Hæstiréttur íslands

Mál nr. 150/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Fyrning


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 7. október 1999.

Nr. 150/1999.

Guðbjörg Kristinsdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Davíð Helgasyni

Arnari Daníelssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Fyrning.

G slasaðist á árinu 1982, þegar bifreið í eigu D, sem hún var farþegi í, lenti í árekstri við bifreið í eigu A, en báðar bifreiðarnar voru tryggðar hjá V. Í júlí 1985 greiddi V bætur til G á grundvelli örorkumats. Tók lögmaður hennar við greiðslunni án fyrirvara og taldist tjón hennar að fullu bætt. Í örorkumötum frá árunum 1995 og 1997 var örorka G vegna slyssins metin meiri en í fyrra mati og krafði G V um bætur á grundvelli hins nýja mats. Talið var, með vísan til 6. gr. laga nr. 14/1905, að greiðsla V á bótum til G á árinu 1985 hefði ekki slitið fyrningu á kröfu G og taldist krafan fyrnd samkvæmt 78. gr. laga nr. 40/1968 þegar málið var höfðað í júlí 1995.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 1999 og krefst þess að stefndu verði dæmdir í sameiningu til að greiða sér 1.904.502 krónur með 0,5% ársvöxtum frá 12. júlí 1995 til 26. október sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi 3. apríl 1982, þegar hún var farþegi í bifreið stefnda Davíðs Helgasonar, sem lenti í árekstri við bifreið stefnda Arnars Daníelssonar. Báðar bifreiðirnar voru tryggðar lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá Samvinnutryggingum gt., en stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur tekið við réttindum og skyldum þess félags. Áfrýjandi aflaði sér örorkumats 19. júní 1985 hjá lækni, sem taldi varanlega örorku hennar vegna slyssins vera 50%. Að fengnum örorkutjónsútreikningi tryggingarstærðfræðings 27. sama mánaðar sömdu áfrýjandi og fyrrnefnt vátryggingafélag um uppgjör á tjóni hennar, sem taldist að fullu bætt með 1.620.990 krónum, en við þeirri fjárhæð tók lögmaðurinn, sem þá kom fram af hálfu áfrýjanda, án fyrirvara 19. júlí 1985. Áfrýjandi kveðst hafa orðið fyrir umferðarslysi á ný í desember 1990. Við athugun á áhrifum þess slyss á heilsu hennar hafi komið fram vísbendingar um að afleiðingar fyrra slyssins hafi orðið meiri en reiknað var með í örorkumati 19. júní 1985. Af þessum sökum gekkst áfrýjandi á ný undir örorkumat vegna fyrra slyssins. Í niðurstöðum þess örorkumats, sem er dagsett 29. maí 1997, var varanleg örorka áfrýjanda vegna fyrra slyssins metin 60%. Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu bóta fyrir varanlega örorku og miska vegna þeirrar viðbótar, sem þannig hafi verið leidd í ljós á tjóni hennar eftir að gengið var til uppgjörs um bætur á árinu 1985. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var álitaefnum varðandi mat á varanlegri örorku áfrýjanda beint til læknaráðs, sem með ályktun í ágúst 1998 lýsti sig sammála niðurstöðu örorkumatsins frá 29. maí 1997.

Um fébótaábyrgð vegna tjóns áfrýjanda fer eftir ákvæðum VI. kafla umferðarlaga nr. 40/1968, sem voru í gildi á slysdegi. Í 78. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 23/1972, voru fyrirmæli, sem mörkuðu upphaf og lengd fyrningartíma bótakröfu. Engin sérákvæði var þar að finna um slit fyrningar, sem fer því eftir almennum reglum laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í bótauppgjöri áfrýjanda við Samvinnutryggingar gt. 19. júlí 1985 var ítarlega sundurliðuð krafan, sem félagið viðurkenndi skyldu sína til að greiða. Í kvittun fyrir greiðslu samkvæmt uppgjörinu var tekið fram að áfrýjandi félli „frá öllum frekari kröfum“ á hendur félaginu og eigendum ökutækjanna, sem áttu í hlut. Er að þessu gættu hvorki unnt að líta svo á að félagið hafi með gerðum sínum viðurkennt skyldu til að greiða á síðari stigum bætur, ef leitt yrði í ljós meira tjón áfrýjanda en þá var þekkt, né að það hafi gefið áfrýjanda tilefni til að ætla að það gengist við frekari skuldum við hana og lofaði að greiða þær. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 nægði þessi greiðsla bóta því ekki til að slíta fyrningu á kröfunni, sem áfrýjandi gerir nú. Áfrýjandi varð sem áður segir fyrir slysinu 3. apríl 1982. Krafa hennar var því fyrnd samkvæmt 78. gr. laga nr. 40/1968 þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 17. júlí 1995. Samkvæmt því verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Rétt þykir að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Guðbjargar Kristinsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykkjavíkur 12. janúar 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. desember sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 17. júlí 1995, þingfestri 26. október 1995.

