Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Ábúð
- Kröfugerð
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 402/2011
|
B C og D (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.) gegn A (Bjarni G. Björgvinsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Ábúð. Kröfugerð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi málsaðila sem reis við opinber skipti á dánarbúi E og F. Í héraði var tekin til greina krafa A um að viðurkenndur yrði réttur hans til lífstíðarábúðar á jörðinni K, en hafnað kröfu B, C og D um að viðurkennt yrði að 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrútar tilheyrðu dánarbúi E og F. Um hið fyrra atriði taldi héraðsdómur að skilyrðum eldri ábúðarlaga fyrir aðilaskiptum á jörðinni K væri fullnægt. Um hið síðara atriði segir að sannað hafi verið með skattframtölum A, E og F að A hafi keypt 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrúta af þeim E og F og var kröfu varnaraðila því hafnað. Þá vísaði héraðsdómur frá dómi kröfum A um að viðurkenndur yrði réttur hans til endurgjalds fyrir tiltekinn fjölda ærgilda af fullvirðisrétti jarðarinnar við ábúðarlok. A kærði ekki úrskurð héraðsdóms um þetta atriði og því gátu A annars vegar og B, C og D hins vegar ekki haft uppi kröfur fyrir Hæstarétti þar að lútandi. Að öðru leyti voru niðurstöður héraðsdóms staðfestar í Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2011, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi málsaðila, sem reis við opinber skipti á dánarbúi E og F. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess í fyrsta lagi að hafnað verði að varnaraðili eigi rétt til lífstíðarábúðar á jörð dánarbúsins, K í [...]hreppi, í öðru lagi að niðurstöðu hins kærða úrskurðar um kröfu varnaraðila „um viðurkenningu á rétti til endurgjalds fyrir tiltekinn fjölda ærgilda af greiðslumarki lögbýlisins verði hrundið þannig að sá þáttur málsins verði tekinn til löglegrar efnismeðferðar að nýju“ og í þriðja lagi að viðurkennt verði „að 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrútar verði talin til eigna dánarbúsins.“ Í öllum tilvikum krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en verði hrundið niðurstöðu úrskurðarins um lífstíðarábúð varnaraðila á áðurnefndri jörð krefst hann þess til vara að viðurkenndur verði réttur hans til endurgjalds frá dánarbúinu fyrir „andvirði 161,4 ærgilda af greiðslumarki jarðarinnar“, að því frágengnu fyrir „155,6 ærgilda fullvirðisrétti“, en til ítrustu vara fyrir „25 ærgilda fullvirðisrétti af greiðslumarki jarðarinnar“. Í öllum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Með hinum kærða úrskurði var tekin til greina krafa varnaraðila um að viðurkenndur yrði réttur hans til lífstíðarábúðar á jörðinni K, en hafnað kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði að 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrútar tilheyrðu dánarbúi E og F. Þá var vísað frá dómi kröfum varnaraðila um að viðurkenndur yrði réttur hans til endurgjalds fyrir tiltekinn fjölda ærgilda af fullvirðisrétti jarðarinnar við ábúðarlok. Varnaraðili hefur ekki fyrir sitt leyti kært úrskurð héraðsdóms til að fá hnekkt niðurstöðu hans um frávísun síðastgreindra krafna. Hann getur því ekki haft uppi fyrir Hæstarétti áðurnefndar varakröfur um viðurkenningu á rétti sínum til endurgjalds úr hendi dánarbúsins, en með því leitar hann dóms um kröfur, sem ekki hefur verið leyst úr að efni til í héraði. Enn síður er á færi sóknaraðila að leitast við að fá fellt úr gildi ákvæði úrskurðarins um frávísun þessara krafna gagnaðila síns og krefjast efnisdóms um þær, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 8. maí 1998 í máli nr. 186/1998, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1793.
Að gættu framangreindu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, B, C og D, greiði í sameiningu varnaraðila, A, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2011.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 20. júní 2008, var dánarbú E og F tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 4. nóvember 2010, var ágreiningsefni þessa máls skotið til úrlausnar dómsins. Málið, sem var þingfest 26. nóvember sl., var tekið til úrskurðar 11. apríl sl. að aflokinni aðalmeðferð.
Sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krefst þess að staðfestur verði lífstíðarábúðarréttur hans á jörðinni [...], [...].
Hann krefst þess jafnframt að viðurkenndur verði eignarréttur hans að samtals 155,6 ærgilda fullvirðisrétti af 282,4 ærgilda fullvirðisrétti er fylgi jörðinni [...] í [...]hreppi.
Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði eignarréttur hans að samtals 25 ærgilda fullvirðisrétti er fylgi jörðinni [...] í [...]hreppi.
Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess að varnaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað ásamt virðisaukaskatti á málskostnað.
Varnaraðilar, B, kt. [...], [...], [...], C, kt. [...], og D, kt. [...], bæði til heimilis að [...], [...], krefjast þess að hrundið verði kröfu sóknaraðila um lífstíðarábúðarrétt hans á jörðinni [...], [...]hreppi.
Þau krefjast þess jafnframt að kröfu sóknaraðila um eignarrétt að samtals 155,6 ærgildum af 282,4 ærgilda fullvirðisrétti er fylgi lögbýlinu [...], [...]hreppi, verði hrundið.
Að auki krefjast þau þess að hrundið verði varakröfu sóknaraðila um eignarrétt að samtals 25 ærgilda fullvirðisrétti er fylgi lögbýlinu [...], [...]hreppi.
Enn fremur krefjast þau þess að 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrútar, sem séu í vörslu sóknaraðila á lögbýlinu [...], [...]hreppi, verði talin til eigna dánarbúsins.
Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.
Erindi skiptastjóra
Í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms kemur fram að ágreiningur málsaðila lúti að því að einn erfingjanna telji sig eiga lífstíðarábúðarrétt að jörð í eigu dánarbúsins, [...], [...]hreppi og einnig krefjist hann viðurkenningar á eign í framleiðslurétti og bústofni jarðarinnar. Nokkrir samerfingjar hans hafi alfarið hafnað þessum kröfum. Telji þeir erfingjann ekki eiga ábúðarrétt að jörðinni og að allur fullvirðisréttur jarðarinnar og bústofn sé í eigu dánarbúsins. Þar sem skiptastjóra hafi ekki tekist að jafna ágreininginn sé honum vísað til héraðsdóms á grundvelli 122. gr., sbr. 112. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.
