Hæstiréttur íslands
Mál nr. 132/2009
Lykilorð
- Fasteignasala
- Aðildarskortur
- Einkahlutafélag
|
|
Fimmtudaginn 26. nóvember 2009. |
|
Nr. 132/2009. |
Jóhann Magnússon(Anton B. Markússon hrl.) gegn Kontakti ehf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Fasteignasala. Aðildarskortur. Einkahlutafélag.
Í málinu deildu aðilar um það hvort stofnast hefði samningur milli þeirra um að K ehf. hefði milligöngu um kaup J og eiginkonu hans á fyrirtæki. Krafðist K ehf. þóknunar fyrir þá milligöngu. J hélt því hins vegar fram að samkomulag hefði orðið milli hans og kunningja hans B um að hann myndi aðstoða þau við að finna fyrirtæki og hefði sú vinna átt að vera vinargreiði sem ekki hefði átt að koma endurgjald fyrir. B var á þessum tíma sjálfstæður verktaki hjá K ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 9. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa hefði K ehf. borið að gera skriflegan samning um þjónustuna þar sem m.a. kæmi fram hvaða verkefnum K ehf. skyldi sinna og hver þóknun félagsins væri fyrir starfann eða hvernig hún væri ákveðin. Sönnunarbyrðin um að samningur hefði tekist með félaginu og J hvíldi á K ehf., enda bar því lagaskylda til þess að tryggja að skriflegar upplýsingar lægju fyrir um þjónustuna. Hefði sú sönnun K ehf. ekki tekist og var J því sýknaður af kröfu félagsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsaðila greinir meðal annars á um, hvort stofnast hafi samningur milli þeirra um að stefndi hefði milligöngu um hugsanleg kaup áfrýjanda á fyrirtæki, en stefndi krefst þóknunar fyrir þá milligöngu. Áfrýjandi andmælir því að til slíks samnings hafi stofnast. Hann kveður samkomulag hafa orðið milli sín og Birgis Ómars Haraldssonar um að hinn síðarnefndi aðstoðaði hann við að finna og kaupa fyrirtæki, sem myndi henta honum og eiginkonu hans. Það hafi af hálfu Birgis Ómars verið vinargreiði, sem ekki hafi átt að koma endurgjald fyrir.
Um starfsemi stefnda, sem mál þetta varðar, gilda lög nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Samkvæmt 9. gr. þeirra bar stefnda, ef óskað var milligöngu hans um kaup eða sölu fyrirtækis eða aðra þjónustu, að gera um það skriflegan samning við þann, sem til hans leitaði. Slíkan samning bar að gera áður en stefndi tæki til við starfa sinn. Í samningnum átti einnig að koma fram hvaða verkefnum stefndi átti að sinna og hver þóknun hans væri fyrir starfann eða hvernig hún yrði ákveðin. Óumdeilt er að slíkur samningur var ekki gerður. Á stefnda hvílir sönnunarbyrði um að samningur hafi tekist með honum og áfrýjanda um þá þjónustu sem hér greinir, enda bar honum, eins og lýst er að framan, lagaskylda til þess að tryggja að skriflegar upplýsingar lægju fyrir um þetta. Gegn andmælum áfrýjanda hefur þessi sönnun ekki tekist. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Jóhann Magnússon, skal vera sýkn af kröfu stefnda, Kontakts ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2008.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 4. desember sl., er höfðað með þingfestingu stefnu hinn 14. maí 2008.
Stefnandi er Kontakt ehf., kt. 491204-4190, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík.
Stefndi er Jóhann Magnússon, kt. 010259-4539, Skógarhæð 7, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.859.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. mars 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
II.
Málsaðilar eru ekki sammála um málsatvik að öllu leyti.
Stefnandi kveður stefnda hafa leitað til stefnanda, nánar tiltekið til Birgis Ómars Haraldssonar, sem á þeim tíma hafi starfað sem verktaki hjá stefnanda, og óskað eftir aðstoð við að finna fyrirtæki, en stefndi og kona hans haft hug á að hefja rekstur fataverslunar. Hafi Birgir Ómar tekið vel í bón hans og upplýst að þóknun stefnanda fyrir aðstoð við að finna fyrirtæki, koma á kaupum og aðstoða við skjalagerð væri 2% af kaupverði félagsins. Sé það í samræmi við gjaldskrá stefnanda og venju.
Stefnandi hafi kannað þau fyrirtæki er verið hafi á skrám stefnanda og önnur fyrirtæki er hann hafi haft upplýsingar um, en stefndi hafi ekki haft áhuga á þeim. Eftir nokkra vinnu hafi stefnandi komist að því að fyrirtækið Kanda ehf. væri til sölu, en það reki meðal annars verslun Polarn O. Pyret í Kringlunni. Hafi félagið verið í sölumeðferð hjá SPRON Verðbréfum hf. Stefndi hafi lýst yfir áhuga sínum á félaginu og hafi stefnandi því haft samband við SPRON Verðbréf og óskað eftir viðræðum um hugsanleg kaup stefnda og eiginkonu hans á félaginu annaðhvort persónulega eða í gegnum einkahlutafélag í þeirra eigu.
Eftir að stefnandi hafi afhent stefnda stutta glærukynningu um félagið hafi Birgir Ómar fengið fund hjá SPRON Verðbréfum til frekari kynningar. Þann fund hafi setið stefndi og eiginkona hans, Birgir Ómar fyrir hönd stefnanda og fulltrúar SPRON Verðbréfa. Hafi stefndi lýst yfir miklum áhuga á umræddu fyrirtæki og tilkynnt stefnanda að hann vildi gera tilboð í félagið.
Hafi stefnandi því útbúið frumdrög að tilboði, sbr. dskj. nr. 5, sem síðan hafi verið útfært nánar af stefnanda og stefnda í sameiningu, líkt og venja sé. Hafi Birgir Ómar, fyrir hönd stefnanda, og eiginkona stefnda afhent kauptilboðið til SPRON Verðbréfa hf., sbr. dskj. nr. 6. Hafi fyrsta kauptilboði ekki verið tekið, en það hafi verið talið grunnur frekari viðræðna.
