Hæstiréttur íslands

Mál nr. 354/2013


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda


                                              

Fimmtudaginn 12. desember 2013.

Nr. 354/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X og

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

Y

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda.

X og Y voru ákærð fyrir meiri háttar brot á skattalögum með því að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri B ehf. á tilteknu tímabili, skilagrein vegna staðgreiðslu á lögmæltum tíma og greiddum opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfmanna félagsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt X og Y hefðu tekið sæti í stjórn félagsins á árinu 2003 lægi fyrir í málinu að þau hefðu ekkert komið að fjármálum þess eða skattskilum og hvorugt þeirra stýrt hvað skyldi greiða af skuldum. Þá hefði ákærði Y verið óbreyttur starfsmaður og ákærða X aldrei starfað hjá félaginu. Félagið hafi á hinn bóginn lotið daglegri stjórn framkvæmdastjóra sem einn annaðist öll fjármál þess og skattskil. Að þessu virtu og þegar höfð væru í huga tildrög þess að X og Y tóku sæti í stjórn félagsins og hvernig atvikum var að öðru leyti hagað voru þau sýknuð af þeim brotum sem þeim var gefið að sök.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí og 21. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð.

Hinn 8. október 2003 var haldinn hluthafafundur í einkahlutafélaginu A. Á fundinum var samþykkt að breyta nafni félagins í B ehf. auk þess sem stjórn félagsins var kjörin. Í henni tók sæti ákærði Y sem stjórnarformaður og ákærða X sem meðstjórnandi. Einnig var meðákærði í héraði, Z, kjörinn meðstjórnandi en hann var jafnframt framkvæmdastjóri með prókúruumboð. Um þessa afgreiðslu fundarins var send tilkynning til hlutafélagaskrár sem móttekin var 10. október 2003. Stjórn félagsins mun hafa verið óbreytt allt til 19. desember 2009 þegar fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var tilkynnt um úrsögn ákærðu úr stjórninni. Fyrirtækið mun hafa flutt til landsins vörur og tæki fyrir byggingariðnað.

Með úrskurði 30. júlí 2010 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta. Hinn 19. október sama ár tilkynnti skiptastjóri búsins ríkislögreglustjóra að gögn þess bentu til að ekki hefði í rekstri félagins verið staðið skil á virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum fyrir tiltekin gjaldatímabil. Með bréfi 3. nóvember sama ár var málinu vísað til skattrannsóknarstjóra sem hóf rannsókn á skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Að þeirri rannsókn lokinni var málinu vísað til efnahagsbrotadeildar lögreglu með bréfi skattrannsóknarstjóra 24. júní 2011. Ákæra var síðan gefin út 16. október 2012 á hendur ákærðu og Z. Með hinum áfrýjaða dómi voru þau öll sakfelld fyrir skattalagabrot. Málinu var ekki áfrýjað að því er Z varðar.

 Ákærða X og Z eru hjón og ákærði Y sonur þeirra. Fyrir dómi skýrði Z svo frá að hann hefði að öllu leyti annast daglegan rekstur og fjármál félagsins, þar með talin skattskil þess. Fyrir misskilning hefði hann talið nauðsynlegt að þrír einstaklingar þyrftu að skipa stjórn félagsins og því hefði hann fengið eiginkonu sína og son til að taka sæti í stjórninni. Þau hefðu hins vegar ekkert komið að rekstrinum en ákærði Y hafi starfað hjá fyrirtækinu sem óbreyttur starfsmaður á lager. Ákærði Y lýsti þessu á sama veg fyrir dómi og tók fram að hann hefði aðeins starfað á lager fyrirtækisins og við útkeyrslu á vörum auk þess að svara í síma og sinna smærri verkum. Hann hefði hins vegar ekkert komið að fjármálum eða skattskilum félagsins. Ákærða X greindi svo frá að hún hefði hvorki starfað hjá félaginu né komið að rekstri þess og skattskilum. Þá kom fram hjá ákærðu báðum að stjórnarfundir hefðu ekki verið haldnir í félaginu en þeim hefði verið ljóst að reksturinn gekk erfiðlega undir það síðasta. Af hálfu ákæruvaldsins var því lýst yfir við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að ekki væri vefengt að atvik hefðu verið á þann veg sem hér hefur verið lýst.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt og stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Þá segir í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að það varði sömu refsingu að afhenda ekki af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skilagreinar vegna staðgreiðslu á lögmæltum tíma eða inna af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem haldið hefur verið eftir.

