Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2012


Lykilorð

  • Grennd
  • Samaðild


                                     

Fimmtudaginn 17. janúar 2013.

Nr. 424/2012.

Rita Arnfjörð Sigurgarðsdóttir og

Jón Sævar Jörundsson

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Þóreyju Þórðardóttur

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Grennd. Samaðild.

Þ, eigandi hlutar í fasteign í Kópavogi, höfðaði mál á hendur R og J, eigendum fasteignar á aðliggjandi lóð, og krafðist þess aðallega að þeim yrði gert að fjarlægja tvö grenitré sem höfðu verið gróðursett nærri lóðarmörkum, en til vara að R og J yrði gert að klippa trén niður í 1,80 metra hæð, í báðum tilvikum að viðlögðum dagsektum. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að skert birtuskilyrði á lóð Þ auk stærðar, umfangs og staðsetningar grenitrjánna nærri lóðarmörkum, með þeim afleiðingum að greinar þeirra slúttu langt út fyrir lóðarmörk og inn á lóð Þ, væri henni til verulegra óþæginda og langt umfram það sem hún þyrfti að þola samkvæmt ólögfestum reglum nábýlisréttar. Ekki var talið unnt að draga úr þessum óþægindum með öðru móti en að fjarlægja trén og var R og J því gert að gera svo að viðlögðum dagsektum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. júní 2012. Þau krefjast aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af kröfum stefndu. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ekki verður fallist á með áfrýjendum að dómkröfur stefndu taki til óskiptra réttinda eigenda fasteignarinnar að Víðihvammi 24 í Kópavogi á þann hátt að þeir hefðu að réttu lagi allir þurft að eiga aðild að málinu samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt sem segir í dómsorði.

Áfrýjendum verður í sameiningu gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að dagsektir samkvæmt honum falla ekki til fyrr en að liðnum tveimur mánuðum frá uppsögu þessa dóms.

Áfrýjendur, Rita Arnfjörð Sigurgarðsdóttir og Jón Sævar Jörundsson, greiði í sameiningu stefndu, Þóreyju Þórðardóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2012.

                Mál þetta var þingfest 15. september 2010 og tekið til dóms 23. febrúar sl. Stefnandi er Þórey Þórðardóttir, Víðihvammi 24, Kópavogi, en stefndu eru Rita Arnfjörð Sigurgarðsdóttir og Jón Sævar Jörundsson, Víðihvammi 22, Kópavogi.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að fjarlægja grenitré sem hafa verið gróðursett á fasteign þeirra nr. 22 við Víðihvamm í Kópavogi við lóðarmörk Víðihvamms 22 og 24 að viðlögðum dagsektum, 50.000 krónur á dag, sem renni til stefnanda.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að klippa grenitré sem hafa verið gróðursett á fasteign þeirra nr. 22 við Víðihvamm í Kópavogi, við lóðarmörk Víðihvamms 22 og 24, niður í 1,80 metra hæð frá jörðu að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur á dag sem renni til stefnanda.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

                Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað.

                Með úrskurði 21. desember 2010 var frávísunarkröfu stefndu hrundið.

I.

                Húsið við Víðihvamm 22 í Kópavogi var reist árið 1961 og skömmu síðar voru hin umræddu tvö grenitré gróðursett í norð-austurhorni lóðarinnar. Á árinu 1994 var reist nýtt fjórbýlishús á lóðinni nr. 24 við Víðihvamm. Með kaupsamningi 23. september 2005 keypti stefnandi ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Hjálmarssyni, sem nú er látinn, íbúð á 1. hæð í fjöleignarhúsinu nr. 24 ásamt bílskúr. Afsal vegna eignarinnar var undirritað 6. desember 2005. Stefnandi situr nú í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Íbúð stefnanda er 82,8 fm að stærð og er á 1. hæð til vinstri með aðkomu að sunnanverðu. Árið 2006 ákváðu stefnandi og eiginmaður hennar að reisa sólpall fyrir utan íbúð sína við norð-vesturhorn hússins. Öll tilskilin leyfi fengust hjá byggingarnefnd Kópavogs og var verkinu lokið sumarið 2006.

