Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/1998
Lykilorð
- Hlutafélag
- Forkaupsréttur
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 20. maí 1999. |
|
Nr. 487/1998. |
Árni Benediktsson (Skúli Bjarnason hrl.) gegn Þróunarsjóði sjávarútvegsins (Pétur Guðmundarson hrl.) |
Hlutafélög. Forkaupsréttur. Kröfugerð.
Á grundvelli 12. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 92/1994 skyldi „starfsfólk og aðrir eigendur” fyrirtækja, sem sjóðurinn átti hlutafé í, eiga forkaupsrétt við sölu sjóðsins á hlutabréfum í viðkomandi fyrirtæki. Við sölu á hlutabréfum sjóðsins í B var Á, sem var í stjórn B, ekki boðinn forkaupsréttur á hlutabréfunum fyrr en hann leitaði eftir því hjá starfsmanni sjóðsins, en þá var honum sent sams konar bréf og starfsmönnum B. Á tilkynnti að hann óskaði sem starfsmaður B eftir að neyta forkaupsréttarins, en stjórn sjóðsins hafnaði ósk hans. Krafðist Á skaðabóta úr hendi sjóðsins vegna þess, sem hann taldi vera ólögmæta riftun. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að bundið væri í lögum hverjir gætu neytt forkaupsréttar á hlutabréfum sjóðsins og að stjórnarmenn í hlutafélagi gætu ekki talist starfsmenn þess. Var Á því ekki talinn eiga forkaupsrétt og ákvörðun stjórnar sjóðsins um að hafna ósk Á um að neyta forkaupsréttar því talin lögmæt, þótt honum hafi verið boðinn forkaupsréttur af hálfu sjóðsins. Var sjóðurinn sýknaður af kröfum Á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 1998. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 2.394.059 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 28. nóvember 1996 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði forkaupsréttur áfrýjanda að hlutabréfum í Búlandstindi hf. við sölu stefnda á bréfum til starfsmanna og eigenda félagsins, sem fram fór haustið 1996. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms. Einnig krefst hann frávísunar varakröfu áfrýjanda frá dómi. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Varakrafa áfrýjanda var ekki höfð uppi í héraði. Hún rúmast ekki innan aðalkröfu hans. Þegar af þeirri ástæðu kemur varakrafan ekki til álita fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og þeim var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 18. september sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 5. janúar sl. af Árna Benediktssyni, kt. 301228-3339, Miðleiti 6, Reykjavík, á hendur Þróunarsjóði sjávarútvegsins, kt. 410794-2689, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 2.394.059 krónur með vanskilavöxtum samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987 frá 28. nóvember 1996 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að vanskilavextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 28. nóvember 1997, en síðan árlega þann dag, sbr. 12. gr. sömu laga. Að auki er krafist málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts og að málskostnaðarfjárhæðin beri vexti frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags og að vextir leggist við dæmdan málskostnað á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxtanna, sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins og að málskostnaður beri dráttarvexti 15 dögum frá dómsuppsögu í samræmi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að með lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins nr. 92/1994 tók stefndi við öllum eignum og skuldbindingum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, atvinnutryggingadeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja og hlutafjárdeildar Byggðastofnunar en við það eignaðist stefndi hlutabréf í nokkrum hlutafélögum. Samkvæmt 12. gr. laganna skyldi bjóða hlutafé til sölu a.m.k. einu sinni á ári og skyldi starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækisins eiga forkaupsrétt.
Á árunum 1994 og 1995 bauð stefndi til sölu hlutafé sitt í nokkrum félögum. Þann 26. ágúst 1996 gerði stjórn Ísfélags Vestmannaeyja hf. tilboð í hlutabréf stefnda í Búlandstindi hf. og Meitlinum hf. og var tilboðunum tekið af stefnda sama dag með fyrirvara um forkaupsrétt hluthafa og starfsmanna félaganna. Að sögn stefnda var af hans hálfu aflað upplýsinga um hverjir væru á launaskrá hjá félögunum og hverjir væru hluthafar samkvæmt hlutaskrá þeirra. Bréf vegna forkaupsréttar samkvæmt 12. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, dagsett 3. september 1996, voru send þeim sem á þessum listum voru.
