Hæstiréttur íslands

Mál nr. 162/2001


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. október 2001.

Nr. 162/2001.

Óli Jón Gunnarsson

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Borgarbyggð

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Miskabætur.

Sveitarfélagið B sagði bæjarstjóranum Ó upp störfum áður en ráðningartími hans rann út. Ó krafðist launa til loka umsamins tveggja ára ráðningartíma og í sex mánuði til viðbótar. Með hliðsjón af sérstöku eðli starfs bæjarstjóra var talið að umdeilt ákvæði ráðningar­samnings aðila, um starfslok Ó fyrir lok ráðningartímans, bæri að skýra á þann veg að í því fælist gagnkvæm heimild samningsaðila til uppsagnar samningsins. Ákvæði samningsins um rétt Ó til launa ,,í sex mánuði frá þeim tíma” var túlkað svo samkvæmt orðanna hljóðan að þar væri bæði vísað til loka ráðningartímans og þess tíma, er störfum bæjarstjóra kunni að ljúka í raun sé það fyrr. Var B því sýknað af kröfu Ó til frekari launagreiðslna. Þar sem ekki voru lagaskilyrði til að fallast á miskabótakröfu Ó var B einnig sýknað af þeirri kröfu, enda þótt fallist væri á það með Ó að B hefði gengið óþarflega hart fram við uppsögnina. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 7.580.415 krónur. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.376.466 krónur. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi dráttarvaxta frá 1. desember 1999 til greiðsludags auk málskostnaðar  í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur aðila varðar rétt áfrýjanda til launa og miskabóta eftir að honum var sagt upp störfum sem bæjarstjóri Borgarbyggðar í apríl 1999.

Áfrýjandi hóf störf sem bæjarstjóri Borgarnesbæjar 1. janúar 1988. Eftir að sveitarfélagið Borgarbyggð varð til með sameiningu sveitarfélaga gegndi áfrýjandi starfi bæjarstjóra í því sveitarfélagi. Meðal gagna málsins er ráðningarsamningur milli aðila 7. júní 1994, sem gerður var eftir sveitarstjórnarkosningarnar það vor. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samningsins var áfrýjandi ráðinn bæjarstjóri Borgarbyggðar „frá 1. júní 1994 til loka kjörtímabils núverandi bæjarstjórnar.“ Var 3. mgr. 1. gr. samningsins svohljóðandi: „Verði Óli Jón ekki endurráðinn bæjarstjóri að loknu kjörtímabilinu eða hættir störfum áður en því lýkur, á hann rétt á launum í sex mánuði frá þeim tíma er hann hættir störfum.“

 Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 var áfrýjandi kjörinn til setu í bæjarstjórn Borgarbyggðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hann hafði ekki áður átt sæti í henni. Eftir kosningarnar náðist samkomulag milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun meirihluta í bæjarstjórn Borgarbyggðar. Af framburði áfrýjanda og Guðmundar Guðmarssonar þáverandi forseta bæjarstjórnar fyrir héraðsdómi er ljóst að ráðning bæjarstjóra var eitt af þeim atriðum, sem sérstaklega voru til umræðu við myndun meirihlutans. Varð niðurstaðan sú að áfrýjandi skyldi gegna bæjarstjórastarfinu fyrri helming kjörtímabilsins en framsóknarmenn skyldu ákveða fyrirkomulag við ráðningu bæjarstjóra síðari helming þess. Bar Guðmundur að þá hafi verið ætlunin að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra. Þann 7. júní 1998 undirrituðu áfrýjandi og Guðmundur Guðmarsson fyrir hönd Borgarbyggðar nýjan ráðningarsamning. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. hans var áfrýjandi ráðinn bæjarstjóri „frá 7. júní 1998 til tveggja ára.“ Í 3. mgr. 1. gr. samningsins var svofellt ákvæði: „Að afloknum ráðningartíma eða ef hann hættir störfum áður en honum lýkur, á hann rétt á launum í sex mánuði frá þeim tíma.“ Snýst ágreiningur aðila, sem mál þetta er risið af, fyrst og fremst um túlkun á þessu ákvæði. Samningur þessi var lagður fyrir fund bæjarstjórnar 11. júní 1998 og samþykktur með fimm atkvæðum fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn en fjórir fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Á fundi bæjarstjórnar 15. apríl 1999 slitnaði upp úr samstarfi þeirra flokka, sem myndað höfðu meirihluta í bæjarstjórninni. Í lok þess fundar var svohljóðandi tillaga borin upp af forseta bæjarstjórnar: „Bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkir að segja Óla Jóni Gunnarssyni bæjarstjóra upp störfum frá og með 1. maí 1999 að telja. Jafnframt er samþykkt að veita honum leyfi frá störfum frá og með 16. apríl til og með 30. apríl 1999.“ Var þessi tillaga samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur en fjórir sátu hjá. Er ljóst af framburði áfrýjanda, Guðmundar Guðmarssonar og Guðrúnar Jónsdóttur, fulltrúa Borgarbyggðarlistans í bæjarstjórn, fyrir héraðsdómi að strax eftir að þessi samþykkt hafði verið gerð hafi komið í ljós að áfrýjanda og Guðmund greindi á um hvað í fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins fælist. Þessi fundur bæjarstjórnar var haldinn að kvöldlagi. Var áfrýjanda gert að rýma skrifstofu sína þegar í stað þetta sama kvöld.

Með bréfi 10. ágúst 1999 lýsti áfrýjandi þeim skilningi sínum á ákvæði 3. mgr 1. gr. ráðningarsamningsins að hann ætti samkvæmt því rétt á launum til loka umsamins tveggja ára ráðningartíma og í sex mánuði að þeim tíma liðnum enda fælist ekki í ákvæðinu heimild til uppsagnar samningsins af hálfu stefnda. Lýsti hann sig tilbúinn til viðræðna um ágreining aðila. Í bæjarstjórn Borgarbyggðar var 9. september 1999 samþykkt svohljóðandi bókun með sex atkvæðum meirihlutans: „Það er skoðun meirihluta bæjarstjórnar Borgarbyggðar að greiða beri Óla Jóni Gunnarssyni laun til loka október 1999 eða í sex mánuði frá því hann lauk störfum sem bæjarstjóri. Kröfu lögmanns Óla Jóns um laun í 13 mánuði þar til viðbótar teljum við óásættanlega. Lögmanni á vegum Borgarbyggðar verði falið að svara bréfi lögmanns Óla Jóns og ganga til lúkningar á þessu máli eða leiða það til lykta fyrir dómstólum.“ Var þessi bókun kynnt áfrýjanda með bréfi 22. september 1999. Í samræmi við þann skilning á ráðningarsamningnum, sem fram kom í ofangreindri bókun, greiddi stefndi áfrýjanda laun til októberloka 1999. Höfðaði áfrýjandi mál þetta til heimtu þeirra launa, sem hann taldi þá vangreidd svo og miskabóta. Er aðalkrafa hans miðuð við framangreindan skilning hans á ráðningarsamningnum, það er um laun til loka umsamins ráðningartíma og sex mánuði því til viðbótar.