                Stefndu í málinu eru eigendur fasteignarinnar nr. 22 við Víðihvamm sem er tveggja hæða einbýlishús. Lóðarmörk Víðihvamms 22 og 24 eru samliggjandi og rétt við lóðarmörk milli ofangreindra fasteigna eru tvö mjög hávaxin grenitré. Greinar trjánna skaga langt inn á lóð Víðihvamms 24 og heldur stefnandi því fram að hæð trjánna geri það að verkum að nær algjörlega skyggi fyrir dagsbirtu og sól á verönd og vesturhluta lóðar stefnanda eftir kl. 14:30 á daginn yfir sumarið. Telur stefnandi að trén valdi henni verulegum og viðvarandi óþægindum.

II.

                Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði stefnandi að ekki hefði komið til álita að byggja sólpallinn annars staðar við húsið þar sem eina útgönguleiðin  úr íbúðinni og út í garð hafi verið á þessum stað á vesturhlið úr svefnherbergi hjóna. Þar hafi verið brotið gat fyrir hurð svo unnt væri að ganga beint út á sólpallinn. Við núverandi aðstæður njóti sólar á pallinum í um eina klukkustund á dag og taldi stefnandi að sólin kæmi fyrir suðurhorn hússins um kl. 12:30 -13:00 á sumrin. Stefnandi taldi töluverð óþægindi stafa að öðru leyti frá grenitrjánum. Þar sem greinar trjánna skagi langt inn á lóð stefnanda falli greninálar og könglar  í miklum mæli inn á lóð stefnanda og einnig inn á sólpallinn.

                Stefnandi kveðst hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá úrlausn mála sinna hjá stefndu en án árangurs. Árið 2007 hafi eiginmaður hennar talað við stefndu, og synir hennar síðar, án þess að það hafi borið árangur. Með bréfi Húseigendafélagsins, f.h. stefnanda, dags. 14. október 2009, hafi verið gerð krafa um að stefndu felldu þau grenitré sem skyggja á lóð stefnanda. Engin viðbrögð hafa orðið við bréfinu og hafi erindið verið ítrekað 11. maí 2010 en án árangurs. Með bréfi 6. ágúst 2010 hafi lögmaður stefnanda krafist þess að trén yrðu felld en ella yrði leitað til dómstóla.

Aðalkröfu sína byggir stefnandi á því að stefndu sé óheimilt án samráðs við stefnanda að rækta grenitré á lóðarmörkum sem valdi því að sólar njóti ekki á lóð stefnanda og þ.m.t. á sólpallinum. Hæð og staðsetning trjánna valdi því að réttur stefnanda til sólar og birtu sé stórlega skertur sem valdi því að stefnandi geti ekki á sólardögum notið sólpallsins, auk þess sem birta í íbúð hennar sé stórlega skert. Þá þrífist gras á lóð stefnanda illa á því svæði sem greinar af grenitrjánum slúti yfir lóðina. Mosi sé þrálátur og mikið af greninálum falli af trjánum sem dreifist oft og tíðum víða. Þetta brjóti gegn ólögfestum reglum um grenndarrétt. Þá skagi trjágreinar grenitrjánna langt yfir lóðarmörk og inn á lóð stefnanda.

                Stefnandi byggir jafnframt á því að íbúar í þéttbýli verði að taka tillit til nágranna sinna og aðgerðir þeirra á fasteignum sínum megi ekki valda nágrönnum tjóni eða óþægindum. Stefnandi eigi rétt á því að nýta fasteign sína með eðlilegum hætti. Stefnandi hafi ríka hagsmuni af því að geta nýtt sér sólpallinn til útiveru en það geti hún með engu móti gert að óbreyttu ástandi.

                Stefnandi byggir á því að óþægindi þau, sem stafi af trjágróðrinum, séu veruleg í skilningi nábýlisréttar og séu mun meiri en stefnandi megi búast við. Stefnandi megi almennt vænta þess að sól skíni á verönd hennar um miðjan dag ef sólar njóti við á annað borð.

