Hæstiréttur íslands

Mál nr. 623/2006


Lykilorð

  • Samningur
  • Skuldamál


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. júní 2007

Nr. 623/2006.

Tunglið-auglýsingastofa ehf.

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

gegn

Sparki ehf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

 

Samningur. Skuldamál.

T ehf. réði S ehf. til að gera þrjár auglýsingamyndir fyrir sjónvarp í þágu SBV. S ehf. var í réttarsambandi við T ehf. um það verk, skrifaði út reikninga á félagið og tók við greiðslu frá því. SBV gerði athugasemdir við auglýsingarnar og leiddu þær til þess að tvær þeirra voru endurgerðar. S ehf. beindi kröfum af því tilefni að T ehf. Síðarnefnda félagið hafnaði greiðsluskyldu. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að skilyrði þess að T ehf. yrði gert skylt að greiða S ehf. fyrir endurgerð auglýsinganna væri að S ehf. sannaði að T ehf. hefði óskað eftir henni. Gegn andmælum T ehf. hafði S ehf. ekki tekist sú sönnun. Var T ehf. því sýknað af kröfu S ehf. í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2006. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum og málsástæðum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi réð stefnda til þess að gera þrjár auglýsingamyndir fyrir sjónvarp í þágu Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, sem hafði falið áfrýjanda að sjá um gerð þeirra með milligöngu ráðgjafa síns Innforms ehf. Stefndi var því í réttarsambandi við áfrýjanda um það verk, skrifaði út reikninga á hann og tók við greiðslu frá honum. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja gerðu athugasemdir við auglýsingarnar þrátt fyrir að aðilar þessa máls séu sammála um að þær hafi verið í samræmi við það sem um var samið. Allt að einu leiddu athugasemdir samtakanna til þess að stefndi endurgerði tvær auglýsingamyndanna og hefur í máli þessu beint kröfum sínum af því tilefni að áfrýjanda. Ágreiningur málsaðila snýst um greiðslu fyrir þetta verk. Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi óskað eftir að hann endurgerði þessar tvær auglýsingamyndir. Þeir hafi rætt um þetta og hann gert áfrýjanda tilboð. Áfrýjandi hafi síðan ætlað að láta stefnda vita ef hann ætti ekki að vinna verkið. Áfrýjandi hafi ekki gert það og hafi stefndi þá litið svo á að verkið skyldi unnið. Þessu hefur áfrýjandi mótmælt og kveðst ekki hafa tekið að sér neina milligöngu um þetta en vísað á Innform ehf. Fyrir dómi kvaðst forsvarsmaður Innforms ehf. hafa haft samband beint við stefnda vegna endurgerðarinnar. Áfrýjandi hefði ekki viljað vera aðili að henni og verið henni andvígur.

Skilyrði þess að áfrýjanda verði gert skylt að greiða stefnda fyrir endurgerð auglýsinganna er að stefndi sanni að áfrýjandi hafi óskað eftir henni. Gegn andmælum áfrýjanda hefur stefnda ekki tekist sú sönnun. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Tunglið-auglýsingastofa ehf., er sýknaður af kröfu stefnda, Sparks ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2006.

             Mál þetta, sem dómtekið var 7. september sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað af Spark ehf., Brautarholti 18, Reykjavík, á hendur Tunglinu – auglýsingastofu ehf., Skipholti 17, Reykjavík.  Innformi ehf., Þórsgötu 18, Reykjavík, og Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Borgartúni 35, Reykjavík, var stefnt til réttargæslu í málinu með stefnu birtri 27. janúar 2006.

             Dómkröfur stefnanda voru þær að hið stefnda einkahlutafélag yrði dæmt til þess að greiða stefnanda 1.170.300 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 8. apríl 2004 til greiðsludags.  Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda voru þær að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að skaðlausu.

Ekki voru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefndu og gerðu réttargæslustefndu ekki kröfur í málinu.

