Hæstiréttur íslands

Mál nr. 110/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Kaupleiga
  • Gengistrygging
  • Fullnaðarkvittun


                                     

Fimmtudaginn 6. nóvember 2014.

Nr. 110/2014.

Lýsing hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Eykt ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

og gagnsök

Fjármálafyrirtæki. Kaupleiga. Gengistrygging. Fullnaðarkvittun.

E ehf. höfðaði mál á hendur L hf. vegna ágreinings aðilanna um uppgjör 32 gengistryggðra kaupleigusamninga um lausafjármuni vegna atvinnurekstrar E ehf., sem þeir höfðu gert með sér, en við bráðabirgðauppgjör samninganna voru 28 þeirra óuppgerðir en fjórir þeirra höfðu verið efndir að fullu. Talið var að gengistrygging kaupleigusamninganna hefðu verið í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og að L hf. gæti ekki krafið E ehf. um viðbótargreiðslu vegna afborgana og vaxta af skuld sem innt hafði verið af hendi á tímabilinu fram að endurútreikningi hennar, enda yrði litið svo á að E ehf. væri eins settur og ef hann hefði fengið í hendur fullnaðarkvittun fyrir hverri afborgun. Þá var talið að þetta gilti jafnt um þá 28 samninga, sem ekki höfðu verið efndir að fullu við endurútreikninginn, og hina fjóra, sem þá voru að fullu uppgerðir. Var því tekin til greina fjárkrafa E ehf. um endurheimtu ofgreidds fjár.  

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. apríl 2014. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 65.235.733 krónur, en til vara 63.318.506 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. mars 2011 til greiðsludags. Verði hvorug krafan tekin til greina krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Að því frágengnu krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 19.442.066 krónur, en til vara 15.646.895 krónur, með dráttarvöxtum eins og áður greinir. Að öllu þessu frágengnu krefst gagnáfrýjandi viðurkenningar á því að eftirstöðvar krafna aðaláfrýjanda á hendur sér 7. mars 2011 hafi numið 3.174.340 krónum. Loks krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 Eins og nánar greinir í héraðsdómi gerðu aðilarnir alls 33 kaupleigusamninga um lausafjármuni vegna atvinnurekstrar gagnáfrýjanda á tímabilinu frá 22. september 2004 til 5. nóvember 2007. Þessum samningum var öllum sammerkt að samið hafði verið um að fjárhæð leigu samkvæmt þeim ætti að taka breytingum eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Að gengnum dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og 16. september sama ár í máli nr. 471/2010 reiknaði aðaláfrýjandi á nýjan leik út stöðuna i viðskiptum sínum við gagnáfrýjanda og tók þar mið af því að ákvæði um gengistryggingu í kaupleigusamningunum hafi verið andstæð 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Var þannig lagt til grundvallar að höfuðstóll upphaflegrar skuldar gagnáfrýjanda samkvæmt hverjum samningi hafi verið í íslenskum krónum án verðtryggingar. Vextir af skuldinni ættu að ráðast af 4. gr. laga nr. 38/2001, en ekki af ákvæðum samninganna, þar sem mælt var fyrir um að hún bæri LIBOR vexti með nánar tilteknu álagi. Vextir samkvæmt nefndu lagaákvæði voru í hverju tilviki reiknaðir af skuldinni frá öndverðu. Dregnar voru síðan frá greiðslur, sem gagnáfrýjandi hafði innt af hendi, og fékkst þannig sú niðurstaða að heildarskuld hans við aðaláfrýjanda næmi 48.701.639 krónum. Sú fjárhæð tók bæði mið af 28 kaupleigusamningum, sem gagnáfrýjandi hafði ekki greitt upp þegar endurútreikningurinn var gerður, og 4 kaupleigusamningum, sem aðilarnir höfðu efnt að fullu á árunum 2007 til 2009. Gagnáfrýjandi felldi sig ekki við þennan endurútreikning og fór svo að aðilarnir sömdu 11. nóvember 2011 um bráðabirgðauppgjör á viðskiptum sínum, en jafnframt um að gagnáfrýjandi myndi bera ágreining þeirra undir dómstóla. Því til samræmis höfðaði hann mál þetta 21. sama mánaðar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákvæði í kaupleigusamningum aðilanna um gengistryggingu hafi verið í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, svo og að aðaláfrýjandi geti ekki krafið gagnáfrýjanda um viðbótargreiðslu vegna afborgana og vaxta af skuld þess síðarnefnda, sem hann innti af hendi á tímabilinu fram að endurútreikningi hennar, enda verður litið svo á að gagnáfrýjandi sé eins settur og ef hann hefði fengið í hendur fullnaðarkvittun fyrir hverri afborgun. Gagnstætt því, sem komist var að niðurstöðu um í héraðsdómi, verður þetta ekki aðeins að gilda um greiðslur af þeim 28 kaupleigusamningum, sem ekki höfðu verið efndir að fullu við endurútreikninginn, heldur einnig um greiðslur af þeim 4 samningum, sem þá voru að fullu uppgerðir. Með því að staðfesta verður niðurstöðu héraðsdóms um aðrar málsástæður aðilanna verður aðalkrafa gagnáfrýjanda tekin til greina, en þó þannig að ákvæði hins áfrýjaða dóms um dráttarvexti verða látin standa óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Aðaláfrýjandi, Lýsing hf., greiði gagnáfrýjanda, Eykt ehf., 65.235.733 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. desember 2011 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 2.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 20. september sl., var höfðað 18. nóvember 2011 af stefnanda Eykt ehf., kt. 560192-2319, Skúlagötu 63, Reykjavík á hendur stefnda Lýsingu hf., kt. 621101-2420, Ármúla 3, 108 Reykjavík. Dómsuppkvaðning dróst fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu þó ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: 

Aðalkrafa: Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 65.235.733 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. mars 2011 til greiðsludags.

1. varakrafa: Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 63.318.506 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. mars 2011 til greiðsludags.

2. varakrafa: Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 19.442.066 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. mars 2011 til greiðsludags.

3. varakrafa: Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 15.646.895 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. mars 2011 til greiðsludags.

4. varakrafa: Að viðurkennt verði með dómi að uppgjör stefnda sé rangt og eftirstöðvar krafna stefnda á hendur stefnanda eftir endurútreikning vegna uppgjörs á kaupleigusamningum þann 7. mars 2011 nemi að hámarki 3.174.340 krónum.  

5. varakrafa: Að viðurkennt verði með dómi að uppgjör stefnda sé rangt og eftirstöðvar krafna stefnda á hendur stefnanda eftir endurútreikning vegna uppgjörs á kaupleigusamningum þann 7. mars 2011 nemi að hámarki 24.144.026 krónum.

6. varakrafa: Að viðurkennt verði með dómi að uppgjör stefnda sé rangt og eftirstöðvar krafna stefnda á hendur stefnanda eftir endurútreikning vegna uppgjörs á kaupleigusamningum þann 7. mars 2011 nemi að hámarki 39.401.229. krónum  

Í öllum tilfellum krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins með hliðsjón af framlögðum málskostnaðarreikningi.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru eftirfarandi:

Stefndi krefst sýknu af aðalkröfu, fyrstu, annarri og þriðju varakröfu stefnanda og aðallega frávísunar á fjórðu, fimmtu, og sjöttu varakröfu stefnanda en til vara sýknu af þeim. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

I

Á tímabilinu 22. september 2004 til 5. nóvember 2007 gerðu aðilar málsins með sér þrjátíu og þrjá svonefnda gengistryggða kaupleigusamninga. Samningarnir voru ýmist gerðir í tengslum við kaup á ökutækjum og vinnuvélum af þriðja aðila eða vegna sölu stefnanda á ökutækjum og vinnuvélum til stefnda.

Ágreiningur aðila um uppgjör þessara samninga hófst eftir að dómar Hæstaréttar gengu 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 þegar stefnandi sendi stefnda tuttugu og þrjú bréf, dagsett 7. júlí 2010, vegna jafnmargra samninga og lýsti þeirri skoðun að nánar tilgreind ákvæði samningsins um tengingu leigugreiðslna við myntkörfu í tilteknum erlendum gjaldmiðlum og að leigugjald væri innheimt í íslenskum krónum gæfi tilefni til að ætla að um væri að ræða kaupleigusamning í íslenskum krónum sem tengdur væri við gengi erlendra mynta. Af þeim sökum teldi stefnandi að gengistrygging samningsins væri í andstöðu við VI. kafla laga nr. 38/2001, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/201 og nr. 153/2010. Með bréfunum krafði stefnandi stefnda um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu samkvæmt endurútreikningi stefnanda. Stefnandi lýsti því að hann hefði greitt stefnda í góðri trú á grundvelli upplýsinga frá stefnda, s.s. samkvæmt greiðsluseðlum sem honum hefðu verið sendir mánaðarlega og stefnandi hefði ekki haft við aðrar upplýsingar að styðjast. Þá hefði stefndi, sem væri fjármálafyrirtæki og þar með sérfræðingur í gerð lánasamninga og annarra fjármálaafurða, einhliða samið skilmála samninganna, þ.m.t. ákvæði varðandi gengistryggingu. Stefnandi hefði þannig orðið fyrir tjóni vegna saknæmra mistaka starfsmanna stefnda. Með þessum tuttugu og þremur bréfum krafði stefnandi stefnda samtals um endurgreiðslu á 89.874.028 krónum og lækkunar eftirstöðva skulda um 110.053.055 krónur eða samtals 199.927.083 krónur. Útreikningur stefnanda var miðaður við samningsvexti án gengistryggingar og í stefnu kemur fram að hann hafi þarna eingöngu gert kröfu vegna samninga sem honum voru hagstæðir, óháð því hvort þeir væru reiknaðir með samningsvöxtum eða miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands.

Stefndi svaraði ekki bréfum stefnanda frá 7. júlí 2010. Eftir að dómur gekk í Hæstarétti 16. september 2010, í máli nr. 471/2010, óskaði stefnandi eftir viðræðum við stefnda um uppgjör krafna. Stefndi svaraði með tölvupósti 30. september 2010 og sagði málin í skoðun í heild sinni, ekki væri tímabært að funda um þau en hann myndi verða í sambandi þegar línur hefðu skýrst.

Stefnandi ritaði stefnda aftur bréf 14. október 2010 og í stefnu kemur fram að 18. nóvember 2010 hafi verið haldinn fundur hjá stefnda til að fara yfir útreikningana sem stefnandi sendi stefnda með fyrrgreindu bréfi. Stefnandi segir að aðilar hafi verið sammála á þeim fundi um að samningar stefnda við stefnanda fælu í sér ólögmæt gengistryggð lán en niðurstaða fundarins verið sú að stefndi ætlaði að fara yfir útreikningana og hafa síðan samband.

Með tölvupósti 3. febrúar 2011 sendi stefndi stefnanda niðurstöður endurútreiknings þrjátíu og tveggja gengistryggðra kaupleigusamninga sem aðilar höfðu gert með sér á árunum 2004 til 2007. Starfsmaður stefnda sendi síðan stefnanda niðurstöður yfirfarinna endurútreikninga með tölvuskeyti 7. mars 2011. Í skeytinu segir: „Meðfylgjandi er excel skjal sem sýnir samantekt á útreikningunum. Ég sendi ykkur svo beint úr SAP kerfinu útreikning fyrir hvern samning. Þið skoðið þetta og verðið svo í sambandi.“

Í greinargerð stefnda segir að hann hafi endurreiknað samningana í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands, sem kveðnir voru upp 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, og setningar laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Stefndi endurreiknaði ekki aðeins virka samninga, eins og segir í greinargerð hans, heldur einnig uppgerða samninga. sem stefndi byggir á að í gildi hafi verið á milli aðila 16. júní 2006 og síðar. Stefndi kveðst hafa miðað við 16. júní 2006 vegna þess að samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV í vaxtalögum, sbr. breytingalög nr. 151/2010, reiknist fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar á lánssamningum frá 16. júní 2010. Upphafsdagur fyrningarfrestsins sé því fjórum árum áður eða þann 16. júní 2006, sbr. ákvæði fyrningarlaga. Þar sem einn af hinum þrjátíu og þremur gengistryggðu kaupleigusamningum, nánar tiltekið kaupleigusamningur nr. 804913, hafi verið gerður upp fyrir fyrrgreind tímamörk, hafi hann ekki verið endurreiknaður.

Nánar tiltekið endurreiknaði stefndi samninga aðila með eftirfarandi samningsnúmer: 804616, 804828, 804873, 804909, 804998, 805471, 805564, 806004, 806077, 806085, 806247, 806337, 806546, 806549, 807196, 807124, 807330, 807447, 807681, 807986, 808107, 808622, 810908, 811000, 811099, 811141, 811363, 811488, 811826, 812125, 812915 og 813144.

Niðurstaða endurútreiknings stefnda var sú að heildarskuld stefnanda vegna framangreindra samninga, miðað við 7. mars 2011, væri samtals 48.701.639 krónur að teknu tillit til lokagjalda að fjárhæð 1.409.867 krónur. Uppgjör stefnda fór þannig fram að ýmist myndaðist skuld eða inneign. Stefndi segir að eftir endurútreikning hans hafi þrír virkir samningar staðið eftir í skuld. Nánar tiltekið samningar nr. 811000, 811826 og 812915, sem stefndi gaf ný samningsnúmer, þ.e. 820135, 820137 og 820148. Síðan var inneignum ráðstafað upp í skuldir á uppgreiddum samningum sem reiknuðust með skuld. Inneign sem eftir stóð var ráðstafað upp í eftirstöðvar á samningi nr. 812915.