Málavextir og málsástæður sóknaraðila
Vegna kröfu sinnar um lífstíðarábúð vísar sóknaraðili til þess að hann hafi haft ábúð á jörðinni [...], þó án byggingarbréfs, allt frá árinu 1992 og hafi rekið þar sauðfjárbúskap óslitið síðan. F heitinn, faðir sóknaraðila, hafi átt jörðina og búið á henni frá árinu 1940, en árið 1992 hafi hann verið tekinn að reskjast og hafi ákveðið að láta af búskap að [...]. Sóknaraðili og eiginkona hans hafi aðstoðað foreldra málsaðila við búskapinn að [...] óslitið frá því sóknaraðili og kona hans hafi flutt til [...] árið 1968 og hafi aðstoðin aukist ár frá ári eftir því sem foreldrarnir eltust. Þegar sóknaraðili hafi tekið við jörðinni, árið 1992, hafi það verið gert með samkomulagi hans og föður hans, en ekki hafi verið gengið frá byggingarbréfi fyrir jörðinni, svo sem algengt hafi í reynd verið er jarðir gengu milli ættliða innan fjölskyldu.
Um ábúð sóknaraðila að [...] gildi eldri ábúðarlög nr. 64/1976, sem hafi gilt þar til nýju ábúðarlögin nr. 80/2004 hafi tekið gildi. Í 6. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 segi: „Nú hefur landsdrottinn vanrækt að gera byggingarbréf fyrir jörð, og skal þá svo telja, að hún hafi verið byggð lífstíð leigutaka og eftirgjald skal ákveðið af jarðanefnd, nema um annað semjist.“
Í 21. gr. laganna segi að skylt sé „...leiguliða að eiga lögheimili á ábúðarjörð sinni, nytja hana og reka þar bú, nema sveitarstjórn og landsdrottinn samþykki annað“.
Sóknaraðili byggir á því að samþykki F heitins hafi legið fyrir um það að sóknaraðili héldi lögheimili sínu á [...], enda hafi hann stundað þar atvinnu sína, en ræki búskapinn að [...]. Sveitarfélagið hafi fyrir sitt leyti samþykkt ábúð sóknaraðila á jörðinni með formlegum hætti, þegar árið 1993. Því til staðfestingar fylgi afrit af tveimur bréfum sem H, þáverandi sveitarstjóri [...]hrepps, hafi gefið út 16. febrúar 1993 vegna landbúnaðarnefndar [...]hrepps. Í öðru bréfinu sé staðfest að sóknaraðili hafi tekið við ábúð að [...]. Í því bréfi liggi í raun fyrir formlegt samþykki sveitarfélagsins um ábúð hans á jörðinni og þar með sé fullnægt ákvæði 21. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976 um samþykki sveitarfélags fyrir ábúð hans á jörðinni án lögheimilis þar, enda hafi það verið kappsmál sveitarstjórna í dreifbýli að halda jörðum í ábúð og að þar væri stundaður búskapur, eins og gert hafi verið að [...].
Í ákvæði til bráðabirgða III í nýjum ábúðarlögum nr. 80/2004 segi svo: „Ábúendur sem öðlast hafa lífstíðarábúð á grundvelli 6. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, með síðari breytingum, skulu halda þeim réttindum.“
Samkvæmt framansögðu sé ljóst að sóknaraðili hafi lögbundna lífstíðarábúð að [...] í [...]hreppi. Ekkert eftirgjald hafi verið ákveðið eftir jörðina þegar sóknaraðili hafi tekið við henni, enda hafi sóknaraðili og eiginkona hans aðstoðað foreldra sóknaraðila við búskapinn í 24 ár áður en sóknaraðili hafi tekið við ábúðinni árið 1992.
Sóknaraðili færir þau rök fyrir kröfu sinni um fullvirðisrétt að F heitinn hafi átt fyrir 126,8 ærgildi þegar hann hafi brugðið búi árið 1992 og sóknaraðili hafi keypt af honum bústofninn. Ári eftir að F hafi flutt af jörðinni hafi verið keypt 130,6 ærgildi, sem sóknaraðili hafi greitt fyrir, en F hafi samt verið skráður kaupandi að þar sem hann hafi verið eigandi jarðarinnar. Skjöl sóknaraðila vegna þessara viðskipta séu glötuð. Þess sé krafist að dánarbúið viðurkenni að sóknaraðili teljist eigandi framangreindra 130,6 ærgilda sem hafi verið keypt árið 1993. Síðar hafi sóknaraðili keypt 25 ærgildi til viðbótar sem hafi verið skráð á jörðina undir hans nafni. Sóknaraðili hafi sjálfur keypt og greitt fyrir alls 155,6 ærgildi af þeim 282,4 sem séu á jörðinni og krefjist hann þess að viðurkennt sé að hann eigi þau ærgildi.
Sóknaraðili vísar til þess að fullvirðisréttur jarðar fylgi jörðinni sjálfri. Sóknaraðili hafi viðhaldið og aukið verðmæti jarðarinnar með því að nýta fullvirðisrétt hennar og auk þess keypt aukinn fullvirðisrétt á jörðina. Sóknaraðili hafi lagt út fjármuni og viðhaldið þessum réttindum á jörðinni og fullvirðisrétturinn hefði verið fallinn niður hefði sóknaraðili ekki nýtt hann og rekið búskap á jörðinni. Við opinber búskipti eftir eiganda jarðarinnar sé rétt og sanngirnismál að sóknaraðili fái greidda eign sína, sem hann hafi sjálfur lagt út fyrir. Þá áréttar sóknaraðili að hann hafi viðhaldið og aukið verðmæti jarðarinnar með því að annast og auka við mannvirki og ræktun á jörðinni frá árinu 1993. Því sé þess krafist að sóknaraðili teljist eigandi 155,6 ærgilda fullvirðisréttar í jörðinni [...], en dánarbú F teljist eiga 126,8 ærgilda fullvirðisrétt, þegar ákvarðað verði hver eignarréttindi skuli fylgja fullvirðisrétti jarðarinnar.
Sóknaraðili bendir á að varnaraðilar hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings andmælum sínum við kröfu hans um lífstíðarábúð, enda sé réttur hans lögbundinn og hann uppfylli öll lagaskilyrði fyrir lífstíðarábúðarrétti. Þá hafi varnaraðilar ekki lagt fram nein gögn er hnekki tilkalli sóknaraðila til þess að teljast eigandi 155,6 ærgilda af fullvirðisrétti jarðarinnar [...]. Af þessum sökum geti sóknaraðili ekki í greinargerð brugðist við neinum röksemdum varnaraðila.