Stefnandi er Gubjörg Kristinsdóttir, kt. 180665-4479, Háseylu 18, Njarðvík.

Stefndu eru Davíð Helgason, kt. 020662-3289, Kirkjugerði 12, Vogum, Arnar Daníelsson, kt. 170663-5519, Iðavöllum 1, Grindavík og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Aðallega að stefndu verði dæmdir til þess að greiða stefnanda in solidum 8.581.700 kr. en til vara 1.904.502 kr. með 0,5% ársvöxtum frá 12. júlí 1995 til 26. október 1995 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtlaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið mið af því að stefnandi er eigi virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefndu:

Aðallega er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir

Hinn 3. apríl 1982 hlaut stefnandi fjöláverka í árekstri bifreiðanna Ö-7972 og Ö-6875. Stefnandi var farþegi í bifreiðinni Ö-7972. Stefndu, Davíð og Arnar, voru skráðir eigendur bifreiðanna, sem voru skylduvátryggðar hjá Samvinnutryggingum gt. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hefur tekið við réttindum og skyldum Samvinnutrygginga gt.

Eftir slysið var stefnandi flutt á Borgarspítalann í Reykjavík til rannsóknar og meðferðar. Við slysið hlaut stefnandi einkenni heilaáverka, skurði og mar í andliti og víðar, brotin við- og bringubein, samfallsbrot á efsta lendarlið, margbrotna mjaðmargrind báðum megin og brot á hægra lærlegg. Milta, lifur, þvagleiðari og þvagblaðra rifnuðu. Hægra nýra marðist, æðakerfi þess skemmdist og spjaldhryggur brotnaði. Þá kom fram áverki í hægra hné og skaði á peroneustaug hægra megin. Stefnandi gekkst undir margar aðgerðir vegna slyssins á árinu 1982. Á  árinu 1983 dvaldist stefnandi frá því í ágúst til loka október á Borgarspítalnum þar sem framkvæmdar voru aðgerðir vegna afleiðinga slyssins. Í mars 1984 fór stefnandi aftur í aðgerð. Þann 3. janúar 1985 var allur málmur fjarlægður úr lærlegg og spjaldhrygg stefnanda.

Hinn 19. júní 1985 mat Stefán Bogason læknir örorku stefnanda. Í örorkumati þessu eru áverkar stefnanda taldir svo:

„ 1.Einkenni um heilaáverka.

2.Skurðir og mar í andliti og víðar.

3.Hægra viðbein brotið.

4.Bringubein brotið, án misgengis.

5.Samfallsbrot á efsta lendarlið.

6.Mjaðmagrind margbrotin, einkum lífbein.

7.Los á tengingu lífbeina.

8.Los og gliðnun á tengingu spjaldhryggs við mjaðmagrind báðum megin.

9.Brot á hægri lærlegg.

10.Rifið milta.

11.Rifin lifur.

12.Rifinn þvagleiðari upp við þvagskjóðu hægra nýra.

13.Rifin þvagblaðra. sk 0.

14.Mar á hægra nýra og skemmd á æðakerfi þess.

15.Brot á spjaldhrygg hægra megin.

16. Einkenni frá hægra hné, óskýrt.

17.Skaði á peroneustaug hægra megin.“

Í niðurstöðu örorkumatsins segir svo:

„Slasaða hefur þannig hlotið margvíslega varanlega fötlun, sem mun valda henni verulegum óþægindum bæði í starfi og daglegu lífi. Hún verður alltaf fötluð til gangs og stöðu, úthald verður verulega skert til allra erfiðari starfa. Naumast er hægt að reikna með að hún geti með góðu móti sinnt öðrum störfum en léttum störfum, sem hún getur setið við. Þetta verður enn tilfinnanlegra fyrir hana þar sem hún hefur enga sérmenntun og hefur aldrei unnið annað en erfiðisvinnu. Vafalaust þarf hún að afla sér einhverrar sérmenntunar til þess að geta fundið sér störf við hæfi. Ekki er að vænta neins frekari bata og því tímabært að meta tímabundna og varanlega örorku og telst hún hæfilega metin sem hér segir:

Frá slysdegi í 24 mánuði örorka

100%

eftir það í 12 mánuði örorka

75%

varanleg örorka

50% (fimmtíu prósent).“

Með hliðsjón af þessu mati reiknaði Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur tekjutap stefnanda 27. júní 1985. Hinn 19. júlí 1985 móttók þáverandi lögmaður stefnanda 1.727.285 kr. sem lokauppgjör fyrir allt tjón sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi 3. apríl 1982. Örorkubætur, miskabætur, vexti, útlagðan kostnað, þóknun lögmanns o.fl. Áður hafði verið greitt upp í tjónið 590.000 kr.

Hinn 4. desember 1990 lenti stefnandi að nýju í umferðarslysi. Vegna þess slyss var stefnanda metin 5% varanleg örorka.