Stefnandi var í stjórn Búlandstinds hf. en honum var ekki boðinn forkaupsréttur á umræddum hlutabréfum fyrr en hann hafði sjálfur leitað upplýsinga hjá framkvæmdastjóra stefnda um það hvort hann ætti rétt á að neyta forkaupsréttar. Framkvæmdastjórinn bar það undir lögmann Fiskveiðasjóðs sem taldi svo vera án þess að hann gerði sérstaka athugun á því. Var stefnanda þá sent samhljóða bréf og starfsmönnum Búlandstinds hf. hafði verið sent þann 3. september 1996. Af hálfu stefnda er því haldið fram að ákvörðun um að senda stjórnarmönnum Búlandstinds hf. forkaupsréttarbréf hafi ekki verið borin undir stjórn stefnda og sama eigi við um aðra sem fengu samhljóða bréf varðandi forkaupsréttinn.
Stefnandi tilkynnti stefnda með bréfi dagsettu 19. september 1996 að hann óskaði sem starfsmaður Búlandstinds hf. að neyta forkaupsréttar á hlutabréfum stefnda í félaginu í samræmi við bréf stefnda frá 3. september s.á. Stefnanda var svarað með bréfi stefnda dagsettu 27. nóvember 1996. Þar er tekið fram að stjórn stefnda líti svo á að stjórnarmenn í þeim fyrirtækjum sem stefndi eigi hlutabréf í og hafi í hyggju að selja geti ekki talist til starfsfólks fyrirtækjanna í skilningi 12. gr. laga nr. 92/1994. Stjórn stefnda líti því svo á að stefnandi eigi ekki forkaupsrétt að fölum hlutabréfum stefnda í Búlandstindi hf. og sé ósk stefnanda um að neyta forkaupsréttar því hafnað.
Í bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 2. janúar 1997, segir að stefndi hafi rift samningi við stefnanda um kaup á hlutabréfum í Búlandstindi hf. og er riftuninni mótmælt af hálfu stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnanda 3. febrúar sama ár var þess krafist að stefndi stæði við þann samning sem þegar hefði komist á milli málsaðila um kaup stefnanda á hlutabréfunum. Enn fremur var þess krafist að stefndi afsalaði til stefnanda hlutabréfum í samræmi við aðra sem hafi samþykkt tilboð stefnda innan frests. Loks var í bréfinu áskilinn réttur til málshöfðunar „til innheimtu skaðabóta vegna hinnar ólögmætu riftunar” stefnda á samningi málsaðila. Bréfi lögmannsins var svarað með bréfi stefnda 7. febrúar sama ár og er þar staðfest að stjórn stefnda hafi á fundi 22. nóvember 1996 hafnað forkaupsréttartilboði stefnanda.
