig að þeir stóðu á millidekkinu, en hölluðu ca 50 gráður frá millidekki og í lúguop. Þegar hann var að taka rekkana niður mun einn þeirra hafa runnið til og fallið niður, ca 3,5 metra. Í sömu mund var stefnandi að leggja annan rekka niður og lenti endi þess rekka sem rann niður á vinstra handarbaki stefnanda, sem við það klemmdist á milli rekka. Fékk hann slæma verki í höndina, sem jafnframt bólgnaði upp.  

Stefnandi tilkynnti útgerðarstjóra samdægurs um slysið og leitaði til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Við röntgenmyndatöku kom í ljós brot á MC 5 (miðhandarbeini nr. 5). Var stefnandi settur í gifs og var með það í fjórar vikur. Í desember sama ár leitaði hann aftur til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, m.a. vegna verkja, óþæginda og skertra hreyfinga í 4. og 5. fingri vinstri handar. Í vottorði Egils Rafns Sigurgeirssonar, læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, kemur fram að röntgenmynd hafi þá sýnt eðlilegan gróanda á broti. Jafnframt er tekið fram að í sjúkraskrám stefnanda finnist ekki fyrri upplýsingar um einkenni frá höndum eða fingrum.

Um mitt ár 2006 leitaði stefnandi til Stefáns Dalbergs læknis vegna kraftleysis í hendi. Samkvæmt vottorði læknisins 17. ágúst 2006 kom stefnandi til hans í júní það ár og hafði þá mikil eymsli yfir 4. og 5. miðhandarbeini og gat ekki kreppt fingurna nema að hluta. Átti hann sérlega erfitt með beygja baugfingur og litlafingur og vísaði læknirinn honum í sjúkraþjálfun. Í vottorðinu kemur fram að stefnandi hafi í umræddu slysi hlotið kramningsáverka á utanverða vinstri hendi, slæma tognun og brot á fimmta handarbeini, rétt neðan við grunnlið litlafingurs. Brotið hafi gróið vel í réttri stöðu. Nánast engin hreyfing sé í litlafingri og skertar hreyfingar í baugfingri og löngutöng. Ástandið hafi verið óbreytt í lengri tíma og ekki sé við því að búast að stefnandi verði betri með tímanum. Að áliti læknisins munu afleiðingar slyssins trufla hann mikið við leik og störf.

Umrætt slys var ekki tilkynnt til hins stefnda vátryggingafélags fyrr en 12. október 2006.

Með sameiginlegri matsbeiðni, dagsettri 23. október 2006, óskuðu stefnandi og hið stefnda tryggingafélag eftir því að læknarnir Atli Þór Ólason og Guðjón Baldursson  mætu afleiðingar slyss stefnanda samkvæmt reglum skaðabótalaga nr. 50/1993. Matsgerð þeirra lá fyrir 10. nóvember 2006 og eru niðurstöður hennar eftirfarandi:

1.              Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.:      25.07.2005 - 06.09.2005                              100%

2.              Þjáningabætur skv. 3. gr.- án rúmlegu:         25.07.2005 – 06.09.2005

3.              Stöðugleikapunktur:                      06.09.2005

4.              Varanlegur miski skv. 4. gr.:                  8%

5.              Varanleg örorka skv. 5. gr.:                  10%

6.              Varanleg, læknisfræðileg örorka:                8%

Á grundvelli matsgerðarinnar var hið stefnda vátryggingafélag krafið um skaðabætur til handa stefnanda, alls að fjárhæð 7.186.231 krónu. Í tölvubréfi 21. desember 2006 hafnaði félagið bótaskyldu með þeim rökum að vafi léki á því að um bótaskylt slys hafi verið að ræða. Um leið var tekið fram að þrátt fyrir að félagið hefði greitt læknisvottorð fælist ekki í því viðurkenning á bótaskyldu. Að fengnu svari vátryggingafélagsins höfðaði stefnandi mál þetta til heimtu skaðabóta úr hendi stefndu.

Undir rekstri málsins óskaði stefndi, Vörður Íslandstrygging hf., eftir því að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir matsmenn til þess að leggja mat á heilsufar stefnanda og afleiðingar umrædds slyss. Sammæltust aðilar um að kveðja til matsstarfa Magnús Pál Albertsson, bæklunar- og handarskurðlækni, og Jónas Hallgrímsson lækni. Voru þeir dómkvaddir til starfans og er matsgerð þeirra dagsett 10. september 2007. Niðurstöður matsgerðarinnar eru þessar:

