Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2016

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
B ehf. (Hákon Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur

Reifun

A krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda B ehf. vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir er hann féll úr tröppu þar sem hann var að pensla undir þakkanti á raðhúsi. Í málinu var deilt um hvenær slysið hefði verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins. Talið var að í ljósi þess að ekki hefði verið ágreiningur í málinu um aðdraganda slyssins og málsatvik hefðu verið upplýst skipti ekki máli fyrir sönnunarfærslu hvenær tilkynningin hefði verið afhent. A væri málarameistari með mikla starfsreynslu og hefði haft næga þekkingu til að meta hvernig öryggi hans yrði best tryggt. Hefði A því mátt vera ljós hættan af því að nota tröppuna á þann hátt sem hann gerði. Var B ehf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2016. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysi 9. október 2013 í starfi hjá stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur meðal annars lagt fyrir Hæstarétt bréf sitt 12. apríl 2016 með nánar tilgreindum spurningum til Vinnueftirlitsins og svar þess 27. sama mánaðar. Málsástæður byggðar á þessum gögnum komast ekki að í málinu með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Gögnum málsins ber ekki saman um hvenær slysið hafi verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins. Tilkynning um það var dagsett degi eftir slysið eða 10. október 2013 og undirrituð af þeim C fyrirsvarsmanni stefnda og D öryggistrúnaðarmanni. Staðfestu þeir undirskriftir sínar fyrir dómi og bar C á þá leið að hann hefði afhent Vinnueftirlitinu tilkynninguna samdægurs. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi lagt fram sömu tilkynningu að því viðbættu að það eintak er stimplað með dagsetningunni 17. október 2013. Í ljósi þess að ekki er ágreiningur í málinu um aðdraganda slyssins og málsatvik eru upplýst skiptir ekki máli fyrir sönnunarfærslu hvenær tilkynningin var afhent. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2015

                Mál þetta, sem var dómtekið 18. september sl., var höfðað 4. desember 2014.

                Stefnandi er A, […].

                Stefndi er B ehf., […]. Vátryggingafélagi Íslands hf., […], er stefnt til réttargæslu.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, B ehf., á varanlegum líkamsáverkum sem hann varð fyrir 9. október 2013 í starfi hans hjá hinu stefnda félagi að […]. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að sök verði skipt og bótaréttur eingöngu viðurkenndur í samræmi við þá sakarskiptingu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar dómkröfur.

                                                                                              I

                Stefnandi höfðaði mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir 9. október 2013 við vinnu sína sem málari hjá stefnda. Stefndi hafði á þeim tíma ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda. Ekki er ágreiningur um hvernig slysið átti sér stað. Slysið vildi til með þeim hætti að stefnandi var að pensla undir þakkanti raðhúss að […] og stóð til þess klofvega á trétröppu með sex þrepum. Um er að ræða raðhús sem er að hluta á tveimur hæðum en inngangur er á jarðhæð og var stefnandi að vinna við þann hluta hússins og færði sig eftir stéttinni með fram húsveggnum. Þegar slysið varð voru starfsmenn stefnda að mála aðra umferð á húsinu. Hæð tröppunnar var um 1,8-2 metrar og stóð stefnandi í næst efsta þrepi og teygði sig upp á þakkantinn til að mála hann. Yfir blómabeði á stéttinni við húsgaflinn hafði eigandi fasteignarinnar sett spýtur og stóð trappan á þessum spýtum þegar ein spýtan sporðreistist með þeim afleiðingum að stiginn hrökk til, stefnandi féll og lenti á öxlum og höfði ofan á gangstéttinni við húsið og slasaðist. Slysið átti sér stað síðla dags, um kl. 17:30.

                Slysið var tilkynnt til vinnueftirlitsins daginn eftir. Í tilkynningu til þess er slysinu lýst þannig: „[A] var að skera (pensla) undir þakkant. Hann stóð í næstefstu tröppu klofvega (6 þrepa tré trappa) þegar spýta sem trappan stóð á sporðreistist með þeim afleiðingum að hann missti jafnvægið og datt afturábak.“ Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dags 25. október 2013, er slysinu lýst með samsvarandi hætti: „[A] var að pensla undir þakkanti. Hann var í trétröppu og stóð klofvega í næstefstu tröppunum og var að teygja sig þegar spýta sem trappan stóð á sporðreistist með þeim afleiðingum að hann og trappan misstu jafnvægið og hann datt aftur á bak. Lenti á stétt með efri hluta baks, öxl og haus.“

                Stefnandi leitaði á slysadeild Landspítala að morgni 10. október 2013. Í kjölfarið leitaði hann til heimilislæknis og sérfræðilækna. Þá óskaði hann mats E bæklunarlæknis og F lögfræðings á afleiðingum slyssins. Samkvæmt matsgerð þeirra, dags. 6. ágúst 2014, telja þeir að stöðuleikapunktur hafi verið 2. febrúar 2014. Þá telja þeir að 100% tímabundin læknisfræðileg örorka hafi verið frá 9. október 2013 til 2. janúar 2014; en læknisfræðileg örorka sé 20%, sem svari til 20 stiga miska, þar af 10 stig vegna áverka á hálshrygg, 5 stig vegna áverka á hægri öxl og 5 stig vegna brjóstbaks.

                Með bréfi til réttargæslustefnda, dags. 27. nóvember 2013, leitaði stefnandi eftir afstöðu til bótakröfu. Tilkynning um tjónið barst réttargæslustefnda 17. desember 2013. Þann 27. janúar 2014, þegar ekki hafði enn borist svar frá réttargæslustefnda, skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Réttargæslustefndi kom á framfæri athugasemdum við málskotið 13. febrúar 2014. Stefnandi gerði athugasemdir 14. febrúar 2014 og 3. mars 2014. Með úrskurði 4. mars 2014 í máli nr. 31/2014 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að bótaskylda væri ekki fyrir hendi.

                Með bréfi, dags. 8. ágúst 2014, krafðist stefnandi bóta úr slysatryggingu launþega sem stefndi var með hjá réttargæslustefnda og byggðist krafan á niðurstöðum matsgerðarinnar. Réttargæslustefndi greiddi stefnanda bætur úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 1.947.452 krónur og var við það uppgjör byggt á áliti örorkunefndar sem réttargæslustefndi aflaði, um 15% varanlegan læknisfræðilegan miska.