                Krafa stefnanda sé reist á almennum reglum grenndarréttar, sbr. einnig byggingarreglugerð nr. 441/1998, en í 3. mgr. 68. gr. þeirrar reglugerðar segi að sé trjám plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skuli hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 metrar nema lóðarhafar séu sammála um annað. Ef lóðarmörk liggi að götu, gangstíg eða opnu svæði megi trjágróður ná meiri hæð. Ekki megi planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en þremur metrum. Lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka.

                Stefnandi byggir á því að umrædd tvö grenitré, sem deilt sé um í málinu, séu ekki í samræmi við þessi viðmið. Í fyrsta lagi sé ljóst að hæð grenitrjánna sé mun meiri en 1,80 metrar. Í öðru lagi séu grenitrén nær lóðarmörkum en þrír metrar og í þriðja lagi teygi greinar grenitrjánna sig langt inn á lóð stefnanda.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið telur stefnandi hafið yfir allan vafa að krafan um að trén verði fjarlægð sé reist á traustum lagagrunni, enda um viðvarandi og veruleg óþægindi að ræða sem stefnandi eigi ekki að þurfa að búa við.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að klippa trén niður í 1,80 metra hæð að viðlögðum dagsektum. Um röksemdir fyrir varakröfunni vísar stefnandi til málsástæðna þeirra sem færðar hafa verið fram fyrir aðalkröfu stefnanda. Sérstaklega vísar stefnandi til 1. ml. 3. mgr. 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 í þessu samhengi. Kröfu sína um dagsektir byggir stefnandi á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 4. mgr. 114. gr. laganna.

III.

                Stefndu segja að umrædd grenitré  á norð-austurhorni lóðar stefndu hafi ekki valdið íbúum fjórbýlishússins að Víðihvammi 24 óþægindum fyrr en stefnandi hafi keypt íbúð í húsinu árið 2005 og byggt sólpall við vesturhlið hússins ári síðar.

                Sýknukröfu sýna byggja stefndu á því að hin umdeildu tré séu þannig staðsett í garði stefndu að þau valdi nágrönnum þeirra engum óþægindum. Trén virðist ekki angra aðra íbúa hússins að Víðihvammi 24 en þó séu þrjár aðrar íbúðir í húsinu. Af því sé ljóst að staðsetning trjánna trufli ekki og hafi ekki truflað íbúa hússins. Þó að stefnandi kunni ekki að meta trjágróður nágranna sinna þá veiti það henni ekki lögvarðan rétt til þess að hlutast til um ræktunarstörf í nágrenni við íbúð sína og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu. Meginreglan sé sú að mönnum sé heimilt að nýta eignir sínar þannig að öðrum sé ekki bagi að. Það sé hins vegar matsatriði hvað sé óhæfilegur bagi og verði að taka tillit til atvika og aðstæðna. Menn hljóti að þurfa að sætta sig við einhver óþægindi frá nágrannaeign. Það sé hins vegar álitamál hvenær komið sé út fyrir þau mörk. Það sé meginregla að ekki sé unnt að taka tillit til sérstakrar viðkvæmni eiganda þegar mörkin séu dregin. Ekkert slíkt mat liggi fyrir í máli þessu sem sýni fram á óhæfileg óþægindi stefnanda vegna umræddra tveggja grenitrjáa og því beri að sýkna stefndu.

                Þá byggja stefndu sýknukröfu sína á því að með athugasemdalausum kaupum sínum á íbúð í húsi nr. 24  við Víðihvamm hafi stefnandi samþykkt hin umþrættu tré. Stefnandi hljóti að hafa orðið vör við trén er hún skoðaði íbúðina þar sem um sígræn tré sé að ræða.