Næst hafi stefnandi frétt óvart að stefndi hefði ákveðið að koma öðru tilboði beint til SPRON Verðbréfa, án milligöngu stefnanda. Þrátt fyrir það hafi stefnandi verið áfram í sambandi við stefnda og SPRON Verðbréf og upplýsti SPRON Verðbréf um að það væri honum að meinalausu að málinu væri haldið áfram í þeim farvegi sem það hafi verið komið í, enda hafi hann talið víst að stefndi myndi greiða umsamda þóknun. Hafi Birgir Ómar fylgst með þróun mála fyrir hönd stefnanda í gegnum SPRON Verðbréf, en Birgi hafi gengið afar illa að fá nokkrar upplýsingar frá stefnda.
Hafi síðan komist á samningur um kaup einkahlutafélags í eigu stefnda og eiginkonu hans á félaginu Kanda ehf. Samkvæmt upphaflegu tilboði hafi kaupverðið verið að fjárhæð 155.000.000 króna og viti stefnandi ekki betur en að það hafi verið endanlegt kaupverð félagsins. Annað hafi að minnsta kosti ekki verið upplýst af hálfu stefnda.
Hinn 31. október 2007 hafi stefnandi sent stefnda bréf og skoraði á hann að greiða umrædda þóknun, 3.100.000 króna, auk virðisaukaskatts. Áður hafi Birgir Ómar ítrekað reynt að ná samkomulagi við stefnda fyrir hönd stefnanda um greiðslu umsaminnar þóknunar, án þess að stefndi sýndi nokkurn vilja til þess.
Með bréfi dagsettu 3. desember 2007 hafi bréfi stefnanda verið svarað. Hafi kröfu stefnanda verið mótmælt og ótilgreind lægri fjárhæð boðin til uppgjörs á aðstoð stefnanda við stefnda. Stefndi hafi hins vegar ekki tilgreint þá fjárhæð sem hann sé tilbúinn að greiða til stefnanda vegna aðkomu að kaupunum, en hann hafi þó viðurkennt greiðsluskyldu.
Stefnandi kveðst hafa beðið með útgáfu reiknings vegna þjónustunnar þar til stefndi hefði upplýst um endanlegt kaupverð félagsins, en þar sem engin leiðrétting hafi borist vegna fyrrgreindrar fjárhæðar, þ.e. 155.000.000 króna, hafi stefnandi sent stefnda reikning vegna þjónustunnar hinn 28. febrúar 2008. Reikningurinn, sem hafi verið með eindaga hinn 13. mars 2008, hafi ekki verið greiddur. Sé stefnanda því nauðugur sá kostur að höfða mál þetta til innheimtu skuldar stefnda.
Stefndi kveður málavöxtum lýst ranglega í grundvallaratriðum í stefnu og að nokkrar alvarlegar rangfærslur komi þar fram. Kveðst stefndi því telja rétt að gera heildstæða grein fyrir málsatvikum eins og þau horfi við honum, auk þess að gera sérstakar athugasemdir við þær rangfærslur sem fram komi í málavaxtalýsingu stefnanda.
Stefndi kveður að síðla árs 2006 hafi Birgir Ómar Haraldsson og stefndi verið í sambandi vegna tímaritsgreinar sem Birgir Ómar hafi verið með í smíðum, en Birgir Ómar hafa beðið stefnda að lesa hana yfir fyrir sig til álitsgjafar. Stefndi kveður kunningsskap hafa verið með þeim Birgi Ómari um nokkurra ára skeið og þeir m.a. spilað golf saman. Einnig hafi þeir á þessum tíma átt þó nokkur samskipti í tengslum við fjárfestingu Sparisjóðs Kópavogs í fjárfestingarsjóði sem rekinn sé af stefnda og fleiri aðilum, en stefndi kveður Birgi Ómar hafa verið stjórnarformann sparisjóðsins. Í tengslum við þau samskipti hafi stefndi spurt Birgi Ómar um þjónustu stefnanda þar sem hann og eiginkona hans, Kristín Björg Jónsdóttir, hafi haft í hyggju að festa kaup á fyrirtæki. Hafi Birgir Ómar svarað því til að stefndi skyldi ekki hafa samband við stefnanda, heldur skyldi hann sjálfur sjá um að finna gott fyrirtæki fyrir þau hjónin. Ennfremur skyldi stefndi líta á það viðvik sem greiða vegna gamals kunningsskapar. Sjá megi hluta af þessum samskiptum í tölvupósti á dskj. nr. 25. Í ljósi þessa hafi aldrei verið rætt um þóknanir í þessu sambandi og enginn samningur hafi verið gerður. Hafi Birgir Ómar tekið sérstaklega fram að þessi vinna væri ekki unnin í tengslum við stefnanda heldur hafi hann ítrekað að um vinargreiða væri að ræða.
Í nóvember 2006 hafi stefndi, eiginkona hans og Birgir Ómar hist stuttlega og rætt um hvers konar fyrirtækjum þau hefðu í huga að festa kaup á. Nokkru síðar hafi Birgir Ómar óskað eftir fundi með stefnda og eiginkonu hans og á þeim fundi hafi hann lagt fram gögn sem hann hafði komist yfir vegna sölumeðferðar á Bison versluninni. Þá þegar hafi stefndi og eiginkona hans látið vita að ekki væri áhugi af þeirra hálfu á að skoða slík kaup. Eftir þennan fund hafi ekkert heyrst frá Birgi Ómari í langan tíma.