Stefnandi krefst í máli þessu skaðabóta úr hendi stefnda vegna þess sem hann telur ólögmæta riftun á samningi málsaðila um kaup á framangreindum hlutabréfum. Deilt er um það hvort stefnandi geti talist starfsmaður í skilningi 12. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins nr. 92/1994. Af hálfu stefnda er því enn fremur haldið fram að ekki hafi verið kominn á bindandi samningur milli málsaðila er tilboði stefnanda var hafnað. En verði svo talið er því haldið fram af hans hálfu að riftun samningsins hafi verið heimil vegna rangra forsendna. Loks er deilt um ætlað fjártjón stefnanda og þann bótagrundvöll sem krafa hans í málinu er reist á.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að stofnast hafi samningur milli málsaðila um kaup stefnanda á hlutabréfum í Búlandstindi hf. Tilboðið til stefnanda um forkaupsrétt á hlutabréfunum hafi ekki verið bundið öðrum fyrirvara af hálfu stefnda en þeim að réttur forkaupsréttarhafa yrði jafn og hafi stefnandi enga athugasemd gert við það. Samþykki stefnanda á tilboði stefnda um forkaupsrétt hafi verið án fyrirvara og þannig hafi stofnast kaupsamningur sem væri skuldbindandi fyrir báða aðila. Þeim kaupsamningi hafi ekki verið hægt að rifta án þess að baka sér bótaskyldu. Gildi þá einu þó að starfsmenn stefnda hafi hugsanlega gert mistök en stefndi sé sem vinnuveitandi ábyrgur fyrir meintum mistökum starfsmanna sinna. Stjórn stefnda hafi ákveðið skyndilega á fundi að rifta samningnum við stefnanda, sem stefnanda hafi verið kynnt í bréfi 27. nóvember 1996. Ákvörðunin hafi verið tekin í framhaldi af fjölmiðlaumræðu um óeðlilegan hagnað stjórnarmanns í Meitlinum hf. af að neyta forkaupsréttar á hlutabréfum stefnda í því félagi.
Stefnandi hafi sem stjórnarmaður í Búlandstindi hf. átt þann forkaupsrétt sem honum hafi verið boðinn á hlutabréfum sjóðsins. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 92/1994 skuli „starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækis, sem í hlut á, njóta forkaupsréttar”. Engin lagaboð eða lögskýringargögn veiti því hina minnstu stoð að ætlun löggjafans hafi verið að undanskilja ákveðna starfsmenn eða hóp starfsmanna frá forkaupsrétti. Hafi það verið ætlun löggjafans hefði það komið skýrt fram í lagatexta eða lögskýringargögnum.
Riftun stefnda þann 22. nóvember 1996 hafi með öllu verið fyrirvaralaus enda hafi hún verið byggð á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum. Með ákvörðun sinni hafi stefndi brotið gegn góðum viðskiptaháttum og meginreglum stjórnsýsluréttar. Er af hálfu stefnanda í því sambandi vísað til 10.-15. gr. laga nr. 37/1993. Stjórn stefnda hafi fyrst þann 25. nóvember 1996 óskað álits Lagastofnunar Háskóla Íslands á því hvort stjórnarmenn gætu talist starfsmenn í skilningi laganna um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Á Alþingi þann 2. desember 1996 hafi sjávarútvegsráðherra upplýst að lögfræðiálit lægi fyrir og stjórn Þróunarsjóðs hafi tekið ákvörðun á grundvelli þess. Stefnandi hafi óskað að fá álitið í hendur en því hafi verið hafnað á grundvelli þess að það hefði ekki borist stefnda. Þann 10. des 1996 hafi prófessorarnir Stefán Már Stefánsson og Þorgeir Örlygsson skilað álitsgerð sinni. Af þessum dagsetningum sé ljóst að formlegt álit þeirra hafi ekki verið haft til hliðsjónar við ákvörðun stjórnarinnar.
Stjórn stefnda hafi byggt síðbúna riftun sína á því að stjórnarmenn Búlandstinds hf. gætu ekki talist „starfsfólk” í skilningi 12. gr. laga nr. 92/1994. Þessi skilningur sé rangur, enda sé hann ekki í samræmi við fyrri túlkun stefnda, almenna málvenju og orðanotkun. Í lögum um hlutafélög 2/1995 séu ákvæði um störf og starfsskyldur stjórnarmanna og því hljóti þeir að teljast starfsmenn viðkomandi fyrirtækis. Riftun samningsins geti því ekki byggst á því að stjórnarmenn séu ekki starfsmenn fyrirtækis.
