Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2016
Lykilorð
- Slysatrygging
- Málsgrundvöllur
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2016. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 4.013.123 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 30. apríl 2010 til 18. október 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, en til vara að stefndu verði óskipt gert að greiða honum bætur að álitum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta á rætur að rekja til þess að áfrýjandi slasaðist er hann ók bifreiðinni HK-444 í eigu stefnda, Erlings, utan í gangavegg Fáskrúðsfjarðarganga 15. desember 2006. Málið var höfðað með stefnu birtri á hendur stefndu 25. nóvember 2014. Í málsatvikakafla stefnu kom fram að ökutækið væri ,,vátryggt lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Verði tryggingum hf.“ Um málsástæður og lagarök vísaði áfrýjandi til 1. mgr. 88. gr., 90. gr., 1. mgr. 92. gr. og 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og þar greinir hins vegar að bifreiðin hafi verið ,,vátryggð lögboðinni slysatryggingu farþega og ökumanns hjá stefnda, Verði tryggingum hf.“
Greinargerð var skilað af hálfu stefnda, Varðar trygginga hf., en af henni varð ekki ráðið að með henni væri einnig verið að gæta hagsmuna stefnda, Erlings, enda sagði í greinargerðinni að málið lyti að kröfu áfrýjanda um greiðslu úr slysatryggingu ökumanns vegna ökutækisins HK-444.
Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu báðir sýknaðir af kröfu áfrýjanda og málskostnaður felldur niður milli aðila, þar sem krafa áfrýjanda var talin fyrnd er málið var höfðað. Í niðurstöðum dómsins sagði að ,,Samkvæmt 95. gr. laga nr. 50/1987 er vátryggingafélag greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna fyrir tjón sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis. Bifreið sú sem [áfrýjandi] ók var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Verði tryggingum hf.“ Þannig verður glögglega ráðið af forsendum héraðsdóms að bótagrundvöllur var ekki talinn vera reistur á 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga um slysatryggingu ökumanns, heldur lögboðinni ábyrgðartryggingu samkvæmt 88. gr. laganna.
Við málflutning fyrir Hæstarétti kvaðst áfrýjandi nú reisa kröfur sínar á 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga og féll frá kröfum á hendur stefnda Erlingi, en greinargerð hafði verið skilað fyrir Hæstarétti fyrir báða stefndu, gagnstætt því sem verið hafði í héraði.
Eins og að framan er rakið var málsgrundvöllur áfrýjanda frá upphafi í hæsta máta óljós, eins og ráða mátti af því til hvaða lagaákvæða var vísað af hans hendi í stefnu og hvernig aðild málsins var háttað. Meðferð málsins fyrir héraðsdómi og greinargerð stefnda, Varðar trygginga hf. dró dám af því hvaða farvegur málinu var markaður í upphafi og féll héraðsdómur á þeim röngu forsendum að málið væri höfðað til greiðslu bóta úr lögboðinni ábyrgðartryggingu stefnda, Varðar trygginga hf. Hefur málatilbúnaður áfrýjanda samkvæmt öllu framangreindu verið svo á reiki að ekki verður komist hjá að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest, en málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður milli aðila. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Óskars Guðna Gunnarssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2015.
Mál þetta, sem var dómtekið 6. október sl., var höfðað 25. nóvember 2014.
Stefnandi er Óskar Guðni Gunnarsson, Skógarbraut 1103 í Reykjanesbæ.
Stefndu eru Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25 í Reykjavík og Erlingur Ólafsson, Staðartungu landi, Akureyri.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði óskipt gert að greiða honum 4.013.123 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 30. apríl 2010 til 18. október 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að honum verði dæmdar bætur að álitum óskipt úr hendi stefndu að því leyti sem einstakir hlutar kröfu stefnanda verði ekki teknir til greina. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi, Vörður tryggingar hf., krefst aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn falla niður.
I
Stefnandi lenti í umferðarslysi þann 15. desember 2006. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi var að aka pallbifreið af gerðinni Nissan Patrol, með skráningarnúmerið HK-444, um Fáskrúðsfjarðargöng er hann missti stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að bifreiðin skall með töluverðu afli utan í gangavegginn. Skráður eigandi bifreiðarinnar á tjónsdegi var stefndi, Erlingur Ólafsson, og var ökutækið vátryggt lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Verði tryggingum hf.