                                                                                              II

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að tjón hans sé afleiðing af saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda og starfsmanna hans. Stefndi beri ábyrgð á vinnuslysinu á grundvelli sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og ströngum bótareglum vegna hættulegs vinnuumhverfis, ófullnægjandi tækja og framkvæmdar vinnu. Stefnandi byggi jafnframt á þeim sérstöku sjónarmiðum sem séu undirliggjandi við beitingu sakarreglunnar þegar um vinnuslys sé að ræða og þá vegna sakar starfsmanna og/eða vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Byggt sé á ströngu sakarmati á ábyrgð vinnuveitanda á hættulegum vinnuaðstæðum og óforsvaranlegu vinnuskipulagi, samanber greinargerð með lögum nr. 124/2009, sbr. 23. gr. a í skaðabótalögum. Stefnandi telji stefnda bera skaðabótaábyrgð á þeim grundvelli að vinnuveitandi hafi brotið gegn þeirri ríku eftirlitsskyldu sem hann beri að viðhafa á vinnustað til öryggis fyrir starfsmenn og þeirri frumkvæðisskyldu sem felist í því að vernda starfsmenn fyrir hættum í starfi. Þessi vangæsla hafi leitt til líkamstjóns stefnanda.

                Stefnandi telji aðstæður á vinnustaðnum í umrætt sinn hafa verið óforsvaranlegar. Í fyrsta lagi hafi trappan sem stefnandi hafi orðið að nota við verkið verið ófullnægjandi og ekki hæft verkinu. Í öðru lagi hafi stefnandi ekki haft til afnota öryggishjálm sem hefði að öllum líkindum takmarkað tjón hans.

                Stefnandi vísi til laga og reglugerða sem ætlað sé að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna í vinnu, einkum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Sérstaklega sé vísað til 13., 14., 21., 37., 38., 42., 43., 46. og 47. gr. Einnig sé byggt á 2. og 21. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Þá sé vísað til VIII. kafla sömu reglugerðar um gerð áhættumats.

                Stefnandi telji að vinnuveitandi hans hafi sýnt af sér saknæma hegðun með því að útvega honum ekki tröppur eða stiga sem hæfðu starfinu. Þá hafi aðrar öryggisráðstafanir verið vanræktar og eftirlitsskyldu verið ábótavant. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað m.a. um framkvæmd vinnu, vinnustaði og vélar, tækjabúnað og fleira. Í 21. gr. sömu laga sé kveðið á um að verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og sjái um að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað sem hann hafi umsjón með. Eftir 1. mgr. 23. gr. laganna skuli verkstjóri beita sér fyrir því að starfsskilyrði séu fullnægjandi, m.a. að því er varði öryggi. Í 1. mgr. 37. gr. laganna sé mælt svo fyrir að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis. Í 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja, sem sett hafi verið á grundvelli 47. gr. laganna, komi fram að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum sé ætlað að nota innan fyrirtækisins hæfi verkinu sem inna skal af hendi eða sé hæfilega lagað að verkinu, þannig að starfsmenn geti notað tækið án þess að öryggi þeirra eða heilsu sé hætta búin. Í grein 2.6 í I. viðauka reglugerðarinnar komi fram, að þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefjist þess skuli tryggja stöðugleika tækja eða hluta þeirra með festingum eða á annan viðeigandi hátt. Í II. viðauka sömu reglugerðar sé að finna ákvæði um notkun tækja þegar unnið er tímabundið og starfsmenn eru í fallhættu.

                Stefnandi vísi einnig til reglna nr. 547/1996 um búnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, sérstaklega 8. gr. um skyldur atvinnurekanda. Einnig sé vísað til greinar 2 í A-hluta IV. viðauka og greina 15.1, 15.2., 16., 17., 19.1. og 22.1. í B-hluta IV. viðauka reglnanna sem fjalli um sérstakar lágmarkskröfur sem gildi um vinnustaði á byggingarsvæðum. Þá vísi stefnandi til leiðbeininga um vinnuvernd nr. 1/1991 um lausa stiga, tröppur og búkka.

                Stefnandi telji að ofangreindum lögum og reglum hafi ekki verið fylgt á vinnustaðnum er slysið hafi orðið. Trappan hafi ekki hæft verkinu þannig að ekki hafi verið gætt fyllsta öryggis, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980. Vinnuveitandi og verkstjóri á staðnum hafi ekki hlutast til um að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að trappan hæfði verkinu, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006. Slíkar nauðsynlegar ráðstafanir hafi m.a. verið til að tryggja stöðugleika tröppunnar, t.d. með festingum, sbr. grein 26.1 í I. viðauka reglugerðar nr. 367/2006, sbr. leiðbeiningar um vinnuvernd nr. 1/1991. Full ástæða hafi verið til þess enda hafi trappan verið úr timbri og á óstöðugu undirlagi. Í eftirlitsskyldu vinnuveitanda hafi falist að gæta að stöðugleika tröppunnar. Trappan hafi ekki haft neinn stuðning ólíkt hefðbundnum stiga, sem hallað hefði að veggnum. Ef vinnuveitandi sér sér ekki fært að festa tröppuna með festingum, beri honum að notast við annað og öruggara tæki, sbr. grein 4.1.2 í II. viðauka reglugerðarinnar, enda hafi ekki verið tryggt að trappan væri stöðug, sbr. grein 4.2.1 í sama viðauka. Um hafi verið að ræða vinnu á byggingarstað og tímabundna mannvirkjagerð, sbr. I. viðauka, sbr. og a-lið 2. gr. reglna nr. 547/1996. Undir slíkum kringumstæðum beri vinnuveitendur sérstakar skyldur, sbr. 8. gr. reglnanna. Í b-hluta IV. viðauka reglnanna megi finna ákveðnar lágmarkskröfur, sem ekki hafi verið fullnægt þegar slysið hafi orðið. Um hafi verið að ræða vinnu í hæð og því nauðsynlegt að svo til gerðar öryggisfestingar væru notaðar. Þá hafi ekki verið gengið frá tröppunni með þeim hætti að engin hætta hafi verið á að hún myndi velta eða skríða til, sbr. grein 19.1. Þá sé sérstaklega tekið fram í grein 22.1 að við málningarvinnu sem framkvæmd sé úr lausum stiga, skuli stiginn vera fulltraustur og þannig frá honum gengið að hann geti ekki skriðið til á undirstöðum. Trappan sem stefnandi hafi orðið að nota við verkið hafi ekki verið fulltraust enda hafi hún gengið til og valdið slysi á stefnanda. Um sé að ræða lágmarkskröfur sem ekki verði vikið frá og hafi vinnuveitandi stefnanda því gerst sekur um saknæma vanrækslu. Sakarmatið sé í raun einfalt, þ.e. ef tröppur valda slysi vegna þess að þær uppfylli ekki öryggiskröfur og séu ekki nægilega stöðugar, þá beri vinnuveitandi ábyrgð á slysi sem verði vegna þess.