Í greinargerð segir að stefndi og eiginkona hans hafi haldið áfram að leita fyrir sér á kaupmarkaði og haft samband við nokkrar fyrirtækjasölur. Viðræður hafi átt sér stað við nokkra aðila, m.a. við stefnanda, þar sem fundur hafi verið haldinn með Brynhildi Bergþórsdóttur. Hafi hún farið ítarlega yfir það ferli sem stefnandi viðhefði við milligöngu í fyrirtækjasölum. Hafi sérstaklega komið fram að hjá stefnanda væri alltaf gerður skriflegur samningur fyrirfram þar sem ítarlega væri kveðið á um réttindi og skyldur hvors aðila um sig. Í samningi þessum kæmi m.a. fram hvaða vinna yrði unnin af hálfu stefnanda og hafi þar m.a. verið nefnt að vinnan fælist í því að finna fyrirtæki, gera áreiðanleikakannanir, vinna verðmat fyrir kaupanda, sjá um samningagerð o.fl. Þá hafi komið fram að þóknun væri 3% af kaupverði fyrir kaupanda. Í kjölfar þessarar kynningar hafi eiginkona stefnda skrifað undir trúnaðarsamning við stefnanda og hafi stefnda og henni verið sýnd frumgögn yfir nokkur tiltekin fyrirtæki, sem hafi verið til sölumeðferðar hjá stefnanda. Ekkert þeirra fyrirtækja hafi vakið áhuga stefnda og eiginkonu hans og hafi þau því ákveðið að bíða með að nýta þessa þjónustu, enda sé stefndi með áratuga reynslu af kaupum og sölum fyrirtækja og gerð verðmats og samninga í tengslum við slík kaup. Hafi þau því ekki talið sig þurfa aðstoð í þeim efnum.
Nokkru síðar hafi Birgir Ómar komið á fund stefnda og lagt fram örfáar glærur með grófri samantekt vegna Kanda ehf. frá SPRON Verðbréfum. Í kjölfarið hafi stefndi og eiginkona hans ákveðið að eiga fund með starfsmönnum SPRON Verðbréfa. Á þeim fundi hafi verið stefndi og eiginkona hans annars vegar og Guðni Halldórsson og Hrafn Þórðarson, starfsmenn SPRON Verðbréfa, hins vegar. Birgir Ómar hafi hins vegar ekki verið viðstaddur fundinn. Á fundinum hafi verið lögð fram ítarleg gögn vegna Kanda ehf., verðmat og forsendur SPRON Verðbréfa, auk upplýsinga um rekstur og efnahag félagsins og fyrirhugað söluferli. Eftir undirritun trúnaðaryfirlýsingar hafi stefndi og eiginkona hans fengið öll gögn sem hafi verið í fórum SPRON Verðbréfa vegna málsins. Á fundinum hafi náðst að vinna málið nokkuð langt og hafi stefndi síðan unnið sjálfur verðmat á félaginu og útbúið kauptilboð. Við þá vinnu hafi hann notið stuðnings lögmanna Fulltingis ehf., sbr. dskj. 17, 19, 20, 21, 23 og 24 og hafi starfsmenn Fulltingis og Deloitte verið kallaðir til að vinna áreiðanleikakönnun ef tilboði yrði tekið, sbr. dskj. 18. Aldrei hafi staðið til að Birgir Ómar kæmi að neinum þessara þátta og hafi aðkoma stefnanda að málinu engin verið, hvorki fyrir né eftir tilboðsgerð.
Skömmu eftir fund stefnda og eiginkonu hans með SPRON Verðbréfum hafi Birgir Ómar óskað eftir fundi með þeim til að fara yfir málið. Af kurteisisástæðum hafi verið haldinn stuttur fundur með honum en ekkert markvisst hafi komið út úr þeim fundi varðandi kaupin á Kanda. Á fundinum hafi Birgir Ómar hins vegar ítrekað að hans framlag til málsins hafi verið gert vegna kunningsskapar og greiðasemi við stefnda.
Nokkru síðar hafi Birgir Ómar haft samband við stefnda og eindregið viljað koma með á næsta fund með SPRON Verðbréfum ef áhugi væri enn fyrir hendi. Stefndi hafi talið það óþarft þar sem hann hefði verið í sambandi við SPRON Verðbréf og eigendur Kanda en fundist óþægilegt að neita þessari einbeittu bón eftir greiðasemina, þótt undarleg væri. Niðurstaðan hafi því verið sú að Birgir Ómar hafi verið boðaður á fund sem óskað hafi verið eftir af hálfu SPRON Verðbréfa, fyrst og fremst til að kanna stöðu málsins og hvort áhugi væri enn fyrir hendi. Stefndi og eiginkona hans hafi staðfest áframhaldandi áhuga sinn á því að skoða málið með kaup í huga án þess að gefa frekari upplýsingar. Ekkert faglegt eða efnislegt framlag hafi komið fram af hálfu Birgis Ómars. Nokkru síðar hafi Birgir Ómar aftur haft samband við stefnda sömu erinda. Við það tækifæri hafi stefndi sagt Birgi Ómari frá því að hann væri nánast tilbúinn með tilboð í félagið. Við það hafi Birgir Ómar reiðst og sagt stefnda hafa farið framhjá sér í málinu og að stefnda og eiginkonu hans hafi verið óheimilt að hafa beint samband við SPRON Verðbréf. Hafi þetta komið stefnda í opna skjöldu þar sem aldrei hafi verið rætt um að Birgir Ómar ætti einhverja aðkomu að ferlinu, enda hafi stefndi og ráðgjafar hans mun meiri reynslu af slíkum viðskiptum. Kveðst stefndi þá hafa bent á að Birgir Ómar hefði sjálfur afboðað komu sína á fund með SPRON Verðbréfum þar sem farið hefði verið yfir öll helstu atriði er varðaði Kanda ehf. Hafi Birgir Ómar þá beðið um að hann fengi að afhenda SPRON Verðbréfum kauptilboðið. Stefndi hafi talið það í lagi að hann færi með eiginkonu sinni til SPRON Verðbréfa til að afhenda kauptilboðið. Stefnda og eiginkonu hans hafi hins vegar ekki grunað hver undirliggjandi tilgangur þeirrar óskar var, en þau hafi hins vegar áttað sig á því nú að tilgangurinn hafi líklega verið sá að tengja andlit sitt við tilboðsgerðina.