Sóknaraðili áréttar að hann hafi allt frá árinu 1993 haldið eign búsins við og nýtt hana, viðhaldið fullvirðisrétti hennar og sinnt viðhaldi húsa og ræktunar. Án hans viðveru á jörðinni væri hún að líkindum lítils virði í dag. Sóknaraðili hafi kostað sjálfur allar framkvæmdir og eignaaukningu á jörðinni og hafi samerfingjar ekki borið neinn kostnað af því. Sóknaraðili vísar til þessara atriða til fyllingar og stuðnings kröfum sínum.
Sóknaraðili byggir mál sitt á 6. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976 og ákvæðis til bráðabirgða III í nýjum ábúðarlögum nr. 80/2004. Enn fremur vísar hann til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um sönnun og sönnunarbyrði. Vegna kröfu um málskostnað vísar hann til ákvæðis 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt vegna kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað.
Málavextir, málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðilar benda á að í bréfi skiptastjóra, dagsettu 29. október 2010, komi fram að ágreiningur standi um lífstíðarábúðarrétt, framleiðslurétt og eignarhald á bústofni jarðarinnar. Með það í huga krefjist þeir þess einnig að tilgreindur bústofn lögbýlisins teljist eign sameiginlegs dánarbús E og F.
Varnaraðilar vísa til þess að foreldrar málsaðila hafi brugðið búi á verðlagsárinu 1992/1993, sem sé talið frá 1. september 1991 til 31. ágúst 1992. Haustið 1992 hafi verið lagðir 57 dilkar inn í sláturhús samkvæmt framtali 1993 (vegna 1992) eða um 898,8 kg samkvæmt innleggsupplýsingum Bændasamtaka Íslands fyrir sama ár vegna F. Árið eftir 1993 séu engin innlegg skráð frá F en hins vegar 2.658 kg frá sóknaraðila og síðan 4.536,9 kg fyrir árið 1994.
Varnaraðilar mótmæla harðlega bréfi H, fyrrum sveitarstjóra [...]hrepps, dagsettu 16. febrúar 1993. Í bréfi hans, dagsettu 3. júní 2010, þar sem hann svari bréfi varnaraðila, segi hann að það hafi ekki verið í verkahring sveitarstjórnar að byggja sóknaraðila jörðina. Telji sveitarstjórinn fyrrverandi að sóknaraðili hafi með símtali fengið sig, með ólögmætum hætti, til að gefa út umrædda yfirlýsingu, en varnaraðilar telji hana ekkert gildi hafa enda hafi hún aldrei verið tekin formlega fyrir í sveitarstjórn til samþykktar eða synjunar á fundi þar. Tilgangur sóknaraðila með því að fá sveitarstjórann til að útbúa bréfið hafi sennilega verið sá að fá beingreiðslur frá ríkinu, en varnaraðilar telji það ólöglegt, þar sem erindið hafi ekki verið borið upp í sveitarstjórn á sínum tíma og fengið lögformlega umfjöllun.
Þá mótmæli varnaraðilar bréfi H, dagsettu 16. febrúar 1993, þar sem staðfest sé að sóknaraðili hafi keypt bústofn F. Sveitarstjórinn kannist ekki við að hafa komið að samningi eða nokkurn tíma séð slíka samninga milli feðganna. Kveði hann þetta hafa verið ritað eftir fyrirsögn sóknaraðila í þeirri trú að hann færi með rétt mál. Sveitarstjórinn fyrrverandi hafi því neitað tilvist samninga bæði um ábúð og kaup á bústofni sóknaraðila.
Af framangreindu sé ljóst að aðkoma sóknaraðila að meintum ábúðarrétti, fullvirðisrétti og bústofni hafi verið í hæsta máta óeðlileg og ólögmæt í alla staði, sem nú verði rakið.
Krafa um lífstíðarábúð
Varnaraðilar mótmæla málavaxtalýsingu sóknaraðila í greinargerð hans og telja hann ekki greina rétt frá aðkomu sinni að jörðinni. Því sé andmælt að samkomulag hafi verið milli sóknaraðila og föður hans. Hvorki liggi fyrir byggingarbréf um ábúð, kaupsamningur, eða afsal fyrir kaupum hans á búfénaði né nokkur sönnun yfir höfuð fyrir yfirtöku hans á jörðinni. F hafi auk þess ekki einn haft ráðstöfunarrétt á jörðinni, þar sem eiginkona hans, E, hafi átt jafnan hlut í jörðinni samkvæmt reglum hjúskaparlaga, eldri og yngri ábúðarlaga, jarðalaga og búvörulaga. Jafnvel þótt F hefði gefið samþykki sitt fyrir því að sóknaraðili byggði jörðina og keypti af honum búfénað, þá sé ekki til samþykki E fyrir slíkri ráðstöfun. Auk þess hefði verið gengið þvert á hagsmuni annarra barna þeirra með slíkum ráðstöfunum.
Þá sé því harðlega mótmælt að sóknaraðili og eiginkona hans hafi lagt meira af mörkum hvað snerti vinnu og aðstoð við búskapinn að [...] áður fyrr. Varnaraðilar benda á að þau hafi ekki síður lagt mikið af mörkum við búskap á sínum yngri árum, en þá hafi búskapurinn verið hvað umfangsmestur. Varnaraðilar minnast þess að allur búskapur og öll störf hafi verið umfangsminni er sóknaraðili óx úr grasi.
Varnaraðilar minnast mikillar vinnu vetur, sumar, vor og haust, til að mynda við sauðburð, heyskap, mjaltir, gjafir, áburðarvinnu, kartöfluupptöku, án véla, og rófuupptöku, að því er virtist af endalausum hekturum, auk smölunar, slátrunar og margra annarra úti- og inniverka. Í þessu sambandi benda varnaraðilar á svar B við kröfu sóknaraðila skv. bréfi lögmanns hans dags. 3. nóvember 2010.
Varnaraðilar mótmæla harðlega tilvísun sóknaraðila til 6. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 varðandi heimild sína til lífstíðarábúðar. Því fari fjarri að skilyrði eldri laga, hvað þá yngri laga um lífstíðarábúð, séu uppfyllt. Landsdrottinn, F, hafi ekki haft neinn hug á því að gera byggingarbréf um jörð sína. Hafi vanræksla ekki verið ástæða þess að það hafi ekki verið gefið út. Hvergi séu til gögn um það að F hafi viljað tryggja sóknaraðila aðstöðu til búrekstrar á jörðinni. Skilyrði eldri ábúðarlaga séu ekki uppfyllt. Jarðanefnd hafi ekki komið að málinu að neinu leyti. Ekkert eftirgjald hafi verið ákveðið af jarðanefnd eins og sé skilyrði samkvæmt 6. gr. eldri ábúðarlaga.