Þótt ákærðu hafi samkvæmt framansögðu tekið sæti í stjórn félagsins á árinu 2003 liggur fyrir í málinu að hvorugt þeirra kom að fjármálum þess eða skattskilum og hvorugt þeirra stýrði hvað skyldi greiða af skuldum félagsins. Þá var ákærði Y óbreyttur starfsmaður og ákærða X mun aldrei hafa starfað hjá félaginu. Félagið laut á hinn bóginn daglegri stjórn framkvæmdastjóra sem einn annaðist öll fjármál þess og skattskil. Þegar til þessa er litið og það haft í huga hvernig atvikum er að öðru leyti hagað verða ákærðu sýknuð af brotum sem þeim eru gefin að sök.

Allur sakarkostnaður sem felldur var á ákærðu í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærða, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði, Y, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður sem felldur var á ákærðu í héraði, þar með talin málsvarnarlaun með þeim fjárhæðum sem greinir í hinum áfrýjaða dómi, greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði allur áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu X, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, og ákærða Y, Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur í hlut hvors þeirra.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var 11. apríl 2013, er höfðað með ákæru útgefinni af

sérstökum saksóknara 16. október 2013 á hendur Z, kt. [...], [...], Y, kt. [...], [...], og X, kt. [...], [...], „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, Z sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður, Y sem stjórnar­formaður og X sem stjórnarmaður einkahlutafélagsins B ehf., kt. [...], [...],  með því að hafa:

1.                   Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins, vegna uppgjörstímabilanna  september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2008 og  maí – júní rekstrarárið 2009, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 18.786.098, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:                                               Vangoldinn VSK:

Árið 2008

September - október                                          kr. 14.835.571

nóvember - desember                                       kr.   1.603.163

                                                                               kr. 16.438.734

Árið 2009

maí - júní                                                            kr.   2.347.364                    

Samtals                                                                kr. 18.786.098

2.                   Eigi staðið skil á skilagrein einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilsins janúar rekstrarárið 2009, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna janúar, febrúar og mars rekstrarárið 2009, samtals að fjárhæð kr. 403.519 hvað varðar ákærða Z, samtals að fjárhæð kr. 403.519 hvað varðar ákærða Y og samtals að fjárhæð kr. 651.880 hvað varðar ákærðu X, sem sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil   Vangoldin staðgreiðsla    Vangoldin staðgreiðsla     Vangoldin staðgreiðsla

                                    hvað varðar Z:               hvað varðar Y:                    hvað varðar X:

Árið 2009

janúar                        kr.   160.366                   kr.   178.222                              kr.   261.099

febrúar                       kr.   160.366                    kr.   124.654                              kr.   207.441

mars                           kr.     82.787                    kr.   100.643                              kr.   183.430

Samtals                      kr.   403.519                   kr.   403.519                              kr.   651.880

                Framangreind brot ákærðu samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Ákærði Z krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Þá gerir verjandi kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

                Ákærði Y krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu, en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda ákærða.

                Ákærða Z krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvalds. Þá er þess jafnframt krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.

I.

Mál þetta er að rekja til þess að embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins barst ábending frá skiptastjóra þrotabús B ehf., með bréfi 3. nóvember 2010, en umrætt einkahlutafélag hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta 30. júlí sama ár. Skattrannsóknarstjóri sendi svo fyrrum fyrirsvarsmanni félagsins tilkynningu 25. janúar 2011 um að rannsókn væri hafin á skilum á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti.

Með bréfi 24. júní 2011 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins til efnahagsbrota­deildar ríkislögreglustjóra mál á hendur ákærðu Z og Y vegna meintra brota á lögum nr. 50/1998 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, auk almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Tekin var skýrsla hjá lögreglu af ákærða Z hinn 16. ágúst 2012, að viðstöddum verjanda hans. Degi síðar, 17. febrúar, var tekin skýrsla af X hjá lögreglu, þar sem hún hafði réttarstöðu sakbornings. Í lögregluskýrslu segir að henni hafi verið kynntur réttur til verjanda en hún hafi ekki viljað fá verjanda að svo stöddu. Þá var tekin lögregluskýrsla af ákærða Y hinn 4. september 2012, að viðstöddum verjanda. Ákæra var svo gefin út á hendur ákærðu Z, Y og X hinn 16. október 2012.