Daginn eftir hafi Birgir Ómar komið á skrifstofu stefnda og sagst ætla að taka 3% þóknun vegna aðkomu sinnar að kaupunum. Hafi þessi krafa komið stefnda algjörlega í opna skjöldu, enda hafi aldrei áður verið minnst á umfang vinnu, þóknanir eða annað því tengt. Rétt sé að nefna sérstaklega að krafa þessi hafi komið fram af hálfu Birgis Ómars persónulega en ekki af hálfu stefnanda, enda hafi nafn stefnanda ekki komið fram í ferlinu frá því að Birgir Ómar nefndi sérstaklega að stefnandi tengdist ekki þessari greiðasemi hans. Þá bendir stefndi á að reikningur stefnanda sé gefinn út næstum ári frá því að Birgir Ómar krafðist þóknunar úr hendi stefnda og liðlega fjórum mánuðum eftir að Birgir Ómar reyndi að innheimta þóknunina með bréfi frá lögmanni sínum, sbr. dskj. nr. 9.
Þegar framlag Birgis Ómars vegna kaupa á Kanda ehf. sé tekið saman liggi fyrir að aðkoma hans í heild sinni vegna leitar stefnda og eiginkonu hans að fyrirtæki til kaups hafi falist í fjórum stuttum fundum með þeim, þar af einum ásamt starfsmönnum SPRON Verðbréfa, auk þess að sækja örfáar glærur um félagið til SPRON Verðbréfa, sem starfsmenn þess höfðu útbúið. Ekkert skriflegt eða faglegt efni hafi hins vegar komið frá Birgi Ómari. Þegar þetta sé virt sé ekki óeðlilegt að stefndi hafi talið að í þessu mjög svo takmarkaða framlagi hafi falist vinargreiði, sem ekki skyldi greiða þóknun fyrir. Eigi stefndi því engan annan kost en að taka til varna í máli þessu. Þess beri einnig að geta að áhugi stefnda og eiginkonu hans hafi fyrst og fremst verið vakinn eftir fyrsta fund með starfsmönnum SPRON Verðbréfa. Á þeim fundi hafi allar helstu upplýsingar um rekstur og fjárhag Kanda ehf. verið lagðar fram og fyrstu samningaviðræður átt sér stað og á grundvelli þeirra upplýsinga hafi endanlegur samningur tekist. Birgir Ómar hafi ekki verið á þeim fundi.
Stefndi kveðst telja rétt að leiðrétta sérstaklega rangfærslur sem komi fram í málavaxtalýsingu stefnanda. Stefnandi haldi því í fyrsta lagi fram að Birgir Ómar hafi fengið fund hjá SPRON Verðbréfum til frekari kynningar á fyrirtækinu, en að þann fund hafi stefndi og eiginkona hans setið, auk Birgis Ómars og starfsmanna SPRON Verðbréfa. Hið rétta sé að Birgir Ómar hafi ekki setið upphaflegan kynningarfund SPRON Verðbréfa á fyrirtækinu né nokkra eiginlega vinnufundi með SPRON Verðbréfum og seljendum, heldur hafi hann einungis setið einn stuttan stöðufund vegna þrábeiðni sinnar. Í öðru lagi haldi stefnandi því fram að hann hafi útbúið frumdrög að tilboði á dskj. nr. 5. Stefndi kveðst mótmæla þessari fullyrðingu alfarið sem rangri og ósannaðri, enda hafi það verið stefndi sjálfur sem útbjó áðurnefnd frumdrög út frá formum sem Kristinn Hallgrímsson hrl. og lögmaður á Fulltingi lögfræðiþjónustu hafi sent honum hinn 1. mars 2007, sbr. dskj. nr. 24. Í fjarveru Kristins hafi tilboðið verið lesið yfir af Jóni Ögmundssyni hrl., lögmanni Fulltingis, áður en það hafi verið lagt fram. Að lokum tekur stefndi fram að hann hafi aldrei viðurkennt greiðsluskyldu líkt og stefnandi haldi fram að hann hafi gert í bréfi dags. 3. desember 2007, sbr. dskj. nr. 10, enda segi þar ítrekað að stefndi hafi verið til viðræðna um greiðslu þóknunar sem sé í samræmi við aðkomu Birgis Ómars að kaupunum, án þess að greiðsluskylda hafi verið viðurkennd.
Stefndi kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni, Jens Ingólfsson, einn aðaleiganda stefnanda, Birgir Ómar Haraldsson, Kristín Björg Jónsdóttir, Guðni Halldórsson, Örn Viðar Skúlason og Hrafn Þórðarson.
III.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á reikningi nr. 180, dagsettum 28. febrúar 2008, með eindaga þann 13. mars 2008. Kveður hann reikninginn byggðan á gjaldskrá stefnanda, sem sé í samræmi við venju í sambærilegum viðskiptum. Þóknun stefnanda vegna vinnu fyrir stefnda sé 2% af kaupverði fyrirtækisins, þ.e. 3.100.000 krónur auk virðisaukaskatts sem sé hin umstefnda fjárhæð.
Hlutverk og tilgangur stefnanda sé skýr og komi meðal annars fram á heimasíðu félagsins. Hann sé sá að aðstoða kaupendur og seljendur að ná saman, finna hverjir aðra og ganga í gegnum það flókna ferli sem fylgi eigendaskiptum á fyrirtæki. Sérstaklega sé skilgreint á heimasíðu stefnanda hver aðkoma þess sé að kaupum fyrirtækja þegar stefnandi vinni fyrir væntanlegan kaupanda félags. Það fyrsta sé að hitta væntanlega kaupendur, kynnast þeim og hjálpa þeim að skilgreina óskir þeirra. Það hafi og verið gert.
Í framhaldinu séu fyrirtæki kynnt fyrir væntanlegum kaupendum. Oft þurfi að fara í talsverða leit áður en fyrirtæki er fundið. Þannig hafi verið með aðkomu stefnanda að málum stefnda. Ef væntanlegum kaupendum lítist vel á fyrirtæki sem kynnt hafi verið fyrir þeim sé næsta skref að hitta eiganda fyrirtækisins og fá ítarlegri upplýsingar. Það hafi einnig verið gert.