Stefnandi leitaði til lögmanns sem fyrir hans hönd mótmælti útreikningum og forsendum stefnda með bréfi dagsettu 18. mars 2011. Stefnandi vísaði til þess meginsjónarmiðs varðandi greiðslu skulda að fyrirvarlaus greiðsla jafngilti endanlegu uppgjöri og hvorki stefnandi né stefndi hefðu gert fyrirvara vegna afborgana samkvæmt samningunum. Ákvæði laga nr. 151/2010 hefðu ekki að geyma ákvæði um að skuldara bæri að endurgreiða kröfuhafa vangreiddar afborganir eða vexti. Engin ákvæði væru í lögum um skyldu skuldara til endurgreiðslu óhagstæðra samninga eða heimild kröfuhafa til að endurreikna uppgerða samninga sem væru skuldara óhagstæðir og nota þá til þess að lækka endurgreiðslukröfu á hendur skuldara vegna annarra samninga sem skuldara væru hagstæðir, líkt og stefndi gerði. Stefnandi hefði haft réttmætar væntingar til þess að samningar hans væru upp gerðir. Útreikningi stefnda vegna nánar tilgreindra tíu samninga væri því mótmælt enda allir greiddir að fullu og gerðir upp. Stefnandi mótmælti því einnig að heimilt væri að krefja hann um vangreidda vexti aftur í tímann. Ef talið yrði heimilt að krefjast vaxta aftur í tímann bæri enn fremur að vaxtareikna miðað við vexti ákveðna af Seðlabanka Íslands, sbr. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001. Miðað við útreikninga stefnanda væri uppgreiðsluvirði samninga sem ekki hefðu verið greiddir að fullu 3. mars 2011 að loknu uppgjöri og skuldajöfnun 23.872.394 krónur. Stefnandi ítrekaði sjónarmið sín með tölvupósti 26. apríl 2011.

Stefndi mótmælti kröfum stefnanda með bréfi dagsettu 3. maí 2011. Stefndi lýsti því að endurútreikningsaðferðir stefnda byggðu á dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 og lögum nr. 151/2010. Stefndi hélt því fram að honum væri heimilt að taka tillit til ófyrndra uppgerðra kaupleigusamninga við endurútreikning með vísan til sjónarmiða í greinargerð með ákvæði 6. mgr. 2. gr. frumvarps til breytingar á lögum nr. 38/2001. Ljóst væri að löggjafinn hefði talið að ekki væri þörf á að kveða á um sérstaka skuldajafnaðarheimild gagnvart lögaðilum þar sem slíkar heimildir væru til staðar í ólögfestum reglum kröfuréttar. Sú ákvörðun stefnda að líta til allra lánsviðskipta aðila í tengslum við endurútreikninginn og að draga frá endurgreiðslum þann ávinning sem stefnandi hefði haft af lánum með ólögmætum vaxta- eða verðtryggingarákvæðum væri í fullu samræmi við vilja löggjafans og meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð. Kröfurnar væru gagnkvæmar, hæfar til að mætast og báðar gildar.

Niðurstaða endurútreiknings stefnda á þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum aðila væri sú að skuld stefnanda við stefnda samkvæmt þrettán samningum væri samtals 73.621.621 króna en inneign stefnanda hjá stefnda samkvæmt nítján samningum væri samtals 24.919.982 krónur. Áhrif skuldajafnaðaryfirlýsingar stefnda væru þau að kröfur beggja aðila að fjárhæð 24.919.982 krónur féllu niður um leið og stefnandi hefði móttekið endurútreikning stefnda og frá þeim tíma hefði skuld stefnanda við stefnda numið 48.701.639 krónum auk vaxta.

Í öðru lagi lagði stefndi áherslu á að honum væri heimilt að endurreikna vaxtaþátt þegar greiddra leigugreiðslna af kaupleigusamningum og hann hefði í einu og öllu farið að ákvæðum laga nr. 151/2010, sbr. 5. mgr. 1. gr. laganna, þar sem skýrlega kæmi fram að upphaflegur höfuðstóll skuldar skyldi vaxtareiknaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna.

Aðilar áttu síðan í samningaviðræðum. Eftir að stefndi sendi hins vegar stefnanda aðvörun um fyrirhugaða riftun fjögurra samninga með símskeyti 1. september 2011 og veitti lokafrest til þess að ganga frá meintum vanskilum til 12. september 2011, gerðu aðilar málsins samning um bráðabirgðauppgjör 11. nóvember 2011.

Fram kemur í samningi aðila frá 11. nóvember 2011 að hann sé gerður vegna mismunandi túlkunar aðila á því hvernig eigi að haga endurútreikningi og eftir atvikum uppgjöri á fyrrgreindum þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum eftir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010, 153/2010, 471/2010 og gildistöku laga nr. 151/2010. Eftir útreikning stefnda hafi staðið þrír kaupleigusamningar (nr. 820135, 820137 og 820148 sem fengið hafi ný samningsnúmer) eftir í skuld milli aðila samningsins. Stefnandi hafi ekki greitt af þessum samningnum frá því að allir samningarnir hafi verið endurreiknaðir og stefndi því sent stefnanda aðvörun um fyrirhugaða riftun samninganna. Að mati stefnda sé uppgreiðsluverðmæti samninganna þriggja, miðað við 3. nóvember 2010, 53.838.473 krónur, þar af vanskil 12.110.488 krónur og lokagjöld 1.409.867 krónur. Stefnandi telji sig hins vegar eiga kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 65.235.733 miðað við endurreiknaða stöðu samninganna þrjátíu og tveggja þann 7. mars 2011. Þar miði stefnandi við að óheimilt sé að endurreikna áður fullgreiddar fyrirvaralausar greiðslur af samningunum þannig að afborganir sem greiddar hafi verið inn á höfuðstól á samningstíma komi til lækkunar á upphaflegum höfuðstól en lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands séu svo reiknaðir ofan á eftirstöðvar höfuðstóls frá þeim degi er síðasta greiðsla hafi komið til. Einnig telji stefnandi að óheimilt hafi verið af hálfu stefnda við uppgjörið að endurreikna fullgreidda samninga sem hafi verið óhagstæðir stefnanda.

Samkomulagið fól enn fremur það í sér að stefnandi lagði fram bankaábyrgð til tryggingar efndum þriggja kaupleigusamninga sem stefndi hafði gefið ný númer, eins og áður sagði og að stefnandi skyldi höfða dómsmál gegn stefnda til að fá skorið úr ágreiningi aðila um útreikning/uppgjör á fyrrgreindum þrjátíu og tveimur samningum.

II

Í samræmi við fyrrgreindan samning aðila um bráðabirgðauppgjör frá 11. nóvember 2011 höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefnda. Málið var þingfest 29. nóvember 2011 en stefndi skilaði greinargerð 14. febrúar 2012. Þegar undirritaður dómari tók málið fyrir 7. maí 2012 sagði lögmaður stefnda að degi eftir að hann hefði skilað greinargerð í málinu hefði fallið dómur í Hæstarétti í máli nr. 600/2011 sem umdeilt væri hvort hefði fordæmisgildi fyrir málið. Lögmaður stefnda óskaði eftir fresti til að endurreikna samninga aðila með hliðsjón af dóminum í því skyni m.a. að gera nýjar og lækkaðar kröfur.

Þegar málið var næst tekið fyrir í þinghaldi 18. júní s.á. lagði stefndi fram bókun þar sem hann lýsti því yfir að hann bætti við dómkröfur sínar frá greinargerð, nánar tiltekið varakröfu og þrautavarakröfu. Með nýrri varakröfu krafðist stefndi þess að kröfur stefnanda yrðu lækkaðar og stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 15.646.895 krónur en til þrautavara krafðist stefndi þess að kröfur stefnanda yrðu lækkaðar og stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 19.442.066 krónur.

Stefndi lýsti því yfir að með nýjum kröfum væri hann að draga úr kröfum sínum þar sem hinar nýju vara- og þrautavarakröfur gerðu ráð fyrir því að kröfur stefnanda yrðu lækkaðar og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda tilgreinda fjárhæð. Jafnframt lagði stefndi fram endurútreikninga á hinum umdeildu þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum miðað við sex tilgreindar aðferðir.

Um tilurð hinna nýju dómkrafna sagði í bókun stefnda að þó svo að stefndi teldi að dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, sem kveðinn hefði verið upp 15. febrúar 2012, væri ekki fordæmisgefandi fyrir kaupleigusamninga aðila þá legði stefnandi engu að síður fram án viðurkenningar og með öllum hefðbundnum fyrirvörum endurútreikninga á þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum aðila miðað við að dómurinn ætti við um samningana. Þar sem veruleg réttaróvissa væri um hvernig reikna ætti upp samningana sem ættu undir dómafordæmið legði stefndi fram endurútreikning á samningunum miðað við sex mismunandi endurútreikningsaðferðir. Niðurstöðu endurútreiknings samkvæmt aðferðum nr. 1, 2, 3 og 6 væru lagðar fram til stuðnings aðalkröfu hans um sýknu af aðal- og varakröfu stefnanda en niðurstöður endurútreiknings samkvæmt aðferð nr. 4 og 5 til stuðnings vara- og þrautavarakröfu stefnanda. Stefndi áskildi sér rétt til að leggja síðar fram skriflega lýsingu á endurútreikningsaðferðunum.

Í sama þinghaldi tilkynnti stefndi að hann myndi hafa uppi nýjar málsástæður og lagarök til stuðnings sýknukröfu sinni í málinu. Hann lýsti því yfir að í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 væri til viðbótar málsástæðum til stuðnings aðalkröfu um sýknu af öllum kröfum stefnda byggt á því að samkvæmt alþjóðlega reikningsskilastaðlinum IAS-17 sem hefði lagagildi samkvæmt lögum nr. 3/2006 væru kaupleigusamningar leigusamningar. Þar sem gengistrygging leigusamninga væri ekki óheimil samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu væri endurútreikningur stefnda á samningum aðila umfram skyldu og þ.a.l. bæri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Ef dómurinn féllist ekki á það og teldi kaupleigusamning aðila eiga undir lög nr. 38/2001 væri á því byggt að 13. og 14. gr. laganna um bann við gengistryggingu lánssamninga stangaðist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Endurútreikningur stefnda hefði því verið umfram skyldu og því bæri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefndi tók fram að þessi málsástæða hefði ekki verið höfð uppi í málum sem vörðuðu gengistryggingu bílasamninga og dómar hefði gengið um í Hæstarétti Íslands 16. júní 2010. Stefnandi mótmælti þessum málsástæðum sem of seint fram komnum og fékk frest til að kynna sér breytta kröfugerð og forsendur fyrir henni.

Þegar málið var næst tekið fyrir í þinghaldi 19. september s.á. lagði stefndi fram að beiðni stefnanda skriflegar skýringar á útreikningunum sem hann lagði fram í síðsta þinghaldi. Um væri að ræða samantekt á reikniaðferðum útreikningsteymis stefnda. Lögmaður stefnanda áréttaði mótmæli sín við nýjum málsástæðum og lagarökum sem of seint fram komnum og var veittur frestur til að kynna sér skýringar á útreikningum stefnda.

Þegar málið var næst tekið fyrir í þinghaldi 12. nóvember 2012 lagði stefndi fram bókun í tilefni af dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012 og tvö skjöl með útreikningi stefnda á hlutfalli viðbótarkröfu. Stefndi vísaði m.a. til þess að í niðurstöðu fyrrgreindra dóma væri skýrt hvernig reikna ætti hlutfall viðbótarkröfu. Niðurstaða útreiknings hans væri að hlutfall viðbótarkröfunnar væri að meðaltali 4,89%. Það gæti aldrei talist „umtalsvert“ í skilningi fyrrgreindra dóma. Því ætti ekki að beita undantekningarreglunni og sýkna ætti stefnda. Lögmaður stefnanda mótmælti þessu sem nýjum málsástæðum og of seint fram komnum. Stefndi vísaði í fyrirvara í greinargerð um að færa fram málsástæður eftir því sem tilefni gefist til. Þá kvaðst lögmaður stefnanda líta svo á að með framlagningu útreikninga stefnda á hlutfalli viðbótarkröfu um vexti í þeim endurreiknuðu kaupleigusamningum sem væru til umfjöllunar í málinu féllist stefndi á útreikningsaðferð stefnanda í aðalkröfu og/eða varakröfu, sbr. að þar væri að finna þá niðurstöðu að áætlaðar eftirstöðvar væru 64.509.642 krónur. Stefndi áréttaði þá að með framlagningu útreikninganna á hlutfalli viðbótarkröfu væri hann einungis að sýna fram á að hlutfall viðbótarvaxtakröfu væri langtum lægra í þessu málum en í dómum Hæstaréttar. Skjölin væru lögð fram með öllum hefðbundnum fyrirvörum.

Þegar málið var tekið fyrir í þinghaldi 15. apríl sl. kvaðst lögmaður stefnanda telja að stefndi hefði með vara- og þrautavarakröfu sem hann gerði í þinghaldinu 18. júní 2012 viðurkennt að stefnandi væri ekki í skuld við stefnda. Hann hefði gefið málflutningsyfirlýsingu þess efnis, sbr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991. Það helgaðist m.a. af því að betra væri fyrir stefnda að fallast á þrauta-, þrautaþrauta-, þrautaþrautaþrautavarakröfu stefnanda en greiða samkvæmt varakröfu sinni eða þrautavarakröfu. Í þessu fælist ráðstöfun á sakarefni með þeim hætti að stefndi hefði viðurkennt greiðsluskyldu yrði hann ekki sýknaður af aðal- og varakröfu stefnanda. Lögmaður stefnda mótmælti þessu og áskildi sér rétt til að svara þessu við aðalmeðferð. Með vísan til 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 beindi dómari því til aðila að þeir legðu fram skriflega kröfugerð og talningu málsástæðna við aðalmeðferð.

Aðalmeðferð fór fram 30. maí sl. Stefndi lagði fram skriflega kröfugerð og upptalningu málsástæðna. Jafnframt lýsti stefndi yfir breytingum á kröfugerð sinni í málinu og féll frá vara- og þrautavarakröfu sem hann hefði sett fram í þinghaldinu 18. júní 2012. Stefnandi mótmælti þessum breytingum á kröfugerð stefnda og taldi þær of seint fram komnar og íþyngjandi fyrir stefnanda. Þegar stefndi hefði sett fram þessar kröfur hefði hann í bókun lýst því yfir að kröfugerðin væri ívilnandi fyrir stefnanda. Því gæti stefndi ekki dregið kröfuna til baka án samþykkis stefnanda. Stefndi mótmælti því að breyting á kröfugerð væri of seint fram komin. Jafnframt mótmælti hann því að breytingin á kröfugerð væri íþyngjandi fyrir stefnanda. Stefndi mótmælti því að unnt væri að ráðstafa sakarefninu með gerð varakrafna. Stefnandi lagði einnig fram skriflega kröfugerð og upptalningu málsástæðna þar sem sú breyting var gerð á dómkröfum samkvæmt stefnu að stefnandi gerði tvær nýjar varakröfur sem hann sagði byggja á varakröfum stefnda sem hann setti fram í þinghaldinu 18. júní 2012. Nýju kröfurnar voru settar fram sem 2. og 3. varakrafa og hinar kröfurnar samkvæmt stefnu færðust neðar í samræmi við það enda hefði hann sett fram kröfurnar í samræmi við hverjar væru hagstæðar. Um væri að ræða sambærilegar kröfur og stefndi hefði nú lýst yfir að hann félli frá.

