Hæstiréttur íslands

Mál nr. 46/2008


Lykilorð

  • Hjón
  • Lögskilnaður


                                     

Fimmtudaginn 16. október 2008.

Nr. 46/2008.

M

(Jón Höskuldsson hrl.)

gegn

K

(Valborg Snævarr hrl.)

 

Hjón. Lögskilnaður.

Í málinu krafðist M lögskilnaðar frá K. Deildu málsaðilar um það hvort réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng hefðu fallið niður samkvæmt síðari málslið 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þar sem aðilar tóku aftur upp sambúð eftir leyfisveitinguna, eða hvort líta mætti á rúmlega þriggja og hálfs mánaða sambúð aðila sem skammvina tilraun til að endurvekja samvistir að nýju. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með vísan til forsendna með dómi Hæstaréttar, var talið að hin endurnýjaða sambúð aðila hefði verið lengri en svo að talist gæti til skammvinnrar tilraunar til að endurvekja samvistir þeirra. Var því talið að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng hefðu fallið niður og var kröfu M um lögskilnað hafnað.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2008. Hann krefst þess að sér verði veittur lögskilnaður frá stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, M, greiði stefndu, K, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 20. nóvember sl., er höfðað með stefnu, birtri 28. nóvember 2006.

Stefnandi er M, til heimilis að [...] , en stefndi er K, til heimilis að [...], bæði í Reykjavík.

I

Dómkröfur stefnanda eru þær að héraðsdómur gefi út lögskilnaðarleyfi milli hjónanna K og M með sömu skilmálum og greindir eru í leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng, sem út var gefið af sýslumanninum í Reykjavík 21. nóvember 2005. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

Stefnda krefst þess að hafnað verði öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

II

Aðilar gengu í hjónaband 19. júní 2003 og var sameiginlegt heimili þeirra að [...] hér í borg. Með leyfisbréfi sýslumannsins í Reykjavík 21. nóvember 2005 var  þeim veitt heimild til skilnaðar að borði og sæng á grundvelli 33. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkomulag var um fjárskipti hjónanna samkvæmt samningi þeirra, dagsettum 15. nóvemer sama ár. Var þar mælt svo fyrir að hvor aðila héldi þeim eignum sem það hafði átt fyrir hjúskap og greiddi þær skuldir sem hvort þeirra hafði stofnað til. Samkomulag var jafnframt um að stefnda hefði endurgjaldslaus afnot af íbúðinni að [...] til 15. apríl 2006. Hjónin áttu ekki börn saman.

Á grundvelli 1. mgr. 36. gr. hjúskaparlaga óskaði stefnandi eftir lögskilnaði við stefndu hjá sýslumanninum í Reykjavík 31. júlí 2006. Taldi hann að samkomulag væri með aðilum um að leita lögskilnaðarins. Þrátt fyrir ítrekaðar boðanir mætti stefnda ekki hjá sýslumanni við fyrirtöku málsins, sem vísaði því að lokum frá með bréfi 2. október 2006.

Samningar tókust ekki með aðilum um lögskilnað og vísaði stefnandi því málinu til úrlausnar héraðsdóms með framlagningu stefnu, sem þingfest var 7. desember 2006.

III

Stefnandi byggir á því að skilyrði séu til þess að gefið verði út lögskilnaðarleyfi milli hjónanna með sömu skilmálum og getið er í leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng, sem gefið var út af sýslumanninum í Reykjavík 21. nóvember 2005. Um leið hafnar hann því að réttaráhrif skilnaðarleyfis hafi fallið niður með skammvinnum samvistum aðila frá mánaðamótum mars / apríl 2006 til júlímánaðar sama ár. Hafi þær samvistir aðeins verið skammvinn tilraun af hálfu stefnanda til að endurvekja sambúð aðila, en ekki tekist. Af hans hálfu hafi forsenda fyrir því að sambúð yrði enduvakin m.a. verið sú að stefnda féllist á kaupmála þeirra í milli, en það hefði ekki gengið eftir. Tekur stefnandi fram að þrátt fyrir að hjónin hafi búið undir sama þaki hafi þau ekki haft með sér sameiginlegan fjárhag.

Stefnandi bendir á að samkvæmt skilnaðarskilmálum þeirra hjóna hafi stefnda aðeins átt að hafa afnot af íbúðinni að [...] til 15. apríl 2006. Stefnda hafi þá verið búin að festa kaup á íbúð að [...], en hafi ekki getað flutt þangað þar eð ekki var búið að standsetja íbúðina. Á sama tíma hafi stefnandi átt allar eigur sínar í íbúðinni að [...]. Kveðst stefnandi ekki geta fallist á að hann hafi flutt heim til stefndu, þar eð hann átti að fá umráð eignarinnar 15. apríl 2006 og hafi heimilið verið hans heimili og hans eign.