Sé óskað eftir nánari upplýsingum úr bókhaldi ráðleggi stefnandi kaupendum að fá endurskoðanda eða annan bókhaldsfróðan aðila til að aðstoða sig. Því næst sé kaupendum hjálpað að gera tilboð til handa seljanda fyrirtækis, sem hafi og verið gert fyrir stefnda. Sé tilboði tekið, fari í gang vinna við að leysa úr fyrirvörum, ganga frá kaupsamningi og afhendingu rekstursins.
Vinna stefnanda hafi verið nákvæmlega í samræmi við fyrrgreindan skilgreindan verkferil, eða allt þar til stefndi hafi ákveðið, án nokkurrar tilkynningar til stefnanda eða Birgis Ómars, að senda annað tilboð til seljanda Kanda ehf. eftir að fyrsta tilboði hafi verið hafnað. Því sé alfarið mótmælt að stefnandi hafi ekki komið að tilboðsgerð og að sú vinna hafi eingöngu verið unnin af stefnda.
Stefnandi bendir á að séu frumdrög af tilboði með athugasemdum Birgis Ómars á dskj. nr. 5 borin saman við tilboð, er lagt hafi verið fyrir seljendur Kanda ehf., sé ljóst að aðkoma Birgis að tilboðsgerðinni hafi verið mikil. Uppkast fyrsta tilboðs hafi verið unnið af stefnanda og endanleg útgáfa þess samstarfsverkefni stefnanda og stefnda, eins og venja sé. Stefnandi hafi því gert allt sem hægt hafi verið að krefjast af honum, allt þar til stefndi hafi kosið að ganga framhjá stefnanda við gerð seinna kauptilboðsins.
Óhæft sé að væntanlegir kaupendur fyrirtækja geti fengið alla aðstoð við að finna fyrirtæki, skipulagningu funda með seljendum og fulltrúum þeirra og aðstoð við gerð tilboðs og ákveðið síðan að ganga framhjá þeim sem aðstoðina veitti til þess eins að komast hjá greiðslu umsaminnar þóknunar. Það sé stefnanda sérstaklega þungbært að sá aðili er neiti greiðslu sé reyndur í viðskiptum og hafi umfangsmikla þekkingu á því hvernig og hvenær þóknanir séu greiddar.
Stefnandi kveður greiðsluskyldu hafa stofnast og það að hafna frekari aðstoð eftir að meginþungi vinnunnar hafi átt sér stað hafi ekki í för með sér rétt til handa stefnda til að hafna greiðslu þóknunar. Greiðsluskylda stefnda á dómkröfu máls þessa sé því skýr og beri að mati stefnanda að fella dóm í samræmi við það.
Þess beri að geta að ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um aðkomu stefnanda að kaupunum. Ástæða þessa sé sú að Birgir Ómar, fyrir hönd stefnanda, hafi treyst stefnda, sem hann hafi ekki þekkt af öðru en heiðarleika í viðskiptum. Birgir Ómar hafi einnig þekkt til annarra verkefna stefnda og talið að þar sem og í þessu máli væri traust, heiðarleiki og fagmennska lykilatriði.
Síðar hafi þó komið í ljós að svo hafi ekki verið og betra hefði verið að ganga skriflega frá samningi aðila. Þrátt fyrir lagaskyldu til samningsgerðar komi það ekki í veg fyrir greiðsluskyldu stefnda vegna veittrar umsaminnar þjónustu stefnanda, enda sé óumdeilt að Birgir Ómar, fyrir hönd stefnanda, hafi aðstoðað stefnda í viðskiptum hans, enda viðurkennt af stefnda.
Að auki sé stefndi með áratuga reynslu í verðmötum, kaupum og sölum á fyrirtækjum og gerð samninga í tengslum við slík kaup og viti því nákvæmlega hvað felist í aðstoð stefnanda í tengslum við fyrirtækjakaup. Sé stefndi því fullkomlega grandsamur um rétt stefnanda til þóknunar, enda viðurkenni stefndi þann rétt og hafi boðið óskilgreinda greiðslu, þótt ágreiningur sé um fjárhæð hennar.
Krafa stefnanda sé eðlileg, skýr og samkvæmt gjaldskrá. Kveður stefnandi um hlutfallslega þóknun að ræða, líkt og venja sé í fyrirtækjakaupum. Óskilgreindu tilboði stefnda um greiðslu hóflegrar þóknunar sé alfarið hafnað, enda telji stefnandi dómkröfu máls þessa vera hóflega og í samræmi við viðteknar venjur á markaði.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 42/2002, almennra reglna fjármunaréttarins um ábyrgð á fjárskuldbindingum og skuldbindingargildi samninga, auk almennra reglna um kaup og sölu fyrirtækja. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. málsgreinar 6. greinar laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti. Stefnandi geti ekki talist aðili málsins þar sem stefnandi hafi ekki komið nálægt kaupum hans og eiginkonu hans á einkahlutafélaginu Kanda ehf.
Jafnframt kveðst stefndi byggja á þeirri málsástæðu að hann sé ekki réttur aðili málsins heldur einkahlutafélag í eigu hans og eiginkonu hans, sem hafi verið kaupandi Kanda ehf. Jafnvel þótt komist verði að því að um samning hefði verið að ræða á milli Birgis Ómars og stefnda um þóknun til handa Birgi Ómari vegna kaupa á Kanda ehf., þá hafi það ávallt verið einkahlutafélag í eigu stefnda og eiginkonu hans sem hafi verið kaupandi Kanda ehf. en ekki stefndi sjálfur. Sé því ljóst að kröfum stefnanda sé ranglega beint að stefnda í málinu og að um slíkan formgalla á málatilbúnaði stefnanda sé að ræða, að þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda.
