Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
|
|
Fimmtudaginn 26. ágúst 2010. |
|
Nr. 482/2010: |
Örn Jónsson (Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Borghildi Maack (enginn) |
Kærumál. Endurupptaka.
Ö kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni B um endurupptöku máls Ö gegn B sem lokið hafði með áritun stefnu um aðfarahæfi vegna útivistar B. Talið var að stefna á hendur B hafi ekki verið birt með fullnægjandi hætti. Stefnan var árituð 11. janúar 2010 en hún fékk fyrst vitneskju um áritunina 25. febrúar 2010 við boðun vegna fjárnáms. Beiðni B um endurupptöku málsins barst héraðsdómi 1. mars sama ár og degi síðar setti hún tryggingu í samræmi við áskilnað 3. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 137. gr. laganna fyrir endurupptöku málsins og var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um endurupptöku máls, sem sóknaraðili höfðaði gegn henni og lauk 11. janúar 2010 með áritun dómara á stefnu samkvæmt 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 segir meðal annars að hafi stefna verið árituð samkvæmt 113. gr. laganna í máli þar sem stefndi sótti ekki þing geti stefndi beiðst endurupptöku málsins innan þriggja mánaða frá því máli lauk í héraði, enda berist beiðnin dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn. Í 2. mgr. greinarinnar er svo að finna ákvæði um hvaða skilyrði skuli uppfyllt fyrir endurupptöku ef þrír mánuðir eru liðnir frá því máli lauk í héraði. Með hinum kærða úrskurði var fallist á beiðni varnaraðila um endurupptöku, bæði með vísan til 1. mgr. og a. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.
Stefna sú sem um ræðir var árituð 11. janúar 2010, en varnaraðili sótti ekki þing í málinu. Ekkert er annað fram komið en að varnaraðili hafi fyrst fengið vitneskju um áritun stefnunnar 25. febrúar 2010 við boðun vegna fjárnáms. Beiðni varnaraðila um endurupptöku málsins barst héraðsdómi 1. mars sama ár og degi síðar setti hún tryggingu í samræmi við áskilnað 3. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 137. gr. laganna fyrir endurupptöku málsins. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur23. júlí 2010.
Sóknaraðili málsins er Borghildur Maack, kt. 040543-2959, Sogavegi 103, Reykjavík, en varnaraðili er Örn Jónsson, kt. 140144-2909, Kjarrvegi 8, Reykjavík.
Málið barst héraðsdómi 1. mars sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er 26. febrúar. Það var tekið til úrskurðar 2. júlí sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Í bréfi sínu til dómsins fór sóknaraðili þess á leit, að málið nr. E-11781/2009 yrði endurupptekið með vísan til 137 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefna málsins var birt fimmtudaginn 15. október 2009, og var árituð um aðfararhæfi 11. janúar 2010.
Dómkröfur
Sóknaraðili krefst þess að mál nr. E-11781/2009 verði endurupptekið og að því búnu að málinu verði vísað frá dómi. Verði ekki fallist á frávísun málsins er til vara krafist sýknu af öllum kröfum varnaraðila (stefnanda). Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess, að kröfu sóknaraðila um endurupptöku málsins E-11781/2009 verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í þessum þætti málins.
Málavextir
Málsaðilar gerðu munnlegan leigusamning um íbúð 3A að Espigerði 2, Reykjavík. Sóknaraðili kveðst hafa leigt íbúðina ásamt öllum húsbúnaði sem varnaraðili hafi átt. Varnaraðili hafi sjálfur haft lykil að íbúðinni þann tíma sem sóknaraðili leigði hana og hafi varnaraðili stöðugt gert sér erindi í íbúðina og hafi hleypt sjálfum sér inn án þess að gera sóknaraðila viðvart. Á tímabili kveðst sóknaraðili hafa verið mjög hræddur við að vakna með varnaraðila inni hjá sér að næturlagi.
Sóknaraðili mótmælir harðlega ásökunum varnaraðila sem fram koma í bréfi lögmanns hans í máli E-11781/2009, þar sem sóknaraðili sé ranglega vændur um að hafa tekið borðstofustól. Þá hafi sóknaraðili skilað lyklum íbúðarinnar í póstkassa hennar þegar hann rýmdi íbúðina fyrir 11. maí 2009, en varnaraðili hafi sjálfur verið með lykla að póstkassanum og íbúðinni.