                Trappan hafi verið of lág miðað við þá hæð sem stefnandi hafi verið að mála í og þar af leiðandi ekki hentað fyrir verkið. Stefnandi hafi staðið á næst efstu tröppunni og þurft að lyfta höndum yfir höfuð og teygja sig eins langt og hann hafi náð til að sinna verkinu. Ef notast hefði verið við hefðbundinn stiga sem hallað hefði að veggnum hefði stefnandi auðveldlega getað penslað í brjósthæð og haldið sér með annarri hendinni í stigann. Stefnandi hafi því verið illa í stakk búinn til að takast á við fallið þegar trappan hafi fallið eða færst til undir honum. Stefnandi hafi ekki haft annað val en að notast við umrædda tröppu, sem honum hafi verið látin í té af vinnuveitanda hans. Önnur eða betri tæki hafi ekki verið aðgengileg stefnanda á vinnustað hans á þeim tíma. Þá hafi stefnandi ekki fengið leiðbeiningar um að önnur trappa skyldi notuð eða að notkun umræddrar tröppu væri bönnuð. Mögulegar ráðstafanir til að draga úr slysahættu hafi hvorki þurft að vera dýrar né erfiðar í framkvæmd. Stefndi hafi því gerst sekur um alvarlega saknæma vanrækslu og með því brotið hátternisreglur sem gildi um vinnu starfsmanna við þessar aðstæður.

                Þá byggi stefnandi á því að honum hefði átt að standa til boða öryggishjálmur við framkvæmd verksins. Hann hafi unnið í talsverðri hæð og fallið með höfuðið í jörðina. Að öllum líkindum hefði mátt takmarka tjón hans hefði hann verið með hjálm. Vísað sé til 8. gr. reglna nr. 547/1996, sbr. og 91. gr. í A-hluta IV. viðauka reglnanna þar sem komi fram að starfsmenn við byggingarvinnu skuli nota öryggishjálm. Þá skuli starfsmenn nota aðrar persónuhlífar, sem atvinnurekandi leggi til, við vinnu sína eftir því sem nauðsynlegt geti talist. Stefnandi vísi einnig til reglna um notkun persónuhlífa nr. 497/1994, sbr. d-lið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 46/1980, sérstaklega 3.-7. gr., sem og leiðbeinandi skrá í I. og II. viðauka reglnanna. Í II. viðauka komi fram að nota skuli öryggishjálma við byggingarvinnu, sérstaklega við vinnu á vinnupöllum eða upphækkunum. Trappa eins og stefnandi hafi notast við hljóti að falla hér undir í samræmi við tilgang og markmið reglnanna. Stefnda hafi borið að útvega stefnanda öryggishjálm. Það hafi hann ekki gert og stefnandi hafi ekki fengið fyrirmæli um að nota slíkan hjálm. Um saknæma vanrækslu stefnda sé því að ræða.

                Stefnandi byggi á því að stefndi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins með þeim hætti sem skylt sé samkvæmt 79.-81. gr. laganna. Það sé alfarið á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna slys til Vinnueftirlitsins með réttum hætti. Vanræksla vinnuveitanda að hlutast til um rannsókn á vinnuslysi leiðir alla jafna til þess að hann verði látinn bera halla af skorti á upplýsingum, sem ætla megi að unnt hefði verið að afla ef lögmælt rannsókn hefði farið fram.

                Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlitsins slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Stefnandi hafi farið úr vinnu strax eftir slysið á meðan aðrir starfsmenn hafi haldið áfram við framkvæmdir. Öllum á svæðinu hafi verið ljóst að stefnandi hefði slasast. Um hafi verið að ræða alvarlegt slys en ætla megi að tilkynningarskyldan nái alltaf til slysa þar sem starfsmaður hafi þolað hátt fall og/eða fengið þungt höfuðhögg. Engin sjónarmið styðji það að slakað sé á kröfum til vinnuveitanda í þeim efnum. Stefndi hafi þegar í stað fengið vitneskju um slys stefnanda en öryggistrúnaðarmaður, D, hafi orðið vitni að slysinu og hjálpað stefnanda á fætur eftir fallið. Tilkynningu til hans megi jafna til þess að tilkynning hafi borist vinnuveitanda sjálfum. Þá hafi C, verkstjóri og eigandi stefnda, hringt í stefnanda sama kvöld til að athuga ástand hans eftir slysið og ráðlagt honum að leita sér læknisaðstoðar. Með orðalagi ákvæðisins „án ástæðulauss dráttar“ sé átt við að tilkynna skuli slys um leið og vinnuveitandi eða yfirmenn fái vitneskju um slysið, nema málefnalegar ástæður standi því í vegi. Sólarhringsfresturinn í 2. málslið 1. mgr. 79. gr. kveði einungis á um allra síðasta tímamark séu þess háttar málefnalegar ástæður fyrir hendi. Átt sé við að hringt sé í Vinnueftirlitið en þar séu starfsmenn á símavakt allan sólarhringinn. Knýjandi ástæður hafi verið til að tilkynna slysið strax og ekkert hafi staðið því í vegi. Stefndi verði að teljast sérfróður aðili um vinnuöryggi. Hann hafi þar af leiðandi mátt vita að mikilvægt væri að Vinnueftirlitið kæmi á staðinn og rannsakaði orsakir slyssins og aðstæður. Með rannsókn Vinnueftirlitsins hefði t.d. mátt staðreyna hversu margir stigar og tröppur hafi verið á verkstað, hvort öryggishjálmar hafi staðið til boða og hvort umrædd trappa hafi hentað verkinu. Þá hafi stefndi einnig mátt vita að samkvæmt 81. gr. laga nr. 46/1980 sé atvinnurekanda óheimilt að breyta aðstæðum á slysstað, umfram það sem nauðsynlegt sé vegna björgunaraðgerða. Það hafi staðið stefnda nær að tryggja sér sönnun um orsakir slyssins og aðstæður á vinnustaðnum í umrætt sinn. Auðvelt hefði verið að kalla Vinnueftirlitið til í því skyni að gera úttekt á staðnum. Stefndi verði því að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnun um slysið.