Að sögn stefnanda hafa á seinni árum, aðallega á árunum 1994 og 1995, líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins orðið meiri en gert var ráð fyrir í örorkumati Stefáns Bogasonar.

Hinn 12. júlí 1995 skilaði Sigurjón Sigurðsson læknir álitsgerð varðandi áverka stefnandi þar sem hann telur áverka stefnanda leiða til a.m.k. 60% örorku. Hinn 29. maí 1997 skilaði Sigurjón Sigurðsson læknir örorkumati vegna slyss stefnanda, sem mál þetta er af risið, svo og örorkumati vegna slyss, sem stefnandi varð fyrir 4. desember 1990. Í örorkumati þessu eru talin upp eftirfarandi atriði sem stefnandi hefur einkenni frá og urðu fyrir áverka í slysinu sem málið er af risið, eins og segir í örorkumatinu:

Einkenni um heilaáverka.

Skurðir og mar í andliti.

Hægra viðbeinsbrot.

Bringubeinsbrot.

Samfallsbrot á efsta lendarlið.

Mjaðmargrindarbrot, einkum lífbein og eftir það hefur stefnandi ekki getað fætt börn sjálf.

Gliðnun á tengingu lífbeina, þ.e.a.s. (syndemosu ruptura).

Los og gliðnun á tenginu spjaldhryggs við mjaðmargrind beggja megin.

Brot á hægra lærbeini

Rifið milta (sem leiddi til þess að það var tekið).

Rifin lifur.

Rifinn þvagleiðari upp við þvagskjóðu hægra megin.

Rifin þvagblaðra.

Brot á spjaldhrygg hægra megin.

Einkenni frá hægra hné.

Skaði á peroneus taug hægra megin.”

Í örorkumati þessu segir síðan að eftir samtal við konuna komi í ljós hvað varðar líðan hennar núna þá sé liður 1, einkenni um heilaáverka að hennar áliti óbreytt ástand frá því að síðasta örorkumat var framkvæmt.

Ástand á mari á augnloki sé óbreytt.

Stefnandi segi að svæðið í kringum hægra viðbeinið þar sem brotið átti sér stað sé alltaf mjög aumt og viðkvæmt. Ef hún liggi á hægri hlið þá finni hún fyrir sársauka eða þreytuverk í kringum brotsvæðið.

Stefnandi segist alltaf fá stingi við vissar hreyfingar og einnig við það að lyfta hlutum eða ýta með höndum fyrir framan sig eins og t.d. að ýta upp hurð.

Vegna samfallsbrots á efsta lendarlið hafi hún alltaf einhvern seyðing í kringum það svæði og ef hún bograr eða gengur eitthvað þá finni hún fyrir sársauka þar í kring.

Vegna afleiðinga mjaðmargrindarbrots, einkum lífbeins, hafi stefnanda verið ráðlagt að fæða ekki börn sjálf og þess vegna þurfi hún á keisaraskurði að halda ef hún verði ófrísk. Ef hún gengur eða stendur eitthvað að ráði fái hún aukna verki í alla mjaðmargrindina og upp í mjóbakið og niður í hægra mjaðmarsvæði. Vegna þessara einkenna eigi hún erfitt með að bogra og þegar hún beygir sig fram á við eigi hún það til að festast og erfitt sé að rétta sig upp aftur.

Liðir 7 og 8 koma inn í þessi einkenni, þ.e.a.s. gliðnun á tengingu lífbeina og los og gliðnun á tengingu spjaldhryggs við mjaðmargrind beggja megin.

Síðastliðin ár hafi líðan stefnanda farið mjög versnandi vegna brots á hægra lærbeini og komið hafi í ljós að þar hefur orðið ákveðinn beinvöxtur upp úr throcanter major vegna afleiðinga teinsins sem rekinn var inn í mergholið til að stabilisera brotið á meðan það var að gróa. Beinvöxtur þessi hafi verið fjarlægður með tveimur aðgerðum en þrátt fyrir það hafi stefnandi töluverða verki og eigi í erfiðleikum með að liggja á hægri hliðinni.

Liður 10. Milta hafi verið tekið en samkvæmt milta- og lifrarskanni sem tekið var 3. júlí 1995 sjáist að fáar miltisfrumur séu enn virkar. Rifin lifur, lifrarskann 3. júlí 1995, sýndi eðlilega upptöku í lifur.

Rifinn þvagleiðari upp við þvagskjóðu hægra megin hafi leitt til þess að hægra nýra sé nú ræfilslegt og hafi minnkað mikið þannig að ástand stefnanda sé nú þannig að hún sé næstum því með eitt starfandi nýra.

Rifin þvagblaðra hafi haft í för með sér að þvagblaðran hafi minnkað og vegna þessa þurfi stefnandi oft að hafa þvaglát og vakni hún að meðaltali þrisvar sinnum á nóttu vegna þvagláta.

Einkenni vegna brots á spjaldhrygg hægra megin komi inn í einkenni stefnanda frá mjaðmargrind sem lýst er að framan.