Sóknaraðili kveðst hafa leigt íbúðina frá 11. september 2007 og hafi mánaðarleigan verið reiknuð í upphafi frá 11. hvers mánaðar til 11. næsta mánaðar. Sóknaraðili hafi rýmt íbúðina fyrir 11. maí 2009 og hafi þá greitt leigu til þess tíma. Umsamið leigugjald fyrir íbúðina hafi verið 80.000 krónur fyrir hvern mánuð. Fyrsta mánuðinn hafi sóknaraðili greitt með peningum beint til varnaraðila án þess að fá kvittun. Næstu skipti hafi sóknaraðili greitt í gegnum banka en þegar sóknaraðili hafi farið fram á að telja greiðslurnar fram til skatts hafi varnaraðili harðneitað að það yrði gert og hafi sóknaraðili þá eftirleiðis orðið að greiða með reiðufé án þess að fá kvittun. Ljóst sé því að greiðslurnar hafi hvergi mátt koma fram. Varnaraðili hafi eftirleiðis sótt þær greiðslur í verslun sóknaraðila að Síðumúla 34, Reykjavík, og hafi að sögn sóknaraðila oft setið þar fyrir sóknaraðila.
Hússjóðsgjöld, þ.e. sá hluti þeirra sem tilheyrði rekstri íbúðarinnar, hafi verið innifalin í leigugreiðslum enda hafi sóknaraðili aldrei á leigutímanum verið krafinn sérstaklega um greiðslu þeirra gjalda hvað þá að sóknaraðili fengi skjalfesta rukkun vegna þeirra. Hvað varði fjárhæð gjaldsins sé einnig ljóst að varnaraðili rukki nú fyrir annað og meira en venjulegan rekstur lítillar íbúðar, það er rafmagn og hita.
Sóknaraðili kveðst ekki hafa haft neina vitneskju um að stefna hefði verið gefin út, birt og árituð þann 11. janúar 2010 fyrr en bréf barst frá sýslumanni þar sem sóknaraðili hafi verið boðaður í fjárnám að kröfu varnaraðila þann 3. mars 2010. Sóknaraðili hafi í fyrstu fengið frest á að fjárnám færi fram enda hafi þá legið fyrir staðfesting héraðsdóms á fyrirtöku um endurupptöku málsins. Þann 8. apríl sl. hafi verið gert fjárnám hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila þrátt fyrir að samþykki lægi fyrir um fyrirtöku á endurupptöku málsins frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Sóknaraðili kveðst kunna að verða fyrir nokkru tjóni og áskilur sér allan rétt til heimtu bóta úr hendi varnaraðila vegna þessa. Nýverið hafi komið í ljós að sú kona, sem í birtingarvottorði sé sögð hafa neitað að taka við stefnunni á heimilisfangi sóknaraðila þann 15. október 2009, Hrafnhildur T. Þórarinsdóttir kt. 020678-5349, hafni því alfarið að nokkur hafi hitt á hana varðandi stefnu í október 2009.
Málsástæður sóknaraðila
Kröfu sína um endurupptöku héraðsdómsmálsins E-11781/2009 byggir sóknaraðili á ákvæðum XXIII. kafla laga nr. 91/1991. Stefnan í málinu hafi verið árituð 11. janúar 2010 en sóknaraðili hafi ekki fengið vitneskju um stefnuna fyrr en með boðun sýslumanns dags. 15. febrúar 2010. Þann 26. febrúar 2010 hafi beiðni um endurupptöku málsins send héraðsdómi og þann 2. mars 2010 hafi héraðsdómur tekið við málskostnaðartryggingu í málinu. Sóknaraðili sé því augljóslega innan allra tímamarka með endurupptökubeiðnina sbr. 1. mgr. 137. gr. l. 91/1991. Þá sé í beiðninni skýrlega greint frá hverra breytinga sóknaraðili krefjist á fyrri málsúrslitum, málsástæður tíundaðar og vísað til réttarheimilda. Ennfremur tilgreint hvenær og hvernig sóknaraðila var kunnugt um málsúrslit.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfur sína á því að stefnan í máli því, sem krafist er að verði endurupptekið, hafi verið birt löglegri lögheimilisbirtingu, sbr. a-lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það skiptir ekki máli hvenær stefnda fékk fyrst vitneskju um málið þegar fyrir liggi að stefnan sé löglega birt. Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga um meðferð einkamála teljist efni birtingarvottorðs rétt nema hið gagnstæða sannist. Yfirlýsing Hrafnhildar Þórarinsdóttur dags. 8. apríl 2010 geti að mati varnaraðila ekki haggað sönnunargildi stefnuvotts. Samkvæmt áritun stefnuvotts á birtingarvottorði hafi Hrafnhildur Þórarinsdóttir neitað að taka við stefnunni.