                Samkvæmt lögum nr. 46/1980, sbr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 30/1993 með síðari breytingum, skuli vinnuveitendur vera sérfræðingar um vinnuöryggi á starfsstöð sinni. Þar af leiðandi gildi í þessum efnum reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, en af því leiði að öll sönnunarbyrði í málinu um að varanlegar líkamlegar afleiðingar af slysinu stafi ekki af vanbúnaði hjá stefnda hvíli á honum.

                Stefnandi telji að ekki geti verið um eigin sök hans að ræða, þar sem það sé frumkvæðisskylda vinnuveitanda að hafa vinnusvæði hættulaust. Í 23. gr. a í skaðabótalögum sé kveðið á um að réttur starfsmanns til skaðabóta skerðist ekki vegna meðábyrgðar nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í því. Hvorugt þessara skilyrða eigi við um stefnanda. Í 23. gr. a í skaðabótalögum felist ströng sakarregla í garð vinnuveitanda er auki sönnunarbyrði hans í slíkum vinnuslysamálum og létti á sönnunarbyrði þess starfsmanns sem slasist í starfi. Þá séu skyldur starfsmanna aðrar og minni en þær ríku skyldur sem hvíli á vinnuveitanda.

                Mikilvægt sé, að þær skyldur sem lög leggi á starfsmann séu ekki það þungbærar að þær geri að engu skyldur vinnuveitanda samkvæmt lögum, reglugerðum og þeim tilskipunum Evrópusambandsins, sem íslenska ríkið hafi innleitt í gegnum EES-samninginn. Reglurnar um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað nái ekki markmiðum sínum, á skilvirkan hátt ef ekki er jafnframt fallist á bótaábyrgð hans, ef út af bregður. Þetta fái stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE þar sem segi að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Ábyrgðin á öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustað hvíli fyrst og fremst á vinnuveitanda.

                Stefnandi byggi á því að ekki hafi verið um óvenjulegar eða ófyrirsjáanlegar kringumstæður að ræða. Stefndi, sem eigi að vera sérfræðingur í vinnuöryggi og vinnuvernd, hafi því mátt sjá fyrir að slys gæti orðið vegna vanbúnaðarins. Stefnandi hafi lotið verkstjórn á staðnum og fylgt fyrirmælum stefnda við framkvæmd verksins á grundvelli þeirrar vinnuskyldu sem á honum hafi hvílt. Auðsýnt sé að komast hefði mátt hjá slysinu ef farið hefði verið eftir reglum og fyllsta öryggis og eftirlitsskyldu gætt. Á grundvelli ólögfestrar meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð sé um að ræða bótaskylda háttsemi. Stefnandi eigi því rétt á bótum með hliðsjón af frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda.

                                                                                              III

                Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða, í öðru lagi að sök sé ósönnuð og í þriðja lagi að stefnandi hafi glatað bótarétti vegna stórfellds gáleysis.

                Í máli þessu gildi almennar sönnunarreglur skaðabótaréttar utan samninga. Í þeim felist að stefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir því að eitthvað saknæmt af stefnda hálfu hafi valdið því að hann hafi fallið úr tröppunni þannig að bótaréttur hafi stofnast honum til handa úr ábyrgðartryggingunni hjá réttargæslustefnda. Stefnandi beri jafnframt sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni sem og umfangi þess, þótt það komi ekki til umfjöllunar í málinu þar sem það sé rekið sem viðurkenningarmál. Stefndi telji að stefnandi hafi ekki sannað þessi atriði og því komi ekki til álita að hann eigi bótarétt úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda.

                Stefndi telji atvikið sem málið snúist um falla undir það að vera óhappatilvik eins og það hugtak hafi verið skýrt í skaðabótarétti. Enginn beri skaðabótaábyrgð á slíku óhappi að lögum heldur verði sá sem verður fyrir tjóni vegna þess að bera það sjálfur. Orsök þess að stefnandi hafi fallið úr tröppunni hafi verið sú að spýta, sem einn fótur tröppunnar hafi staðið á, hafi sporðreist. Lýsingar stefnanda sjálfs í gögnum málsins séu skýrar um að þetta sé það sem gerðist og ekki sé ágreiningur um það.

                Stefndi telji því ljóst að ekkert sem hafi viðkomið tröppunni sjálfri hafi orðið þess valdandi að stefnandi hafi fallið. Orsökin hafi eingöngu verið þessi tiltekna spýta sem stefnandi hafi sett tröppuna ofan á og sú staðreynd að hún hafi sporðreist. Megi vera ljóst að slíkt sé ekkert annað en tilviljunarkenndur atburður sem ekki gerist fyrir tilstuðlan eins eða neins, hvað þá að eitthvað saknæmt hafi verið þar að baki. Ekki liggi annað fyrir í málinu en að þessi spýta hafi verið á staðnum og því enginn á vegum stefnda sem hafi látið hana þarna eða ætlast til að hún væri notuð sem undirlag fyrir tröppuna. Þá liggi ekki annað fyrir en að stefnandi hafi sjálfur sett tröppuna ofan á þessa spýtu þegar hann hafi farið að vinna á þessum stað við húsið. Gera verði ráð fyrir því að stefnandi hafi gert sér grein fyrir, eða í það minnsta mátt gera sér grein fyrir því að óvarlegt gat verið að gera það. Atvikið hafi því gerst af ástæðum sem engum hafi verið um að kenna nema þá helst stefnanda sjálfum. Augljóst sé að um sé að ræða hreint óhappatilvik og/eða atvik sem sé eingöngu að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Í hvorugu tilvikinu sé um að ræða skaðabótaábyrgð stefnda þar sem atvikið hafi ekki verið að rekja til saknæmrar háttsemi neins sem stefndi beri að lögum skaðabótaábyrgð á.