II.

                Ákærði Y lagði fram fyrir dómi skriflega greinargerð, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að hann hafi enga ábyrgð borið á daglegum rekstri skattaaðilans. Hann hafi engin afskipt haft af rekstri félagsins heldur hafi hann einungis verið almennur starfsmaður. Skráning hjá RSK styðji framburð hans um að hann og meðákærða X hafi ekki haft neina aðkomu að fjármálum félagsins heldur hafi meðákærði Z séð um þau mál. Fyrir liggi að hvorki ákærði né meðákærða X hafi haft prókúruumboð fyrir félagið. Þá segir ákærði að engir stjórnarfundir hafi verið haldnir í félaginu og umræður um rekstur þess ekki farið fram innan stjórnarinnar. Ákærði hafi því ekkert tilefni haft til að ætla að eitthvað væri athugavert við rekstur félagsins sem meðákærði Z hafi haft með höndum.

Ákærði telur að skráning hjá RSK geti ekki ein og sér gert hann ábyrgan eins og um hlutlæga ábyrgð sé að ræða heldur verði að líta til þess sem raunverulega hafi átt sér stað. Ákærði hafi á engan hátt komið að rekstri félagsins og því hafi hann hvorki verið sekur um að hafa vanrækt að skila virðisaukaskatti, staðgreiðslu eða skilagrein, eins og honum er gert að sök í ákæru, né beri hann ábyrgð á því stöðu sinnar vegna. 

Varakröfu sína um vægustu refsingu sem lög leyfa byggir ákærði á eftirfarandi sjónarmiðum:

Hvað varðar virðisaukaskatt þá séu ákærðu ekki ákærð fyrir að skila skýrslum. Ákærði byggir á því að sú afstaða ákæruvaldsins sé bindandi fyrir ákæruvaldið við mat á því hvort skilyrði séu fyrir hendi til að færa fésekt niður úr tvöföldu refsilágmarki, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, enda hafi ákæruvaldið skilgreint brot ákærða með útgáfu ákæru.

Um málsbætur vísar ákærði til sjónarmiða, sem gerð var grein fyrir í tengslum við aðalkröfu ákærða um sýknu, og til innborgana inn á virðisaukaskatt eftir gjalddaga auk frádráttar vegna tapaðra viðskiptakrafna sem gerð er grein fyrir í málsgögnum í skjali lögreglu merktu II/2.1.

Hvað staðgreiðslu varðar telur ákærði að skilyrði séu til að fara niður úr refsilágmarki, a.m.k. hvað varðar tímabilin febrúar og mars 2009. Þá telur ákærði að um sé að ræða lágar fjárhæðir.

Ákærði krefst auk þess að litið verði til allra refsimildunarsjónarmiða í refsirétti, ef gera á honum refsingu fyrir þau brot sem í ákæruskjali greinir. Meðal þeirra megi nefna að ákærði hafi ekki á neinn hátt haft persónulegan ávinning af þeim vanskilum sem fjallað er um í máli þessu. Þá hafi ákærði sýnt hlutaðeigandi stjórnvöldum samvinnu við rannsókn málsins og skýrt hreinskilnislega frá sjónarmiðum sínum og staðreyndum, eins og þær hafi snúið við honum. Jafnframt beri að líta til þess að enginn ásetningur hafi verið til staðar af hálfu ákærða til þess að vanskil mynduðust hjá félögunum. Enn fremur telur ákærði að líta beri til lagabreytinga sem gerðar hafi verið eftir að rannsókn málsins hófst, sem feli í sér möguleika rekstraraðila á að semja við innheimtumenn ríkissjóðs um skuldaskil opinberra gjalda og vörsluskatta, en í þeim lögum felist veruleg tilslökun af hálfu löggjafans, þótt tímabundin sé, í þá átt að gefa lögaðilum og einstaklingum í rekstri möguleika til að greiða vörsluskatta án refsimeðferðar fyrir dómstólum.

III.

                Í greinargerð ákærðu X segir að hún hafi aldrei komið að rekstri félagsins eða haft nokkra vitneskju um hann. Hún hafi ekki tekið þátt í ákvörðunartökum fyrir félagið og í raun ekkert vitað um reksturinn. Hún hafi aldrei tekið neinar ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna félagsins né heldur komið fram út á við sem stjórnarmaður félagsins eða yfir höfuð sem starfsmaður þess. Þá bendir ákærða á að í félaginu hafi verið starfandi stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Hún kveðst aldrei hafa verið viðstödd stjórnarfundi eða óformlega fundi þar sem staða eða rekstur félagsins hafi verið rædd. Jafnframt segir ákærða að hún hafi aldrei verið boðuð á slíka fundi og hún hafi ekki haft vitneskju um hvort slíkir fundir væru haldnir.