II.

Eins og að framan er rakið gerðu aðilar með sér tímabundinn ráðningarsamning um störf áfrýjanda sem bæjarstjóra 7. júní 1998. Í framangreindu ákvæði 3. mgr. 1. gr. samningsins felst ráðagerð um að áfrýjandi kynni að hætta störfum fyrir lok umsamins ráðningartíma. Aðila greinir hins vegar á um hvort í ákvæðinu felist heimild til handa áfrýjanda til að segja samningnum upp einhliða sem og hvernig skilja beri ákvæðið varðandi það tímabil, sem áfrýjanda beri laun fyrir, kæmi til starfsloka fyrir lok ráðningartímans. Áfrýjandi telur að í samningnum hafi ekki falist slík uppsagnarheimild til handa stefnda enda þurfi að vera kveðið ótvírætt á um slíkt til þess að slíta megi tímabundnum ráðningarsamningi. Hann telur hins vegar að í ákvæðinu hafi falist einhliða heimild sér til handa til að slíta samningnum en telur þó ýmislegt óljóst um hvað í ákvæðinu felist varðandi laun eftir starfslok í því tilviki. Telur hann ótvírætt, meðal annars með því að bera samninginn frá 7. júní 1998 saman við samning aðila 7. júní 1994, að stefnda beri laun út ráðningartímann og í sex mánuði að honum loknum. Stefndi telur hins vegar að í hinu umdeilda ákvæði felist gagnkvæmur réttur aðila til uppsagnar samningsins án sérstaks uppsagnarfrests en áfrýjandi eigi rétt á launum í sex mánuði frá starfslokum.

Sveitarstjórn ræður framkvæmdastjóra sveitarfélags og á hann náið samstarf við sveitarstjórn. Þarf því að ríkja traust milli framkvæmdastjórans og meiri hluta sveitarstjórnar á hverjum tíma. Af þessum sökum er algengt að til bæjarstjóraskipta komi þegar nýr meirihluti er myndaður í sveitarstjórn hvort sem það er í kjölfar sveitarstjórnarkosninga eða á kjörtímabili sveitarstjórnar. Verður að hafa þetta sérstaka eðli bæjarstjórastarfsins í huga við túlkun á ráðningarsamningi aðila. Þá ber til þess að líta að áfrýjandi var kosinn í bæjarstjórn Borgarbyggðar í kosningunum vorið 1998 og að ráða má af gögnum máls að um ráðningu bæjarstjóra hafi verið mjög skiptar skoðanir milli fulltrúa þeirra þriggja lista sem sæti áttu í bæjarstjórninni eftir kosningarnar. Virtist því hafa verið full ástæða fyrir aðila samningsins að gera ráð fyrir því við samningsgerðina að til þess gæti komið að til ráðningarslita kæmi á samningstímanum. Í þessu ljósi verður að skýra ákvæði 3. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins um starfslok áfrýjanda fyrir lok ráðningartímans á þann veg að í því felist gagnkvæm heimild samningsaðila til uppsagnar samningsins.

Telja verður eðlilegast að túlka 3. mgr. 1. gr. samningsins svo samkvæmt orðanna hljóðan að með orðunum „í sex mánuði frá þeim tíma“ í lok ákvæðisins, sé vísað bæði til loka ráðningartímans og þess tíma, er störfum bæjarstjóra kunni að ljúka í raun sé það fyrr. Verður önnur ályktun ekki dregin af samanburði við orðalag hliðstæðs ákvæðis í eldra samnningi aðila enda eru engin gögn í málinu sem benda til þess að ætlun aðlila hafi verið að gera þær breytingar á ákvæðinu að áfrýjanda væru tryggð svo óvenjuleg kjör að hann nyti launa til loka umsamins tveggja ára ráðningartíma og í sex mánuði til viðbótar án tillits til þess hvenær störfum hans lyki. Verður stefndi því sýknaður af kröfu áfrýjanda til frekari launagreiðslna.

Áfrýjandi gerir einnig kröfu til 500.000 króna miskabóta úr hendi stefnda. Enda þótt fallast megi á það með áfrýjanda að stefndi hafi gengið óþarflega hart fram með því að krefjast þess að áfrýjandi rýmdi skrifstofu sína fyrirvaralaust að kvöldlagi í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar um uppsögn ráðningarsamningsins eru ekki lagaskilyrði til að dæma áfrýjanda miskabætur. Verður stefndi því einnig sýknaður af miskabótakröfu áfrýjanda. Verður niðurstaða hins áfrýjað dóms því staðfest.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

D ó m s o r ð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 3. maí 2001.

Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 9. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 28. janúar 2000.

Stefnandi er Óli Jón Gunnarsson, kt. 070749-7699, Ásklifi 4a, Stykkishólmi.

Stefndi er Borgarbyggð, kt. 510694-2289, Borgarbraut 11, Borgarnesi.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:  Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 7.580.415 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1999 til greiðsludags.

Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.376.466.krónur ­með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1999 til greiðsludags.

Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að með ráðningarsamningi dagsettum 7. júní 1994 hafi hann verið ráðinn bæjarstjóri Borgarbyggðar.  Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafi þá farið með meirihluta í bæjarstjórn.  Þann 7. júní 1998 hafi stefnandi verið endurráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins með tímabundnum ráðningarsamningi, en þá hafi hann einnig verið kjörinn til setu í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokk.  Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins skyldi stefnandi vera ráðinn bæjarstjóri til tveggja ára frá 7. júní 1998 að telja.  Í 3. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins sé svofellt ákvæði: „Að afloknum ráðningartíma eða ef hann hættir störfum áður en honum lýkur, á hann rétt á launum í sex mánuði frá þeim tíma.”

Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 15. apríl 1999 hafi slitnað upp úr meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Í lok fundarins hafi forseti bæjarstjórnar, einn bæjarfulltrúa Framsóknarflokks, lagt fram svohljóðandi tillögu: „Bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkir að segja Óla Jóni Gunnarssyni bæjarstjóra upp störfum frá og með l. maí 1999 að telja.  Jafnframt er samþykkt að veita honum leyfi frá störfum frá og með 16. apríl til og með 30. apríl 1999.”  Tillagan hafi verið samþykkt með þremur atkvæðum Framsóknarmanna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðismanna, en fjórir fulltrúar Borgarbyggðarlistans hafi setið hjá.