Málið var endurupptekið 30. ágúst sl. með vísan til 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómari beindi því til lögmanna aðila að lagfæra framsetningu endanlegra dómkrafna er settar höfðu verið fram við flutning málsins 30. maí sl. og skriflegar málsástæður samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991, þ. á m. að kröfur væru settar fram nákvæmlega en ekki með vísun í tilteknar kröfur gagnaðila sem hafa tekið breytingum undir rekstri málsins. Ákveðið var að aðilar myndu leggja fram endanlegar dómkröfur og skriflegar málsástæður við endurflutning málsins. Í sama þinghaldi lagði lögmaður stefnanda fram útreikning stefnanda á svonefndu viðbótarhlutfalli samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 50/2013, sem kveðinn var upp 30. maí sl. Lögmaður stefnda lýsti því þá yfir að í ljósi fyrrgreinds dóms Hæstaréttar gerði hann ekki lengur ágreining um útreikning á hlutfalli viðbótarkröfu og því heldur ekki athugasemdir við framlagningu útreikningsins. Endurflutningur málsins var ákveðinn 17. september sl. en eftir að hafa borist skriflegar málsástæður stefnanda taldi dómari að skoða þyrfti betur ágreining aðila um útreikningsaðferðir. Flutningnum var því frestað til 20. s.m. og gaf aðilum með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 kost á að leggja fram útreikninga sem kröfur þeirra byggjast á.

Þegar málið var tekið fyrir 20. september sl. og áður en munnlegur málflutningur fór fram lögðu lögmenn aðila fram skriflega kröfugerð og talningu málsástæðna. Af hálfu stefnanda voru lagðar fram útskýringar á útreikningum aðalkröfu hans og af hálfu stefnda útskýringar á útreikningsaðferð til stuðnings sýknu af aðalkröfu og 1., 4. og 5. varakröfu hans. Þá afmörkuðu lögmenn aðila sakarefnið nánar en þeir lýstu því yfir að þeir væru sammála um að ekki væri tölulegur ágreiningur á milli þeirra heldur um það hvaða útreikningsaðferðir beri að leggja til grundvallar verði svonefnd undantekningarregla samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar lögð til grundvallar í niðurstöðu dómsins. Aðilar kváðust sammála um að ágreiningi aðila mætti skipta í þrjá þætti. 

Í fyrsta lagi að ágreiningur þeirra um aðalkröfu, fyrstu varakröfu og fjórðu varakröfu stefnanda snerist í hnotskurn um túlkun á því hvort sjónarmið um fullnaðarkvittun eigi við. Í öðru lagi að ágreiningur þeirra um aðra og þriðju varakröfu stefnanda snerist um hvort lagðir verði til grundvallar útreikningar stefnda sem stefndi lagði fram til stuðnings fyrrgreindum varakröfum sem hann féll síðan frá en stefnandi gerði að sínum varakröfum. Í þriðja lagi að ágreiningur þeirra um fimmtu og sjöttu varakröfu stefnanda snerist um ólíkar leiðir sem aðilar teldu að leggja bæri til grundvallar við höfuðstólsfærslu vaxta. Lögmaður stefnda lýsti því einnig yfir að ekki væri lengur deilt um að greiðsluháttur stefnda vegna hverrar greiðslu væri með þeim hætti að jafngilti fullnaðarkvittunum í skilningi dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/2013. Í málinu væri þó ágreiningur um hvort beita ætti meginreglunni um fullnaðarkvittanir eða fullar efndir. Lögmaður stefnda lýsir því enn fremur yfir að varðandi skilyrði þess að undantekningarreglu samkvæmt dómaframkvæmd verði beitt, byggi hann einvörðungu á því að enginn aðstöðumunur sé á aðilum og það standi stefnda ekki nær að bera hallann af mistökunum við gerð samninganna. Því væri hins vegar enn haldið fram að samningarnir fælu ekki í sér ólögmæta gengistryggingu.

III

Verður nú gerð grein fyrir helstu málsástæðum stefnanda og lagarökum samkvæmt stefnu og skriflegri talningu málsástæðna sem hann lagði fram við flutning málsins 20. september sl. Samkvæmt stefnu eru kröfur stefnanda byggðar á sjónarmiðum í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, og 153/2010, sem báðir voru kveðir upp 16. júní 2010. Stefnandi byggir á því að óumdeilt sé í málinu að gengistrygging hinna umdeildu kaupleigusamninga sé ólögmæt samkvæmt 13. og 14. gr. vaxtalaga. Nánar tiltekið að hinir umdeildu samningar séu íslensk lán sem hafi tekið verðbreytingum eftir gengi erlendra gjaldmiðla sem sé óheimilt samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001.

Stefnandi byggir á 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010, sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Ótvírætt sé samkvæmt ákvæðinu að hafi skuldari ofgreitt ólögmætt gengistryggt lán þá beri lánardrottni að endurgreiða þá fjárhæð sem upp á vantar, sbr. 6. mgr. sömu greinar. Uppgjör stefnda á þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum, þegar hann gerði alla samningana upp í einu lagi, samkvæmt samningi aðila um bráðabirgðauppgjör frá 11. nóvember 2011 sé í ósamræmi við lög nr. 151/2010. Útreikningar og forsendur stefnda miðað við stöðu samninganna 7. mars 2011 fái ekki staðist. Þannig hafi inneignum, eftir endurútreikning, verið ráðstafað upp í skuldir á uppgreiddum samningum en samningarnir reiknast ýmist í skuld eða inneign og inneign verið ráðstafað upp í eftirstöðar á samningi nr. 820148 en eftir það hafi staðið þrír nýir samningar nr. 820148, 820135 og 820137. Svona hafi stefndi afmarkað sakarefni málsins og kröfur stefnanda eigi rætur að rekja til þessa uppgjörs stefnda.

Stefnandi byggir einnig á meginreglu kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 32/2007 sem kveðinn var upp 13. september 2007. Meginsjónarmiðið varðandi greiðslu skulda sé að fyrirvaralaus greiðsla jafngildi endanlegu uppgjöri. Fyrir liggi að hvorki stefnandi né stefndi hafi gert fyrirvara vegna greiðslna samkvæmt framangreindum samningum. Frá þessu meginsjónarmiði séu þrjár undantekningar; í fyrsta lagi að lög mæli fyrir um endurgreiðslu, í annan stað að viðtakanda hafi verið ljóst að endurheimta væri áskilin og í þriðja lagi að nýjar upplýsingar eða breyttar aðstæður komi upp. Engin ákvæði séu í fyrrgreindum lögum um að skuldara beri að endurgreiða kröfuhafa afborganir eða vexti, þar sem fullnaðarkvittun hafi verið gefin út. Krafa stefnanda sé því lögvarin en ekki krafa stefnda. Það sé meginregla kröfuréttar að þegar krafa sé liðin undir lok vegna greiðslu sé greiðsluskyldu skuldarans lokið og kröfuhafi eigi eftir það enga lögvarða kröfu á hendur skuldaranum sem knýja megi hann til að greiða með atbeina dómstóla. Samkvæmt því sé alveg ljóst að stefnda sé óheimilt að endurreikna vexti á greiðslur sem séu að fullu greiddar. 

Stefnandi kveðst hafa greitt af samningunum í góðri trú um að hver greiðsla væri fullnaðargreiðsla á höfuðstól, vöxtum og öðrum kostnaði samkvæmt hverjum greiðsluseðli og ekki kæmi til frekari greiðslna. Stefnandi mótmæli því þeirri uppgjörsaðferð stefnda að krefja hann um vangreidda vexti aftur í tímann, líkt og uppgjör stefnda byggi á. Fyrir liggi og óumdeilt sé í málinu að stefnandi hafi alltaf staðið í skilum með allar greiðslur (þ.m.t afborganir höfuðstóls, vexti, öll önnur gjöld og kostnað) og því ekki um neina vangreiðslu að ræða. Hver einasta afborgun hans af höfuðstól og vöxtum lánsins, sem stefndi hafi veitt athugasemdalaust viðtöku, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu af hálfu stefnanda, sem hann verði ekki endurkrafinn um. Því geti stefndi ekki endurreiknað uppgerða samninga og greiðslur, aftur í tímann og krafist viðbótargreiðslu. Stefnandi sjái ekki á hvaða heimild stefndi byggi þegar hann krefjist hærri vaxta á þegar greiddar fjárhæðir, sér í lagi þar sem umræddar greiðslur hafi ávalt verið í skilum og því að fullu efndar af hálfu stefnanda.

Á því er byggt í stefnu að engin ákvæði séu í lögunum sem kveði á um skyldu skuldara til endurgreiðslu óhagstæðra samninga eða ákvæði um að kröfuhafa sé heimilt að endurreikna uppgerða samninga sem hafi verið skuldara óhagstæðir og lækka þannig endurgreiðslukröfu skuldara vegna annarra samninga, líkt og stefndi geri. Stefnandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að líta svo á að samningar hans væru uppgerðir. Stefnda sé því hvorki heimilt að reikna sér vexti á þegar greiddar greiðslur né endurreikna samninga nr. 804616, 804828, 804909 og 804998 en þeir séu allir greiddir að fullu og uppgerðir. Með vísan til meginreglu kröfuréttar um lok kröfuréttinda eigi þeir samningar ekki að vera hluti af uppgjöri aðila. Á þeim tíma sem stefnandi hafi greitt samningana upp hafi ekkert bent til annars en að um fullnaðargreiðslu væri að ræða. 

Í þeim tilvikum þegar skuldarinn sé einstaklingur en ekki lögaðili rífi stefndi ekki upp og endurreikni, uppgerða samninga, sem séu óhagstæðir skuldurum, miðað við þær upplýsingar sem stefnandi hafi. Engin rök hnígi til þess að mismuna aðilum með þeim hætti sem stefndi geri eftir því hvort um einstakling eða lögaðila sé að ræða en stefndi reikni ekki með sama hætti þegar einstaklingar eigi í hlut og þegar um lögaðila sé að ræða. Slík mismunun gangi ekki og sé í andstöðu við 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en í greininni er kveðið á um að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við góða viðskiptahætti. Með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 skorar stefnandi á stefnda að upplýsa og leggja fram gögn sem sýna hvort og þá með hvaða hætti hann hafi dregið frá skuldir vegna uppgerðra samninga við inneignir á öðrum samningum í þeim tilfellum sem einstaklingar eru skuldarar. 

Fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi alltaf staðið í skilum og innt af hendi gengistryggðar greiðslur (afborganir, vexti og kostnað) á móti gengistryggðum höfuðstól sem óumdeilt sé að stangist á við VI. kafla laga nr. 38/2001. Stefnandi byggir á því að fyrrgreindar afborganir eigi að koma til lækkunar á upphaflegum höfuðstól án gengistryggingar.

Stefnandi byggir enn fremur á sjónarmiðum í dómum Hæstaréttar, sem gengu undir rekstri málsins, nánar tiltekið í málum nr. 600/2011, sem kveðinn var upp 15. febrúar 2012 og 464/2012 sem kveðinn var upp 18. október 2012. Þar sé byggt á þeirri meginreglu kröfuréttar að sá aðili sem hafi fengið minna greitt en hann hafi haft rétt til eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Frá reglunni eru ákveðnar undantekningar meðal annars um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu. Þær séu í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hafi hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að hann réttlæti að hafna beri viðbótarkröfu. Í þriðja lagi hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiða til þess að vangreitt hefur verið. Þá skipti eftirfarandi atriði einkum máli: Hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími líði frá því að mistök komi fram þar til krafa er höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Stefnandi byggir á að fyrrgreind undantekningarregla eigi við í þessu máli, enda eigi öll ofangreind skilyrði við.

Stefnandi byggir á því að ef talið yrði af einhverjum ástæðum að lög nr. 151/2010 heimiluðu að endurreikna uppgerða samninga og greiddar afborganir, þá færi slík lagasetning gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt gegn grunnreglum almennrar lögfræði um að íþyngjandi reglum skuli ekki beitt afturvirkt. Með dómum Hæstaréttar nr. 600/2011 og 464/2012 hafi þessi skilningur stefnanda verið staðfestur.

Stefnandi segir að útreikningsaðferð hans til grundvallar aðalkröfu og fyrstu og fjórðu varakröfu byggi á því að þær afborganir sem greiddar hafi verið inn á samningana komi til lækkunar á upphaflegum höfuðstól þeirra. Þannig miðist inneign/skuld stefnanda á hverjum samningi við þann dag sem stefnandi hafi greitt síðast af kaupleigusamningunum. Síðan séu reiknaðir vextir af eftirstöðvum skuldar eða inneign stefnanda, frá síðasta greiðsludegi til 7. mars 2011, miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands, eins og þeir séu á hverjum tíma.  

Hér á eftir verður gerð grein fyrir sérstökum málsástæðum stefnanda til stuðnings aðal- og varakröfum.

1. Aðalkrafa stefnanda er miðuð við stöðu samninganna þann 7. mars 2011, daginn sem stefndi hafi sent stefnanda yfirfarið uppgjör. Stefnandi segir fjárhæð hennar fengna úr gögnum og upplýsingum frá stefnda. Aðalkrafan byggi á sömu útreikningsaðferð og beitt hafi verið og staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012.

Krafa stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti niður á einstaka samninga sbr. eftirfarandi yfirlit/töflu nr. 1 yfir útreikning aðalkröfunnar þar sem stefnandi segir að tölur með neikvæðu formerki (mínus) sýni skuld stefnda við stefnanda og tölur með jákvæðu formerki (plús) sýni skuld stefnanda við stefnda:

Stefnandi segir fjárhæðina þannig fengna að innborganir á hvern samning, sem greiddar hafi verið, séu lagðar saman og dregnar frá upphaflegum höfuðstól samningsins. Lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands séu síðan reiknaðir (dálkur 6) á eftirstöðvar frá þeim degi sem síðast var greitt af láninu (dálkur 2). Taflan hér að framan byggi á upplýsingum frá stefnda, ef frá er talinn dálkur 6 (vextir) þar sem reiknuð sé fjárhæð vaxta af eftirstöðvum fjárhæðar í dálki 5 (Inneign/skuld) frá dagsetningu síðustu greiðslu, af hverjum samningi, til viðmiðunardags, 7. mars 2011.