Stefndi kveður ekkert samningssamband hafa verið á milli málsaðila. Litið hafi verið á aðkomu Birgis Ómars að kaupum stefnda og eiginkonu hans á Kanda ehf. fyrst og fremst sem vinargreiða af hálfu Birgis Ómars eins og hann hafi ítrekað látið í veðri vaka. Þrátt fyrir að stefnandi og Birgir Ómar hafi viðurkennt að skylda hafi staðið til samningsgerðar hafi aldrei verið gerður neinn samningur vegna þessa, hvorki milli stefnanda og stefnda né Birgis Ómars og stefnda, né hafi nokkurn tímann verið rætt með óformlegri hætti um þóknun vegna verksins. Birgir Ómar hafi hins vegar sérstaklega tekið fram að vinna sú sem hann innti af hendi í þágu stefnda væri ekki í tengslum við stefnanda, sem hann hafi starfað hjá sem verktaki á þessum tíma. Sé enda ljóst að verkferlar hjá umræddu fyrirtæki séu mjög ítarlegir og ávallt gerður skriflegur samningur fyrirfram um réttindi aðila og skyldur. Stefnandi hafi hins vegar ekki verið með einkahlutafélagið Kanda á skrá eða til sölumeðferðar á neinum tímapunkti.
Samkvæmt meginreglum samningaréttar verði stefnandi óhjákvæmilega að bera hallann af því að enginn samningur sé til staðar í málinu um þá meintu þjónustu sem hann eigi að hafa innt af hendi í þágu stefnda. Að mati stefnda sé auk þess afar óeðlilegt að stefnandi telji sér fært að krefjast greiðslu eftir á fyrir nokkuð sem áður hafi verið kynnt sem vinargreiði þriðja aðila, Birgis Ómars, en stefnandi hafi ekki lagt fram nokkuð sem viti í þá átt að afsanna þann skilning stefnda né nokkuð annað sem sýni fram á minnstu líkur til hins gagnstæða. Beri þegar af þessari ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Stefnandi heldur því fram í málinu að hann hafi staðið að undirbúningi og gerð kauptilboðs stefnda og eiginkonu hans í Kanda ehf. Staðreyndin sé hins vegar sú að hvorki Birgir Ómar né nokkur starfsmaður stefnanda hafi verið viðstaddur fund sem stefndi og eiginkona hans hafi átt með starfsmönnum SPRON Verðbréfa þar sem aðdragandi að gerð kauptilboðs hafi hafist. Á fundinum hafi stefndi og eiginkona hans fengið öll gögn hjá SPRON Verðbréfum vegna málsins og í kjölfarið hafi stefndi unnið sjálfur verðmat á félaginu og útbúið kauptilboð og látið gera áreiðanleikakönnun, svo sem dskj. 18, 23 og 24 sýni fram á. Þannig sé ljóst að stefnandi hafi ekki komið að sölu Kanda ehf. á neinn hátt, hvorki með beinum né óbeinum hætti.
Þá kveðst stefndi mótmæla því sem stefnandi haldi fram að greiðsluskylda hafi stofnast af hálfu stefnda gagnvart stefnanda. Sem fyrr sé bent á að ekkert samningssamband hafi verið til staðar á milli stefnanda og stefnda og jafnframt sé bent á að þóknun sú sem stefndi hafi boðið Birgi Ómari persónulega og hann hafnað, hafi eingöngu verið ætluð sem umbun af hálfu stefnda til handa honum fyrir að benda þeim á umrætt fyrirtæki en enga aðra þætti í áðurnefndu verkferli. Aftur skuli bent á að því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu, enda komi hið gagnstæða skýrt fram í bréfi stefnda á dskj. 10.
Að lokum kveðst stefndi halda því fram að stefnandi hafi sýnt af sér nokkurt tómlæti við útgáfu reiknings og innheimtu kröfunnar, sérstaklega í ljósi þess að ekki hafi verið gerður reki að því að semja fyrirfram um þá þóknun sem stefnandi hafi talið sig eiga vísa.
Með vísan til alls ofangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi kveðst byggja varakröfu sína um lækkun kröfu á því að verði komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi gert samning við stefnanda um þjónustu þá sem hér sé um rætt, hafi sú þjónusta ekki numið því umfangi sem heitið sé af stefnanda við milligöngu við sölu fyrirtækja. Þannig beri stefndi því við að 2% þóknun vegna fyrirtækjakaupa, sem sé grundvöllur útreikninga á stefnufjárhæð, miðist við heildstæða þjónustu við fyrirtækjakaup, s.s. að finna rekstur, gera kauptilboð og aðstoða við samningagerð og samningsviðræður, auk gerðar áreiðanleikakönnunar o.fl. tengdu kaupunum, sbr. upplýsingar af heimasíðu stefnanda sem finna megi á dskj. nr. 11. og verðskrá stefnanda á dskj. nr. 4. Stefnandi hafi ekki komið nálægt þeirri vinnu sem stefnandi lýsi sjálfur að liggi almennt til grundvallar útreikningi þóknunar við kaupin á Kanda ehf. og geti þóknun hans því fráleitt grundvallast á slíku viðmiði.
Þóknanir sem hljóði upp á 2-3% af söluverði fyrirtækis séu almennt vegna vinnu við að finna fyrirtæki fyrir hugsanlega kaupendur, svokölluð fundarlaun (e. finder´s fee), gerð verðmats og áreiðanleikakönnunar, auk tilboðsgerðar og almennrar umsjár með slíkum kaupum. Vísar stefndi um ferli þetta til þess sem almennt tíðkist um sambærileg viðskipti og upplýsinga sem Brynhildur Bergþórsdóttir hjá stefnanda hafi gefið stefnda og eiginkonu hans á fyrrgreindum fundi þeirra þegar þau hafi verið að skoða kaup á öðrum fyrirtækjum. Þóknanir vegna þess eins að finna fyrirtæki við hæfi fyrir tiltekna kaupendur séu hins vegar almennt töluvert lægri og séu frekar í formi fastrar greiðslu. Þar sem ekkert samningssamband sé á milli stefnanda og stefnda hafi stefndi ekki séð ástæðu til að bjóða stefnanda slíka greiðslu, en Birgi Ómari, sem á tímabili hafi starfað sem sjálfstæður verktaki hjá stefnanda, hafi hins vegar verið boðin slík greiðsla, þó án allrar viðurkenningar á greiðsluskyldu.