Í kjölfar þessa hafi stefnandi látið af störfum sem bæjarstjóri Borgarbyggðar, en nýr meirihluti hafi verið myndaður í bæjarstjórn með aðild Borgarbyggðarlistans og Sjálfstæðisflokks.  Hafi stefnandi átt aðild að honum sem bæjarfulltrúi.  Fljótlega hafi komið í ljós að ágreiningur var milli stefnanda og stefnda um réttar efndir á ráðningarsamningi hans við ráðningarslitin.  Í júní s.á. hafi stefnanda borist tvær tölvupóstsendingar frá Guðrúnu Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Borgarbyggðarlistans, dagsettar 7. og 15. s.m.  Með þeim hafi stefnanda verið gert tilboð um greiðslu biðlauna í 6 mánuði auk tveggja mánaða launa. Stefnandi hafi tjáð Guðrúnu símleiðis að hann myndi ekki taka framangreindu tilboði.  Ekki hafi verið sent skriflegt svar.

Stefnanda hafi þessu næst borist bréf frá Borgarbyggðarlistanum, dagsett 5. júlí 1999. Þar komi fram að þar sem stefnandi hafi ekki svarað tilboði Borgarbyggðarlistans um launagreiðslur vegna starfsloka stefnanda sem bæjarstjóra væri tilboðið dregið til baka.  Að mati bréfritara hafi stefnandi sýnt bæjarfulltrúunum vanvirðingu með því að svara ekki tilboði þeirra.  Síðan segi orðrétt í bréfinu:  „Af framangreindum ástæðum drögum við því tilboð okkar til baka og munum hér eftir ekki fallast á neitt annað varðandi starfslok þín en það sem ráðningarsamningurinn segir til um, þ.e. að þú haldir launum í sex mánuði frá því þú hættir störfum.”

Af hálfu stefnanda hafi verið brugðist við þessu með bréfi lögmanns hans til stefnda, dags. 10. ágúst 1999.  Í bréfinu segi að ekki liggi annað fyrir en stefnandi hafi unnið starf sitt sem bæjarstjóri óaðfinnanlega og að eina ástæða uppsagnar hans væri breytt afstaða meirihluta bæjarstjórnar til hans.  Jafnframt hafi verið vísað til 3. mgr. 1. gr. ráðningarsamnings stefnanda við stefnda sem fæli í sér að stefnandi skyldi halda launum út ráðningartímann og í sex mánuði til viðbótar.  Hafi þess verið krafist að ráðningarsamningurinn yrði efndur samkvæmt framansögðu, en að öðrum kosti mætti búast við málssókn.

Viðbrögð stefnda hafi komið fram í bréfi lögmanns hans til lögmanns stefnanda, dags. 22. september 1999.  Þar sé vísað til bókunar á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 9. september 1999, þar sem fram komi sú afstaða meirihluta bæjarstjórnar Borgarbyggðar að greiða beri stefnanda laun til loka október 1999, eða í sex mánuði frá því honum var sagt upp störfum af stefnda.  Kröfum stefnanda hafi verið hafnað og því sé málssókn þessi óumflýjanleg.  Rétt sé að geta þess að stefnandi hafi sagt af sér sem bæjarfulltrúi í Borgarbyggð frá og með l. september 1999.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að stefndi hafi vanefnt ákvæði 3. mgr. l. gr. ráðningarsamningsins.  Stefnandi hafi verið ráðinn tímabundið til starfa sem bæjarstjóri hjá stefnda í tvö ár.  Ekkert uppsagnarákvæði sé í samningnum, en samkvæmt almennum reglum sé vinnuveitanda óheimilt að segja tímabundnum ráðningarsamningi upp nema skýr heimild til slíks sé í ráðningarsamningi.  Samkvæmt framansögðu eigi stefnandi rétt til launa til enda ráðningartíma síns hjá stefnda, þ.e. til 7. júní 2000, og í sex mánuði að auki.

Stefnandi telji orðalag samningsins alveg skýrt að þessu leyti.  Hefði stefndi viljað eiga þess kost að segja stefnanda upp með tilteknum uppsagnarfresti hafi honum verið í lófa lagið að setja ákvæði þar um í samninginn.  Það hafi hann ekki gert og verði sjálfur að bera hallann af því.

Þá sé einnig rétt að benda á að ákvæði á borð við 3. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins sé sett í þeim tilgangi að treysta stöðu stefnanda sem bæjarstjóra við þær kringumstæður að pólitískar sviptingar verði innan bæjarstjórnar sem sett geti störf hans í uppnám.  Almennt séð búi bæjarstjórar við mjög skert starfsöryggi vegna þess að þeir kunni að missa störf sín, og þar með framfærslu, vegna einhverra atvika sem hafi enga skírskotun til hæfis þeirra í starfi eða gæða starfa þeirra að öðru leyti.  Með hliðsjón af þessu sé ákvæði 3. mgr. 1. gr. fullkomlega eðlilegt og rétt túlkun þess sú að með því sé stefnanda tryggt starf til tveggja ára.  Hvað sem öðru líði leiði almennar reglur samningaréttar til þess að stefnandi megi treysta á að njóta þess réttar sem samningurinn beri með sér samkvæmt orðalagi sínu. Verði orðalag samningsins að þessu leyti talið óskýrt eða óljóst leiði almennur túlkunarreglur til þess að slíkur vafi er metinn launþega í hag.  Með hliðsjón af þessu sé eðlilegt að túlka orðin „ef hann hættir störfum áður en honum lýkur” í 3. mgr. 1. gr. svo að með því sé átt við að stefnandi láti af störfum að eigin frumkvæði.  Því hafi hins vegar ekki verið að heilsa svo sem að framan sé rakið.

Að mati stefnanda hljóti orðalag samningsins að teljast sérlega villandi ef með því hafi aðeins verið verið að tryggja aðilum gagnkvæman sex mánaða uppsagnarfrest, eins og stefndi virðist telja.  Spyrja megi, hafi sá verið tilgangurinn, hvers vegna samningurinn hafi þá verið orðaður eins og raun ber vitni.  Ástæða þess sé einfaldlega sú að það hafi verið verið að semja um launaöryggi til handa stefnda í tvö ár og í sex mánuði að auki, kæmi ekki til endurráðningar.

Að mati stefnanda sé alveg ljóst að stefndi hafi, með því að hætta greiðslum til hans frá og með 1. nóvember 1999, skert einhliða þau starfsréttindi sem um var samið í framangreindum ráðningarsamningi.  Það sé stefnda óheimilt.  Sé um vanefnd að ræða samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar.

Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig: 

Aðalkrafa:

Föst laun:

252.644 x 13,25

=kr.  3.347.533,-

 

Föst yfirvinna:

202.076 x 13,25

=kr.  2.677.507,-

 

Orlof á yfirvinnu: 

26.351 x 13,25

=kr.     349.151,- 

 

6% mótframlag í lífeyrissjóð: 

28.864 x 13,25

=kr.     382.448,-

 

Desemberuppbót: 2/12

af uppbót 1999 og 11/12

af uppbót 2000:

 

 

 

=kr.        41.745,-

 

2/12 af 13. mánuði 1999 og

11/12 af 13. mánuði 2000:

 

=kr.      282.031,-

 

Miskabætur:         

500.000

=kr.      500.000,-

Samtals:kr.   7.580.415,-

 

Varakrafa:

 

 

 

Föst laun:

252.644 x 7,25

=kr.  1.831.669,-

 

Föst yfirvinna:

202.076 x 7,25

=kr.  1.465.051,-

 

Orlof á yfirvinnu: 

26.351 x 7,25

=kr.     191.045,-

 

6% mótframlag í lífeyrissjóð:

28.864 x 7,25

=kr.     209.264,-­

 

Desemberuppbót: 2/12

af uppbót 1999 og 5/12

af uppbót 2000:

 

 

=kr.       22.478,-

 

2/12 af 13. mánuði 1999 og

5/12 af 13. mánuði 2000:

 

=kr.     155.509,-

 

Miskabætur:         

500.000

=kr.__ 500.000,-

Samtals:kr.  4.375.016,-

­

          Aðalkrafa stefnanda styðjist við launaseðla stefnanda hjá stefnda og sé samanlögð laun frá l. nóvember 1999 til 7. júní 2000 auk andvirðis sex mánaða launa.  Samtals eigi stefnandi því rétt til launa og tengdra greiðslna úr hendi stefnanda í 13,25 mánuði.

        Varakrafan styðjist við sömu gögn, en hún sé aðeins miðuð við laun frá 1. nóvember 1999 til 7. júní 2000.  Sé það gert fari svo ólíklega að dómurinn telji stefnda hafa haft rétt til að segja ráðningarsamningnum upp, en þá sé miðað við að stefnanda beri aðeins réttur til launa út samningstímann.  Stefnandi árétti að í bréfi lögmanns hans til stefnda, dags. 10. ágúst 1999, hafi verið bent á að yrðu launagreiðslur til stefnanda felldar niður yrði litið svo á að við greiðslufallið féllu öll ógreidd laun í gjalddaga.  Stefndi hafi á hinn bóginn, með bréfi sínu, dags. 22. september 1999, lýst yfir því að ekki myndi verða um frekari greiðslur að ræða til stefnanda og því sé málssókn þessi óumflýjanleg.

         Hvað varðar miskabótakröfuna bendir stefnandi á að ráðningarslitin hafi haft í för með sér mikla röskun á stöðu hans og högum.  Hafi þau leitt til þess að stefnandi hafi orðið að taka upp heimili sitt og flytja í annað sveitarfélag, en stefnandi gegni nú stöðu bæjarstjóra í Stykkishólmi og hafi gert það frá 1. október 1999.  Af hálfu stefnanda sé ekki talið að tekjuöflun hans í hinu nýja starfi skipti máli fyrir kröfugerð hans í þessu máli sem lúti aðeins að réttum efndum á samningi aðila.  Þar að auki bendi stefnandi á að alls kyns rask og kostnaður hafi fylgt því fyrir stefnanda að skipta um starf og flytjast búferlum.  Ítrekað sé að ráðningarslitin hafi hvorki verið réttlætt af hálfu stefnda með tilvísun til neins konar brota stefnanda í starfi né annarrar óánægju með frammistöðu hans á þeim vettvangi.  Aðeins hafi verið um að ræða breytt viðhorf til hans sem bæjarstjóra innan meirihluta bæjarstjórnar.  Fyrirvaralaus brottvikning hans hafi verið til þess fallin að valda honum álitshnekki auk þess sem hann hafi þurft að þola mikil óþægindi vegna þessa alls og því sé gerð hófleg krafa um miskabætur eins og nánar greini í sundurliðun kröfugerðar.

        Stefnandi styðji kröfu um dráttarvexti frá 1. desember 1999 til greiðsludags við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum.  Ljóst sé að ekki muni verða um frekari greiðslur að ræða frá stefnda og hafi stefnandi lýst því yfir að þar með falli allar greiðslur samkvæmt samningi aðila í gjalddaga.  Síðasta greiðsla stefnda hafi verið innt af hendi l. nóvember 1999, en frá og með l. desember s.á. hafi stefndi vanefnt samning aðila með framangreindum hætti.

          Um lagarök vísar stefnandi til reglna samningaréttar um túlkun og efndir samninga svo og til reglna vinnuréttar.  Þá vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsludrátt og áhrif hans.  Um miskabótakröfu vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum.  Varðandi dráttarvaxtakröfu vísar stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum.  Kröfu um málskostnað styður stefnadi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, einkum 129. og 130. gr. laganna.  Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun styður stefnandi við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og því sé honum nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

          Málsatvik og málsástæður stefnda

          Stefndi kveður ráðningarsamning stefnanda og stefnda frá 7. júní 1998 að formi til hafa verið tímabundinn ráðningarsamning.  Hið sama sé að segja um fyrri ráðningarsamning aðilanna frá 1994.  Af hálfu stefnanda sé því haldið fram að líta beri svo á að um venjubundinn tímabundinn ráðningarsamning hafi verið að ræða sem hafi verið óuppsegjanlegur.  Þessu sé stefndi ósammála.  Stefndi telji að ráðningarsamningur aðilanna hafi verið sérstaks eðlis og beri að túlka hann með hliðsjón af sérstöku eðli þess starfs sem stefnandi hafi verið ráðinn til að gegna.

          Meginúrlausnarefni máls þessa sé að túlka efni ráðningarsamningsins frá 1998.  Afrit samningsins sé að finna á dskj. nr. 3.  Í 3. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins sé svofellt ákvæði:  „Að afloknum ráðningartíma eða ef hann hættir störfum áður en honum lýkur, á hann rétt á launum í sex mánuði frá þeim tíma.”

          Í þessu orðalagi ráðningarsamningsins felist ráðagerð um það að til þess geti komið að ráðningarsambandinu ljúki fyrr en meginefni samningsins gerir ráð fyrir.  Þetta sé ólíkt því sem almennt gerist um venjulega tímabundna ráðningarsamninga.  Samningurinn geri þá ráð fyrir því að komi til slíkra slita ráðningarinnar skuli greidd einskonar biðlaun í sex mánuði sem sé sama regla og hefði ráðningunni lokið samkvæmt því sem upphaflega var gert ráð fyrir.

