Hæstiréttur íslands

Mál nr. 247/2005


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Vopnalagabrot
  • Aðalmeðferð
  • Ómerking héraðsdóms


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. nóvember 2005.

Nr. 247/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.

Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Þjófnaður. Vopnalagabrot. Aðalmeðferð. Ómerking héraðsdóms.

X var ákærður fyrir ýmis brot samkvæmt tveimur ákærum. Þegar málið var tekið fyrir í héraði játaði X brot samkvæmt einum lið annarrar ákærunnar en neitaði sakargiftum að öðru leyti án þess að honum hefði gefist færi á að ráðfæra sig við verjanda sinn. Við aðalmeðferð málsins var verjandi X mættur en ekki hann sjálfur. Hann var síðan sakfelldur í héraði fyrir brot samkvæmt annarri ákærunni en sýknaður að öðru leyti. Talið var dómara hafi við fyrirtöku málsins verið rétt að vekja athygli X á því að hann þyrfti ekki að tjá sig um sakarefnin í því þinghaldi fyrst verjandi hans var ekki viðstaddur. Þá hafi dómurum borið að fresta aðalmeðferð og hlutast til um að ákærði yrði færður fyrir dóminn til skýrslugjafar, enda hafði hann ekki átt þess áður kost að tjá sig á viðhlítandi hátt um sakarefnin. Vegna þessara annmarka á meðferð málsins var héraðsdómur ómerktur að því er varðaði umrædda ákæru og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. maí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvaldsins sem krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega að 3. og 4. lið ákæru 8. nóvember 2004 ásamt bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þessum ákæruliðum. Þá krefst hann sýknu af 5. lið ákærunnar. Til þrautavara krefst hann þess að refsing verði milduð.

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Þar kemur fram að málið gagnvart ákærða hafi verið rekið samkvæmt tveimur ákærum 8. nóvember 2004 og 10. janúar 2005. Í síðari ákærunni var honum gefið að sök að hafa staðið að því ásamt tveimur mönnum öðrum að hóta nafngreindum manni og hans nánustu lífláti og líkamsmeiðingum. Héraðsdómur sýknaði ákærða af þeirri sök. Ákæruvaldið unir dómi að því leyti. Samkvæmt fyrri ákærunni, sem ein er hér til meðferðar, var ákærða í 3. lið gefin að sök hegningarlagabrot með því að hafa 3. nóvember 2004 ásamt tveimur mönnum öðrum farið yfir girðingu inn á sundlaugarsvæði íþróttamiðstöðvarinnar í Y farið í heitan pott, brotið upp glugga á þreksal stöðvarinnar og tekið þaðan tvö 10 kílóa handlóð og tvö lyftingabelti og haft á brott með sér. Í 4. lið fyrir hegningarlagabrot með því að hafa aðfaranótt 22. október sama ár brotið upp glugga á suðurhlið leikskóla í bænum, farið þar inn og tekið þaðan „alla íhluti úr tveimur tölvum“, harðan disk og brennara úr þriðju tölvunni, stafræna myndavél ásamt minniskorti, eitt lyklaborð og tvær tölvumýs. Í 5. lið var hann loks sakaður um brot á vopnalögum með því að hafa átt á heimili sínu óskráða loftskammbyssu með magasíni án þess að hafa fengið til þess skotvopnaleyfi.

II.

Vörn ákærða byggist aðallega á því að málsmeðferð í héraði hafi verið svo ábótavant að ekki verði lagður efnisdómur á málið. Gerð er sú athugasemd við ákæru að hún uppfylli ekki skilyrði c. liðs 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem ætluðu broti sé lýst á almennan hátt sem hegningarlagabroti en ekki getið um heiti þess eða það frekar skilgreint. Í héraðsdómi segir að ákæran sé ekki svo nákvæm sem skyldi, en þar sé þó rakið nokkuð ítarlega í hverju brotin séu fólgin og vísað til þess undir hvaða hegningarlagaákvæði þau falli. Verði að telja að brotunum sé nægjanlega lýst. Verður að fallast á það að málinu verði ekki vísað frá héraðsdómi af þessum sökum.

