Hæstiréttur íslands
Mál nr. 255/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Mánudaginn 7. júlí 2003. |
|
Nr. 255/2003. |
X(Hilmar Magnússon hrl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista son X utan heimilis hennar í tólf mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að vista son sóknaraðila utan heimilis hennar í tólf mánuði. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila, en til vara að vistuninni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum, þar á meðal endurskoðunar á ákvörðun málflutningsþóknunar lögmanns hennar fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Hinn kærða úrskurð kvað upp Arnfríður Einarsdóttir settur héraðsdómari.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðila sé heimilt að vista son sóknaraðila utan heimilis hennar í tólf mánuði.
Fyrir héraðsdómi gerði sóknaraðili meðal annars kröfu um að varnaraðila yrði gert að greiða sér málskostnað. Til þeirrar kröfu var ekki tekin afstaða með hinum kærða úrskurði. Þrátt fyrir það eru ekki næg efni til að ómerkja úrskurðinn, heldur verður ákvörðun tekin með dómi þessum um málskostnað í héraði. Rétt er að hann falli niður ásamt kærumálskostnaði. Fer um gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en gjafsóknarkostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, X, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, samtals 300.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2003.
Með bréfi dagsettu 20. mars 2003 hefur Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krafist þess að með úrskurði verði ákveðið að A, sem lýtur forsjá X, varnaraðila máls þessa, verði vistaður utan heimilis móður í 12 mánuði sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Málið er rekið fyrir dóminum samkvæmt XI. kafla laga nr. 80/2002. Var það þingfest 11. apríl sl. og tekið til úrskurðar 6. júní sl. að lokinni aðalmeðferð.
Af hálfu varnaraðila var kröfunni mótmælt og þess krafist aðallega að henni verði hrundið en til vara að vistun barnsins utan heimilis verði markaður mun skemmri tími en krafa sóknaraðila lýtur að. Þá gerði lögmaður varnaraðila við aðalmeðferð kröfu um málskostnað eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál með vísan til gjafsóknarleyfis varnaraðila.
[ ]
Niðurstaða:
Í 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um að heimilt sé að mæla fyrir um langtímavistun barns utan heimilis forsjáraðila í allt að 12 mánuði í senn ef brýnir hagsmunir barns mæla með því.
Sonur varnaraðila hefur búið nær óslitið hjá móðurömmu sinni og sambýlismanni hennar frá árinu 2000. Óumdeilt er og staðfest í gögnum málsins að vel fer um drenginn á heimili móðurömmunnar. Af gögnum málsins og framburði varnaraðila og vitna fyrir dómi er ljóst að varnaraðili hefur átt við ýmis vandamál að glíma undanfarin ár. Hún hefur neytt fíkniefna með hléum frá því hún var á unglingsaldri og nú síðast á liðnum vetri. Varnaraðili var greind ofvirk þegar hún var barn og hefur þjáðst af kvíða en lýsti því fyrir dóminum að hún væri nú komin á lyf gegn kvíðanum. Af gögnum málsins og skýrslum fyrir dóminum er ljóst að stöðugleiki er lítill í lífi varnaraðila þótt hún hafi stundum átt betri tímabil inn á milli. Stutt er síðan hún var í stuttri sambúð með fíkniefnaneytanda og neytti sjálf slíkra efna og enn hefur hún ekki fengið varanlegt húsnæði. Einnig er komið fram að varnaraðili hefur stundum verið að ýmsu leyti ósamvinnuþýð í samstarfi við barnaverndaryfirvöld en ljóst er að það eru hagsmunir barnsins að sú samvinna gangi vel. Skiptir einnig miklu máli að vel verði staðið að því að auka kynni varnaraðila og sonar hennar enda hafa þau ekki verið mikið samvistum undanfarin ár.
Barnaverndaryfirvöldum ber að grípa inn í þegar nauðsyn krefur og beita öllum tiltækum úrræðum til að gæta hagsmuna barna. Ekki verður fallist á með varnaraðila að barnaverndaryfirvöld hafi ekki reynt að beita vægari úrræðum en vistun utan heimilis enda sýna fjölmörg skjöl málsins annað. Hefur þó ekki náðst viðunandi árangur. Nauðsynlegt er að fram fari ítarleg könnun á aðstæðum varnaraðila áður en drengurinn flytur til móður sinnar. Þá er einnig nauðsynlegt að vel verði staðið að aðlögun þeirra mæðgina og að hún verði miðuð við þarfir og hagsmuni drengsins. Ljóst er að varnaraðili þarf að sýna stöðugleika í lífi sínu og högum og að sá stöðugleiki sé varanlegur.
Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að með heimild í 28. gr. barnaverndarlaga beri að fallast á kröfu sóknaraðila um að sonur varnaraðila verði vistaður utan heimilis. Með vísan til gagna málsins og skýrslna fyrir dómi þykir rétt að sú vistun standi í 12 mánuði eins og krafist er.
Varnaraðili hefur gjafsókn í málinu samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga og liggur gjafsóknarleyfi frammi. Þóknun lögmanns varnaraðila, Hilmars Magnússonar hrl., ákveðst 80.000 krónur.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Sóknaraðila, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er heimilt að vista A, utan heimilis varnaraðila, X, í 12 mánuði.
Þóknun lögmanns varnaraðila, Hilmars Magnússonar hrl., ákveðst 80.000 krónur.