Stefnandi segir vaxtaútreikning miða við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands sem lagðir séu við höfuðstól á 12 mánaða fresti og þannig fengnar eftirstöðvar samnings þann 7. mars 2011. Við það sé síðan bætt inneign eða skuld vegna lokagjalds (dálkur 7) sem byggi á upplýsingum frá stefnda. Dálkur 8, sem sé samtala úr dálkum 5, 6 og 7, sýni stöðu hvers samnings eftir endurútreikning stefnanda þann 7. mars 2011. Síðan sé endurreiknuð staða samninganna (dálkur 8) lögð saman og þannig fengnar 65.235.733 krónur sem sé aðalkrafa stefnanda á hendur stefnda. 

Stefnandi segir samninga 804616, 804828, 804909, og 804998 ekki koma hér til endurútreiknings en þeir hafi verið uppgerðir og stefnanda óhagstæðir. Þeir séu þó teknir með í endurútreikninginn í varakröfu, sbr. yfirlitið/töflu nr. 2 hér á eftir sem stefnandi hefur sett fram til stuðnings varakröfunni.

Stefnandi ítrekar að aðalkrafa hans byggi á því að óheimilt sé að rífa upp og endurreikna þegar greiddar afborganir og vaxtareikna þær með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands. Þannig miði stefnandi upphaf vaxtareiknings með óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands við þann dag er síðast hafi verið greitt af hverjum einstökum samningi. Í dálki 2 í töflu hér að framan komi dagsetning síðustu greiðslu fyrir hvern samning.

Verði af einhverjum ástæðum talið að lög nr. 151/2010 veiti heimild til þess að endurreikna þegar uppgerða samninga og greiddar afborganir með óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands byggir stefnandi á því að fyrrgreind lög fari gegn almennum réttarreglum um lok kröfuréttinda og fari í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar sem geri ekki greinarmun á skuldurum og kröfuhöfum þegar að vernd eignarréttar kemur. Eignarréttur skuldara verði því ekki fremur en eignarréttur kröfuhafa skertur nema með lögum, almenningsþörf krefji og gegn greiðslu fulls verðs. Af almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 151/2010 verði ekki ráðið að almenningsþörf hafi kallað á setningu laganna. Því eigi stefnandi engu að síður, með vísan til almennra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár, kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 65.235.733 krónur vegna þess að hann ofgreiddi ofangreinda samninga.

Stefnandi telur jafnframt að með því að endurreikna þegar uppgerða samninga sem honum séu óhagstæðir á grundvelli laga nr. 151/2010, vaxtareikna þá með vöxtum Seðlabanka Íslands og draga síðan frá inneign hans endurreiknað greiðsluflæði samninganna, sem stefndi telur sér heimilt að gera á grundvelli laga nr. 151/2010, sé með íþyngjandi hætti verið að beita lögum nr. 151/2010 með afturvirkum hætti sem sé andstætt þeirri grunnreglu almennrar lögfræði að íþyngjandi reglum skuli ekki beitt afturvirkt.

2. Fyrsta varakrafa

Verði talið að stefnda sé heimilt taka tilliti til allra þrjátíu og tveggja samninganna og endurreikna þá óháð því hvort þeir séu hagstæðir eða óhagstæðir stefnanda og byggja uppgjör á þeim, byggir stefnandi á því til vara (1. varakrafa) að stefndi skuldi honum eftir sem áður 63.318.506 krónur. Stefnandi segir 1. varakröfu vera reiknaða miðað við stöðu samninganna þann 7. mars 2011, sem sé sá dagur sem stefndi hafi sent stefnanda yfirfarið uppgjör. Kröfuna byggir stefnandi á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu að öðru leyti en því að nú eru reiknaðir allir þrjátíu og tveir samningarnir, líka þeir sem eru stefnanda óhagstæðir. Þannig sé eini munur á aðal- og varakröfu sá að samningar nr. 804616, 804828, 804909, og 804998 séu hluti af uppgjöri vegna varakröfu. Reikningsaðferðin sé sú sama og í aðalkröfu að öðru leyti en því að nú séu þessir fjórir samningar teknir með í endurútreikninginn sem hafi þau áhrif að krafa stefnanda lækki. Stefnandi byggir á öllum sömu sjónarmiðum í 1. varakröfu og í aðalkröfu, en eini munurinn á aðalkröfu og 1. varakröfu sé, líkt og fyrr greini, sá að í varakröfu séu samningar nr. 804616, 804828, 804909, og 804998 teknir með í endurútreikningi Stefnandi sundurliðar 1. varakröfu með eftirfarandi hætti niður á einstaka samninga. 

3. Önnur og þriðja varakrafa

Við fyrri flutning málsins 30. maí sl. setti stefnandi fram tvær nýjar varakröfur sem 2. og 3. varakröfu, nánar tiltekið sambærilegar kröfur þeim sem stefndi hafði sett fram sem varakröfur í þinghaldi 18. júní 2012 en féll síðan frá 30. maí sl. Til stuðnings þeim vísar stefnandi í bókun stefnda í fyrrgreindu þinghaldi 18. júní 2012 en þar lýsti stefndi því m.a. yfir að þessi breyting á kröfugerð stefnda fæli ekki í sér aukningu á kröfum hans heldur væri stefndi þvert á móti að draga úr kröfum sínum þar sem hinar nýju vara- og þrautavarakröfur gerðu ráð fyrir að kröfur stefnanda yrðu lækkaðar og stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda tilgreinda fjárhæð. Stefndi vísaði jafnframt til framlagðrar samantektar á niðurstöðu endurútreikninga samkvæmt sex mismunandi útreikningsaðferðum og voru aðferðir nr. 1, 2, 3 og 6 lagðar fram til stuðnings aðalkröfu hans um sýknu af aðal- og varakröfu stefnanda en niðurstöður endurútreiknings samkvæmt aðferðum nr. 4 og 5 til stuðnings vara- og þrautavarakröfu.

Stefnandi segir stefnda þannig hafa gert nýjar varakröfur sem hann hafi sagt ívilnandi fyrir stefnanda. Stefnandi mótmælir framangreindum útreikningsaðferðum stefnda en þær virðist allar ganga út á það að rífa upp og endurreikna þegar greiddar afborganir sem sé í andstöðu við sjónarmið í dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Verði hins vegar ekki fallist á aðalkröfu eða 1. varakröfu stefnanda telur stefnandi þó að með fyrrgreindri bókun og framsetningu fyrrgreindra varakrafna hafi stefndi ráðstafað sakarefni málsins á þann hátt að hann hafi viðurkennt að stefnandi sé ekki í skuld við hann, sbr. 45., sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína yrði hann ekki sýknaður af aðal- og varakröfu stefnanda.

Stefnandi segir fjárhæð annarrar varakröfu byggja á útreikningum stefnda vegna svokallaðrar „biðreikningsaðferðar stakir gjalddagar“, sbr. útreikningana sem stefndi lagði fram 18. júní 2012 og samantekt á reikniaðferðum, sem stefndi lagði fram 19. september s.á., þar sem fjárhæð heildarkröfunnar sé dregin saman og útskýrð.

Þriðja varakrafa stefnanda er byggð á sömu sjónarmiðum varðandi ráðstöfun á sakarefni og önnur varakrafa. Fjárhæð þriðju varakröfu stefnanda byggir á útreikningum stefnda vegna svokallaðrar „verðbótaleiðar“, sbr. útreikningana sem stefndi lagði fram 18. júní 2012 og samantekt á reikniaðferðum, sem stefndi lagði fram 19. september s.á., þar sem fjárhæð heildarkröfunnar sé dregin saman og útskýrð.

4. Fjórða, fimmta og sjötta varakrafa

Fjórða, fimmta og sjötta varakrafa stefnanda eru allar viðurkenningarkröfur og vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til slíkrar kröfugerðar. Verði ekki talið að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda kveðst stefnandi byggja á því að útreikningar stefnda fái þrátt fyrir það ekki staðist.

Stefnandi byggir fjórðu varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og útreikningsaðferðum og í aðal- og varakröfu að öðru leyti en því að í fjórðu varakröfu kveðst stefnandi einungis endurreikna þá samninga sem ekki hafi verið að fullu greiddir 16. júní 2010, þegar dómar Hæstaréttar féllu. Með fjórðu varakröfu krefst stefnandi viðurkenningar á því að krafa stefnda þann 7. mars 2011, þegar endanlegt uppgjör hafi borist stefnanda, geti að hámarki numið 3.174.340 krónum.

Þannig séu engir uppgerðir samningar endurreiknaðir, hvorki þeir sem eru stefnanda hagstæðir né þeir sem séu honum óhagstæðir. Þannig byggir stefnandi á því að fyrrgreind meginregla kröfuréttar um lok kröfuréttinda nái bæði til stefnanda og stefnda og því eigi einungis að reikna þá samninga sem ekki voru uppgerðir þann 16. júní 2010, en ekki aðra samninga. Hvorki stefnandi né stefndi eigi kröfu á hendur hinum vegna of- eða vangreiðslu annarra samninga.

Reikniaðferðin sé sú sama og í töflu 1 og 2 hér að framan en taki aðeins til þeirra tólf samninga sem ekki hafi verið uppgerðir á fyrrgreindri dagsetningu, sbr. töflu 3 hér að neðan. Fjórða varakrafa stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti niður á einstaka samninga. 

Stefnandi segir að miðað við útreikninga stefnanda, sem byggi á fyrrgreindum forsendum, sé uppgreiðsluvirði samninga sem ekki hafi verið greiddir að fullu sbr. töfluna hér að framan, þann 7. mars 2011, að loknu uppgjöri og skuldajöfnun 3.174.340 krónur, sem sé sú fjárhæð sem stefnandi fari fram á að verði viðurkennd með dómi sem skuld hans við stefnda, eftir uppgjör og endurútreikning, verði ekki fallist á aðalkröfu hans, fyrstu, aðra eða þriðju varakröfu. 

Verði ekki fallist á framangreindar kröfur byggir stefnandi á því til vara að útreikningar stefnda fái þrátt fyrir það ekki staðist og krefst því viðurkenningar á því með fimmtu varakröfu með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að krafa stefnda þann 7. mars 2011, þegar endanlegt uppgjör hafi borist stefnanda, geti að hámarki numið 24.144.026 krónum. Stefnandi byggir á því að samningar nr. 804616, 804828, 804873, 804909, 804998, 805471, 806077, 806085, 807124 og 808622 komi ekki til endurútreiknings þar sem þeir séu að fullu greiddir og óhagstæðir stefnanda, en stefnandi vísar til sjónarmiða vegna aðalkröfu um að óheimilt sé að rífa upp og endurútreikna fullgreidda samninga honum óhagstæða. Við útreikning fimmtu varakröfu sé byggt á tuttugu og tveimur kaupleigusamningum, sbr. neðangreinda töflu, sem séu hagstæðir stefnanda miðað við eftirgreindar forsendur. Stefnandi sundurliðar fimmtu varakrafa með eftirfarandi hætti niður á einstaka samninga. 

Stefnandi byggir á því til stuðnings fimmtu varakröfu, svo sem fram komi í bréfi dagsettu 18. mars 2011, að endurútreikningurinn eigi að fara þannig fram, verði talið heimilt að krefjast vaxta aftur í tímann, að upphaflegur höfuðstóll lánsins (dálkur 2), í íslenskum krónum, sé vaxtareiknaður (dálkur 3) miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, sbr. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001. Þannig fáist út vaxtareiknaður höfuðstóll. Frá þeirri fjárhæð dragist greiðslur (dálkur 4), sem hann hafi innt af hendi vaxtareiknaðar (dálkur 5) frá greiðsludegi til viðmiðunardags endurútreiknings miðað við sömu vexti. Vöxtum eigi þá að vera bætt við höfuðstól á tólf mánaða (360 daga) fresti og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð og þannig fengnar eftirstöðvar samnings þann 7. mars 2011. Við það sé síðan bætt inneign eða skuld vegna lokagjalds (sbr. dálk 6). Dálkur 7 sýni stöðu samnings eftir endurútreikning þann 7. mars 2011. Síðan sé endurreiknuð staða hvers samnings lögð saman og þannig fengnar samtals 24.144.026 krónur sem sé sú skuld sem stefnandi telur að krafa stefnda geti að hámarki numið verði ekki fallist, á aðalkröfu, fyrstu, aðra, þriðju og fjórðu varakröfu stefnanda.

Stefnandi byggir á því að sú aðferð sem stefndi beiti sé óheimil, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001, en stefndi höfuðstólsfæri vexti við hverja greiðslu. Ákvæði 12. gr. laga nr. 38/2001 sé ófrávíkjanlegt, sbr. 2. gr. sömu laga nema vikið sé frá ákvæðinu til hagsbóta fyrir skuldara. Fyrir liggi svo sem fyrrgreindir útreikningar beri með sér að svo sé ekki. Regla 12. gr. vaxtalaga sé alveg skýr þ.e. að bæta skuli vöxtum við höfuðstól á 12 mánaða fresti en ekki oftar.

Í ljósi framangreinds, með vísan til ákvæða í kaupleigusamningnum, fyrrgreindra Hæstaréttardóma og ofangreindra útreikninga stefnanda sé uppgjöri stefnda mótmælt. Með fimmtu varakröfu kveðst stefnandi gera þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að miða uppgjör við að vextir séu höfuðstólsfærðir árlega í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 og 12. gr. s.l., og að samningar 804616, 804828, 804873, 804909, 804998, 805471, 806077, 806085, 807124 og 808622 komi ekki inn í þann endurútreikning þar sem þeir hafi verið stefnanda óhagstæðir, sbr. sjónarmið varðandi aðalkröfu. Miðað við útreikninga stefnanda, sem byggi á fyrrgreindum forsendum, sé uppgreiðsluvirði samninga sem ekki hafa verið greiddir að fullu, sbr. töfluna hér að framan, þann 7. mars 2011, að loknu uppgjöri og skuldajöfnun 24.144.026 krónur, sem er sú fjárhæð sem stefnandi krefst, samkvæmt fimmtu varakröfu, að verði viðurkennd með dómi sem skuld hans við stefnda, eftir uppgjör og endurútreikning, verði ekki fallist á aðalkröfu, fyrstu, aðra, eða fjórðu varakröfu hans.