Með vísan til alls þess sem að ofan hafi verið rakið sé því mótmælt sem haldið sé fram í stefnu að vinna stefnanda hafi verið nákvæmlega í samræmi við þá skilgreindu verkferla sem tíðkist í kaupum á fyrirtækjum. Vinnuframlag Birgis Ómars í málinu hafi eingöngu falist í því að benda stefnda á að fyrirtækið Kanda ehf. væri til sölu, mæta á fjóra stutta fundi með stefnda og eiginkonu hans, þar af einn einnig með starfsmönnum SPRON Verðbréfa, auk þess að sækja glærur um félagið til SPRON Verðbréfa, sem starfsmenn bankans höfðu útbúið. Beint vinnuframlag stefnanda hafi hins vegar ekkert verið. Þannig sé ljóst að hvorki vinnuframlag stefnanda né Birgis Ómars, sem hafi verið sjálfstætt starfandi verktaki í sérverkefnum fyrir stefnanda, í tengslum við kaup stefnda á Kanda ehf. sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í máli þessu.
Beri því þegar af þessum ástæðum að lækka kröfur stefnanda, verði aðalkrafa stefnda um sýknu ekki tekin til greina.
Um lagarök vísar stefndi til þeirrar grundvallarreglu í einkamálaréttarfari að aðildarskortur leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. l. nr. 91/1991. Stefndi vísar einnig til almennra reglna samninga- og kröfuréttar máli sínu til stuðnings, einkum til meginreglna um sönnun, þá sérstaklega þeirrar reglu að sá sem haldi því fram að samningur hafi komist á á milli aðila verði að bera fyrir því sönnunarbyrði. Stefndi kveðst byggja málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur. Sé því nauðsynlegt að hann fái dæmt álag úr hendi gagnaðila sem þeirri fjárhæð nemur.
IV.
Fram hefur komið að á þeim tíma sem um ræðir sinnti Birgir ýmsum verkefnum, s.s. ráðgjafarstarfi hjá stefnanda og stjórnarformennsku hjá Sparisjóði Kópavogs og verðbréfaþjónustu sparisjóðanna, svo og stjórnarformennsku í fjárfestingasjóði, sem stefndi rekur erlendis. Bar Birgir um það hér fyrir dómi að vegna þessara margvíslegu verkefna hefði hann ávallt notað sitt eigið persónulega netfang í vinnu sinni þrátt fyrir að hafa sérstakt netfang hjá stefnanda. Þykir þessi skýring vitnisins trúverðug.
Óumdeilt er að það var vitnið Birgir sem benti stefnda á að Kanda ehf. væri til sölu. Hefur Birgir sagt frá því að Brynhildur, ráðgjafi hjá stefnanda, hafi haft kynningarefni um fyrirtækið undir höndum þar sem hún hafi verið búin að reyna að koma á viðskiptum við annan aðila um fyrirtækið en ekki tekist. Vitnið Jens hefur og staðfest að Spron hafi kynnt umrætt fyrirtæki á fundi með starfsmönnum stefnanda.
Birgir kvaðst hafa fengið leyfi frá Brynhildi til að fara með áðurgreint kynningarefni til stefnda. Kvað hann stefnda hafa skoðað efnið og í framhaldi af því hefðu þeir átt fund með starfsmönnum Spron verðbréfa, þeim Guðna Halldórssyni og Hrafni Þórðarsyni.
Stefndi hefur hins vegar borið um það að Birgir hafi ekki verið á fyrsta vinnufundinum með Guðna og Hrafni, starfsmönnum Spron. Birgir hafi síðar mætt á einn stöðufund, en þar hafi ekkert markvert gerst. Þá hafi Birgir ekki komið nálægt frumdrögum kauptilboðsins.
Vitnið Guðni Halldórsson, starfsmaður Spron Verðbréfa, bar um það hér fyrir dómi að hafa komið að sölu á fyrirtækinu Kanda ehf. og að hafa átt samskipti við Birgi í tengslum við þá sölu. Kvaðst hann hafa látið Birgi vita af því að fyrirtækið væri í sölumeðferð hjá Spron verðbréfum og nokkru síðar hefði Birgir haft samband og sagst vita af áhugasömum aðila. Í framhaldi af því hefði Birgir, stefndi og eiginkona hans komið á fund hjá Spron verðbréfum. Kvaðst hann hafa litið svo á að Birgir væri ráðgjafi Jóhanns í málinu. Á þessum fyrsta fundi, sem hann sagðist muna mjög vel eftir, hefði farið fram ítarleg kynning á rekstri félagsins, umboðum og upplýsingum um fjárhag þess og þar hefðu komið fram flestallar þær upplýsingar um fyrirtækið, sem máli skiptu. Tók vitnið fram að fundur þessi hefði verið langur og góður. Nánar aðspurt sagðist vitnið halda að fundurinn hefði staðið í tvær til þrjár klukkustundir. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvort Birgir sat einn eða tvo fundi vegna þessa máls og sagðist ekki vita hvers vegna Birgir hefði ekki verið boðaður á fleiri fundi.
Hann sagði að málin hefðu síðan þróast þannig að stefndi hefði fengið frekari upplýsingar frá Spron og síðan komið sjálfur með kauptilboð í fyrirtækið. Næst hefði farið fram áreiðanleikakönnun og í framhaldi af henni hefði stefndi notið aðstoðar Fulltingis vegna málsins.
Vitnið Hrafn Þórðarson, starfsmaður Spron Verðbréfa, kvaðst einnig hafa komið að sölu á fyrirtækinu Kanda sem ráðgjafi seljanda og átt samskipti við Birgi vegna þess máls. Hann sagði að Birgir hefði mætt með Jóhanni á kynningarfund hjá Spron með vitninu og Guðna Halldórssyni, en kvaðst ekki minnast þess að Birgir hefði mætt á fleiri fundi vegna málsins. Hann sagði að mál hefðu atvikast þannig að stefndi hafði skilið eftir nafnspjald hjá honum, en Guðni hefði hins vegar verið með upplýsingar um Birgi. Guðni hefði ekki verið viðlátinn þegar vitnið hefði boðað til annars fundar vegna málsins og því hefði hann aðeins haft samband við stefnda í því skyni að boða hann og Birgi til næsta fundar. Hann sagði að stefndi hefði þá tjáð honum að hann ætlaði að sjá um þetta sjálfur. Sagðist hann ekki muna eftir að Birgir kæmi að söluferlinu eftir þetta.