Mál vegna ákæru 8. nóvember 2004 var þingfest 11. janúar 2005. Var þá bókað að ákærði hafi boðað forföll vegna sjómannsstarfa. Hann sótti hins vegar þing 18. sama mánaðar og óskaði eftir því að sér væri skipaður verjandi og var það gert. Verjandinn var ekki mættur á þinginu en engu að síður var ákærði látinn taka afstöðu til sakarefna ákærunnar án þess að honum væri fyrst leiðbeint um það að hann gæti látið það bíða þar til verjandinn mætti til þings. Bókað var að ákærði játaði brot samkvæmt 3. lið ákærunnar og hann féllist á bótakröfu vegna skemmda sem hann og félagar hans hefðu valdið. Jafnframt að hann hafi neitað brotum samkvæmt 4. og 5. lið ákærunnar. Málinu var síðan frestað ótiltekið. Næst var það tekið fyrir 31. janúar sama ár og þá sameinað máli samkvæmt ákæru 10. janúar 2005, sem getið er um hér að framan. Ákærði var ekki mættur í þessu þinghaldi. Sameinuð málin voru síðan tekin fyrir 2. febrúar 2005 og þá bókað að verjandi ákærða hefði boðað forföll en jafnframt að í samráði við hann væri aðalmeðferð boðuð 8. mars 2005. Aðalmeðferð fór síðan fram þann dag fyrir þremur héraðsdómurum og hafði enginn þeirra komið að málinu fyrr. Þá gáfu skýrslur þeir sem fyrir sökum voru hafðir með ákærða í ákæru 10. janúar 2005, svo og tveir lögreglumenn í Y sem komu að máli ákærða samkvæmt þeirri ákæru, sem hér er til meðferðar. Ákærði var hins vegar ekki mættur og var bókað að ekki hefði náðst til hans en sækjandi og verjandi væru sammála um að málið yrði flutt án þess að hann kæmi fyrir dóm til skýrslugjafar og var gagnaöflun lýst lokið. Upplýst var þó að hann væri staddur á heimili sínu í Y þótt þess væri ekki getið hvernig sú vitneskja væri fengin. Engar upplýsingar er að fá af gögnum málsins um það hvort og þá hvernig hann hafi verið boðaður til aðalmeðferðar.

Dómara þeim sem tók málið fyrir 18. janúar 2005 og skipaði ákærða verjandi hefði verið rétt að vekja athygli hans á því að hann þyrfti ekki að tjá sig um sakarefnin í því þinghaldi fyrst verjandi hans var þar ekki mættur. Samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 á ákærði rétt á að fá að vera viðstaddur aðalmeðferð máls og samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal taka skýrslu af ákærða næst á eftir því að ákærandi gerir grein fyrir ákæru og hvaða gögnum hún er studd. Bar dómurum að fresta aðalmeðferð og hlutast til um að ákærði yrði færður fyrir dóminn til skýrslugjafar, enda hafði hann ekki áður átt þess kost að tjá sig á viðhlítandi hátt um sakarefnin. Þar sem meðferð málsins var þannig í verulegum atriðum ábótavant verður ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóm að því er varðar ákæru 8. nóvember 2004 og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Sakarkostnaður í héraði býður endanlegs dóms.

Áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði, en við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                                                  Dómsorð:

Héraðsdómur varðandi ákæru 8. nóvember 2004 skal vera ómerkur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. apríl 2005

Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars s.l., hefur verið höfðað hér fyrir dómi með fjórum ákærum lögreglustjóranna á Ólafsfirði og Akureyri á hendur D, [...], X, [...] og E, [...].

1. Ákæruskjal lögreglustjórans á Akureyri útgefið 20. ágúst 2004.

Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærða D,

[...]

2. Ákæruskjal lögreglustjórans á Akureyri útgefið 22. nóvember 2004.

Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærða D,

[...]

3. Ákæruskjal lögreglustjórans á Y útgefið 8. nóvember 2004.

Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærða X og mönnunum A og B;

1.  [...]

2.  [...]