Stefnandi fór á Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað með sjúkrabíl eftir slysið þar sem hann gekkst undir læknisskoðun. Í vottorði Björns Magnússonar læknis, dags. 2. september 2010, kemur fram að stefnandi hafi orðið fyrir meiðslum á hægri síðu, á hægra hné og hægra fæti. Þá hafi hann kvartað yfir verkjum hægra megin í brjóstkassa.
Þann 29. júní 2009 veitti stefnandi Baldvini Hafsteinssyni hæstaréttarlögmanni fullt og ótakmarkað umboð til þess að fara með mál hans vegna umferðarslyssins. Með símbréfi, dags. 16. nóvember 2009, óskaði lögmaðurinn eftir því við stefnda, Vörð tryggingar hf., að honum yrðu send öll gögn og upplýsingar sem stefndi hefði undir höndum um umferðaróhapp stefnanda.
Stefnandi gekkst undir skoðun hjá Sveinbirni Brandssyni bæklunarskurðlækni 1. febrúar 2010. Í læknisvottorði Sveinbjarnar, dags. 23. ágúst 2010, greinir að stefnandi hafi orðið fyrir áverkum á hálsi, hægri öxl og hné í slysinu. Hann hafi talsverð einkenni sem hafi áhrif á daglegt líf hans og vinnu. Greinst hafi breytingar á sinum í hægri öxl sem ekki sé hægt að útiloka að hafi komið við slysið og hugsanlega þurfi að gera aðgerð á öxlinni vegna þess. Það er niðurstaðan læknisins að líklegt sé að stefnandi hafi einhver varanleg einkenni frá áverkum sínum og að frekari meðferð breyti ekki miklu þar um.
Stefnandi óskaði dómkvaðningar matsmanns með matsbeiðni, dags. 2. október 2013, til þess að meta orsakatengsl milli slyssins og einkenna stefnanda, stöðugleikatímapunkt, tímabundið atvinnutjón og tímabil þjáningabóta auk varanlegs miska og örorku. Þá aflaði stefnandi vottorðs Jóns Gunnars Hannessonar heimilislæknis, dags. 7. apríl 2014, um sjúkrasögu hans.
Þann 20. júní 2014 var Björn Pétur Sigurðsson bæklunarskurðlæknir dómkvaddur matsmaður. Í matsgerð hans, dags. 3. september 2014, kemur fram að hann telji orsakatengsl vera milli slyssins 15. desember 2006 og einkenna stefnanda frá hægri öxl og brjóstkassa. Matsmaður telur stöðugleikapunkt vera 15. júní 2007. Fram kemur að matsmanni hafi engar upplýsingar borist um tímabundið atvinnutjón, en samkvæmt stefnanda hafi hann snúið aftur til starfa 1. mars 2007. Matsmaður meti tímabil þjáningabóta þannig að stefnandi hafi verið rúmliggjandi frá 15. desember 2006 til næsta dags en frá þeim tíma til 1. mars 2007 hafi hann verið batnandi án rúmlegu. Varanlegur miski sé 7 stig, þar af 5 stig vegna hægri axlar og 2 stig vegna einkenna frá bringubeini. Matsmaður telur hins vegar að hann hafi skort forsendur til að meta varanlega örorku.
Lögmaður stefnanda sendi matsmanni erindi, dags. 9. október 2014, þar sem hann óskaði þess að matsmaðurinn tæki matið upp og gæfi út nýja matsgerð með efnislegri og rökstuddri niðurstöðu varðandi varanlega örorku stefnanda. Matsmaður svaraði með erindi, dags. 4. nóvember 2014, þar sem fram kemur að hann standi við niðurstöðu sína.
Stefnandi krafði stefnda, Vörð tryggingar hf., um greiðslu bóta á grundvelli matsgerðarinnar. Með bréfi, dags. 6. október 2014, hafnaði stefndi greiðsluskyldu með vísan til þess að krafa stefnanda væri fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
II
Stefnandi byggir kröfu sína um bætur á XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 1. mgr. 88. gr., 90. gr., 1. mgr. 92. gr. og 97. gr. Sannað sé með matsgerð að orsakatengsl séu milli slyssins 15. desember 2006 og einkenna stefnanda frá hægri öxl og brjóstkassa. Stöðugleikapunktur sé 15. júní 2007 samkvæmt matsgerðinni.