Það sé því ósannað að ákærða hafi yfir höfuð haft vitneskju um starfsemi félagsins, rekstur þess eða fjárhagsleg málefni og fjárhagslega stöðu þess. Hún hafi í raun verið óvirkur stjórnarmaður og beri því enga ábyrgð á fjárhagslegum málefnum félagsins, heldur ekki skattskilum, sem hún hafi aldrei haft neina vitneskju um. Hún hafi ekki verið upplýst um greiðslur á sköttum félagsins eða vanskil. Þá hafi ákærða ekkert haft með afhendingu á skýrslum eða skilagreinum til yfirvalda að gera fyrir hönd félagsins og enga vitneskju haft um tilurð slíkra skýrslna, efni þeirra eða hvort þær væru afhentar yfirvöldum. Þá hafi ákærða aldrei þegið nein laun eða þóknanir frá félaginu. Öll ákvarðanataka fyrir hönd félagsins hafi í raun verið hjá öðrum aðilum en henni. Þeir aðilar gegni lögum samkvæmt skyldum gagnvart félaginu, m.a. hvað varðar skattskil þess.

Ákærða telur að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna ásetning eða einfalt gáleysi, hvað þá stórkostlegt hirðuleysi eða stórfellt gáleysi. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna hana af öllum kröfum ákæruvaldsins. Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd séu stjórnarmenn félaga ekki refsiábyrgir fyrir skattskilum félaga nema annað og meira en einungis einföld stjórnarseta komi til. Í þessu máli hátti þannig til að ákærða hafi einungis verið stjórnarmaður umrædds félags að nafninu til. Hún hafi engar starfsskyldur borið innan félagsins eða komið nokkuð að rekstri félagsins eða fjárhagslegum málefnum þess. Þá hafi hún enga vitneskju haft um skattskil eða fjárhag félagsins að neinu leyti. Í raun hafi hún engar ákvarðanir tekið um málefni félagsins, fjárhagslegar eða annars konar.

Ákærða heldur því fram að í dómaframkvæmd hafi þeir stjórnarmenn sem borið hafa refsiábyrgð á skattskilum félaga sinna verið stjórnarformenn, framkvæmdastjórar eða stjórnarmenn með prókúruumboð fyrir hönd umræddra félaga. Ekkert af því eigi við um ákærðu. Samkvæmt nýjustu dómaframkvæmd þurfi ávallt meira að koma til, til sakfellingar vegna brota af þessu tagi, en einföld stjórnarseta, m.a.s. þegar um virka stjórnarsetu sé að ræða þar sem stjórnarmaður sæki fundi í félaginu og taki þátt í ákvarðanatöku varðandi félagið. Svo hafi ekki verið í tilviki ákærðu, enda hafi hún aldrei sótt stjórnarfundi eða verið boðuð á slíka fundi. Hún hafi einungis verið stjórnarmaður að orðinu til vegna þess að eiginmaður hennar hafi verið í villu um að stjórnir einkahlutafélaga þyrftu að vera skipaðar þremur stjórnarmönnum. Við sakfellingu í málum sem þessu sé litið til þess hver taki í raun allar ákvarðanir fyrir hönd félagsins og hvort fyrir hendi í slíku félagi séu aðilar sem gegna eiga slíkum starfsskyldum lögum samkvæmt, svo sem eins og stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi, en ákærða hafi ekki gegnt neinum slíkum stöðum hjá félaginu.

Þá bendir ákærða á að skattayfirvöld hafi bara kært meðákærðu Z og Y til ríkislögreglustjóra vegna meintra brota. Skattayfirvöld hafi ekki vísað þætti ákærðu til opinberrar rannsóknar. Gögn málsins beri það jafnframt með sér að á stjórnsýslustigi hafi sakir aldrei verið bornar á ákærðu og hennar meinti þáttur aldrei verið rannsakaður. Hún hafi því ekki fengið að gæta andmælaréttar síns líkt og meðákærðu og beri ákæruvaldið því aukna sönnunarbyrði gagnvart ákærðu. Einnig veki athygli að ákærðu hafi ekki verið tilnefndur verjandi við rannsókn málsins hjá sérstökum saksóknara, líkt og meðákærðu, og verði að meta sönnunargildi lögregluskýrslna yfir henni með hliðsjón af því.