3. „fyrir hegningarlagabrot með því að hafa aðfararnótt miðvikudagsins 3. nóvember sl. farið yfir girðingu og inná sundlaugarsvæði Íþróttamiðstöðvar [Y], farið í heitan pott, brotið upp glugga á þreksal Íþróttamiðstöðvarinnar ásamt meðákærðu og farið þangað inn og tekið 2 stykki af 10 kílóa handlóðum og tvö lyftingabelti og haft þau á brott með sér.“

4.  „fyrir hegningarlagabrot með því að hafa aðfararnótt 22. október sl. brotið upp glugga á suðurhlið leikskólans [Z], farið þar inní leikskólann og tekið þaðan með sér alla íhluti úr tveimur tölvum, harðan disk og brennara úr þriðju tölvunni, Minolta Dimagex stafræna myndavél ásamt 64 mb minniskorti og 1 stk. Compaq lyklaborð og tvær tölvumýs.

Telst þetta varða við 244. gr., 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.“

5.  „fyrir brot á vopnalögum með því að hafa átt á heimili sínu óskráða loftskammbyssu með magasíni án þess að hafa hlotið skotvopnaleyfi.

Telst þetta varða við 12. gr. sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 11. gr. reglugerðar nr. 787/1998.

Þá er þess krafist á loftskammbyssan verði gerð upptæk með dómi sbr. 37. gr. vopnalaga nr. 17/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdir til refsingar.

Þá er gerð sú krafa fyrir hönd Íþróttamiðstöðvarinnar í Y að allir ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 8.544.- og auk þess að X fyrir hönd Leikskólans Z verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 455.538,-“

Í þinghaldi þann 31. janúar 2005 var þáttur ákærða Kristins skilinn frá máli meðákærðu og sameinaður máli þessu.

4. Ákæruskjal lögreglustjórans á Akureyri útgefið 10. janúar 2005.

Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur ákærðu X, D, og E,

„fyrir hótanir, með því að hafa laugardaginn 22. nóvember 2003, staðið saman að því að hóta [F], að drepa hann og ráðast að fjölskyldu hans og öðrum aðilum sem honum væru kærir og valda þeim líkamstjóni, auk þess sem þeir hótuðu honum að koma á heimili hans og leggja það í rúst, ef hann greiddi ekki ákærða [E] kr. 500.000-, sem [E] taldi [F] skulda sér vegna bifreiðaviðskipta, en ákærði [E] réði meðákærðu [X] og [D] til að innheimta þessa skuld með þessum hótunum um ofbeldi fyrir sig, gegn því að fá hluta af kröfunni sem greiðslu fyrir innheimtuna.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

Af hálfu skipaðs verjanda D er þess aðallega krafist að kröfum ákæruvaldsins á hendur umbjóðanda hans í ákæru útgefinni 10. janúar 2005 verði vísað frá dómi.  Til vara krefst hann sýknu af þessu ákæruatriði. Þá krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins í ákæru útgefinni 22. nóvember 2004 og vægustu refsingar vegna brots samkvæmt ákæru útgefinni 20. ágúst 2004.  Til vara krefst vægustu refsingar sem lög leyfa vegna allra ákæruatriða. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna og þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Skipaður verjandi X krefst þess aðallega að ákæruliðum 3 og 4 í ákæru útgefinni 8. nóvember 2004 verði vísað frá dómi.  Til vara krefst hann sýknu af liðum 4 og 5 í framangreindri ákæru og vægustu refsingar sem lög leyfa vegna brots samkvæmt lið 3 í sömu ákæru.  Hann krefst frávísunar á bótakröfum í ákæru útgefinni 8. nóvember 2004.  Þá krefst hann sýknu af broti samkvæmt ákæru útgefinni 10. janúar 2005 en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Verjandinn krefst þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.á.m. hæfileg málsvarnarlaun honum til handa.

Verjandi E krefst sýknu af ákæru á hendur umbjóðanda sínum en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun sér til handa.

I.

Við aðalmeðferð málsins krafðist verjandi ákærða X þess að ákæruliðum 3 og 4 í ákæru dags. 8. nóvember 2004 yrði vísað frá dómi.  Byggir sú krafa verjandans á því að heiti brotanna sé ekki nefnt í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, heldur sé þar aðeins talað um hegningarlagabrot.  Fallast má á að ákæran sé að þessu leyti ekki svo nákvæm sem skyldi. Hins vegar er í ákæru rakið nokkuð ítarlega í hverju brotin séu fólgin og vísað til þess undir hvaða ákvæði hegningarlaga þau falli.  Má því að telja brotunum nægilega lýst og að þessi ónákvæmi í ákæru valdi ekki frávísun þessara ákæruliða.