Endanleg fjárhæð dómkröfu stefnanda sundurliðist þannig að miski samkvæmt matsgerð Björns Péturs Sigurðssonar bæklunarskurðlæknis sé metinn til 7 stiga og sé því gerð krafa um 711.865 krónur vegna þess. Þá sé gerð krafa vegna varanlegrar örorku á grundvelli lögjöfnunar sem miðist við 7% varanlega örorku á grundvelli niðurstöðu matsmanns um varanlegan miska og sé krafan því 3.301.258 krónur vegna þessa kröfuliðar. Samtals nemi krafan því 4.013.123 krónum.
Stefnandi byggi á því að þar sem matsmaður hafi ekki komist að niðurstöðu um hver varanleg örorka stefnanda sé, þar sem ekki hafi reynst unnt að afla fullnægjandi gagna um tekjur stefnanda, beri að lögjafna frá 8. gr. skaðabótalaga og miða varanlega örorku við niðurstöðu matsmanns um varanlegan miska. Varanlegur miski hafi verið metinn 7 stig og beri því að miða varanlega örorku við 7%. Verði ekki fallist á lögjöfnun beri að dæma bætur fyrir varanlega örorku að álitum, þar sem ljóst megi vera að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegri örorku, þótt honum sé ókleift að leggja fram fullnægjandi tekjuupplýsingar til þess að matsmaður geti komist að niðurstöðu. Stefnandi hafi verið sjómaður þegar slysið hafi átt sér stað en hafi þurft að hverfa frá því starfi vegna líkamstjóns síns. Hann hafi starfað erlendis og því ekki verið íslenskur skattþegn og ekki skilað skattframtali á Íslandi. Í ljósi þessa megi gera ráð fyrir að varanleg örorka hans sé að minnsta kosti jafnhá eða hærri en varanlegur miski. Krafa hans byggist á lágmarks tekjuviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi byggi á því að krafa hans sé ekki fyrnd. Honum hafi fyrst orðið ljóst að hann hefði orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna slyssins við skoðun hjá Sveinbirni Brandssyni bæklunarskurðlækni 1. febrúar 2010. Þá fyrst hafi legið fyrir læknisfræðilegt mat á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni. Fram að þeim tíma hafi stefnandi vonast til þess að ná sér að fullu af einkennum sínum. Áverkar sem stefnandi hafi hlotið í slysinu 15. desember 2006, svo sem breytingar á sinum, séu þess eðlis að þeir ágerist með tímanum. Það hafi því ekki verið óeðlilegt að stefnandi áttaði sig ekki á því að hann hefði orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna slyssins fyrr en við skoðun sérfræðings 1. febrúar 2010. Fyrir þann tíma hafði stefnandi ekki farið til læknis vegna áverkanna og ekki fengið neina meðferð við einkennum sínum, en haldið áfram starfi sem sjómaður.
Fyrningarfrestur bótakröfu vegna líkamstjóns byrji ekki að líða, fyrr en stefnandi geri sér grein fyrir því að áverkar eftir slys séu varanlegir, en þá eigi stefnandi þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar, sbr. 99. gr. umferðarlaga. Miðað hafi verið við að tjónþoli megi ekki hafa gert sér grein fyrir því að líkamstjón hans sé varanlegt fyrr en sérfræðingur, annaðhvort í bæklunarskurðlækningum eða taugalækningum, greini varanlegan áverka.
III
Stefndi, Vörður tryggingar hf., byggir sýknukröfu sína aðallega á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Við mat á því hvenær tjónþoli hafi mátt gera sér grein fyrir kröfu sinni og fyrst getað leitað fullnustu hennar beri að beita hlutlægum mælikvarða. Önnur viðmið en hlutlæg myndu leiða til þess að tjónþoli gæti dregið það árum saman án ástæðu að leita sérfræðinga til að meta afleiðingar slyss, án þess að það hefði áhrif á upphaf fyrningarfrestsins. Slík viðmið myndu þannig í reynd leiða til þess að tjónþoli réði því sjálfur hvenær fyrningarfresturinn byrjaði að líða. Samkvæmt dómvenju beri við mat á upphafi fyrningarfrestsins fyrst og fremst að líta til þess hvenær fyrst var tímabært að meta afleiðingar slyssins að mati matsmanna.
