Hæstiréttur íslands
Mál nr. 578/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 10. nóvember 2008. |
|
Nr. 578/2008. |
Reykjavíkurborg ogRauðhóll ehf. (Ívar Pálsson hdl.) gegn Vegagerðinni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Re og Ra höfðuðu mál gegn V til viðurkenningar á rétti þeirra til skaðabóta úr hendi V vegna tjóns sem þau urðu fyrir er nánar tilgreint landsvæði var gert að svonefndu helgunarsvæði tveggja stofnbrauta með gildistöku tveggja deiluskipulagsáætlana fyrir Norðlingaholt í Reykjavík. Var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem óljóst þótti hvort kröfur Re og Ra væru um viðurkenningu á eignarnámi eða skaðabótaskyldu. Þótti málatilbúnaður þeirra svo óljós og vanreifaður að hann fullnægði ekki kröfum e.liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál. Í dómi Hæstiréttar kemur fram að nauðsynlegt sé að stefnda sé með skýrum hætti gert ljóst við málshöfðun hvers sé krafist og hver sé grundvöllur kröfugerðar. Verulega skorti á um skýrleika í málatilbúnaði sóknaraðila og samhengi dómskrafna og málsástæðna fyrir þeim. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ekki verður betur séð af lýsingu sóknaraðila á tilefni máshöfðunar sinnar í stefnu að fyrir þeim vaki að fá viðurkenningardóm um skyldu varnaraðila til að greiða þeim eignarnámsbætur fyrir land sem gert hafi verið að svonefndu helgunarsvæði tveggja stofnbrauta með gildistöku tveggja deiliskipulagsáætlana fyrir Norðlingaholt í Reykjavík 10. júní 2003 og 30. mars 2004. Þessi fyrirætlan birtist þannig í kröfugerð sóknaraðila að gerðar eru kröfur um viðurkenningar á rétti þeirra til skaðabóta af nefndu tilefni. Vísa þeir til 45. og 46. gr. vegalaga nr. 45/1994 um grundvöll krafna sinna, en þar er kveðið á um bætur vegna eignarnáms, jarðrasks, átroðnings o. fl. vegna vegagerðar. Þá eru kröfurnar sagðar í stefnu einnig byggjast á „meginreglum eignarréttar um vernd eignarréttinda sem varin eru af 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33 frá 1944 með síðari breytingum.“ Ennfremur segir í stefnunni: „Um skaðabætur vísast til almennra reglna fjármunaréttar.“
Í kæru til Hæstaréttar leggja sóknaraðilar áherslu á að þeir krefjist bóta fyrir tjón sem felist í því að landið, sem dómkröfurnar taki til, sé þeim ónothæft. Byggi krafa þeirra „á bótaskyldu utan samninga, á hinni hlutlægu bótaskyldu vegalaga.“ Kröfurnar séu ekki um „viðurkenningu á eignarnámi“, heldur skaðabótaskyldu. Virðist mega ráða af málatilbúnaði þeirra að einu gildi hvort krafist sé viðurkenningar á rétti til skaðabóta eða eignarnámsbóta þar sem eignarnámsbætur séu ein gerð skaðabóta.
Nauðsynlegt er að stefnda sé með skýrum hætti gert ljóst við málshöfðun hvers sé krafist og hver sé grundvöllur kröfugerðar. Að öðrum kosti gefst honum ekki sanngjarn kostur á að verjast kröfu með því að færa fram málsástæður og sönnunargögn. Af því sem að framan var rakið má ljóst vera að verulega skortir á um skýrleika í málatilbúnaði sóknaraðila og samhengi dómkrafna og málsástæðna fyrir þeim. Af þessum sökum verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að málatilbúnaður sóknaraðila uppfylli ekki kröfur e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Reykjavíkurborg og Rauðhóll ehf., greiði óskipt varnaraðila, Vegagerðinni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2008.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 26. september sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 28. desember 2007.
Kröfur stefnenda eru eftirfarandi:
Stefnandi, Reykjavíkurborg, f.h. Skipulagssjóðs Reykjavíkurborgar, krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir við að 35.142 fm. lands stefnanda varð að helgunarsvæði vega stefnda með gildistöku tveggja deiliskipulagsáætlana af Norðlingaholti í Reykjavík, sem tóku gildi 10. júní 2003 og 30. mars 2004.