Verjandi ákærða D krefst þess að ákæru á hendur umbjóðanda hans útgefinni 10. janúar 2005 verði vísað frá dómi.  Byggir hann kröfuna á því að brotinu sé ekki nægilega lýst í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Koma þurfi fram hvernig hótunin var sett fram, þ.e. með orðum, í síma eða návígi eða t.d. með látbragði.

Í ákæru er talað um að ákærðu hafi staðið saman að því að hóta F að drepa hann og ráðast að fjölskyldu hans og öðrum aðilum sem honum væru kærir og valda þeim líkamstjóni, auk þess sem þeir hafi hótað að koma og leggja heimili hans í rúst ef hann greiddi ekki ákærða E kr. 500.000,-.  Telja verður þessa lýsingu nægilega skýra.  Af henni má greinilega ráða að þeir séu ákærðir fyrir að hafa uppi hótanir í orðum, þó þess sé ekki getið í ákæru að það hafi verið í gegnum síma.  Verður ákærunni því ekki vísað frá af þessum sökum, enda var vörn ákærðu ekki áfátt vegna þessa, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

II.

Ákæruskjal útgefið 20. ágúst 2004.

[...]

III.

Ákæruskjal útgefið 22. nóvember 2004.

[...]

IV.

Ákæruskjal útgefið 8. nóvember 2004.

Ákæruliður 3.

Þann 4. nóvember 2004 barst lögreglunni á Y tilkynning um að farið hefði verið inn í tækjasalinn og þaðan stolið handlóðum og lyftingabelti.  Á myndum úr öryggismyndavél mátti sjá að ákærði hafði verið þar á ferð ásamt piltunum A og B.  Lögreglan fékk heimild til húsleitar hjá þeim öllum og fundust hlutirnir sem horfið höfðu á heimili A, þar sem ákærðu voru allir staddir.

Við yfirheyrslur lögreglu viðurkenndi ákærði X að hafa farið inn á svæðið umrædda nótt.  Þá kom hann fyrir dóm 18. janúar sl. og játaði brotið eins og því er lýst í ákæru.  Er játning hans í samræmi við gögn málsins.  Telst sök hans því nægilega sönnuð og varðar brotið við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem þykir tæma sök vegna brots á 1. mgr. 257. gr. sömu laga.

Ákæruliður 4.

Samkvæmt rannsóknargögnum barst lögreglunni á Y tilkynning um innbrot og þjófnað á leikskólanum Z á Y að morgni föstudagsins 22. október 2004.  Fór lögregla þegar á staðinn.  Húsnæðið hafði verið yfirgefið um kl. 19.00 kvöldið áður en þegar tilkynnandi kom til vinnu að morgni kom í ljós að ýmsir tölvuíhlutir og stafræn myndavél höfðu horfið.  Á vettvangi sáust ummerki um innbrot; gluggakrækja í glugga austast á suðurhlið hússins hafði verið sprengd upp og utan við gluggann mátti sjá ummerki á nokkrum stöðum, líklega eftir skrúfjárn eða annað álíka verkfæri.  Þá hafði læstur skápur einnig verið spengdur upp.

Lögreglan á Y fékk heimild dómara til húsleitar hjá þremur mönnum sem grunaðir voru um innbrotið, þ.á.m. ákærða X.  Var húsleit gerð hjá honum þennan sama dag og var hann viðstaddur leitina.  Fundust þar ýmsir þeirra hluta sem horfið höfðu af leikskólanum og var ákærði því handtekinn og færður til yfirheyrslu.  Við yfirheyrslu lögreglu, þann 22. október 2004, játaði X að hafa brotist inn í leikskólann kvöldið áður og kvaðst þar hafa verið einn að verki.  Þegar hann var spurður um það hvernig hann hefði komist inn, sagðist hann hafa farið inn um „glugga að sunnan“ og „inn um opinn glugga austast á suðurhliðinni“.  Þar sagðist hann hafa stolið „einhverju tölvudrasli, úr einni eða tveimur tölvum“.  Varðandi þann hluta þýfisins sem ekki fannst heima hjá ákærða kvaðst hann ekki vita hvar það væri, hann hefði líklega bara misst það á leiðinni.  Ákærði X var kallaður til yfirheyrslu á ný þann 2. nóvember 2004.  Var hann þá spurður um þá hluti sem hald hafði verið lagt á við húsleitina sem gerð var á heimili hans þann 22. okóber 2004.  Kannaðist hann þá við að ýmsir hlutanna tilheyrðu leikskólanum Z og kvaðst hafa tekið þá þar þegar hann braust þar inn.