                Það sé með öllu ósannað að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með þeim hætti sem stefnandi byggi á að því er varði vinnustaðinn, vinnuaðstæður, tækjabúnað eða vinnuframkvæmd. Reglan um vinnuveitandaábyrgð grundvallist á því að einhver starfsmaður vinnuveitanda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og það valdið öðrum tjóni. Eðli málsins samkvæmt leiði saknæm háttsemi stefnanda sjálfs ekki til þess að stefndi beri skaðabótaábyrgð á þessum grundvelli gagnvart stefnanda. Til að svo sé verði saknæmið að felast í einhverri háttsemi annarra starfsmanna stefnda. Þar sem það liggi fyrir að það hafi verið stefnandi sjálfur sem hafi sett tröppuna ofan á spýtuna sem hafi sporðreist og að spýtan hafi verið fyrir á staðnum hafi tjónið orðið vegna háttsemi stefnanda sjálfs, en ekki hafi verið um að ræða saknæma háttsemi einhvers starfsmanns stefnda. Möguleg skaðabótaábyrgð stefnda verði því ekki reist á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Því sé sérstaklega hafnað að snúa beri sönnunarbyrðinni við í málinu og leggja hana á stefnda.

                Stefnandi byggi á ströngu sakarmati á ábyrgð vinnuveitanda og vísi til 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993 um það. Auk þess sé vísað til þess að í ákvæðinu felist ströng sakarregla sem auki sönnunarbyrði vinnuveitanda og létti henni af starfsmanni sem slasast við störf. Stefndi telji óljóst hvað stefnandi eigi við með þessu en það megi skilja sem svo að stefndi eigi að bera hlutlæga ábyrgð og/eða að snúa eigi sönnunarbyrðinni við og leggja hana á stefnda. Hér haldi stefnandi því fram að í 23. gr. a í skaðabótalögum felist að það hvíli á vinnuveitanda að „afsanna“ sök sína og þetta ákvæði víki þannig til hliðar almennum sönnunarreglum skaðabótaréttarins um sönnunarbyrði tjónþola. Stefndi mótmæli þessum skilningi stefnanda alfarið enda komi hlutlæg ábyrgð ekki til álita nema samkvæmt skýru lagaákvæði. Ekki komi annað til álita en að almennar sönnunarreglur skaðabótaréttarins gildi í málinu og sönnunarbyrði um meinta sök stefnda sé því öll hjá stefnanda. Umfjöllun stefnanda um ábyrgðartryggingu stefnda breyti engu um þetta.

                Stefndi hafni því alfarið að hafa brugðist skyldum sínum um tilkynningu til Vinnueftirlitsins eða að það hafi áhrif á sök eða hvar sönnunarbyrðin liggi. Í 79. gr. laga nr. 46/1980 sé kveðið á um skyldu vinnuveitanda til að tilkynna Vinnueftirlitinu án ástæðulausra tafa um öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga auk þess dags sem slysið varð. Skilyrði þess að skyldan verði virk sé því að starfsmaður forfallist frá vinnu og ekki síst að vinnuveitandi fái vitneskju um það. Tilkynning stefnda til Vinnueftirlitsins sé dagsett 10. október 2013 eða daginn eftir atvikið. Eins og komi fram í málsgögnum hafi atvikið gerst á milli klukkan 17 og 18 þegar vinnudegi hafi verið að ljúka. Stefnandi hafi lokið vinnudegi og farið heim. Hann hafi ekki leitað á slysadeild eða annað fyrr en daginn eftir. Fyrst þá hafi hann forfallast frá vinnu og tilkynningarskylda stefnda orðið virk, en þann dag hafi atvikið verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins. Stefndi hafi því að öllu leyti uppfyllt tilkynningarskyldu ákvæðisins.

                Þess utan telji stefndi að engu hefði breytt þótt Vinnueftirlitinu hefði verið tilkynnt um atvikið að kvöldi 9. október 2013 eins og stefnandi virðist byggja á að hafi átt að gera. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi sjálfur verið búinn að breyta vettvangi er hann hafi gengið frá eftir sig í lok vinnudags. Þá sé í sjálfu sér ekki ágreiningur um að atvikið hafi gerst með þeim hætti sem stefnandi sjálfur lýsi, að hann hafi misst jafnvægið og fallið úr tröppu þegar spýta sem hafi verið undir einum fæti tröppunnar hafi sporðreist. Hér sé því ekki ágreiningur um hvernig það hafi atvikast að stefnandi féll úr tröppunni.

                Stefndi hafni því alfarið að reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð eigi við og því beri að snúa sönnunarbyrðinni við og leggja hana á stefnda. Það sé rangt að í lögum nr. 46/1980 og 23. gr. a í skaðabótalögum felist að vinnuveitandi beri slíka ábyrgð. Sérfræðiábyrgð eigi við um einstakar starfsstéttir sem hafi atvinnu af því að bjóða fram og selja sérfræðiþekkingu sína. Slík ábyrgð eigi ekki við í þessu máli enda sé starfssvið stefnda ekki á sviði vinnuöryggis né bjóði hann slíka þjónustu gegn gjaldi. Meint sakarábyrgð stefnda verði því ekki byggð á því að reglur um sérfræðiábyrgð eigi við og breyti engu um sönnunarreglur sem beri að leggja til grundvallar í málinu.

                Stefnandi sýnist byggja á því að sök stefnda endurspeglist í því að verkstjórn hafi verið ábótavant og vísi hann til 21. gr. og 1. mgr. 23. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 46/1980 um það. Stefndi hafni því að þetta eigi við í málinu enda hafi stefnandi sjálfur komið tröppunni fyrir við húsvegginn, ofan á spýtunni.

                Stefndi telji ólíklegt að stefnandi hafi þurft verkstjórn við það verk sem hann hafi verið að vinna enda megi ganga út frá því að það hafi í engu verið frábrugðið því sem hann hafi margoft gert á löngum starfsferli sem málarameistari. Meint saknæmi stefnda gagnvart stefnanda verði því ekki byggt á því að verkstjórn hafi skort eða verið ábótavant.

                Stefnandi vísi til fjölda ákvæða laga, reglugerða og reglna sem stefndi eigi að hafa brotið gegn með saknæmum hætti. Meint saknæmi sé nánar talið felast í því að aðstæður hafi verið óforsvaranlegar af því að trappan sem stefnandi hafi notað við verkið hafi verið ófullnægjandi og hann ekki haft öryggishjálm til afnota við vinnuna. Stefndi hafni því alfarið að hafa sýnt af sér saknæma háttsemi og brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum með þeim hætti sem stefnandi haldi fram. Málið snúist um það hvort stefnda verði gefið að sök að spýtan sem var á staðnum og stefnandi hafi sett tröppuna á hafi sporðreist og þá hvort ástæðu þess að það gerðist sé að rekja til þess að stefndi hafi brotið gegn einhverjum þeim ákvæðum sem vísað sé til í stefnu. Það dugi ekki til við tilraun til sönnunar á því að um sakarábyrgð sé að ræða að vísa almennt til ákvæða laga og reglna, heldur þurfi nánari tilgreiningu á því hvaða skyldur séu brotnar og þá hvernig og hvað hafi átt að gera í staðinn fyrir það sem gert hafi verið.