Með vísan til framburðar ofangreindra tveggja vitna, sem telja verður óvilhöll málsaðilum, þykir sannað að starfsmaður stefnanda, Birgir, sat fund vegna málsins hjá Spron þar sem farið var ítarlega yfir öll helstu atriði varðandi rekstur og fjárhag fyrirtækisins Kanda ehf.
Af hálfu stefnanda hafa verið lögð fram á dskj. nr. 5 frumdrög að kauptilboði stefnda og eiginkonu hans í Kanda ehf. með handskrifuðum athugasemdum. Hefur Birgir borið að um sé að ræða athugasemdir hans, sem hann hafi fært inn í tilboðsdrögin á fundi með stefnda og eiginkonu hans þar sem efnisatriði kauptilboðsins hafi verið rædd ítarlega. Kvaðst hann hafa átt tvo fundi með stefnda og eiginkonu hans, en í síðara skiptið hafi þau hist stuttlega áður en tilboðið var afhent.
Þegar stefndi var inntur út í frumdrögin á dskj. nr. 5 neitaði hann því í fyrstu að um væri að ræða frumdrög að kauptilboði í Kanda ehf. Sagði hann að um væri að ræða undanfara að fyrstu drögum að tilboðinu. Sagðist hann ekki vita hvernig stefndi hefði komist yfir þau en gaf í skyn að Birgir hefði tekið þau af skrifborði hans að honum fjarstöddum. Síðar sagði stefndi að þetta væru að öllum líkindum frumdrög að tilboði í Kanda ehf., sem hann hefði sjálfur unnið að. Hann sagðist hins vegar aldrei hafa séð frumdrögin með þeim athugasemdum, sem greindi á dskj. nr. 5. Stefnda var þá bent á að við samanburð á frumdrögunum í dskj. nr. 5 og lokadrögunum á dskj. nr. 23 mætti sjá að í lokadrögunum hefði verið tekið tillit til margra þeirra athugasemda, sem greindi á dskj. nr. 5. Kvað stefndi þá líklegt að Birgir hefði komist yfir lokadrög kauptilboðsins, en þau hefðu gengið á milli hans og Spron. Síðar sagði hann að honum væri óskiljanlegt hvernig Birgir hefði komist yfir þessi drög.
Framangreindar skýringar stefnda á því hvernig frumdrög að kauptilboði í Kanda ehf. á dskj. nr. 4 komust í hendur Birgis þykja ótrúverðugar.
Vitnið Birgir neitaði því hér fyrir dómi að hafa tjáð stefnda að hann væri ekki að vinna fyrir stefnanda í þessu tiltekna máli og að líta bæri á aðstoð hans sem vinargreiða. Með vísan til málsatvika og þess sem að framan greinir um feril málsins og tölvupóstsamskipti Birgis við stefnda og starfsmenn Spron Verðbréfa vegna málsins þykir ósannað að Birgir hafi tekið að sér persónulega og án greiðslu að aðstoða stefnda við kaup á umræddu fyrirtæki.
Fram hefur komið að af hálfu stefnanda var ekki gerður skriflegur samningur við stefnda vegna þjónustunnar og Birgir kvaðst ekki hafa kynnt honum sérstaklega gjaldskrá fyrirtækisins, sbr. 9. gr. laga nr. 99/2004. Í ljósi náins kunningsskapar stefnda og vitnisins Birgis og þess að stefndi er sérfræðingur á þessu sviði þykir þetta ekki ráða úrslitum í málinu, enda var gjaldskrá stefnanda og aðrar upplýsingar um þjónustu fyrirtækisins aðgengilegar á heimasíðu stefnanda. Stefndi hefur sjálfur sagt að honum hafi verið ljóst að Birgir starfaði sem ráðgjafi hjá stefnanda. Þá hefur stefndi borið um það að Birgir hafi oft haft samband við hann símleiðis vegna þessa tiltekna máls, en auk þess hafi hann orðið var við að vitnið hringdi oft í starfsmenn Spron til að grennslast fyrir um gang málsins. Einnig hefur stefndi sagt að ekki hafi verið auðvelt að snúa vitnið af sér þar sem hann hafi ekki viljað vera ókurteis, svo og að Birgir hafi brugðist reiður við þegar hann hefði tilkynnt honum að hann væri tilbúinn með annað tilboð í fyrirtækið.
Í ljósi framangreinds og atvika málsins að öðru leyti þykja leiddar að því nægar líkur að með stefnda og stefnanda, fyrir tilstilli vitnisins Birgis, hafi komist á samningur um leit að heppilegu fyrirtæki fyrir stefnda og eiginkonu hans. Ekki er því fallist á með stefnda að um aðildarskort sé að ræða í málinu, hvorki af hálfu stefnanda né stefnda. Þá er ljóst að kaupsamningur um fyrirtækið Kanda ehf. komst á í kjölfar þess að vitnið benti stefnda á að félagið væri til sölu. Þjónusta og gjaldskrá stefnanda er skilgreind með skilmerkilegum hætti á heimasíðu stefnanda, sbr. dskj. nr. 11 og þykir sýnt að þjónusta vitnisins Birgis var í samræmi við þann feril, sem þar er lýst, þar til stefndi hafnaði frekari aðstoð vitnisins.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er fallist á aðalkröfu stefnanda, sem er í samræmi við áðurgreinda gjaldskrá félagsins.
Með hliðsjón af málsúrslitum er stefnda gert að greiða stefnanda 405.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Jóhann Magnússon, greiði stefnanda, Kontakt ehf., 3.859.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2008 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 405.000 krónur í málskostnað.