          Í ráðningarsamningi aðilanna frá 1994, sem samningurinn frá 1998 hafi leyst af hólmi, sé svipað ákvæði, en þar sé eftirfarandi orðalag:  „Verði Óli Jón ekki endurráðinn bæjarstjóri að loknu kjörtímabilinu eða hættir störfum áður en því lýkur, á hann rétt á launum í sex mánuði frá þeim tíma er hann hættir störfum.”

          Hið breytta orðalag sem fram komi í samningnum 1998 „ef hann hættir störfum” þarfnist sérstakrar skoðunar.  Spurningin sé þá hvort hér sé um að ræða einhliða ákvæði sem veiti stefnanda rétt til þess að slíta ráðningunni að eigin geðþótta og fá við það sex mánaða laun án vinnuframlags.  Spyrja verði þeirrar spurningar hvort stefnandi hefði t.d. getað ráðið sig í vinnu annars staðar, tilkynnt um það deginum áður en hann hæfi störf hjá nýjum atvinnurekanda, pakkað svo saman og verið á tvöföldum launum í hálft ár.  Stefndi telji að þessi túlkun, sem sé í raun sú sem málatilbúnaður stefnanda byggist á, sé fráleit og fjarri almennum lögfræðilegum túlkunarsjónarmiðum.

          Stefndi líti svo á að ákvæði ráðningarsamningsins um slit ráðningar fyrr en að fullnuðum ráðningartíma vísi fyrst og fremst til aðstöðu eins og þeirrar sem komið hafi upp í apríl 1999, þ.e. að ráðningu stefnanda hafi verið slitið án þess að það hafi stafað af vanefndum af hans hálfu.  Þannig hafi heimildin til uppsagnar verið gagnkvæm, en þó þannig að væri stefnanda gert að hætta fyrr en að fullnuðum ráðningartíma bæri honum sex mánaða biðlaun.

          Stefndi telji ljóst af því sem fram komi að framan að ráðning stefnanda hafi ekki verið venjuleg tímabundin ráðning þótt form samningsins hafi verið þannig.  Hér hafi í raun verið um að ræða ráðningu sérstaks eðlis þar sem gert hafi verið ráð fyrir ríflegum aðlögunartíma við lok ráðningar hvort sem væri að fullnuðum hámarksráðningartíma eða á tímabilinu.

          Stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir þeirri meginforsendu við ráðningu sína að sá pólitíski meirihluti sem réði hann og hann átti sjálfur beina aðild að, yrði að halda velli til þess að hann héldi starfi sínu.  Hann hafi verið pólitískt ráðinn bæjarstjóri sem hafi ekki getað gert ráð fyrir því að halda starfi sínu hvað sem liði pólitískum meirihluta á hverjum tíma.

          Við túlkun á orðalagi ráðningarsamnings aðilanna, sem kunni við fyrstu sýn að virðast óhagstætt stefnda, verði einnig að líta til þess að stefnandi hafi að líkindum samið samninginn sjálfur og að sú túlkun sem hann geri kröfu um sé honum fáránlega hagstæð.

          Þegar upp hafi komið sú aðstaða við myndun nýs meirihluta í bæjarstjón stefnda á útmánuðum 1999 að ljóst varð að ekki hafi verið vilji til að stefnandi gegndi áfram stöðu bæjarstjóra hafi verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að ná sáttum við stefnanda um fjárköfur hans á hendur stefnda.  Þau skeyti sem vísað sé til af hálfu stefnanda og liggi að hluta frammi í málinu verði að skoða í þessu ljósi.  Það tilboð sem stefnanda hafi verið gert með óformlegum hætti af bæjarfulltrúum Borgarbyggðarlistans og falið hafi í sér greiðslu launa í tvo mánuði umfram hinn sex mánaða umsamda aðlögunartíma hafi ekki verið formlegt tilboð stefnda.  Það tilboð hafi fyrst og fremst falið í sér yfirlýsingu um það hvað viðkomandi bæjarfulltrúar væru reiðubúnir til að beita sér fyrir, gæti það orðið til að sætta ágreining aðila.  Sú framsetning sé því á engan hátt leiðbeinandi eða bindandi fyrir stefnda.

          Jafnvel þótt svo ólíklega færi að talið yrði að stefnanda beri bætur vegna samningsrofa umfram hinn ríflega biðlaunarétt, sem þegar sé uppgerður, verði slík krafa að sæta frádrætti sem nemi launum stefnanda frá nýjum atvinnurekanda.  Krafa hans á hendur stefnda sé í eðli sínu bótakrafa.  Á stefnanda sem bótakrefjanda hvíli skylda til takmörkunar tjóns síns eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

          Varakröfu um sýknu að svo stöddu styður stefndi þeim rökum að ekki liggi fyrir hver séu laun stefnanda sem bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar og heldur ekki hvort hann muni halda því starfi til ársloka 2000.  Þannig sé ekki ljóst á þessu stigi hver fjárhæð frádráttar yrði og því sé ókleyft að taka afstöðu til fjárhæðar bótakröfu stefnanda að svo stöddu ef svo ólíklega færi að hann yrði talinn eiga slíka kröfu.

          Lagarök

          Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar og skaðabótaréttar.  Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum.  Þá vísar stefndi til þess að hann sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri honum nauðsyn til að fá dæmt álag á málskostnað er nemi fjárhæð virðisaukaskatts.  Vísar stefndi um þetta til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

          Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu.  Vitnaskýrslur gáfu Guðmundur Guðmarsson, fyrrum forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar, og Guðrún Jónsdóttir bæjarfulltrúi og núverandi forseti bæjarstjórnar sveitarfélagsins.

          Stefnandi var spurður hver hafi samið þann samningstexta sem gæfi að líta í 1. gr. ráðningarsamningsins.  Hann kvað samninginn að grunni til vera frá níunda áratugnum.  Að því marki sem frávik væru á væri það svo að hann og þáverandi forseti bæjarstjórnar hafi sett inn þau frávik frá texta eldri ráðningarsamninga sem um væri að ræða.  Ráðningarsamningurinn hafi verið lagður fyrir á fyrsta fundi bæjarstjórnar eftir að hann var gerður.  Efnisleg athugasemd hafi ekki verið gerð við samninginn.  Stefnandi kvaðst hafa hafið störf sem bæjarstjóri 1. janúar 1988.  Hann hafi verið það sem kalla mætti ópólitískur bæjarstjóri frá þeim tíma þar til umþrættur ráðningarsamningur var gerður, en hann hafi verið í framboði í sveitastjórnakosningunum 1998.  Eftir kosningar hafi ráðningarsamningurinn verið gerður.