II

Málavextir eru þeir, að réttargæslustefndi, Innform ehf., tók að sér að skipuleggja kynningarátak fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja.  Einar Karl Haraldsson hjá Innform ehf. hafði samband við stefnda og óskaði eftir gerð þriggja auglýsinga fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja.  Stefnandi, sem annast framleiðslu kvikmynda og myndbanda, kveður að hann og stefndi hafi gert með sér munnlegan samning um framleiðslu þessara þriggja sjónvarpsauglýsinga fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja.  Auk fulltrúa Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Tunglsins-auglýsingastofu ehf. og Sparks ehf. hafi Einar Karl Haraldsson frá Innformi ehf. verið á fundum við undirbúning auglýsinganna.  Stefndi ber því hins vegar við að hann hafi aðeins verið milliliður í viðskiptum milli stefnanda og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. 

Auglýsingarnar voru svo framleiddar og afhentar Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja sem gerði við þær athugasemdir er lutu að yfirbragði og klæðnaði módelanna.  Samtök banka og verðbréfafyrirtækja óskaði eftir því að tvær af þremur auglýsingum yrðu endurgerðar. 

Stefnandi kveður að hann hafi þá gert stefnda tilboð í endurgerð auglýsinganna og hafi tilboðið hljóðað upp á helming þess verðs sem greitt var fyrir gerð fyrri auglýsinganna.  Starfsmaður stefnda hafi sagst ætla að bera tilboðið undir Innform og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og láta síðan vita yrðu gerðar athugasemdir við það.  Engar athugasemdir hafi borist og hafi því verkið verið unnið.  Síðar hafi komið í ljós að Einar Karl Haraldsson hjá Innformi hefði fengið tilboðið en sagt að hann vildi ekki ræða það nánar við stefnanda.  Hann hafi hins vegar verið viðstaddur upptökur auglýsinganna og hafi ekki gert athugasemd við tilboðið, hvorki þá né síðar meðan á vinnslu auglýsinganna hafi staðið. 

Stefndi ber því hins vegar við að hann hafi hvorki komið að samningum né að endurgerð auglýsinganna, enda hafi hann ekki haft umboð til þess að ákveða endurgerð sjónvarpsauglýsinganna eða semja um greiðslu fyrir það verk. 

Stefnandi fullvann auglýsingarnar og sendi til sjónvarpsstöðvanna, þar sem þær voru birtar.  Þegar stefnandi gekk á eftir greiðslu reikningsins greiddi stefndi ekki og hafði stefnda ekki borist greiðsla frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja vegna verksins, þar sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja vildi ekki greiða þetta verð fyrir endurgerð auglýsinganna og taldi að kostnaður við endurgerð auglýsinganna ætti að falla á kvikmyndafyrirtækið að verulegu leyti.

Við aðalmeðferð málsins gaf Viðar, framkvæmdastjóri stefnanda, skýrslu.  Kvað hann verksvið sitt hjá fyrirtækinu að sjá um gerð tilboða og framleiðslustjórn.  Kvaðst hann hafa gert stefnda tilboð um gerð auglýsinga fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, sem hafi verið samþykkt af Antoni, fyrirsvarsmanni stefnda.  Hann kvað þess konar samninga oftast vera munnlega og oftast vera milli auglýsingastofa og kvikmyndafyrirtækja, en ekki samið beint við auglýsendur.  Stefnandi hafi gert stefnda tilboð um endurgerð auglýsinganna á helmingi þess verðs sem greitt var fyrir fyrri auglýsingagerðina.  Kvað hann innheimtuna hafa beinst að stefnda.  Hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur fundinn er auglýsingarnar hefðu verið sýndar og því ekki vita hver hefði beðið um endurgerð þeirra.  Hann kvaðst hafa litið á þetta sem áframhald af sama verki.