Dómkvaddur matsmaður hafi metið það svo að tímabært hefði verið að meta afleiðingar umferðarslyssins hálfu ári eftir slys, eða 15. júní 2007. Af þeim læknisfræðilegu gögnum sem stefnandi hafi lagt fram í málinu verði ekki ráðið að nein breyting hafi orðið á heilsufari stefnanda frá því að það hafi verið talið orðið stöðugt. Í læknisvottorði Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 23. ágúst 2010, komi fram að stefnandi hafi ekki verið í neinu eftirliti eða meðferð vegna áverkanna öðru en fyrstu meðferð á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað á slysdegi. Þá komi fram í vottorðinu að háls, hægri öxl og bæði hné hefðu valdið stefnanda heilmiklum óþægindum alla tíð frá slysi. Stefnandi hafi hins vegar ekki leitað til læknis vegna þessara einkenna fyrr en 1. febrúar 2010 þegar hann hafi leitað til Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis að tilhlutan lögmanns síns að því er virðist til að leggja grunn að bótakröfu á hendur stefnda.
Í ljósi framanritaðs verði að miða við að stefnanda hafi mátt vera ljóst eigi síðar en árið 2007 að hann hefði hlotið varanlegt líkamstjón við slysið. Stefnandi hafi engin haldbær rök fært fram fyrir því að hann hafi ekki átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar á því ári. Læknisvottorð bendi til þess að ástand stefnanda hafi verið svipað allt frá slysinu og að ekki hafi verið að vænta sérstakra breytinga þar á. Aðgerðarleysi stefnanda tengt óbreyttu heilsufari hans bendi til þess að honum hafi mátt vera kunnugt um kröfu sína en látið hjá líða að leita fullnustu hennar. Með hliðsjón af því beri að miða við að fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað að líða um áramótin 2007/2008 og hafi þannig verið liðinn í árslok 2011.
Verði ekki fallist á að miða skuli við að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða þegar matsmaður taldi heilsufar stefnanda stöðugt, sé á því byggt að miða beri við að fyrningarfrestur hafi í síðasta lagi byrjað að líða þegar stefnandi hafi leitað til Baldvins Hafsteinssonar hæstaréttarlögmanns árið 2009. Stefnandi hafi veitt lögmanninum umboð 29. júní 2009 til þess að fara með mál hans vegna slyssins. Það sama ár hafi lögmaðurinn leitað eftir því við stefnda að honum yrðu send öll gögn og upplýsingar um stefnanda sem félagið kynni að hafa í sínum fórum. Ljóst sé því að upp frá því tímamarki hafi stefnanda verið ljóst um kröfu sína og þá haft í huga að leita fullnustu hennar, enda beri orðalag umboðs lögmannsins skýrlega með sér að hlutverk hans hafi verið að innheimta slysabætur vegna slyssins. Í ljósi þessara ályktana sé einboðið að krafa stefnanda um bætur úr slysatryggingu ökumanns og eiganda bifreiðarinnar hafi í síðasta lagi fyrnst í árslok 2013.
Verði ekki fallist á að krafa stefnanda sé fyrnd byggi stefndi á því að ósannað sé að líkamleg einkenni stefnanda sé að rekja til slyssins. Stefnandi hafi leitað til læknis á slysdegi 15. desember 2006 en ekki leitað til læknis að nýju vegna einkenna sem hann rakti til slyssins fyrr en 1. febrúar 2010. Engar upplýsingar sé því að finna um heilsufar stefnanda frá slysdegi til 2010, en í stefnu sé upplýst að stefnandi hafi á þeim tíma starfað í Bretlandi. Stefndi telji ekki unnt að útiloka að annað slys eða önnur atvik, sem ekki séu skrásett hér á landi, séu líklegri skýring einkenna stefnanda. Þá gæti ósamræmis í læknisfræðilegum gögnum varðandi slys stefnanda. Í læknisvottorði Björns Magnússonar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað komi fram að stefnandi hafi kvartað undan verkjum í hægri síðu, á hægra hné, í hægra fæti og hægra megin í brjóstkassa. Þegar stefnandi hafi leitað til Sveinbjörns Brandssonar í febrúar 2010 hafi hann hins vegar lýst verkjum í hálsi, hægri öxl og báðum hnjám.