1.              Stöðugleikapunkti telst hafa verið náð 25. september 2005

2.              Tímabil þjáningabóta, án rúmlegu, telst vera 25. júlí 2005 til 6. september 2005

3.              Tímabil tímabundins atvinnutjóns telst vera 25. júlí 2005 til 6. september 2005

4.              Varanlegur miski telst hæfilega metinn 3 (þrjú) stig

5.              Varanleg örorka telst vera engin

Að fenginni niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna bauð vátryggingafélagið fram greiðslu vegna þjáningabóta og varanlegs miska, 251.220 krónur, auk vaxta. Stefnandi hafnaði þeirri greiðslu sem fullnaðaruppgjöri skaðabóta og óskaði eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna, tveggja lækna og eins lögfræðings. Var matsbeiðnin tekin fyrir í þinghaldi 28. nóvember 2007 og yfirmatsmenn dómkvaddir. Í þinghaldi 30. sama mánaðar lýsti stefnandi því yfir að hann félli frá beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Þess í stað lagði hann fram bókun um að stefnandi teldi Magnús Pál Albertsson lækni hafa verið vanhæfan sem dómkvaddan matsmann, þar sem staðfest væri að hann hefði starfað sem ráðgjafarlæknir fyrir hið stefnda vátryggingafélag. Í bókuninni var jafnframt skorað á stefnda að upplýsa frá hvaða tíma Magnús Páll Albertsson hefði starfað sem ráðgefandi læknir fyrir hið stefnda félag, svo og um þær greiðslur sem vátryggingafélagið hefði innt af hendi til hans eða félaga sem seldu þjónustu læknisins á árinu 2007. Ekki var leitað úrskurðar dómsins um hæfi matsmannsins.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir slysi um borð í Arnarbergi ÁR 150 25. júlí 2005. Hafi hann tilkynnt slysið til útgerðar skipsins og leitað læknis vegna þeirra áverka sem hann hlaut. Slysið hafi síðar verið tilkynnt hinu stefnda tryggingafélagi, en stefnandi sé slysatryggður samkvæmt kjarasamningi vegna óhappa sem valdi líkamstjóni vegna vinnu í þágu skips. Hið stefnda útgerðarfélag, Auðbjörg ehf., sé með gilda tryggingu hjá hinu stefnda vátryggingafélagi og sé ágreiningslaust að stefnandi eigi bótarétt vegna slysa, þótt þau verði rakin til einfalds gáleysis stefnanda sjálfs. Þá sé ágreiningslaust að um bætur til handa stefnanda vegna slysa við störf skuli fara eftir reglum skaðabótalaga.

Stefnandi heldur því fram að bótaskylda hafi í raun verið viðurkennd í málinu og bendir því til stuðnings á að engin mótmæli hafi komið fram við tilkynningu um slysið, vottorð hafi verið greitt og tryggingafélagið hafi óskað mats á slysinu, sem trúnaðarlæknir félagsins hafi annast, ásamt öðrum lækni. Hið stefnda útgerðarfélag hafi ekki heldur dregið í efa að slys hafi orðið, þvert á móti hafi það tilkynnt um slysið til tryggingafélagsins. Verði ekki fallist á að fyrir liggi viðurkenning á bótaskyldu, byggir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við vinnu sína, sem sé bótaskylt samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og slysatryggingum sjómanna hjá hinu stefnda tryggingafélagi, og séu stefndu bótaskyldir in solidum, lögum og venju samkvæmt. Aðilar hafi sameiginlega aflað matsgerðar um afleiðingar slyssins, þar sem hvor um sig hafi tilnefnt einn lækni til að gæta hagsmuna sinna og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Mat þeirra lækna sé hlutlaust sönnunargagn í málinu, sem taka beri tilliti til við úrlausn málsins.

Við munnlegan flutning málsins lagði stefnandi áherslu á að í máli þessu lægju fyrir þrjár matsgerðir, þar sem metnar hefðu verið afleiðingar slyss stefnanda. Í fyrsta lagi væri það matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Guðjóns Baldurssonar, sem aðilar hefðu sameiginlega fengið til þess að leggja mat á líkamstjón stefnanda. Niðurstaða hafi þar orðið sú að varanlegur miski var metinn 8% og varanleg örorka 10%. Í öðru lagi væri örorkumatsgerð Reynis Arngrímssonar læknis, frá 1. mars 2007, sem unnin hefði verið fyrir Tryggingastofnun ríkisins vegna afgreiðslu bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í þeirri matsgerð hafi læknisfræðileg örorka stefnanda í kjölfar slyssins verið metin 10%.  Þriðja matsgerðin væri svo matsgerð dómkvaddra matsmanna, læknanna Magnúsar Páls Albertssonar og Jónasar Hallgrímssonar, þar sem þeir mátu varanlegan miska stefnanda til þriggja stiga, en varanlega örorku hans enga.