Björn Brynjólfur Björnsson, sem leikstýrði auglýsingum hjá stefnanda, gaf og skýrslu fyrir dómi.  Hann kvað stefnda hafa haft samband við stefnanda í því skyni að fá þá til þess að vinna þetta verkefni.  Hafi stefnandi gert stefnda tilboð í verkefnið.  Í framhaldi af því hafi verið haldinn fundur þar sem mætt hafi auk hans, Anton, frá stefnda, og fulltrúar frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Innform.  Hafi þeir farið yfir ýmsa þætti sem sneru að myndunum.  Eftir fundinn hafi hann ákveðið módelin í auglýsinguna, í samræmi við það sem fram hafi komið á fundinum.  Auglýsingarnar hafi verið sýndar Antoni, fyrirsvarsmanni stefnda, sem og fulltrúum réttargæslustefndu.  Hafi þar komið fram athugasemdir frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og hafi fulltrúi Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja talið að módelin væru of fínt klædd.  Hann kvað enga ákvörðun hafa verið tekna á fundinum um að endurgera auglýsingarnar, en Viðar, samstarfsmaður hans, hafi sagt honum síðar hvað til stæði.  Hafi niðurstaðan orðið sú að tvær af þremur auglýsingunum yrðu gerðar aftur.  Kvað hann Viðar, fyrirsvarsmanni stefnanda, hafa gert Antoni, fyrirsvarsmaður stefnda, tilboð um það.  Hann kvað Viðar hafa sagt sér, er hann hafi ætlað í tökurnar, að ekkert svar hefði borist.  Hafi hann því hringt í Anton og sagt honum að hann þyrfti að fá svar um hvort tilboðið væri samþykkt.  Þeir hafi rætt þessa upphæð og komist að samkomulagi um það að Anton þyrfti ekki að hringja ef þetta væri í lagi, en Anton hafi sagst ætla að athuga málið og láta vita ef eitthvað kæmi uppá.  Anton hafi ekki hringt aftur og því hafi auglýsingarnar verið myndaðar.  Einar Karl, fyrirsvarsmaður Innforms ehf., hafi verið viðstaddur tökurnar og ekki gert athugasemdir.  Seinna hafi Einar Karl sagt að kvikmyndagerðin ætti að bera þennan skaða.  Aðspurður kvað hann stefnanda hafa verið að vinna þetta verk fyrir stefnda, Tunglið, og ekki vera í viðskiptasambandi við viðskiptamenn auglýsingastofanna.