Varnaraðilar mótmæla einnig harðlega tilvísun
sóknaraðila til ákvæðis til bráðabirgða
Samkvæmt 8. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 skuli jarðareigandi og ábúandi gera skriflegan samning um ábúð, sem nefnist byggingarbréf. Það liggi ekki fyrir í málinu, hvorki frá F né E. Þar af leiðandi hafi aldrei getað skapast ábúð, hvað þá lífstíðarábúð, á jörðinni fyrir sóknaraðila.
Það vegi einnig þungt að sóknaraðili hafi hvorki átt dvalarstað né lögheimili á jörðinni eins og áskilið sé í 21. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976. Í 12. gr. nýrri ábúðarlaga nr. 80/2004 sé tekinn af allur vafi en þar segi að ábúanda sé skylt að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð sinni. Honum sé skylt að stunda þar landbúnað nema jarðeigandi og sveitarstjórn samþykki annað. Allar götur frá 1985 hafi sóknaraðili dvalið og átt lögheimili að [...], [...]. Heimildarleysi sóknaraðila sé algert. Hann hafi lítið sem ekkert lagt fram til viðhalds peningshúsa og íbúðarhúss. Það sem hann kunni að hafa gert megi líta svo á að hann hafi fyrir löngu fengið greiðslu fyrir í formi hlunninda svo sem afurða af sauðfé.
Þá hafi sóknaraðili heimildarlaust hirt æðardún, hreindýraarð og búfjárafurðir án nokkurs samráðs við sameigendur sína. Allt þetta séu verðmæti, sem hafi tilheyrt foreldrum hans og nú undanfarin tvö ár samerfingjum.
Hefði sóknaraðili talið sig ábúanda, hefði hann átt að halda við vélakosti lögbýlisins. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Vélar og tæki dánarbúsins og jarðarinnar hafi grotnað niður og séu einskis virði í dag.
Í ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 80/2004 segi að samningar um ábúð, sem gerðir hafi verið fyrir gildistöku þeirra laga, skuli halda gildi sínu. Í lokasetningu sama ákvæðis segi að að öðru leyti fari um réttarsamband jarðeigenda og ábúenda samkvæmt þeim lögum eftir 1. júlí 2004. Með vísan til þessa beri dómara að halda sig við hin nýju ábúðarlög nr. 80/2004, þar sem ekki liggi fyrir nokkrir samningar eða byggingarbréf milli jarðareiganda og meints ábúanda.
Í annan stað uppfylli sóknaraðili ekki skilyrði 6. gr. eldri laga nr. 64/1976. Þar sem ekki liggi fyrir umsamið eftirgjald af jarðanefnd eða samningur um annað af hálfu þáverandi eigenda jarðarinnar, E og F.
Hafi F á annað borð ráðstafað jörðinni til ábúðar 1993 fyrir sóknaraðila skuli sérstaklega bent á heimildarleysi hans til að ráðstafa ábúðarrétti án samþykkis eiginkonu sinnar, E. Fyrir utan brot gegn 6. gr. laga 64/1976 hafi einnig verið brotið gegn ákvæðum 20. og 21. gr. laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna og/eða ákvæði 60. og 61. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sem krefjist skriflegs samþykkis fyrir því að afhenda eða byggja fasteign, sem sé ætluð til sameiginlegs atvinnurekstrar beggja hjóna eða hins.
Önnur atriði, sem styðja kröfugerð varnaraðila
Í mars 2007 hafi snjóað inn í forstofuna í íbúðarhúsinu eins og framlagðar ljósmyndir sýni og svo kalt hafi verið í eldhúsi, er einn varnaraðila hafi átt þar leið um, að hún varð að vera kappklædd við eldhússtörfin. Þannig hafi húsið verið látið standa opið og óupphitað undanfarin ár með allri búslóð foreldra aðila málsins. Fyrir um það bil ári hafi sóknaraðili svo tekið upp á því að læsa útidyrum íbúðarhússins og ganga um eignina eins og hún væri í lífstíðarábúð hans. Þá hafi sóknaraðili hirt eða tileinkað sér með ólögmætum hætti allan arð vegna veiðileyfasölu á hreindýrum frá 2001 til 2008 og allan æðardún frá 1992 eða fyrr til þessa dags. Ætla megi að sóknaraðili hafi notað bréfin frá sveitarstjóranum fyrrverandi, til að koma þeirri ranghugmynd að stjórnvöldum að hann væri í fullum rétti að fá allan arð lögbýlisins, allt á kostnað samerfingja sinna.
Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi sýnt tómlæti varðandi meintan lífstíðarábúðarrétt sinn. Hann hafi ekki gert reka að því að krefjast hans fyrr en nú þegar til standi að skipta dánarbúinu milli systkina hans. Móðir hans hafi látist á árinu 2000 og faðir á árinu 2007 og allan þann tíma hafi varnaraðilar staðið í þeirri trú að jörðin væri sameign þeirra á meðan hún væri í eyði enda enginn ábúandi þar.
Þá hafi sóknaraðili fyrst og fremst framfæri sitt af því að starfa sem trésmiður og byggingarverktaki og hafi búið á [...]frá 1971. Hann hafi rekið byggingarfyrirtæki í áraraðir og ekki síst frá árinu 1992. Hann hafi ekki átt lögheimili í [...] frá því hann fluttist þaðan, ungur maður.
Þá sé ljóst að hann hafi aldrei greitt eyri fyrir afnot jarðarinnar né fyrir vélakost, sem henni fylgi, né leigu fyrir jörðina, fullvirðisréttinn í ærgildum, sem tilheyri jörðinni og samerfingjum hans. Jörðin hafi verið í stöðugri niðurníðslu, girðingar, gripahús og íbúðarhús hafi drabbast niður. Þá hafi vatnsveitumál verið í megnasta ólestri og viðvarandi mengun og sóðaskapur við vatnslindina ofan við íbúðarhúsið orðið þess valdandi að heilsu manna geti verið hætta búin.
Þótt búfénaður dánarbúsins yrði talin eign sóknaraðila breyti það engu um það að lífstíðarábúð hafi ekki skapast fyrir sóknaraðila, þar sem hann skorti öll skilyrði til hennar.