Stefnandi rökstyður bótakröfu sína þannig að umrædd hlutabréf, sem boðin hafi verið til sölu, hafi verið að nafnvirði 69.980.183 krónur. Þeim hafi verið skipt jafnt á milli 35 forkaupsréttarhafa, eftir að stjórn stefnda hafi svipt þrjá af fimm stjórnarmönnum í Búlandstindi hf. lögmætum forkaupsrétti. Tilboðsgengi bréfanna hafi verið 1.15, en hafi verið komið í 2.45 þann 22. nóvember 1996, þegar forkaupssamningi hafi verið rift. Það fjártjón sem þessi ákvörðun stjórnar stefnda hafi valdið stefnanda hafi því verið 69.980.183 : 38 x 1.3 = 2.394.059 krónur og miðist skaðabótakrafan við það.
Stefnandi byggir kröfur sínar á 12. gr. laga nr. 92/1994, meginreglum kröfuréttar um efndir loforða og skuldbindingargildi samninga, sbr. 2. og 6. gr. samningalaga nr. 7/1936. Dráttarvaxtakröfuna byggir stefnandi á lögum nr. 25/1987, einkum III. kafla. Kröfu um málskostnað reisir hann á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Málsástæður sínar um sýknu styður stefndi í fyrsta lagi þeim rökum að stefnandi hafi ekki notið forkaupsréttar í hlutabréf Búlandstindar hf. við söluna í september 1996 á grundvelli 12. gr. laga nr. 92/1994.
Í öðru lagi styður stefndi sýknukröfu sína þeim rökum, að ekki hafi komist á bindandi samningur milli aðila um kaup á hlutabréfum. Stefnda hafi verið heimilt að hafna tilboði stefnanda í hlutabréfin þegar ljóst var að hann uppfyllti ekki skilyrði laga til að njóta forkaupsréttarins.
Í þriðja lagi, verði talið að bindandi samningur hafi komist á milli aðila, hafi stefnda, vegna rangra forsendna, verið fullkomlega heimilt að rifta þeim samningi án þess að baka sér bótaskyldu gagnvart stefnanda.
Í fjórða lagi telur stefndi, verði talið að bótaskylda hafi stofnast, að stefnandi hafi ekki sannað tjón sitt á nokkurn hátt og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Skilyrði 12. gr. l. 92/1994:
Af hálfu stefnda er talið að sérákvæði 12. gr. laga nr. 92/1994, sem eigi við um forkaupsrétt starfsmanna Búlandstinds hf., beri að túlka þröngt. Hugtakið starfsmaður í lagagreininni hljóti að vera í samræmi við almennan lagaskilning á hugtakinu en túlkun stefnanda á því væri ekki í samræmi við almennar kenningar. Stefndi hafi þann 27. nóvember 1996 óskað álits prófessoranna Stefáns Más Stefánssonar og Þorgeirs Örlygssonar. Í álitsgerð þeirra komi fram að stjórnarmenn í Búlandstindi hf. geti ekki talist starfsfólk í skilningi laganna. Þessi niðurstaða sé í samræmi við skilning stefnda á hugtakinu.
Venjulegt sé að líta á þann mann sem starfsmann sem selji vinnuafl sitt öðrum til ráðstöfunar. Vísar stefndi til vinnuréttarins í því sambandi og bendir á að í bók Láru V. Júlíusdóttur, Réttindi og skyldur á vinnumarkaði, segi að sá sem ráði sig til starfa hjá öðrum sé ýmist kallaður launamaður, launþegi, starfsmaður, starfskraftur eða verkamaður og sá sem ráði manninn til starfa sé nefndur atvinnurekandi, vinnuveitandi eða jafnvel fyrirtæki. Réttindi og skyldur starfsmanna, sem þannig væru skilgreindir, byggðust að jafnaði á almennum lögum, kjarasamningum og einstaklingsbundnum ráðningarsamningum.
Um réttindi og skyldur stjórnarmanna í hlutafélögum sé hins vegar fjallað í hlutafélagalögunum og að einhverju leyti í samþykktum þess félags sem í hlut ætti. Þeir væru stjórnendur tiltekins félags eins og nafnið benti til og beinlínis væri tekið fram í 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Félagsstjórn komi fram út á við fyrir hönd félags og riti firma þess og hún lúti einungis boðvaldi hluthafafundar sem æðsta stjórnvalds og kjósi hluthafafundur stjórnina. Aðalfundur hluthafa ákveði árlega laun stjórnarmanna en stjórnarmenn eigi ekki rétt til launa fyrir stjórnunarstörf sín nema aðalfundur ákveði þeim laun.