Verði ákærða talin bera refsiábyrgð í máli þessu gerir hún athugasemdir við fjárhæðir í ákæru, þ.m.t. að ekki hafi verið tekið tillit til innborgana inn á meint vanskil. Um sé að ræða m.a. innborgun 5. desember 2008, að fjárhæð 150.000 krónur,  vegna staðgreiðslu, sem og samtals innborganir að fjárhæð 4.796.109 krónur, inntar af hendi á tímabilinu 5. desember 2008 til 14. janúar 2011. Í greinargerð sinni skorar ákærða á ákæruvaldið að leggja fram gögn miðað við núverandi dagsetningu um gjaldfærni þeirra aðila sem hafi ekki greitt viðskiptakröfur B ehf., enda kunna slíkar upplýsingar að koma til lækkunar skattvanskila félagsins.

IV.

                Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði Z hafa verið framkvæmdastjóri og eigandi einkahlutafélagsins B. Fram kom að ákærði væri menntaður rekstrarfræðingur og hann hefði unnið við stjórnunarstörf, m.a. sem framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækis. Ákærði kvaðst hafa lagt til hlutafé umrædds einkahlutafélags en hann hefði skipt því á milli sín og meðákærðu X og Y. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér sérstaklega hvaða skyldur fylgi því að vera framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í einkahlutafélagi, en hann hefði gert sér grein fyrir þeim. Ákærði sagði að hann hefði alfarið séð um daglegan rekstur félagsins, hann hefði tekið allar ákvarðanir einn, verið sá eini með prókúruumboð og að hann liti svo á að hann bæri einn ábyrgð á félaginu. Um ástæðu þess að meðákærðu X og Y voru skráð í stjórn félagsins sagði ákærði að það hefði verið vegna klaufaskapar síns, en hann hefði haldið við stofnun félagsins að það þyrftu að vera þrír í stjórn. Ákærði kvaðst hafa haldið að hann gæti ekki verið framkvæmda­stjóri og stjórnarformaður og hann hefði því fengið son sinn, meðákærða Y, sem stjórnarformann og eiginkonu sína, meðákærðu X, sem meðstjórnanda. Ákærði kvaðst hafa verið einn í þessu til að byrja með en svo hefði meðákærði Y komið til starfa hjá félaginu sem óbreyttur starfsmaður þegar félagið hafi farið að stækka. Aðspurður sagði ákærði að það hefðu ekki verið haldnir stjórnarfundir í félaginu. Þá kom fram að ákærði hefði séð um skattskil félagsins, en bókhaldsfyrirtæki hefði séð um bókhaldið og endurskoðunar­fyrirtæki séð um gerð ársreikninga. Inntur eftir því af hverju félagið hefði ekki staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti, sbr. 1. tölulið ákæru, sagði ákærði að það hefði ekki verið meðvituð ákvörðun heldur hafi orðið 90% tekjufall hjá félaginu og að ákærði hefði ekki ráðið við þær ytri aðstæður sem hefðu skapast, en meginstarfsemi félagsins hafi verið þjónusta við byggingariðnaðinn með ýmis tæki og tól. Síminn hefði ekki hringt fyrstu dagana eftir að forsætisráðherra hefði blessað Ísland og þegar hann hafi farið að hringja aftur hafi það verið vegna afpantana á vörum. Um ástæðu þess að skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda var ekki skilað á lögmæltum tíma, sbr. 2. tl. ákæru, sagði ákærði að hann vissi það ekki. Það gæti verið að bókhaldarinn hafi verið veikur eða eitthvað komið upp á, en skilagrein hefði verið skilað tveimur dögum of seint. Ástæða þess að ekki hafi verið staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda væri sú að tekjufall hefði orðið hjá félaginu. Spurður hvort meðákærðu hefðu haft vitneskju um vanskilin sagði ákærði að hann hefði aldrei rætt þetta við þau. Ákærði kvaðst viðurkenna skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærunni og að hann geri ekki athugasemdir við tölulegar upplýsingar í ákæru.        

