Hæstiréttur íslands

Mál nr. 381/2003


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Reynslulausn


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. janúar 2004.

Nr. 381/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Hákoni Rúnari Jónssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Tilraun. Reynslulausn.

Í samræmi við játningu H var hann sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með broti sínu rauf H skilorð reynslulausnar og var honum því gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Einnig var vísað til 60. gr. og 77. gr. laganna. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um 22 mánaða fangelsisvist H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð með þeim hætti að reynslulausn, sem hann hlaut 27. maí 2002 á eftirstöðvum 600 daga refsingar, verði látin standa og  honum gerð sérstök refsing fyrir það brot sem hann var sakfelldur fyrir með hinum áfrýjaða dómi.

Við ákvörðun refsingar ákærða er vísað til 1. mgr. 42. gr., 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hákon Rúnar Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. ágúst 2003.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 5. ágúst sl. á hendur ákærða, Hákoni Rúnari Jónssyni, kt. 280776-5649, Hólabergi 16, Reykjavík, „fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 23. mars 2003 í auðgunarskyni brotist inn í efnalaugina Hrein, Lóuhólum 2-6, Reykjavík, með því að brjóta rúðu í útihurð, en komið var að ákærða á vettvangi.

                Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

                Málavextir

                Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða. 

Ákærði fékk 27. maí í fyrra reynslulausn af 600 fangelsisdögum.  Hann hefur nú rofið skilorð reynslulausnarinnar og verður reynslulausnin dæmd upp og ákærða gerð refsing í einu lagi.  Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 22 mánuði.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hrl., 45.000 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

DÓMSORÐ:

                Ákærði, Hákon Rúnar Jónsson, sæti fangelsi í 22 mánuði.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl., 45.000 krónur.