Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-172
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Afhending gagna
- Kæruheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 14. maí 2019 leitar Hróbjartur Jónatansson eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 2. sama mánaðar í málinu nr. 191/2019: Hróbjartur Jónatansson gegn Frjálsa lífeyrissjóðnum, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggst ekki gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðila verði gert að afhenda sér nánar tilgreind gögn. Með úrskurði 21. febrúar 2019 vísaði héraðsdómur þeirri kröfu leyfisbeiðanda frá dómi. Leyfisbeiðandi kærði úrskurðinn til Landsréttar sem með fyrrnefndum úrskurði hafnaði kröfu leyfisbeiðanda um afhendingu gagna. Leitar hann kæruleyfis til að fá leyst úr kröfu um að úrskurður Landsréttar verði felldur úr gildi.
Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni er unnt að leita leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.