Í slysinu 3. apríl 1982 hafi stefnandi hlotið áverka á hægra hné sem leiddi til þess að gerð var aðgerð á hnénu 1985. Á seinni árum hafi stefnandi farið að finna fyrir vaxandi þreytu og verkjum í hnénu við álag og greinilega komin einkenni um slitgigt.

Vegna skaðans á nervus perenous sé stefnandi stöðugt með dofatilfinningu og skertan kraft í hægra fæti sem hafi verið óbreytt lengi og hái henni við allar stöður og gang.

Í örorkumatinu segir að vegna allra þessara einkenna eigi stefnandi erfitt með öll störf. Hún hafi ekkert úthald eða getu til neinna starfa. Stefnandi geti varla staðið og hugsað um heimilið, hún geti alls ekki bograð eða staðið þannig að neinum störfum. Sýnt sé því að stefnandi hafi orðið fyrir mikilli varanlegri örorku vegna afleiðinga umferðarslysanna beggja og töluvert meiri en þegar hún hafi áður verið metin.

Læknirinn telur rétt að meta þá varanlegu örorku sem stefnandi hafi hlotið af völdum þessara tveggja slysa og metur hana 75%, þar af 15% eftir seinna slysið 4. des. 1990.

Undir rekstri málsins var leitað umsagnar læknaráðs um eftirfarandi atriði:

1. Fellst læknaráð á örorkumat Stefáns Bogasonar læknis skv. matsgerð hans, dags. 19. júní 1985, um örorku stefnanda vegna bílslyss hennar 3. apríl 1982?

2. Fellst læknaráð á örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar læknis, skv. matsgerð hans, dags. 29. maí 1997, um læknisfræðilega örorku stefnanda vegna sama bílslyss.

3. Ef ekki hverja telur læknaráð nú vera tímabundna og varanlega örorku stefnanda af völdum bílslyssins 3. apríl 1982 eingöngu?

Læknaráð taldi varanlega örorku stefnanda í matsgerð Stefáns Bogasonar læknis frá 19. júní 1985 hafa verið vanmetna og féllst á niðurstöðu Sigurjóns Sigurðssonar læknis um 60% varanlega örorku stefnanda vegna slyssins sem mál þetta er af risið.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki fengið fullar bætur fyrir tjón sitt af völdum framangreinds slyss. Séu því brostnar forsendur fyrir bótauppgjörinu 19. júlí 1985. Ekki hafi verið tækt að sannreyna aukið tjón stefnanda fyrr en með álitsgerð Sigurjóns Sigurðssonar frá 12. júlí 1995. Þar af leiðandi hafi ekki verið möguleiki til innheimtu kröfunnar fyrr en þá.

Um bótarétt stefnanda á hendur stefndu, Davíðs og Arnars, er vísað til 1. mgr. 67. gr., 68. gr. og 1. mgr. 69. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 40/1968. Þeir beri óskipta bótaábyrgð á grundvelli þessara ákvæða sem skráðir eigendur bifreiðanna Ö-7972 og Ö-6875, en óumdeilt sé að þær hafi átt alla sök á umræddu slysi.

Bótaréttur stefnanda á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. er byggður á 1. mgr. 70. gr. sömu laga en bifreiðar stefndu, Davíðs og Arnars, hafi verið tryggðar með lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá Samvinnutryggingum gt., er slysið átti sér stað. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi tekið við öllum réttindum og skyldum Samvinnutrygginga gt. Ekki sé ágreiningur um þetta atriði og hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., viðurkennt aðild sína að málinu.

Málinu sé beint að öllum stefndu með heimild í 2. mgr. 74. gr. umferðarlaga nr. 40/1968.

Stefnandi telur að ákvæði 2. mgr. 78. gr. umferðarlaga nr. 49/1968 leiði ekki til þess að krafan sé fyrnd, en samhljóða ákvæði sé að finna í 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þetta ákvæði fjalli efnislega um þann frest sem kröfuhafi hafi til þess að koma með kröfur, þ.á m. skaðabótakröfur. Eftir það gildi svo almennar lagareglur, þ.a. um viðurkenningu kröfunnar, endurupptöku máls og slit fyrningar, sbr. lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Önnur túlkun myndi leiða til mismununar á milli þeirra sem eiga bótarétt samkvæmt umferðarlögum og þeirra sem eiga bótarétt á öðrum grundvelli.

Skaðabótakrafa stefnanda hafi verið viðurkennd með tjónsuppgjöri aðila 19. júlí 1985. Samkvæmt 1. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905, hefjist nýr fyrningarfrestur frá þeim degi er skuldunautur viðurkennir skuld sína við kröfueiganda, annað hvort með berum orðum eða á annan hátt. Um fyrningarfrest skaðabótakrafna almennt fari eftir meginreglu 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 en þar segi að allar aðrar kröfur, sem ekki er settur annar fyrningarfrestur fyrir í 2. og 3. gr. laganna, fyrnist á 10 árum. Samkvæmt þessu myndi skaðabótakrafa stefnanda fyrnast 19. júlí 1995 eða 10 árum eftir að stefndu viðurkenndu skaðabótakröfu stefnanda með tjónsuppgjörinu þann 19. júlí 1985. Samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 11. gr. fyrningalaga teljist málssókn hafin innan fyrningarfrests, ef stefna er birt innan nefnds tíma.