                Vegna tilvísunar stefnanda til ákvæða laga nr. 46/1980 um verkstjórn vísi stefndi til þess að verkstjórn hafi verið óþörf í þessu tilviki, sérstaklega vegna áralangrar starfsreynslu stefnanda á þessu sviði. Það hafi því á engan hátt verið brotið gegn ákvæðum er snúi að verkstjórn.

                Stefnandi vísi til 2. og 21. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, auk VIII. kafla um gerð áhættumats. Ekki sé gerð grein fyrir því að hvaða leyti stefndi eigi að hafa brotið gegn þessum ákvæðum þannig að saknæmt sé eða að hvaða leyti það hafi haft áhrif á atvik þessa máls. Þessi málsástæða sé því vanreifuð. Stefndi hafni því alfarið að meint saknæmi geti byggst á því að brotið hafi verið gegn þessum ákvæðum.

                Stefnandi vísi til 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja og til greinar 2.6 í I. viðauka og greina 4.1.2, 4.2.2 og 4.2.3 í II. viðauka. Stefndi hafni því alfarið að hafa brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum. Í 5. gr. sé fjallað almennt um að tæki sem notuð séu skuli hæfa viðkomandi verki með tilliti til allra aðstæðna. Ekki liggi annað fyrir í málinu en að þessa hafi fyllilega verið gætt af stefnda. Það sé ósannað með öllu að trappan sem stefnandi hafi notað hafi ekki verið í lagi og hæf til að nota við málarastarf sem þetta. Þá bendi stefndi á að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að nota þessa tröppu í verkið, en fyrir liggi að bæði stigi og önnur trappa hafi verið á svæðinu sem stefnandi hefði auðveldlega getað notað ef hann hefði ekki talið tröppuna duga í verkið. Ætla megi að áratuga starfsreynsla stefnanda við málarastörf þýði að hann hafi þekkingu á því hvaða tæki og tól best sé að nota.

                Í grein 2.6 í viðauka I segi að þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefjist skuli tryggja stöðugleika tækja eða hluta með festingum eða á annan viðeigandi hátt. Í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi verið að vinna verk þar sem hann hafi fært sig með fram húsinu eftir því sem verkið hafi unnist og sömuleiðis fært tröppuna. Ekki liggi annað fyrir en að trappan sem slík hafi verið nægilega stöðug og því festing óþörf.

                Í greinum 4.1.2, 4.2.1, 4.2.2 og 4.2.3 í II. viðauka sé að finna ákvæði sem fjalli um vinnu úr stiga. Stefndi telji þessi ákvæði ekki eiga við í málinu, fyrst og fremst vegna þess að stefnandi hafi notað tröppu við verkið en ekki stiga, en grundvallarmunur sé á þessu tvennu. Þá liggi ekki annað fyrir í málinu en að trappan hafi verið í góðu lagi og verið stöðug ef stefnandi hefði gætt að því hvar hann kæmi henni fyrir.

                Tilvísun stefnanda til reglna nr. 547/1996 um búnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum o.fl. byggist á því að ekki hafi verið gengið frá lausum stiga með forsvaranlegum hætti og í því felist sök stefnda. Áréttað sé að stefnandi hafi notað tröppu við verkið en ekki stiga. Ákvæði sem stefnandi vísi til eigi eingöngu við um stiga og eigi því ekki við í málinu.

                Stefnandi vísi til 2. gr. A-hluta IV. viðauka þar sem almennt sé kveðið á um stöðugleika og traustleika efnis og búnaðar og hvers kyns hluta á hreyfingu. Ekki liggi fyrir að hvaða leyti stefndi eigi að hafa brotið gegn þessu ákvæði með saknæmum hætti. Stefnandi vísi til greina 15.1, 15.2, 16, 17, 19.1 og 22.1 í B-hluta IV. viðauka reglnanna. 15. gr. fjalli um fall hluta úr mikilli hæð. Í grein 15.1 segi að koma skuli í veg fyrir að hlutir geti fallið úr mikilli hæð. Ljóst sé að þetta ákvæði eigi ekki við í málinu. Í grein 15.2 sé talað um viðeigandi búnað vegna vinnu í mikilli hæð og nefnt grindverk, pallar eða öryggisnet. Stefndi telji þetta ákvæði heldur ekki eiga við enda sé ekki unnið í það mikilli hæð að slíkan búnað hafi þurft. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að þetta geti átt við. Í 16. gr. sé fjallað um vinnupalla og kröfur sem þeim tengist. Greinin eigi augljóslega ekki við í málinu. Meint saknæmi stefnda verði ekki byggt á því að brotið hafi verið gegn ákvæðinu, nema stefnandi geti sýnt fram á að stefnda hafi ótvírætt borið að reisa verkpalla vegna verksins. Í 17. gr. og grein 19.1 sé fjallað um stiga. Þar sem stefnandi hafi notað tröppu en ekki stiga eigi þessi ákvæði ekki við. Í grein 22.1 sé kveðið á um að ef málningarvinna sé unnin af verkpöllum skuli þeir uppfylla gildandi ákvæði og ef unnið sé úr lausum stiga skuli hann vera traustur og gengið þannig frá að hann geti ekki skriðið til á undirstöðum. Stefndi telji þetta ákvæði ekki eiga við í málinu.