Vitni
Fyrir dóminn komu Hrafnhildur Thelma Þórhallsdóttir íbúi í húsinu að Sogavegi 103 og Birkir Þór Gunnarsson, stefnuvottur.
Vitnið Hrafnhildur staðfesti það sem fram kom í framlagðri, skriflegri yfirlýsingu hennar og bar að ekki hefði neinn birt fyrir henni stefnu í október 2009. Um þetta leyti hefði einhver maður spurt um Borghildi Maack. Vitnið kvaðst þá ekki vita hvað nágranni hennar á hæðinni fyrir ofan héti. Maðurinn hafi þá spurt hvort vitnið væri Borghildur Maack. Síðan hafi maðurinn sagst vera með bréf og spurt vitnið hvort það gæti komið því til Borghildar. Vitnið hafi neitað því en hafi bent honum á bréfalúgu á dyrunum við hlið hennar dyra. Hafi maðurinn þá farið en hafi ekki skilið neitt eftir hjá vitninu. Maðurinn hafi sýnt henni umslag en hún viti ekki hvað hafi verið í því. Vitnið kvaðst ekki vita hvað maðurinn hafi gert við umslagið en kvaðst halda að hann hefði sett það í póstlúgu stefndu. Sérstaklega að því spurt kvað vitnið mögulegt að maðurinn hefði sagst vera með tilkynningu, vitnið minni að hann hafi notað orðið bréf og alveg örugglega ekki orðið stefnu.
Í kjölfar þessa atviks hafi aukist að spurt væri eftir stefndu hjá vitninu og aftur hafi einhver reynt að skilja eitthvað eftir hjá henni en henni hafi ekki verið sagt hvað það væri sem rétt var að henni. Í ljós hafi komið að annar íbúi í húsinu, kona með föðurnafnið Þórarinsdóttir, átti einnig von á stefnu og var verið að reyna að birta fyrir henni. Í framlagðri yfirlýsingu vitnisins vísi hún til birtingar stefnu á hendur þeirri konu. Vitnið kvaðst hinsvegar ekki hafa hitt neinn sem hafi ætlað að birta stefnu fyrir þeirri konu en stefnunni hafi hinsvegar verið stungið í bréfalúgu vitnisins. Þá hafi hún hringt í lögmannsstofuna sem hafi gefið út þá stefnu og hafi henni verið sagt að stefnuvottum væri skylt að láta vita að þeir væru að birta stefnu og gera þeim sem birt er fyrir grein fyrir skyldu sinni til að koma stefnunni til skila.
Vitnið kvað stefndu hafa beðið vitnið að skrifa yfirlýsinguna þar sem stefnda kannaðist ekki við að hafa fengið stefnu birta. Vitnið taldi mögulegt að stefnuvotturinn hafi skilið stefnuna eftir í húsinu. Bréfalúga stefndu hafi hinsvegar verið ómerkt.
Vitnið ítrekaði að því hafi ekki verið gerð nein grein fyrir innihaldi bréfsins eða hvaða athöfn færi þarna fram.
Birkir Þór Gunnarsson, stefnuvottur, staðfesti að framlagt birtingarvottorð væri birt af honum. Vitnið bar að stefnda hafi verið flutt úr húsinu en hann hafi vitað að hún ætti lögheimili á annarri hæð í húsinu. Vitnið Hrafnhildur búi á fyrstu hæð hússins en hún hafi neitað að taka við stefnunni. Vitnið Birkir hafi skilið stefnuna eftir með því að setja hana inn um bréfalúgu á dyrum sem liggi að stiga upp að aðra hæð.
Vitnið bar að þegar hann komi með stefnu til birtingar þá segist hann oft vera með tilkynningu. Hann hafi lært það í gegnum starfið að oft sé betra að nota það orð heldur en nota orðið stefnu vegna þess að nauðsynlegt sé að hlífa fólki við að heyra hvað sé á ferðinni í viðkomandi húsi. Því sé hugsanlegt að hann hafi sagt við vitnið Hrafnhildi að hann væri með tilkynningu en ekki með stefnu.
Vitnið kvaðst oft hafa reynt að birta fyrir stefndu. Í þessu tilviki hafi vitnið ákveðið að láta fara fram lögheimilisbirtingu. Mjög erfitt hafi verið að birta fyrir stefndu. Hún hafi vitað að birtingarvottar væru að reyna að hafa upp á henni.