Stefnandi byggir á því að síðasttalda matsgerðin sé ógild vegna vanhæfis annars hinna dómkvöddu matsmanna, Magnúsar Páls Albertssonar læknis, og verði hún ekki lögð til grundvallar við mat á afleiðingum umrædds slyss fyrir stefnanda. Læknirinn hafi á árinu 2007 sinnt ráðgjafastörfum fyrir hið stefnda tryggingafélag, á sama tíma og hann hafi unnið að matsgerðinni, hann hafi neitað að upplýsa um tekjur sínar hjá félaginu á því ári og ekki síst hafi hann látið ógert að upplýsa stefnanda um tengsl sín við hið stefnda tryggingafélag og störf sín í þess þágu. Í framburði hinna dómkvöddu matsmanna fyrir dóminum hafi komið í ljós að Magnús Páll hafi nánast einn annast matið, skoðun á stefnanda og ritun matsgerðarinnar. Telur stefnandi að matsmaðurinn hafi við vinnslu matsgerðarinnar brotið gegn hinum sérstöku hæfisreglum stjórnsýsluréttarins og megi stefnandi með réttu draga trúverðugleika hans í efa. Um leið hljóti sönnunargildi matsgerðarinnar að verða harla lítið við úrlausn málsins. Þess í stað verði dómurinn að líta til annarra gagna málsins og þá sérstaklega til fyrri matsgerðar, sem unnin hafi verið sameiginlega fyrir aðila málsins af læknunum Atla Þór Ólasyni og Guðjóni Baldurssyni.

Stefnandi kveðst reisa kröfu sína á síðastgreindri matsgerð. Er krafa hans um fullar bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dráttarvöxtum frá 23. desember 2005, en þá hafi legið fyrir greiðslusynjun frá stefnda og mánuður liðinn frá kröfubréfi. Þar sem stefnandi hafi haldið launum hjá hinu stefnda útgerðarfélagi á tímabili tímabundinnar örorku sé ekki gerð krafa um bætur vegna tímabundinnar örorku. Hins vegar sé gerð krafa um þjáningabætur, miskabætur og bætur fyrir varanlega örorku í samræmi við ákvæði 3., 4. og 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þjáningabætur og miskabætur séu uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu frá slysdegi til dagsetningar kröfubréfs, en bætur vegna varanlegrar örorku taki mið af meðaltekjum þrjú ár fyrir slys, uppfærðum miðað við launavísitölu til stöðugleikapunkts, margfeldisstuðli samkvæmt reglum skaðabótalaga, að teknu tilliti til aldurs stefnanda við stöðugleikapunkt, auk 7% álags vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Dómkrafan sundurliðast því þannig:

Bætur skv. 3. gr. skbl., 41 dagur x kr. 1.120:                                            kr.       45.920

Bætur skv. 4. gr. skbl., kr. 6.406.000 x 8%:                                                      kr.               512.480

Bætur skv. 5. gr. skbl.

Árstekjur 2002, 2003 og 2004, uppfærðar m.v. launavísitölu

í lok hvers árs til stöðugleikapunkts.

Meðallaun þeirra ára kr. 6.512.021 x 1,07 x 9,512 x 10%:                    kr.  6.627.831  

                                                                                                                                        Samtals         kr.  7.186.231

Um aðild stefnda, Varðar Íslandstryggingar hf., vísar stefnandi til þess að stefndi, útgerðarfélagið Auðbjörg ehf., hafi haft gilda slysatryggingu vegna stefnanda hjá tryggingafélaginu og njóti stefnandi bótaréttar vegna slysa við störf í þágu skips samkvæmt grein 2.4 í vátryggingarskilmálum. Um sé að ræða tryggingu samkvæmt kjarasamningi frá 16. maí 2001 milli LÍÚ og SSÍ, sem gildi um ráðningarsamband útgerðarfélagsins og stefnanda. Á grundvelli 44. gr. nýrra vátryggingarlaga nr. 30/2004 eigi stefnandi beina kröfu á hið stefnda tryggingafélag, auk hins stefnda útgerðarfélags. Kröfum í málinu sé því beint að þeim báðum, in solidum.

Til stuðnings kröfum sínum kveðst stefnandi vísa til almennra reglna skaðabótaréttarins, kjarasamnings aðila, greina 2.4 og 6.1 í skilmálum um slysatryggingu sjómanna, ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, aðallega 3. til 6. gr., svo og 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Um vaxtakröfuna vísi stefnandi til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en um dráttarvaxtakröfu til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, auk ákvæða 5. mgr. 123. gr. laga nr. 30/2004. Kröfu um málskostnað kveðst stefnandi byggja á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

Málsástæður stefndu og lagarök

Stefndu byggja á því að ekki liggi ljóst fyrir að slys stefnanda hafi borið að með þeim hætti sem hann haldi fram. Engin vitni hafi verið að slysinu og sæti furðu að áverkar stefnanda skuli ekki hafa orðið alvarlegri en raun beri vitni, ef rétt sé að ca 45 kg línurekki hafi fallið á hönd hans úr 3,5 metra hæð. Benda stefndu á að engir ytri áverkar séu á hönd stefnanda eftir slysið, og verði að telja það vel sloppið miðað við meinta atburðarás.