Stefnandi hafi verið metinn til 5% miska vegna hægri axlar, en í matsgerð sagði um þennan þátt: „Einkenni og myndir, eins og Óskar birtist með hjá bæklunarskurðlækninum, geta hvort sem er verið afleiðing aldurs og fyrri starfa eða ákveðinna slysa. Í ljósi hins mikla árekstrar, einkenna frá hægri brjóstkassa eða síðu og orða bæklunarskurðlæknisins metur matsmaður það svo, að líklegra en ekki sé að einkenni og breytingar frá hægri öxl megi rekja til slyssins þann 15. desember 2006.“ Stefnandi telji þessa niðurstöðu matsmanns ekki eiga sér stoð í gögnum málsins, enda liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi hlotið meiðsl á öxl við slysið. Þá hafi ekki verið litið til þess að ekkert liggi í raun fyrir um heilsufar stefnanda í 12 ár, frá 1998 til 2010 þegar hann hafi starfað sem sjómaður fyrir erlend útgerðarfélög, utan gagna frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað vegna slyssins. Sjómennska sé hættulegri lífi og limum þeirra sem hana stundi en flest önnur störf, líkamlegt álag sé mikið og vinnan oft einhæf. Það sé því ekki útilokað að þau einkenni sem stefnandi lýsi geti átt sér aðrar skýringar en umferðarslysið árið 2006, til dæmis slys, sjúkdómar eða álag við vinnu. Það eina sem liggi fyrir um fyrra heilsufar stefnanda sé samantekt unnin af Jóni Gunnari Hannessyni lækni sem virðist fyrst og fremst vera unnin eftir samtöl við stefnanda. Í samantektinni sé vísað um slysaatburðinn til gagna frá fjórðungssjúkrahúsinu en ekki sé vísað til neinna annarra skráðra heimilda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda um sýknu sé krafist verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda. Krafa stefnanda um greiðslu bóta fyrir varanlega örorku sé algerlega ósönnuð. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar hafi matsmann skort forsendur til að meta varanlega örorku stefnanda og hann hafi því ekki gert það. Engin gögn hafi verið lögð fram um tekjusögu stefnanda, hvorki fyrir né eftir slysið. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku ef líkamstjón veldur varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna, þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt. Upplýsingar um tekjur stefnanda fyrir og eftir slysið séu því forsenda þess að hægt að sé að meta hvort líkamstjón hafi í reynd valdið skertri getu stefnanda til að afla tekna. Miskastig skipti engu máli í því sambandi. Engin rök standi til þess að lögjafna við 8. gr. og 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en í ákvæðunum sé að finna fyrirmæli um það við hvaða árslaun skuli miða til ákvörðunar bóta þegar staðreynt hafi verið að varanlegri örorku sé til að dreifa samkvæmt 5. gr. laganna. Stefnandi hafi engan reka gert að því að sanna að geta hans til að afla sér vinnutekna hafi skerst varanlega. Sönnunarbyrði fyrir umfangi meints tjóns stefnanda hvíli á honum sjálfum.
IV
Stefnandi lenti í umferðarslysi þann 15. desember 2006 er hann ók um Fáskrúðsfjarðargöng og eru málsatvik óumdeild. Samkvæmt 95. gr. laga nr. 50/1987 er vátryggingafélag greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna fyrir tjón sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis. Bifreið sú sem stefnandi ók var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Verði tryggingum hf.
Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort krafa stefnanda sé fyrnd á grundvelli 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá er einnig deilt um orsakatengsl og hvort stefnandi geti átt rétt á bótum fyrir varanlega örorku.