Stefnandi hafi gert upphaflega skaðabótakröfu á hendur stefndu í lok júní 1985 um leið og henni hafi verið það fært. Á sama hátt krefjist stefnandi nú endurupptöku málsins um leið og fyrir liggi staðfesting sérfróðs læknis á því að örorka hennar af völdum umferðarslyssins sé mun meiri en talið hafi verið í júní 1985. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., áður Samvinnutryggingar gt., hafi frá upphafi vitað um hversu alvarleg meiðsli stefnanda voru. Félögunum hafi mátt vera ljóst að hugsanlegt væri að áverkarnir hefðu endanlega í för með sér að aflahæfi stefnandi skertist um meira en 50% eins og raunin sé. Endurupptökukrafa stefnanda komi þeim því ekki á óvart.

Fyrningarákvæði umferðarlaga sé sett til þess að kröfuhafi dragi ekki óhóflega að setja fram kröfu sína eftir að hann hafi fengið vitnskju um hana. Kröfuhafa séu settar þessar skorður til að tjónvaldur eða vátryggingafélag hans viti um tjónið sem fyrst og geti gert nauðsynlegar ráðstafanir til að áætla það og  halda fjármunum eftir til greiðslu þess. Reglan sé ekki sett til þess að þessir aðilar geti skotið sér á bak við hana ef áhrif alvarlegra meiðsla vegna umferðaslyss komi seint fram og ekki öll í einu.

Við ákvörðun bótafjáhæðar beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón enda hafi óhappið gerst fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 28. gr. laganna.

Þessar reglur séu skýrar og byggðar á áralangri dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og uppgjörum vátryggingafélaganna, byggðum á þeirri dómvenju. Dómstólar hafi jafnan byggt á örorkumati sérfróðs læknis sem metið hafi líklegar afleiðingar tiltekins áverka á framtíðarhæfi þess slasaða.

Stefnandi hafi fengið bætt tímabundið tekjutap og hluta tjóns síns vegna varanlegrar örorku með greiðslum frá Samvinnutryggingum gt., sbr. yfirlit félagsins, dags. 19. júlí 1985. Miðist það uppgjör við 50% varanlega örorku stefnanda. Ástand stefnanda eftir slysið sé hins vegar til muna verra en nefnt uppgjör hafi miðast við.  Sigurjón Sigurðsson læknir hafi metið örorku stefnanda vegna slyssins, sbr. örorkumat hans, dags. 29. maí 1997. Meti hann varanlega örorku vegna slyss stefnanda, 3. apríl 1982, 60%. Sé því ljóst að stefnandi hafi ekki fengið tjón sitt að fulllu bætt og varði það stefnanda miklu að fá nú sótt mismun þeirrar greiðslu sem hún eigi rétt til og greiðslu samkvæmt áðurnefndu uppgjöri frá árinu 1985.

Varðandi kröfu um endurupptöku málsins er sérstaklega á því byggt að mikilvæg forsenda tjónsútreiknings sem byggt var á í fyrra uppgjöri um 6% framtíðarávöxtun hafi brugðist. Hafi Hæstiréttur enda staðfest í dómum að miða skuli við 4,5% framtíðarávöxtun við útreikning skaðabóta vegna varanlegrar örorku.

Aðalkrafa stefnanda:

Stefnandi fékk greiddar 920.300 kr. þann 19. júlí 1985 frá Samvinnutryggingum gt. vegna varanlegrar örorku sinnar. Með því hafi tjón stefnanda ekki verið að fullu bætt. Stefnandi byggir á því að hún hafi í slysinu hlotið 60% varanlega örorku, sbr. örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar, dags. 29. maí 1997. Tjónsútreikningur er miðaður við það. Frá niðurstöðunni dragist greiðslur frá Samvinnutryggingum gt. og Tryggingastofnun ríkisins. Gengið sé út frá því að tjón vegna tímabundinnar örorku stefnanda hafi verið gert upp að fullu.

Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur hafi reiknað út tekjutap stefnanda vegna varanlegrar örorku með hliðsjón af 60% varanlegri örorku. Samkvæmt því sundurliðist krafa stefnanda svo:

1.Varanleg örorka 60%

10.496.500 kr.

2.20% frádráttur vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis

-   2.099.300 kr.

8.397.200 kr.

3.Miskabætur

800.000 kr.

4.Töpuð lífeyrisréttindi

629.800 kr.

5.Frádráttur vegna þegar greiddrar varanlegrar örorku

-    920.300 kr.

6.Frádráttur vegna þegar greiddra miskabóta

-    325.000 kr.