Varnaraðilar vísa til Hæstaréttardóms nr. 482/1999. Í því máli hafi þótt sannað að vilji föður hafi staðið til að tryggja sóknaraðila aðstöðu til búrekstrar á jörð. Samningur sóknaraðila um dvöl og búskap var lýstur ógildur og því ekki til að dreifa ábúðarsamningi, þannig að vanræksla við að gera skriflegt byggingarbréf leiddi skv. 6. gr. laga nr. 64/1976 til að ekki var talinn hafa skapast lífstíðarábúðarréttur.
Með allt framangreint í huga ber að hafna kröfu sóknaraðila um lífstíðarábúð.
Fullvirðisréttur
Varnaraðilar árétta að greiðslumark jarðarinnar að [...] sé 282,4 ærgildi. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sé greiðslumark bundið við lögbýli. Þetta hafi þá þýðingu að til dæmis sameigandi jarðar geti ekki ráðstafað greiðslumarki nema með samþykki annarra sameigenda sinna.
Greiðslumarki [...] hafi F ekki getað ráðstafað nema með skriflegu samþykki eiginkonu sinnar, E, sem hafi verið eigandi að helmingi jarðarinnar. Kveðið sé á um þetta bæði í eldri og yngri lögum um fjármál hjóna. Samkvæmt 20. og 21. gr. laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna sé lagt bann við því að annað hjóna geti afhent lausafé eða ígildi veðréttinda án samþykkis hins. Sama lagaskylda komi fram í 60. og 61. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þar sem segi að öðru hjóna sé óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda, veðsetja eða leigja annað lausafé, sem sé ætlað til nota fyrir sameiginlegan rekstur þeirra.
Með lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum hafi fullvirðisréttarkerfinu verið komið á. Fullvirðisréttur hafi verið viðmið þess arfurðamagns, sem hver einstakur framleiðandi fengi fullt verð fyrir. Fullvirðisréttur sé talinn hlutdeild í verði á innanlandsmarkaði, sem sé ábyrgst fyrir framleiðendur. Með lögum nr. 5/1992 um breytingu á lögum nr. 46/1985 hafi greiðslumark verið tekið upp. Greiðslumark sé tiltekið magn kindakjöts, mælt í kílógrömmum, sem ákveðið sé fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og veiti rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.
Í 7. gr. c. (41. gr.) breytingarlaga nr. 5/1992 segi að greiðslumark skuli bundið lögbýli og að aðeins einn framleiðandi skuli vera skráður handhafi. Í 7. gr. c. (42. gr.) segi að aðilaskipti greiðslumarks skuli ekki taka gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggi fyrir. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þurfi samþykki beggja fyrir aðilaskiptum að greiðslumarki frá lögbýli.
Varnaraðilar vísa eins og áður greinir til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem taki undir eldri lög um það að allt greiðslumark skuli bundið við lögbýli. Í 39. gr. laga nr. 99/1993 komi fram sömu skilyrði um staðfestingu Framleiðsluráðs landbúnaðarins og samþykki allra eigenda að lögbýli til þess að aðilaskipti að greiðslumarki nái fram að ganga.
Ekki sé hægt að líta svo á að F heitinn hafi ráðstafað greiðslumarkinu til sóknaraðila enda hafi það verið skráð á lögbýlið, jörðina, alla tíð eða frá og með verðlagsárinu 1990/1991 og jafnvel fyrr og fram til þessa dags. Allt greiðslumarkið, 282,4 ærgildi, beri því skilyrðislaust að meta sem eign dánarbúsins.
Með dómum Hæstaréttar sé margdæmt að greiðslumark sé bundið við lögbýli og að það skuli fylgja lögbýlinu við eigendaskipti. Í dómi Hæstaréttar nr. 310/1999 komi fram að ekki sé neinn lagagrundvöllur fyrir því að leiguliði (ábúandi) gæti litið á, sem sína eign, greiðslumark lögbýlis, sem hann hafi ábúð á.
Sama niðurstaða komi fram í dómi Hæstaréttar nr. 279/2000, en þar hafi sameigendur, sem hvorki hafi verið ábúendur né stundað búskap á jörð, verið taldir eiga greiðslumark til jafns við aðra eigendur (ábúendur) jarðar.
Af framangreindu megi vera ljóst að greiðslumarkið allt tilheyri dánarbúinu.
Eign búfénaðar
Varnaraðilar kveðast hafa staðið í þeirri trú að bústofninum hefði öllum verið fargað haustið 1992. Eftir að kallað hafi verið eftir framtölum í nóvember 2010 sé ljóst að aðeins hluta bústofnsins hafi verið slátrað. Allir nautgripir og hluti búfjár, sem voru 57 dilkar, 7 ungnaut, 1 kýr og 1 kálfur, hafi verið lögð inn í sláturhús vegna tekjuársins 1992, eins og sjá megi af framtali 1993.
Samkvæmt framtali F og E 1992 (vegna 1991) hafi sóknaraðila verið seld 41 haustlamb (líflömb) fyrir 357.315 kr. með virðisaukaskatti. Í framtali sóknaraðila fyrir sama ár (1992) sé hann sagður skulda F 350.000 kr.
Í framtali F og E 1993 (vegna 1992) segi að sóknaraðila hafi verið seldar 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambshrútar á 415.000 krónur. Sömu upplýsingar komi fram í gögnum sóknaraðila. Engin gögn hafi verið lögð fram um þessa eignatilfærslu og sé henni harðlega mótmælt. Telji varnaraðilar þessa eignatilfærslu málamyndagerning af hálfu sóknaraðila, sem hafi ekkert gildi gagnvart varnaraðilum. Sóknaraðili hafi aldrei greitt fyrir haustlömbin 1991 og aldrei hafi verið greitt fyrir búfénað 1992.
Varnaraðilar telji sig eiga hlutdeild í þeim bústofni, sem foreldrar þeirra hafi skilið eftir, þegar þau fóru til Reykjavíkur 1992. Þótt sóknaraðili hafi yfirtekið búfé foreldra þeirra og haldið stofninum við geti hann aldrei verið talinn eigandi búfjárins af þeim sökum. Því beri sérstaklega að halda til haga að sóknaraðili hafi frá 1992 hirt allan arð af því búfé, sem foreldrar hans skildu eftir án þess að gera nokkurn tíma grein fyrir þeim afrakstri eða fjármunum, sem fyrir það kom. Ýmislegt bendi til að um óbeðinn erindisrekstur hafi verið að ræða, sem hafi verið inntur af hendi án heimildar og nokkurs samráðs við foreldra sóknaraðila og nú síðustu árin án samkomulags við erfingja dánarbúsins. Það sé ljóst að sá búsmali, sem var eftir og kemur fram á framtali foreldra þeirra og sé getið í kröfugerð varnaraðila, hafi verið og sé enn í eigu dánarbúsins en ekki sóknaraðila.