Kröfum sínum til stuðnings byggja stefndu á matsgerð dómkvaddra matsmanna, læknanna Magnúsar Páls Albertssonar og Jónasar Hallgrímssonar, frá 10. september 2007, en með þeirri matgerð hafi fyrri matsgerð verið hrundið, þ.e. matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Guðjóns Baldurssonar, sem dagsett sé 10. nóvember 2006. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna sé ítarlega rökstudd og byggi á faglegu mati og sérfræðiþekkingu þeirra. Þeirri matsgerð hafi ekki verið hnekkt með yfirmati. Hafna stefndu því að matsgerð dómkvaddra matsmanna verði talin ógild og telja að ýmis verktakastörf annars matsmannsins, sem unnin hafi verið fyrir hið stefnda tryggingafélag, hafi ekki valdið vanhæfi hans til matsstarfa eða haft áhrif á faglegt mat hans og niðurstöðu. Benda stefndu á að aðilar hafi sjálfir komið sér saman um matsmennina, áður en kom til dómkvaðningar þeirra. Þá leggja stefndu áherslu á að gögn málsins, bæði fyrirliggjandi matsgerð dómkvaddra matsmanna svo og skattframtöl stefnanda, sýni að stefnandi hafi þrátt fyrir slysið ekki orðið af neinum launatekjum og því ekki borið neinn fjárhagslegan skaða af því.

Málskostnaðarkrafa stefndu er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Munnlegar skýrslur fyrir dómi

Við aðalmeðferð gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dóminum, en auk hans gáfu skýrslur sem vitni Guðbjartur Örn Einarsson, útgerðarstjóri Auðbjargar ehf., Sigurður Óli Kolbeinsson, forstöðumaður tjónasviðs Varðar Íslandstryggingar hf., matsmennirnir og læknarnir Atli Þór Ólason og Guðjón Baldursson, svo og dómkvaddir matsmenn, læknarnir Magnús Páll Albertsson og Jónas Hallgrímsson.

Í máli stefnanda kom fram að afleiðingar slyssins lýstu sér einkum á þann hátt að hann hefði alltaf verki í vinstri hendinni og ætti örðugt með að beita henni við átak eða grip um hluti, t.d. skrúflykil. Því þyrfti hann að nota hægri höndina við allt átak. Slysið hefði jafnframt haft áhrif á möguleika hans til tómstunda, og nefndi hann sérstaklega skotveiði í því sambandi. Stefnandi kvaðst lengi hafa haft hug á því að hætta sjómennsku og hafi slysið enn frekar leitt huga hans að því. Lýsti hann vinnubrögðum dómkvaddra matsmanna á matsfundinum, svo og skoðun þeirra á höndum hans. Sagðist hann algerlega ósammála því áliti matsmannanna að slysið hefði ekki haft mikil áhrif á starfsgetu hans.

Guðbjartur Örn Einarsson bar fyrir dómi að hann hefði 25. júlí 2005, ásamt stefnanda, verið að vinna við að standsetja Arnarberg ÁR-150 og hefðu þeir m.a. verið að flytja línurekka um borð. Hann hafi þó ekki orðið vitni að slysinu, en hafi hitt stefnanda síðar um daginn, og hafi stefnandi þá verið kominn í gifs. Engin rannsókn hefði farið fram á orsökum slyssins. Hins vegar kvaðst hann einn bera ábyrgð á því að slysið hefði ekki verið tilkynnt til tryggingafélagsins fyrr en 12. október 2006, það hefðu verið mistök af hans hálfu.

Í máli Sigurðar Óla Kolbeinssonar kom fram að enginn trúnaðarlæknir væri starfandi fyrir Vörð Íslandstryggingu hf. Hins vegar væri Magnús Páll Albertsson ráðgefandi læknir fyrir félagið, án þess að hann væri þar á launaskrá eða að skriflegur samningur lægi til grundvallar þjónustu hans. Taldi vitnið víst að störf Magnúsar fyrir félagið hefðu aukist á síðasta ári, þótt umfang þeirra starfa væri ekki mikið. Þá kvað vitnið marga lækna starfa fyrir félagið í tveggja lækna matsgerðum, og nefndi, auk Magnúsar Páls Albertssonar, nokkra þeirra með nafni, þ.á m. Atla Þór Ólason, sem líklega væri algengasti matslæknir félagsins. Sérstaklega spurður um aðkomu Magnúsar Páls Albertssonar að máli stefnanda, áður en til dómkvaðningar kom, sagðist vitnið ekki muna hvort hann hefði borið þetta mál undir Magnús Pál, þó væri ekkert ólíklegt að hann hafi leitað ráða hjá honum. Hins vegar myndi hann eftir því að Skúli Bjarnason læknir hefði gefið álit um málið eftir að fyrri matsgerðin lá fyrir. Eitt væri þó víst, Magnús Páll hefði aldrei fundað með starfsfólki tryggingafélagsins um þetta mál, hvorki fyrir dómkvaðningu hans eða eftir að matsgerð var skilað.