          Spurður hvaða breytingar á högum hans slit ráðningarsamningsins hafi haft í för með sér fyrir hann sagði stefnandi að hann hafi verið búsettur í Borgarnesi í 22 ár og byggt sér þar hús, en það stæði nú autt.  Húsið væri til sölu, en ekki hafi tekist að selja það.  Einnig hafi hann reynt að leigja það, en það hafi ekki tekist.  Þetta hafi breytt verulega háttum hans vegna þess að á staðnum lægju svipuð störf ekki á lausu og það hafi orðið til þess að hann hafi orðið að flytja og hafi fjölskyldan tvístrast að vissu leyti.  Hann hafi flust búferlum til Stykkishólms þar sem hann væri nú bæjarstjóri, en við því starfi hafi hann tekið 1. september 1999.

          Stefnandi kvað það vera rétt, hvað varðar uppsögn hans, að honum hafi verið gert að taka saman föggur sínar og hafa sig á brott fyrirvaralaust.  Tillagan um uppsögn hans hafi verið borin upp með dagskrárbreytingu og hafi hún verið flutt um níuleytið um kvöldið og síðan hafi honum verið gert að rýma skrifstofuna þegar í stað.  Kvað stefnadi slík vinnubrögð almennt ekki viðhöfð nema gagnvart þeim sem grunaðir væru um refsivert athæfi.  Kvaðst stefnandi hafa heyrt það utan að sér að fólk hafi talið að hann hlyti að hafa brotið eitthvað af sér í starfi úr því hann var látinn hætta með svo skjótum hætti.  Þetta hafi að honum virtist verið gert með táknrænum hætti til þess að níða af honum æruna.

          Stefnandi var spurður hvernig hann hafi skilið ákvæðið í 3. mgr. 1. gr. samningsins.  Hann kvaðst hafa skilið ákvæðið þannig að átt væri við tímabundinn ráðningarsamning, það lægi fyrir í 1. mgr.  Samkomulag hafi verið um það milli flokkanna að Sjálfstæðismenn hefðu bæjarstjórann tvö fyrstu ár kjörtímabilsins, en Framsóknarmenn tvö síðari árin.  Færi hann fram á að hætta fyrr, myndi hann halda launum í sex mánuði eftir að hann hætti.  Þetta væri afdráttarlaust tímabundinn samningur þannig að um það væri að ræða að fá greidd laun samkvæmt hinum tímabundna ráðningarsamningi, þ.e. í tvö ár og sex mánuði að auki.  Kvaðst stefnandi hafa litið svo á að um það hafi verið samið að það ætti að vera einhliða heimild hans að hætta fyrr og fá þá greidd sex mánaða laun.  Kvaðst stefnandi hafa talið að þetta hafi verið frágengið og umsamið með þeim Guðmundi Guðmarssyni og þannig hafi verið um það rætt.   Kvað stefnandi Guðmund hafa spurt sig um það hver aðstaðan væri fengi hann starf og hætti fyrr, þ.e. hvort hann gerði þá kröfu til að Sjálfstæðismenn héldu bæjarstjórastarfinu til 7. júní 2000.  Kvaðst stefnandi hafa svarað að viki hann fyrr, sem væri ekki ætlun hans, myndi hann ekki gera kröfu um það.  Það væri því afdráttarlaust af hans hálfu að hann ætti þennan rétt.  Aðspurður sagði stefnandi að ráðningarsamningurinn hafi verið lagður fram og sýndur í bæjarstjórninni.  Bókað væri í fundargerð bæjarstjórnar að hann hafi vikið af fundi meðan umræður um samninginn fóru fram.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefði, og hann teldi áreiðanlegar, hafi engar efnislegar athugasemdir verið gerðar við samningin sem slíkan.  Er stefnandi var spurður hvenær honum hafi fyrst orðið ljóst að ágreiningur væri um túlkun á umræddu ákvæði samningsins kvað hann sér hafa orðið það ljóst þegar búið var að segja honum upp.  Þá hafi hann sagt við forseta bæjarstjórnar sem hafi setið við hlið hans:  „Ja, þú veist hvað þetta þýðir hjá þér með ráðningarsamninginn?”  Þá fyrst hafi komið fram að hann skildi þetta ákvæði öðruvísi.

          Vitnið Guðmundur Guðmarsson lýsti aðdragandanum að ráðningu stefnanda sem bæjarstjóra eftir kosningarnar 1998.  Í kosningabaráttunni hafi nokkur deilumál verið uppi.  Skipulagsmál hafi borið hæst, en einnig hafi verið nokkrar deilur um bæjarstjóra og yfirlýsingar af hálfu frambjóðenda um að stefnandi yrði ekki ráðinn.  Þegar Framsóknarmenn leituðu hófana um samstarf við annan aðila eftir kosningar um myndun meirihluta hafi þeir fyrst leitað til Sjálfstæðismanna, sem Framsóknarmenn hafi átt samstarf við á kjörtímabilinu á undan.  Komið hafi fram krafa frá Sjálfstæðismönnum um að stefnadi yrði ráðinn bæjarstjóri.  Sú krafa hafi verið mjög umdeild meðal Framsóknarmanna og hafi niðurstaðan orðið sú að slíta viðræðunum og leita eftir samstarfi við Borgarbyggðarlistann.  Ekki hafi náðst samkomulag við hann og því hafi verið leitað aftur til Sjálfstæðisflokksins. Hafi niðurstaðan orðið sú að ganga að því að ráða stefnanda bæjarstjóra til tveggja ára og það hafi í raun verið grundvöllur að meirihlutasamstarfi að fallast á hann sem bæjarstjóra þessa meirihluta.  Að liðnum tveimur árum hafi átt að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra.  Er vitninu var sýndur ráðningarsamningurinn kannaðist hann við samninginn og nafnritun sína undir hann.  Aðspurður hver hafi samið samninginn kvaðst hann hafa reynt að rifja það upp, en hann myndi það ekki.  Er hann var spurður hvort hann myndi hvar hann var staddur þegar hann undirritaði samninginn kvað vitnið sig minna að þeir stefnandi hafi þá verið staddir á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Borgarnesi.  Gengið hafi verið frá málefnasamningi flokkanna og ráðningarsamningnum á nokkrum fundum.  Vitninu var kynnt 3. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins og í framhaldi af því var hann spurður hver hafi verið skilningur hans á þessu samningsákvæði.  Vitnið sagði að skilningur sinn á ákvæðinu hafi verið sá að léti stefnandi af störfum, alveg óháð því hvers vegna, ætti hann rétt til launa í sex mánuði frá þeim tíma.  Taldi vitnið að ákvæðið fæli það í sér að heimilt væri að segja stefnanda upp.  Þá taldi vitnið einnig að ákvæðið fæli í sér að stefnandi hefði getað ráðið sig í vinnu annars staðar, hætt störfum og fengið greidd laun í sex mánuði.  Ráðning stefnanda hafi í raun verið háð því að sá meirihluti sem réð hann væri starfhæfur og í samningnum væri einfaldlega gert ráð fyrir því að hann hætti störfum án þess að tilgreint væri hvers vegna.  Er vitnið var spurður hvenær honum hafi orðið ljóst að túlkun þeirra stefnanda á samningnum væri ólík sagði hann að það hafi verið í lok fundarins sem uppsögnin var samþykkt.  Þá hafi það komið upp að stefnandi og vitnið túlkuðu ákvæðið hvor með sínum hætti.  Vitnið kvað ráðningarsamninginn hafa verið borinn upp í bæjarstjórn.  Aðspurður hvort hann myndi hvort umræður hafi farið fram um efni samningsins á þessum fundi kvaðst hann ekki minnast þess.