Verði ekki fallist á aðalkröfu, fyrstu, aðra, fjórðu eða fimmtu varakröfu stefnanda byggir stefnandi á því með sjöttu varakröfu að útreikningar stefnda fái þrátt fyrir það ekki staðist og krefst því viðurkenningar á því með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að krafa stefnda þann 7. mars 2011, þegar endanlegt uppgjör barst stefnanda, geti að hámarki numið 39.401.229 krónum. Sjötta varakrafa stefnanda er reist á sömu sjónarmiðum og fimmta varakrafa, þ.e. að óheimilt sé að höfuðstólsfæra vexti við hverja afborgun líkt og stefndi geri, heldur eigi að höfuðstólsfæra þá árlega, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Eini munurinn sé sá að í sjöttu varakröfu sé byggt á öllum samningum en í fimmtu varakröfu sé einungis byggt á þeim samningum sem stefnanda séu hagstæðir. Stefnandi sundurliðar sjöttu varakröfu með eftirfarandi hætti niður á einstaka samninga. 

Stefnandi byggir á því í sjöttu varakröfu svo sem fram komi í bréfi, dagsettu 18. mars 2011, að endurútreikningurinn eigi að fara þannig fram, verði talið heimilt að krefjast vaxta aftur í tímann og endurreikna samninga sem voru stefnanda óhagstæðir, að upphaflegur höfuðstóll ofangreindra kaupleigusamninga, í íslenskum krónum, sé vaxtareiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, sbr. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001. Frá þeirri fjárhæð dragist greiðslur, sem hann hafi innt af hendi vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til viðmiðunardags endurútreiknings miðað við sömu vexti. Vöxtum eigi þá að vera bætt við höfuðstól á tólf mánaða (360 daga) fresti og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Stefnandi byggir á því að sú aðferð sem stefndi beiti sé óheimil, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001, en stefndi höfuðstólsfærir vexti við hverja afborgun. 

5. Um lagarök almennt byggir stefnandi kröfur sínar á almennum reglum kröfuréttar um lok kröfuréttinda og reglu kröfuréttar um að krafa sé liðin undir lok vegna greiðslu sé greiðsluskyldu skuldarans lokið. Einnig byggir stefnandi á meginsjónarmiðum kröfuréttar um að fyrirvaralaus greiðsla jafngildi endanlegu uppgjöri. Jafnframt byggir stefnandi á reglum kröfuréttar um endurgreiðslu oftekins fjár. Stefnandi vísar einnig til 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010, sbr. núgildandi 18. gr. laga nr. 38/2001. Enn fremur byggir stefnandi á 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og á þeirri grunnreglu almennrar lögfræði að íþyngjandi reglum skuli ekki beitt afturvirkt. Til stuðnings varakröfu sinni byggir stefnandi á 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 og 12. gr. s.l. og jafnframt á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála o.fl. Jafnframt vísar stefnandi til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um heimild til þess að höfða mál um uppgjör þetta í einu máli en ekki vegna hvers samnings fyrir sig. 

Þá segir stefnandi að forsendur í aðalkröfu, fyrstu, fjórðu, fimmtu og sjöttu varakröfu byggi á sömu forsendum og stefndi hafi lagt upp með í uppgjöri sínu. Þar hafi stefndi reiknað alla kaupleigusamninga þannig að ýmist hafi myndast skuld eða inneign á samningana. Samkvæmt þeim útreikningum hafi þrír samningar staðið eftir sem ekki hafi verið að fullu greiddir. Stefndi hafi síðan ráðstafað inneignum stefnanda inn á meintar skuldir á uppgreiddum samningum sem hafi reiknast með skuld. Þeirri inneign sem eftir hafi staðið hafi síðan allri verið ráðstafað upp í eftirstöðvar á samningi nr. 820148 (áður 812915), þrátt fyrir að hagstæðast væri fyrir stefnanda að þeim yrði ráðstafað upp í samning nr. 820135 (áður 811000), sem hafi þá að mestu verið uppgerður. Þannig hafi það verið stefndi sem hafi afmarkað sakarefni málsins með þessum hætti, þ.e. að leyst væri úr uppgjöri vegna allra kaupleigusamninga stefnanda og stefnda í einu máli. 

Kröfur um málskostnað styður stefnandi, í öllum tilvikum, við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 hvað varðar aðalkröfu, fyrstu, aðra og þriðju varakröfu stefnanda en stefndi hafi sjálfur markað upphafstíma dráttarvaxta með uppgjöri sínu þann 7. mars 2011.

IV

Verður nú gerð grein fyrir helstu málsástæðum stefnda og lagarökum samkvæmt greinargerð og skriflegri talningu málsástæðna sem hann lagði fram við flutning málsins 20. september sl. Stefndi mótmælir almennt kröfum stefnanda og gildi útreikninga hans. Stefndi heldur því fram að framsetning stefnanda á dómkröfum sínum og útreikningar þeim til stuðnings séu hvorki í samræmi við ákvæði samninga aðila, ákvæði vaxtalaga sbr. breytingalög nr. 151/2010, meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð né dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010. Þar sem talsverður ágreiningur sé á milli aðila, m.a. um það hvort útreikningsaðferðir stefnda rúmist innan gildissviðs áður greindra laga og almennra meginreglna laga og ef svo sé þá hvort umrædd lög standist æðri réttarheimildir, s.s. stjórnarskrá, þjóni það engum sérstökum tilgangi að hrekja útreikningana lið fyrir lið, enda byggi þeir einfaldlega á forsendum sem stefndi telji ekki vera réttar. Í greinargerð stefnda eru gerðar eftirfarandi athugasemdir við aðalkröfu stefnanda og útreikninga henni til stuðnings:

Stefndi segir að aðalkrafa stefnanda byggi á því að gengistrygging allra samninganna sé felld úr gildi frá upphafsdegi þeirra en samningsvextir (LIBOR-vextir) séu hins vegar látnir standa óbreyttir frá upphafsdegi samninganna. Þannig horfi stefnandi á upphaflegar samningsfjárhæðir, dragi svo frá þeim allar greiddar innborganir og finni þannig út nýja stöðu samninganna. Af þeirri stöðu reikni hann svo vexti samkvæmt 4. gr. vaxtalaga frá þeim tíma þegar hann greiddi síðast af samningunum og fram til 7. mars 2011 sem sé sú dagsetning sem stefndi birti endurútreikning samninganna fyrir stefnanda. Við útreikning aðalkröfunnar líti stefnandi fram hjá öllum þeim samningum sem hafi verið uppgerðir þegar endurútreikningurinn var framkvæmdur og reiknist í skuld við stefnda.

Þrátt fyrir að aðalkrafa stefnanda gangi fyrst og fremst út á það að vextir samkvæmt 4. gr. vaxtalaga séu ekki reiknaðir á samningana aftur í tímann, þ.e. áður en Hæstiréttur Íslands kvað upp dómana 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggingar lánssamninga og stefndi hætti að senda út greiðsluseðla vegna slíkra samninga, þá reikni stefnandi engu að síður þessa vexti aftur í tímann í þeim tilvikum þar sem um uppgerða samninga sé að ræða sem reiknist með inneign fyrir stefnanda. Sem dæmi um þetta megi nefna samning nr. 806337, stefnandi hafi greitt síðustu afborgun inn á höfuðstól hans 13. febrúar 2009 en í útreikningi stefnanda reikni hann vexti samkvæmt 4. gr. vaxtalaga á samninginn frá þeim degi, þ.e. 13. febrúar 2009, en ekki frá 16. júní 2010, þ.e. þeim degi sem áður greindir dómar voru kveðnir upp. Afleiðingar þessa séu þær að inneignir stefnanda af uppgerðum samningum beri mun hærri vexti en ella og megi því segja að þessi aðferðarfræði geri ráð fyrir að stefnandi fái lága vexti á þá samninga sem reiknist honum í skuld við endurútreikning á meðan samningar sem reiknast með inneign beri hærri vexti. Í þessari kröfugerð felist mikill tvískinnungur.

Verður nú gerð grein fyrir málsástæðum stefnda fyrir einstökum kröfum hans.

1. Málsástæður til stuðnings kröfu um sýknu af aðalkröfu og fyrstu varakröfu

Stefndi byggir á því að endurútreikningur hans og uppgjör á grundvelli hans sé í fullu samræmi við ákvæði samninga aðila, lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010, dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 frá 16. júní 2010, og meginreglu kröfuréttar um skuldajöfnuð. Ljóst sé að skilyrði skuldajafnaðar hafi verið fyrir hendi og skuldajöfnuðurinn heimill samkvæmt síðasta málslið 4. tl. 30. gr. samninga aðila og fyrrgreindri meginreglu kröfuréttar um skuldajöfnuð, sbr. enn fremur lögskýringargögn með lögum nr. 151/2010. Í greinargerð stefnda er á það bent að á stefnda hvíli sú skylda samkvæmt ákvæðum vaxtalaga, sbr. lög nr. 151/2010, að endurreikna alla lánssamninga, með ólögmætri gengistryggingu, sem hann hafi gert við viðskiptamenn sína, óháð því hvort þeir séu uppgerðir eða ekki, svo framarlega sem þeir hafi verið í gildi þann 16. júní 2006 eða fjórum árum áður en fyrningarfrestur samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV. í vaxtalögum byrjaði að líða.

Við flutning málsins 20. september sl. féll stefndi frá þeim málsástæðum er hann hafði uppi í greinargerð að hann hefði ekki gert fyrirvara við móttöku greiðslna á grundvelli samninga aðila og væri þess vegna óheimilt að endurreikna uppgerða samninga eða endurreikna greiðslur af virkum samningum þar sem fullnaðarkvittanir hafi verið gefnar út.

Sem rök fyrir því að endurútreikningsaðferð stefnda sé í fullu samræmi við ákvæði vaxtalaga vísar stefndi til 5. mgr. 18. gr. laganna og a-liðar 7. mgr. sömu greinar þar sem kveðið sé á um að reiknaður skuli „mismunur allra greiðslna sem skuldari innti af hendi og þess sem hann hefði átt að greiða miðað við vexti samkvæmt 4. gr. og aðra skilmála lánssamnings“. Endurútreikningur stefnda á kaupleigusamningum aðila sé þannig í fullu samræmi við ákvæði laganna en í lagaákvæðinu komi skýrt fram að upphaflegur höfuðstóll skuldar skuli vaxtareiknaður samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna en það leiði til þess að vaxtaþáttur þegar greiddra leigugreiðslna breytist í hinni nýju greiðsluröð sem verði til við endurútreikning.

Þessi aðferð laganna við endurútreikning sé bæði rökrétt og eðlileg í ljósi þess að gengistrygging lánssamninga hafi verið dæmd ólögmæt. Hefði löggjafinn valið aðra leið, t.d. þá að líta á allar greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi af láni með ólögmætri gengistryggingu sem fullnaðargreiðslur á viðkomandi gjalddögum og að óheimilt væri við endurútreikning að taka mið af vangreiðslum á grundvelli hinnar nýju greiðsluraðar þá gæti það leitt til þess að skuldari hagnaðist með óréttmætum hætti á kostnað lánveitanda en slíkt væri afar ósanngjarnt vegna brottfalls gengistryggingarinnar, ekki síst í þessu máli þar sem aðilar eru tvö stórfyrirtæki.

a. Varðandi þá málsástæðu stefnanda að vaxtalög, sbr. breytingalög nr. 151/2010, heimili ekki fjármálafyrirtæki að endurreikna uppgerða samninga sem eru skuldara óhagstæðir og lækka þannig endurgreiðslukröfur vegna annarra samninga kveðst stefndi skilja framangreinda málsástæðu stefnanda þannig að þar sem ekki sé ótvírætt ákvæði sem heimili skuldajöfnuð í vaxtalögum, sbr. breytingalög nr. 151/2010, þá telji stefnandi að stefnda sé einungis heimilt að endurreikna samninga þar sem endurútreikningur er stefnanda hagfelldur og leiði til endurgreiðslu honum til handa. Þannig að stefnda beri við uppgjör aðila að horfa algjörlega fram hjá samningum sem reiknist stefnanda í óhag.

Stefndi mótmælir þessari málsástæðu og bendir á að hvorki sanngirnis- né jafnræðisrök hnígi að því að við uppgjör eftir endurútreikning gagnkvæmra lánssamninga tveggja stórfyrirtækja eigi eingöngu að líta til þeirra lánssamninga sem eru lántakandanum hagkvæmir en horfa algjörlega fram hjá hinum sem eru það ekki. Stefndi byggir á því að heimild hans til þess að taka tillit til uppgerðra kaupleigusamninga við endurútreikning, óháð því hvort þeir séu stefnanda hagfelldir eða ekki, eigi sér stoð í eftirfarandi samningsákvæðum og réttarheimildum:

i. Ákvæði í samningi aðila

Í 30. gr. kaupleigusamninga aðila sé að finna eftirfarandi ákvæði: Nú myndast hagnaður hjá Lýsingu hf. við uppgjör á leigusamningi og getur Lýsing hf. þá einhliða greitt hann inn á aðrar kröfur eða leigusamninga sem í gildi eru á milli sömu aðila. Af þessu megi sjá að hin umþrætta uppgjörsaðferð sem stefndi og önnur fjármálafyrirtæki hér á landi beiti og felist í því að skuld samkvæmt endurútreikningi sé ráðstafað á móti inneign eigi sér fulla stoð í samningum aðila.

ii. Lögskýringargögn með breytingalögum nr. 151/2010:

Stefndi vísar einnig til 6. mgr. 2. gr. upphaflegrar útgáfu frumvarps til breytingalaga nr. 151/2010 þar sem segi: Við endurgreiðslur til lögaðila er kröfuhafa heimilt að taka tillit til allra lánsviðskipta þeirra í milli og draga frá þann ávinning sem lögaðili kann að hafa haft vegna ólögmætra vaxta eða verðtryggingarákvæða. Með ávinningi sé átt við mismun á vöxtum skv. 4. gr. og umsömdum en ólögmætum vöxtum og verðtryggingu. Í kjölfar framlagningar frumvarpsins hafi ýmsir hagsmunaaðilar gefið umsögn um frumvarpið, þ.m.t. Lögmannafélag Íslands en í umsögn þess segi eftirfarandi um skuldajafnaðarákvæðið: Í öðru lagi virðist vera gert ráð fyrir skuldajafnaðarrétti í 6. mgr. 2. gr. varðandi endurgreiðslur til lögaðila. Skuldajafnaðarréttur væri alla jafna fyrir hendi samkvæmt almennum reglum, bæði gagnvart lögaðilum og einstaklingum. Því er ekki alveg ljóst hver þýðing þessa ákvæðis er. Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og skattanefndar Alþingis, dags. 17. desember 2010, hafi verið lagðar til breytingar á hinu fyrirliggjandi frumvarpi og segi m.a. í álitinu: Lagt er til að 6. mgr. 2. gr. frumvarpsins, um skuldajafnaðarrétt kröfuhafa gagnvart lögaðila, falli brott í ljósi athugasemda um að greinin sé óskýr og að óljóst sé að hvaða leyti hún víki frá almennum reglum. Framangreint ákvæði hafi verið fellt brott úr annarri útgáfu frumvarpsins og sé það því ekki að finna í lögunum.