                Ákærði Y kvaðst hafa keypt umrætt einkahlutafélag ásamt föður sínum, meðákærða Z, og þeir hefðu starfað saman í félaginu. Ákærði hefði fyrst eingöngu unnið á lager og sinnt útkeyrslu en svo hafi hann farið að sinna símasvörun og selja smærri hluti, ásamt því að vera í lagerstörfum. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér sérstaklega hvaða skyldur fylgi því að vera stjórnarformaður einkahlutafélags. Spurður hvernig það hefði komið til að ákærði var skráður stjórnarformaður umrædds einkahlutafélags kvaðst hann hafa litið svo á að það þyrfti þrjá aðila til að skrá og stofna einkahlutafélag. Um aðkomu að daglegum rekstri félagsins sagði ákærði að hann hefði ekkert komið að fjármálum þess og hann hefði ekkert komið að skattskilum félagsins, enda hafi hann ekki haft kunnáttu til þess. Spurður hvort hann hefði haft vitneskju um vanskil félagsins á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda sagði ákærði að hann hefði ekki haft það en hann hefði vitað að það hefði verið erfitt hjá fyrirtækinu. Þá kvaðst ákærði ekki hafa haft prókúruumboð fyrir félagið og hann sagði að það hefðu ekki verið haldnir formlegir stjórnarfundir í félaginu. Ákærðu hafi kannski setið heima hjá sér á sunnudagsmorgni og ef hægt væri að kalla það stjórnarfundi hafi þeir verið mjög óformlegir. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við tölulegar upplýsingar í ákæru.   

                Ákærða X sagði fyrir dómi að hún hefði verið stjórnarmaður í umræddu hlutafélagi. Spurð hvernig það hefði komið til að hún var stjórnarmaður sagði ákærða að eiginmaður hennar, meðákærði Z, hefði beðið hana um það. Ákærða kvaðst ekki hafa kynnt sér hvaða skyldur stjórnarmenn bera í einkahlutafélögum og hún hefði ekki komið neitt að skattskilum eða bókhaldi umrædds félags. Jafnframt sagði ákærða að hún hefði ekki haft neina aðkomu að daglegum rekstri félagsins. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa haft neina vitneskju um vanskilin en hún hefði vitað að reksturinn hafði þyngst þegar leið á. Einnig sagði ákærða að engir stjórnarfundir hefðu verið haldnir í félaginu og hún hafi ekki verið með prókúruumboð. Jafnframt greindi hún frá því að hún hefði aldrei þegið laun hjá félaginu. Spurð hvort hún gerði athugasemdir við tölulegar upplýsingar í ákæru kvaðst ákærða ekki hafa forsendur til að svara því.

V.  

                Samkvæmt gögnum málsins og framburði ákærðu voru þau stofnendur B ehf. Ákærði Z var skráður sem framkvæmdastjóri og meðstjórnandi, sonur hans, ákærði Y, var stjórnarformaður og eiginkona hans, ákærða X, var í stjórn félagsins.

Ákærði Z hefur skýlaust játað brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Ákærði mótmælir því hins vegar að brot hans varði einnig við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot hans samkvæmt 1. ákærulið telst stórfellt og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru. Brot ákærða samkvæmt 2. ákærulið telst hins vegar ekki stórfellt og á heimfærsla til 262. gr. almennra hegningarlaga því ekki við. 

                Ákærðu Y og X neita sök. Þau byggja sýknukröfu sína á því að þau hafi ekkert komið að daglegum rekstri umrædds einkahlutafélags eða fjármálum þess, en þau hafi aðeins verið í stjórn félagsins að nafninu til. Þá gerir ákærða X athugasemd við að hún hafi verið ákærð í máli þessu þrátt fyrir að skattrannsóknarstjóri hafi ekki tekið þátt hennar til rannsóknar og hann hafi ekki vísað málinu hvað hana varðar til lögreglu. Einnig eru gerðar athugasemdir við að henni hafi ekki verið skipaður verjandi á rannsóknarstigi hjá lögreglu. Ekki er fallist á að þessi atriði hafi þýðingu í málinu, enda er lögregla ekki bundin af ákvörðunum skattrannsóknarstjóra og fram kemur á hljóðupptöku, sem fyrir liggur í málinu, af skýrslu ákærðu X hjá lögreglu, að henni var skilmerkilega kynntur réttur til verjanda.  