Vitnið Sigurbjörn Þorgeirsson, varðstjóri, kvað lögreglu hafa fengið heimild til húsleitar hjá ákærða X vegna gruns um að hann hefði átt þátt í innbrotinu á leikskólann Z.  Þar hafi ýmsir hlutir úr innbrotinu fundist.  Í framhaldi af því hafi hann og tveir aðrir, sem hjá honum voru þá staddir, verið færðir til skýrslugjafar hjá lögreglu.  Þar hafi X játað að hafa brotist inn í leikskólann og stolið ýmsum hlutum og sagst hafa verið þar einn að verki.  Aðspurður sagði vitnið að ekki hefðu allir hlutir innbrotsins fundist hjá ákærða, sumt hafi komist til skila en annað ekki.

Vitnið Jón Konráðsson, aðalvarðstjóri, kvaðst hafa tekið þátt í húsleit heima hjá ákærða X vegna innbrots á leikskólann Z og séð um yfirheyrslur á honum vegna þess máls.  Hann kvað X þar hafa játað að hafa brotist þar inn og tekið þaðan ýmsa hluti.  Hann hafi sagst hafa verið einn að verki og ekki viljað upplýsa hvar þeir hlutir væru sem ekki höfðu fundist við húsleit á heimili hans.

Ákærði mætti fyrir dóm þann 18. janúar 2005 og neitaði sök samkvæmt ákærulið 4 í ákæru dags. 8. nóvember 2004.  Er sú neitun í andstöðu við skýrslur sem ákærði gaf hjá lögreglu 22. október sl. og 2. nóvember s.l.  Ákærði mætti ekki við aðalmeðferð málsins og hefur ekki útskýrt hvers vegna hann breytti framburði sínum frá því að hann gaf skýrslu hjá lögreglu.  Voru sækjandi málsins og verjandi ákærða sammála um að málið skyldi flutt þrátt fyrir fjarveru ákærða, sem ekki náðist í.  Líta verður til þess að ákærði játaði í tvígang, með nokkurra daga millibili, að hafa framið umræddan verknað.  Hafa lögreglumennirnir báðir sem viðstaddir voru þá skýrslutöku borið vitni fyrir dóminum og staðfest að ákærði hafa þar ekki verið beittur þvingunum af neinu tagi.  Einnig verður að líta til þess að hlutir sem stolið var af leikskólanum fundust heima hjá ákærða morguninn eftir innbrotið.  Þá kom lýsing ákærða á því hvernig hann hefði brotist inn heim og saman við ummerki á vettvangi brotsins.

Þegar allt þetta er virt verður að telja að komin sé fram nægileg sönnun um sekt ákærða X samkvæmt 4. ákærulið, sbr. 46. og 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og varðar brotið við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem þykir tæma sök gagnvart broti á 1. mgr. 257. gr. sömu laga.

Ákæruliður 5.

Við húsleit sem gerð var hjá ákærða X þann 22. október 2004 vegna gruns um innbrot í leikskólann Leikhóla á Y fannst óskráð loftskammbyssa með magasíni.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði ákærði að vera eigandi byssunnar, en upplýst er að hann hefur ekki hlotið skotvopnaleyfi.  Kvaðst hann hafa keypt hana í Reykjavík fyrir mörgum árum.

Vitnið Sigurbjörn Þorgeirsson varðstjóri staðfesti fyrir dóminum að við ofangreinda húsleit, vegna innbrotsins á leikskólann, hafi byssan fundist hjá X.  X hafi þá játað að vera eigandi hennar og aftur við yfirheyrslur.