Stefnandi áréttar að 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 setji engin tímamörk um það hvað teljast megi skammvinn tilraun til að endurvekja samvistir hjóna. Telur hann að þrír mánuðir hljóti þó að rúmast innan þeirra tímamarka.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til hjúskaparlaga nr. 31/1993, sérstaklega 2. mgr. 41. gr. þeirra laga. Um málskostnaðarkröfu vísar hann til 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa hans um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988.

IV

Stefnda byggir kröfu sína á því að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng séu fallin niður og því verði lögskilnaður ekki veittur.

Að dómi stefndu var sambandi aðila aldrei slitið að fullu eftir að leyfi til skilnaðar að borði og sæng var gefið út 21. nóvember 2005. Aðilar hafi síðan búið undir sama þaki a.m.k. í 4 – 5 mánuði á árinu 2006. Ekki hafi verið um að ræða skammvinna tilraun í því skyni að endurverkja samvistir, heldur margra mánaða sambúð. Hafi stefnandi flutt inn til stefndu og búið þar með henni, ásamt dætrum sínum. Eftir það hafi hann einnig haldið stöðugu sambandi við stefndu. Telur stefnda að jafnvel þótt um einhverja tilraun hafi verið að ræða hjá aðilum á árinu 2006, þá geti sú tilraun ekki talist skammvinn. Þvert á móti verði að telja þá tilraun fremur langvinna. Því blasi við að lagaskilyrði skorti til þess að unnt verði að fallast á kröfur stefnanda.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnda til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, sérstaklega 35. gr. þeirra laga. Krafa hennar um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Við aðalmeðferð gáfu aðilar skýrslu fyrir dóminum, svo og vitnið A.

Stefnandi skýrði svo frá að hann og stefnda hafi aðeins búið saman í 15 mánuði á hjúskapartíma þeirra. Fjárhagur þeirra hafi alla tíð verið aðskilinn og hafi hann einn staðið straum af föstum útgjöldum heimilisins. Neysluvörur hafi hjónin þó greitt sameiginlega. Hann kvaðst hafa flutt út af heimilinu 21. júní 2005, og þá farið til Brüssel. Eftir það hafi hann búið um stund hjá foreldrum sínum, en síðar í leiguíbúð að [...]. Í ágústmánuði 2005 hafi stefnda skipt um skrá að íbúðinni að [...], en þar hafi allar persónulegar eigur hans verið.

Stefnandi sagði að fyrst eftir skilnað þeirra hjóna að borði og sæng hefðu engin samskipti verið milli þeirra. Um mánaðamót mars / apríl 2006 kvaðst hann hafa flutt til stefndu að [...] og búið þar með henni til 19. júlí sama ár. Spurður um ástæður þess að hann flutti til stefndu, sagði hann að allar eigur hans hefðu verið þar. Samkvæmt skilnaðarskilmálum átti stefnda að flytja úr íbúðinni 15. apríl, en hann hafi þó vitað að dregist hefði að standsetja íbúð sem stefnda hafði keypt að [...]. Á þessum tíma hefðu þau búið undir sama þaki, eins og stefnandi orðaði það, þau hefðu ekki haft sameiginlegan fjárhag en lifað hjónalífi. Hafi hann haft á orði við stefndu að ef samvistir þeirra gengju upp og þróuðust, þyrfti að ganga frá ýmsu áður en til sambúðar yrði stofnað á ný. 

Spurður um frekari samskipti aðila eftir 19. júlí 2006, sagði stefnandi að þau hefðu farið saman í skemmtiferð með vinnufélögum hans að [...] í september það ár. Hafi það verið eins og hvert annað stefnumót. Einnig hafi þau um tíma verið í tölvusamskiptum. Öllum samskiptum hafi hins vegar lokið 20. maí sl., þegar lögreglan fjarlægði stefndu af heimili hans að [...].

Í skýrslu stefndu fyrir dómi sagði hún að eftir skilnað þeirra hjóna að borði og sæng hefði stefnandi flutt til hennar að [...] skömmu fyrir mánaðamót mars / apríl 2006. Hefði stefnandi gefið henni bók 27. mars, nokkrum dögum eftir að hann flutti inn á heimilið. Kvaðst hún þess fullviss að bæði hefðu litið svo á að tilgangurinn hafi verið að hefja sambúð að nýju. Hafi þau búið saman sem hjón, þótt fjárhagur þeirra hafi verið aðskilinn og stefnandi sem fyrr staðið straum af föstum útgjöldum. Dætur stefnanda hafi einnig búið hjá þeim. Eftir deilur þeirra hjóna 19. júlí 2006 kvaðst stefnda hafa flutt út af heimilinu og þá í íbúð sína að [...]. Hún sagðist ekki hafa flutt út fyrr þar sem þau hjón hafi ekki ætlað að skilja.

Spurð um ástæður fyrir skilnaði að borði og sæng sagði stefnda að þær mætti rekja til kaupmála, sem stefnandi hefði viljað að hún undirritaði, en hún ekki viljað samþykkja. Kaupmálann hefði aftur borið á góma í samvistum þeirra á árinu 2006, og kvað hún stefnanda hafa tjáð sér að samþykki hennar væri forsenda fyrir sambúð þeirra. Hafi hún þó ekki viljað láta undan og undirrita kaupmálann.