                Enn fremur byggja stefndu á því að engu breyti þótt trén kunni að varpa einhverjum skugga á sólpall stefnanda. Stefnandi viðurkenni í stefnu að hún hafi keypt íbúð sína árið 2005 en ári síðar hafi sólpallurinn verið byggður. Leiða megi að því líkur að stefnandi hafi séð tré stefndu og þann skugga sem frá þeim stafi. Þótt þau hafi ákveðið að byggja sólpall sinn undir trjám stefndu veiti það þeim ekki ríkari réttarstöðu að grenndarrétti til þess að hlutast til um ræktunarstörf í görðum nágranna sinna. Bygging sólpallsins og staðsetning hans sé alfarið ákvörðun stefnanda og verði hún því að njóta þeirra kosta og umbera þá galla sem staðsetning hans hafi í för með sér. Með öllu sé ósannað að ekki hafi verið unnt að byggja sólpallinn sunnan við húsið og sólarmegin. Pallur stefnanda sé ekki stökkpallur til bættrar réttarstöðu í nágrannadeilum um trjárækt.

                Þá byggja stefndu á því að grenitré þeirra séu eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Engin lagafyrirmæli skyldi stefndu til þess að afhenda eða eyðileggja þessa eign sína og ekki sé sýnt fram á að almenningsþörf krefjist þess. Réttur stefnanda til sólarljóss í myrkasta horni garðsins sé ekki almenningsþörf í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar.

                Byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi verið sett eftir að trén voru gróðursett og hafi hún því eðlilega ekki komið til skoðunar við gróðursetningu trjánna. Þó að hæð trjánna stangist á við byggingarreglugerðina séu trén þó ekki réttdræp. Þá telja stefndu að stefnandi hafi ekki sannað tilvist ólögfestra reglna í málinu. Útilokað sé því að fallast á kröfur stefnanda um aftöku þessara gullfallegu grenitrjáa ef einungis sé byggt á lagarökum með vísan til ólögfestra reglna.

                Varðandi varakröfu stefnanda vísa stefndu til sömu sjónarmiða og í aðalkröfu. Ekki sé unnt að klippa trén niður í 1,80 metra hæð þar sem þau myndu ekki þola það og stæði þá einungis stofn trjánna eftir.

                Stefndu mótmæla kröfum stefnanda um dagsektir og telja fjárhæð dagsekta úr hófi miðað við það sem dómstólar hafi dæmt.

                Málskostnaðarkrafan byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á  málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 IV.

Mats hefur ekki verið aflað í málinu en aðilar hafa lagt fram gögn um skuggavarp frá trjánum og mælingar á staðsetningu trjánna, fjarlægð þeirra frá lóðarmörkum og hversu langt greinar trjánna nái yfir lóðarmörk. Þá hafa verið lagðar fram teikningar og myndir af vettvangi.

Fram kemur í þessum gögnum að efra trénu, sem stendur nær götu, hefur verið plantað á lóð stefndu 2,00 metrum  frá lóðarmörkum milli húsanna Víðihvamms 22 og 24 en neðra tréð stendur 2,30 metra frá lóðarmörkum. Á milli trjánna eru 2,90 metrar. Greinar efra trésins skaga 2,40 metra yfir lóðarmörk og inn á lóð hússins nr. 24 en neðra tréð 1,9 metra. Trén eru talin vera um 18 metrar á hæð. Stærðin á sólpallinum er 2,00 metrar út frá vesturgafli hússins nr. 24 og lóðarmörk eru 4,50 metrar frá vesturhlið hússins samkvæmt teikningu frá byggingarfulltrúanum í Kópavogi.

Í málinu liggur fyrir greinargerð Þórðar Árnasonar matsfræðings sem unnin var að beiðni stefnanda. Hann fékk Bjarna Snæbjörnsson arkitekt til að setja upp skuggavarp í myndröð í þrívídd. Myndirnar sýna sólstöðu á þeim tímabilum ársins sem þekkt eru, þ.e. sumarsólstöðum, jafndægrum að vori og hausti og vetrarsólstöðum. Þá eru sýndir þeir tímar dagsins þegar sólar gætir og skuggi frá trjánum færist yfir á vesturhliðina.

Niðurstaða Þórðar er að samkvæmt myndröðunum komi skuggi inn á sólpallinn upp úr hádegi og sé alveg fram yfir kl. 18:00 yfir sumartímann, þ.e. frá maí til júlí. Skuggi komi inn á pallinn á svipaðan hátt í febrúar til apríl og í ágúst til október eða upp úr hádegi og áfram eftir það. Á öðrum tímum ársins gæti sólar lítið.

