Hæstiréttur íslands
Mál nr. 561/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 16. október 2008. |
|
Nr. 561/2008: |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að honum verði gert að sæta farbanni en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðilli hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 7. október 2008.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 21. október 2008, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki ætlaðan innflutning á miklu magni fíkniefna til Íslands. Við reglubundið eftirlit hjá tollgæslunni í Póstmiðstöðinni Stórhöfða í Reykjavík hafi fundist um hálft kg af amfetamíni og 1 kg af marihuana falið í niðursuðudósum sem hafi verið í póstsendingu frá Póllandi. Skráður móttakandi sendingarinnar hafi verið Y, [...],[...] Kópavogi, en foreldrar Y séu eigendur ofangreindrar íbúðar.
Lögreglan hafi afhent pakkann 6. október sl. undir eftirliti þegar búið var að koma fyrir í honum gerviefnum. Þegar lögregla hafi afhent pakkann hafi kærði verið á vettvangi fyrir utan [...]. Strax eftir að Arnþór hafi veitt pakkanum viðtöku með undirskrift sinni hafi ætlaður vitorðsmaður kærða tekið við pakkanum og farið í bifreiðina [...], ásamt kærða, sem ekið hafi verið á brott með pakkann.
Lögregla hafi veitt bifreiðinni eftirför um Álfatún í Kópavogi uns þeir, sem verið hafi í bifreiðinni, hafi orðið varir við lögreglu og þeir þá stöðvað bifreiðina. Hafi tveir af þeim fjórum mönnum, sem voru í bifreiðinni, reynt að komast undan á hlaupum. Einum þeirra hafi tekist það en hinir þrír hafi verið handteknir. Kærði hafi verið handtekinn í bifreiðinni [...] 6. október sl.
Lögregla kveður gögn staðfesta að kærði hafi áður fengið pakka sendan til landsins á heimilisfangið [...], sem sé dvalarstaður kærða, og þá stílað pakkann á sitt eigið nafn og veitt honum viðtöku. Hafi kærði greint svo frá að hann hafi fengið 50.000 krónur greiddar fyrir að móttaka sendinguna og að hann hafi í kjölfarið skilað henni til eiganda hennar. Þá hafi hann skýrt svo frá hjá lögreglu að hann hafi verið beðinn um að nálgast pakka þann, sem lögregla haldlagði í þágu rannsóknar þessa máls, og hafi hann átt að fá greiddar 20.000 krónur fyrir verkið. Kærði hefur sagt mann að nafni Z, sem hafi ekið bifreiðinni [...], hafa beðið sig um að vinna verkið. Meðkærði í málinu hefur nefnt ökumanninn öðru nafni.
Lögregla kveður rannsókn sína miða að því að upplýsa hver eða hverjir eigi þau fíkniefni sem haldlögð hafa verið, hverjir hafi staðið að innflutningnum, fjármögnun hans og skipulagningu. Hafi við rannsóknina meðal annars verið farið yfir fyrri sendingar sem þessir aðilar hafa fengið sendar til landsins og beinist rannsókn lögreglu m.a. að því að athuga hvort hugsanlega séu fleiri sendingar á leiðinni til landsins. Talið sé að kærði tengist innflutningi á greindum fíkniefnum með einhverjum hætti, en kanna þurfi nánar ætlaða aðild hans.
Í greinargerð lögreglu segir að rökstuddur grunur sé um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnabroti. Nauðsynlegt sé talið að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn sem gangi lausir og/eða geti sett sig í samband við hann og/eða að kærði geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi í málinu og hafa ekki verið haldlögð. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Sterkur grunur leiki á því að fleiri en þeir, sem handteknir hafi verið, tengist innflutningi á þessum efnum sem haldlögð hafi verið og þyki það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Sé þá verið að vísa til þess aðila, sem hafi verið með þeim handteknu í bifreiðinni [...] skömmu áður en þeir voru handteknir en komist undan á hlaupum og ekki fundist enn. Þá þyki gæsluvarðhald einnig nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að kærði eða hinir handteknu nálgist aðrar sendingar sem gætu verið á leiðinni til landsins, en rannsókn á því standi yfir.
Lögregla bendir á að kærði sé erlendur ríkisborgari og hann hafi sagst ekki vera í fastri vinnu hér á landi sem stendur. Sé mikil hætta á því að kærði fari úr landi gangi hann laus.
Lögregla kveður rannsókn málsins umfangsmikila og á frumstigi. Frekari gagnaöflun þurfi að fara fram varðandi aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Mikilvægt sé að lögregla geti nálgast þær upplýsingar á meðan kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna auk þess sem tryggt verði að kærði yfirgefi ekki landið á meðan málið er til rannsóknar.
Til rannsóknar sé ætlað brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögregla til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Með vísan til alls framangreinds og rannsóknargagna málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á talsverðu magni af fíkniefnum til landsins. Brot þetta getur varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er umfangsmikil og er úrvinnsla gagna enn á frumstigi. Af gögnum málsins má auk þess ráða að enn eigi eftir að hafa hendur í hári ætlaðra vitorðsmanna kærða. Verður að telja hættu á því að kærði kunni að torvelda rannsóknina fari hann frjáls ferða sinna. Þykja skilyrði a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 því enn vera fyrir hendi til að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Að því virtu er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. október 2008, kl. 16:00.