          Vitnið var spurður hvort hann kannaðist við að eldri ráðningarsamningar við stefnanda og aðra sveitarstjóra á undan honum hafi legið fyrir þegar þeir stefnandi sömdu umræddan ráðningarsamning.  Vitnið kvað sér þykja sennilegt að svo hafi verið, en hann ætlaði ekki að fullyrða það.  Hann var spurður hvers vegna stefnanda hafi verið gert að rýma skrifstofu sína strax daginn eftir og hvers vegna svo mjög hafi legið á að gera það.  Vitnið sagði að bæjarfulltrúar Framsóknarflokks hafi talið eðlilegt, þar sem stefnadi var ekki lengur starfandi bæjarstjóri, að hann hefði ekki starfsaðstöðu á skrifstofunni.  Vitnið var spurður hvers vegna nauðsynlegt hafi verið að veita stefnanda leyfi frá störfum í stað þess að láta hann starfa áfram þar til nýr meirihluti hafði verið myndaður og nýr bæjarstjóri ráðinn.  Vitnið sagði að á þeim tíma hafi bæjarfulltrúum Framsóknarflokks fundist það eðlilegt.  Vitnið var spurður hver aðstaðan hefði verið, hefði sá kostur verið valinn vorið 1999 þegar þessir atburðir urðu, að óska eftir því við bæjarstjórann að hann ynni sex mánuðina til 1. nóvember það ár, þ.e. hvort hann hefði þá átt rétt til sex mánaða launa til viðbótar eftir 1. nóvember.  Spurt væri hvaða réttinda stefnandi hefði notið samkvæmt skilningi vitnisins á grundvelli samningsins sem gerður var.  Vitnið svaraði að úr því að búið var að segja stefnanda upp væri hann ekki ráðinn lengur.  Stefnandi hafi eingöngu átt rétt til launa í sex mánuði frá þeim tíma.  Er vitnið var spurður hvort það væri ekki skilningur hans að þetta væri ráðningarsamningur þar sem um væri að ræða sex mánaða uppsagnarfrest sagði vitnið að það væri ekki uppsagnarfrestur heldur réttur til launa að lokinni uppsögn.  Vitnið var spurður hvort hann teldi að stefnandi hefði samkvæmt þessu átt rétt til sex mánaða launa í því tilviki að honum hefði verið sagt upp með þeim hætti að hann skyldi ljúka störfum 1. nóvember 1999.  Svar vitnisins var að hann væri sannfærður um að hefði hann lagt það fyrir að stefnandi ynni sex mánuði til viðbótar þá hefði hann gert sérstakan samning um það.  Hefði stefnandi ekki átt að eiga rétt á launum þá hefði hann tekið það sérstaklega fram.  Sagði vitnið að væri samningi með ákvæði sem þessu sagt upp væri samningnum lokið, en ákvæðið héldi þessa sex mánuði.  Ákvæðið um sex mánaða launin hafi í raun verið samhljóða ákvæði fyrri ráðningarsamnings hvað varðar sex mánuðina.  Vitnið var spurður hvort gerð hafi verið breyting á texta 3. mgr. 1. gr. frá fyrri ráðningarsamningi stefnanda.  Hann kvaðst ekki muna það.. 

          Vitninu var sýndur ráðningarsamningurinn frá 1994 í því skyni að bera saman orðalagið í 3. mgr. 1. gr.  Í samningnum frá 1994 stæði „eða hættir störfum,” en í þeim frá 1998 stæði „eða ef hann hættir störfum.”  Vitnið var spurður hvort tilgreind orðalagsbreyting hafi verið gerð í þeim tilgangi að skapa stefnanda einhliða heimild til þess að ákveða að hætta og öðlast þar með sex mánaða launarétt eða hvort orðið hafi efnisbreyting á ákvæðinu, þ.e. hvort það hafi hætt að vera gagnkvæmt, eins og það virtist vera í samningnum 1994, og orðið einhliða stefnanda til hagsbóta, eins og hægt væri að túlka orðalagið í samningnum frá 1998.  Vitnið sagði að svo væri alls ekki.  Sagði vitnið að um þetta hafi ekki verið rætt milli þeirra stefnanda.  Er vitnið var spurður hvort hann hefði verið meðvitaður um að gerð hefði verið orðalagsbreyting á 3. mgr. 1. gr. sagði vitnið að svo hann myndi væri það ekki.  Í hans augum væri það alveg skýrt að um gagnkvæman rétt hafi verið að ræða.  Vitninu var bent á að það væri önnur orðalagsbreyting á 3. mgr. 1. gr. sem skipti e.t.v. meira máli, en hún væri sú að í lok málsgreinarinnar væru felld niður orðin „er hann hættir störfum,” en í yngri samningnum væri orðalagið „frá þeim tíma.”  Sá tími sem fjallað væri um í ákvæðinu væri lok ráðningartímans, þ.e. júní 2000.  Felld hefðu verið brott orðin „er hann hættir störfum.”  Vitnið kvaðst ekki muna hvers vegna þau orð voru felld brott, en hann gæti leitt að því líkur að það hafi verið gert til að endurtaka þau ekki.  Sagði vitnið að það væri alveg skýrt í huga sínum að litið hafi verið á þetta atriði sem gagnkvæman rétt.  Aðspurður hvort það hafi verið rætt sérstaklega sagði vitnið að hefði verið um að ræða einhvern vafa í huga sér varðandi þetta hefði hann haft óbreytt orðalag.  Aðspurður hvort hann hafi borið orðalagið saman við fyrri samninginn sagði vitnið að svo hann myndi hefði hann ekki gert það.