Af hálfu stefndu hafa verið lagðir fram útreikningar og myndir af skuggavarpi sem unnið var af Kristni Ragnarssyni arkitekt og aðstoðarmanni hans. Þær myndir sýna nokkuð aðra niðurstöðu um skuggavarp en myndir þær sem stefnandi lagði fram. Í máli Kristjáns og Þórðar í skýrslu þeirra fyrir dómi kom fram að skuggavarpsfræðin séu ekki nákvæm vísindi. Tölur séu slegnar inn í forrit sem taki mið m.a. af hnattstöðu og fleiri þáttum. Því megi alltaf vænta einhverra frávika sem fari eftir þeim upplýsingum sem tölvan sé mötuð á.

V.

Eins og að framan greinir krefst stefnandi þess í aðalkröfu sinni að stefndu fjarlægi grenitré á lóð stefndu nr. 22 við Víðihvamm í Kópavogi, á lóðarmörkum lóðanna nr. 22 og 24 við Víðihvamm. Ekki er deilt um að um tvö grenitré er að ræða og hefur málið verið rekið á þeim grunni.

Húsið við Víðihvamm 22 í Kópavogi var reist árið 1961 og skömmu síðar voru hin umræddu tvö grenitré gróðursett í norðausturhorni lóðarinnar. Á árinu 1994 var reist nýtt fjórbýlishús á lóðinni nr. 24 við Víðihvamm. Með kaupsamningi 23. september 2005 keypti stefnandi ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Hjálmarssyni, sem nú er látinn, íbúð á 1. hæð í fjöleignarhúsinu nr. 24. Árið 2006 ákváðu stefnandi og eiginmaður hennar að reisa sólpall fyrir utan íbúð sína við vesturgafl hússins. Öll tilskilin leyfi fengust hjá byggingarnefnd Kópavogs og var verkinu lokið sumarið 2006.

Í gögnum málsins kemur fram að trén eru um 18 metrar á hæð og stendur efra tréð, sem er nær götu, 2,00 metra frá lóðarmörkum inni á lóð stefndu en neðra tréð 2,30 metra frá lóðarmörkum inni á lóð stefndu. Á milli trjánna eru 2,90 metrar. Greinar efra trésins slúta frá lóðarmörkum  2,40 metra inn á lóðina þar sem stefnandi býr en greinar neðra trésins teygja sig 1,90 metra inn á lóð stefnanda.

Af hálfu aðila hafa verið lögð fram gögn um skuggavarp af trjánum, myndir af vettvangi og teikningar. Dómendur fóru á vettvang og kynntu sér aðstæður.

Það má ráða af þeim sérfræðigögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, og framburði Þórðar Árnasonar matsfræðings og Kristins Ragnarssonar arkitekts, að skuggavarpsmyndir geta verið nokkuð misvísandi eftir því hvaða upplýsingar eru lagðar til grundvallar í tölvuforriti sem hefur verið hannað í því skyni að sýna skuggavarp í þrívídd. Þessi gögn verða því ekki alfarið lögð til grundvallar í málinu en höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.

Að sögn stefnanda byrjar sólin að skína á sólpall hennar yfir sumartímann um kl. 12:30-13:00 en um það leyti komi hún fyrir suð-vesturhorn hússins og taki að skína á vesturhlið þess þar sem sólpallurinn er staðsettur. Samkvæmt framlögðum teikningum, sem sýna legu hússins nr. 24 við Víðihvamm miðað við áttir, stenst sú frásögn stefnanda en sól er í hádegisstað um kl 13:30 á sumrin. Að sögn stefnanda nýtur sólar á sólpallinum í um eina klukkustund eftir að hún kemur fyrir hornið en af framlögðum gögnum má ætla að sá tími sé um ein og hálf til tvær klukkustundir.

Í 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem sett var á grundvelli 37. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, segir að sé trjám plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skuli hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 metrar nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað. Þá megi ekki planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 3,00 metra. Lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, gr. 7.2.2., sem sett var með stoð í 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, eru sambærileg ákvæði og í fyrrnefndi reglugerð að öðru leyti en því að þar er kveðið á um að ekki megi planta trjám nær aðliggjandi lóðarmörkum en 4,00 metrum.