Af hálfu stefnda er talið augljóst að verulegur munur sé á því hvort tiltekinn maður, sem innir af hendi vinnuframlag í þágu fyrirtækis, teljist vinna þar sem starfsmaður eða stjórnandi. Í raun sé hér um andstæð hugtök að ræða. Stjórnandinn fari með stjórn fyrirtækis og hafi þar með ákveðið boðvald yfir starfsfólki. Um réttarstöðu hans fari að hlutafélagalögum og samþykktum félaganna. Starfsfólk skuli hins vegar að öllu jöfnu hlíta því boðvaldi innan þeirra marka sem því séu sett. Það njóti í aðalatriðum fastra launa í hlutfalli við lengd vinnutíma, allt samkvæmt því sem lög, kjarasamningar og aðrar heimildir mæli fyrir um.
Þá er af hálfu stefnda vakin sérstök athygli á því að í 18. gr. laganna um Þróunarsjóð sé augljós greinarmunur gerður á stjórnarmönnum og starfsmönnum Þróunarsjóðsins en þar segi: „Stjórnarmenn og allir starfsmenn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins”. Beri að túlka 18. gr. og 12. gr. laganna á sama veg og gera greinarmun á stjórnarmönnum annars vegar og starfsmönnum hins vegar.
Stjórnarmaður í hlutafélagi geti því ekki talist starfsmaður þess í skilningi 12. gr. laga nr. 92/1994. Stefnandi eigi því ekki rétt á forkaupsrétti að hlutabréfum stefnda í Búlandstindi hf. en ýmis fordæmi væru fyrir því að gerður sé greinarmunur á réttarstöðu stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja.
Ekki kominn á bindandi samningur:
Við fyrstu skoðun stefndu hafi stefnandi ekki verið í hópi þeirra aðila sem taldir voru njóta forkaupsréttar í fyrrnefnd hlutabréf. Það hafi verið að frumkvæði stefnanda sjálfs að honum var bætt í þann hóp. Stefnandi hafi því fengið senda samskonar tilkynningu og aðrir ætlaðir forkaupsréttarhafar hafi fengið um að borist hefði tilboð í hlutabréfin frá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. Hafi beinlínis verið tekið fram að forkaupsrétturinn væri bundinn tilgreindum skilyrðum. Að auki hafi verið tekið fram að stefnandi nyti forkaupsréttarins sem starfsmaður Búlandstinds hf. samkvæmt 12. gr. laga 92/1994. Af hálfu stefnda er því mótmælt að í bréfi þessu hafi falist bindandi tilboð. Einnig er andmælt þeim skilningi stefnanda að með svarbréfi hans 19. september 1996 hafi komist á bindandi samningur milli aðila.
Stefnanda hafi verið kunnugt um þann vafa sem hafi verið á skýringu hugtaksins starfsmaður, enda hafi hann sjálfur þurft að hafa frumkvæði að því að hann væri settur í hóp ætlaðra forkaupsréttarhafa. Honum hafi einnig verið kunnugt um þá staðreynd að stjórn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins myndi þurfa að yfirfara forkaupsréttartilboðin áður en endanleg ákvörðun um sölu yrði tekin. Við þá ákvarðanatöku hafi stjórn Þróunarsjóðsins ekki verið bundin við annað en það að láta þá sem lagalega áttu forkaupsréttinn njóta hans samkvæmt þeim skilyrðum sem fram komu í tilkynningunni frá 3. september 1996.