Samkvæmt 20. og 21. gr. eldri laga nr. 22/1923 um réttindi og skyldur hjóna og 60. og 61. gr. núgildandi hjúskaparlaga nr. 31/1993 hafi öðru hjóna verið með öllu óheimilt að afhenda eða leigja fasteign eða lausafé, sem notað hafi verið við atvinnurekstur beggja hjóna án skriflegs samþykkis hins. Ekki liggi fyrir samþykki E um ráðstöfun búfjár þeirra hjóna 1992 eða 1993. Dómara beri því að úrskurða búfénað samkvæmt kröfugerðinni sem eign dánarbúsins.
Varnaraðilar mótmæla því harðlega ætli sóknaraðili að byggja á skattframtölum sínum og foreldra sinna frá 1993 og síðar. Þau mótmæla því að G, hafi haft umboð til að skuldbinda F og E með yfirlýsingum um sölu á búfé til sóknaraðila, er hann hafi undirritað skattframtöl þeirra fyrir þeirra hönd sem framteljenda. Hvergi séu til skrifleg gögn um þann gerning og verði því að telja að dánarbúið sé enn eigandi að umræddum búfénaði.
Varnaraðilar byggja málssókn sína á 1. mgr. 2.
gr., 3., 6. og 21. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976. Þá bendi þeir á 8. og 12.
gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 og ákvæði til bráðabirgða I og
Þá er vísað til Hæstaréttardóma í málum nr. 310/1999, 279/1999 og 482/1999.
Niðurstaða
Á árunum 1992 og 1993 brugðu F og E búi á jörð sinni [...], [...]hreppi. Hjónin fluttu til Reykjavíkur. E lést árið 2000 og sat F í óskiptu búi eftir hana. Í kjölfar andláts hans árið 2007 óskuðu erfingjar hjónanna eftir því að bú þeirra yrði tekið til opinberra skipta.
Fyrir dómi gáfu málsaðilar skýrslu svo og H, fyrrverandi sveitarstjóri [...]hrepps og G, mágur E, sem færði skattframtöl E og F á meðan þau bjuggu á jörðinni.
Sóknaraðili kveðst hafa tekið við ábúð á jörðinni af foreldrum sínum og krefst þess að staðfestur verði lífstíðarábúðarréttur hans á henni. Þessa kröfu byggir hann á 6. og 21. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 þar sem þau lög hafi gilt þar til nýju ábúðarlögin nr. 80/2004 hafi tekið gildi.
Varnaraðilar telja sóknaraðila ekki uppfylla skilyrði þessara lagaákvæða.
Í 21. gr. laganna segir að skylt sé „...leiguliða að eiga lögheimili á ábúðarjörð sinni, nytja hana og reka þar bú, nema sveitarstjórn og landsdrottinn samþykki annað“.
Meðal framlagðra skjala er yfirlit frá Bændasamtökum Íslands, yfir framleiðsluheimildir lögbýlisins [...], gefið út 12. september 2008. Samkvæmt því voru, verðlagsárið 1992/1993, seldir af jörðinni 19.775 lítrar af greiðslumarki mjólkur og verðlagsárið 1993/1994 var keypt á jörðina 136,4 ærgilda greiðslumark í sauðfé. Á verðlagsárinu 1997 var keypt á jörðina 25 ærgilda greiðslumark. Frá árinu 1999 og til og með 2008 var greiðslumark lögbýlisins 282,4 ærgildi. Í skjalinu kemur enn fremur fram að innleggjandi hafi, fram til verðlagsársins 1992/1993, verið F en frá þeim tíma til og með 2007 hafi innleggjandi verið A og handhafi beingreiðslna frá 1. september 1993. Þegar mest var voru 9.652 kg lögð inn en að jafnaði milli 4 og 5.000 kg á ári. Af þessu skjali er ljóst að jörðin var nytjuð og þar rekið bú, sbr. 21. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976, þrátt fyrir að eigendur hennar væru þá fluttir til Reykjavíkur. Varnaraðilar halda því ekki fram að sóknaraðili hafi verið ráðsmaður hjá foreldrum sínum en byggja meðal annars á því að hann hafi verið og sé frístundabóndi. Þegar litið er til þess hversu mikið sóknaraðili lagði inn í sláturhús er ekki hægt að fallast á þessa málsástæðu varnaraðila.
Sóknaraðili hefur, frá árinu 1968, átt lögheimili á [...]og telja varnaraðilar að sveitarstjórn og landsdrottinn hafi ekki samþykkt það eins og 21. gr. eldri ábúðarlaga geri ráð fyrir.
Í skattframtali foreldra málsaðila vegna ársins 1992 kemur fram að þau hafi selt sóknaraðila 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrúta fyrir 415.00 kr. og í greinargerð sóknaraðila um eignabreytingar í búrekstri, sem fylgdi skattframtali hans vegna sama árs, kemur fram að hann hafi keypt þennan fjölda gripa af foreldrum sínum á þessu verði. Skattframtalið, eins og önnur skattframtöl hjónanna á meðan þau bjuggu í [...], er undirritað af G, mági E. Fyrir dómi bar G að F hefði sent honum öll gögn svo sem launamiða, afurðamiða og fleiri skjöl í pósti. Frekari upplýsingar hefði F gefið honum í símtölum. Hafi G fært skattframtölin eftir þessum upplýsingum. F og E hafi ekki haft tök á að koma til hans til [...] til þess að lesa skattframtölin yfir og undirrita þau. Þess vegna hafi hann undirritað þau og hafi það verið tekið gott og gilt af skattstjóranum. Kvaðst G hafa gert skattframtöl fyrir aðra bændur á sama hátt. Sérstaklega spurður um hvort sala á búpeningi til sóknaraðila hefði verið rædd við E bar G að E hefði verið afskaplega fáskiptin manneskja og því hefði hún ekkert skipt sér af þessu.