Ljóst sé af framangreindu að löggjafinn hafi metið það svo að ekki væri þörf á því að kveða á um sérstaka skuldajafnaðarheimild gagnvart lögaðilum þar sem slíkar heimildir væri að finna í gildandi rétti, þ.e. ólögfestum reglum kröfuréttar. Stefndi kveðst því telja að sú ákvörðun hans að líta til allra lánssamninga sem í gildi hafa verið á milli aðila þessa máls á tímabilinu frá 16. júní 2006, þ.e. frá því fjórum árum frá upphafi fyrningarfrests samkvæmt áðurgreindu ákvæði XIV í vaxtalögum, sbr. breytingalög nr. 151/2010, fram að endurreikningi og draga frá endurgreiðslum þann ávinning sem stefnandi hefur haft af lánum með ólögmætum vaxta- eða verðtryggingarákvæðum vera í fullu samræmi við vilja löggjafans og meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð.

iii. Skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi:

Stefndi byggir á því að öll skilyrði til að lýsa yfir skuldajöfnuði séu fyrir hendi samkvæmt meginreglum kröfuréttar um skuldajöfnuð. Í því sambandi bendir stefndi á að kröfurnar, þ.e. inneign samkvæmt endurútreikningi og skuld samkvæmt endurútreikningi séu gagnkvæmar, þ.e. skuldari annarrar kröfunnar er jafnframt kröfuhafi hinnar. Þá séu kröfurnar hvað greiðslutíma varðar hæfar til þess að mætast og jafnframt séu greiðslur samkvæmt kröfunum sambærilegar. Enn fremur séu kröfurnar báðar gildar. Stefndi hafi lýst yfir skuldajöfnuði með réttum hætti en tilkynning stefnda um niðurstöðu endurútreiknings og eftirstöðvar virkra samninga, 7. mars 2011 séu ígildi skuldajafnaðaryfirlýsingar. Yfirlýsingin sé ákvöð og hún hafi orðið virk um leið og hún barst stefnanda. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar geti stefnandi ekki hafnað yfirlýsingunni en hann geti þó mótmælt henni. Niðurstaða endurútreiknings stefnda á þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum aðila hafi verið sú að skuld stefnanda gagnvart stefnda samkvæmt þrettán samningum hafi verið samtals 73.621.621 króna þann 7. mars 2011 en inneign stefnanda hjá stefnda þann sama dag samkvæmt nítján samningum verið samtals 24.919.982 krónur.

Áhrif skuldajafnaðaryfirlýsingarinnar hafi því verið þau að kröfur beggja aðila að fjárhæð 24.919.982 krónur hafi fallið niður um leið og stefnandi hafi veitt endurútreikningi stefnda viðtöku og frá þeim tíma hafi skuld stefnanda við stefnda numið 48.701.639 krónum auk áfallandi vaxta.

b.

Vegna þeirrar fullyrðingu í stefnu að stefndi rífi ekki upp og endurreikni uppgerða samninga sem séu óhagstæðir skuldurum í þeim tilvikum þegar skuldarinn er einstaklingur en ekki lögaðili og þeirrar áskorunar stefnanda á stefnda, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að upplýsa og leggja fram gögn sem sýna hvort og þá með hvaða hætti hann hafi dregið frá skuldir vegna uppgerðra samninga við inneignir á öðrum samningum í þeim tilfellum sem einstaklingar eru skuldarar, segir stefndi þessa málsástæða enga þýðingu hafa fyrir ágreining aðila. Enda myndi eftirgjöf af þessum toga gagnvart einstaklingum umfram stórfyrirtæki aldrei geta falið í sér ólögmæta mismunun sem gangi í berhögg við ákvæði 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eins og stefnandi fullyrðir. Stefndi kveðst hafa ráðstafað inneignum á grundvelli endurútreikninga samninga inn á skuldir endurreiknaðra uppgerðra samninga sem einstaklingar hafi gert við stefnda. Vísar stefndi t.d. til tilkynningar sem hafi birst á vef stefnda 29. nóvember 2010 en þar komi fram að stefndi muni ráðstafa inneignum einstaklinga inn á eftirstöðvar samninga hafi þeir ekki óskað eftir endurgreiðslu. Í þeim tilvikum þegar stefndi hafi þurft að afskrifa kröfur gagnvart einstaklingum vegna einstakra samninga og inneign hefur myndast vegna annarra samninga hafi stefndi skuldajafnað inneign á móti skuld. Vegna lagaákvæða um bankaleynd geti stefndi ekki lagt fram uppgjör einstaklinga til þess að sýna fram á framangreint.

c. Sjónarmið varðandi 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, afturvirkni laga og meginregluna um lok kröfuréttinda

Stefndi mótmælir því að vaxtalög, sbr. breytingalög nr. 151/2010, brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrár og feli í sér afturvirkni. Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar Íslands nr. 471/2010 frá 16. september 2010 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að þar sem hann hefði áður dæmt gengistryggingu lánssamninga ólögmæta yrði að líta á slíka samninga þannig að aðilar hefðu samið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru. Sú niðurstaða hafi leitt til þess að rétturinn hafi talið að 4. gr. vaxtalaga yrði beitt í tilvikum sem þessum en ákvæðið lýsi því hvernig bregðast eigi við þegar samið hafi verið um að greiða vexti af fjárskuldbindingu án þess að vaxtaviðmiðun hafi verið tilgreind.

Stefndi hafnar því að lög nr. 151/2010 sem breyttu vaxtalögum o.fl. geti falið í sér afturvirkni. Þar sem Hæstiréttur hafi staðfest ólögmæti gengistryggingar lánssamninga og mælt fyrir um vexti af slíkum samningum, sbr. dóma réttarins frá 16. júní og 16. september 2010, þá hrófli lögin lítið við stærstum hluta þeirra samninga sem falli undir lögin, þ.m.t. samningum aðila þessa máls, þar sem með lagasetningunni hafi eingöngu verið lögfestur gildandi réttur. Þá sé ekki að finna almennt bann við afturvirkni laga í íslenskum rétti, þótt sérstaklega sé mælt fyrir um slíkt hvað varðar lög á tilteknum sviðum, m.a. refsilög, sbr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi hafnar því einnig að lögin gangi gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Því til stuðnings vísar hann til athugasemda í greinargerð með frumvarpi til laganna en þar segir m.a. að frumvarpið sé byggt á sjónarmiðum um vörslu almannahagsmuna, sanngirni og verndun skuldara. Jafnframt komi þar fram að lagasetningin sé almenn og jafnræðis sé gætt en hefði ekki verið gripið til lagasetningar er ljóst að skuldarar hefðu verið í mismunandi stöðu eftir því hjá hvaða fjármálastofnun þeir hefðu tekið lán. Þannig sé ljóst að vaxtalög, sbr. breytingalög nr. 151/2010, feli hvorki í sér afturvirkni né brjóti gegn eignaréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefndi mótmælir því einnig að vaxtalög, sbr. breytingalög nr. 151/2010, fari gegn almennum réttarreglum um lok kröfuréttinda. Í því sambandi bendir hann á að samkvæmt réttarheimildafræði séu sett lög rétthærri réttarheimild en almennar meginreglur laga. Í lögunum sé að finna ákvæði sem leggi þá skyldu á herðar stefnda að endurreikna kaupleigusamninga aðila frá upphafi burtséð frá því hvort þeir séu uppgerðir eða ekki. Sú aðferð við endurútreikning sem lögin kveði á um, geri m.a. ráð fyrir því að við endurútreikninginn sé reiknaður mismunur allra þeirra greiðslna sem skuldari hafi innt af hendi og þess sem hann hefði átt að greiða miðað við vexti samkvæmt 4. gr. vaxtalaga. Framangreind endurútreikningsaðferð sem stefnandi telji að fari gegn almennum réttarreglum um lok kröfuréttinda og skuldbindingargildi fullnaðarkvittana sé bæði rökrétt og eðlileg í ljósi þess að gengistrygging lánssamninga hafi verið dæmd ólögmæt. Hefði löggjafinn valið aðra leið, t.d. þá að líta á allar greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi af láni með ólögmætri gengistryggingu sem fullnaðargreiðslur á viðkomandi gjalddögum og að óheimilt væri við endurútreikning að taka mið af vangreiðslum á grundvelli hinnar nýju greiðsluraðar, þá kynni slíkt að leiða til þess að skuldari hagnaðist með óréttmætum hætti á kostnað lánveitanda.

Hvað varðar sjónarmið stefnanda um  ... að þegar krafa sé liðin undir lok vegna greiðslu sé greiðsluskyldu skuldarans lokið. hafnar stefndi því að unnt sé að slá því föstu að krafa falli í öllum tilvikum niður við greiðslu. Í því sambandi vísar stefndi til þess að þar sem Hæstiréttur hafi fyrst dæmt gengistryggingu lánssamninga ólögmæta, og síðan kveðið á um hvaða vexti slíkir lánssamningar skuli bera og löggjafinn loks sett almennar reglur um endurútreikning og uppgjör, þá hafi kröfur annars vegar vegna uppgreiddra samninga og hins vegar vegna greiddra gjalddaga af virkum samningum orðið virkar að nýju í þeirri greiðsluröð sem myndast við endurútreikning samningana, enda sé ljóst að forsendur fyrir fullnaðargreiðslu gjalddaganna séu bæði rangar og brostnar. Stefndi telur þetta rökrétt og í samræmi við framangreinda undantekningarreglu kröfuréttar um að krafa geti undir vissum kringumstæðum orðið virk að nýju þrátt fyrir efndir. Um leið og gengistrygging fjárskuldbindingar sé afnumin þurfi, vegna samspils gengistryggingar og vaxta, að reikna kröfuna upp, þ.m.t. áður greidda gjalddaga, með öðrum vöxtum en upphaflega var samið um. Önnur niðurstaða, s.s. sú að óheimilt sé við þessar kringumstæður að endurreikna þegar greiddar afborganir, getur að mati stefnda leitt til þess að lántaki hagnist með óréttmætum hætti á kostnað lánveitanda en slíkt felur ekki í sér efndir sem kröfuhafi mátti vænta í skilningi áður greindrar undantekningarreglu, auk þess sem það kunni að vera bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga vegna brottfalls gengistryggingarinnar.

d. Sjónarmið varðandi ráðstöfun inneigna á grundvelli endurútreiknings:

Í stefnu komi fram að við ráðstöfun inneigna á grundvelli endurútreiknings hafi stefndi fyrst ráðstafað inneignum stefnanda upp í skuldir samkvæmt samningum sem hafi ekki verið lengur í gildi og þeirri inneign sem eftir stóð hafi síðan verið ráðstafað upp í eftirstöðvar á samningi nr. 820148 (áður 812915), þrátt fyrir að hagstæðara hefði verið fyrir stefnanda að inneigninni yrði ráðstafað upp í eftirstöðvar samnings nr. 820135 (áður 811000), þar sem hann hafi verið að mestu uppgerður.

Stefndi telur ekkert athugavert við framangreint verklag við ráðstöfun inneigna. Ráðstöfun inneigna með þessum hætti sé í fullu samræmi við ákvæði 30. gr. samninga aðila og meginreglur kröfuréttar um ráðstöfun greiðslna inn á gjaldfallnar kröfur. Ákvörðun um ráðstöfun inneignarinnar inn á samning nr. 820148 (áður 812915) hafi verið tekin þar sem það hafi verið mat stefnda að veðstaða (ef hægt sé orða það svo í tilfelli kaupleigusamninga) hans væri lökust á þessum tiltekna samningi og þar með áhættan mest.

e. Endurútreikningur stefnda umfram skylda

Eins og fram kom þegar málið var tekið fyrir í þinghaldi 18. júní 2012 komu fram nýjar málsástæður af hálfu stefnda til stuðnings sýknukröfu. Í skriflegum málsástæðum stefnda sem hann lagði fram við flutning málsins 20. september sl. er gerð svofelld grein fyrir þessum nýju málsástæðum. Stefndi byggir á því að telji héraðsdómur þrátt fyrir framangreint að undantekningarreglan um fullnaðarkvittanir eigi við um endurútreikning stefnda á samningum aðila sé stefnda samt sem áður óskylt að ganga lengra og endurreikna samningana m.t.t. fullnaðarkvittana. Þessi málsástæða grundvallist á því að upphaflegur endurútreikningur stefnda á kaupleigusamningunum var umfram skyldu af eftirfarandi ástæðum:

i. Kaupleigusamningar stefnda séu ekki lánssamningur heldur leigusamningar sem heimilt hafi verið að gengistryggja. Í þessu sambandi vísar stefndi til 6. gr. alþjóðlega reikningsskilastaðalsins IAS-17 um leigusamninga en staðallinn hafi lagagildi hér á landi sbr. 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, sjá dskj. nr. 205.

ii. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu um bann við gengistryggingu lánssamninga stangist á við „ákvæði 40. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sem kveður á um frjálst flæði fjármagns“. Íslenskum dómstólum beri að skýra landsrétt til samræmis við EES-rétt og samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum beri að skýra lög til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar.

f. Útreikningsaðferð stefnanda samræmist ekki niðurstöðum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012

Telji héraðsdómur þrátt fyrir framangreint að undantekningarreglan um fullnaðarkvittanir eigi við um endurútreikning stefnda á samningum aðila og að endurútreikningurinn hafi ekki verið umfram skyldu, þá byggir stefndi á því að ekki sé hægt að leggja til grundvallar þá útreikningsaðferð sem aðalkrafa og fyrsta varakrafa stefnanda grundvallast á, þar sem hún sé ekki í samræmi við röksemdir Hæstaréttar fyrir niðurstöðu sinni í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Ástæðan sé, sú að mati stefnda. að útreikningsaðferðin leiði til þess að uppgerðir samningar reiknist í skuld fyrir stefnanda þrátt fyrir að hann hafi yfir fullnaðarkvittun að ráða. Í þessu sambandi bendir stefndi á samninga nr. 804616, 804828, 804909 og 804998 en þeir reiknist allir í skuld samkvæmt útreikningsaðferðinni, sbr. töflu stefnanda nr. 2 hér að framan.