          Vitnið Guðrún Jónsdóttir kvað ráðningarsamninginn hafa verið lagðan fram á sama fundi og hann var afgreiddur.  Hún minntist þess ekki að samningurinn hafi komið til efnislegrar umfjöllunar á fundinum.  Vitnið var spurð hvenær hún hafi fyrst orðið þess áskynja að ágreiningur var um túlkun samningsins.  Hún kvað sig minna að það hafi verið á bæjarstjórnarfundinum 15. apríl 1999, þ.e. þegar slitnað hafði upp úr meirihlutasamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Í viðræðum stefnanda og Guðmundar Guðmarssonar hafi þá þegar komið í ljós að þeir lögðu hvor sinn skilning í það hvernig fara skyldi um laun stefnanda.           

          Niðurstaða

          Upplýst er í málinu að þáverandi forseti bæjarstjórnar stefnda, vitnið Guðmundur Guðmarsson, og stefnandi komu einir að gerð ráðningarsamningsins.  Er það og í samræmi við það sem greinir í inngangsorðum samningsins.  Lýsti vitnið Guðmundur aðdraganda þess að stefnandi var ráðinn bæjarstjóri stefnda og hefur þeirri málavaxtalýsingu ekki verið mótmælt.  Af því sem þar greinir verður ráðið að ekki kom til ráðningarinnar fyrr en fullreynt var með myndun annars konar meirihluta í bæjarstjórn.  Það er einnig ljóst að forsenda ráðningar stefnanda var að sá meirihluti sem stóð að ráðningu hans héldi velli.  Þá er ekki annað í ljós leitt samkvæmt gögnum málsins en ráðningarsamningurinn hafi verið samþykktur í bæjarstjórn án teljandi umræðna um efni hans og án sérstakrar skoðunar á honum.

          Samkvæmt samningnum, sem var a.m.k. að formi til tímabundinn ráðningarsamningur, skyldi stefnandi eiga rétt til launa í sex mánuði að afloknum ráðningartíma.  Ljóst er að samningurinn er skýr að því leyti að þar er ekki að finna sérstakt uppsagnarákvæði.  Túlkar stefnandi þetta svo að með hinu umdeilda samningsákvæði hafi sér verið tryggð laun til loka gildistíma ráðningarsamningsins að viðbættum sex mánuðum.  Stefnandi hefur jafnframt túlkað samninginn svo að kysi hann að láta af störfum einhvern tíma á tveggja ára tímabilinu ætti hann rétt til launa í sex mánuði frá þeim tíma.  Þeirri túlkun stefnanda var vitnið Guðmundur Guðmarsson sammála, en hann benti jafnframt á að aldrei hafi annað vakað fyrir sér með samningsgerðinni en að samningurinn fæli í sér gagnkvæman rétt aðila til uppsagnar þannig að frá gildistöku uppsagnarinnar ætti stefnandi rétt til launa í sex mánuði.  Telur stefndi að í hinu umdeilda ákvæði 3. mgr. 1. gr. samningsins felist ráðagerð um að til þess geti komið að ráðningarsambandinu geti lokið fyrr en meginefni samningsins gerir ráð fyrir. 

          Þegar litið er til atvika máls þykir mega fallast á það með stefnda að ákvæði ráðningarsamningsins um slit ráðningar fyrr en að fullnuðum ráðningartíma vísi til aðstöðu eins og  þeirrar sem upp kom þann 15. apríl 1999 og því hafi heimildin til uppsagnar verið gagnkvæm, þannig að stefnanda bæri einungis réttur til launa í sex mánuði frá gildistöku uppsagnar.  Verður í því sambandi ekki litið framhjá þeirri meginforsendu ráðningar stefnanda að hún var háð því að sá pólitíski meirihluti sem réði hann til starfans, og hann átti beina aðild að, yrði að halda velli til þess að hann héldi starfi sínu.  Einnig ber að hafa í huga að stefnandi átti beina aðild að samningu þess ákvæðis samningsins sem deilt er um í málinu.  Þá þykir verða líta til þess framburðar vitnisins Guðmundar Guðmarssonar, sem hafði látið af störfum sem bæjarfulltrúi er hann kom fyrir dóminn, að ráðningarsamnigurinn frá 1994 hafi verið hafður til hliðsjónar við gerð hins umdeilda samnings og ætlunin hafi ekki verið að breya út af honum nema vegna hvað varðar gildistíma hans.  Einnig ber að líta til þess að þótt samnigur aðila hafi verið tímabundinn var hann sérstaks eðlis vegna þess starfa sem stefnandi gegndi.

          Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn að túlka verði umþrætt ákvæði í ráðningarsamningnum svo að það hafi falið í sér gagnkvæman rétt til uppsagnar hans hverær sem var á samningstímabilinu.  Hefur stefndi greitt stefnanda laun í sex mánuði eftir ráðningarslit eins og samningurinn bauð honum að gera og með því efnt hann.  Verður stefndi samkvæmt þessu sýknaður af kröfum stefnanda um greiðslu frekari launa.

          Auk launakröfunnar krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur.  Bendir stefnandi á í því sambandi að ráðningarslitin hafi haft í för með sér mikla röskun á stöðu hans.  Lýsti stefnandi því m.a. í aðilaskýrslu sinni í hverju sú röskun væri fólgin.  Þá bendir hann á að hin fyrirvaralausa brottvikning hafi verið til þess fallin að valda honum álitshnekki auk þess sem hann hafi orðið að þola mikil óþægindi vegna þessa.  Miskabótakröfuna styður stefnandi við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum.  Samkvæmt b-lið 1. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar er heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við.  Vísar stefnandi m.a. til þess með hve skjótum hætti honum var gert að taka saman föggur sínar á skrifstofu sinni og það hafi skapað neikvætt umtal í hans garð í sveitarfélaginu.  Að mati dómsins er það ósannað að aðferðin sem viðhöfð var er stefnanda var gert að rýma skrifstofu sína með framanlýstum hætti, og hann heldur fram að hafi leitt til neikvæðs umtals í sinn garð, hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru eða presónu hans.  Þá verður ekki framhjá því litið að nokkrum mánuðum eftir slit ráðningarsamningsins var stefnandi ráðinn bæjarstjóri í öðru sveitarfélagi í sama landsfjórðungi.  Eru að þessu virtu ekki efni til að verða við miskabótakröfu stefnanda.  Samkvæmt því verður stefndi einnig sýknaður af þeirri kröfu.

          Þrátt fyrir þessi málsúrslit þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.             

         Júlíus B. Georgsson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

          Stefndi, Borgarbyggð, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Óla Jóns Gunnarssonar, í máli þessu.

          Málskostnaður milli aðila fellur niður.