Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns
  • Sératkvæði


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. apríl 2009.

Nr. 116/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Framsal sakamanns. Sératkvæði.

 

Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands á þeim grundvelli að ráðuneytið hefði ekki með réttum og málefnalegum hætti framkvæmt mat á því hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 19/1984 stæðu í vegi fyrir framsalinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2009, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 14. janúar 2009, um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Atvikum er lýst í hinum kærða úrskurði og gerð grein fyrir sjónarmiðum varnaraðila, sem hann telur að eigi að leiða til þess að fella beri úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra 14. janúar 2009 um að framselja hann til Póllands. Varnaraðili hefur með greinargerð sinni til Hæstaréttar lagt fram gögn um að honum og eiginkonu hans hafi fæðst stúlkubarn 27. febrúar 2009.

Sóknaraðili hefur í greinargerð sinni til Hæstaréttar vakið athygli á að í þinghaldi í málinu 16. febrúar 2009 hafi verið bókuð leiðrétting sem snerti brot það er varnaraðili var dæmdur fyrir í Póllandi 1. ágúst 2005. Sé þar bókað að brot hans hafi falist í því að framvísa fölsuðu skjali er hann gerði lánssamning um kaup á hljómtækjum og að hann hafi gert lánssamning við kaup á þessum varningi án þess að hafa ætlað sér að greiða andvirði þeirra. Hafi verið um að ræða tvö brot sem hann var sakfelldur og dæmdur fyrir. Varnaraðili hlaut 18 mánaða fangelsisrefsingu fyrir brot þessi sem ekki var bundin skilorði.

II

Í bréfi varnaraðila til dómsmálaráðuneytis 7. janúar 2009 var framsali sérstaklega mótmælt með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1984. Þar segir að í sérstökum tilvikum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæli gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Af ákvörðun dómsmálaráðherra 14. janúar 2009 verður ekki séð að tekin hafi verið afstaða til þess, hvort skilyrði væru til að synja um framsal þar sem mannúðarástæður mæltu gegn því samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Í bréfi dómsmálaráðherra til varnaraðila 15. janúar 2009 er rökstuðningur fyrir ákvörðun ráðuneytisins, en hann lýtur meðal annars að því að ráðuneytið hafi metið hvort mannúðarástæður skyldu standa framsali í vegi. Í bréfi þessu eru raktar í stuttu máli skýringar með 7. gr. í athugasemdum frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 13/1984. Þá segir einnig svo: ,,Þegar málsatvik eru virt heildstætt og tekið tillit til ákvarðana ráðuneytisins í sambærilegum málum, þykja ekki nægilegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt sé að synja um framsal á grundvelli 7. gr. framsalslaganna, enda er um undantekningarákvæði að ræða, sem eðli máls samkvæmt ber, og hefur í framkvæmd, verið skýrt þröngt. Er einkum haft í huga að X er pólskur ríkisborgari, hann hefur verið sakfelldur fyrir brot í sínu upprunalandi og pólsk yfirvöld hafa metið það svo að þau hafi hagsmuni af því að fá hann framseldan.“ 

III

Mikilvæg réttindi eru í húfi fyrir mann sem krafist er framsals á. Mat stjórnvalda á því hvort fallast eigi á kröfu um framsal, þar með talið mat á því hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 skuli standa framsali í vegi þarf að vera gagnsætt. Dómstólar taka afstöðu til þess hvort matið er framkvæmt með réttum hætti meðal annars hvort gætt hafi verið meginreglna stjórnsýsluréttar.

Þegar metið er hvort ákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi að leiða til þess að hafna skuli kröfu um framsal á varnaraðila til Póllands til að afplána tildæmda refsingu í framangreindum dómi vegast, samkvæmt skýringum í athugasemdum með greininni í frumvarpi því er síðar varð að lögunum, á gagnstæð sjónarmið. Annars vegar eru eðlilegir hagsmuni pólska ríkisins af því að fá varnaraðila framseldan og mikilvægi þess að ekki sé grafið undan framsalskerfinu sem er hluti af alþjóðlegu samstarfi á sviði afbrotamála. Af skýringunum leiðir að við mat á því, hve mikilvægir hagsmunir pólska ríkisins eru á því að krafa um framsal á varnaraðila nái fram að ganga, ráði meðal annars grófleiki ,,afbrotsins og hversu langt er um liðið síðan það var framið.“  Hins vegar eru mannúðarástæður sem eru aldur, heilsufar og persónulegar aðstæður. Hinar persónulegu aðstæður varnaraðila, sem dómsmálaráðherra bar að vega saman við framangreind sjónarmið, sem mæltu með framsali, eru einkum, að hann hefur verið búsettur hér á landi frá 21. júlí 2006, hann er í hjúskap og býr með eiginkonu sinni hér á landi, nánar tiltekið á Y þar sem hann hefur fest rætur, bæði hjónin hafa samkvæmt gögnum málsins stundað fasta atvinnu, eldra barn þeirra hjóna gengur í grunnskóla á Y, þau hafa nýverið eignast annað barn, sakavottorð varnaraðila 11. febrúar 2009 er hreint, lögð hafa verið fram gögn sem sýna viðleitni þeirra hjóna til aðlögunar að íslensku samfélagi meðal annars með íslenskunámi og að varnaraðili kveður ættingja sína, að frátöldum eldri bróður, búsetta hér á landi. Þetta mat verður dómsmálaráðherra að framkvæma og getur ekki vísað til mats pólskra yfirvalda á því að rétt sé að framsal fari fram, enda þau ekki bær til að leggja mat á persónulegar aðstæður varnaraðila hér á landi. Af ákvörðun dómsmálaráðherra 14. janúar 2009, að teknu tilliti til rökstuðningsins í bréfinu til varnaðarliða, verður ekki séð að hann hafi framkvæmt hið skyldubundna mat með réttum og málefnalegum hætti. Verður því ákvörðunin 14. janúar 2009 um framsal varnaraðila til Póllands ógilt.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist allur sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði. Verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um þóknun til verjanda varnaraðila fyrir héraðsdómi.