Vitnið Jón Konráðsson, aðalvarðstjóri, sagði umrædda byssu hafa fundist á heimili X og hann hafi við yfirheyrslu játað að vera eigandi hennar.

Ákærði mætti fyrir dóm þann 18. janúar 2005 og neitaði sök samkvæmt lið 5 í ákæru dags. 8. nóvember 2004.  Er sú neitun í andstöðu við skýrslur sem ákærði gaf hjá lögreglu 22. október og 2. nóvember s.l.  Ákærði mætti ekki við aðalmeðferð málsins og hefur ekki útskýrt hvers vegna hann breytti framburði sínum frá því að hann gaf skýrslu hjá lögreglu.  Samkvæmt framburði tveggja lögreglumanna fyrir dóminum játaði ákærði þegar við leitina að vera eigandi byssunnar, og ítrekaði það við skýrslutöku hjá lögreglu 22. október og 2. nóvember s.l.

Þegar þetta er virt verður að telja að komin sé fram nægileg sönnun um sekt ákærða X samkvæmt 4. ákærulið, sbr. 46. og 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og varðar brotið við 12. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 11. gr. reglugerðar nr. 787/1998.

V.

Ákæruskjal útgefið 10. janúar 2005.

[...]

V.

[...]

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði X frá 1996 hlotið tuttugu refsidóma fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og umferðarlögum nr. 50/1987.  Hann hefur þ.á.m. hlotið fjórtán dóma fyrir auðgunarbrot, þar af átta sem hafa ítrekunaráhrif í máli þessu, sbr. 71. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þann 31. desember 2001 var X dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, ölvunarakstur og akstur sviptur ökuréttindum.  Þann 20. mars 2002 var honum gerður 60 daga hegningarauki vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni og 17. desember 2002 var hann dæmdur fyrir þjófnað en ekki gerð sérstök refsing vegna hegningaraukaáhrifa.  X fékk reynslulausn 31. desember 2002 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar sem voru 210 dagar.  Þau brot sem hann er nú dæmdur fyrir framdi hann á reynslulausnartíma.  Ber því að gera honum refsingu í einu lagi fyrir þau brot sem nú eru dæmd og með hliðsjón af fangelsisrefsingu sem óafplánuð er, sbr. 42. gr., sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Að þessu virtu og að teknu tilliti til 72.gr. og 77. gr., sbr. 255 gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins um vopnalagabrot ákærða X og með vísan til kröfugerðar ákæruvalds skal ákærði sæta upptöku loftskammbyssu þeirrar sem fannst við húsleit á heimili hans þann 22. október 2004, sbr. 37. gr. vopnalaga nr. 17/1998.

Ákærði X féllst á bótakröfu Íþróttamiðstöðvarinnar á Y og ber að dæma hann til greiðslu þeirrar kröfu eins og krafist er og greint er dómsorði.

Bótakrafa leikskólans Z er m.a. rökstudd með því að kaupa hafi þurft nýjar tölvur.  Engra gagna nýtur um ástand tölva þeirra er stolið var út og ekki liggja fyrir gögn um hvaða hluti vantaði til að gera þær nothæfar.  Samkvæmt framanskráðu þykir krafan ekki nægilega rökstudd til að hægt sé að taka hana til greina gegn mótmælum ákærða og er henni því vísað frá dómi.

[...]

Sakarkostnað vegna ákærða X, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., skal ákærði greiða að hálfu en að öðru leyti skal hann greiddur úr ríkissjóði, eins og nánar er tilgreint í dómsorði.

[...]

Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist vegna anna dómsformanns og veikinda annars meðdómarans en ekki þykir þó ástæða til að munnlegur málflutningur fari fram að nýju, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 448/2002 sem kveðinn var upp 20. mars 2003.

Dómurinn er kveðinn upp af Frey Ófeigssyni, dómstjóra og héraðsdómurunum Ásgeiri Pétri Ásgeirssyni og Ólafi Ólafssyni.

 

D Ó M S O R Ð

[...]

Ákærði Kristinn Kristinsson sæti 12  mánaða fangelsi.

Framangreind loftskammbyssa er gerð upptæk

[...]

Sakarkostnað X, þ.á.m. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl. kr. 150.000 greiði ákærði að hálfu en að hálfu greiðist hann úr ríkissjóði.

[...]