Hæstiréttur íslands
Mál nr. 228/2013
Lykilorð
- Ökutæki
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Gjafsókn
- Aðilaskýrsla
Ökutæki. Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn. Aðilaskýrsla.
A krafðist viðurkenningar á því að hann ætti rétt til skaðabóta úr hendi A sf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir af völdum óþekktrar bifreiðar eða annars skráningarskylds ökutækis með vísan til 94. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 18. og 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 424/2008. Engin vitni voru af slysinu. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að A hafi staðfastlega haldið því fram að hann hefði handarbrotnað í kjölfar þess að óþekkt bifreið hefði ekið utan í sig. Þá hafði A leitað til heilsugæslu eftir um klukkustund frá því að slysið varð að hans sögn og þar hafði verið skráð eftir honum að bifreið hafi strokist við sig. Af gögnum málsins mátti draga þá ályktun að hendi hans gæti hafa brotnað við það að hann hafi borið höndina fyrir sig eftir að bifreið var ekið utan í hann. Var því fallist á það með A að leggja frásögn hans af slysinu til grundvallar við úrlausn málsins og skaðabótaskylda A sf. viðurkennd.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lýtur ágreiningur málsaðila að því hvort stefndi hafi orðið fyrir slysi að morgni 15. febrúar 2010 af völdum óþekktrar bifreiðar eða annars skráningarskylds ökutækis með þeim afleiðingum að bátsbein í vinstri hendi hans brotnaði. Þar sem stefndi krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu áfrýjanda af þessum sökum hvílir sú skylda á honum að færa sönnur á þessa staðhæfingu sína.
Stefndi gaf aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi þar sem hann greindi frá slysinu sem hann segist hafa orðið fyrir, en gerð er grein fyrir skýrslunni í hinum áfrýjaða dómi. Í samræmi við síðari málslið 1. mgr. 56. gr., sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var brýnt fyrir stefnda að skýra satt og rétt frá áður en hann gaf skýrsluna. Staðhæfing aðila um atvik máls hefur á hinn bóginn takmarkað sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem er honum óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. sömu laga.
Fyrir liggur að stefndi leitaði til Heilsugæslu […] eftir um klukkustund frá því að slysið varð að hans sögn. Í samskiptaseðli sem ritaður var af hjúkrunarstjóra sagði að tilefni komu stefnda hafi verið „fall eða bylta“. Enn fremur var þar tekið fram: „Bíll straukst við hann, eymsli, ekkert sjáanlegt.“ Í sjúkraskrá slysa- og bráðadeildar Landspítala, staðfestri af sérfræðilækni á deildinni, sagði meðal annars um komu stefnda þangað 19. mars 2010: „[A] varð fyrir því að ekið var á hann fyrir 5 vikum. Hann fékk högg aðallega á hæ. sköflung hliðlægt og kastaðist til og lenti á gangstétt og bar fyrir sig vi. hendi. Hefur jafnað sig í fætinum en er enn með töluverða verki í vi. úlnlið ... Við skoðun núna er engin bólga þreifanleg en hann er aumur um úlnliðinn ... Fáum rtg.mynd af úlnlið: Í ljós kemur á rtg.mynd, að hann er með bátsbeinsbrot um mitt bátsbein“. Í vottorði heila- og taugaskurðlæknis 16. júní 2012 sem stefndi aflaði einhliða var slysinu sem hann kveðst hafa orðið fyrir lýst og síðar sagt að afleiðingar þess væru brot á bátsbeini.
Stefndi hefur staðfastlega haldið því fram að hann hafi handarbrotnað í kjölfar þess að óþekktri bifreið hafi verið ekið utan í sig. Þótt framangreind gögn skeri ekki úr um að stefndi hafa slasast með þeim hætti má draga þá ályktun af þeim að bátsbein í hendi hans gæti hafa brotnað við það að hann hafi borið höndina fyrir sig eftir að bifreið var ekið utan í hann. Það sem skráð var í sjúkraskrá rúmum mánuði síðar kemur jafnframt heim og saman við að brotið hafi ekki verið sjáanlegt við skoðun á heilsugæslustöð rétt eftir að stefndi kveðst hafa orðið fyrir bifreiðinni, en við málflutning fyrir Hæstarétti var upplýst að töluverður tími kynni að líða frá slíku broti og þar til það kæmi í ljós. Að öllu þessu virtu er fallist á með héraðsdómi að leggja beri frásögn stefnda af slysinu til grundvallar við úrlausn málsins.
Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Fer um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda samkvæmt því sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., greiði 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2013.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 22. janúar sl., er höfðað 20. mars 2012 af A, […], gegn Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf., Borgartúni 35 í Reykjavík.
Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennd verði bótaskylda stefnda á líkamstjóni er stefnandi varð fyrir þann 15. febrúar 2010, er ekið var á hann af óþekktu vélknúnu ökutæki, þannig að stefnandi fékk áverka á vinstri hönd. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður að mati réttarins.
II.
Í máli þessu greinir aðila á um atvik er leiddu til þess að stefnandi hlaut bátsbeinbrot árið 2010. Stefnandi segir að það hafi gerst við […] á móts við […] að morgni 15. febrúar 2010 er hann hafi verið á leið í skólann. Greinir hann frá því að þegar hann hafi verið að stíga með vinstri fótinn upp á kant, eftir að hafa gengið yfir götuna, hafi verið ekið á kálfann á hægri fótleggnum. Við það hafi hann fallið og borið vinstri höndina fyrir sig er hann lenti á frosinni jörðinni. Er í skólann var komið hafi hann fundið til í hendinni og leitað aðstoðar á heilsugæslustöð.
Í gögnum málsins er að finna samskiptaseðil hjúkrunar, dags. 15. febrúar 2010, þar sem skráðar eru upplýsingar um komu stefnanda á Heilsugæslu […]. Þar kemur fram að hjúkrunarfræðingur hafi rætt við hann kl. 8:52 en tilefnið hafi verið „fall eða bylta“. Undir liðnum „Saga og mat“ segir orðrétt: „Bíll straukst við hann, eymsli, ekkert sjáanlegt.“ Í liðnum „Hjúkrunarmeðferð/Úrlausn“ segir í fyrsta lagi „Ráðleggingar og útskýringar“ og gefinn upp kóðinn „5240“ og í öðru lagi „Sjá til“ og vísað í kóðann „Z9999“. Í bréfi hjúkrunarforstjóra heilsugæslustöðvarinnar, dags. 5. október 2011, segir að stefnandi hafi verið skoðaður af hjúkrunarfræðingi sem hafi metið ástand hans. Hafi hann ekki talið þörf á frekari skoðun eða meðferð að sinni og ekki talið ástæðu til að kalla til lækni. Þar kemur og fram að fyrrgreindir kóðar séu notaðir þegar viðkomandi fær þau ráð að hafa samband aftur lagist einkennin ekki.
Stefnandi leitaði til Landspítala háskólasjúkrahúss 19. mars 2010. Við röntgenmyndatöku kom í ljós brot á bátsbeini á vinstri hönd. Í læknabréfi um komu stefnanda segir eftirfarandi undir liðnum „Ástæða komu og saga“: „Verkur í vi. úlnlið, fékk högg á hann f 5 vikum. [A] varð fyrir því að ekið var á hann fyrir 5 vikum. Hann fékk högg aðallega á hæ. sköflung hliðlægt og kastaðist til og lenti á gangstétt og bar fyrir sig vi. hendi. Hefur jafnað sig í fætinum en er enn með töluverða verki í vi. úlnlið.“
Af gögnum málsins má ráða að stefnandi hafi verið settur í gifs 19. mars 2010. Eftir það var hann undir eftirliti lækna, en gögn málsins sýna að brotið náði ekki að gróa eðlilega. Á sneiðmynd 19. júní 2010 kom í ljós að brotið var ekki aðeins ógróið heldur höfðu beinin skekkst og beineyðing var hafin. Ákveðið var að gera skurðaðgerð á hendinni og fór hún fram 19. apríl 2011.
Nokkurn tíma tók fyrir bátsbeinið að gróa, en betur gekk eftir aðgerðina. Samkvæmt vottorði B, heila- og taugaskurðlæknis, dags. 16. júní 2012, sem að beiðni lögmanns stefnanda tók að sér að meta afleiðingar slyssins og framtíðarhorfur stefnanda, kemur fram að stefnandi sé einkennaminni eftir aðgerðina 2011. Minni vöðvastyrkur sé þó í vinstri hendinni og sé hreyfigeta hennar skert auk þess sem verkir komi fram sem mest séu álagsbundnir. Ekki sé að vænta meiri bata og telur læknirinn ástandið varanlegt.
Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 28. september 2011, til stefnda er þeirri afstöðu lýst að stefnandi eigi rétt á bótum frá stefnda á grundvelli 94. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem og b-liðar nr. 424/2008 um lögmæltar ökutækjatryggingar. Með bréfi stefnda 5. október 2011 var því hafnað að sannað teldist að stefnandi hefði orðið fyrir tjóni af völdum óþekkts, skráningarskylds ökutækis. Af hálfu stefnanda var málið borið undir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum með bréfi 8. nóvember 2011. Úrskurðarnefndin gaf álit sitt á ágreiningsefninu 15. desember 2011. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki þætti nægilega ljóst að stefnandi hefði orðið fyrir líkamsáverka sem ætla mætti að stafaði af vélknúnu ökutæki. Af því leiddi að hann ætti ekki rétt á bótum hjá stefnda fyrir líkamstjón sitt.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni af völdum óþekkts, vélknúins ökutækis og því eigi hann rétt á bótum fyrir líkamstjón sitt samkvæmt 94. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 18. og 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 424/2008. Stefnandi byggir jafnframt á því að honum hafi verið ómögulegt að hafa uppi á þeirri bifreið sem á hann hafi ekið og engin ástæða hafi verið til að kæra málið til lögreglu 15. febrúar 2010, enda hafi hann þá ekki vitað að um varanlegan áverka yrði að ræða, heldur hafi hann búist við að hann lagaðist fljótlega af þeim eymslum sem hann var með í hendinni.
Af hálfu stefnanda er í stefnu vísað til þess að hann hafi ekki verið spurður ítarlega út í það hvernig hann hafi meitt sig. Hann hafi hins vegar gefið greinarbetri lýsingu á slysadeild LSH. Stefnandi bendir á að þegar hann hafi farið á heilsugæsluna og síðar á slysadeild hafi hann ekki fyrirhugað að fara í mál við stefnda. Því verði að telja að framburður hans sé trúverðugur og að engin ástæða sé til að draga hann í efa. Þá geti ekki skipt máli að slysið hafi ekki verið kært til lögreglu, þar sem hann hafi t.d. ekki áttað sig á því hvers konar bifreið hefði ekið á sig. Segir í stefnu að hún hafi komið aftan að honum og verið komin úr augsýn áður en stefnandi hafi verið staðinn upp. Það sé heldur ekki skilyrði bótaskyldu að vitni hafi verið að tjónsatburðinum. Telur hann að upplýsingar, sem skráðar hafa verið um klukkutíma eftir að atvikið átti sér stað, séu nægilegar upplýsingar um slysið. Þá hafi stefnandi verið á leið yfir fjölfarna umferðargötu á háannatíma um kl. 8.00 árdegis. Ekki sé óalgengt að ökumenn, sem aki á vegfarendur, forði sér af vettvangi. Það sé einmitt tilgangur ofangreindra lagaákvæða að tryggja bætur þeim fórnarlömbum umferðarslysa sem lendi í slíku.
Stefnandi byggir kröfu sína enn fremur á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í slysinu, eins og fram komi í sjúkraskrá LSH, en brotið sé enn þá ógróið.
Af hálfu stefnanda er vísað til forsögu þeirra lagaákvæða sem tilgreind séu í bótakafla umferðarlaga. Rekur hann hlutlæga ábyrgðarreglu 88. gr. laganna til þess að menn hafi áttað sig á því að bifreiðar væru hættulegar. Þá tekur hann fram að það hafi orðið algengt að fórnarlömb umferðarslysa yrðu fyrir alvarlegu líkamstjóni af völdum óþekktra ökutækja eða ökutækja sem ekki væru ábyrgðartryggð. Á þeim grunni sé 94. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 26/2003, reist. Um það vísar stefnandi til greinargerðar með lögum nr. 26/2003.
Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt ökutækjatilskipunum, sem innleiddar hafi verið í íslenskan rétt, þ.e. tilskipun 2000/26/EB (fjórða tilskipunin), sem komið hafi í framhaldi af fyrstu, annarri og þriðju tilskipunum EB um ökutækjatryggingar (tilskipun 72/166/EBE með breytingum samkvæmt tilskipunum 72/430/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE), hafi markmiðið verið að auðvelda fórnarlömbum umferðarslysa að ná rétti sínum. Vísar stefnandi sérstaklega til ákvæða þessara tilskipana um bótarétt fórnarlamba óþekktra ökutækja.