Kærumálskostnaður að meðtöldum virðisaukaskatti ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra 14. janúar 2009 um framsal á varnaraðila, X, til Póllands.

Ákvörðun héraðsdóms um þóknun verjanda varnaraðila er staðfest.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

                                     

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Að virtum dómum Hæstaréttar 25. febrúar 2005 í máli nr. 65/2005 og 28. júlí 2008 í máli nr. 407/2008 tel ég rétt að staðfesta hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans. Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um kærumálskostað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2009.

Með kröfu, sem dagsett er 23. janúar 2009 og þingfest var 5. febrúar s.á., hefur ríkissaksóknari krafist þess að staðfest verði ákvörðun dómsmálaráðherra frá 14. janúar 2008 um að framselja varnaraðila X, kt[...], til Póllands.

Dómkröfur varnaraðila eru að fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 14. janúar 2009 verði felld úr gildi. Þá er krafist málsvarnarlauna úr hendi ríkissjóðs. 

Málið var tekið til úrskurðar 16. febrúar sl.

I.

Í bréfi Ríkissaksóknara til dómsins kemur fram að með bréfi, dags. 23. september 2008, hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu borist beiðni pólska dómsmálaráðuneytisins um framsal varnaraðila til Póllands til fullnustu refsidóms. Varnaraðili sé pólskur ríkisborgari með lögheimili á Y.  Samkvæmt gögnum sem hafi fylgt framsalsbeiðninni sé krafist framsals varnaraðila til fullnustu fangelsisrefsingar en hann hafi hinn 1. ágúst 2005 verið dæmdur af héraðsdómi í Lomza, Póllandi, til að sæta fangelsi í 18 mánuði og greiða sekt fyrir auðgunarbrot og skjalafals. Hafi varnaraðili verið sakfelldur fyrir að hafa fengið kreditkort með því að framvísa fölsuðu skjali og nota kortið til að kaupa vörur að fjárhæð 2197,80 PLN án þess að ætla sér að greiða úttektirnar. Brot hans séu sögð varða við 2. mgr. 18. gr., sbr. 1. mgr. 286. gr., 1. mgr. 271. gr. og 2. mgr. 11. gr. pólsku hegningarlaganna. Hann hafi hins vegar ekki mætt til afplánunar á tilskyldum tíma í október 2005. Endurrit héraðsdómsins frá 1. ágúst 2005 hafi fylgt framsalsbeiðninni.

Lögreglustjórinn á Selfossi kynnti varnaraðila framsalsbeiðnina 2. desember sl. Kannaðist varnaraðili við að beiðnin ætti við hann, en hann hafnaði henni.

Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, með bréfi 15. desember 2008, um að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, ákvað dómsmálaráðuneytið hinn 14. janúar sl. að fallast á framsalsbeiðnina.

Lögreglustjóri kynnti varnaraðili þá ákvörðun hinn 19. þ.m. Með bréfi sem barst ráðuneytinu sama dag krafðist verjandi varnaraðila úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.

II.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 vísar sóknaraðili til umsagnar ríkissaksóknara frá 15. desember 2008 en þar kemur meðal annars fram að brot þau sem varnaraðili hafi verið sakfelldur fyrir myndu varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gætu samkvæmt því varðað fangelsi allt að 8 árum. Þá væru brotin ófyrnd, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Að mati sóknaraðila séu þannig uppfyllt skilyrði framsals, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.

III.

Í greinargerð varnaraðila er gerð ítarleg grein fyrir persónulegum og félagslegum aðstæðum varnaraðila. Þar kemur m.a. fram að varnaraðili hafi dvalið hér síðan 21. júlí 2006 og því verið fluttur til Íslands þegar hann var boðaður til afplánunar. Hann hafi því aldrei fengið kvaðningu um afplánun og verið alls ókunnugt um stöðu mála. Framsalsbeiðnin hafi því komið honum í opna skjöldu.