Forkaupsréttur að hlutabréfum í eigu Þróunarsjóðs sjávarútvegsins væri byggður á lögum. Enginn geti átt slíkan forkaupsrétt nema uppfylla skilyrði þeirra laga sem kveði á um hann. Stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 12. gr. laganna. Athafnir starfsmanna Þróunarsjóðsins hafi með engu móti getað aflað stefnanda réttinda sem hann hafi ekki átt tilkall til samkvæmt lögum. Um bótaábyrgð stefnda vegna athafna starfsmanna sinna geti því aldrei orðið að ræða. Auk þess hafi stefnandi verið grandvís um þann vafa sem um réttindin hafi ríkt. Afstaða stjórnar Þróunarsjóðsins hafi því ekki átt að koma honum á óvart.
Rangar forsendur:
Verði fallist á að bindandi samningur hafi komist á milli aðilanna er því haldið fram af hálfu stefnda að honum hafi verið heimil riftun samnings eins og hún hafi verið sett fram í bréfi stefnda til stefnanda 27. nóvember 1996. Grundvallist slík heimild á almennum reglum kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur.
Í tilkynningunni til stefnanda frá stefnda þann 3. september 1996 hafi komið skýrt fram að forsendur fyrir forkaupsrétti væru að viðkomandi teldist starfsmaður Búlandstinds hf. Ekki fari á milli mála að þessi forsenda hafi verið ákvörðunarástæða stefnda. Um leið og skýring hugtaksins hafi legið fyrir hafi stefnanda verið tilkynnt um það og þær afleiðingar sem það hefði í för með sér. Hafi honum verið tilkynnt ákvörðun stjórnar stefnda með bréfi dags. 27. nóvember 1996. Vitandi það að stefnandi teldist ekki starfsmaður Búlandstinds hf., og nyti þar af leiðandi ekki forkaupsréttar, hafi stefndi ekki talið sér stætt á því að heimila stefnanda að kaupa hlutabréfin og njóta þar með þeirra sérstöku kjara sem einungis hafi verið ætluð ákveðnum hópi manna. Því sé harðlega mótmælt að slík afgreiðsla hafi verið ómálefnaleg og gegn góðum viðskiptaháttum. Þvert á móti hafi stjórn stefnda einungis verið að rækja af samviskusemi það hlutverk sitt sem henni hafi verið fengið með lögum nr. 92/1994.
Fjártjón stefnanda ósannað:
Verði talið að bótaskylda hafi stofnast telur stefndi að stefnandi hafi ekki sannað tjón sitt á nokkurn hátt og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beri stefnanda að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og einnig beri honum að sanna umfang þess en það hafi hann ekki gert.
Þeir útreikningar sem stefnandi hafi lagt til grundvallar bótakröfu miðist einungis við mun á gengi bréfanna en sýni ekki fram á raunverulegt fjártjón stefnanda enda séu þættir eins og fjármagnskostnaður eða vaxtatekjur ekki teknir með í reikninginn. Upplýsingum stefnanda um verð og gengi hlutabréfa í Búlandstindi hf. er mótmælt af hálfu stefnda sem óstaðfestum. Þó sjáist að gengi hlutabréfa í félaginu hafi farið lækkandi á þessu tímabili og því sé algjörlega ósannað að stefnandi hefði getað selt bréfin á genginu 2,45.
Ef svo ólíklega færi að dómari féllist á að stefnandi ætti einhvern bótarétt, þá hljóti bæturnar að vera vangildisbætur, þ.e. sá kostnaður sem stefnandi hafi haft af því að treysta á forkaupsrétt sem ekki hafi verið fyrir hendi að lögum. Bótakrafa stefnanda miði ekki við fjártjón hans heldur tapaðan hagnað sem sé alls óvíst og ósannað að honum hefði hlotnast og því fráleitt að miða fjárkröfur við það. Stefnandi hafi því ekki fært neinar sönnur á raunverulegt fjártjón og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af bótakröfu stefnanda.
Af hálfu stefnda er því mótmælt sérstaklega að við söluna á hlutabréfunum hafi stjórn stefnda verið bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem þær athafnir hafi fallið utan gildissviðs laganna. Í öllu falli er því mótmælt að stefndi hafi í nokkru brotið gegn þeim reglum sem felast í 10.-15. gr. stjórnsýslulaga.