Stefnandi, Rauðhóll ehf., krefst þess að viðurkenndur verði réttur félagsins til skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir við að 12.331 fm. lands stefnanda varð að helgunarsvæði vega stefnda með gildistöku tveggja deiliskipulagsáætlana af Norðlingaholti í Reykjavík, sem tóku gildi 10. júní 2003 og 30. mars 2004.
Stefnendur krefjast hvor um sig málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnenda verði vísað frá dómi, og er sá þáttur málsins hér til úrlausnar.
II.
Ekki er deilt um málsatvik, sem eru í megindráttum eftirfarandi:
Borgarráð Reykjavíkur samþykkti deiliskipulag Norðlingaholts í Reykjavík í tvennu lagi, 3. júní 2003 og 6. janúar 2004. Við gerð deiliskipulagsins var samráð haft við stefnda vegna framtíðartilhögunar og uppbyggingar þeirra tveggja stofnbrauta sem liggja norðan og vestan við hverfið, en innan skipulagssvæðisins, þ.e. Suðurlandsvegar og Breiðholtsbrautar, svo og tenginga og gatnamóta við þær stofnbrautir. Að kröfu stefnda, og að höfðu samráði við hann, er í deiliskipulaginu til framtíðar tekið frá svæði undir þessar götur. Í kjölfarið hófust viðræður um greiðslu úr hendi stefnda fyrir það land sem tekið var frá undir gatnagerð við skipulag svæðisins. Í orðsendingu stefnda til stefnenda 2. janúar 2004 kemur fram að stefndi telji sér að svo komnu ekki skylt að greiða bætur fyrir land undir breikkun vegsvæðis, hvað sem líði samþykkt skipulags fyrir svæðið, enda væri langt í að farið yrði í framkvæmdir við breikkun Hringvegar á þessum kafla og engar fjárveitingar tryggðar til verksins. Vísaði stefndi einnig til þess að það væri hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja nægilegt landrými vegna vega og annarra umferðarmannvirkja, þar til veghaldari teldi tímabært að ráðast í kaup á landi. Þegar að því kæmi yrði skoðað hvaða land væri nauðsynlegt að kaupa vegna vegarins og tækju hugsanlegar bætur mið af því. Frekari viðræður aðila leiddu ekki til niðurstöðu og var stefnda í júlí 2005 sent kröfubréf þar sem krafist var greiðslu fyrir 34.720 fm. landsvæði, samtals að fjárhæð 43.052.800 krónur. Stefndi hafnaði kröfum stefnenda, en stefnendur áréttuðu kröfur sínar í bréfi til stefnda í lok desember 2005.
Í stefnu er skýrt frá því að nokkuð stór hluti þess lands sem varð að veghelgunarsvæði samkvæmt deiliskipulagi Norðlingaholts liggi innan tveggja landspildna, Selásbletts 2a og 3a, sem áður hafi verið í eigu nafngreinds einstaklings. Spildurnar hafi verið teknar eignarnámi og bætur ákveðnar með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 29. mars 2006. Vegna hagsmuna stefnda af niðurstöðu þess máls hafi Reykjavíkurborg skorað á stefnda að ganga inn í eignarnámsmálið og veita eignarnema styrk. Við meðferð málsins fyrir matsnefndinni hafi Reykjavíkurborg fallist á að taka spildurnar í heild eignarnámi, þótt borgin teldi sér ekki skylt að taka þann hluta landsins sem félli undir veghelgunarsvæði. Fram kemur að við eignarnámið hafi veghelgunarsvæði í eigu stefnenda stækkað úr 34.720 fm. í 47.248 fm.
Í gögnum málsins kemur fram að lögmenn aðila hafi fundað um málið í apríl 2007. Á þeim fundi lagði lögmaður stefnenda fram minnisblað þar sem fram kemur að stefndi hafi lýst þeim vilja að greiða fyrir lítinn hluta landsins, þ.e. þann hluta sem þegar hafi verið lagður undir hringtorg. Einnig hafi stefndi verið reiðubúinn til að ræða um greiðslur fyrir veghelgunarsvæðið meðfram Suðurlandsvegi, enda færi að líða að tvöföldun vegarins. Stefndi hafi þó lýst því yfir að ekki væri vilji til þess að greiða það verð sem matsnefnd eignarnámsbóta hefði ákveðið í áðurnefndum úrskurði. Fram kemur í minnisblaðinu að verðmæti landsins sé 259.864.000 krónur, og er þá tekið mið af niðurstöðu matsnefndarinnar vegna eignarnámsbóta fyrir Selásblett 2a og 3a.