Stefnandi vísar einnig til þess að starfandi tryggingarfélög hér á landi hafi sérstakri samfélagslegri skyldu að gegna þar sem um lögboðnar ábyrgðartryggingar sé að ræða, sbr. 1. gr. laga nr. 56/2010, sbr. og eldri lög um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994. Stefnandi byggir á því að af þessari skyldu, sem og iðgjaldaálagningarheimildum félaganna og skattaívilnunum, leiði að þau og stefndi verði í þessu tilviki að taka með jákvæðum hætti á erindi af því tagi sem stefnandi hafi beint til félagsins. Kveðst stefnandi byggja dómkröfu sína á ofangreindu marksmiðsákvæði 1. gr. laga nr. 56/2010, sem og eftirtöldum skýringarreglum vátryggingaréttar: Samræmisskýringarreglunni, andskýringarreglunni, markmiðs-skýringarreglunni, lágmarksskýringarreglunni og sanngirnisskýringarreglunni.
Með hliðsjón af því sem hér hafi verið rakið telur stefnandi að nægilega sé í ljós leitt að hann hafi orðið fyrir líkamsáverkum í umferðarslysi og að á hann verði ekki lögð þyngri sönnunarbyrði því til grundvallar. Sé viðurkenningarkrafa hans reist á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og skoðun bæklunarlæknis, er sýni að skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til þeirra reglna sem að framan greini. Um málskostnað sé vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er tekið fram að hann sé uppgjörsaðili vegna tjóna af völdum þekktra, óvátryggðra, skráningarskyldra ökutækja sem og vegna slysatjóna af völdum óþekktra, skráningarskyldra ökutækja, sbr. 18. og 20. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar nr. 424/2008. Hafi stefndi og forveri stefnda gegnt þessu hlutverki frá 1969 á grundvelli samkomulags íslenskra bifreiðatryggingarfélaga. Hafi þau gert þetta samkomulag að eigin frumkvæði, en ekki á grundvelli ökutækjatilskipana Evrópusambandsins. Andmælir stefndi málflutningi stefnanda um að þessar tilskipanir og einhverjar óskilgreindar skyldur, sem lagðar hafi verið á tryggingarfélög, sem og „iðgjaldaálagningarheimildir“, leiði til þess að taka beri með jákvæðum hætti á kröfu um greiðslu bóta.
Stefndi byggir enn fremur á því að reglur íslensks réttar um rétt til slysabóta af völdum óþekktra skráningarskyldra ökutækja séu að öllu leyti í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins. Þá geri tilskipanirnar ráð fyrir því að tjónþoli sanni að hann hafi orðið fyrir tjóni. Stefndi tekur og fram að vátryggingarfélög hafi engar ,,iðgjaldaálagningaheimildir“, heldur ákveði þau iðgjöld í samræmi við fjárhæð tjóna og tjónatíðni. Þá er af hálfu stefnda tekið fram að það sé fremur fátítt að slys á mönnum verði af völdum óþekktra ökutækja.
Stefndi bendir á að bótaréttur stefnanda í máli þessu ráðist eingöngu af því hvort sannað teljist samkvæmt íslenskum lögum og venjum að hann hafi orðið fyrir slysi af völdum óþekkts, skráningarskylds ökutækis, sbr. 18. og 20. gr. reglugerðar nr. 424/2008. Af hálfu stefnda er því haldið fram að með öllu sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir slysi af völdum skráningarskylds, vélknúins ökutækis.
Stefndi tekur fram að það sé viðurkennd regla í skaðabótarétti að tjónþoli verði að sanna atvik að slysi (bótagrundvöll). Stefndi telur að ekki liggi fyrir slík sönnun eða að líkur hafi verið leiddar að því að skráningarskylt ökutæki hafi valdið slysinu. Í því sambandi er tekið fram af hálfu stefnda að af skýrslu stefnanda og málflutningi hans megi ráða að hann hafi ekki séð farartæki það sem eigi að hafa lent á hægri fæti hans. Farartækið hafi verið komið úr augsýn þegar stefnandi hafi staðið upp eftir hið meinta óhapp. Því sé með öllu óupplýst hvort þetta hafi verið skráningarskylt, vélknúið ökutæki eða annars konar, vélknúið ökutæki. Á þetta sé bent þar sem stefndi greiði ekki bætur fyrir tjón af völdum vinnuvéla, sem ekki séu skráningarskyldar sem ökutæki.