Matsmennirnir og læknarnir Atli Þór Ólason og Guðjón Baldursson staðfestu matsgerð sína og niðurstöður hennar fyrir dómi. Hið sama gerðu dómkvaddir matsmenn, læknarnir Magnús Páll Albertsson og Jónas Hallgrímsson.

Í vitnisburði Atla Þórs Ólasonar kom fram að hann hefði lesið síðari matsgerð í málinu, þ.e. hinna dómkvöddu matsmanna, og sagði hann að sú matsgerð fengi ekki breytt mati hans á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda. Taldi hann matsgerð sína vera rétta. Að hans dómi lægi munur matsgerðanna í því að í fyrri matsgerðinni hefðu áverkar matsþola verið skilgreindir sem kramningsáverkar og brot, en í þeirri síðari væri aðeins litið til afleiðinga af broti. Aðspurður kvað hann matsmenn ekki hafa skoðað röntgenmyndir af hendi matsþola. Sérstaklega inntur eftir því hvers vegna matsgerðin greindi ekki frá slysi stefnanda í september 2004 og mati hans af því tilefni um 12% örorku stefnanda, sagðist læknirinn eingöngu vinna mat sitt út frá þeim gögnum sem honum væru send, ekki þeim gögnum sem hann sjálfur kynni að hafa undir höndum. Sá áverki, sem hér væri fjallað um, væri einnig á öðru svæði líkamans en í fyrri slysum matsþola.

Í símaskýrslu, sem Guðjón Baldursson gaf fyrir dóminum, sagðist hann muna eftir skoðun á matsþola. Hefðu báðir matsmenn sérstaklega tekið eftir því að matsþoli hefði sigg í báðum lófum, sem benti til þess að hann ynni með báðum höndum og væri jafnvígur á þær báðar.

Jónas Hallgrímsson var að því spurður til hvers jöfn siggmyndun í lófum stefnanda gæti bent, og svaraði hann því til að það benti til þess að báðum höndum væri beitt jafnt. Sigg myndaðist aðeins við núning, en hyrfi með tímanum þegar núningi væri hætt. Spurður um verkaskiptingu við matsgerð hans og Magnúsar Páls Albertssonar sagði hann að Magnús Páll hefði í þessu matsmáli mest rætt við matsþola, en þeir báðir annast skoðun hans. Magnús hefði jafnframt skrifað matsgerðina, en þeir sameiginlega rætt áður um niðurstöður hennar. Hefði vitnið talið þetta eðlilega verkaskiptingu, þar sem áverki matsþola væri á sérsviði Magnúsar Páls. Í málinu kvaðst hann sérstaklega minnast þess að í fyrri matsgerð hefðu matsmenn fjallað um vöðvarýrnun hjá matsþola, en sjálfur hefði hann ekki skynjað slíkt. Til grundvallar niðurstöðu um þriggja stiga varanlegan miska matsþola kvaðst vitnið fyrst og fremst hafa tekið mið af lítilsháttar hreyfiskerðingu í litlafingri hans, svo og kulvísi. Tók vitnið fram að dálítið ósamræmi hafi verið í líkamsskoðun matsmanna á matsþola og skynjun hans sjálfs. Hafi matsmenn talið að skynjun matsþola væri ekki viðvarandi.

Magnús Páll Albertsson var spurður um vinnslu matsins, gagnaöflun, ritun matsgerðarinnar og þau atriði sem lágu til grundvallar niðurstöðum. Lýsti hann verkaskiptingu matsmanna á sama hátt og fram kom hjá vitninu Jónasi Hallgrímssyni. Þá greindi hann frá aðferðum matsmanna við læknisskoðun á matsþola, einkum kraftmælingum á höndum hans, mati á vöðvarýrnun, skynjun í fingrum og samanburði á siggmyndun í lófum hans. Inntur eftir störfum sínum fyrir stefnda, Vörð Íslandstryggingu hf., kvaðst vitnið veita og hafa veitt félaginu læknisfræðilega ráðgjöf, á sama hátt og öðrum tryggingafélögum, lögmönnum, landlæknisembættinu og öðrum sem eftir því hafi leitað. Ynni hann slík störf sem verktaki. Sérstaklega spurður um læknisfræðilegar álitsgerðir kvaðst vitnið hafa unnið slík álit fyrir hið stefnda félag og önnur tryggingafélög. Af tryggingafélögunum væri Vörður Íslandstrygging hf. líklega stærsti viðskiptavinur hans við læknisfræðilegar álitsgerðir á grundvelli skriflegra gagna, en neitaði að upplýsa um tekjur sínar frá félaginu á síðasta ári, og taldi þær engu máli skipta fyrir mál þetta.