Samtals

8.581.700 kr.

Um forsendur fyrir 1. tölulið er vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dags. 18. sept. 1997. Niðurstaða hans sé byggð á hefðbundnum forsendum, þ.á m. um 4,5% framtíðarávöxtun. Um aðrar forsendur útreikningsins vísast til útreikningsins.

Frádráttur samkvæmt 2. tölulið sé vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Sé hann byggður á fordæmum Hæstaréttar Íslands.

Miskabótakrafa samkvæmt 3. tölulið sé síst of há enda hafi afleiðingar slyssins umturnað lífi stefnanda. Í dag beri stefnandi enn miklar menjar slyssins. Hún hafi enn mikla verki á áverkastöðum og fái stingi við einfaldar hreyfinar, svo sem við að ýta upp hurð. Vegna mjaðmargrindarbrots sé hún ófær um að fæða börn sjálf og muni þurfa á keisaraskurði að halda verði hún vanfær. Þá eigi hún erfitt  með að bogra og beygja sig. Þvagblaðra stefnanda hafi einnig minnkað mikið og þurfi stefnandi því oft að hafa þvaglát. Þannig vakni stefnandi að meðaltali um þrisvar á nóttu í þeim tilgangi. Stefnandi finni til verkja og þreytu í hné og sé greinilega komin með einkenni slitgigtar. Sé ljóst að stefnandi verði ætíð fötluð til gangs. Einnig hafi stefnandi stöðuga dofatilfinningu og skertan kraft í  hægra fæti og hái það stefnanda verulega við gang og allar stöður. Stefnandi hafi verki í hnakka eftir svipuólaráverka vegna slyssins og hafi einnig af þeim sökum dofa fram í fingur hægri handar. Afleiðingar  heilaáverkans hafi valdið því að stefnandi hafi flosnað upp frá námi sökum einbeitingarskorts og minnisleysis. Vegna þessa eigi stefnandi erfitt með öll störf, auk þess sem einkennin hafi skert til mikilla muna getu stefnanda til iðkunar hugrænna jafnt sem líkamlegra tómstundastarfa. Þá geti stefnandi ekki hugsað um heimili sitt. Sé því ljóst að stefnandi hafi við slysið hlotið mikinn miska sem ekki verði ofbættur með þeirri fjárhæð sem krafist er. Krafan sé byggð á dómvenju í íslenskum skaðbótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Varðandi kröfu vegna tapaðara lífeyrisréttinda er vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar en samkvæmt honum sé verðmæti tapaðra lífeyrisrettinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku. Stefnandi hafi engar bætur fengið vegna tapaðra lífeyrisréttinda svo sem dómvenja hafi verið um og sé enn. 

Stefnandi hafi fengið greiddar nánar greindar bætur vegna varanlegrar örorku eins og fram komi í yfirliti frá Samvinnutryggingum gt. Komi sú fjárhæð að fullu til frádráttar kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku.

Stefnandi hafi þegar fengið greiddar tilgreindar bætur fyrir miska. Komi sú fjárhæð að fullu til frádráttar kröfu stefnanda um bætur fyrir miska.

Vaxtakrafa stefnanda er byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er studd með vísan til 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Varakrafa stefnanda:

Um varakröfu er vísað til þess sem að framan greinir um bótaskyldu og bótafjárhæð að öðru leyti en því sem hér er greint. Varakrafan er við það miðuð að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að tjón vegna 50% örorku stefnanda hafi að fullu verið bætt með áðurnefndri lokagreiðslu Samvinnutrygginga gt. til stefnanda þann 19. júlí 1985 og að stefnandi eigi þar af leiðandi einungis rétt til bóta vegna 10% viðbótarörorku sem enn hafi ekki fengist bætt. Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur hafi reiknað út tekjutap stefnanda vegna varanlegrar örorku þar sem miðað er við að stefnandi eigi kröfu vegna 10% viðbótarörorku, sem ekki hafi verið höfð hliðsjón af er bætur voru gerðar upp árið 1985. Samkvæmt  því sundurliðast krafa stefnanda þannig:

1.Bætur vegna 10% varanlegrar (viðbótar)örorku

1.749.400 kr.

2.20% frádráttur af tölulið 1 vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis

-    349.880 kr.

1.399.520 kr.

3.Töpuð lífeyrisréttindi (6% af upphæðinni í lið 1)

105.000 kr.

4.(Viðbótar)miskabætur

400.000 kr.

Samtals 1.904.520 kr.

Um forsendur fyrir 1. tölulið er vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dags. 18. sept. 1997. Hann byggi niðurstöðu sína á hefðbundnum forsendum.

Frádráttur samkvæmt 2. tölulið sé vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis, byggður á fordæmum Hæstaréttar Íslands.

Krafa samkvæmt 3. tölulið sé samkvæmt hefðbundnum útreikningi tapaðra lífeyrisréttinda þar sem verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins sé áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku.