Þá er á það bent af hálfu stefnda að ekki liggi fyrir nein sönnun fyrir því að stefnandi hafi handleggsbrotnað af völdum bifreiðar. Engum vitnum sé til að dreifa og hið meinta slys hafi ekki verið tilkynnt til lögreglu. Fullt tilefni hafi verið til þess að tilkynna um slysið þar sem eigin lýsing stefnanda á hinu meinta slysi sé með þeim hætti. Fram komi í lýsingunni að stefnandi hafi tekist á loft og lent á frosinni jörð. Atvik sem þetta geti valdið alvarlegu slysi og sé tilefni tilkynningar til lögreglu. Ekki hefði heldur verið óeðlilegt að leita á slysa- og bráðadeild í beinu framhaldi af slysinu. Stefndi telur að hafi atvikið átt sér stað sé mjög líklegt að vitni hafi verið að slysinu. Með því að tilkynna ekki um atvikið hafi stefnandi komið í veg fyrir að upplýsa mætti um nánari atvik. Því verði stefnandi að bera allan halla af vafa um sönnun atvika. Meint slys eigi að hafa orðið á fjölfarinni götu á háannatíma. Það sé með ólíkindum að tilkynna ekki til lögreglu um atvik sem þetta. Stefnanda hafi í öllu falli átt að vera ljóst að um væri að ræða alvarlegt slys eftir að í ljós hafi komið að handleggsbrotið hafi verið ógróið um mánuði eftir hið meinta atvik. Jafnvel þá hefði hugsanlega verið unnt að leita að vitnum og upplýsa málið. Stefnandi tilkynni stefnda ekki um slysið fyrr en einu og hálfu ári eftir að það eigi að hafa átt sér stað en þá hafi verið liðinn allt of langur tími til að óska eftir rannsókn á atvikum.
Af hálfu stefnda er því einnig haldið fram að samskipti tjónþola við Heilsugæsluna í […] 15. febrúar bendi ekki til þess að bifreið hafi verið ekið á hann þann dag. Þar sé tekið fram að tilefnið hafi verið fall eða bylta en tjónsdagur sé ekki tilgreindur. Það hafi verið mat viðkomandi hjúkrunarfræðings að ekki væri þörf á að kalla til lækni. Það sé því í sjálfu sér ósannað að hið meinta tjón hafi orðið þennan dag. Á samskiptaseðlinum sé tekið fram að bíll hafi strokist við stefnanda en ekki lýst með hvaða hætti. Talað sé um eymsli en ekkert sjáanlegt. Það sé með ólíkindum að ekki hafi séð á hægri fæti stefnda hafi bifreið ekið á fótinn og með slíku afli að stefnandi hafi tekist á loft. Frásögn sem þessi fái ekki staðist að mati stefnda. Það sem haft sé eftir stefnanda á heilsugæslustöð sé auk þess í ósamræmi við hans eigin skýrslu. Hafi stefnandi dottið þennan dag eða fyrr við að ganga yfir götu sé slysið óhappatilvik sem engum verður um kennt.
Stefndi byggir á því að eigin lýsing stefnanda geti ekki verið grundvöllur bótaréttar í máli sem þessu. Gera verði þá sönnunarkröfu að yfir skynsamlegan vafa sé hafið að skráningarskylt ökutæki hafi valdið slysinu. Stefnandi hafi engin skynsamleg rök fært fyrir máli sínu og því verði að sýkna stefnda, en óumdeilt sé að lögum og venju að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir þeim staðhæfingum sínum að skráningarskylt, vélknúið ökutæki hafa valdið slysinu.
IV.