Varnaraðili hafi síðastliðin rúm tvö og hálft ár búið á Y ásamt eiginkonu sinni og sjö ára syni. Hann hafi frá því að hann kom til Íslands verið í fastri vinnu hjá verktakafyrirtæki á Y. Vinnuveitendur hans beri honum vel söguna og vilji hafa hann í sinni þjónustu sem lengst.

Eiginkona varnaraðila sé líka í fullri vinnu. Sonur þeirra sé í grunnskóla. Þá eigi þau hjón von á barni í febrúar mánuði. Þau hjónin hafi bæði greitt hér sína skatta og skyldur.

Ættingjar varnaraðila, utan eldri bróður, búi hér á landi. Varnaraðili hafi náð tökum á tungumálinu og nemi íslensku.

Af  gögnum málsins megi vera ljóst að persónulegar og félagslegar aðstæður fjölskyldunnar mæli eindregið gegn framsali varnaraðila til Póllands.

Með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1984 og mjög sérstakra aðstæðna varnaraðila sé þess því krafist að framsalsbeiðninni verði synjað.

Persónulegar og félagslegar aðstæður varnaraðila séu með þeim hætti, eins og lýst hafi verið, að ekki séu rök fyrir því að senda hann nú úr landi til að afplána umræddan dóm. Það yrði fjölskyldunni allri afar þungbært ef fjölskyldufaðirinn yrði slitinn frá heimilinu, sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að von er á nýju barni í mánuðinum. Eiginkonan og börnin yrðu svipt fyrirvinnunni. Í því sambandi vísist t.a.m. til ákvæða 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 um rétt barns til að þekkja foreldra sína og einnig til ákvæða 46. gr. sömu laga um rétt barns til þess að umgangast báða foreldra sína með reglubundnum hætti.

Þá beri gögn málsins með sér að brot það sem varnaraðili var dæmdur fyrir sé ekki alvarlegt miðað við íslenska refsiframkvæmd. Sambærilegur verknaður hér á landi varði minni refsingu en eins árs fangelsi. Eiginleg frelsissvipting kæmi ekki til. Til að framsal nái fram að ganga þá verði verknaður sá sem viðkomandi hefur verið dæmdur fyrir eða sambærilegur verknaður að geta varðað meira en eins árs fangelsi hér á landi. Í því sambandi nægi að benda á íslenska dómaframkvæmd en sambærilegur verknaður hafi aldrei í íslenskri réttarframkvæmd varðað fangelsi í meira en 1 ár. Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að auðgunarbrotið hafi tekið til fjárhæðar sem nemi um 30.000 kr. á þeim tíma sem brotið var framið. Með vísan til þess þyki fullsannað að sambærilegt brot hafi og muni aldrei geta leitt til fangelsisvistar hér á landi í meira en 1 ár. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 séu því ekki uppfyllt og því beri að hafna framsali.

Þá sé rétt að benda á að sá sem dæmdur var ásamt varnaraðila í umræddum dómi, A, hafi falsað skjalið og einnig fengið allar vörurnar og því haft mestan hagnað af brotinu. Hann hafi fengið sömu refsingu og varnaraðili en hún hafi öll verið skilorðsbundin. Skýringin sé sú að hann hafi notið þeirra mannréttinda að hafa verjanda en varnaraðili ekki. Í því sambandi þyki rétt að líta til ákvæða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, sérstaklega sé bent á c. lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans.

IV.

Í 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum kemur fram að þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er framsal á manni aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.

Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laganna er heimilt að framselja mann til fullnustu á dómi ef refsing samkvæmt dóminum er minnst fjögurra mánaða fangelsi. Refsing samkvæmt dómi þeim sem framsals er krafist vegna uppfyllir bæði hvað varðar refsiramma, sem leggja ber til grundvallar sbr. Hrd. nr. 634/2007, og dæmda refsingu skilyrði tilvitnaðrar 1. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 og brotið er ófyrnt samkvæmt íslenskum lögum.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 er heimilt að synja um framsal manns ef mannúðarástæður mæla með því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Í bréfi verjanda varnaraðila til Dómsmálaráðuneytisins, dags. 7. janúar 2008, er m.a. gerð ítarleg grein fyrir persónulegum aðstæðum varnaraðila. Upplýsingar um persónulegar aðstæður varnaraðila lágu þannig fyrir er dómsmálaráðherra tók ákvörðun sína um framsal þann 14. janúar sl. Hefur dómsmálaráðherra metið aðstæður í málinu svo, að slíkar ástæður standi ekki gegn framsali varnaraðila. Þykja ekki efni til að hnekkja því mati, eins og á stendur í málinu.

Þegar allt framangreint er virt eru uppfyllt skilyrði um framsal á varnaraðila og er staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra 14. janúar 2009 eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila úr ríkissjóði og með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðin 456.682 krónur þar með talinn útlagður kostnaður kr. 31.390 krónur.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 14. janúar 2009, um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands, er staðfest. 

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 456.682 krónur, greiðist úr ríkissjóði.