Þegar vitninu var bent á það ósamræmi sem væri milli fyrirliggjandi matsgerða, annars vegar þeirrar matsgerðar sem hann hefði staðið að ásamt Jónasi Hallgrímssyni, og hins vegar matsgerða Atla Þórs Ólasonar og Guðjóns Baldurssonar, svo og matsgerðar sem unnin var fyrir Tryggingastofnun ríkisins, sagðist vitnið telja að mismunurinn lægi í því að í fyrri matsgerðum væri bæði litið til litlafingurs og annarra fingra stefnanda. Í matsgerð hans og Jónasar Hallgrímssonar hefði hins vegar aðeins verið litið til hreyfiskerðingar í litlafingri, enda yrðu hreyfiskerðingar í öðrum fingrum ekki skýrðar sem afleiðingar áverkans. Hefðu matsmenn ekki fundið nein líffærafræðileg merki um að hreyfiskerðing væri til staðar í öðrum fingrum en litlafingri. Þá hefðu þeir heldur ekki getað staðfest neina kraftskerðingu í vinstri hönd matsþola. Inntur álits á því hvort vitnið teldi að stefnandi hefði á matsfundi sagt matsmönnum ósatt um einkenni sín, kvaðst vitnið ekki telja svo vera. Hins vegar væri ljóst að ekki væri samræmi í lýsingum tjónþola á einkennum og því sem matsmenn staðreyndu við skoðun. Er vitnið var að því spurt hvort ekki hefði verið eðlilegt að hann hefði upplýst um störf sín í þágu hins stefnda tryggingafélags, er honum hafi borist matsbeiðni, sagði vitnið að slíkt hefði ekki hvarflað að honum. Kvaðst hann aldrei hafa séð málið áður en það barst honum með dómkvaðningunni. Ef hann hefði áður haft einhver afskipti af málinu, hefði hann ekki tekið dómkvaðningu. Vitnið gerði í lokin ítarlega grein fyrir rökstuðningi matsmanna fyrir þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnanda væri engin.

Niðurstaða

Af málatilbúnaði stefndu verður sú ályktun dregin að stefndu dragi í efa að slys stefnanda hafi borið að með þeim hætti sem stefnandi hefur lýst. Engu að síður hafa stefndu boðið fram fullnaðarbætur á grundvelli niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 10. september 2007. Felst í þessu þversögn, sem eindregið bendir þó til þess að fyrir liggi í raun viðurkenning stefndu á bótaskyldu. Framburður útgerðarstjóra hins stefnda útgerðarfélags fyrir dómi þykir staðfesta lýsingu stefnanda á aðdraganda slyssins, og síðari viðbrögð tryggingafélagsins verða ekki skýrð á annan hátt en að viðurkennd sé bótaskylda félagsins. Þykir dóminum enginn vafi leika á að stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi 25. júlí 2005, á þann hátt sem lýst er í gögnum málsins, og hlotið við það áverka á vinstri hendi. Bera stefndu sameiginlega bótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt gildandi skilmálum slysatrygginga sjómanna, sbr. og 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

Eins og fram hefur komið liggja fyrir í máli þessu þrjár matsgerðir. Heldur stefnandi því fram að víkja beri til hliðar matsgerð dómkvaddra matsmanna, þar sem hún sé ógild sökum vanhæfis annars matsmannsins, Magnúsar Páls Albertssonar læknis. Þess í stað beri að leggja til grundvallar matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Guðjóns Baldurssonar, sem aðilar hafi aflað sameiginlega til þess að leggja mat á líkamstjón stefnanda. Eru dómkröfur stefnanda reistar á niðurstöðum þeirrar matsgerðar.

Samkvæmt 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal dómari kveðja þá matsmenn til matsstarfa, sem aðilar hafa sjálfir komið sér saman um, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Í 3. mgr. sömu greinar segir síðan að þann einn megi dómkveðja til að framkvæma mat sem orðinn sé 20 ára að aldri, sé að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem eigi að meta, og hafi nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi eða annars þá kunnáttu sem bestur sé kostur. Af tilvitnuðu ákvæði er því ljóst að matsmaður þarf að uppfylla bæði almennar og sérstakar hæfiskröfur.

Í þinghaldi 9. júlí 2007 var tekin fyrir matsbeiðni stefnda, Varðar Íslandstryggingar hf., og dómkvaddir sem matsmenn læknarnir Magnús Páll Albertsson og Jónas Hallgrímsson. Áður höfðu lögmenn aðila verið boðaðir til þinghaldsins og var tekið fram í boðunarbréfi að samkvæmt samkomulagi lögmanna yrðu ofangreindir læknar dómkvaddir.