Samkvæmt 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 90. gr. sömu laga, hvílir hlutlæg bótaábyrgð á skráðum eiganda eða umráðamanni skráningarskylds, vélknúins ökutækis vegna tjóns sem hlýst af notkun þess. Greiðsla bótakröfu vegna tjóns af þessu tagi skal tryggð með ábyrgðartryggingu samkvæmt 91. gr. laganna. Í 94. gr. laganna kemur fram að ráðherra setji reglur um framkvæmd vátryggingarskyldunnar, þar á meðal um skyldu vátryggingarfélaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóna af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja. Með stoð í þessu lagaákvæði hefur ráðherra sett reglugerð nr. 424/2008 um lögmæltar ökutækjatryggingar. Í VI. kafla reglugerðarinnar er fjallað um tjónsuppgjörsmiðstöð sem nefnd er Alþjóðlegar bifreiðatryggingar sf. Í 3. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar segir að þessari miðstöð, stefnda, sé „sem ábyrgðaraðila skylt að greiða bætur fyrir tjón sem hlýst af notkun óþekkts eða óvátryggðs skráningarskylds vélknúins ökutækis eða óvátryggðs skráningarskylds vélknúins ökutækis eins og nánar er kveðið á um í 20. gr.“. Í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. segir orðrétt eftirfarandi: „ABÍ skal sem ábyrgðaraðili greiða tjónþola bætur fyrir líkamsáverka eða missi framfæranda vegna slyss á Íslandi ef ætla má að tjónið hafi hlotist af notkun óþekkts vélknúins ökutækis.“
Það hvílir á stefnanda að færa sönnur á að skilyrðum sé fullnægt fyrir greiðsluskyldu stefnda á grundvelli framangreindra ákvæða. Til sönnunar á tjónsatviki og afleiðingum þess vísar stefnandi til eigin framburðar sem og fyrirliggjandi gagna sem rakin eru að nokkru í kafla II. Ekki verði gerðar frekari sönnunarkröfur til hans. Stefndi hafnar þessu og telur að stefnandi hafi ekki fært viðhlítandi sönnur á að tjón stefnanda hafi hlotist af skráningarskyldu og óþekktu, vélknúnu ökutæki, þannig að honum beri að greiða stefnanda skaðabætur.
Stefnandi er einn til frásagnar um ástæður þess að hann handarbrotnaði árið 2010. Hann gerði skilmerkilega grein fyrir atvikinu 15. febrúar 2010 fyrir dómi. Fram kom hjá honum að faðir hans hafi verið að keyra hann í skólann klukkan rúmlega átta og hafi hann keyrt norður […] og staðnæmst á móts við […]. Stefndi hafi farið út úr bifreiðinni farþegamegin og gengið yfir götuna. Hann hafi verið með hettu á höfðinu og ekki orðið var við neina umferð, en dimmt og kalt hafi verið í veðri. Þegar hann hafi verið kominn yfir götuna, og verið að stíga með vinstri fótinn upp á kantinn, hafi hann fengið högg á kálfann á hægri fótlegg. Við það hafi hann tekist á loft, snúist í hálfhring og borið fyrir sig vinstri höndina er hann lenti á frosinni jörðinni. Taldi hann sig hafa greint skugga af fólksbifreið sem hafi verið ekið eftir […] er hann lá á jörðinni. Hann hafi hins vegar ekki greint tegund bifreiðarinnar sökum myrkurs. Hann taldi enn fremur að engin vitni hefðu verið að þessu atviki. Er hann kenndi eymsla í hendinni hafi hann farið á heilsugæsluna.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefnandi skömmu eftir atvikið á heilsugæslustöð þar sem hjúkrunarfræðingur skoðaði áverkann. Ekki liggja fyrir önnur gögn um þessa skoðun en svonefndur samskiptaseðill hjúkrunar. Upplýsingar á honum eru afar rýrar og ekki kemur þar fram hvar stefnandi kenndi til. Þar kemur þó fram að bíll hafi „strokist við“ stefnanda og hann fallið. Ljóst er að eymsli hafa verið til staðar en engir sjáanlegir áverkar. Þá liggur fyrir að hann hafi fengið ráðleggingar en ekki hafi verið talin ástæða til að kalla til lækni eða benda honum á að fara á slysamóttöku.
Af framansögðu verður ráðið að strax í kjölfar atviksins hafi stefnandi greint hjúkrunarfræðingi frá því að bifreið hefði þennan sama morgun valdið því að hann hlaut umrædda áverka. Ólíklegt verður að teljast að stefnandi, sem var 17 ára þegar atvikið átti sér stað, hafi með þeirri frásögn verið að tryggja sér sönnur um að hugsanlegt tjón yrði rakið til aksturs bifreiðar, enda benda viðbrögð hans í kjölfarið ekki til þess að það hafi vakað fyrir honum. Lýsing stefnanda á atvikinu skömmu eftir að það átti sér stað styður því málatilbúnað hans fyrir dómi.
Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að stefnandi hafi síðar orðið fyrir hnjaski sem skýrt getur bátsbeinsbrotið. Þá er til þess að líta að þegar hann greindi lækni frá ástæðu eymslanna í hendinni á slysamóttöku 19. mars 2010 rakti hann þau til þess að bifreið hefði fimm vikum áður verið ekið hliðlægt á hægri sköflunginn þannig að hann kastaðist til og bar vinstri höndina fyrir sig í fallinu. Að þessu gættu verður að ganga út frá því að þau eymsli sem ollu því að hann leitaði á heilsugæslustöðina 15. febrúar 2010 hafi verið vegna bátsbeinsbrotsins.
Stefnandi greinir frá því að eftir að hann kom af heilsugæslunni hafi hann talið að áverkinn myndi lagast fljótlega, enda hafi honum verið tjáð að um tognun væri að ræða. Hann hafi sótt skólann og farið í leikfimi en ekki beitt vinstri hendinni, heldur fengið að vera á hlaupabretti. Þegar ekki hafi dregið úr verkjunum nokkrum vikum síðar hafi hann afráðið að leita til læknis. Þá fyrst hafi bátsbeinsbrotið komið í ljós.
Með hliðsjón af þeim ráðleggingum sem stefnandi fékk á heilsugæslustöðinni telur dómurinn trúverðugt að stefnandi hafi reiknað með því að hann myndi ná sér á fáeinum vikum. Þá hefur hann greint frá því að hann hafi ekki séð tegund bifreiðarinnar og talið að engin vitni hefðu verið að slysinu. Þetta skýrir hvers vegna stefnandi leitaði ekki til lögreglu í kjölfarið. Enginn áskilnaður er gerður í reglugerð nr. 424/2008 um að lögregla rannsaki slys, sem valdið er af óþekktu, skráningarskyldu ökutæki. Telur dómurinn ófært að láta stefnanda gjalda þess að hafa ekki hlutast til um að lögreglurannsókn færi fram á slysinu, þó að með því hefði ef til vill mátt upplýsa atvik nánar.
Í stefnu er gefið til kynna að bifreiðin, sem stefnandi telur að hafi ekið á hægri kálfann á sér, hafi verið komin úr augsýn áður en stefnandi hafi verið staðinn upp. Þessu er ljóslega haldið fram í tengslum við þá staðhæfingu stefnanda að hann hafi ekki greint tegund eða gerð bifreiðarinnar til útskýringar á því hvers vegna málið hafi ekki verið kært til lögreglu. Þessi lýsing er í engu ósamræmi við þá lýsingu sem stefnandi gaf fyrir dómi um að hann hafi greint skugga af fólksbifreið, sem hafi verið ekið í burtu frá sér, meðan hann lá með andlitið á jörðinni. Fyrrgreind lýsing í stefnu dregur því ekki úr trúverðugleika þeirrar staðhæfingar stefnanda að það hafi verið bifreið sem olli því að hann féll á jörðina með þeim afleiðingum að hann bátsbeinsbrotnaði.
Þegar framangreint er virt í heild þykir í ljósi trúverðugs framburðar stefnanda, sem fær stoð í samskiptaseðli hjúkrunar á Heilsugæslu […] frá 15. febrúar 2010 og læknabréfi slysa- og bráðadeildar Landspítalans frá 19. mars 2010, nægilega í ljós leitt að bátsbeinsbrotið hafi hlotist af notkun á óþekktu og skráningarskyldu, vélknúnu ökutæki.
Stefnandi krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna þess sem að framan greinir, sbr. einkum 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 424/2008. Stefndi hefur ekki dregið í efa að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt til að stefnandi megi gera slíka viðurkenningarkröfu fyrir dómi, þar á meðal að nægar líkur hafi verið leiddar að því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum bátsbeinsbrotsins. Í málinu liggur fyrir vottorð læknis, dags. 16. júní 2012, um skoðun hans á stefnanda. Þar kemur fram að minni vöðvastyrkur sé í vinstri hendinni og að hreyfigeta hennar sé skert, auk þess sem verkir komi fram við álag. Þá er öðrum skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fullnægt.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið ber að fallast á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða málskostnað, sem rennur í ríkissjóð, samtals 646.805 krónur. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 564.750 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Annar málskostnaður stefnanda greiðist einnig úr ríkissjóði.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi sf., á líkamstjóni, er stefnandi, A, varð fyrir 15. febrúar 2010, þegar ekið var á hann af óþekktu, vélknúnu ökutæki, þannig að stefnandi fékk áverka á vinstri hönd.
Stefndi greiði 646.805 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 564.750 krónur.