Krafa samkvæmt 4. tölulið sé krafa um viðbótarmiskabætur vegna mismunar þess ástands sem bótauppgjörið árið 1985 hafi miðast við og ástands stefnanda nú. Sé miskabótakrafan síst of há í ljósi þess  hvernig afleiðingar slyssins hafi umturnað lífi stefnanda. Krafan sé byggð á dómvenju í íslenskum skaðbótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Málsástæður og rökstuðningur stefndu

Sýknukrafa stefndu er í fyrsta lagi á því byggð að með þegar uppgerðum bótum sé allt tjón stefnanda af völdum bílslyssins þann 3. apríl 1982 að fullu bætt og ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir frekara tjóni.

Í annan stað er sýknukrafan á því byggð að stefnandi sé bundin við samningsuppgjörið og fullnaðarkvittun lögmanns síns frá 19. júlí 1985 um endanlegt uppgjör á tjóninu og afsal á öllum frekari kröfum á hendur stefndu. Sé ósannað að veruleg forsenda fyrir uppgjörinu 19. júlí 1985 hafi brostið en það sé frumskilyrði viðbótarbóta.

Í þriðja lagi er sýknukrafan á því byggð að stefnukröfurnar séu fyrndar skv. 78. gr. umferðarlaga nr. 40/1968 og 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þessu til stuðnings benda stefndu á eftirfarandi:

Örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar læknis, dags. 29. maí 1997, sanni ekki að stefnandi hafi hlotið aukna varanlega örorku af völdum bílslyssins 3. apríl 1982 frá því sem var þegar Stefán Bogason læknir mat örorkuna 19. júní 1985 eða að varanleg örorka stefnanda hafi í verulegum atriðum orðið önnur og meiri en þá mátti reikna með. Ekki hafi komið fram neinar nýjar heilsufarslegar afleiðingar slyssins en stefnandi sé hins vegar búin að lenda í öðru bílslysi þar sem hún fékk hálsáverka og afleiðingar þess hafi Sigurjón Sigurðsson læknir metið til 15% varanlegrar örorku. Verði að andmæla því áliti Sigurjóns sem röngu að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins 3. apríl 1982 hafi nú aukist úr 50% upp í 60%. Í öllu falli sé ekki um svo verulega aukningu að ræða að forsendur hafi brostið fyrir hinu fyrirvaralausa bótauppgjöri 19. júlí 1985.

Í annan stað sé stefnandi bundinn við samning og fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör löglærðs umboðsmanns síns á skaðabótum fyrir slysið og afsali á öllum kröfum til frekari skaðabóta þar sem ekki liggi fyrir að stefnandi hafi í verulegum atriðum hlotið aðrar og meiri heilsufarslegar afleiðingar af slysinu en búast hafi mátt við þegar samningur var gerður. Gildi einu þó örorkumat Sigurjóns væri lagt til grundvallar þar sem breyting úr 50% í 60% geti aldrei talist veruleg þegar um jafn matskennda hluti sé að ræða og mat eða mælingu á varanlegri örorku. Þar sem um fjöláverka var að ræða, og búast hafi mátt við einhverri versnun, hafi verið tilefni til þess af hálfu stefnanda að gera fyrirvara við uppgjörið, ef hafa ætti uppi frekari kröfur síðar. Að öllu þessu virtu sé enginn grundvöllur til að telja slíkar forsendur brostnar fyrir bótasamkomulagi aðila að stefnandi geti nú krafið um frekari bætur.

Í þriðja lagi sé á það að líta að meira en tíu ár séu liðin frá því að stefnandi slasaðist þann 3. apríl 1982 og þar til stefnan í þessu máli var birt 17. júlí 1995. Sé um rúm 13 ár að ræða. Stefnukröfur séu því bersýnilega fyrndar eftir 10 ára fyrningarreglu 78 gr. umferðarlaga nr. 46/1968 og 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 10 ára fyrningarregla umferðarlaga sé samsvarandi 10 ára fyrningarreglunni í 29. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954. Sé um að ræða sérreglur sem gangi framar hinum almennu fyrningarreglum í lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Fyrnist allar bótakröfur samkvæmt fébótareglum umferðarlaga í síðasta lagi á 10 árum frá því að tjónsatburður varð, sbr. 78. og 99. gr. umferðarlaga. Sú regla sé án undantekninga og óháð því hvenær kröfuhafi á þess kost að hafa uppi kröfu sína eða hvort og hvenær bótaskylda hefur verið viðurkennd. Teljist upphaf fyrningarfrests hér ávallt frá tjónsatburði og engu öðru tímamarki, heldur ekki þeim tíma sem krafa var viðurkennd eins og stefnandi haldi fram. Loks hafi stefndi aldrei viðurkennt aðrar eða frekari kröfur stefnanda en stefndi bætti með fullnaðaruppgjörinu 19. júlí 1985.

Af framangreindu telja stefndu ljóst að sýkna beri þá af öllum kröfum stefnanda.

