Hæstiréttur íslands
Mál nr. 506/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 25. september 2006. |
|
Nr. 506/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Guðmundur Ágústsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. nóvember 2006, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili sé undir sterkum grun um að hafa átt þátt í skipulagningu innflutnings á tæplega tveimur kílóum af kókaíni, hafa séð um móttöku þeirra á Spáni og flutt þau ásamt A til landsins. Fram hefur komið af hálfu sóknaraðila að stefnt sé að því að málið verði sent ríkissaksóknara í lok þessarar viku. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að kærði, X, [kt. og heimilsfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. nóvember 2006, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki meintan innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins. Kærði og samferðarkona hans, A, [kt.], hafi verið handtekin þann 9. ágúst sl. af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins frá Spáni. A hafi verið með fíkniefnin í farangri sem hún hafi haft meðferðis en X hafi verið handtekinn skömmu síðar í flugstöðinni eftir að hann hafi farið í gegnum hlið tollgæslunnar. Kærði hafi verið yfirheyrður af lögreglu en hann hafi greint m.a. frá því að hann og A hafi tekið að sér að flytja fíkniefnin til landsins að beiðni B, búsettri á [...]. Við skýrslutökur hafi kærði lýst aðdraganda ferðarinnar, fundi sem hann hafi átt með nefndri B þar sem ferðin hafi verið skipulögð, móttöku fíkniefnanna á Spáni, milligöngu B við aðila á Spáni í tengslum við móttökuna, auk þess sem hann hafi greint frá þátttöku A að brotinu. Sé nánar vísað til framburðarskýrslu kærða.
Rannsókn málsins sé á lokastigi og verður flýtt eftir föngum. Öll bankagögn hafi nú borist lögreglu, en gögn hafi borist lögreglu síðast í gær. Unnið sé að úrvinnslu þeirra og yfirheyrslur tengdar þeim muni fara fram á næstu dögum. Í lok næstu viku sé stefnt að því að frágangur rannsóknargagna hefjist og einnig gerð greinargerðar rannsóknara til ríkissaksóknara skv. 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991. Sé við það miðað að málið verði í kjölfarið sent ríkissaksóknara til viðeigandi meðferðar.
Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 10. ágúst sl. Meint aðild kærða þyki mikil. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi, valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi af miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar hafi verið uppkveðnir, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64,1974 og 1. gr. laga nr. 32,2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991.
Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 10. ágúst sl. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. ágúst sl. í málinu nr. R-450/2006 var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands. Það er mat dómsins að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. nefndra laga sé enn fullnægt, enda hefur ekkert gerst frá síðasta úrskurði, sem breytt gæti því mati, að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Þá verður að mati dómsins ekki heldur litið fram hjá þeim mörgu dómum Hæstaréttar Íslands, þar sem sakborningum, með sambærilega stöðu og kærði, hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, [kt.], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. nóvember 2006, kl. 16.00.