Anton Helgi Jónsson, fyrirsvarsmaður stefnda, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Kvað hann Einar Karl hjá Innform hafa hringt í sig og nefnt það að hann væri að vinna fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og jafnframt spurt hvort hann gæti komið með hugmyndir um hvað kostaði að gera auglýsingar.  Kvaðst Anton hafa nefnt einhverjar tölur.  Hafi Einar Karl þá beðið hann um að leita eftir tilboðum í gerð auglýsinga, og spurt hvort hann gæti tekið að sér að láta alla reikninga fara í gegnum fyrirtæki sitt.  Anton kvaðst hafa haft samband við Viðar eða Björn hjá stefnanda og í framhaldinu hafi þeir búið til kostnaðaráætlun.  Anton kvað Einar Karl hafa sent áætlunina til Sambands banka og verðbréfafyrirtækja og hafi þeir samþykkt hana.  Hann hafi talið auglýsingarnar mjög góðar og endurgerð þeirra hafi ekki verið með hans vilja.  Hafi hann ekki verið með lengur þegar endurgerðin fór fram, og hann hafi alltaf beðist undan því að ábyrgð á henni væri á hann lögð.  Kvað hann bæði Viðar og Björn hafa hringt í sig og hafi hann þá vísað á Einar Karl hjá Innform.  Kvaðst hann síðan hafa hringt í Einar Karl og sagt honum upphæð sem stefnandi hefði gefið upp.  Jafnfram hafi hann sagt Einari Karli að boltinn væri hjá honum og hann yrði að sjá um þetta.  Kvaðst hann því hafa búist við að Einar Karl myndi tala við Björn og Viðar og málið væri úr hans höndum.  Hafi hvorki verið þegjandi samkomulag um endurgerðina né hafi hann haft umboð til að semja um hana.  Viku síðar hafi Viðar komið með reikning til hans fyrir fyrra verkefnið og hafi sá reikningur verið gerður upp í gegnum stefnda.  Seinna hafi svo farið fram samningaviðræður um hvernig ætti að greiða vegna endurgerðarinnar.  Taldi hann að öllum hafi verið ljóst að hann hefði vísað endurgerðinni frá sér, en það hafi verið á ábyrgð Innforms að sjá um að greiða fyrir endurgerðina.  Aðspurður kvað hann ekkert samningssamband hafa verið milli stefnda og Sambands banka og sparisjóða.  Einar Karl hjá Innformi hafi haft samband og hafi hann verið sá sem keypti verkið.  Samningur hafi því verið milli stefnda og Innforms og svo hafi stefndi gert samning við undirverktaka um framleiðslu verksins.  Hann kvað Einar Karl hjá Innformi hafa beðið stefnanda um að endurgera auglýsingarnar.  Aðspurður kvaðst hann ekki hafa tilkynnt stefnanda það formlega að starfi stefnda væri lokið, en taldi að hann hefði samt gert þeim það ljóst að hann hefði ekki umboð til endurgerðarinnar.  Hann kvaðst hafa áframsent báða reikningana vegna auglýsingagerð-anna til Innform, og minnist þess ekki að hafa endursent reikninginn vegna endurgerðarinnar.

Einar Karl Haraldsson, fyrirsvarsmaður Innforms, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Kvað hann Innform hafa samið við stefnda um gerð auglýsinga.  Kvaðst hann hafa verið viðstaddur frumgerð auglýsinganna, en ekki vera viss um hvort hann hefði jafnframt verið viðstaddur endurgerðina.  Hann kvaðst hafa gert athugasemd við frumgerð auglýsinganna og óskað eftir endurgerð þeirra.  Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir að af endurgerðinni hlytist kostnaður, en hafa haldið að fyrri reikningurinn, sem greiddur hefði verið, væri endanlegur reikningur.  Hann kvað ekki vera beint samningssamband milli Innforms og undirverktaka, allt hafi farið í gegnum stefnda og því leiði af sjálfu sér að reikningarnir hafi farið í gegnum stefnda.  Hann kvaðst hafa haft samband bæði við stefnanda og stefnda er hann hafi fengið sendan reikninginn fyrir endurgerðina og mótmælt reikningnum.  Aðspurður hvort Anton hafi einhvern tíma tilkynnt honum að hann vildi ekki vera aðili að þessu lengur og að hans starfi væri lokið kvað hann að fram hefði komið að stefndi hefði ekki talið þörf á endurgerðinni.

III

Stefnandi kveður skuld þessa vera tilkomna vegna viðskipta stefnanda og hins stefnda félags, en stefnandi og stefndi hafi gert með sér munnlegan samning um framleiðslu þriggja sjónvarpsauglýsinga fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, hinn 12. mars 2004.  Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafi óskaði eftir því að tvær af þremur auglýsingum yrðu endurgerðar og hafi stefnandi þá gert stefnda tilboð í endurgerð auglýsinganna og hafi tilboðið hljóðað upp á helming þess verðs sem gerð fyrri auglýsinganna hafði kostað og höfðu verið greiddar.  Starfsmaður stefnda hafi ætlað að bera tilboðið undir réttargæslustefndu, Innform og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, og láta vita yrðu athugasemdir gerðar við það.  Engar athugasemdir hafi borist og hafi verkið því verið unnið.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttarins og kröfuréttarins.