Varakrafa stefndu er á því byggð að stórlækka beri stefnukröfur og raunar hafna aðalkröfu stefnanda með öllu. Tjón og miski stefnanda vegna 50% varanlegrar örorku af völdum slyssins sé að fullu bætt með tjónsuppgjörinu 19. júlí 1985 og sé stefnandi bundinn af uppgjörinu á því tjóni hvað sem öðru líður. Stefndu hafi aldrei viðurkennt annað og meira af kröfu stefnanda en þegar hafi verið bætt. Beri því alfarið að sýkna stefndu af aðalkröfu stefnanda. Aðalkrafa sé augljóslega röng og haldlaus og beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar. Krafan sé sett fram eins og tjón vegna 50% örorkunnar sé óbætt og bæturnar fyrir það tjón séu aðeins innborgun upp í tjón vegna 60% varanlegrar örorku.

Varakröfu stefnanda á grundvelli 10% varanlegrar viðbótarörorku beri að lækka sem svari of háu örorkumati og síðan beri að virða til lækkunar hagræði af skattfrelsi og eingreiðslu bótanna. Sömuleiðis beri að virða til lækkunar að miski sé innifalinn í örorkumötum lækna. Þá beri að miða við sömu viðmiðunartekjur og notaðar voru við uppgjörið enda hafi enginn fyrirvari verið gerður um annan tekjugrundvöll. Kröfu um viðbótarmiskabætur að fjárhæð 400.000 kr. er sérstaklega andmælt sem allt of hárri og í ósamræmi við dómvenju. Væru 100.000 kr. nær lagi ef eitthvað teldist óbætt.

Upphafstíma  dráttarvaxta er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og kröfu stefnanda um málskostnað er alfarið hafnað með vísan til 131. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Þegar til þess er litið sem fram kemur í örorkumati Stefáns Bogasonar læknis frá 19. júní 1985, um afleiðingar slyss stefnanda 3. apríl 1982, telja hinir sérfróðu meðdómendur að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins hafi þar verið vanmetin og fallast þeir á niðurstöðu Sigurjóns Sigurðssonar læknis og álit læknaráðs og telja að stefnandi hafi hlotið a. m. k. 60% varanlega örorku vegna afleiðinga slyssins.

Þegar skoðuð er lýsing á áverkum stefnanda í framangreindu örorkumati Stefáns Bogasonar læknis og lýsing á ástandi stefnanda í örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis frá 20. maí 1997 verður ekki séð að eftir 1985 hafi orðið verulegar breytingar á heilsufari stefnanda sem ekki voru eða máttu vera fyrirsjáanlegar þegar örorkumat Stefáns Bogasonar læknis lá fyrir. Er því ósannað að vegna slyssins 3. apríl 1982 hafi stefnandi hlotið heilsubrest, sem hafi í verulegum atriðum verið annar og meiri en gera mátti ráð fyrir þegar lögmaður stefnanda gaf fullnaðarkvittun fyrir þeim skaðabótum sem greiddar voru 19. júlí 1985.

Meiðsl stefnanda voru þess eðlis að fullt tilefni var til þess að gera fyrirvara við uppgjörið. Það var ekki gert.

Stefnandi byggir bótarétt sinn gagnvart stefndu á 1. mgr. 67. gr., 68. gr., 1. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 70. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 40/1968. Samkvæmt lokamálslið 78. gr. sömu laga, sem eiga  við í lögskiptum aðila, fyrnast allar kröfur  á hendur hinum bótaskyldu og vátryggingafélagi í síðasta lagi 10 árum frá því að tjónsatburður varð. Regla þessi er samsvarandi 10 ára fyrningarreglu 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Fyrningarreglur 78. gr. laga nr. 40/1968 og 99. gr. núgildandi umferðarlaga nr. 50/1987, svo og 29. gr. laga nr. 20/1954, eru sérreglur, sem á gildissviði sínu víkja til hliðar ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Þegar mál þetta var höfðað 17. júlí 1995 voru liðin rúm 13 ár frá slysinu og tæp 10 ár frá því að lögmaður stefnanda gaf fyrirvaralausa kvittun fyrir fullnaðarbótum. Með vísan til fortakslauss ákvæðis 78. gr. laga  nr. 40/1968 verður ekki fallist á þær röksemdir stefnanda að nýr fyrningarfrestur hafi hafist þegar lögmaður stefnanda tók við fyrirvaralausu uppgjöri frá Samvinnutryggingum gt. hinn 19. júlí 1985. Krafa stefnanda á hendur stefndu féll niður fyrir fyrningu ekki síðar en 10 árum frá því að tjónsatburðurinn varð, þ.e. 3. apríl 1992. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Dóminn kveða upp Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari, dr. Ásgeir Ellertsson læknir og Júlíus Valsson læknir.

Dómsorð:

Stefndu, Davíð Helgason, Arnar Daníelsson og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðbjargar Kristinsdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Auður Þorbergsdóttir