Af hálfu stefndu er á því byggt að stefndu eigi betri rétt í málinu vegna þess að trén voru fyrir er stefnandi og eiginmaður hennar keyptu íbúð sína árið 2005 og byggðu sólpallinn ári síðar. Ekki verður fallist á að slík forgangssjónarmið eigi við um þann ágreining sem hér er til úrlausnar, heldur verður að meta málið í heild, m.a. með tilliti til þess hvort óþægindi stefnanda af trjánum séu veruleg. Þá verður ekki heldur fallist á með stefndu að eignarréttarákvæði 72. gr.  stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eigi við í málinu, enda lýtur ágreiningur aðila að staðsetningu trjánna en ekki eignarrétti.

Viðurkennt er að í þéttbýli verður lóðarhafi að sætta sig við óþægindi frá nágrannalóð að vissu marki en nágranni má ekki hagnýta lóð sína þannig að öðrum sé óhæfilegur bagi af. Við mat á því hvað sé óhæfilegur bagi verður að taka tillit til atvika og aðstæðna.

Sannað er í málinu að vegna hinna umþrættu tveggja grenitrjáa nýtur sólar ekki við vesturgafl húss stefnanda á sólskinsdögum nema í eina og hálfa til tvær klukkustundir eftir hádegi á sumrin í stað þess að skína frá því upp úr hádegi og fram á kvöld. Birtuskilyrði eru því verulega skert vegna trjánna tveggja. Vegna stærðar þeirra og mikils umfangs, en þau eru aðeins í 2,00 og 2,30 metra fjarlægð frá lóðarmörkum, skaga greinar trjánna langt inn á lóð stefnanda með þeim afleiðingum að könglar og greninálar falla í töluverðum mæli á lóð stefnanda og inn á sólpall hennar eins og dómarar sáu við vettvangsgöngu. Fallist verður á með stefnanda að hún hafi ríka hagsmuni af því að geta nýtt sér sólpallinn til útiveru.

Er það mat dómsins að allt framangreint, skert birtuskilyrði á lóð stefnanda, stærð, umfang og staðsetning trjánna nálægt lóðarmörkum með þeim afleiðingum að  greinar trjánna slúta langt út fyrir lóðarmörk og inn á lóð stefnanda, sé stefnanda til verulegra óþæginda og langt umfram það sem hún þarf að þola samkvæmt ólögfestum reglum um nábýlisrétt.

Ekki hefur verið sýnt fram á að unnt sé að draga úr þessum óþægindum með öðrum hætti. Varakrafa stefnanda um að lækka trén niður í 1,80 metra kemur heldur ekki til álita eins og hér háttar þar sem þá stæði aðeins stofn þeirra eftir.

Það er því niðurstaða málsins að fallist verður á aðalkröfu stefnanda og verður stefndu gert skylt að fjarlægja tvö grenitré sem gróðursett hafa verið á lóð stefndu nr. 22 við Víðihvamm í Kópavogi við lóðarmörk Víðihvamms 22 og 24, að viðlögðum dagsektum, sem þykja hæfilega ákveðnar 20.000 krónur á dag er byrji að falla 50 dögum eftir uppkvaðningu dóms þessa. Dagsektirnar skulu renna til stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 950.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar stefnanda og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ragnari Ingimarssyni og Stanley Pálssyni verkfræðingum.

Dómsorð

Stefndu, Ritu Arnfjörð Sigurgarðsdóttur og Jóni Sævari Jörundssyni, er skylt að fjarlægja tvö grenitré, staðsett á norð-austurhorni lóðar þeirra nr. 22 við Víðihvamm  í Kópavogi, við lóðarmörk Víðihvamms 22 og 24. Skulu dagsektir að fjárhæð 20.000 krónur falla óskipt á stefndu 50 dögum eftir uppkvaðningu dóms þessa hafi stefndu ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma. 

Stefndu greiði stefnanda, Þóreyju Þórðardóttur, in solidum 950.000 krónur í málskostnað.