Ágreiningslaust er að krafa stefnanda fyrnist á fjórum árum, sbr. 99. gr. umferðarlaga, en samkvæmt því ákvæði fyrnast kröfur, samkvæmt XIII. kafla laganna, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, þó aldrei síðar en tíu árum frá tjónsatburði.
Stefnandi leitaði á sjúkrahúsið í Neskaupstað strax í kjölfar slyssins. Í vottorði Björns Magnússonar læknis, dags. 2. september 2010, vegna komu stefnanda á sjúkrahúsið 15. desember 2006 kemur fram að stefnandi hafi fengið töluvert mikla verki strax eftir áreksturinn í hægri síðu, hægra hné og hægri fót auk þess sem hann hafi kvartað yfir verkjum hægra megin í brjóstkassa. Engin merki hafi verið um beinbrot. Stefnanda hafi að öðru leyti liðið vel og útskrifast heim án fullkominnar skoðunar, en hann hafi skrifað undir blað um að hann vildi ekki áframhaldandi rannsóknir eða meðferð. Þá kemur fram að stefnandi hafi ekki komið aftur á sjúkrahúsið vegna slyssins, en hann hafi komið af öðrum ástæðum.
Óumdeilt er að stefnandi hefur ekki leitað sér læknismeðferðar eftir slysið. Hann leitaði til Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis 1. febrúar 2010 sem ritaði vottorð, dags. 23. ágúst 2010, að beiðni þáverandi lögmanns hans. Í vottorðinu kemur fram að háls, hægri öxl og bæði hné hafi valdið stefnanda heilmiklum óþægindum frá slysi. Taldi læknirinn líklegt að stefnandi hefði einhver varanleg einkenni frá þessum áverkum og að frekari meðferð breytti ekki miklu þar um. Stefnandi byggir á því að það hafi fyrst verið við skoðun framangreinds læknis sem hann hafi gert sér grein fyrir því að hann hefði orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna slyssins. Hann hafi því ekki átt þess kost að leita fullnustu bótakröfu sinnar fyrr en á árinu 2010.
Samkvæmt matsgerð Björns Péturs Sigurðssonar dómkvadds matsmanns, dags. 3. september 2014, er stöðugleikapunktur 15. júní 2007. Í matsgerðinni kemur fram að stefnandi hafi að eigin sögn verið í frítúr þegar slysið hafi orðið, en hann hafi snúið aftur til vinnu 1. mars 2007. Það ár hafi þó reynst honum erfitt vegna afleiðinga slyssins. Fyrir dómi greindi stefnandi frá því að hann hefði verið að minnsta kosti tíu mánuði á sjó á hverju ári fyrir slysið. Hann hefði einungis náð um fimm mánuðum á árinu 2007, hálfu ári 2008 og eftir það ekki fleiri en fimm mánuðum á ári. Hann hafi svo gefist upp á starfinu 2011 eða 2012. Fyrsti túrinn eftir slysið hefði verið versti túrinn í lífi hans.
Af framangreindu og þeim læknisfræðilegu gögnum sem hér hefur verið gerð grein fyrir verður ekki ráðið að nein breyting hafi orðið á heilsufari stefnanda frá því að það var talið stöðugt 15. júní 2007, en áverkar stefnanda háðu honum þá þegar og hann átti í erfiðleikum með að stunda vinnu. Hann leitaði þrátt fyrir það ekki til læknis fyrr en árið 2010, eftir að hann hafði gefið lögmanni umboð til að fara með mál sitt vegna slyssins.
Með hliðsjón af framangreindu þykir verða að miða við að stefnanda hafi mátt vera ljóst þegar á árinu 2007 að hann hefði hlotið varanlegt líkamstjón vegna slyssins. Ekkert hefur komið fram um að hann hafi ekki þegar á því ári átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar í skilningi 99. gr. umferðarlaga. Byrjaði fyrningarfrestur kröfunnar því að líða við lok þess árs. Krafan var því fyrnd er málið var höfðað í nóvember 2014. Verða stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda.
Með hliðsjón af atvikum málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Vörður tryggingar hf. og Erlingur Ólafsson, eru sýknir af kröfu stefnanda, Óskars Guðna Gunnarsson.
Málskostnaður fellur niður.