                Stefnandi vísi til leiðbeininga um vinnuvernd nr. 1/1991 um lausa stiga, tröppur og búkka, einkum 5. og 8. kafla og myndar nr. 42. Hér endurspeglist glögglega sá munur sem sé á stiga annars vegar og tröppu hins vegar og að tilvitnuð ákvæði er varði stiga eigi ekki við um tröppur. Í 5. kafla leiðbeininganna sé fjallað um stiga. Sá kafli eigi því ekki við í málinu. Í 8. kafla sé fjallað um tröppur og sé þar að finna almennar leiðbeiningar um tröppur og notkun þeirra. Óljóst sé að hvaða leyti stefndi eigi að hafa brotið gegn þessum leiðbeiningum. Hvað varði tilvísun til myndar sem sýni tröppu sem sé fest við vegg þá hafni stefndi því alfarið að slíkt hafi verið nauðsynlegt við þetta verk, enda eðli starfsins þannig að ómögulegt hefði verið að koma því við að festa tröppuna þar sem þurft hafi að færa hana eftir því sem verkið hafi unnist. Meint saknæmi stefnda verði því ekki byggt á því að brotið hafi verið gegn þessum leiðbeiningum enda séu þær ekki lagalega bindandi heldur eingöngu ætlaðar til leiðbeiningar.

                Stefnandi byggi m.a. á því að saknæmi stefnda felist í því að honum hafi ekki staðið til boða öryggishjálmur við verkið. Ósannað sé að skylt hafi verið að hafa öryggishjálm eða aðrar persónuhlífar við þá vinnu sem stefnandi hafi verið að vinna í umrætt sinn, enda sé ekki kveðið á um skyldu til þess við málningarvinnu sem þessa eða við vinnu úr tröppu í reglum þeim sem stefnandi vísi til. Þá hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að stefnandi notaði öryggishjálm ef hann teldi þess þörf þar sem hann hafi fengið slíkan hjálm til afnota hjá stefnda.

                Stefndi byggi sýknukröfu sína einnig á því að jafnvel þótt niðurstaðan verði að stefnandi eigi bótarétt hafi hann glatað þeim rétti að fullu vegna stórfellds gáleysis, sbr. 23. gr. a í skaðabótalögum. Það atvik sem málið snúist um hafi eingöngu orðið vegna athafna stefnanda sjálfs sem telja verði stórfellt gálausar. Eins og lýst hafi verið hafi það verið stefnandi sjálfur sem hafi ráðið því hvernig hann hagaði vinnu sinni þegar hann hafi verið að pensla við þakkantinn. Hann hafi ákveðið að nota tröppuna við verkið þrátt fyrir að stigi og hærri trappa hafi einnig verið á verkstaðnum. Hann hafi ekki talið ástæðu til að nota stiga þegar hærra hafi verið upp í kantinn heldur ákveðið að standa í næst efsta þrepi tröppunnar og teygja sig að kantinum. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi sjálfur fært tröppuna til eftir því sem verkið hafi unnist. Það hafi því verið hann sem hafi ákveðið að setja tröppuna á fjalir sem hafi verið við húsið. Atvikið hafi þannig eingöngu orðið vegna athafna stefnanda sjálfs og á engan hátt hafi verið um að kenna nokkru sem stefndi sem vinnuveitandi hans beri ábyrgð á. Stefnandi sé með meistarapróf í málaraiðn og hafi starfað sem málarameistari í yfir 30 ár. Stefndi hafi því sem vinnuveitandi mátt treysta því að stefnandi sjálfur væri fyllilega fær um að ákveða hvernig hann skyldi haga vinnunni og þyrfti hvorki verkstjórn né tilsögn frá stefnda um það. Menntun og starfsreynsla stefnanda á þessu sviði geri það jafnframt að verkum að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því hvernig best væri að haga störfum sínum við að pensla við þakkantinn, enda hafi verið um að ræða verk sem hann hafi margoft unnið áður.

                Samkvæmt 26. gr. laga nr. 46/1980 hvíli skyldur á starfsmönnum um að gæta sjálfir að eigin aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum auk skyldu til að tilkynna um eitthvað sem þeir telji athugavert. Ef stefnandi hefði talið að trappan væri ónothæf í verkið hefði honum sjálfum borið að láta vita af því og þá nota önnur tæki sem sannanlega hafi verið tiltæk. Það sama eigi við ef stefnandi hefði talið eitthvað athugavert við aðstæður.

                Ef ekki verði fallist á sýknu byggi stefndi á því að skipta skuli sök vegna stórfellds gáleysis stefnanda, sbr. 23. gr. a í skaðabótalögum og þá eingöngu viðurkenna bótarétt stefnanda í hlutfalli við þá sakarskiptingu. Sömu sjónarmið eigi við um sakarskiptinguna og rakin hafi verið um brottfall bóta vegna stórfellds gáleysis. Stefnandi vísi til þeirrar umfjöllunar um málsástæður fyrir sakarskiptingu og viðurkenningu í samræmi við það.

                                                                                              IV

                Stefnandi lenti í slysi við vinnu sína sem málari hjá stefnda 9. október 2013. Stefnandi neytir í málinu heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til þess að krefjast viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna slyssins. Verður því ekki fjallað um umfang tjónsins í málinu, en stefnandi hefur leitt nægilegar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni.

                Ekki er ágreiningur með aðilum um hvernig slysið vildi til. Í málinu liggja fyrir ljósmyndir sem sýna aðstæður vel. Eins og lýst var í málsatvikum hér að framan var orsök slyssins sú að stefnandi féll úr trétröppu þegar spýta sem trappan stóð á sporðreistist. Það er jafnframt óumdeilt að spýtur sem voru undir tröppunni voru á staðnum áður en stefndi kom að verkinu og að stefnandi kom tröppunni fyrir þar, en hann þurfti að færa tröppuna áfram eftir því sem verk hans vannst.

                Stefnandi byggir á því að tjón hans sé afleiðing af saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda og starfsmanna hans. Stefndi hafi brotið gegn eftirlitsskyldu vinnuveitanda og þeirri frumkvæðisskyldu sem felist í því að vernda starfsmenn fyrir hættum í starfi. Aðstæður á vinnustaðnum hafi verið ófullnægjandi. Trappan sem stefndi hafi þurft að nota hafi verið ófullnægjandi og ekki hæft verkinu. Þá hafi stefnandi ekki haft öryggishjálm til afnota. Stefnandi telur að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að tjónið stafi ekki af vanbúnaði hjá honum þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirlitinu í samræmi við 79.-81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá leiði það af lögunum, sbr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993, að vinnuveitendur séu sérfræðingar um vinnuöryggi á starfsstöð sinni og þar af leiðandi gildi í þessum efnum reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð.

                Samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 skal atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Slys stefnanda var tilkynnt Vinnueftirlitinu degi síðar, 10. október 2013. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að slysið hefði átt sér stað undir lok vinnudags. Hann hefði hvílt sig um stund og svo farið heim. Einhver annar hefði gengið frá eftir sig, en það væri alltaf gert í lok dags. Samstarfsmaður hans, D, sem var að störfum skammt frá gerði grein fyrir því í skýrslutöku að hann hefði séð hvar stefnandi féll og farið til hans. Hann lýsti því að stefnandi hefði verið aumur, en þó talið allt vera í lagi. Hann taldi að stefnandi hefði gengið frá eftir daginn, en var þó ekki viss um það. C, forstjóri stefnda, skýrði frá því að hann hefði heyrt af atvikinu um kvöldið og haft samband við stefnanda sem hafi borið sig ágætlega. Hann hafi ekki mætt til vinnu daginn eftir. Það hafi fyrst verið um morguninn þegar hann hafi rætt við dóttur stefnanda að honum hafi verið ljóst að um meira en smá byltu hafi verið að ræða. Hann hafi þá útvegað eyðublað til Vinnueftirlitsins sem þeir D öryggistrúnaðarmaður hafi fyllt út og hann hafi farið með til Vinnueftirlitsins samdægurs. Eins og að framan greinir stofnast skylda til tilkynningar um vinnuslys við það að atvinnurekanda verði kunnugt um að starfsmaður forfallist frá vinnu og skal þá tilkynna slysið innan sólarhrings. Fyrir liggur að Vinnueftirlitið fékk tilkynningu um slys stefnanda innan sólarhrings. Verður ekki séð að stefndi hafi brugðist skyldum sínum í þessu efni. Þá er ekki ágreiningur í málinu um með hvaða hætti slysið atvikaðist. Því er einnig hafnað að í 23. gr. a í skaðabótalögum felist að vinnuveitandi beri sönnunarbyrði fyrir því að slys á vinnustað hans stafi ekki af vanbúnaði hans. Það hvílir því á stefnanda að sannað að líkamstjóns hans sé að rekja til saknæmrar háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á.

                Stefnandi telur að verkstjórn við verkið hafi verið ábótavant. C, forstjóri stefnda, sem var verkstjórinn skýrði frá því fyrir dóminum að hann hefði ekki verið á staðnum er slysið hafi átt sér stað, en hann hafi reynt að koma við flesta daga. Um venjulegt verk hafi verið að ræða, en verkstjóri hafi einungis verið á staðnum í stærri verkum. Stefnandi hafi verið mjög vanur í starfi og sjálfstæður í vinnubrögðum. Fram hefur komið í málinu að stefnandi er málarameistari að mennt og hefur starfað sem slíkur í um 30 ár, þar af nær helming þess tíma á Íslandi og um fimm ár hjá stefnda, með hléum. Þegar slysið varð var hann ásamt fleiri starfsmönnum stefnda að mála einbýlishús. Um venjulegt verkefni var að ræða sem stefnandi hafði oft sinnt áður. Í ljósi menntunar og reynslu stefnanda verður að hafna því að hann hafi þurft sérstaka verkstjórn við framangreint verk.

                Verið var að mála seinni umferð yfir húsið þegar slysið átti sér stað. Stefnandi sagði fyrir dóminum að hann hefði ekki málað þakkantinn við fyrri umferðina. Í stefnu er því þó lýst að stefnandi hafi áður notast við sömu tröppu á sama stað án þess að slys hafi orðið af. Stefnandi byggir á því að trappan sem hann hafi notað hafi verið ófullnægjandi og hann hafi ekki átt kost á öðrum búnaði. Fyrir dómi bar stefnandi að einungis þessi trappa hafi verið til staðar. Í stefnu kemur hins vegar fram að á staðnum hafi einnig verið stigi sem annar starfsmaður hafi verið að nota hinum megin við húsið. Bæði C og D báru um að á staðnum hefðu verið, auk trétröppunnar sem stefnandi notaði, bæði stigi og áltrappa. Þeir töldu báðir að ekki hafi verið ásættanlegt að nota trétröppuna þar sem slys stefnanda átti sér stað, á hæsta punkti við þakkantinn.

                Eins og lýst hefur verið er stefnandi málarameistari með mikla starfsreynslu. Sýnt hefur verið fram á að hann hafi verið sjálfráður um hvernig best væri að verki staðið, enda hafði hann næga þekkingu til að meta hvernig öryggi hans væri best tryggt. Ljóst er að a.m.k. einn stigi var á verkstað. Stefnandi hefði getað notað hann eða beðið þess að hann væri laus hafi hann verið í notkun. Ekkert liggur fyrir um að trétrappa sú sem hann notaði hafi verið vanbúin en ljóst er að hún hentaði ekki við þessar aðstæður. Stefnandi kaus sjálfur að nota hana og kom henni fyrir ofan á spýtunni sem sporðreistist án þess að gæta nægilega vel að því að undirlagið væri traust. Óumdeilt er að eigandi hússins sem unnið var við kom spýtunni fyrir á þessum stað, en ekki neinn starfsmaður stefnda. Verður að telja að stefnanda hafi mátt vera ljós hættan af því að nota tröppuna á þann hátt sem hann gerði. Ef hann taldi aðstæður óforsvaranlegar eða búnað ófullnægjandi bar honum að bregðast við því með því að tilkynna það öryggistrúnaðarmanni, verkstjóra eða atvinnurekanda, sbr. 26. gr. laga nr. 46/1980 og gat þá eftir atvikum krafist úrbóta eða neitað að vinna verkið.

                Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að skylt hafi verið að útvega honum öryggishjálm eða annars konar persónuhlífar við þetta tiltekna verkefni.

                Við munnlegan málflutning byggði stefnandi m.a. á því að öryggistrúnaðarmaður hefði ekki uppfyllt skyldu sína, sbr. 5. og 15. gr. laga nr. 46/1980. Taldi hann um lagarök að ræða, en ekki nýja málsástæðu. Stefndi mótmælti framangreindu sem of seint fram komnu. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Ekki verður séð að fyrst hafi verið tilefni til að hreyfa við ofangreindu við aðalmeðferð málsins. Með hliðsjón af því kemur framangreint ekki til álita í málinu.

                Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að slys stefnanda verði rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á og verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.

                Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu þykir, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins 10. nóvember 2014. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 1.125.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                               D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, B ehf., er sýkn af kröfu stefnanda, A.

                Málskostnaður fellur niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.125.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.