Þrátt fyrir að skattframtalið hafi ekki verið undirritað af foreldrum sóknaraðila heldur Gi Sveinssyni, fyrir þeirra hönd, þykir skattframtalið veita fullyrðingum sóknaraðila nægilega stoð enda ekkert komið fram um það að G hafi haft ástæðu til að skrifa annað inn í framtalið en upplýsingar samkvæmt þeim gögnum sem honum voru send og F veitti honum í síma. Að auki er ekkert komið fram um að sóknaraðili hafi haft einhver áhrif á efni skattframtalsins þannig að varnaraðilar hafa ekki fært neina stoð fyrir þeirri fullyrðingu að þetta afsal búfjár hafi verið málamyndagerningur af hálfu sóknaraðila. Þar fyrir utan undirrituðu foreldrar málsaðila, eigin hendi, skattframtal vegna ársins 1993 en samkvæmt því voru þau ekki skráðir eigendur bústofns og þykja síðari skattframtöl því staðfesta þá ráðstöfun sem skattframtal þeirra vegna 1992 ber vitni um. Í skattframtali vegna ársins 1993 færa foreldrar málsaðila ekki heldur neinar tekjur af eigin atvinnurekstri eins og þau gerðu árin á undan og samþykkja þar með að þau séu ekki lengur rétthafar greiðslumarks jarðarinnar og handhafar beingreiðslu vegna þess.
Sóknaraðili hafði fram til þessa tíma átt fé og haldið það á jörð foreldra málsaðila. Þegar hann kaupir síðan allan sauðfjárbústofn foreldra málsaðila máttu þau gera ráð fyrir að sóknaraðili ræki sauðfjárbúskap sinn á jörð þeirra enda verður ekki af neinum gögnum séð að til hafi staðið að færa greiðslumarkið af lögbýlinu. Ekkert er komið fram um það að þau hafi nokkurn tíma gert athugasemdir við að lögheimili hans væri, þrátt fyrir þetta, áfram á [...]. Verður því litið svo á að samþykki landsdrottins samkvæmt 21. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976 hafi verið veitt fyrir því að sóknaraðili hefði lögheimili á [...] þrátt fyrir að hann ræki bú á jörðinni.
Kemur þá samþykki sveitarstjórnar til skoðunar. Meðal framlagðra gagna eru tvö bréf rituð, 16. febrúar 1993, af þáverandi sveitarstjóra [...]hrepps. Í öðru þeirra er staðfest að sóknaraðili hafi tekið við ábúð að [...], [...]hreppi en í hinu er staðfest að sóknaraðili hafi keypt bústofn föður síns, F.
Í framburði sveitarstjórans fyrrverandi fyrir dómi kom fram að hann teldi sig muna að sóknaraðili hafi hringt í hann og beðið hann að rita bréfin. Hafi sveitarstjórinn gert það í þeirri trú að sóknaraðili hefði fyrir þessu gilda pappíra og að foreldrar hans væru þessu samþykkir en þetta hafi verið um það leyti sem þau brugðu búi og hafi einhver þurft að hirða um það fé sem eftir varð á bænum. Taldi hann sóknaraðila hafa óskað eftir bréfunum til þess að sóknaraðili gæti haldið búinu gangandi á meðan hann hefði heimild til þess og fengið beingreiðslur fyrir að halda þetta fé á jörðinni. Kvaðst sveitarstjórinn ekki í annað sinn hafa skrifað bréf sem þessi enda hafi sveitarstjórnin ekkert skipt sér af því þegar skipt var um ábúanda á jörðum og hafi hann ekki borið erindi sóknaraðila undir neinn í sveitarstjórn.
Það sem fram er komið um kaup sóknaraðila á sauðfé foreldra málsaðila þykir færa stoð fyrir því að bréf rituð af sveitarstjóra [...]hrepps 16. febrúar 1993 séu efnislega rétt. Burtséð frá þessum bréfum hefur sóknaraðili haldið bú á jörðinni frá 1993 en haft lögheimili á [...] án þess að sveitarstjórn [...]hrepps hafi nokkru sinni gert athugasemd við það. Þykir samþykki sveitarfélagsins því liggja fyrir.
Samkvæmt þessu þykja öll skilyrði 21. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 vera uppfyllt.
Varnaraðilar telja enn fremur að ekki séu uppfyllt skilyrði 6. gr. eldri ábúðarlaga þar sem foreldrar málsaðila hafi aldrei ætlað að gera byggingarbréf fyrir jörðinni handa sóknaraðila.
Í 6. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 segir: „Nú hefur landsdrottinn vanrækt að gera byggingarbréf fyrir jörð, og skal þá svo telja, að hún hafi verið byggð lífstíð leigutaka og eftirgjald skal ákveðið af jarðanefnd, nema um annað semjist.“
Sóknaraðili bar fyrir dómi að foreldrar málsaðila hefðu verið orðin heilsulítil, sérstaklega móðir hans, þegar staðið hafi til að þau flyttu suður. Hafi þau verið hrædd við að fara frá jörðinni og hafi það verið til að liðka fyrir því að þau færu að hann ræki búið áfram þannig að þau gætu komið aftur ef þau óskuðu eftir. Hafi sóknaraðili eingöngu tekið við sauðfjárbúskapnum. Síðustu búskaparár foreldra málsaðila hafi sóknaraðili og kona hans aðstoðað þau við öll erfiðustu verkin svo sem smölun, sauðburð og heyskap og hafi einnig leyst foreldrana af þegar þau þurftu að fara til læknis eða í frí.
Sóknaraðili kvaðst líta svo á að hann hefði haft ábúð á [...] frá því að foreldrar hans fluttu burt. Ástæða þess að ekki hefði verið gert byggingarbréf hefði verið sú að því hafi verið haldið opnu að þau kæmu aftur og þegar ekki hafi orðið af því hafi ekki verið hugsað út í það að gera byggingarbréf. Sóknaraðili bar að hann hefði tekið við beingreiðslum vegna sauðfjárbúsins. Jafnframt bar hann að faðir hans hafi aldrei krafið hann um greiðslur fyrir afnot af jörðinni, vegna dúntekju, hreindýraarðs eða annars.
Að hans sögn hafði sveitarfélagið aldrei vefengt hann sem ábúanda í [...], heldur hefði hann á hverju ári fengið boð frá sveitarfélaginu um þátttöku í göngum og öðrum skyldum sem jarðeigendur hafa.
Sóknaraðili kvaðst hafa keypt 136,4 ærgilda greiðslumark á lögbýlið 1993, þegar hann var tekinn við, en faðir hans væri skráður kaupandi að því. Hafi sá háttur verið hafður á þar sem þeim möguleika hafi verið haldið opnum að foreldrar hans ættu afturkvæmt á bæinn.