Stefnda var einnig að því spurð hvers vegna hún tæki til varna í máli þessu og synjaði um lögskilnað. Sagðist hún telja að gagnkvæm ást ríkti enn milli þeirra hjóna og vilji til þess að halda sambúð áfram. Kvað hún það misskilning af hálfu stefnanda að hún ásældist eigur hans og bæri fjárskiptasamningur þeirra þess vitni.

Vitnið A bjó í íbúð að [...] á þeim tíma sem hér um ræðir. Hún staðfesti að aðilar hefðu búið saman á árinu 2006, mundi þó ekki hve lengi, en  sagði að það hefði verið í stuttan tíma. Dætur stefnanda hefðu einnig búið þar á heimilinu. Kvaðst hún muna að stefnda hefði flutt úr húsinu í júlí, en ekki hvenær mánaðarins.

VI

Í máli þessu liggur fyrir að aðilar fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng, gefið út af sýslumanninum í Reykjavík 21. nóvember 2005. Þá er og komið fram að stefnandi óskaði eftir lögskilnaði við stefndu hjá sýslumanninum í Reykjavík 31. júlí 2006 á grundvelli 1. mgr. 36. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt því ákvæði þurfa hjón að vera sammála um að leita lögskilnaðar að liðnum sex mánuðum frá því að leyfi var gefið út til skilnaðar að borði og sæng. Stefnda féllst ekki á lögskilnað og hefur haldið því fram að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng hafi fallið niður með sambúð þeirra hjóna á árinu 2006.

Aðilar hófu sambúð að nýju í marsmánuði 2006 á fyrrum sameiginlegu heimili þeirra að [...], þar sem stefnda bjó þá. Ekki er upplýst hvaða dag marsmánaðar sambúðin hófst. Heldur stefnandi því fram að hann hafi flutt til stefndu um mánaðamót mars / apríl, en stefnda telur að það hafi verið nokkrum dögum fyrr. Hins vegar er ekki um það ágreiningur að sambúðinni lauk 19. júlí það ár.

Í skýrslum beggja aðila fyrir dómi kom fram að þau hefðu lifað sem hjón á ofangreindum samvistartíma þeirra, þótt fjárhagur hafi þá ekki verið sameiginlegur frekar en í hjónabandi þeirra. Þá er og óumdeilt að dætur stefnanda bjuggu á heimilinu á sama tíma. Aðilar eru ekki á einu máli um hver hafi verið tilgangurinn með nýjum samvistum þeirra. Heldur stefnandi því fram að af hans hálfu hafi það verið skammvinn tilraun til að endurverkja samvistir við stefndu, en það ekki tekist, m.a. vegna þess að hún hafi neitað að samþykkja kaupmála sem hann hafi talið forsendu fyrir sambúð þeirra. Stefnda heldur því hins vegar fram að báðir aðilar hafi litið svo á að tilgangurinn hafi verið að hefja sambúð að nýju og hafnar því að um tilraun hafi verið að ræða, og því síður að um skammvinna tilraun hafi verið að ræða.

Samkvæmt síðari málslið 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 falla niður réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng ef hjón taka síðar upp sambúð, nema um sé að ræða skammvinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju. Í athugasemdum við 35. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 31/1993 kemur fram að til þess tíma hafi verið gerðar strangar kröfur til virkra samvistaslita. Frávik ákvæðisins miði að því að hjón hafi tök á að reyna sættir með því að endurvekja samvistir um skamma hríð, án þess að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falli niður. Búi sanngirni þar að baki og viðleitni til að efla sáttahlutverk skilnaðar að borði og sæng. Orðalag ákvæðisins sé vissulega teygjanlegt, en veiti grundvöll til frjálslegrar túlkunar. 

Með vísan til alls framanritaðs þykir ljóst að hjónin tóku upp samvistir að nýju á vordögum 2006 og varaði sambúð þeirra í rúman þrjá og hálfan mánuð. Við upphaf sambúðarinnar voru um fjórir mánuðir liðnir frá því að þau fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Í ljósi 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 telur dómurinn að hin endurnýjaða sambúð aðila hafi verið lengri en svo að geti talist skammvinn tilraun til að endurvekja samvistir þeirra, og um leið lengri en löggjafinn hafi ætlað aðilum til að ná þeim markmiðum sem að var stefnt með lögfestingu ákvæðisins. Við sambúð aðilanna féllu því niður réttaráhrif skilnaðar og borði og sæng. Ber því að hafna kröfu stefnanda um lögskilnað milli aðila.

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar, sem ákveðst hæfilegur 400.000 krónur.

Dóminn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Kröfu stefnanda, M, um lögskilnað milli hans og stefndu, K, er hafnað.

Stefnandi greiði stefndu málskostnað að fjárhæð 400.000 krónur.