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög hvíldu á ákærðu Y og X ríkar skyldur stöðu þeirra vegna. Í téðu lagaákvæði er mælt fyrir um að félagsstjórn fari með málefni félagsins og hún skal annast um að skipulag félags og starfsemi þess sé jafnan í réttu og góðu horfi. Ákærðu Y og X bar því að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, m.a. um það hvort félagið stæði í skilum með greiðslu virðisauka­skatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Það leysir þau ekki undan skyldum sínum að ákærði Z hafi annast daglegan rekstur félagsins og verið framkvæmdastjóri þess. Ákærðu Y og X greindu frá því fyrir dómi að þeim hafi verið kunnugt um erfiðleika hjá félaginu, en eins og ákærði Z bar um fyrir dómi drógust viðskiptin saman um 90% við bankahrunið haustið 2008. Var því sérstök ástæða fyrir ákærðu Y og X til að fylgjast með rekstri félagsins, en það gerðu þau ekki. Með þessu aðgerðarleysi sínu vanræktu þau af stórkostlegu hirðuleysi skyldur sem á þeim hvíldi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisauka­skatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Samkvæmt öllu framansögðu bera ákærðu sameiginlega ábyrgð á þeim brotum sem lýst er í ákæru og verða þau sakfelld fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir. Brot ákærðu Y og X samkvæmt 1. ákærulið telst stórfellt og er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru. Brot þeirra í 2. ákærulið telst hins vegar ekki stórfellt og á heimfærsla til 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 því ekki við. 

V.

                Ákærði Z er fæddur [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að brot ákærða samkvæmt 1. ákærulið telst stórfellt og er það virt honum til refsiþyngingar. Á móti kemur að hann hefur játað brot sín. Að þessu virtu verður ákærða gert að sæta fangelsi í sex mánuði. Með hliðsjón af dómaframkvæmd og vegna nokkurs dráttar á rannsókn málsins verður fangelsisrefsing hans skilorðsbundin, eins og nánar greinir í dómsorði. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinnberra gjalda, með árorðnum breytingum, skal fésekt nema að lágmarki tvöfaldri skattfjárhæðinni. Ekki eru skilyrði til að farið verði niður fyrir það fésektarlágmark sem kveðið er á um í téðum ákvæðum. Að þessu virtu og að teknu tilliti til innborgana og frádráttar vegna ætlaðra tapaðra krafna, sem gert er grein fyrir í samantekt lögreglu, er sekt sem ákærða ber að greiða til ríkissjóðs hæfilega ákveðin 12.800.000 krónur, en um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Ákærði Y er fæddur í [...] og ákærða X í [...]. Samkvæmt sakavottorði hennar hefur hún ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Eins og við ákvörðun refsingar ákærða Z ber að líta til þess að brot hennar samkvæmt 1. ákærulið var stórfellt. Á móti kemur að hún er ekki sakfelld fyrir brot af ásetningi heldur gáleysisbrot. Er refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, sem bundin verður skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Þá ber henni að greiða sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 12.960.000 krónur, en vararefsing skal vera fangelsi í 210 daga.

Ákærði Y er fæddur í [...]. Brot þau sem hann er nú sakfelldur fyrir voru framin fyrir lögreglustjórasátt frá 23. febrúar 2012 vegna umferðarlagabrots og því ber að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna. Verður refsing hans ákveðin með sama hætti og ákærðu X, þ.e. skilorðsbundið fangelsi í sex mánuði og sekt að fjárhæð 12.800.000 krónur, eins og nánar segir í dómsorði.

Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber ákærðu að greiða sakarkostnað. Þannig ber ákærða Z að greiða þóknun verjanda síns, Sigurðar A. Þóroddssonar hrl., sem er hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 213.350 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá ber ákærða Y að greiða þóknun verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 250.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Loks ber ákærðu X að greiða þóknun verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl., að fjárhæð 250.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Ákærðu, Z, Y og X, sæti hver um sig fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærðu Z og Y greiði hvor um sig 12.800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, en ákærða X 12.960.000 krónur. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skulu ákærðu hver um sig sæta í hennar stað fangelsi í 210 daga.

                Ákærði Z greiði í sakarkostnað 213.350 króna þóknun verjanda síns, Sigurðar A. Þóroddssonar hæstaréttarlögmanns. Ákærði Y greiði í sakarkostnað 250.000 króna þóknun verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, og ákærða X greiði í sakarkostnað þóknun verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 250.000 krónur.