Sóknaraðili hefur rekið bú á lögbýlinu [...], [...]hreppi, frá árinu 1993 og fram til þessa dags. Ekki er komið fram að það hafi verið andstætt vitund og vilja jarðeigenda en byggingarbréf var ekki gert. Því ber samkvæmt 6. gr. eldri ábúðarlaga að telja að jörðin hafi verið byggð sóknaraðila fyrir lífstíð. Þar sem ekki var gert byggingarbréf um jörðina verður ekki byggt á þeirri málsástæðu að skriflegt samþykki maka hafi skort.
Ekki þarf að bera endurgjald undir jarðanefnd nema landsdrottinn og leigutaki nái ekki að semja um það sín í milli. Þar sem hvorki landsdrottinn, það er foreldrar málsaðila, né leigutaki, það er sóknaraðili, báru ákvörðun endurgjalds undir jarðanefnd verður jafnframt að líta svo á að þeir hafi náð samkomulagi um endurgjald, hvort sem það var nokkurt eða ekkert.
Varnaraðilar byggja á því að samkvæmt 5. og 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 sé skylt að afla samþykkis sveitarfélags og jarðanefndar vegna fyrirhugaðra aðilaskipta að fasteign. Í 4. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 segir að samþykkis þurfi ekki að afla ráðstafi eigandi fasteignaréttindum til einhvers þeirra, sem séu taldir upp í 1. tölulið 35. gr. laganna. Samkvæmt þeim þarf ekki að afla samþykkis jarðanefndar þegar jarðeigandi selur eða afhendir jörð maka sínum, barni sínu, barnabarni, kjörbarni, fósturbarni, systkini eða foreldri, enda taki viðtakandi jörðina til ábúðar og fullra nytja. Foreldrar málsaðila þurftu því ekki að afla samþykkis jarðanefndar til þess að afhenda sóknaraðila jörðina til fullra nytja og ábúðar. Aðilaskiptin þurftu því ekki heldur neina umfjöllun í sveitarstjórn eins og varnaraðilar byggja á.
Ekki verður séð að hér hafi þýðingu sú málsástæða varnaraðila að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 2. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976 um aðkomu jarðanefndar að aðilaskiptum á jörðinni enda á jarðanefnd einvörðungu aðkomu að aðilaskiptum að ábúð samkvæmt þessu tiltekna ákvæði hafi jörð ekki verið byggð eða ekki byggð hæfum ábúanda.
Þykja skilyrði 6. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976 vera uppfyllt. Þar sem skilyrði eldri ábúðarlaga þykja vera uppfyllt verður, með vísan ákvæðis III til bráðabirgða í nýjum ábúðarlögum nr. 80/2004, staðfest að sóknaraðili hafi lífstíðarábúðarrétt á jörðinni [...], [...]hreppi.
Í öðru lagi krafðist sóknaraðili þess að viðurkenndur yrði eignarréttur hans að samtals 155,6 ærgilda fullvirðisrétti af 282,4 ærgilda fullvirðisrétti er fylgi jörðinni [...] í [...]hreppi og til vara að viðurkenndur yrði eignarréttur hans á samtals 25 ærgilda fullvirðisrétti er fylgi jörðinni.
Við meðferð málsins fyrir dómi óskaði sóknaraðili eftir að breyta kröfugerð sinni þannig að viðurkenndur yrði réttur hans, við ábúðarlok hans, til endurgjalds fyrir samtals 161,4 ærgildi af greiðslumarki jarðarinnar [...] í [...]hreppi, en til vara 25 ærgildi af greiðslumarki jarðarinnar.
Þá breytingu á kröfugerðinni að krefjast viðurkenningar á rétti til endurgjalds fyrir tiltekinn fjölda ærgilda í stað viðurkenningar á eignarrétti að tilteknum fjölda ærgilda kvaðst sóknaraðili gera til þess að færa kröfugerðina til samræmis við 3. mgr. 54. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.
Þá breytingu á kröfugerðinni sem varði fjölda ærgilda kvaðst hann byggja á áskilnaði í greinargerð sinni og yfirliti Bændasamtaka Íslands, dags. 12. september 2008, sem varnaraðilar hafi lagt fram í málinu 21. janúar eftir að greinargerð sóknaraðila hafi verið lögð fram. Í yfirliti Bændasamtakanna standi að keypt hafi verið 136,4 ærgildi á jörðina 1993/94 en samkvæmt þeim upplýsingum sem sóknaraðili hafi miðað við hafi keypt ærgildi þá verið 130,6 eins og komi fram í greinargerð hans.
Varnaraðilar mótmæltu því að sóknaraðili gæti komið að nokkrum breytingum á kröfugerð sinni.
Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. gilda lög um meðferð einkamála um meðferð ágreiningsmála vegna skipta á dánarbúum. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal vísa máli frá dómi sé það höfðað til úrlausnar um rétt eða skyldu sem sóknaraðili játar eða sýnt er á annan hátt að sé ekki enn orðin til.
Þar sem niðurstaðan er sú að sóknaraðili hafi lífstíðarábúðarrétt á jörðinni verður ekki í þessu máli tekin afstaða til þess hvaða rétt hann kann að eiga á hendur þeim sem verður eigandi jarðarinnar þegar ábúð sóknaraðila þar lýkur. Af þeim sökum verður að vísa frá dómi kröfum hans um viðurkenningu réttar til endurgjalds fyrir nánar tilgreindan fjölda ærgilda af greiðslumarki sem er skráð á jörðina.
Því þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort þessi breyting á kröfugerðinni er innan þess ramma sem settur var í upphaflegri kröfugerð og aðeins nánari útfærsla á henni.
Eins og áður greinir þykir sannað með skattframtölum sóknaraðila og foreldra málsaðila að sóknaraðili hafi keypt 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrúta, af foreldrum málsaðila og verður því að hafna þeirri kröfu varnaraðila að viðurkennt sé að þessi bústofn verði talin til eigna dánarbúsins.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og vegna þess hvernig þetta mál er vaxið þykir rétt að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Staðfest er að sóknaraðili, A, eigi rétt til ábúðar á lögbýlinu [...], [...]hreppi, fyrir lífstíð.
Kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á rétti til endurgjalds fyrir tiltekinn fjölda ærgilda af greiðslumarki lögbýlisins er vísað frá dómi.
Hafnað er þeirri kröfu varnaraðila B, C og D að 69 ær, 11 gimbrar og 3 lambhrútar, verði talin til eigna dánarbús E og F.
Málskostnaður fellur niður.