Niðurstöður
Í 12. gr. laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins segir að hlutafé hlutafjárdeildar sjóðsins skuli boðið til sölu a.m.k. einu sinni á ári og skuli starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækisins njóta forkaupsréttar. Í 18. gr. laganna er kveðið á um þagnarskyldu og tekið fram að hún nái til stjórnarmanna og allra starfsmanna stefnda. Ekki kemur fram í lögunum að stjórnarmenn í hlutafélögum sem sjóðurinn á hlutabréf í skuli skilgreindir sem starfsfólk félaganna.
Í 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 er hlutverk félagsstjórnar skilgreint. Þar segir að stjórnin fari með málefni félagsins og hún fer með stjórn þess ásamt framkvæmdastjóra. Enn fremur segir þar að félagsstjórn skuli annast um að skipulag og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Hluthafafundur fer samkvæmt 80. gr. laganna með æðsta vald í málefnum hlutafélags og samkvæmt 63. gr. þeirra kýs hluthafafundur stjórn félagsins. Af þessu er ljóst að stjórnarmaður í hlutafélagi er ekki ráðinn þangað til starfa heldur er hann kosinn af hluthöfum, sem eru eigendur félagsins, til að fara með stjórnunar- og eftirlitsstörf í félaginu. Í lögum um hlutafélög kemur ekki fram að stjórnarmenn í hlutafélagi skuli teljast til starfsmanna þess. Þegar litið er til þessa verður að telja að taka hefði þurft fram í 12. gr. laga nr. 92/1994 að forkaupsréttur sem lagagreinin kveður á um næði einnig til stjórnarmanna ef sú ætti að vera raunin.
Stefnandi sat í stjórn Búlandstinds hf. þegar honum var boðinn forkaupsréttur á hlutabréfum stefnda í félaginu. Með vísan til þess sem hér að framan segir verður ekki á þær röksemdir stefnanda fallist að hann hafi átt forkaupsrétt á hlutabréfunum sem starfsmaður félagsins.
Eins og hér hefur komið fram var bundið í lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins hverjir gátu neytt forkaupsréttar á hlutabréfum stefnda í Búlandstindi hf. Stefnandi átti ekki samkvæmt því sem að framan segir forkaupsrétt á grundvelli 12. gr. laganna. Er því ljóst að ekki voru lagaskilyrði fyrir því að hann gæti keypt umrædd hlutabréf af stefnda samkvæmt forkaupsréttarákvæðinu.
Að þessu virtu verður að telja að ákvörðun stjórnar stefnda þann 27. nóvember 1996 um að hafna ósk stefnanda um að neyta forkaupsréttar hafi verið lögmæt. Þykir engu breyta í þessu sambandi þótt stefnanda hafi verið boðinn forkaupsréttur á hlutabréfunum af hálfu stefnda. Stefndi hefur í málflutningi sínum réttilega bent á að stefnandi geti í mesta lagi átt rétt á vangildisbótum úr hendi stefnda. Bendir stefndi enn fremur á að bætur væru þá einungis vegna kostnaðar sem stefnandi hafi haft af því að treysta á að hann ætti forkaupsrétt sem ekki hafi verið fyrir hendi að lögum. Það atriði kemur hins vegar ekki til frekari umfjöllunar við úrlausn málsins þar sem krafa stefnanda í málinu er ekki reist á þeim grunni. Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnanda að með ákvörðuninni um að hafna boði hans hafi reglur 10. - 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotnar enda hafa ekki komið fram haldbærar skýringar á því af hálfu stefnanda með hverjum hætti það hafi verið.
Með vísan til þessa ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Þróunarsjóður sjávarútvegsins, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Árna Benediktssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað ásamt dráttarvöxtum frá fimmtánda degi eftir dómsuppkvaðningu til greiðsludags.