Kröfur um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. í III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að hann eigi ekki aðild að þeim lögskiptum sem krafa stefnanda lúti að.  Endurgerð og reyndar einnig frumgerð auglýsinganna hafi verið gerð samkvæmt samkomulagi stefnanda við Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og ráðgjafa þess, Einar Karl Haraldsson.  Ágreiningur um þau viðskipti varði lögskipti stefnanda við þriðja mann og því beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Ágreiningslaust sé að umræddar sjónvarpsauglýsingar, þar með talið endurgerð þeirra, hafi verið framleiddar fyrir þriðja aðila, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, sem hafi notið ráðgjafar Innform ehf. við framleiðsluna.  Þannig lúti reikningur stefnanda að vinnu fyrir þriðja aðila og beri því samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins að beina kröfu vegna viðskiptanna að honum.

Ekki sé gerð grein fyrir því í stefnu á hvaða grundvelli kröfu sé beint að stefnda, sem engra hagsmuna eigi að gæta vegna auglýsingagerðarinnar, annað en að annast ákveðna verkþætti hennar og hafa milligöngu.  Stefndi mótmælir því að samningssamband hafi verið á milli stefnda og stefnanda og/eða stefnda og þriðja aðila sem réttlætt geti að kröfu sé beint að honum vegna gerðar auglýsinganna.  Gegn mótmælum stefnda beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi eigi aðild að málinu.

Stefndi hafi verið milliliður við gerð frumauglýsingarinnar fyrir sjónvarp.  Hlutverk stefnda hafi verið að semja handrit að hluta og afla tilboða.  Til hægðarauka hafi stefndi einnig haft milligöngu um greiðslu reikningsins fyrir frumgerðina.  Þegar hann hafi borist hafi hann verið sendur til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og umboðsmanns hans, sem samstundis og án athugasemda hafi millifært greiðslu til stefnda, sem hafi áframsent hana til stefnanda.  Stefndi mótmælir að hafa nokkurn tímann verið samningsaðili stefnanda.  Hvernig sem litið sé á aðildina vegna frumgerðar sjónvarpsauglýsinganna hafi því verki verið lokið og varan afhent.  Stefnda hafi verið kunnugt um óánægju með ákveðna þætti auglýsingarinnar en talið þær kvartanir ekki vera á rökum reistar.  Stefnda sé ekki kunnugt um að byggt hafí verið á því að varan væri gölluð í skilningi lausafjárkaupalaga, þvert á móti hafi verið greitt fyrir vöruna að fullu, athugasemdalaust.  Verkinu hafi verið lokið og líta verði á endurgerð auglýsingarinnar sem sjálfstætt verk, óviðkomandi stefnda.

Þá bendir stefnda á að fram komi í stefnu, að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafi óskað eftir því að tvær af þremur auglýsinganna yrðu endurgerðar.  Enn fremur að ráðgjafi þeirra, Einar Karl Haraldsson hjá Innformi ehf., hafi verið viðstaddur endurgerð auglýsinganna.  Stefndi hafi þar hvergi komið nærri.  Að sögn stefnanda hafi verkbeiðanda, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, verið send endurgerð auglýsinganna og þær sendar á sjónvarpsstöðvar til birtingar og hafi stefndi aldrei fengið eintak af endurgerð þeirra.  Þá komi einnig fram í stefnu, að stefnandi hafi vænst greiðslu frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.  Sé á því byggt að stefnandi hafi fyrst snúið sér til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um greiðslu.  Fulltrúi þeirra muni hafa gert athugasemdir við reikninginn og hafi stefnandi svarað þeim andmælum í tölvupósti, dagsettum 18. maí 2004.

Samkvæmt þessu hafi stefnandi samið við Samtök banka og verðbréfafyrirtækja um verkið og hafi átt í viðræðum við þau um greiðslu fyrir það.  Í ljósi þessa sé eðlilegt að kröfu um verkið sé beint að verkkaupa sem nýtti sér verkið.  Verði ekki að lögum leyst úr ágreiningi um greiðsluskyldu reikningsins án þess að verkkaupi eigi aðild að málinu.