Af gögnum málsins verður ekki séð að stefnandi hafi haft neinar efasemdir um hæfi eða störf dómkvaddra matsmanna fyrr en eftir að matsgerðinni var skilað til matsbeiðanda og niðurstöður hennar kynntar stefnanda. Ekki verður heldur séð að eftir það hafi matsmaðurinn, Magnús Páll Albertsson, né hið stefnda tryggingafélag, dregið dul á að sá fyrrnefndi hefði þjónustað og þjónustaði enn tryggingafélagið, sem sjálfstæður verktaki og ráðgefandi læknir. Fyrirspurnum stefnanda þessa efnis var þvert á móti svarað skilmerkilega og án undanbragða, bæði skriflega og síðar við yfirheyrslu fyrir dómi. Á grundvelli 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, átti stefnandi þess kost að óska tímanlega eftir úrskurði dómara um hæfi umrædds matsmanns, ef hann taldi tilefni til að draga það í efa. Það var þó ekki gert.

Óumdeilt er að Magnús Páll Albertsson læknir hafði nokkur tengsl við stefnda, Vörð Íslandstryggingu hf., um sama leyti og hann vann að hinni umdeildu matsgerð, ásamt Jónasi Hallgrímssyni lækni. Fólust þau í læknisfræðilegri ráðgjöf sem hann innti af hendi fyrir tryggingafélagið, sem sjálfstæður verktaki. Á sama tíma veitti hann einnig öðrum tryggingafélögum ráðgjöf, landlæknisembættinu, lögmönnum og öðrum sem til hans leituðu í því skyni. Sjálfur hefur hann neitað því að hafa séð mál stefnanda eða haft nokkur afskipti af því fyrr en það barst honum eftir dómkvaðningu, og sagði fyrir dómi að ef svo hefði verið, hefði hann beðist undan dómkvaðningu. Framburður Sigurðar Óla Kolbeinssonar, forstöðumanns tjónasviðs hins stefnda tryggingafélags, fyrir dómi, er ekki jafn fortakslaus um þetta atriði, þótt hann hafi bætt því við að Magnús Páll hefði aldrei fundað með starfsfólki félagsins um þetta mál, hvorki fyrir dómkvaðningu né eftir að matsgerð var skilað. Ummæli forstöðumannsins og vafi um samskipti hans og læknisins um mál þetta verða þó ein og sér ekki talin fela í sér sönnun um að hann hafi leitað ráða hjá lækninum um málið, áður en hann var dómkvaddur sem matsmaður í því, eða vera þess eðlis að matsmaðurinn teljist vanhæfur af þeim sökum. Þá er í máli þessu hvergi að finna skrifleg gögn, sem staðfest geta aðkomu Magnúsar Páls Albertssonar að málinu fyrir dómkvaðningu. Hins vegar er meðal gagna málsins tölvubréf, þar sem vísað er til álits Skúla Bjarnasonar læknis um mál þetta.

Þrátt fyrir þau tengsl matsmannsins og hins stefnda tryggingafélags, sem hér hafa verið rakin, bendir ekkert til þess að þau hafi haft áhrif á vinnslu matsgerðarinnar eða niðurstöður hennar. Þá verður ekki séð að matsmaðurinn hafi átt neinna slíkra hagsmuna að gæta að villt gætu honum sýn í matsstörfum, eða að öðru leyti hafi verið fyrir hendi þær aðstæður að draga mætti með réttu óhlutdrægni hans í efa, þannig að færi í bága við hin sérstöku hæfisskilyrði 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Um leið er áréttað að umræddur matsmaður stóð ekki einn að matsgerðinni, með honum var einnig dómkvaddur til starfans Jónas Hallgrímsson læknir. Við yfirheyrslu fyrir dómi lýsti Jónas Hallgrímsson hvernig verkaskiptingu matsmanna var háttað við vinnslu matsgerðarinnar, og kom þar fram að báðir hefðu þeir skoðað stefnanda á matsfundi, Magnús Páll hefði ritað matsgerðina, en þeir sameiginlega ráðið niðurstöðum hennar. Í ljósi ofanritaðs er því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að annar dómkvaddra matsmanna, Magnús Páll Albertsson læknir, hafi verið vanhæfur við matsstörf, og að telja beri matsgerðina ógilda af þeim sökum.

Áður er fram komið að stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Guðjóns Baldurssonar frá 10. nóvember 2006. Meginniðurstöður hennar eru að varanlegur miski stefnanda er metinn 8%, en varanleg örorka 10%. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 10. september 2007 er varanlegur miski stefnanda hins vegar metinn 3 stig, en varanleg örorka engin.