Í stefnu er sagt að staða málsins sé óbreytt frá síðastgreindum fundi aðila, stefndi hafi ekki innt neinar greiðslur af hendi og engar tillögur lagt fram til lausnar málsins. Því sé stefnendum nauðsyn að höfða mál þetta til viðurkenningar á rétti sínum til bóta.
Kröfur stefnenda eru á því reistar að þeir eigi hvor um sig það land sem veghelgunarsvæði stefnda liggi um. Miði þeir við að allt svæðið milli byggðar og stofnbrauta stefnda sé helgunarsvæði og hafi að ósk stefnda verið tekið frá undir vegamannvirki til framtíðar. Við gildistöku deiliskipulags hafi svæðið varanlega verið tekið frá til afnota fyrir stefnda og standi landið stefnendum því ekki lengur til frjálsra afnota. Hafi stefnendur af þeim sökum þegar orðið fyrir tjóni, sem felist í því að landið sé þeim óseljanlegt og verðlaust og hafi í raun verið tekið eignarnámi. Beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni. Í stefnu er tekið fram að verði krafa stefnenda viðurkennd í máli þessu muni þeir óska úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta, náist ekki samkomulag með aðilum um verðmæti landsins.
III.
Frávísunarkrafa stefnda byggist á því að stefnendur geri ekki grein fyrir hvenær eða hvernig skaðabótaskylda stefnda hafi stofnast, en þó megi skilja málatilbúnað þeirra þannig að þeir telji að hún hafi stofnast við gildistöku deiliskipulags svæðisins, þ.e. 10. júní 2003 og 30. mars 2004, án þess að greina frá því hvaða þýðingu mismunandi gildistaka deiliskipulagsins hafi. Að dómi stefnda er málsgrundvöllur stefnenda einnig óljós, svo og samhengi málsástæðna. Af orðalagi kröfugerðar stefnenda og tilvísun þeirra til d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, kveðst stefndi draga þá ályktun að stefnendur byggi málatilbúnað sinn á almennu skaðabótareglunni, en án þess að gera grein fyrir því hvað sé ólögmætt og hvað saknæmt í háttsemi stefnda. Tilvísun stefnenda til áðurnefnds ákvæðis eigi hins vegar ekki við í máli þessu, þar sem þeir séu í raun að krefjast viðurkenningar á rétti til eignarnámsbóta, en ekki skaðabóta vegna skaðaverks. Um leið bendir stefndi á að stefnendur hafi sjálfir staðið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið og telur að aðgerðir þeirra geti ekki leitt til þess að skaðabótakrafa stofnist á hendur stefnda. Loks mótmælir stefndi því sérstaklega að fyrir liggi í málinu að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnda. Meint tjón þeirra sé þvert á móti óljóst og vanreifað og stefnendur enn eigendur þess lands sem þeir krefjist bóta fyrir í máli þessu.
IV.
Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og þeim úrskurðaður málskostnaður að mati dómsins. Um leið mótmæla stefndu því að málatilbúnaður þeirra sé óljós og vanreifaður. Af stefnu og öðrum gögnum málsins komi fram að tímamark bótaskyldu stefnda miðist við staðfestingu deiliskipulags. Skipulagið hafi verið staðfest í tvennu lagi og megi ráða það af framlögðum skipulagsuppdráttum hvaða landsvæði var í hvort sinn tekið frá til afnota stefnda. Hins vegar skipti tímamarkið þó ekki meginmáli, aðalatriðið sé að í máli þessu krefjist stefnendur viðurkenningar á bótaskyldu vegna þeirra aðgerða stefnda að krefjast þess að landið yrði tekið frá í þágu stefnda. Tjón þeirra felist í því að búið sé að leggja landið undir not stefnda í framtíðinni og geti stefnendur því ekki hagnýtt sér landið framar. Eignaskerðingin sé því þegar orðin og liggi fjárhæð tjónsins fyrir. Krafa stefnenda sé á því reist að stefndi sé bótaskyldur á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar vegalaga. Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls vísa stefnendur til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og d. liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga, en síðarnefnda ákvæðið heimili að í stefnu sé krafist viðurkenningar á tilteknum réttindum.