Stefndi mótmælir fjárhæð reikningsins sem allt of hárri.  Í réttargæslustefnu sé sérstaklega kallað eftir afstöðu réttargæslustefndu til fjárhæðar reiknings og andmælum þar að lútandi. 

Stefndi mótmælir og sérstaklega vaxtakröfu stefnanda og málskostnaðarkröfu hans.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfu- og samningaréttar og laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. 

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

V

Fyrir liggur að réttargæslustefndi, Innform ehf., tók að sér að skipuleggja kynningarátak fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtæki.  Einar Karl Haraldsson, hjá Innform hafði samband við Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og kom fram með tillögu að auglýsingaherferð fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja.  Samtök banka og verðbréfafyrirtækja gerðu það að algeru skilyrði að þau ættu allt málið við einn aðila, þ.e. Innform, sem yrði samningsaðili þeirra. 

Ljóst er samkvæmt því sem fram er komið í málinu að samningur um frumgerð auglýsinganna var gerður á milli stefnanda og stefnda.  Reikningarnir voru stílaðir á stefnda án nokkurra athugasemda.  Fram kom við yfirheyrslur hér fyrir dómi, að réttargæslustefndi, Samtök banka og sparisjóða, óskaði eftir því að auglýsingarnar yrðu endurgerðar er fulltrúum þeirra var sýnd frumgerðin, þó svo stefndi hafi talið frumgerðina vera fullnægjandi og í samræmi við það sem óskað var eftir.  Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns stefnda hér fyrir dómi liggur fyrir að starfsmaður stefnanda hafði samband við hann áður en ráðist var í endurgerðina, þar sem stefndi var upplýstur um kostnað við endurgerð auglýsinganna.  Stefndi heldur því hins vegar fram að hann hafi vísað stefnanda á réttargæslustefnda, Innform.  Stefnandi telur stefnda hafa gefið það til kynna að hann myndi bera tilboðið undir fyrirsvarsmann réttargæslustefnda, Innform, og láta vita ef því yrði ekki tekið.  Þegar litið er til þess að stefnandi tók að sér að gera auglýsingu fyrir réttargæslustefnda, Samtök banka og sparisjóða, samkvæmt samningi við stefnda, og ljóst er að óskað var eftir því við stefnanda að hluti auglýsinganna yrði endurgerður, verður að telja að stefnanda hafi verið rétt að líta svo á, þar sem um svo tengd verkefni var að ræða, að stefndi væri samningsaðili um endurgerðina.  Samkvæmt því bar stefnda að gefa stefnanda það skýrt til kynna ef hann teldi sig ekki lengur aðila að samningi um gerð auglýsinganna.  Þegar framangreindur framburður aðila hér fyrir dómi er virtur þykir stefndi ekki hafa fullnægt þeirri skyldu sinni og þannig firrt sig ábyrgð á greiðsluskyldu gagnvart stefnanda.  Þá liggur fyrir að stefnandi bauðst til þess að endurgera hluta auglýsinganna fyrir það verð sem reikningur hans og stefnukrafan hljóðar um, án þess að athugasemdir væru gerðar áður en hafist var handa við endurgerðina.  Með því að svo var ekki gert ber að taka kröfu stefnanda til greina, með dráttarvöxtum, eins og greinir í stefnu, eða frá gjalddaga reikningsins, eins og reikningurinn ber með sér, og telja verður að gilt hafi í viðskiptum aðila, og fram kom á fyrri reikningi, sem stefndi greiddi stefnanda.

             Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

         Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

         Stefndi, Tunglið-auglýsingastofa ehf., greiði stefnanda, Spark ehf., 1.170.300 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 8. apríl 2004 til greiðsludags.

         Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.