Stefndi heldur því fram að í dómi Hæstaréttar frá 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 hafi Hæstiréttur í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sinni skýrt betur fyrri fordæmi sín varðandi endurútreikning gengistryggðra lána og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé rétt að reikna þau upp með þeirri aðferð sem lögð hafi verið til grundvallar í dómi Hæstaréttar frá 18. október 2012 í máli nr. 464/2012. Stefndi telur að vegna þessa verði fremur að horfa til svonefndrar „Biðreikningsaðferðar (uppsafnað)“ samkvæmt framlögðum útreikningum sem stefndi lagði fram 18. júní 2012 og skýringum á aðferðinni sem stefndi lagði fram 19. september 2012. Þar kemur fram að aðferðin gangi út á að gert sé ráð fyrir að samningurinn sé ein krafa en ekki jafnmargar kröfur og fjöldi gjalddaga leigugreiðslna og sú fjárhæð sé endurreiknuð með lægstu vöxtum Seðlabanka Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 og dóm Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í máli nr. 471/2010. Raungreiðslur stefnanda af samningunum á hverjum gjalddaga séu þá bornar saman við greiðslu samkvæmt hinni endurreiknuðu greiðsluröð. Við samanburðinn sé miðað við að ef leigutaki hefur ofgreitt þá fari ofgreiðslur inn á vaxtareiknaðan veltureikning og leigutaki fær ofgreiðslur endurgreiddar. Ef samanburðurinn leiðir í ljós vangreiðslu sé gert ráð fyrir því að leigutaki nýti fullnaðarkvittun þegar það henti honum. Þar sem litið sé á samninginn sem eina kröfu sé nauðsynlegt að mynda biðreikning til þess að kanna hvort viðkomandi leigutaki hafi í heild ofgreitt eða vangreitt. Þessi útreikningsaðferð sé í samræmi við röksemdir Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 og leiði til þess að stefnandi sé í skuld við stefnda en ekki öfugt og því sé einboðið að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

g. Sjónarmið varðandi höfuðstólsfærslu vaxta:

Þá mótmælir stefndi því í greinargerð að honum sé óheimilt að höfuðstólsfæra vexti mánaðarlega. Stefndi ítrekar að með dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að gengistryggingarákvæði lánssamninga væru ólögmæt og með dómi sínum þann 16. september s.á hafi rétturinn svo komist að því hvaða vexti lánssamningar með ólögmætri gengistryggingu skyldu bera. Önnur ákvæði lánssamninga sem falli undir dómafordæmin, s.s. ákvæði 5. gr. og 13. gr. samninga aðila um greiðslutíðni, leigugreiðslur og vaxtatímabil, gildi eftir sem áður óbreytt og þ.a.l. sé stefnda heimilt að höfuðstólsfæra vexti í samræmi við upphaflega ákvæði samninganna, þ.e. á eins mánaðar fresti. Hvað tilvísun stefnanda til 12. gr. vaxtalaga varðar, þá bendir stefndi á að óumdeilt sé að ef lengri tími en tólf mánuðir líða á milli gjalddaga þá sé einungis heimilt að höfuðstólsfæra vexti árlega. Þeir samningar sem mál þetta lúti að séu hins vegar allir með fleiri en einn gjalddaga á ári. Á þeim gjalddögum sé umsamið að ákveðinn hluti höfuðstóls og vaxta sé greiddur. Þeir vextir sem endurútreikningur miðist við í slíkum tilvikum geti ekki byggst á öðru en þeim mánaðarlegu vöxtum sem Seðlabanki Íslands hefur ákveðið með hliðsjón af mánaðarlegum útlánavöxtum fjármálafyrirtækja á hverjum tíma. 

Stefndi hafi höfuðstólsfært vexti mánaðarlega bæði af inneignum og skuldum samkvæmt endurútreikningi. Stefnandi hafi því notið góðs af höfuðstólsfærslu vaxta af inneignum sínum samkvæmt endurútreikningi en eins og áður segi hafi endurreiknast samtals nítján samningar aðila með inneign stefnanda og hafi hún numið 24.919.982 krónum þegar stefndi hafi framkvæmt áðurnefndan skuldajöfnuð.

2. Málsástæður til stuðnings kröfu um sýknu af annarri og þriðju varakröfu Stefndi segir aðra varakröfu stefnanda byggða á því að taka eigi til greina tiltekna varakröfu stefnda sem ekki sé lengur á meðal krafna málsins en stefndi hafi fallið frá þessari kröfu í þinghaldi 30. maí 2013. Stefndi telur að þó að hann hafi gert varakröfu í málinu sem hann hafi síðar fallið frá sé af og frá að hann hafi ráðstafað sakarefninu enda verði sakarefninu ekki ráðstafað með gerð varakrafna í dómsmáli.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki getað fallið frá umræddri varakröfu sé krafist sýknu af dómkröfunni á þeirri forsendu að aldrei sé hægt að taka hana til greina. Útreikningsaðferðin að baki kröfunni sé í engu samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Útreikningsaðferðin sé sú sama og fjárkrafa áfrýjanda í máli nr. 50/2013 fyrir Hæstarétti byggði á en Hæstiréttur hafi sýknað stefnda í málinu af þeirri kröfu. Ástæða þess hafi verið var sú að útreikningar að baki kröfunni gerðu ekki ráð fyrir að svokallaður biðreikningur væri skoðaður heildstætt heldur út frá stökum gjalddögum sem hafi hentað áfrýjanda.

Krafa um sýknu af þriðju varakröfu stefnanda byggir á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og krafa stefnda um sýknu af annarri varakröfu stefnanda. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki getað fallið frá umræddri varakröfu þá sé krafist sýknu af dómkröfunni á þeirri forsendu að aldrei sé hægt að taka hana til greina. Útreikningsaðferðin og röksemdir að baki kröfunni séu í engu samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar, hvorki í máli nr. 464/2012 né máli nr. 50/2013. Um sé að ræða svokallaða verðbótaleið sem sé mjög ólík þeim útreikningsaðferðum sem lagðar hafi verið til grundvallar í ofangreindum dómum.

3. Málsástæður til stuðnings aðalkröfum stefnda um frávísun á fjórðu, fimmtu og sjöttu varakröfu stefnanda.

Krafa stefnda um að fjórðu, fimmtu og sjöttu varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi er byggð á því að málatilbúnaður stefnanda hvað þessar dómkröfur varðar sé svo óljós og ruglingslegur að hann fullnægi ekki kröfum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lýsing málsástæðna og samhengi þeirra sé svo óljóst og óskýrt að ekki verði hjá því komist að vísa dómkröfunum frá dómi sökum vanreifunar. Bæði kröfugerð og málsástæður til stuðnings þessum dómkröfum stefnanda séu verulega vanreifaðar. Þær eigi það allar sammerkt í þeim sé þess krafist að viðurkennt verði með dómi að uppgjör stefnda sé rangt og að eftirstöðvar krafna stefnda á hendur stefnanda eftir endurútreikning vegna uppgjörs á kaupleigusamningunum, þann 7. mars 2011 nemi að hámarki tiltekinni fjárhæð sem sé mismunandi eftir því um hvaða dómkröfur stefnanda er að ræða. Stefndi telur að þessi kröfugerð uppfylli ekki þær kröfur einkamálaréttarfars að vera svo ákveðin og ljós að unnt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsorði, ef efnisleg skilyrði eru fyrir þeim málalokum. Þannig sé ekki skilgreint í dómkröfum hvaða uppgjör stefnanda sé rangt. Í því sambandi sé t.d. ekki vísað til þess um hverslags uppgjör sé að ræða, frá hvaða degi umrætt uppgjör sé, á hvaða dómskjali það sé að finna o.s.frv. Þá telur stefndi að orðalagið vegna uppgjörs á kaupleigusamningum sé ekki nægilega skýrt þar sem ekki sé tilgreint í dómkröfunum um uppgjör á hvaða kaupleigusamningum sé að ræða. Yrði fallist á einhverja þeirra viðurkenningarkrafna sem stefndi krefst frávísunar á, kynni enn að verða ágreiningur um það milli aðila, hvaða kaupleigusamningar ættu undir það uppgjör sem stefnandi krefst viðurkenningar á að sé rangt og að eftirstöðvar kafna stefnda á grundvelli þess geti að hámarki numið tiltekinni fjárhæð. Stefndi telur einnig að orðalagið nemi að hámarki sé allt of óljóst og víðtækt svo unnt sé að taka einhverja þeirra viðurkenningarkrafna sem krafist er frávísunar á, óbreytta upp í dómsorð.

Frávísunarkrafan er enn fremur byggð á því að þau dómskjöl sem stefnandi hefur lagt fram til grundvallar framangreindum kröfum sínum og þær málsástæður sem finna má í stefnu og grundvallast á þessum skjölum, séu sérstaklega óskýrar og ruglingslegar og í andstöðu við þá meginreglu einkamálaréttarfars að málatilbúnaður skuli vera glöggur og skýr.

4. Málsástæður til stuðnings varakröfum stefnda um sýknu af fjórðu, fimmtu og sjöttu varakröfu stefnanda.

Til vara, verði ekki fallist á kröfu stefnda um frávísun á fjórðu, fimmtu og sjöttu varakröfu stefnanda krefst stefndi sýknu af þessum kröfum. Stefndi byggir á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og hann teflir fram til stuðnings kröfu sinni um sýknu af aðal- og varakröfu stefnanda.

Hvað varðar kröfu um sýknu af fjórðu varakröfu er til viðbótar í skriflegum málsástæðum stefnda á því byggt að engin rök hnígi að því að líta eingöngu til samninga sem hafi verið virkir 16. júní 2010 enda sé það í ósamræmi við bráðabirgðaákvæði nr. 14 í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010.

Hvað varðar kröfu um sýknu af fimmtu og sjöttu varakröfu er til viðbótar í skriflegum málsástæðum stefnda á því byggt að stefnda sé heimilt að höfuðstólsfæra vexti mánaðarlega með vísan til 5. og 13. gr. í kaupleigusamningum aðila. Stefndi telur að tilvísun stefnanda til 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu breyti ekki framangreindu enda kveður lagaákvæðið eingöngu á um það að ef lengri tími en 12 mánuðir líða á milli gjalddaga þá sé einungis heimilt að höfuðstólsfæra vexti en óumdeilt er að þeir samningar sem stefndi endurreiknaði hafa gjalddaga á eins mánaðar fresti. Þá vísar stefndi einnig til úttektar embættis umboðsmanns skuldara á útreikningum stefnda og annarra fjármálafyrirtækja.

Fallist héraðsdómur ekki á kröfu stefnda um sýknu af aðalkröfu, fyrstu, annarri og þriðju varakröfu stefnanda og kröfu um frávísun eða sýknu af fjórðu, fimmtu og sjöttu varakröfu stefnanda kveðst stefndi taka undir fjórðu til sjöttu varakröfur stefnanda í öfugri röð miðað við framsetningu þeirra í stefnu. Þannig sé tekið fyrst undir sjöttu varakröfu, þá fimmtu varakröfu og loks fjórðu varakröfu.

5. Málsástæður er varða vaxtakröfu stefnanda

Fallist héraðsdómur á aðal- eða varakröfu stefnanda krefst stefndi sýknu af dráttarvaxtakröfu hans þar sem upphafstími dráttarvaxta samkvæmt stefnu, þ.e. 7. mars 2011, sé ekki rökstuddur í stefnu.

Telji dómurinn dráttarvaxtakröfu stefnanda dómtæka er á því byggt að dráttarvextir geti ekki reiknast á kröfu stefnanda fyrr en frá dómsuppsögu, sama hvaða fjárhæðir kröfugerðar hans yrðu teknar til greina, þar sem stefndi hafi aldrei verið krafinn um þær fjárhæðir sem krafa sé gerð um í stefnu. 

6. Krafa stefnda um málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi byggir á ákvæðum XXI. kafla sömu laga.

V

Eins og áður sagði afmörkuðu aðilar málsins sakarefni þess nánar við endurflutning málsins 20. september sl. Samkvæmt endanlegum málatilbúnaði stefnda er ekki lengur deilt um að greiðsluháttur stefnda vegna hverrar greiðslu hafi verið með þeim hætti að jafngildi fullnaðarkvittunum í skilningi dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/2013. Aðilar deila hins vegar um hvort fullnægt sé öðrum skilyrðum samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar til að beita undantekningu frá þeirri meginreglu að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt á, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að sú sé raunin eru aðilar sammála um að ekki sé tölulegur ágreiningur á milli þeirra heldur snúist ágreiningur þeirra um það hvaða útreikningsaðferð beri að leggja til grundvallar. Af hálfu stefnda var því jafnframt lýst yfir að hann héldi því enn fram að samningarnir fælu þó ekki í sér ólögmæta gengistryggingu og því bæri að sýkna hann af kröfum stefnanda.

1.