Vitnið bar að þegar til stæði að birta stefnu eða greiðsluáskorun þá hittist stefndu oft ekki fyrir heldur einhver annar sem eigi að taka við og oft séu fleiri viðstaddir. Vitnið kvaðst hafa unnið við stefnubirtingar í 30 og telji sig hafa lært hvernig eigi að standa að birtingu til þess að hlífa öllum sem að komi. Það hafi borið bestan árangur að vera mjög varkár í orðum. Það geti verið mjög viðkvæmt mál að birta stefnu.
Að sögn vitnisins samræma stefnuvottar ekki starfsaðferðir sínar og hefði hver sitt lag. Hafi hann ekki spurt aðra stefnuvotta hvaða orðalag þeir noti en í öll þessi ár hafi honum frekar verið hrósað en hitt.
Vitnið bar að þegar það hafi hafið störf sem stefnuvottur hafi yfirborgardómari skipað stefnuvotta. Dómarinn hafi ekki leiðbeint vitninu neitt. Hann hafi hringt í vitnið kl. 10.30 einn morguninn, vitnið hafi mætt 11.30. Síðan hafi vitnið verið beðið að byrja kl. 13.00 þennan sama dag. Annað hafi yfirborgardómari ekki sagt við vitnið. Aðra kennslu hafi vitnið ekki fengið og hafi ekki fengið handbók dómsmálaráðuneytisins fyrir stefnuvotta.
Niðurstaða
Varnaraðili krefst endurupptöku á máli þar sem stefna á að hafa verið birt lögheimilisbirtingu fyrir henni þann 15. október 2009.
Á framlögðu birtingarvottorði stendur í liðnum „Fyrir hverjum birt:“ „Hrafnhildur Þórarinsdóttir 1 H neitar að taka við stefnunni, en ég skildi hana eftir.“
Í 2. mgr. 86. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir: Sá sem annast birtingu skal afhenda þeim sem er birt fyrir samrit stefnu og vekja athygli hans á því hver athöfn sé að fara fram. Ef birt er fyrir öðrum en stefnda skal honum bent á skyldur sínar skv. 3. mgr.
Í greinargerð með frumvarpi til laga um meðferð einkamála er tekið fram í umfjöllun um 2. mgr. 86. gr. að afhenda beri þeim, sem birt sé fyrir, afrit af stefnu og vekja skuli athygli hans á því að stefnubirting fari þá fram og að honum sé skylt að koma afritinu í réttar hendur.
Ráða má af vitnisburði vitnanna Hrafnhildar og Birkis að stefnubirting hafi farið þannig fram að vitnið Birkir hafi óskað eftir því við vitnið Hrafnhildi að hún kæmi skjali sem annaðhvort var kallað tilkynning eða bréf til stefndu. Ljóst er að vitninu Hrafnhildi var ekki sagt að umrætt skjal væri stefna og að auki var henni ekki tilkynnt að þarna færi fram stefnubirting þrátt fyrir óvilja hennar til að taka við skjalinu.
Þar sem skýrum fyrirmælum laga um stefnubirtingu var ekki fylgt fór stefnubirting í málinu E-11781/2009 ekki fram á lögmæltan hátt og verður því að líta svo á að birtingin sé ófullnægjandi. Í þessu sambandi þykja ekki hafa þýðingu venjur sem kunna að hafa myndast hjá viðkomandi stefnuvotti um orðnotkun við stefnubirtingu. Því eru uppfyllt skilyrði a-liðar 2. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála.
Eins og áður greinir lauk þessu máli í héraði með áritun 11. janúar sl. og stefndu urðu þau málsúrslit kunn þann 15. febrúar sl. Beiðni um endurupptöku barst dómara þann 1. mars sl. Beiðnin barst því innan þriggja mánaða frá því að máli lauk í héraði og innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn. Því eru jafnframt uppfyllt skilyrði 1. mgr. 137. gr. laganna. Þar sem fyrir liggur staðfesting á því að stefndi hafi reitt fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar eins og krafist er skv. 3. mgr. áðurnefnds ákvæðis eru uppfyllt öll skilyrði fyrir því að málið verði endurupptekið.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar milli aðila vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms í málinu.
Ingiríður Lúðvíksdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Málið E-11781/2009: Örn Jónsson gegn Borghildi Maack er endurupptekið.
Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.