V.
Eins og fram er komið gera stefnendur í máli þessu kröfu um að viðurkenndur verði réttur þeirra til skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns sem þeir urðu fyrir við að nánar tilgreint land þeirra varð að helgunarsvæði vega stefnda með gildistöku tveggja skipulagsáætlana fyrir Norðlingaholt í Reykjavík. Af orðalagi kröfugerðar má ætla að stefndi hafi þegar tekið land stefnenda eignarnámi og stefnendur látið það af hendi í þágu stefnda, en bætur ekki verið greiddar. Helstu málsástæður stefnenda eru þær að með samþykkt og gildistöku skipulagsáætlana af Norðlingaholti, sem unnar voru í samráði við stefnda, hafi landnotkun á svæðinu verið ákveðin til framtíðar og það svæði sem gert hafi verið ráð fyrir að lagt yrði undir vegi, tekið frá til afnota fyrir stefnda. Því geti stefnendur ekki framar nýtt það land, enda standi það þeim ekki lengur til frjálsrar nota. Telja stefnendur að enginn vafi leiki á því að þeir hafi orðið fyrir tjóni sem felist í því að landið hafi verið tekið frá og ætlað undir vegagerð. Enn fremur segir svo í stefnu: „Landið sem krafist er viðurkenningar á bótarétti fyrir er því óseljanlegt og verðlaust og hefur í raun verið tekið eignarnámi þó það hafi ekki verið viðurkennt af hálfu stefnda. Á því ber stefndi skaðabótaábyrgð.“ Um bótagrundvöll vísa stefnendur til 20. gr., 45. gr. og 46. gr. vegalaga nr. 45/1994.
Þótt kröfur stefnenda séu til viðurkenningar á rétti þeirra til skaðabóta úr hendi stefnda, þykir málatilbúnaður þeirra eindregið benda til þess að í reynd sé mál þetta höfðað til viðurkenningar á eignarnámi stefnda á hinu umþráttaða landsvæði stefnenda, enda deila aðilar um hvort staðfesting deiliskipulags jafngildi eignarnámi stefnda á landsvæðinu. Óumdeilt er þó að stefndi hefur ekki óskað eftir eignarnámi á landinu, ekki hafið þar framkvæmdir og ekki tekið yfir umráð þess með formlegum hætti. Orðalag kröfugerðar og hluti málsástæðna stefnenda þykir fremur benda til þess að stefnendur byggi kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni en tilgreindum ákvæðum vegalaga nr. 45/1994, án þess að það sé skýrt frekar, eða fjallað sé um hvort skilyrði séu fyrir því að þeirri bótareglu verði beitt við úrlausn málsins.
Forsenda þess að stefnendur eigi rétt til skaðabóta á grundvelli almennu skaðabótareglunnar er að stefnendur hafi fært sönnur á að þeir hafi orðið fyrir tjóni, að tjónið sé vegna háttsemi sem sé skaðabótaskyld að lögum, og að tjónið sé afleiðing af þeirri háttsemi. Í því tilviki sem hér um ræðir fer ekki á milli mála að aðila greinir á um hvort eignarnám hafi í reynd farið fram á landsvæði stefnenda og að stefndi sé bótaskyldur vegna þess. Raunar þykir með öllu óljóst hvort kröfur stefnenda séu um viðurkenningu á eignarnámi eða skaðabótaskyldu, og hvort kröfur þeirra byggi á ákvæðum vegalaga eða almennu skaðabótareglunni. Í ljósi þessa er það álit dómsins að málatilbúnaður stefnenda sé svo ruglingslegur, málsgrundvöllur óljós og vanreifaður, að hann fullnægi ekki kröfum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Ber því að verða við kröfu stefnda og vísa máli þessu frá dómi.
Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnendum gert að greiða stefnda málskostnað að óskiptu, og ákveðst hann hæfilegur 150.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Reykjavíkurborg, f.h. Skipulagssjóðs Reykjavíkurborgar, og Rauðhóll ehf., greiði stefnda, Vegagerð ríkisins, að óskiptu 150.000 krónur í málskostnað.