Fyrir dómi voru matsmenn sérstaklega inntir eftir því í hverju þeir teldu að munur á niðurstöðum matsgerðanna lægi. Að þeirra áliti lá munurinn einkum í því að í fyrri matsgerð var litið á áverka stefnanda bæði sem kramningsáverka og brot á fimmta miðhandarbeini. Í síðari matsgerð hafi hins vegar aðeins verið litið á áverkann sem brot sem valdið hefði hreyfiskerðingu í litlafingri, en ekki öðrum fingrum, enda hefðu matsmenn talið að hreyfiskerðingar í öðrum fingrum yrðu ekki skýrðar sem afleiðingar af slysinu. Um þetta segir svo í forsendum matsgerðar dómkvaddra matsmanna: „Ekki er hægt að finna neina líkamlega skýringu á því hvers vegna matsþoli upplifir svo mikla hreyfiskerðingu sem hann segir og eins og lýst er hér að ofan. Við skoðun kemur ekki fram staðfesting á meintri hreyfiskerðingu, nema vægri slíkri í litlafingri. Sama gildir um þreifieymsli í vinstra handarbaki/hendi. Þá kemur heldur ekki fram við skoðun nein skýring á dofatilfinningu í handarbaki, nema við prófun sem virðist ná upp á úlnlið, en engin merki um neina taugaklemmu koma fram við skoðun. Ekki hefur heldur tekist að staðfesta meinta kraftskerðingu og nefna má að jöfn siggdreifing í báðum höndum bendir eindregið til þess að báðar hendurnar séu notaðar til vinnu.“ Í umfjöllun sömu matsmanna um mat á varanlegum miska stefnanda segir einnig eftirfarandi: „Við mat á miskastigi líta matsmenn til þess áverka sem matsþoli varð fyrir og þeirra afleiðinga sem viðbúið er að slíkur áverki hafi í för með sér og hægt er að sannreyna við skoðun. Við slíkt mat er ekki hægt að styðjast einvörðungu við lýsingar matsþola, heldur er tekið tillit til þeirra atriða, sem teljast vera sennileg miðað við það sem almennt er viðtekið í læknisfræði, enda er mat á mikastigi læknisfræðilegt. Eftir slys sem það er hér um ræðir er viðbúið að viss kulvísi sé til staðar í hendi matsþola, sérstaklega fyrstu eitt til þrjú árin eftir slysið. Eini áverkinn sem með vissu hlaust af slysinu er umrætt brot í fjærenda V. miðhandarleggs. Hefur brotið gróið í góðri legu. Brotið gekk ekki inn í lið og hníga engin rök að því að búast megi við frekari versnun í framtíðinni eða þá að aukin hætta sé á myndun slitgigtar. Ekki er óeðlilegt að áverki sem þessi leiði til vægrar hreyfiskerðingar í litlafingri handarinnar, en engar skýringar hafa fundist sem skýrt geta meinta hreyfiskerðingu í öðrum fingrum. Þá hefur ekki með vissu verið hægt að sannreyna meinta hreyfiskerðingu við skoðun á matsfundi.“ Fyrr í matsgerðinni vekja matsmenn athygli á því að sú vöðvarýrnun, sem lýst er í matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Guðjóns Baldurssonar og örorkumatsgerð Reynis Arngrímssonar læknis, hafi ekki verið sýnileg á matsfundi.  

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hefur dómari frjálst sönnunarmat á þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, og samkvæmt 2. mgr. 66. gr. sömu laga leggur dómari mat á sönnunargildi matsgerðar, þegar leyst er að öðru leyti úr máli.

Að öllu ofanrituðu virtu er það álit dómsins að í máli þessu hafi ekkert komið fram sem rýrt geti sönnunargildi matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna, læknanna Magnúsar Páls Albertssonar og Jónasar Hallgrímssonar. Eru forsendur hennar í samræmi við fyrirmæli skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöður í samræmi við önnur gögn málsins. Ber matsgerðin þess vitni að vel og samviskusamlega hafi verið vandað til gagnaöflunar og skoðunar á matsþola, faglegar ályktanir dregnar og niðurstöður ítarlega rökstuddar. Þá hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmati, en eins og fram hefur komið féll stefnandi frá beiðni um yfirmat. Verður matsgerðin þannig lögð til grundvallar niðurstöðu um afleiðingar slyss stefnanda og bótaskyldu stefndu.

Í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar hafa stefndu boðið fram greiðslu á 251.220 krónum, auk vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá slysdegi, 25. júlí 2005, til greiðsludags. Stefnandi hefur ekki mótmælt útreikningi bótafjárhæðarinnar og verður hún því tekin til greina og stefndu dæmdir til greiðslu hennar, in solidum. Með vísan til 9. gr., sbr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, verða stefndu hins vegar dæmdir til greiðslu dráttarvaxta af bótafjárhæðinni frá 10. október 2007, en þá var mánuður liðinn frá dagsetningu matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Að öðru leyti verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda.

Eftir úrslitum málsins, og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Dóminn kváðu upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari, sem dómsformaður, og meðdómsmennirnir Björn Pétur Sigurðsson og Ríkarður Sigfússon, bæklunarskurðlæknar.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Auðbjörg ehf. og Vörður Íslandstrygging hf., greiði in solidum stefnanda, Einari Axel Gústafssyni, 251.220 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 25. júlí 2005 til 10. október 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu eru sýknaðir af öðrum kröfum stefnanda.  

Málskostnaður fellur niður.