Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 3. júlí 2012. |
|
|
Nr. 467/2012. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Ingi Freyr Ágústsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 25. júlí 2012 klukkan 24. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni eða halda sig innan ákveðins svæðis eða á ákveðnum stað, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurðar er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 27. júní 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á meðan áfrýjunarfrestur stendur yfir, allt til miðvikudagsins 25. júlí 2012 kl. 24.
Í greinargerð kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-298/2012 frá 30. maí sl. var dómfellda X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála til dagsins í dag 27. júní kl. 16.00.
Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi samfleytt á grundvelli c.-liðar 1. mgr. 95. gr. fyrrnefndra laga frá 4. apríl sl. til dagsins í dag. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur R-241/2012 frá 2. maí sl. um áframhaldandi gæsluvarðhald dómfellda hafi verið kærður til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurðinn með dómi nr. 300/2012 uppkveðnum 4. maí sl.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út ákæru dagsetta þann 30. apríl sl. á hendur dómfellda fyrir fimm mál, nánar tiltekið fyrir fjögur þjófnaðarbrot, þar af eitt innbrot í íbúðarhúsnæði, hótunarbrot og hylmingarbrot. Embætti ríkissaksóknara hafi ennfremur gefið út ákæru þann 10. maí sl. á hendur dómfellda og félaga hans fyrir ránsmál. Málin hafi verið sameinuð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í mál nr. S-304/2012 sem dómtekið hafi verið að lokinni aðalmeðferð þann 22. júní sl. Með dómi uppkveðnum fyrr í dag hafi dómfelldi verið dæmdur til fangelsisrefsingar, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í fyrrgreindu máli.
Dómurinn sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómfelldi hafi tekið sér frest til ákvörðunar um áfrýjun til Hæstaréttar Íslands, sbr. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Dómfelldi hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og brot þau sem hann hafi verið dæmdur fyrir hér í dag hafi átt sér stað á rúmlega vikutíma eða frá 26. mars sl. til 4. apríl sl. þegar dómfelldi hafi verið látinn sæta gæsluvarðhaldi. Dómfelldi hafi hlotið marga fangelsisdóma fyrir samskonar brot en hann hafi lokið afplánun 15 mánaða fangelsisrefsingar þann 21. mars sl. Þyki að mati lögreglu ljóst að dómfelldi hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans.
Með vísan til framangreinds og sakaferils dómfellda telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að dómfelldi muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur, nema að afplánun geti hafist fyrir þann tíma.
Sakarefni málanna séu talin varða við 233., 244. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 10 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi allt frá 4. apríl sl. á grundvelli c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 enda hefur sakarferill hans gefið tilefni til að ætla að hann muni halda áfram brotum gangi hann laus. Dómfelldi var fyrr í dag dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir rán og þjófnaði og byggðist dómurinn m.a. á því að dómfelldi láti ekki skipast við endurtekna dóma. Þá beri gögn málsins með sér að hann standist ekki reynslulausnir úr fangelsi. Samkvæmt þessu fellst dómurinn á að hætta sé á að dómfelldi haldi áfram brotum gangi hann laus. Þá er og vísað til þess að dómfelldi hefur tekið sér áfrýjunarfrest og ber því skv. 3. mgr. 97. gr. sömu laga að verða við kröfu lögreglustjóra eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með vísan til þessa eru heldur ekki efni til að verða við varakröfum dómfellda.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp þenna dóm.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 25. júlí 2012 kl. 24:00.