Aðilar máls þessa hafa allt frá því stefnandi gerði kröfu á hendur stefnda 7. júlí 2010 um endurgreiðslu ofgreiddra greiðslna, samkvæmt tuttugu og þremur kaupleigusamningum, með vísan til þess að þeir væru með ólögmætum hætti tengdir gengi erlendra mynta, deilt um uppgjör á þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum sem þeir gerðu með sér á tímabilinu 22. september 2004 til 5. nóvember 2007. Aðilar náðu samkomulagi um bráðabirgðauppgjör sem þeir undirrituðu 11. nóvember 2011, sem m.a. fól það í sér samkvæmt a-lið 4. mgr. 1. gr. samningsins, að stefnandi skyldi höfða mál gegn stefnda til þess að fá skorið úr ágreiningi aðila um „útreikning/uppgjör“ þessara samninga. Í samningi aðila frá 11. nóvember 2011 segir m.a. að hann sé gerður vegna mismunandi túlkunar aðila á því hvernig haga eigi endurútreikningi og eftir atvikum uppgjöri á fyrrgreindum þrjátíu og tveimur kaupleigusamningum eftir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010, 153/2010, 471/2010 og gildistöku laga nr. 151/2010 sem breytt hafi m.a. lögum nr. 38/2001. Stefnandi telji sig eiga kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 65.235.733 krónur miðað við endurreiknaða stöðu hinna þrjátíu og tveggja samninga þann 7. mars 2011. Þar sé miðað við að í endurútreikningi sé óheimilt að endurreikna áður fullgreiddar fyrirvaralausar greiðslur af samningunum þannig að afborganir sem greiddar hafi verið inn á höfuðstól á samningstíma komi til lækkunar á upphaflegum höfuðstól en lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands séu svo reiknaðir ofan á eftirstöðvar höfuðstóls frá þeim degi er síðasta greiðsla kom til. Einnig telji stefnandi að óheimilt hafi verið af hálfu stefnda við uppgjörið að endurreikna fullgreidda samninga sem hafi verið óhagstæðir stefnanda.

Í samræmi við þennan samning aðila var sakarefni málsins afmarkað samkvæmt stefnu og greinargerð við ágreining aðila um hvernig haga skuli uppgjöri vegna kaupleigusamninganna þar sem báðir aðilar gengu út frá því að umræddir samningar fælu í sér ólögmæta gengistryggingu. Þetta var óumdeilt þar til í þinghaldi 18. júní 2012 þegar stefndi lýsti því yfir að hann myndi hafa uppi nýjar málsástæður og lagarök til stuðnings sýknukröfum í málinu. Í ljósi dóms Hæstaréttar sem kveðinn var upp 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 væri til viðbótar byggt á því að upphaflegur endurútreikningur stefnda á kaupleigusamningunum hefði verið umfram skyldu, annars vegar sökum þess að kaupleigusamningur aðila væri leigusamningur sem heimilt væri að gengistryggja, sbr. 6. gr. alþjóðlega reikningsskilastaðalsins IAS-17 um leigusamninga, sbr. 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og hins vegar með vísan til þess að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 stangaðist á við „ákvæði 40. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið“. Stefndi tók jafnframt fram að þessi málsástæða hefði ekki verið höfð uppi í málum sem vörðuðu gengistryggingu bílasamninga og dómar hefðu gengið um í Hæstarétti 16. júní 2010. Stefnandi mótmælti þegar þessum málsástæðum sem of seint fram komnum. Ekki verður séð að nokkuð hafi verið því til fyrirstöðu fyrir stefnda að byggja á þessum málsástæðum strax í greinargerð. Stefndi átti sjálfur aðild að fyrrgreindu hæstaréttarmáli nr. 652/2011, sem varðaði gengistryggðan fjármögnunarleigusamning, og byggði í því máli frá upphafi m.a. á því að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 stönguðust á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Dómur í því féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. desember 2011 en greinargerð í því máli sem hér er til úrlausnar var lögð fram af hálfu stefnda 14. febrúar 2012. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 koma þessar nýju málsástæður stefnda því ekki til frekari skoðunar. Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kaupleigusamningarnir sem hér er deilt um hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

2.

Stefndi heldur því fram að honum hafi verið rétt að endurreikna bæði virka og uppgerða samninga aðila, sem enn hafi ekki verið fyrndir 16. júní 2006, með vísan til bráðabirgðaákvæðis XIV laga nr. nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, með þeim hætti sem hann gerði og krefja stefnda um vangreidda vexti með vísan til meginreglu kröfuréttar um fullar efndir. Af þeim þrjátíu- og þremur kaupleigusamningum sem aðilar höfðu gert með sér féll einn utan fyrningarfrestsins. Stefndi heldur því fram að ekki séu skilyrði til að beita undantekningarreglunni um fullnaðarkvittanir sem lögð hafi verið til grundvallar í dómum Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 og 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013. Þannig stendur annar meginágreiningur aðila um það hvort stefndi geti eftir almennum reglum kröfuréttar krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna mismunar á umsömdum vöxtum sem stefndi hefur þegar greitt af umræddum samningum og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.

Samkvæmt fyrrgreindum dómum getur fullnaðarkvittun að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu. Tilkalli hans verður af þeim sökum þó einungis hafnað við sérstakar aðstæður eins og rakið er í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/2013. Við mat á því hvort svo standi á beri m.a. að líta til þess hvort skuldari hafi verið í góðri trú, hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að hann réttlæti að viðbótarkröfu sé hafnað og hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiða til þess að vangreitt hafi verið. Í sambandi við mat á þriðja atriðinu er rakið í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar að horfa beri til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími líði frá því að mistök komi fram þar til krafa sé höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Ekkert eitt þessara atriða geti þó ráðið úrslitum um það hvort kröfuhafi eigi rétt á viðbótargreiðslum, heldur ráði þar heildarmat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari séu rökin fyrir því að víkja megi frá meginreglunni.

Stefndi hefur lýst því yfir að greiðsluháttur stefnanda vegna hverrar greiðslu hafi verið með þeim hætti að jafngildi fullnaðarkvittunum í skilningi dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 og ber því að leggja það til grundvallar úrlausn málsins. Varðandi þær sérstöku aðstæður sem Hæstiréttur hefur í framangreindum dómum byggt á deila aðilar, samkvæmt endanlegum málatilbúnaði stefnda, um hvort aðstöðumunur hafi verið á aðilum málsins og hvorum aðilanum standi nær að bera hallann af mistökunum við gerð samninganna auk þess sem stefndi heldur því fram að endurútreikningur hans hafi ekki í för með sér röskun á fjárhagslegum hagsmunum stefnanda. Lögmaður stefnda áréttaði við flutning málsins að fallið væri frá andmælum varðandi lengd tíma frá því að mistök komu fram og að fjárhæð viðbótarkröfu væri ekki umtalsverð. Við flutning málsins gerði lögmaður stefnda heldur ekki ágreining um þá staðhæfingu lögmanns stefnanda að heildarfjöldi gjalddaga samninganna væri 1346 og þar af væri búið að greiða 1153 greiðslur. Þannig er óumdeilt að sú festa hafi myndast við framkvæmd lánssamninganna að líkja megi atvikum við þau sem voru til úrlausnar í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar.

Eins og stefndi benti á verður ekki betur séð en að stefnandi sé stórt fyrirtæki og ljóst að aðilar hafi verið í viðvarandi viðskiptasambandi eins og gerð hinna þrjátíu og þriggja kaupleigusamninga á árabilinu 2004-2007 gefur til kynna. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá þeirri sérstöðu stefnda að hann er fjármálafyrirtæki og m.a. sérfræðingur í fyrirtækjafjármögnun og að ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi búið yfir slíkri sérþekkingu um fjármálastarfsemi og peningamál að jafnað verði við þá þekkingu sem fjármálafyrirtæki búa almennt yfir. Þá er óumdeilt í málinu að skilmálar kaupleigusamninganna voru ákveðnir einhliða af stefnda. Aðstöðumunur var því með aðilum málsins, sbr. áðurnefnd fordæmi Hæstaréttar. Sem fjármálafyrirtæki stóð það stefnda nær að gæta að því að samningarnir við stefnanda væru í samræmi við heimildir laga nr. 38/2001. Þá deila aðilar um verulega fjármuni og stefndi hefur stutt þá málsástæðu sína, að endurútreikningur hans hefði ekki í för með sér röskun á fjárhagslegum hagsmunum stefnanda, neinum haldbærum rökum. Henni er því hafnað.

Þá verður ekki fallist á það með stefnda að krafa hans um endurgreiðslu eigi sér stoð í samningum aðila, þ.e. lokamálslið ákvæðis 30. gr. kaupleigusamninganna þar sem segir: „Nú myndast hagnaður hjá Lýsingu hf. við uppgjör á leigusamningi og getur Lýsing hf. þá einhliða greitt hann inn á aðrar kröfur eða leigusamninga sem í gildi eru á milli sömu aðila.“ Umrætt ákvæði á samkvæmt 1. mgr. þess einvörðungu við í þeim tilvikum þegar um er að ræða uppgjör milli samningsaðila vegna vanefnda stefnda, tjóns á leigumun og riftun af hálfu stefnda og verður því ekki beitt um ágreining aðila hér.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að hann eigi rétt á að krefja stefnanda um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. Eins og tekið er fram í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 53/2013, með vísan til dóma réttarins í málum nr. 600/2011 og 464/2012, geta ákvæði laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2008, ekki haggað þessari niðurstöðu, enda með almennum lögum ekki unnt að hrófla, svo að íþyngjandi sé með afturvirkum hætti, við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt.

3.

Kemur þá til úrlausnar hvaða útreikningsaðferðir beri að leggja til grundvallar niðurstöðu málsins. Stefnandi segir fjárhæð aðalkröfu þannig fengna að innborganir á hvern samning, sem greiddar hafi verið, séu lagðar saman og dregnar frá upphaflegum höfuðstól samningsins. Þannig miðist inneign eða eftir atvikum skuld stefnanda á hverjum samningi við þann dag sem stefnandi hafi greitt síðast af kaupleigusamningunum. Síðan séu reiknaðir vextir af eftirstöðvum skuldar eða inneign stefnanda, frá síðasta greiðsludegi til 7. mars 2011, miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands, eins og þeir séu á hverjum tíma, sem lagðir séu við höfuðstól á 12 mánaða fresti og þannig fengnar eftirstöðvar samnings þann 7. mars 2011. Við það sé síðan bætt inneign eða skuld vegna lokagjalds sem byggi á upplýsingum frá stefnda. Þá séu lagðar saman samtölur inneigna/skulda, vextir á eftirstöðvar og inneign/skuld vegna lokagjalds vegna hvers samnings og samtala endurreiknaðra samninga, 65.235.733 krónur, sé aðalkrafa stefnanda á hendur stefnda. Í aðalkröfu stefnanda koma þeir fjórir samningar sem höfðu verið greiddir að fullu og voru stefnanda óhagstæðir ekki til endurútreiknings en í fyrstu varakröfu eru uppgerðu samningarnir teknir með í útreikninginn. Að öðru leyti liggja sömu forsendur til grundvallar útreikningi fyrstu varakröfu.

Af því sem fram kom við flutning málsins og í skriflegri talningu málsástæðna sem stefndi lagði fram við aðalmeðferð má ráða að ekki er ágreiningur um að framangreind útreikningsaðferð stefnanda sé sambærileg þeirri sem lögð var til grundvallar dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012. Stefndi andmælti því á hinn bóginn að dómurinn hefði fordæmisgildi. Útreikningsaðferðinni hefði ekki verið mótmælt af hálfu fjármálafyrirtækisins í því máli og með fyrrnefndum dómi í máli nr. 50/2013 hefði Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt við endurútreikning gengistryggðra lána að reikna þau upp með þeirri aðferð sem lögð hefði verið til grundvallar niðurstöðunni í máli nr. 464/2012. Þá benti stefndi einnig á að útreikningsaðferð stefnanda leiði til þess að uppgerðir samningar reiknist í skuld fyrir skuldara þrátt fyrir að hann hefði yfir að ráða fullnaðarkvittun. Fyrst við endurflutning málsins 20. september sl. byggði stefndi síðan á því að fremur yrði að horfa til svonefndrar „Biðreikningsaðferðar (uppsafnað)“ með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 en við fyrri flutning þess 30. maí sl. hafði hann byggt á því að fremur yrði að leggja til grundvallar fjórar aðrar útreikningsaðferðir. Stefndi þykir ekki hafa fært fullnægjandi rök fyrir því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 hnekki þeirri útreikningsaðferð sem aðalkrafa og fyrsta varakrafa stefnanda byggja á. Verður því fallist á réttmæti aðferðar stefnanda við útreikning aðalkröfu og fyrstu varakröfu hans en þegar litið er til þess að samningarnir þrjátíu og tveir mynda samfellda og viðvarandi fjármögnun til tækjakaupa stefnanda þykir rétt að þeir komi í heild til endurútreiknings eins og gert er ráð fyrir í fyrstu varakröfu stefnanda.

Stefndi hefur m.a. andmælt útreikningum stefnanda á þeirri forsendu að vextir séu lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti en ekki mánaðarlega eins og kveðið sé á um í samningum aðila. Stefndi vísar til 5. og 13. gr. samninganna. Í 5. gr. samninganna kemur fram að greiðslutíðni sé mánaðarlega og í 13. gr. er kveðið á um leigugreiðslur. Í þessum ákvæðum er hvergi með beinum orðum vikið að því að vextir leggist mánaðarlega við höfuðstól skuldar og af hálfu stefnda hefur það ekki verið skýrt með hvaða hætti þessi samningsákvæði gætu rennt frekari stoðum undir þessa málsástæðu hans. Með vísan til 1 mgr. 12. gr. laga nr. 38/2001 verður því ekki fallist á að útreikningum stefnanda sé áfátt að þessu leyti.

Stefndi andmælir einnig dráttarvaxtakröfu stefnanda og styður það m.a. þeim rökum að stefndi hafi aldrei verið krafinn um þær fjárhæðir sem krafa sé gerð um í stefnu. Hér ber til þess að líta að í samningi aðila um bráðabirgðauppgjör frá 11. nóvember 2011 er það áréttað að stefnandi telji sig eiga kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 65.253.733 krónur, miðað við endurreiknaða stöðu samninganna þrjátíu og tveggja þann 7. mars 2011. Ekki verður séð að stefnandi hafi sett stefnukröfu sína fram fyrr. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga verður stefnda því gert að greiða stefnanda dráttarvexti frá 11. desember 2011. Samkvæmt öllu framanrituðu verður fallist á fyrstu varakröfu stefnanda og að stefndi greiði honum 63.318.506 krónur sem þó beri fyrst dráttarvexti frá 11. desember 2011 til greiðsludags.

Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir, með hliðsjón af umfangi málsins og málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda, hæfilega ákveðinn 5.000.000 króna.

Af hálfu stefnanda flutti málið Magnús Pálmi Skúlason hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Ólafur Hvanndal Ólafsson hdl.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Lýsing hf., greiði stefnanda, Eykt ehf., 63.318.506 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. desember 2011 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 5.000.000 króna í málskostnað.